Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1859  —  446. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (stofnanir á málefnasviði heilbrigðisráðherra).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hlutinn telur mikilvægt að koma á framfæri athugasemdum við vinnubrögð við vinnslu frumvarpsins sem og vinnu meiri hlutans á umræddu frumvarpi.
    Við vinnslu frumvarpsins er, líkt og fram kemur í lögskýringargögnum, tekið mið af nýjum lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2018. Með lögunum var lögfest hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga, eins og hún hefur verið aðlöguð að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (Regulation (EU) 2016/679 of the European Parliament and of the Council on the protection of natural persons with regard to the processing of personal data and on the free movement of such data, and repealing Directive 95/46/EC). Reglugerðin kom til framkvæmda innan Evrópusambandsins 25. maí 2018 og leysti af hólmi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 95/46/EB frá 24. október 1995, um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það hafi að meginefni verið samið í tengslum við vinnu dómsmálaráðuneytis við frumvarp sem varð að lögum um persónuvernd, en þá hafi verið settur á fót samráðshópur allra ráðuneyta sem hefði haft það hlutverk að fara yfir ákvæði sérlaga sem varða vinnslu persónuupplýsinga í samvinnu við stofnanir sem starfa á grundvelli hlutaðeigandi laga í því skyni að meta hvaða breytingar kynnu að vera nauðsynlegar vegna nýju persónuverndarreglnanna. Minni hlutinn minnir á að við afgreiðslu laga nr. 90/2018 var helst gagnrýnt hversu seint frumvarpið kom til Alþingis þrátt fyrir langan vinnslutíma, þannig að lítill tími gafst á þinginu til faglegrar vinnu jafn viðamikils máls. Sama er því miður uppi á teningnum hvað varðar þetta frumvarp sem nú er til afgreiðslu og varðar persónuvernd hjá stofnunum á málefnasviði heilbrigðisráðherra. Öllum er ljós nauðsyn frumvarps þess sem nú er til afgreiðslu enda stofnanir á málefnasviði heilbrigðisráðherra þær stofnanir sem hvað helst fást við viðkvæmar persónuupplýsingar sem ótvírætt njóta verndar laga um persónuvernd. Því er mikilvægt að njóta samráðs þeirrar stofnunar sem sérhæfir sig í persónuvernd.
    Við vinnslu í velferðarnefnd var kallað eftir umsögn Persónuverndar. Fyrir nefndinni kom fram að ekkert samráð hefði verið haft við stofnunina við gerð frumvarpsins né hefði farið fram mat á persónuverndaráhrifum þess eins og lögbundið er í V. kafla laga um persónuvernd. Minni hlutinn bendir á að frumvarpið er ekki eina frumvarp ráðherra ríkisstjórnarinnar sem svo er ástatt um, enda virðist það vera regla frekar en undantekning að ráðherrar láti undir höfuð leggjast við smíði frumvarpa að bera þau undir Persónuvernd vegna ákvæða er varða viðkvæmar persónuupplýsingar. Beinir minni hlutinn því til ríkisstjórnarinnar að gera bragarbót á þessu, fjölga persónuverndarfulltrúum og tryggja að við gerð frumvarpa ríkisstjórnarinnar fari ávallt fram mat á áhrifum á persónuvernd einstaklinga áður en frumvörp eru lögð fram á Alþingi.

Vinnsla í nefndinni.
    Mælt var fyrir frumvarpinu í lok janúar sl. og það því næst sent til umsagnar. Við lok umsagnarfrests undir miðjan marsmánuð hafði brostið á heimsfaraldur kórónuveiru sem breytti mjög hefðbundnum störfum Alþingis, hvort tveggja er varðaði almenn þingstörf sem og störf fastanefnda Alþingis. Almenn mál í nefndum voru sett til hliðar en mál sem tengdust viðbrögðum við heimsfaraldri kórónuveiru fengu forgang og skyldu engin önnur mál unnin í fastanefndum. Sækja þurfti sérstaka heimild hjá forseta Alþingis til fundarhalda í fastanefnd, þar á meðal velferðarnefnd, og fengust slík leyfi ef fundur var vegna þingmáls sem varðaði viðbrögð við faraldrinum. Velferðarnefnd fékk, vegna málefnasviðs síns, drjúgan hluta þeirra mála er varða heimsfaraldur kórónuveiru til umfjöllunar og fékk leyfi til funda vegna þeirra. Á meðan á þessu stóð, í nærri þrjá mánuði, voru önnur mál lögð til hliðar.
    Eðli málsins samkvæmt tókst ekki að vinna frumvarp um persónuvernd er varðar stofnanir á málefnasviði heilbrigðisráðherra eins og best hefði verið á kosið á þessum tíma, hvorki með gestakomum né í samtali innan nefndar. Urðu það því nokkur vonbrigði þegar meiri hlutinn kaus að afgreiða svo mikilvægt frumvarp án þess að það væri fyllilega unnið, á því unnar fullnægjandi lagfæringar eða umræða orðin nægilega þroskuð.
    Í umfjöllun nefndarinnar gerðu fulltrúar minni hlutans tilraun til að vekja athygli meiri hlutans á umsögn embættis landlæknis sem var skýr hvað það varðaði að lagastoð skorti fyrir vinnslu og miðlun upplýsinga, m.a. vinnslu sóttvarnalæknis á viðkvæmum persónuupplýsingum. Þá kom fram að lagastoð skorti fyrir embætti landlæknis hvað varðar m.a. uppbyggingu og rekstur miðlægra hugbúnaðarlausna, svo sem Heklu – heilbrigðisnets, Heilsuveru, samtengdra sjúkraskráa og sjúkrakerfisins. Benti minni hlutinn á að reglugerðarheimild til handa ráðherra hefði ekki nægilega skýra lagastoð, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um persónuvernd sem fyrirskipar skýr lagaboð ef vinna á með viðkvæmar persónuupplýsingar einstaklinga. Eftir því sem vinnsla hefur í för með sér meiri íhlutun, þeim mun ótvíræðara verður slíkt lagaákvæði að vera. Reglugerðarheimild uppfyllir ekki slíka skyldu til lagasetningar og því miður þá hafa breytingartillögur meiri hlutans engu breytt í þeim efnum.
    Minni hlutinn telur mikilvægt að gætt sé að fagmennsku í hvívetna þegar hlutast er til um mikilvæga hagsmuni almennings. Persónuupplýsingar eru mikilvægir hagsmunir og því getur minni hlutinn ekki stutt nefndarálit meiri hlutans eða breytingartillögur hans, þrátt fyrir mikilvægi frumvarpsins, væri það fullbúið. Þar sem enginn tími hefur gefist til undirbúnings breytingartillögu af hálfu minni hlutans nú á lokadögum vorþings fylgja þær ekki nefndaráliti þessu. Hvetur minni hlutinn heilbrigðisráðherra til að hefja strax vinnu við lagfæringar á þeim lögum sem frumvarpið varðar með tilliti til laga um persónuvernd og hafa við það fullt samráð við Persónuvernd. Slíkt samráð leiðir til vandaðri lagasetningar og aukins réttaröryggis borgara.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 25. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir,
Halldóra Mogensen.
Guðmundur Ingi Kristinsson.