Ferill 924. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2027  —  924. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um Rannsóknastofu byggingariðnaðarins.


     1.      Í hvaða farveg munu verkefni Rannsóknastofu byggingariðnaðarins fara um næstu áramót þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður?
    Áform um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands í núverandi mynd í lok þessa árs hafa verið kynnt. Rannsóknastofa byggingariðnaðarins (Rb) er hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands og þar eru framkvæmdar ýmsar prófanir á byggingarvörum auk þess sem unnið er að ýmsum rannsóknarverkefnum tengdum steinsteypu, malbiki og jarðtækni og útgáfu fræðsluefnis á sviði byggingariðnaðarins. Málefni húsnæðismála, mannvirkja og byggingarvara heyra nú undir félagsmálaráðuneyti. Í samráði við starfshóp um rannsóknir og prófanir í byggingariðnaði og fulltrúa úr félagsmálaráðuneyti er nú unnið að því að finna verkefnum Rb farveg í nýju rekstrarformi.
    Byggingariðnaðurinn tekst á við margs konar samfélagslegar áskoranir, svo sem rakaskemmdir og hátt kolefnisspor, en á sama tíma eru til staðar mikil tækifæri til umbóta og nýsköpunar, m.a. á sviði umhverfisvænni bygginga. Mikilvægt er að efla gæði íslenskra mannvirkja, minnka viðhaldskostnað og stuðla að þróun greinarinnar í takti við nútímaþarfir. Til þess að efla rannsóknir og nýsköpun í byggingariðnaði hér á landi er unnið að tillögum um rannsóknasjóð um mannvirkjarannsóknir. Áhersla yrði lögð á þær samfélagslegu áskoranir og þau viðfangsefni sem eru til staðar í byggingargeiranum, svo sem rakaskemmdir í mannvirkjum og tækniþróun í þágu lægra kolefnisspors. Unnið er að útfærslu tillagnanna í samvinnu við félagsmálaráðuneyti og hagaðila. Lagt er upp með að sjóðurinn heyri undir félags- og barnamálaráðherra og verði fjármagnaður í samvinnu beggja ráðuneyta. Til að tryggja samfellu í rannsóknum og prófunum er einnig gert ráð fyrir að hluti tækjabúnaðar og aðstöðu Rb í Keldnaholti verði nýttur áfram, annars vegar til rannsókna í samvinnu við háskólasamfélagið og hins vegar til prófana í samvinnu við hagaðila í byggingariðnaði.
    Í öðru lagi er unnið að tillögum um áframhaldandi útgáfu fræðsluefnis á sviði mannvirkjamála í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Markmiðið er að samþætta betur fræðslu um mannvirkjagerð og leiðbeiningar til byggingariðnaðarins ásamt því að ná betri yfirsýn yfir málaflokkinn og þróun hans samhliða því að efla gagnavinnslu og nýtingu gagna.
    Í þriðja lagi er stefnt að því að prófanir og mælingar á sviði byggingarvara verði framkvæmdar á faggildum prófunarstofum í samræmi við alþjóðlegar kröfur á þessu sviði. Gæðakerfi fyrir slíka faggildingu er ekki til staðar hjá Rb í dag og einkaaðilar eru mislangt komnir með innleiðingu á slíku kerfi. Verkefni um prófunarstofu kallar á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs og samræður um slíkt samstarf eru farnar af stað.

     2.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja óháðar og sjálfstæðar rannsóknir á verkþáttum, efni og aðferðum í byggingariðnaði ef verkefnum Rannsóknastofu byggingariðnaðarins verður beint í samkeppnissjóði?
    Byggingariðnaðurinn tekst á við mörg brýn viðfangsefni, svo sem rakaskemmdir í mannvirkjum, hátt kolefnisspor og hátt hlutfall úrgangs frá byggingarstarfsemi. Á sama tíma eru einnig mörg tækifæri til nýsköpunar í þessum geira, svo sem aukin notkun íslensks timburs í mannvirkjagerð, bætt orkunýting bygginga og aukin notkun stafrænna lausna í byggingariðnaði. Því er mikilvægt að viðhalda öflugum rannsóknum og tækniþróun á sviðinu, í samræmi við þróun á alþjóðavettvangi. Byggingarannsóknir eru í eðli sínu þverfaglegar og markmið þeirra felast gjarnan í þjóðfélagslegum ábata til lengri framtíðar, frekar en fjárhagslegum ávinningi til einstakra fyrirtækja, og bent hefur verið á að eðli rannsókna í byggingariðnaði fari að mörgu leyti illa saman við markmið og úthlutunarreglur þeirra stærstu samkeppnissjóða. Því er unnið að tillögum um stofnun samkeppnissjóðs um byggingarannsóknir sem væri sameiginleg aðgerð ráðherra félags- og barnamála og ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Lagt er til að slíkur sjóður heyri undir félagsmálaráðuneyti þar sem málefni mannvirkja og bygginga heyra undir það ráðuneyti. Umsóknir í sjóðinn væru metnar af fagráði sem væri skipað óháðum aðilum með góða þekkingu á sviðinu. Með því að beina fjármagni í samkeppnissjóð, frekar en beint til einnar stofnunar, er leitast við að styðja við rannsóknir og nýsköpun á samkeppnisgrundvelli. Áhersla er lögð á úthlutun fjármagns á grundvelli jafnréttis, gæða umsókna og mikilvægis verkefna út frá samfélagslegum áskorunum. Jafnframt væri lagður grunnur að því að tengja rannsókna- og nýsköpunarstarf hérlendis betur við erlendar rannsóknaráætlanir.