Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1955, 150. löggjafarþing 843. mál: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (mótframlagslán).
Lög nr. 83 9. júlí 2020.

Lög um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997 (mótframlagslán).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt að semja við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins um framkvæmd mótframlagslána til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, gegn framlagi fjárfesta til viðkomandi fyrirtækja, sem veitt verða til rekstrarfjármögnunar á árinu 2020. Í slíkum samningi skal m.a. kveðið á um skilyrði, kjör, afgreiðslu og meðferð mótframlagslána.
     Ráðherra skipar nefnd sem skal taka ákvarðanir um hvort skilyrði fyrir veitingu mótframlagslána frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins séu uppfyllt og um veitingu þeirra, sbr. 1. mgr. Ákvæði 5. gr. um hlutverk, ákvarðanatöku og ábyrgð stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skulu því ekki gilda um þær ákvarðanir. Ráðherra sem fer með ríkisfjármál tilnefnir einn nefndarmann og stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins einn en einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. júní 2020.