Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2062  —  626. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ólafi Ísleifssyni um hækkun launa yfirlögregluþjóna og fasta yfirvinnu.


     1.      Ber að skilja tilvísun til launa fyrir dagvinnu í svari ráðherra á þingskjali 983 (444. mál) svo að öll vinna umræddra yfirlögregluþjóna umfram dagvinnu hafi verið greidd sérstaklega til viðbótar „fastri yfirvinnu“ og að ekkert vinnuframlag hafi komið á móti því sem nefnt er „föst yfirvinna“?
    Almennt er ekki greitt sérstaklega fyrir tilfallandi yfirvinnu utan dagvinnutíma þegar launasamsetningu er svo háttað að greidd eru föst mánaðarlaun fyrir vinnu á dagvinnutíma og föst yfirvinna vegna vinnu utan dagvinnutíma. Laun í formi fastra yfirvinnustunda koma til þegar launagreiðandi kaupir fyrir fram ákveðið vinnumagn af starfsmanni. Eðli málsins samkvæmt fer sú vinna fram utan dagvinnumarka eða um helgar. Þetta fyrirkomulag er til hagræðis fyrir starfsfólk og launagreiðendur. Vinnuskil starfsfólks vegna launa fyrir fastar yfirvinnustundir geta jafnast út yfir lengra tímabil. Það kunna því að koma mánuðir þar sem vinnuskil starfsfólks eru ekki í samræmi við fasta yfirvinnutíma, á hvorn veginn sem er. Ekki var greitt fyrir aðra yfirvinnu til viðbótar við fasta yfirvinnu í umræddu máli og ekki var breyting á vinnuframlagi starfsmanna vegna þessa.

     2.      Eru fastar yfirvinnustundir taldar sem unninn tími í yfirliti um vinnutíma?
    Fastar yfirvinnustundir er almennt ekki taldar til vikulegrar vinnuskyldu samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og laga nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku. Laun fyrir fastar yfirvinnustundir endurspegla ekki að öllu leyti það vinnumagn sem raunverulega er innt af hendi á hverjum tíma af því starfsfólki sem nýtur þeirra greiðslna.

     3.      Hefur ráðherra vitneskju um hversu margir fastir yfirvinnutímar af þessum toga eru greiddir í stofnunum ríkisins á ári hverju?
    Líkt og rakið er hér að framan er á forræði forstöðumanns að ákveða bæði vinnutíma og samsetningu launa síns starfsfólks. Það er algengt að samsetningu launa sé hagað á þann veg að greidd séu svokölluð föst laun, þ.e. mánaðarlaun fyrir dagvinnu auk fastra yfirvinnutíma. Fastir yfirvinnutímar kunna að koma til vegna fyrirséðrar reglubundinnar yfirvinnu og starfstengds álags sem ekki verður mælt í tíma.

     4.      Er rétt skilið að tímalaun umræddra starfsmanna fyrir yfirvinnu hafi að meðaltali hækkað um 48%? Ef svo er, hvað hefðu tekjur þeirra hækkað um háa fjárhæð ef þessi yfirvinnulaun hefðu verið í gildi allt árið 2019? Telur ráðherra hugsanlega hættulegt fordæmi felast í launaákvörðun af því tagi sem hér um ræðir?
    Tímakaup fyrir yfirvinnu í hverjum launaflokki er 1,0385% af mánaðarlaunum. Laun umræddra starfsmanna, bæði mánaðarlaun og yfirvinnulaun, hækkuðu að meðaltali um 48%. Á sama tíma og mánaðarlaun hækkuðu voru yfirvinnulaun hins vegar lækkuð með því að fjöldi fastra yfirvinnustunda fór úr 50 stundum í 3 stundir á mánuði. Áhrif þessara breytinga voru ýmist að heildarlaun stóðu nánast í stað eða hækkuðu um innan við 1%.
    Það er á forræði forstöðumanns að ákveða hvernig greiða skuli fyrir reglubundið starf starfsmanna sinna. Við þá ákvörðun er forstöðumaður bundinn af starfslýsingu viðkomandi, starfaskilgreiningum og eftir atvikum öðrum ákvæðum stofnanasamnings. Þá er það forstöðumannsins að ákveða vinnufyrirkomulag starfsmanna sinna í samræmi við starfsemi og þarfir stofnunar, þ.e. vinnu í dagvinnu, vaktavinnu eða eftir atvikum samkvæmt öðrum ákvæðum stofnanasamnings. Ef starfsskyldur starfsmanna, allra eða hluta þeirra, eru þess eðlis að starfið krefjist ákveðins vinnuframlags umfram hið hefðbundna vinnufyrirkomulag svo að starfsmanni sé kleift að sinna þeim verkefnum sem starfslýsing gerir ráð fyrir kemur til skoðunar að meta hvort rétt sé að greiða reglubundna yfirvinnu, umfram grunnlaun. Ákvörðunin er byggð á því að það þurfi ákveðið vinnumagn umfram dagvinnu til að geta sinnt þeim starfsskyldum sem starfslýsing mælir fyrir um. Hafa ber í huga að almennt er ekki greitt fyrir aukna ábyrgð eða viðbótarverkefni umfram það sem mælt er fyrir um í starfslýsingu og eftir atvikum starfsskilgreiningum í stofnanasamningi með reglubundinni yfirvinnu. Ef forstöðumaður gerir breytingar á launasamsetningu starfsmanns sem hefur fengið greidda reglubundna yfirvinnu til að koma til móts við starfsskyldur utan hefðbundins dagvinnutíma og fellir þær greiðslur inn í grunnlaunasetningu viðkomandi starfsmanns má ætla að samhliða þeirri breytingu hafi orðið veruleg breyting á starfslýsingu viðkomandi og eftir atvikum starfsskilgreiningum í stofnanasamningi, svo að breytingin fái staðist fyrrgreindar forsendur.

    Við vinnslu þessa svars og vegna fyrirspurnar á þingskjali 983 leitaði ráðuneytið og fékk upplýsingar frá dómsmálaráðuneyti.