Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1928  —  23. mál.
2. umræða.



Frávísunartillaga


í málinu: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (varsla).

Frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, þess efnis að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott. Mikilvægt er að unnið sé að því að neysla fíkniefna og varsla skammta til eigin neyslu verði ekki refsiverð og að fremur sé lögð áhersla á stuðning en refsingar og fleiri einstaklingum þannig komið til hjálpar en ella. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram mikilvægar ábendingar sem ástæða er til að taka tillit til enda mikilvægt að unnið verði áfram með málið.
    Þar sem fram hefur komið að:
     a.      hvorki var haft samráð við lögreglu né heilbrigðisyfirvöld við gerð frumvarpsins, jafnvel þótt þetta séu þeir aðilar sem muni vinna mest að þessu málefni,
     b.      málið fékk ekki nægjanlega vinnslu í nefndinni og var tekið hálfklárað út úr henni í stað þess að finna þann farveg sem skilar markmiði frumvarpsins í sátt,
     c.      þörf er á frekari skilgreiningu á neysluskömmtum,
     d.      mikilvægt er að reynsla fáist á úrræði eins og neyslurými áður en frumvarpið verður afgreitt og
     e.      mikilvægt er að skoða betur hvernig verði tekið á upptöku skammta og á neyslu og vörslu barna á fíkniefnum er lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem feli heilbrigðisráðherra, í samvinnu við dómsmálaráðherra, að semja skýrslu um málið sem lögð verði fyrir Alþingi og eftir atvikum leggja fram tillögur eða frumvarp þar sem tekið verði á þeim álitaefnum sem að framan eru rakin og byggt á þeirri reynslu sem rekstur neyslurýma skilar.