Ferill 971. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2034  —  971. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum vegna okurs á tímum hættuástands.

Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008.
1. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Bann við okri á hættustundu.

    Þegar eftirspurn eftir tilteknum vörum eykst til muna vegna hættuástands eða verulega dregur úr framboði á tilteknum vörum vegna hættuástands getur ríkislögreglustjóri kveðið á um hámarkssöluverð eða hámarksálagningu á innkaupsverð tiltekinna vara eða vörutegunda. Þegar kveðið hefur verið á um hámarkssöluverð eða hámarksálagningu á innkaupsverð er söluaðila skylt að veita ríkislögreglustjóra upplýsingar þar að lútandi, ef þess er krafist.

2. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, svohljóðandi:
    Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur gegn fyrirmælum yfirvalda skv. 27. gr. a skal sæta sektum allt að 10 millj. kr. en að lágmarki 100.000 kr. Fjárhæð sektar skal taka mið af umfangi og alvarleika brotsins.

II. KAFLI
Breyting á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.
3. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
    Öllum skal tryggður aðgangur að sóttvarnabúnaði sem nauðsynlegur er til að fylgja lögum þessum og reglum og fyrirmælum settum á grundvelli þeirra.

III. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.
4. gr.

    Á eftir 127. laganna kemur ný grein, 127. gr. a, svohljóðandi:
    Hver sá sem á hættustundu okrar á neytendum í viðskiptum með nauðsynjavörur, sóttvarnavörur eða hvers konar vöru eða þjónustu sem stuðlar að vernd gegn yfirvofandi hættu, svo sem með því að hækka vöruverð án málefnalegra ástæðna eða vegna aukinnar eftirspurnar, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.
    Lögaðili sem okrar á neytendum með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. skal sæta sektum allt að 10 millj. kr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þegar hættuástand ríkir getur það haft veruleg áhrif á verðlag tiltekinna vara. Eðli hættunnar eða viðbrögð stjórnvalda við hættunni geta leitt til þess að eftirspurn eftir tilteknum vörum eykst verulega eða þá að verulega dregur úr framboði á vörum. Í slíkum tilfellum skapast freistnivandi hjá þeim söluaðilum sem framleiða eða eiga birgðir af slíkum vörum. Þeir geta þá selt vörur sínar á okurverði. Það getur aukið áhættu á samfélagslegu tjóni af völdum hættuástands og auk þess veldur það óneitanlega fjártjóni hjá almenningi til skamms tíma litið.
    Allt frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveiru hafa borist fregnir af því að bæði innan og utan lands hafi verð á sóttvarnavörum, grímum, sótthreinsispritti og fleiru hækkað verulega og að óprúttnir aðilar hafi hamstrað til sín slíkar vörur á fyrri stigum faraldursins í gróðavon. Almennt má gera ráð fyrir því að flestir markaðsaðilar séu samfélagslega meðvitaðir og selji vörur á sanngjörnu verði á hættutímum en þegar freistnivandi sem þessi er fyrri hendi þá þarf löggjöf að veita stjórnvöldum færi á að grípa í taumana. Það yrði með öllu ótækt ef, svo dæmi sé tekið, efnaminna fólk gæti ekki fylgt fyrirmælum stjórnvalda um sóttvarnaaðgerðir vegna þess að sóttvarnabúnaður hefði hækkað verulega í verði á skömmum tíma.
    Í 27. gr. laga um almannavarnir er að finna ákvæði sem tekur að vissu leyti til þessa vanda, en þar er kveðið á um að ríkisstjórnin geti gefið út fyrirmæli, m.a. um sölu og dreifingu nauðsynja eða tekið eignarnámi tilteknar nauðsynjar. Ákvæðið er að vissu leyti barn síns tíma, það heimilar að brugðist sé við vöruskorti með því að annað hvort skylda sölu tiltekinna vara eða með því að ríkið taki þær vörur eignarnámi. Það er að öllum líkindum óhagstætt í flestum tilvikum að ríkið taki nauðsynjavörur eignarnámi og dreifi, enda þarf þá að koma á fót skipulagi við slíka dreifingu sem er í flestum tilfellum þegar fyrir hendi hjá þeim einkaaðilum sem hafa þessar vörur til sölu. Því verður að telja að í flestum tilfellum sé það hentugra að einkaaðilar haldi áfram að selja vörurnar en að hið opinbera gefi út fyrirmæli sem komi í veg fyrir okur af hálfu einkaaðila. Ákvæði 27. gr. laga um almannavarnir er óheppilegt hvað þetta varðar enda fjallar það aðeins um sölu og dreifingu og vísað er í nauðsynjar en ekki vörur almennt. Því er ekki ljóst hvort það veiti hinu opinbera heimild til að kveða á um verð á nauðsynjum eða hvort ákvæðið veiti aðeins heimild til að gefa fyrirmæli um að tilteknar nauðsynjar skuli seldar ef þess er krafist og að dreifing þeirra þurfi að fara fram með tilteknum hætti. Þá er orðið nauðsynjar þess eðlis að það gefur til kynna að ákvæðið nái aðeins til tiltekinna vara sem teljist fólki nauðsynlegar til afkomu, svo sem fæði og klæði.
    Af framansögðu er ljóst að þörf er á auknum heimildum til að koma í veg fyrir okur á tímum hættuástands. Því er lagt til að auk þeirra heimilda sem ríkisstjórnin hefur skv. 27. gr. laga um almannavarnir verði ríkislögreglustjóra veittar sérstakar heimildir sem geri honum kleift að koma í veg fyrir okur á tilteknum vörum á tímum hættuástands þegar eftirspurn eftir þeim vörum eykst til muna eða verulega dregur úr framboði. Þar sem frumvarp þetta leggur til vægari heimild til inngrips en þegar er til staðar í lögum, sem jafnframt krefst faglegs mats, þykir rétt að ríkislögreglustjóra verði falið ákvörðunarvald samkvæmt greininni. Lagt er til að ákvæðið veiti ríkislögreglustjóra heimild til að tilgreina þær vörur eða vörutegundir sem fyrirmælin lúta að. Þá er lagt til að fyrirmælin lúti að söluverði vörunnar eða álagningu söluaðila á innkaupsverð. Almennt yrði eftirlit með banni gegn okri einfaldara og skilvirkara ef bann miðaði við ákveðið söluverð vöru, ellegar gæti slíkt bitnað á söluaðila vegna samninga við birgja. Þá geta vörur í tilteknum vöruflokkum haft mismunandi eiginleika og gæði og því verið misdýrar í innkaupum. Í ákveðnum tilvikum kann af þeim sökum að vera rétt að miða hámarkið við þá álagningu sem söluaðili leggur á vöru. Eftirlit er í þeim tilfellum örðugra þar sem ekki nægir að vísa í endanlegt söluverð heldur þarf að kanna innkaupsverð. Rétt þykir að veita stjórnvöldum heimild til að beita þessari aðferð svo að svigrúm til aðgerða sé rúmt á hættutímum.
    Til að tryggja að bann við okri á hættutímum virki í framkvæmd er nauðsynlegt að setja viðurlög við brotum gegn ákvæðinu. Nauðsynlegt er að sektarfjárhæðir hafi viðunandi fælingarmátt enda getur fjárhagslegur ávinningur af broti verið verulegur á skömmum tíma. Er lagt til að sett verði í lög um almannavarnir sektarákvæði og að sektir vegna brots geti numið allt að 10 millj. kr. Fjárhæðin tekur mið af 1. mgr. 29. gr. laga um neytendasamninga þar sem því sektarákvæði er einnig ætlað að ná til tilvika þar sem fyrirtæki geta framið umfangsmikil brot gegn lögum og áunnið sér mikið fé á skömmum tíma.
    Þá er í frumvarpi þessu einnig lögð til breyting á sóttvarnalögum sem kveður á um að öllum skuli tryggður aðgangur að sóttvarnabúnaði sem nauðsynlegur er til að fylgja sóttvarnalögum, reglugerðum um sóttvarnir og fyrirmælum stjórnvalda um sóttvarnir. Þannig vaknar jákvæð skylda hjá hinu opinbera til að tryggja aðgang að þeim vörum sem almenningur þarf að nota til að ná fram áhrifum sóttvarnaaðgerða.
    Einnig er lagt til að almennt bann við okri á hættutímum verði sett í almenn hegningarlög. Slíkt ákvæði er til þess fallið að draga úr líkum á því að fyrirtæki hækki verð til neytenda á fyrri stigum hættuástands í þeirri von að ná að græða sem mest áður en stjórnvöld gefa út fyrirmæli um hámarksverð. Lagt er til að okur sé skilgreint sem hækkun á vöruverði án málefnalegra ástæðna eða aðeins vegna þess að eftirspurn hefur aukist. Ýmsar ástæður geta legið að baki hækkunar vöruverðs. Þegar vöruverð er hækkað án þess að innkaupsverð hafi hækkað til muna og án þess að söluaðila sé það nauðsynlegt vegna rekstrarskilyrða má ætla að slík hækkun sé til komin vegna þess að söluaðili verður þess áskynja að eftirspurn eftir vörunni hafi aukist vegna hættuástands. Slíkt á að vera ólöglegt, enda ætti engin að græða á því að hætta steðji að almenningi.