Ferill 972. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2075  —  972. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gissur Pétursson, Bjarnheiði Gautadóttur, Elísabetu Þórisdóttur og Svanhvíti Jakobsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Huldu Önnu Arnljótsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Unni Sverrisdóttur og Hrafnhildi Tómasdóttur frá Vinnumálastofnun, Drífu Snædal og Eyrúnu Björk Valsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Andra Val Ívarsson frá Bandalagi háskólamanna, Hrannar Má Gunnarsson frá BSRB, Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Gunnar Val Sveinsson og Baldur Sigmundsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Vigdísi Jónsdóttur frá VIRK-Starfsendurhæfingarsjóði, Erling Jóhannesson frá Bandalagi íslenskra listamanna, Hrafnhildi Theodórsdóttur frá Félagi íslenskra leikara og sviðslistafólks, Orra Hugin Ágústsson og Birnu Hafstein frá Sviðslistasambandi Íslands, Gunnar Hrafnsson frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Isabel Alejandra Diaz frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, Steinunni Öldu Guðmundsdóttur og Almar Knörr Hjaltason frá Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri, Júlíus Andra Þórðarson frá Nemendafélagi Háskólans á Bifröst, Örnu Rut Arnarsdóttur frá Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík, Sigtý Kára Ægisson frá nemendaráði Listaháskóla Íslands og Guðrúnu Harðardóttir frá Einstökum börnum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Félagi atvinnurekenda, Indriða H. Þorlákssyni, KPMG ehf., Landssamtökum íslenskra stúdenta, Landssamtökunum Þroskahjálp, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Stúdentaráði Háskóla Íslands og VIRK-Starfsendurhæfingarsjóði. Þá barst nefndinni sameiginleg umsögn Bandalags íslenskra leikfélaga, Sviðslistasambands Íslands og Félags íslenskra leikara.

Efni frumvarps.
    Með frumvarpinu er lagt til að tímabil samkvæmt lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, verði framlengt til ársloka 2021. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hvað varðar atvinnutengda starfsendurhæfingu og heimild atvinnuleitenda til að stunda nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Einnig er lagt til að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr allt að þremur mánuðum í allt að sex mánuði. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003, sem fela í sér framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem og framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna verulegs samdráttar í rekstri.
    Flestar breytingarnar eru tímabundnar og koma til vegna þeirra aðstæðna sem myndast hafa á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Breyting á lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020.
Staða foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og foreldra sem geta ekki sinnt störfum vegna lokunar skólastiga eða vegna þess að þjónusta hefur legið niðri.
    Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. og a-lið 1. mgr. 7. gr. laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir er heimilt að greiða atvinnurekanda launakostnað eða sjálfstætt starfandi einstaklingi launatap ef hann, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hefur sætt sóttkví.
    Nokkuð var rætt um stöðu foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem óhjákvæmilega geta ekki sinnt störfum sínum vegna þess að þjónusta liggur niðri eða vegna lokunar á leik- og grunnskólum eða frístundaheimili barna þeirra vegna smita í hópi starfsfólks, án þess að til komi sérstök tilmæli sóttvarnayfirvalda. Þessir foreldrar hafa ekki rétt á greiðslu samkvæmt framangreindum lögum en verða fyrir tekjuskerðingu vegna fjarveru frá vinnu og/eða þurfa að taka launalaust leyfi vegna fullnýtts orlofsréttar.
    Meiri hlutinn tekur fram að félagsmálaráðuneyti hefur haft þessi mál til skoðunar um nokkra hríð. Í sumar var brugðist við með breytingu á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, nr. 504/1997, með síðari breytingum. Með þeirri breytingu var heimilt að greiða framfærendum barna, sem voru með gilt umönnunarmat á tilgreindu tímabili, eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum fyrir einn mánuð vegna aukinnar umönnunar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þó telur meiri hlutinn mikilvægt að staða þessa hóps verði skoðuð sérstaklega og hvort gera þurfi breytingar á almannatryggingalöggjöf  og bótakerfum til að koma til móts við þá sem þurfa að sinna aukinni umönnun fatlaðra og langveikra barna. Þá áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að ráðuneytið hafi þessi mál í stöðugri skoðun í samvinnu við hagsmunaaðila. Samhliða því megi taka til skoðunar stöðu foreldra almennt sem geta ekki sinnt störfum vegna skertrar þjónustu eða lokunar skólastiga sökum faraldursins. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn að svo stöddu ekki til sérstakar breytingar þess efnis á frumvarpinu.

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
Tekjutenging atvinnuleysisbóta.
    Með frumvarpinu er lagt til að réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fari úr þremur mánuðum í sex mánuði, enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt. Að mati meiri hlutans er hér um mjög mikilvægt skref að ræða til að takast á við þær aðstæður sem orðið hafa í íslensku samfélagi vegna heimsfaraldursins. Markmiðið með framlengingunni er að komið sé til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri. Það er ljóst að hið mikla óvissuástand sem nú er á vinnumarkaði mun vara öllu lengur en gert var ráð fyrir í upphafi og atvinnuleysi aukast frá því sem verið hefur. Meiri hlutinn telur að með þessu úrræði sé staða heimilanna og fjölskyldna landsins styrkt við þessar krefjandi aðstæður. Stór hópur þeirra sem misst hafa atvinnuna vegna faraldursins verður á hlutabótum eða tekjutengdum atvinnuleysisbótum fram á næsta ár. Með því gefst jafnframt svigrúm til næstu áramóta til að fylgjast með áhrifum þessara aðgerða og taka ákvörðun um hvort frekari aðgerða sé þörf.

Atvinnutengd starfsendurhæfing.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að styðja við möguleika einstaklinga sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði vegna sjúkdóms eða slyss til að verða að nýju virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Meiri hlutinn fagnar þessum breytingum og telur þær jákvætt skref í að auka vinnufærni umræddra einstaklinga og stuðla að því að þeir verði að nýju þátttakendur á vinnumarkaði.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að mikilvægt væri að um varanlega breytingu væri að ræða en ekki tímabundna breytingu til að bregðast við heimsfaraldrinum. Meiri hlutinn áréttar þess vegna að þær breytingar sem varða atvinnutengda starfsendurhæfingu eru varanlegar.
    Við meðferð málsins var einnig bent á mikilvægi þess að tímabil starfsendurhæfingar svari til lengra tímabils en þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi. Meiri hlutinn bendir á að með þessum breytingum muni sömu reglur gilda um launamann sem stundar atvinnutengda starfsendurhæfingu á þeim tíma sem hann telst óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss og um launamann sem hefur stundað nám í tiltekinn tíma áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, sbr. 3. mgr. 15. gr. laganna. Meiri hlutinn telur að kanna þurfi með nánari hætti hvort tilefni sé til að lengja umrætt tímabil og beinir því til ráðuneytisins að taka sjónarmið í þessum efnum til skoðunar við heildarendurskoðun laganna.

Nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta.
    Með frumvarpinu er lagt til að hámark ECTS-eininga verði hækkað úr 10 ECTS-einingum í 12-ECTS einingar þannig að heimilt verði að stunda háskólanám sem nemur að hámarki 12-ECTS einingum á námsönn að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. 2. tölul. b-liðar 6. gr. frumvarpsins.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að einingafjöldi eftir fræðasviðum geti verið mismunandi. Fullt nám er skilgreint sem 30 ECTS-einingar og þá sé lágmarksframvinda til að fá afgreidd námslán 22-ECTS einingar eða ígildi þeirra á hverju misseri. Framangreind hækkun ECTS-eininga veiti því stúdentum ekki frekara svigrúm en fyrir einu til tveimur námskeiðum og gagnist ekki stúdentum sem stunda fullt nám. Þá leiði breytingin til þess að einhverjir geti hvorki sótt um námslán né átt rétt á atvinnuleysisbótum.
    Meiri hlutinn telur að skoða þurfi með nánari hætti hámark námshlutfalls samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta meðal annars með hliðsjón af því hvað teljist námshæft lán hjá Menntasjóði námsmanna. Þar sem hækkun eininga samkvæmt frumvarpinu leiðir ekki til þess að bilið sé brúað á milli lánshæfs náms og náms meðfram atvinnuleysistryggingum þarf að kanna hversu mikill fjöldi falli milli skips og bryggju og eigi þannig hvorki rétt á námsláni né atvinnuleysisbótum. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að þetta verði tekið til frekari skoðunar við heildarendurskoðun laganna.
    Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. a-lið 9. gr. frumvarpsins, og fellur undir Nám er tækifæri. Meiri hlutinn tekur fram að heimild atvinnuleitanda til að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysisbótum nái eingöngu til einnar annar. Hins vegar er Vinnumálastofnun heimilt á grundvelli d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, að styrkja námsráðgjöf í eitt skólaár eða því sem nemur tveimur önnum, enda haldi viðkomandi atvinnuleitandi áfram námi eftir að fyrstu önninni lýkur. Markmið slíkra aðgerða er að koma í veg fyrir brotthvarf úr námi og tryggja um leið aukna þétta þjónustu skólanna.

Tímamark hlutabótaleiðarinnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að réttur launþega til atvinnuleysisbóta samhliða lækkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda að frekari skilyrðum uppfylltum, hin svokallaða hlutabótaleið, framlengist til 31. október 2020, sbr. 8. gr. frumvarpsins.
    Samhljómur var á meðal umsagnaraðila um ágæti úrræðisins til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Hlutabótaleiðin geri fyrirtækjum kleift að viðhalda ráðningarsambandi með minnkuðu starfshlutfalli launamanna og tryggi sjálfstætt starfandi einstaklingum með eigin rekstur í félagi svigrúm til þess að draga úr rekstri án þess að verða fyrir óviðráðanlegu tekjutapi vegna faraldursins. Fram komu sjónarmið um að tryggja þyrfti fyrirsjáanleika á vinnumarkaðnum á meðan efnahagslegra áhrifa faraldursins gætir. Af þeim sökum væri mikilvægt að úrræðið yrði framlengt til lengri tíma en til 31. október 2020.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að hlutabótaleiðin hefur sem úrræði náð að vernda ráðningarsamband þúsunda launamanna  við vinnuveitendur.  Þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr ásókn í úrræðið er enn nokkur fjöldi launamanna sem fær hluta framfærslu sinnar vegna úrræðisins og heldur ráðningarsambandi. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að það geti reynst torvelt að reka saman til langs tíma tvö mismunandi kerfi, þ.e. hefðbundið atvinnuleysistryggingakerfi og hlutabætur, og bent á það misvægi sem gæti skapast milli réttinda þeirra sem væru annars vegar á hlutabótum og þeirra sem væru hins vegar atvinnuleitendur og á atvinnuleysisbótum. Í ljósi þess telur meiri hlutinn því ekki skynsamlegt að lengja gildistíma úrræðisins til langframa. Sanngirnisrök hnígi hins vegar að því að lengja gildistímann meira en í tvo mánuði. Þar kemur til að aðdragandinn að því að afnema úrræðið endanlega hafi verið fullstuttur, og það að framlengja í tvo mánuði muni ekki  breyta miklu í stöðu þeirra fyrirtækja sem eru að skoða möguleika sína á að halda áfram ráðningarsambandi. Þá mun lengri frestur gefa stjórnvöldum meira svigrúm til að endurmeta  vinnumarkaðsúrræði, og skoða í samhengi við þá endurskoðun sem nú fer fram á lögum um atvinnuleysistryggingar. Að því sögðu leggur meiri hlutinn til að hlutabótaleiðin verði framlengd til 31. desember 2020. Auk þess leggur meiri hlutinn áherslu á að fjármögnun úrræðisins verði tryggð í fjáraukalögum síðar á þessu ári. Í þessu samhengi telur meiri hlutinn því ekkert til fyrirstöðu að hlutabótaleiðin verði nýtt aftur fyrir sama einstakling sem hefur verið endurráðinn í fullt starf, að því gefnu að skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins séu uppfyllt, þ.m.t. að um sé að ræða lækkað starfshlutfall. Hins vegar getur einstaklingur ekki nýtt sér hlutabótaleiðina ef hann er endurráðinn í 50% starfshlutfall enda er þá ekki um að ræða tímabundna lækkun á starfshlutfalli. Viðkomandi gæti þó haft rétt til hlutfallslegra atvinnuleysisbóta innan almenna atvinnuleysistryggingakerfisins.
    Í ákvæði til bráðabirgða XIV í lögum um atvinnuleysistryggingar er að finna heimild til handa sjálfstætt starfandi einstaklingi að sækja um atvinnuleysisbætur enda þótt viðkomandi hafi ekki tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um lok starfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Með 7. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða XIV í lögunum verði framlengdur þannig að ákvæðið gildi frá og með 1. september 2020 og falli úr gildi 1. nóvember 2020. Þá er í ákvæði til bráðabirgða III í lögum um Ábyrgðasjóð launa að finna undanþágu frá a-lið 5. gr. laganna þannig að í tilvikum þegar starfshlutfall launamanns hefur verið lækkað að kröfu vinnuveitanda vegna samdráttar í starfsemi hans verði miðað við tekjur launamannsins líkt og þær voru áður en starfshlutfall var lækkað við útreikning á kröfum skv. a-lið 5. gr. Enn fremur að sams konar framlenging á undanþágu gildi um greiðslur til launamanns úr Ábyrgðasjóði launa vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi. Með 10. gr. frumvarpsins er einnig lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða III í lögunum verði framlengdur frá og með 1. september 2020 og að ákvæðið falli úr gildi 1. nóvember 2020.
    Í ljósi þess að lagt er til að framlengja tímabil hlutabótaleiðarinnar til 31. desember 2020 þarf jafnframt að framlengja tímabilin sem tilgreind eru í 7. gr. og 10. gr. frumvarpsins þannig að ákvæðin falli úr gildi 1. janúar 2021 í stað 1. nóvember 2020. Auk þess bendir meiri hlutinn á að framangreindum bráðabirgðaákvæðum var upphaflega ætlað að gilda til 1. júní 2020 en voru síðan framlengd til 1. september 2020. Þau bráðabirgðaákvæði eru nú fallin úr gildi þar sem síðasta framlenging var til 1. september 2020. Þarf því að taka ákvæðin upp að nýju í heild og leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis.

Staða listafólks.
    Við meðferð málsins var rætt um stöðu listamanna og sviðslistafólks sem ekki hafi verið nægilega vel tryggð með þeim aðgerðum sem hefðu verið samþykktar vegna áhrifa heimsfaraldursins. Þá tæki afgreiðsla umsókna þeirra hjá Vinnumálastofnun of langan tíma. Fyrir nefndinni kom fram að vegna mikils álags á Vinnumálastofnun hefði afgreiðsla umsókna tafist og nokkur hluti þeirra þurft að bíða lengur en átta vikur. Á hinn bóginn hefði biðtími styst eftir því sem liðið hefur á sumarið og að afgreiðsla umsókna ætti ekki að vera lengri en fjórar vikur þegar stofnunin er komin yfir erfiðasta hjallann vegna faraldursins. 
    Á undanförnum árum hefur sú breyting að einhverju leyti átt sér stað á Íslandi og víðar á Vesturlöndum að hið hefðbundna ráðningarsamband launamanns og vinnuveitanda hefur breyst. Í æ ríkari mæli er fólk ekki í fastbundnu ráðningarsambandi við einn tiltekinn atvinnurekanda, heldur með flóknara samband, og á þetta ekki hvað síst við um listafólk.  Tekjur geta sveiflast verulega og vinnutími er ekki reglulegur.  Vera kann að sambandið milli réttindaávinnslu vegna  greiðslna tryggingagjalds sé því ekki eins skýrt og áður og að sókn  viðkomandi til nýtingar réttinda sé ekki eins augljós og í einföldu ráðningarsambandi.   Þessi staða einskorðast ekki við fólk í listum. Meiri hlutinn beinir því til félagsmálaráðuneytis að í heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar verði þessir þættir skoðaðir sérstaklega. Þá bendir  meiri hlutinn einnig á að slík vinna þurfi að einhverju leiti að vera í samvinnu við fleiri ráðuneyti, einkum það ráðuneyti sem fer með málefni listamanna.  Þau bóta- og framfærslukerfi sem  fólk reiðir sig á verða á hverjum tíma að endurspegla  þann raunveruleika sem er í samfélaginu með tilliti til vinnumarkaðar og sambands launamanns og launagreiðanda. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að hraða þessari vinnu.

Skörun bótakerfa.
    Nefndin fjallaði um skörun bótakerfa og þá staðreynd að greiðslur ellilífeyris geti virkað til skerðingar á hlutabótum. Samkvæmt hlutastarfaleiðinni greiða stjórnvöld hluta launa þeirra sem lækka tímabundið í starfshlutfalli. Upp hafa komið tilvik þar sem greiðslur ellilífeyris hafa komið til lækkunar á hlutabótum. Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis að greiðslur ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar og úr almennum lífeyrissjóðum komi ekki til skerðingar hlutabóta.

Heildarendurskoðun.
    Við meðferð málsins komu fram frekari sjónarmið um leiðir til að tryggja afkomuöryggi einstaklinga, einkum á meðan efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gætir, svo sem sjónarmið um hækkun fjárhæða grunnatvinnuleysisbóta, framlenging bótaréttar atvinnuleysistrygginga og hækkun tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Þá komu einnig fram sjónarmið um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta í námshléum.
    Meiri hlutinn áréttar að ekki er gert ráð fyrir að þær tímabundnu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu verði til frambúðar. Hins vegar er í vinnslu heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Meiri hlutinn telur mikilvægt að framangreind sjónarmið sem og tillögur sem hafa borist við meðferð málsins verði tekin til frekari skoðunar. Þá beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að tryggja víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila, m.a. við stúdenta.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að hugað sé að skilvirkri framkvæmd. Áður hefur verið gert ráð fyrir kostnaði vegna umsýslu Vinnumálastofnunar, svo sem vegna þróunar hugbúnaðar og sá kostnaður gæti numið um 3 millj. kr., sem og að stofnunin þyrfti að bæta við sig tveimur stöðugildum.
    Auk þeirra breytinga sem lýst er hér að framan leggur meiri hlutinn til minni háttar breytingar til lagfæringar og leiðréttingar. Með hliðsjón af framansögðu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku skjali.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 2. september 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Ólafur Þór Gunnarsson. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.