Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 933  —  567. mál.




Beiðni um skýrslu


frá forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi.

Frá Njáli Trausta Friðbertssyni, Haraldi Benediktssyni, Óla Birni Kárasyni, Ásmundi Friðrikssyni, Jóni Gunnarssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Bryndísi Haraldsdóttur, Páli Magnússyni og Brynjari Níelssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu grunninnviða samfélagsins og mikilvægra samfélagslegra innviða sem varða þjóðaröryggi og hvernig þeir hagsmunir eru tryggðir innan íslenskrar stjórnsýslu út frá ábyrgð og málefnasviði ráðuneyta og í íslenskri löggjöf.
    Í skýrslunni er óskað eftir umfjöllun um:
     a.      skilgreiningu á hugtakinu „þjóðaröryggi“ út frá samfélagslegum innviðum,
     b.      hvaða grunninnviðir íslensks samfélags hafa verið skilgreindir sem mikilvægir með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna,
     c.      helstu hluta samgöngukerfisins, svo sem vegi, brýr, ferjur, flugvelli, og hvort þeir hlutar eigi að vera skilgreindir með tilliti til þjóðaröryggis,
     d.      helstu þætti raforkukerfisins, svo sem virkjanir, flutnings- og dreifikerfið, afhendingaröryggi raforku, varaafl og stýringu, og hvort þeir hafi verið skilgreindir út frá þjóðaröryggishagsmunum,
     e.      hvort helstu fjarskiptakerfi Íslands hafa verið skilgreind með tilliti til þjóðaröryggis, svo sem jarðsímakerfið (AXE), ljósleiðarakerfið, Tetra-kerfið, farsímakerfið, gagnastrengir til útlanda, langbylgjan RÚV, FM útvarpsútsendingar,
     f.      hverjir fara með ábyrgð á samfélagslegum innviðum, svo sem flug- og vegasamgöngum, afhendingaröryggi raforku og virkni fjarskiptakerfa á landsvísu,
     g.      stöðu helstu grunninnviða íslensks samfélags sem varða þjóðaröryggismál gagnvart skipulagsmálum og hvernig þeir eru tryggðir í löggjöf,
     h.      hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggis.

Greinargerð.

    Alþingi samþykkti í apríl 2016 þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145. Þar kemur fram að ríkisstjórninni sé falið að fylgja stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borganna og vernd stjórnkerfis og grunninnviða samfélagsins.
    Markmiðið með skýrslubeiðninni er að skilgreint verði nánar hvaða innviðir landsins teljist til grunninnviða samfélagsins, sbr. þjóðaröryggisstefnu, og mikilvægir út frá þjóðaröryggi landsmanna, svo sem samgönguinnviðir, raforku- og fjarskiptakerfið. Í samantekt frá málþingi þjóðaröryggisráðs um fullveldi og þjóðaröryggi, sem haldið var í Hörpu 23. nóvember 2018, kom fram að samfélagið væri mjög háð raforkuflutningskerfinu því oft gæti lítil og staðbundin bilun valdið miklum óþægindum eða jafnvel erfiðleikum og að eftir því sem tækninni fleytti fram og sjálfvirknivæðing sem gengur fyrir rafmagni yrði algengari mætti búast við að þetta verði æ mikilvægara viðfangsefni. Þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt var á Alþingi 13. apríl 2016, er að mati skýrslubeiðenda ekki nógu ítarleg varðandi þessa þætti, þ.e. mikilvægi samgönguinnviða, raforku- og fjarskiptakerfisins með tilliti til öryggis borgaranna og samfélagsins. Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að öryggi samfélagslegra innviða verði metið með tilliti til þjóðaröryggis landsins og að unnin verði markviss skýrsla sem unnt sé að byggja á sem grunni að heilsteyptri löggjöf varðandi öryggismál þjóðarinnar.
    Íslensk löggjöf er skammt á veg komin í samanburði við nágrannalöndin þar sem farið var að huga að þessum málum fyrir nokkrum áratugum. Í Svíþjóð er notað hugtakið „riksintresse“ yfir helstu grunninnviði sem tengjast landskipulagi sænska ríkisins. Þannig eru helstu innviðir landsins settir alfarið á forræði og ábyrgð ríkisins á grundvelli þjóðaröryggishagsmuna Svíþjóðar. Nú eru um 30 af 100 helstu flugvöllum Svíþjóðar skilgreindir sem „riksintresse“ þar sem skipulagsvaldið hefur verið fært frá viðkomandi sveitarfélagi yfir á æðra stjórnsýslustig vegna þjóðaröryggishagsmuna. Með sama hætti hafa tilteknir vegir, virkjanir, raforkuflutningar, lestarteinar o.s.frv. verið skilgreindir sem slíkir út frá þjóðarhagsmunum.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að farið verði í að greina grunninnviði samfélagsins og þá samfélagslegu innviði sem teljast mikilvægir að teknu tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Þannig megi tryggja öryggi þjóðarinnar og jafnframt sameiginlegan skilning á því hvað felist í þjóðaröryggishugtakinu. Jafnframt þurfi að endurmeta áður gefnar hugmyndir og sjónarmið í öryggismálum með það að markmiði að standa vörð um öryggi þjóðarinnar.