Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 320  —  284. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um úttekt á vinnslu kolefnishlutlauss eldsneytis.


Flm.: Elvar Eyvindsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Sæmundsson.


    Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að láta gera úttekt á því hvort raunhæft sé að framleiða kolefnishlutlaust eldsneyti á Íslandi með því að nýta hluta af raforkuframleiðslu landsins til að framleiða slíkt eldsneyti til að nota á stærri atvinnutæki og með því að vinna kolefni úr lífmassa, andrúmsloftinu eða öðrum uppsprettum.
    Í úttektinni verði m.a. lagt mat á þjóðhagslegan ávinning, þ.m.t. á samkeppnishæfni landsins, af því að gera fiskveiðar, vöru- og farþegaflutninga, auk annars konar vinnu stærri atvinnutækja, vistvæn.
    Úttektin verði tilbúin og kynnt Alþingi eigi síðar en 1. apríl 2020.

Greinargerð.

    Með tillögu þessari er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að láta gera úttekt á raunverulegum möguleikum á að nýta hluta af raforkuframleiðslu landsins til að framleiða kolefnishlutlaust eldsneyti.
    Uppistaðan í öllu brunaeldsneyti er kolefni og vetni. Þúsundir efnasambanda eru mynduð úr þessum tveimur frumefnum í mislöngum keðjum. Auðvelt er að framleiða vetni með raforku og kolefni má fá með mismunandi hætti.
    Til eru fyrirtæki sem hafa þróað aðferðir til að draga kolefni úr andrúmsloftinu og ýmist koma þau því fyrir í jörðinni eða áforma vinnslu á eldsneyti. Eitt þessara fyrirtækja sendi fulltrúa sinn hingað til lands nú á haustdögum til að kynna aðferðir sínar fyrir íslenskum ráðamönnum. Aðrar aðferðir til að afla kolefnis eru líka notaðar og má nefna Carbon Recycling á Íslandi sem framleiðir metanól með svipuðum grundvallaraðferðum.
    Við framleiðslu kolefnishlutlauss eldsneytis er einfaldasta og líklega hagkvæmasta aðferðin að nota lífmassa til kolefnisöflunar. Lífmassi fæst m.a. úr ýmsu sorpi, plasti, trjáúrgangi o.fl. Jafnframt má auðveldlega rækta lífmassa á svæðum sem ekki eru nýtt til matvælaframleiðslu, t.d. með trjárækt eða ræktun annarra jurta sem gefa mikla uppskeru. Lífmassi er auðugur að verðmætum hliðarefnum, svo sem áburðarefnum, sem nýta mætti í auknum mæli eftir því sem framleiðslan yxi. Raforku má nota til að framleiða vetni og hafa þær aðferðir verið þekktar áratugum saman. Vetni yrði notað á móti lífmassanum og þannig væri orkuinnihald hans aukið. Vetnisframleiðslan gæti verið sveiflukennd og gæti mögulega nýtt að einhverju leyti umframorku kerfisins.
    Ávinningur af notkun vistvæns eldsneytis á skipaflota landsmanna gæti orðið mikill. Slík breyting gæti orðið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Íslandi, en flug og ferðamennska sætir vaxandi gagnrýni vegna mikils útblásturs gróðurhúsalofttegunda.
    Úrvinnsluaðferðir kolefnis eru þekktar og notaðar víða í efnaiðnaði. Þekking á þessum aðferðum er fyrir hendi hérlendis. Kostirnir við að framleiða og nota kolefnishlutlaust eldsneyti eru m.a. að hægt er að nota sömu innviði, geymsluaðferð og flutninga og notaðir eru nú þegar. Jafnframt er það mikill kostur að engu þarf að breyta hvað varðar tæknibúnað, þar sem eldsneytið er í raun það sama og er nú í notkun. Mikið hagræði er að því að geta nýtt fjárfestingar sem þegar eru til í stað þess að gera allt nýtt frá grunni.
    Staða Íslands hvað varðar möguleika á framleiðslu kolefnishlutlauss eldsneytis er að mörgu leyti einstök. Hér er mikil framleiðsla á vistvænu rafmagni og lykilatriði er að sú framleiðsla er að mestu í eigu þjóðarinnar. Tillagan snýr að því að koma orkunni yfir á það form að hægt verði að nýta hana til að knýja stærri atvinnutæki þar sem bein nýting á rafmagni í því skyni er ekki raunhæf í fyrirsjáanlegri framtíð. Með þessu móti mætti nýta orku fallvatna landsins m.a. á fiskiskip og flugflota landsmanna.