Ferill 853. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1792  —  853. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Fjölmenningarseturs.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Fjölmenningarsetur?
    Því er til að svara að Fjölmenningarsetur sinnir verkefnum sem talin eru upp í 2. gr. laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, en þar segir að setrið skuli:
     a.      veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda,
     b.      vera sveitarfélögum til ráðgjafar við að taka á móti innflytjendum sem flytjast í sveitarfélagið,
     c.      taka saman og miðla upplýsingum um réttindi og skyldur innflytjenda,
     d.      fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, meðal annars með upplýsingaöflun, greiningu og upplýsingamiðlun,
     e.      koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna,
     f.      taka saman árlega skýrslu til ráðherra um málefni innflytjenda,
     g.      hafa eftirlit með framgangi verkefna sem fram koma í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, sbr. 7. gr.,
     h.      vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og einnig samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Fjölmenningarseturs og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárlög gera ráð fyrir 39,5 millj. kr. til reksturs Fjölmenningarseturs á þessu ári. Fjárheimildin er ætluð í verkefni setursins og er ekki sundurliðuð sérstaklega.