Ferill 968. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2090  —  968. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Í lögum um opinber fjármál er fjallað um grunngildi fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Þar vekur 2. minni hluti athygli á grunngildinu gagnsæi: „Gagnsæi sem felst í því að sett séu auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma um þróun opinberra fjármála í samræmi við grunngildi [...]. Birta skal reglulega samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum.“ Grunngildið um gagnsæi skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega í krísuástandi eins og við glímum nú við í kófinu. Þegar Alþingi veitir ríkisstjórninni opnar fjárheimildir er skylda framkvæmdarvaldsins til þess að gefa Alþingi reglulega upplýsingar um þróun opinberra fjármála þeim mun meiri.
    Síðastliðið vor samþykkti Alþingi þrjá fjárheimildapakka upp á tugi milljarða króna. Engar upplýsingar hafa borist fjárlaganefnd um þróun mála síðan þá. Ekkert um það hvernig gengur með þær fjárheimildir sem voru veittar. Ekkert um það hvort staðan sé betri eða verri en gert var ráð fyrir í vor.
    Í endurskoðaðri fjármálastefnu eru sett fram ýmis töluleg markmið um skuldaþróun og afkomu. Til viðbótar eru þrjú pólitísk markmið ríkisstjórnarinnar reifuð:
     1.      Viðspyrna með opinberum fjármálum. Fjármálum hins opinbera markvisst beitt til að tryggja stöðugleika og skapa efnahagslega viðspyrnu. Áhersla lögð á að vernda þann árangur sem náðst hefur í velferðar- og heilbrigðismálum.
     2.      Verðmæt störf, fjárfestingar og aukin hagsæld. Kröftug viðspyrna efnahagslífsins drifin áfram af verðmætum störfum og fjárfestingum. Áhersla á menntun, rannsóknir, nýsköpun, innviði og umhverfis- og loftslagmál. Markvissar umbætur á umgjörð efnahags- og atvinnumála til að auka hagsæld til lengri tíma.
     3.      Skilvirkari þjónusta og sjálfbær opinber fjármál. Nútímavæðing hins opinbera í samræmi við breyttar þarfir og aðstæður. Þjónusta verði stafræn og skipulag sveitarstjórnarstigsins styrkt. Viðnámsþróttur gagnvart ófyrirséðum áföllum verði tryggður með lækkun skulda og sjálfbærni opinberra fjármála þannig að ekki halli á komandi kynslóðir.
    Álit 2. minni hluta snýst um skort á gagnsæi í þessum markmiðum stjórnvalda. Orðin eru kannski fögur en lítið er á bak við markmiðin fyrir utan fyrsta atriðið. Markmið stjórnvalda um viðspyrnu í opinberum fjármálum er ágætlega rökstutt með loforðum um að draga ekki saman í sjálfvirkum sveiflujöfnurum. Þau útgjöld eru tiltölulega gagnsæ í þeim gögnum sem nú þegar eru gefin út, svo sem í mánaðarlegum vinnumarkaðsskýrslum. Þetta markmið á ekki að koma á óvart því að þetta er staðlaða lausnin í efnahagslegri niðursveiflu. Hin tvö markmiðin skortir hins vegar betri rökstuðning.
    Það mótmælir enginn markmiðum um verðmæt störf og aukna hagsæld, áherslum á menntun og nýsköpun eða skilvirkari þjónustu. Þetta eru sjálfsögð markmið, alltaf. Ekki bara í kreppu. Það sem vantar í fjármálastefnuna eru þessi mælanlegu viðmið sem nefnd eru í lögum um opinber fjármál vegna grunngildisins um gagnsæi, til þess að hægt sé að gera reglulega samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, miðað við hagspár, er atvinnuleysi. Þegar hagspá segir 6,7% atvinnuleysi á næsta ári hlýtur fjármálastefna ríkisstjórnarinnar að ætla að breyta því á einhvern hátt. Er markmið ríkisstjórnarinnar sex prósent? Fimm prósent? Fjögur?
    Nákvæmar aðgerðir eru nánar reifaðar í fjármálaáætlun með ítarlegri mælanlegum markmiðum fyrir hverja aðgerð en það sem vantar er hver er stóra myndin. Hver eru markmið ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum almennt? Þetta er gríðarlega mikilvægt af því að við fáum yfirleitt ekki upplýsingar um það hvernig einstakar aðgerðir ganga fyrr en hálfu ári eftir að þeim á að vera lokið. Upplýsingar eins og um atvinnuleysi og aðrar hagstærðir sem fjármálastefnan á að hafa áhrif á birtast reglulega. Slíkar upplýsingar eru mjög mikilvægar fyrir aðhald gagnvart ríkisstjórninni en eru tiltölulega gagnslausar með tilliti til stefnu stjórnvalda ef stjórnvöld komast upp með að sleppa því að sýna á spilin. Spurningin hlýtur að vera, hvernig getur stefna stjórnvalda verið stefna ef mælanleg markmið vantar? Án slíkra markmiða er stefna stjórnvalda bara fögur orð sem þýða ekki neitt.

Alþingi, 3. september 2020.

Björn Leví Gunnarsson.