Ferill 970. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2033  —  970. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði laga þessara gilda ekki um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóði er heimilt að undirgangast gagnvart Icelandair Group hf., sem er kerfislega mikilvægt fyrirtæki, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Afla skal heimilda í fjáraukalögum fyrir árið 2020 vegna þessara ábyrgðarskuldbindinga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarp þetta, sem er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er lagt fram við sérstakar og fordæmalausar aðstæður í efnahagslífinu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Tilefni frumvarpsins tengist rekstrarerfiðleikum Icelandair í kjölfar þess að flugsamgöngur röskuðust umtalsvert vegna faraldursins með tilheyrandi tekjutapi fyrir félagið.
    Markmið frumvarpsins er að gera stjórnvöldum kleift að veita Icelandair fyrirgreiðslu frá ríkinu til að stuðla að áframhaldandi rekstri félagsins og til að fullnægjandi árangur geti náðst í fjárhagslegri endurskipulagningu þess. Þetta er í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið og koma fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Nauðsynlegt er til að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu á félaginu gangi eftir að gera breytingar reglum um ríkisábyrgðir á þann veg að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin.
    Þegar hafa verið gerðar tvær breytingar til bráðabirgða á gildissviði laga um ríkisábyrgðir á árinu 2020 í tengslum við aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins. Fyrri breytingar vörðuðu almennar efnahagsaðgerðir vegna svonefndra viðbótarlána (brúarlána) til stærri fyrirtækja og stuðningslána til minni rekstraraðila og í þeim er kveðið á um að ákvæði laga um ríkisábyrgðir gildi ekki um þau úrræði.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til fjáraukalaga þar sem mælt er fyrir um heimild ráðherra til að veita Icelandair á árinu 2020 sjálfskuldarábyrgð frá ríkissjóði á lánum vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru. Heimildin er tilkomin vegna alvarlegrar stöðu Icelandair sem er burðarás í flugsamgöngum til og frá landinu. Í ljósi landfræðilegrar stöðu Íslands er nauðsynlegt að tryggja traustar og samfelldar samgöngur, vöru- og fólksflutninga og af þeim sökum telst Icelandair vera kerfislega mikilvægt fyrirtæki hér á landi. Því er um að ræða sérstaka efnahagslega aðgerð til að tryggja rekstur fyrirtækisins.
    Eitt af meginmarkmiðum laga um ríkisábyrgð er að ríkissjóður fái endurgjald fyrir veitta ábyrgð sem endurspegli þann ávinning sem ábyrgðin veitir fyrirtækinu. Í tengslum við þá ábyrgð sem ætlunin er að veita vegna Icelandair er sérstaklega samið um endurgjald vegna ábyrgðarinnar sem breytist eftir því hversu mikið er dregið á lánalínur félagsins. Lög um ríkisábyrgðir taka einnig fyrst og fremst til ákveðinna verkefna eða nýframkvæmda sem ríkissjóður tekur þátt í að fjármagna. Sú málsmeðferð og þau skilyrði sem kveðið er á um í lögunum eiga ekki vel við þegar kemur að því að veita efnahagslega aðstoð til fyrirtækja við þær aðstæður sem nú ríkja vegna heimsfaraldursins. Af þessum sökum er lagt til að við lögin bætist nýtt bráðabirgðaákvæði um að ákvæði laganna gildi ekki um slíka ábyrgðarskuldbindingu gagnvart Icelandair enda hafa skilyrði og skilmálar ábyrgðarinnar af hálfu ríkisins verið sérsniðin að félaginu og þeim fordæmalausu aðstæðum sem uppi eru í efnahagslífinu vegna heimsfaraldursins. Fjárhagslegt umfang skuldbindingarinnar er afmarkað í heimildarákvæði fjáraukalaga og nemur allt að 108 milljónum Bandaríkjadala eða sem jafngildir um 15 ma. kr.
    Varðandi skilyrði og skilmála ábyrgðarveitingar ríkisins til Icelandair vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gaf ekki tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá. Þá er frumvarpið í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar vegna reglna um ríkisaðstoð samkvæmt EES-samningnum. Fyrirhugaðar ábyrgðarskuldbindingar ríkissjóðs gagnvart fyrirtækinu falla undir b-lið 2. mgr. 61. gr. EES-samningsins sem heimilar stuðning sem veittur er fyrirtækjum í því skyni að vega upp beint tap vegna útbreiðslu kórónuveiru. Ríkisábyrgðin sem um ræðir felur í sér ríkisaðstoð sem er tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og óheimilt er að hrinda henni í framkvæmd fyrr en að fengnu samþykki stofnunarinnar. Samskipti hafa átt sér stað frá því í vor við ESA vegna fyrirhugaðrar ábyrgðarveitingar. Gert er ráð fyrir að ákvörðun ESA muni liggja fyrir í ágústmánuði.

5. Samráð.
    Frumvarpið er ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Frumvarpið er lagt fram vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur haft á rekstrargrundvöll Icelandair. Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi gafst ekki tími til hefðbundins samráðs um drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda.

6. Mat á áhrifum.
    Nái frumvarpið ekki fram að ganga getur það haft verulega neikvæð áhrif á markmið um fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair og fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins. Vegna þessar eru verulegir samfélagslegir hagsmunir til staðar ásamt umtalsverðum beinum fjárhagslegum hagsmunum fjölda launamanna og fyrirtækja.
    Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafa miðað að því að standa vörð um atvinnu fólks, m.a. með því að fyrirbyggja að arðbær og rekstrarhæf starfsemi leggi upp laupana einvörðungu vegna faraldursins. Ríkisábyrgð á lánalínum til Icelandair er ætlað að tryggja að félagið hafi burði til að takast á við áskoranir í núverandi umhverfi flugreksturs, jafnvel þótt áhrif heimsfaraldursins vari lengur en nú er útlit fyrir. Með þessari aðgerð er stuðlað að því að innlend ferðaþjónusta og tengigeta Keflavíkurflugvallar geti tekið hratt við sér þegar eftirspurn eftir ferðalögum tekur betur við sér að nýju. Með ríkisábyrgð á lánalínum til félagsins er þannig leitast við að skapa grundvöll að kröftugri viðspyrnu fyrir bæði innlenda ferðaþjónustu og efnahagslífið í heild sem ella væri illmöguleg.
    Veiting ríkisábyrgðar á lánalínum til Icelandair hefur sem slík engin bein áhrif á afkomu ríkissjóðs. Ástæðan er sú að ekki verður dregið á lánalínurnar nema að rekstraraðstæður félagsins á næstu tveimur árum reynist markvert lakari en það gerir ráð fyrir. Þannig felst áhætta ríkissjóðs með veitingu sjálfskuldarábyrgðar í því að rekstur félagsins verði umtalsvert verri en horfur eru á um þessar mundir. Komi til gjaldþrots Icelandair eftir að gengið hefur verið á framangreindar lánalínur nemur fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs sem fyrr segir allt að 108 milljónum Bandaríkjadala. Verði sú raunin munu tilteknar eignir félagsins, þ.m.t. vörumerki, bókunarkerfi og eftir atvikum lendingarheimildir, hins vegar renna til ríkissjóðs. Þar með er tryggt að hægt sé að ráðstafa lykileignum félagsins til að stuðla að hraðari uppbyggingu flugsamgangna að nýju ef til rekstrarstöðvunar félagsins kæmi.
    Frumvarpið hefur að öðru leyti takmörkuð áhrif á stjórnsýsluna enda er gert ráð fyrir að ábyrgðin verði veitt í formi sjálfskuldarábyrgðar á lánalínu til þrautavara sem veitt er af viðskiptabönkum Icelandair. Helstu áhrif á stjórnsýsluna felast í því að hafa, eftir sem áður, almennt eftirlit með áætlunum félagsins og fjárhagslegri endurskipulagningu þess.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lög um ríkisábyrgðir sem mælir fyrir um að ríkissjóði sé heimilt að undirgangast ábyrgðarskuldbindingar gagnvart Icelandair sem telst vera kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Samkvæmt ákvæðinu er miðað við að slíkrar heimildar verði aflað í fjáraukalögum fyrir árið 2020 þar sem fjárhagslegt umfang skuldbindingarinnar verður jafnframt afmarkað. Ákvæði laga um ríkisábyrgðir munu þar af leiðandi ekki gilda um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóður mun undirgangast gagnvart Icelandair í samræmi við slíkt heimildarákvæði. Er það gert sökum þess að ríkisábyrgðalögin eiga fyrst og fremst við þegar ríkissjóður veitir ábyrgðir vegna einstakra framkvæmda eða verka en ekki þegar verið er að veita sérstakan efnahagslegan stuðning til fyrirtækja vegna ytri aðstæðna eins og heimsfaraldurs. Ákvæðið er fyrst og fremst sett vegna alvarlegrar stöðu á rekstrargrundvelli Icelandair sem telst vera kerfislega mikilvægt fyrirtæki hér á landi.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.