Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1956, 150. löggjafarþing 718. mál: loftslagsmál (skuldbindingar og losunarheimildir).
Lög nr. 98 8. júlí 2020.

Lög um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (skuldbindingar og losunarheimildir).


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir gildissvið laga þessara skulu flugrekendur vakta og skila skýrslu um losun frá flugstarfsemi samkvæmt kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, sbr. VII. kafla A, vegna losunar sem fellur ekki undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir skv. V. kafla um losun gróðurhúsalofttegunda frá flugstarfsemi.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:
  1. Binding kolefnis úr andrúmslofti: Það að fjarlægja frumefnið kolefni úr andrúmslofti með tilteknum aðgerðum.
  2. Flugrekandi: Aðili sem rekur loftfar og notar það til að stunda flugstarfsemi sem tilgreind er í II. viðauka eða, ef aðilinn er óþekktur eða ekki tilgreindur af eiganda loftfars, eigandi loftfarsins.
  3. Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum: Það að dæla niður og geyma koldíoxíð neðanjarðar í jarðlögum.
  4. Gróðurhúsalofttegundir:
    1. Koldíoxíð, CO2.
    2. Metan, CH4.
    3. Díköfnunarefnisoxíð, N2O.
    4. Vetnisflúorkolefni, HFCs.
    5. Perflúorkolefni, PFCs.
    6. Brennisteinshexaflúoríð, SF6.
    7. Köfnunarefnistríflúoríð, NF3.
    8. Aðrir loftkenndir efnisþættir andrúmsloftsins, náttúrulegir og af mannavöldum, sem gleypa innrauða geislun og senda hana frá sér aftur.
  5. Koldíoxíðsígildi: Eitt tonn af koldíoxíðsígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hnatthlýnunarmátt.
  6. Kolefnisjöfnun: Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti.
  7. Kolefnisleki: Það að starfsemi sem losar gróðurhúsalofttegundir flyst frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu vegna áhrifa sem beinn og óbeinn kostnaður viðkomandi rekstraraðila vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir hefur á markaðsaðstæður hans.
  8. Losunarheimild: Heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíðsígildi.
  9. Nettólosun: Losun gróðurhúsalofttegunda að frádreginni bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
  10. Rekstraraðili: Aðili sem hefur starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og stjórnar starfsstöð eða ber fjárhagslega ábyrgð á tæknilegri virkni starfsstöðvar sem fellur undir gildissvið þessara laga, sbr. I. viðauka.
  11. Starfsstöð: Staðbundin tæknileg eining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem getið er í I. viðauka og öll önnur starfsemi sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem fer fram á staðnum.
  12. Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB, með síðari breytingum, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.


3. gr.

     4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Stjórnvöld.
     Ráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Ráðherra ber ábyrgð á gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og áætlunar um aðlögun og lætur reglulega vinna skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga.
     Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald og fer að öðru leyti með framkvæmd laganna hvað varðar viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og losunarbókhald Íslands. Umhverfisstofnun er jafnframt landsstjórnandi skráningarkerfis íslenska ríkisins, sbr. VI. kafla A. Stofnunin skal hafa samráð og samvinnu við önnur stjórnvöld eins og nánar er tilgreint í ákvæðum laga þessara.
     Loftslagsráð veitir stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum og er sjálfstætt og óháð í störfum sínum.
     Stjórn loftslagssjóðs ber ábyrgð á úthlutunum úr loftslagssjóði og er sjálfstæð og óháð í störfum sínum.

4. gr.

     3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra skal setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um upplýsingagjöf skv. 2. mgr., þar á meðal um bókhald, skýrslugjöf og hvaða aðilum ber skylda til að taka saman gögn varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og skila til Umhverfisstofnunar.

5. gr.

     Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, III. kafli A, Skuldbindingar í loftslagsmálum til 2030, með tveimur nýjum greinum, 6. gr. a og 6. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (6. gr. a.)
Skuldbindingar vegna sameiginlegrar ábyrgðar.
     Frá 1. janúar 2021 til 31. desember 2030 skal að lágmarki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í flokki orku, iðnaðarferla og efna-/vörunotkunar, landbúnaðar og úrgangs í samræmi við skiptingu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, að undanskilinni losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sem fellur undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, í samræmi við hlut Íslands í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins, Íslands og Noregs til að uppfylla skuldbindingar Parísarsamningsins.
     Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um árlegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, sveigjanleikareglur og eftirlitsreglur í samræmi við sameiginlegt markmið skv. 1. mgr.
     
     b. (6. gr. b.)
Skuldbindingar vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar.
     Losun og upptaka gróðurhúsalofttegunda sem fellur undir flokk landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar hjá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar skal ekki leiða af sér nettólosun á tímabilinu 2021–2025 annars vegar og 2026–2030 hins vegar til að tryggja framlag Íslands til sameiginlegs markmiðs Íslands, Noregs og Evrópusambandsins.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði m.a. um úthlutun losunarheimilda, hvaða starfsemi telst vera hætt við kolefnisleka, breytingar á starfsemisstigi og efni skýrslu þar um sem og skilyrði þess að starfsemi teljist hætt.

6. gr.

     Í stað 8.–10. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (8. gr.)
Losunarleyfi.
     Rekstraraðilar skulu hafa losunarleyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda.
     Sækja ber um losunarleyfi til Umhverfisstofnunar sem skal gefa út leyfið innan þriggja mánaða frá því að umsókn berst stofnuninni enda hafi allar tilskildar upplýsingar borist henni og sýnt þyki að rekstraraðili sé fær um að vakta og gefa skýrslu um losun frá starfseminni.
     Rekstraraðila ber skylda til að tilkynna Umhverfisstofnun tafarlaust skriflega um allar fyrirhugaðar breytingar á rekstri starfsstöðvar sem geta haft áhrif á efni losunarleyfis.
     Umhverfisstofnun er heimilt að afturkalla losunarleyfi rekstraraðila ef forsendur leyfis eru brostnar.
     Umhverfisstofnun skal tryggja samræmda málsmeðferð við útgáfu losunarleyfa og starfsleyfa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði, m.a. um úthlutun losunarheimilda, hvaða starfsemi telst vera hætt við kolefnisleka, breytingar á starfsemisstigi og efni skýrslu þar um sem og skilyrði þess að starfsemi teljist hætt.
     
     b. (9. gr.)
Úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda.
     Umhverfisstofnun tekur ákvörðun um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til rekstraraðila á grundvelli árangursviðmiða sem ákvörðuð eru fyrir Evrópska efnahagssvæðið í heild fyrir starfsemi skv. I. viðauka.
     Rekstraraðilar geta sótt um endurgjaldslausar losunarheimildir fyrir hvert úthlutunartímabil hjá Umhverfisstofnun. Ef rekstraraðili hefur fengið úthlutað fleiri losunarheimildum en hann á rétt á samkvæmt lögum þessum skal Umhverfisstofnun færa þann fjölda sem umfram er af reikningi rekstraraðila í skráningarkerfinu, sbr. VI. kafla A.
     Umhverfisstofnun skal úthluta losunarheimildum á reikning viðkomandi rekstraraðila í skráningarkerfinu fyrir 28. febrúar á því ári sem úthlutun tekur til. Engum losunarheimildum skal úthlutað til starfsstöðvar sem hefur hætt starfsemi nema rekstraraðili geti sýnt fram á að starfsemi geti hafist á ný innan hæfilegs tíma. Ákvörðun um úthlutun er kæranleg til ráðherra innan tveggja vikna frá því að hún er tekin.
     Aðlaga skal úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda að breytingum á starfsemisstigi. Útreikningar slíkrar aðlögunar skulu grundvallast á árlegri skýrslu sem rekstraraðila ber að skila um breytingar á starfsemisstigi.
     Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um úthlutun losunarheimilda, hvaða starfsemi telst hætt við kolefnisleka, breytingar á starfsemisstigi og efni skýrslu þar um sem og skilyrði þess að starfsemi teljist hætt.
     
     c. (10. gr.)
Skylda rekstraraðila til að standa skil á losunarheimildum.
     Rekstraraðilar skulu fyrir 30. apríl ár hvert standa skil á losunarheimildum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni á undangengnu almanaksári.
     Fjöldi losunarheimilda sem rekstraraðila ber að standa skil á skal jafngilda heildarlosun á þeim gróðurhúsalofttegundum sem getið er í lögum þessum samkvæmt vottaðri skýrslu rekstraraðila, sbr. 1. mgr. 21. gr. b, eða áætlun Umhverfisstofnunar, sbr. 3. mgr. 21. gr. b.
     Leiði skýrsla sem berst eftir að Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um áætlun skv. 3. mgr. 21. gr. b í ljós að losun frá starfseminni var meiri en áætlun Umhverfisstofnunar gerði ráð fyrir skal rekstraraðili standa skil á þeim fjölda losunarheimilda sem ber í milli.

7. gr.

     11.–14. gr. laganna, ásamt fyrirsögnum, falla brott.

8. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundinni starfsemi.

9. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli A, Sérreglur fyrir tilteknar starfsstöðvar, með einni nýrri grein, 14. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Starfsstöðvar með árlega losun undir 25.000 tonnum af koldíoxíði.
     Umhverfisstofnun er heimilt að undanskilja starfsstöðvar gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir ef losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsstöðinni er undir 25.000 tonnum af koldíoxíðsígildum, og í þeim tilvikum þegar brennsla er hluti af starfseminni er einnig skilyrði að uppsett afl hafi verið undir 35 MW, að undanskilinni losun frá lífmassa, á hverju ári í þau þrjú ár sem eru næst á undan þeim degi þegar umsókn um undanþágu berst Umhverfisstofnun.
     Starfsstöð sem undanþegin er gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 1. mgr. skal greiða losunargjald í samræmi við losun gróðurhúsalofttegunda frá viðkomandi starfsstöð á undangengnu almanaksári. Frá þeirri losun skal þó draga þann fjölda tonna sem samsvarar fjölda losunarheimilda sem starfsstöðin hefði fengið úthlutað endurgjaldslaust í viðskiptakerfinu.
     Gjald fyrir hvert tonn losunar skal jafngilda meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður en hin gjaldskylda losun á sér stað og skal það ákveðið með lögum þessum, sbr. 4. mgr. Losunargjald rennur í ríkissjóð.
     Fjárhæð losunargjalds skv. 2. mgr. vegna gjaldskyldrar losunar sem á sér stað árið 2020 skal vera 3.025 kr. fyrir hvert tonn.
     Innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi starfsstöðvar skal fyrir 1. júlí ár hvert leggja á og innheimta losunargjald af starfsstöð sem undanþegin er gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skv. 1. mgr. í samræmi við skýrslu Umhverfisstofnunar um magn gjaldskyldrar losunar. Skýrsla Umhverfisstofnunar um magn gjaldskyldrar losunar skal afhent viðkomandi innheimtumanni fyrir 31. maí ár hvert vegna almanaksársins á undan. Að því leyti sem ekki er í lögum þessum kveðið á um álag og kærur hvað varðar álagningu og innheimtu losunargjalds skulu ákvæði laga um virðisaukaskatt gilda eftir því sem við á.
     Rekstraraðili starfsstöðvar sem hefur verið undanskilin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir skal fyrir 31. mars ár hvert skila skýrslu til Umhverfisstofnunar þar sem sýnt er fram á að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt á undangengnu almanaksári. Ef skýrslan leiðir í ljós að svo er ekki skal litið svo á að starfsstöð falli undir gildissvið viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir frá þeim degi er Umhverfisstofnun staðfestir skýrsluna. Rekstraraðili viðkomandi starfsstöðvar skal þá eiga rétt á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda skv. 9. gr. frá því ári sem hann fellur undir gildissvið viðskiptakerfisins eins og ef hann hefði ekki verið undanskilinn gildissviði þess. Starfsstöð sem þetta á við um skal heyra undir gildissvið viðskiptakerfisins það sem eftir lifir yfirstandandi viðskiptatímabils.
     Ráðherra skal setja í reglugerð nánari útfærslu á ákvæðum þessarar greinar, m.a. um tímafresti fyrir skil á undanþágubeiðnum, vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda, form og efni skýrslna skv. 6. mgr. og málsmeðferð í tengslum við staðfestingu skýrslna. Heimilt er að gera kröfu um að skýrslur séu vottaðar af óháðum vottunaraðila og að reglugerð skv. 5. mgr. 21. gr. b gildi eftir því sem við á.

10. gr.

     Í stað tilvísananna „5. mgr. 21. gr.“ og „6. mgr. 21. gr.“ í 2. mgr. og „6. mgr. 21. gr.“ í 3. mgr. 17. gr. laganna kemur: 1. mgr. 21. gr. b; 3. mgr. 21. gr. b; og: 3. mgr. 21. gr. b.

11. gr.

     Í stað tilvísananna „2. mgr. 21. gr.“ í 2. málsl. og „ákvæði VII. kafla“ í 3. málsl. 4. mgr. 18. gr. laganna kemur: 2. mgr. 21. gr. b; og: 1. mgr. 21. gr. b.

12. gr.

     Í stað tilvísananna „3. mgr. 21. gr.“ í 2. málsl. og „ákvæði VII. kafla“ í 3. málsl. 7. mgr. 19. gr. laganna kemur: 2. mgr. 21. gr. b; og: 21. gr. b.

13. gr.

     Á eftir 20. gr. laganna kemur ný grein, 20. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Starfsemi lögð niður.
     Flugrekanda sem hyggst leggja niður starfsemi, tímabundið eða varanlega, ber tafarlaust að tilkynna Umhverfisstofnun það skriflega.

14. gr.

     21. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, fellur brott.

15. gr.

     Á eftir V. kafla A laganna kemur nýr kafli, V. kafli B, Vöktun, vottun og skýrslugjöf rekstraraðila og flugrekenda, með einni nýrri grein, 21. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Vöktun, vottun og skýrslugjöf rekstraraðila og flugrekenda.
     Rekstraraðilum og flugrekendum ber að vakta losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni í samræmi við vöktunaráætlun sem Umhverfisstofnun hefur samþykkt. Þeir skulu fyrir 31. mars ár hvert skila skýrslu til Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda á undangengnu almanaksári. Skýrslur skulu vottaðar af faggiltum vottunaraðila. Tilkynna skal Umhverfisstofnun um hvers kyns breytingar á vöktunaráætlun og eru verulegar breytingar háðar samþykki stofnunarinnar.
     Flugrekendur sem hyggjast sækja um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda skv. 18. eða 19. gr. skulu senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun vegna tonnkílómetra. Þeir skulu jafnframt vakta tonnkílómetra í starfsemi sinni á vöktunarári í samræmi við slíka áætlun.
     Umhverfisstofnun er heimilt að áætla losun rekstraraðila og flugrekanda á undangengnu almanaksári ef losunarskýrsla hefur ekki borist fyrir tilgreindan frest eða skýrsla er ófullnægjandi. Stofnuninni er heimilt að krefja rekstraraðila og flugrekanda um allar nauðsynlegar upplýsingar til að meta hvort skyldur laga þessara og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim hafi verið efndar á fullnægjandi hátt. Ákvörðun stofnunarinnar um áætlun er kæranleg til ráðherra innan tveggja vikna frá því að hún er tekin.
     Rekstraraðili og flugrekandi geta ekki framselt losunarheimildir eftir 31. mars nema losunarskýrsla hafi verið sannprófuð og talin fullnægjandi af faggiltum vottunaraðila.
     Ráðherra skal setja í reglugerð frekari ákvæði um vöktun og skýrslugjöf rekstraraðila og flugrekenda, þar á meðal um vöktun og skýrslugjöf vegna tonnkílómetra og um skil á skýrslum um úrbætur og um vottun og faggildingu, m.a. um gagnkvæma viðurkenningu faggildingar.

16. gr.

     VI. kafli laganna, Skráningarkerfi, 22. gr. og 22. gr. a – 22. gr. g, fellur brott, ásamt fyrirsögn.

17. gr.

     Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Skráningarkerfi, með sex nýjum greinum, 22. gr. h – 22. gr. m, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (22. gr. h.)
Skráningarkerfi og landsstjórnandi.
     Umhverfisstofnun er landsstjórnandi Íslands í skráningarkerfi sem er starfrækt samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     Umhverfisstofnun hefur umsjón með reikningum skráningarkerfisins sem eru í eigu ríkisins og einkaaðila sem lúta lögsögu íslenska ríkisins. Í umsjón með reikningum felst m.a. að stofna og loka reikningum, stýra aðgangi að þeim og veita notendum skráningarkerfisins upplýsingar og aðstoð.
     Vottunaraðilar skv. 3. málsl. 1. mgr. 21. gr. b skulu skráðir í skráningarkerfið.
     
     b. (22. gr. i.)
Reikningar.
     Rekstraraðilum skv. 7. gr. og flugrekendum skv. 15. gr. er skylt að eiga reikning í skráningarkerfinu. Heimild annarra aðila til að eiga reikning í skráningarkerfinu fer eftir ákvæðum reglugerðar sem sett er á grundvelli 22. gr. m.
     Umhverfisstofnun getur hafnað umsókn aðila um stofnun reiknings ef:
  1. hann veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar,
  2. aðili eða forsvarsmaður hans er grunaður um eða hefur á síðustu fimm árum verið dæmdur fyrir misferli með losunarheimildir, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi sem reikningurinn gæti hafa verið notaður í,
  3. Umhverfisstofnun hefur ástæðu til að ætla að reikninginn sé hægt að nýta við misferli með losunarheimildir, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi.

     
     c. (22. gr. j.)
Tímabundin lokun aðgangs að reikningi.
     Umhverfisstofnun er heimilt að loka aðgangi að reikningi í skráningarkerfinu tímabundið ef stofnunin hefur ástæðu til að ætla að:
  1. reynt hafi verið að öðlast aðgang án heimildar,
  2. öryggi, aðgengi eða trúverðugleika kerfisins hafi verið stefnt í hættu.

     Umhverfisstofnun getur lokað aðgangi að reikningi í skráningarkerfinu í allt að fjórar vikur sé rökstuddur grunur um að reikningur hafi verið eða verði notaður í tengslum við svik, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi. Að beiðni skrifstofu fjármálagreininga lögreglu er hægt að framlengja tímabil lokunar.
     Umhverfisstofnun og Eftirlitsstofnun EFTA geta krafist þess að aðgangi að reikningi sé lokað tímabundið á grundvelli 1. og 2. mgr.
     Um heimildir Umhverfisstofnunar til að loka reikningi í skráningarkerfinu fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum reglugerðar sem sett er á grundvelli 22. gr. m.
     Kærufrestur vegna ákvörðunar Umhverfisstofnunar skv. 1. mgr. er 30 virkir dagar. Ráðherra skal kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá því að gagnaöflun er lokið.
     Umhverfisstofnun skal aflétta tímabundinni lokun aðgangs um leið og leyst hefur verið úr þeim annmörkum sem urðu tilefni lokunarinnar.
     
     d. (22. gr. k.)
Tímabundin lokun aðgangs að losunarheimildum.
     Umhverfisstofnun getur að eigin frumkvæði eða að beiðni íslenskra lögregluyfirvalda lokað fyrir aðgang að losunarheimildum tímabundið á þeim reikningum skráningarkerfisins sem stofnunin hefur umsjón með:
  1. í að hámarki fjórar vikur ef stofnunin hefur grun um að losunarheimildir hafi verið notaðar í tengslum við svik, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi; framlengja má tímabil lokunar að beiðni skrifstofu fjármálagreininga lögreglu,
  2. í samræmi við ákvæði laga sem varða svik, peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka eða aðra alvarlega glæpi.

     Umhverfisstofnun skal án tafar gera lögregluyfirvöldum viðvart um lokun aðgangs að losunarheimildum og hafa samstarf við stjórnvöld sem fara með mál skv. 1. mgr. til að fyrirbyggja og koma í veg fyrir starfsemi sem hugsanlega tengist peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
     
     e. (22. gr. l.)
Vinnsla persónuupplýsinga.
     Umhverfisstofnun er ábyrgðaraðili í skilningi laga um persónuvernd við vinnslu persónuupplýsinga í skráningarkerfinu.
     Umhverfisstofnun er heimilt að krefja aðila sem eiga reikning í skráningarkerfinu um allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi skráningarkerfisins.
     
     f. (22. gr. m.)
Reglugerð um skráningarkerfi.
     Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um skráningarkerfið. Reglugerðin skal tryggja virkni og öryggi skráningarkerfisins og rétta skráningu losunarheimilda sem og árlegrar losunarúthlutunar. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um tilnefningu viðurkenndra fulltrúa, skilyrði til stofnunar reikninga samkvæmt viðskiptakerfi ESB og reglufylgnireikninga samkvæmt reglugerð (ESB) 2018/842, hvernig rekja megi útgáfu, handhöfn, auk millifærslu losunarheimilda og árlegrar losunarúthlutunar, ógildingu losunarheimilda, hvernig tryggt skuli að trúnaðarkvöð verði virt, gagnkvæma viðurkenningu losunarheimilda, notkun sveigjanleikaákvæða í sambandi við árlega losunarúthlutun, öryggisvarasjóð og aðlaganir auk umfjöllunar um samvinnu og samtengingu við önnur kerfi og samvinnu stjórnvalda í tengslum við öryggismál og afbrot í tengslum við skráningarkerfið.

18. gr.

     VII. kafli laganna, Vottun og viðurkenning vottunaraðila, 23.–27. gr., fellur brott, ásamt fyrirsögn.

19. gr.

     Á eftir VII. kafla laganna koma tveir nýir kaflar, VII. kafli A, Vöktun og skýrslugjöf samkvæmt kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, með einni nýrri grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, og VII. kafli B, Nýsköpunarsjóður, með einni nýrri grein, 27. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
     
     a. (27. gr. a.)
Vöktun og skýrslugjöf samkvæmt kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
     Ráðherra setur reglugerð um kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, m.a. um gildissvið, umsjónarríki flugrekstraraðila, vöktun, skýrslugjöf, vottun og faggildingu vottunaraðila og framsalsheimild losunargagna.
     
     b. (27. gr. b.)
Nýsköpunarsjóður.
     Ráðherra skal setja reglugerð um starfsemi nýsköpunarsjóðs sem starfræktur er á Evrópska efnahagssvæðinu að því leyti sem nauðsynlegt er vegna skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

20. gr.

     33. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Losunarheimildir sem heimilt er að nota.
     Ráðherra setur reglugerð um losunarheimildir sem rekstraraðilum og flugrekendum er heimilt að nota til að efna kröfur laga þessara um skil á losunarheimildum skv. 10. og 17. gr. Í reglugerðinni skal m.a. mæla fyrir um skilyrði fyrir og takmarkanir á notkun heimilda og gildistíma slíkra heimilda.

21. gr.

     34. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, fellur brott.

22. gr.

     36. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, fellur brott.

23. gr.

     Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Almennt um losunarheimildir í viðskiptakerfi ESB.

24. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „12.“ í 1. mgr. 37. gr. laganna kemur: 9.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
  1. Í stað tilvísananna „13. og 21. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 21. gr. b.
  2. Í stað tilvísunarinnar „22. gr. g“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 22. gr. m.


26. gr.

     1. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:
     Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir eftirfarandi verkefni sem stofnunin innir af hendi:
  1. Útgáfu losunarleyfa, þar á meðal breytingar á losunarleyfum, sbr. 8. gr.
  2. Afgreiðslu umsókna rekstraraðila um endurgjaldslausar losunarheimildir, sbr. 2. mgr. 9. gr.
  3. Yfirferð og umsýslu skýrslna um breytingar á starfsemisstigi rekstraraðila, sbr. 4. mgr. 9. gr.
  4. Yfirferð og umsýslu vegna skýrslna rekstraraðila um losun gróðurhúsalofttegunda, sbr. 1. mgr. 21. gr. b.
  5. Afgreiðslu umsókna rekstraraðila um að starfsstöð verði undanþegin gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, sbr. 1. mgr. 14. gr. a.
  6. Yfirferð skýrslna um að skilyrði fyrir því að undanskilja starfsstöð gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir séu fyrir hendi, sbr. 6. mgr. 14. gr. a.
  7. Afgreiðslu umsókna flugrekenda um endurgjaldslausar losunarheimildir, sbr. 4. mgr. 18. gr.
  8. Afgreiðslu umsókna nýrra þátttakenda í flugstarfsemi um endurgjaldslausar losunarheimildir, sbr. 7. mgr. 19. gr.
  9. Samþykkt verulegra breytinga á vöktunaráætlunum, sbr. 1. mgr. 21. gr. b.
  10. Yfirferð og umsýslu vegna skýrslna flugrekenda um losun gróðurhúsalofttegunda, sbr. 1. mgr. 21. gr. b.
  11. Áætlun á losun staðbundinnar starfsemi og flugstarfsemi, sbr. 3. mgr. 21. gr. b.
  12. Samþykkt vöktunaráætlana vegna tonnkílómetra í flugstarfsemi, sbr. 2. og 5. mgr. 21. gr. b.
  13. Samþykkt vöktunaráætlana vegna losunar frá flugstarfsemi, sbr. 1. og 5. mgr. 21. gr. b.
  14. Yfirferð og umsýslu vegna skýrslna rekstraraðila og flugrekenda um úrbætur, sbr. 5. mgr. 21. gr. b.
  15. Stofnun og viðhald reikninga í skráningarkerfi með losunarheimildir, sem og umsýslu vegna skráningar vottunaraðila, sbr. 22. gr. h. Heimilt er að innheimta árgjald sem tekur mið af meðaltalskostnaði við rekstur reiknings í skráningarkerfinu.
  16. Afgreiðslu umsókna um gagnkvæma viðurkenningu faggildingar, sbr. 5. mgr. 21. gr. b.
  17. Önnur verkefni sem mælt er fyrir um í lögum þessum og reglugerðum settum með stoð í þeim.


27. gr.

     Á eftir XII. kafla laganna kemur nýr kafli, XII. kafli A, Stjórnsýslukærur, með einni nýrri grein, 39. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stjórnsýslukærur.
     Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar skv. 8. gr. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt þeim lögum sem um úrskurðarnefndina gilda.
     Heimilt er að kæra til ráðherra aðrar stjórnvaldsákvarðanir Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum með stoð í þeim.
     Að því leyti sem annað er ekki sérstaklega tilgreint í lögum þessum fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er kærur varðar samkvæmt stjórnsýslulögum.

28. gr.

     1. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
     Umhverfisstofnun getur lagt dagsektir, allt að 500.000 kr., á hvern þann sem brýtur gegn:
  1. 2. mgr. 6. gr. um skyldu til að afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar vegna losunarbókhalds.
  2. 1. mgr. 8. gr. um skyldu rekstraraðila til að hafa losunarleyfi.
  3. 6. mgr. 14. gr. a um skyldu rekstraraðila til að senda skýrslu um að skilyrði 1. mgr. 14. gr. a séu uppfyllt til Umhverfisstofnunar.
  4. 1. mgr. 21. gr. b um skyldu flugrekenda til að senda Umhverfisstofnun vöktunaráætlun vegna losunar.
  5. 1. mgr. 21. gr. b um skyldu rekstraraðila og flugrekenda til að gera breytingar á vöktunaráætlun.
  6. 1. mgr. 21. gr. b um skyldu rekstraraðila og flugrekenda til að senda fullnægjandi og vottaða skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda til Umhverfisstofnunar.
  7. 3. mgr. 21. gr. b um skyldu rekstraraðila og flugrekenda til að afhenda Umhverfisstofnun upplýsingar.
  8. 1. mgr. 22. gr. i um skyldu rekstraraðila og flugrekenda til að eiga reikning í skráningarkerfi með losunarheimildir.


29. gr.

     Í stað tilvísananna „3. mgr. 13. gr. eða 5. mgr. 21. gr.“ og „VI. kafla“ í 41. gr. laganna kemur: 1. mgr. 21. gr. b; og: VI. kafla A.

30. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „9. gr.“ í 1. mgr. 42. gr. laganna kemur: 10. gr.

31. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
  1. Í stað tilvísunarinnar „9.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 10.
  2. Í stað tilvísunarinnar „3. mgr. 14. gr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 2. mgr. 14. gr. a.
  3. 5. mgr. orðast svo:
  4.      Umhverfisstofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssektir á rekstraraðila og flugrekendur sem brjóta gegn:
    1. 3. mgr. 8. gr. um skyldu rekstraraðila til að tilkynna Umhverfisstofnun um fyrirhugaðar breytingar á rekstri, hvort sem þær eru tímabundnar eða varanlegar.
    2. 20. gr. a um skyldu flugrekanda til að tilkynna Umhverfisstofnun ef hann hyggst leggja niður starfsemi, tímabundið eða varanlega.
    3. 1. mgr. 21. gr. b um skyldu rekstraraðila og flugrekanda til að vakta losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni.



32. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „9.“ í 44. gr. laganna kemur: 10.

33. gr.

     Í stað tilvísananna „13., 21. og 22. gr. a – 22. gr. c“ í 1. málsl. 1. mgr. 45. gr. laganna kemur: 21. gr. b og 22. gr. i.

34. gr.

     Við 47. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og ákvörðun nr. 529/2013/ESB.
  2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/842 frá 30. maí 2018 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021 til 2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.


35. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þar til uppgjöri Kyoto-bókunarinnar lýkur árið 2023 skulu losunarheimildir sem verða til við bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi eða vegna endurheimtar votlendis í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á því sviði bókfærðar á reikning íslenska ríkisins í skráningarkerfi skv. VI. kafla A.

36. gr.

     III. viðauki við lögin fellur brott.

37. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði IV., VI., X. og XIII. kafla laganna eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara gilda um aðgerðir vegna þriðja tímabils viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, ásamt ákvæðum reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna.

Samþykkt á Alþingi 29. júní 2020.