Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 346  —  310. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (tímabundin fjölgun starfslauna og styrkja).

Frá mennta- og menningarmálaráðherra.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skulu samanlögð starfslaun árið 2021 miðast við 2.150 mánaðarlaun. Þrátt fyrir ákvæði 6.–11. gr. skulu starfslaun og styrkir til listamanna árið 2021 vera sem hér segir:
     a.      Starfslaun og styrkir hönnuða árið 2021 skulu svara til 75 mánaðarlauna.
     b.      Starfslaun og styrkir myndlistarmanna árið 2021 skulu svara til 526 mánaðarlauna.
     c.      Starfslaun og styrkir rithöfunda árið 2021 skulu svara til 646 mánaðarlauna.
     d.      Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2021 skulu svara til 307 mánaðarlauna.
     e.      Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2021 skulu svara til 315 mánaðarlauna.
     f.      Starfslaun og styrkir tónskálda árið 2021 skulu svara til 281 mánaðarlauna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið í mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við Bandalag íslenskra listamanna.
    Heimsfaraldur kórónuveiru hefur komið illa við atvinnutækifæri sjálfstætt starfandi listamanna. Þegar samkomubann var sett á í mars sl. varð fjöldi þeirra atvinnu- og verkefnalaus. Umsóknum um starfslaun hefur fjölgað umtalsvert á síðastliðnum áratug eða frá því að lög um listamannalaun, nr. 57/2009, tóku gildi. Aukið framboð í námi í listgreinum, þá ekki síst með tilkomu Listaháskóla Íslands, gerir það að verkum að fleiri sækja sér menntun í listum og gera að atvinnu sinni. Misjafnt er hvaða möguleika listamenn hafa til að afla sér tekna með listsköpun sinni. Við þær aðstæður sem nú eru í íslensku samfélagi kemur í ljós, samkvæmt könnun sem Bandalag háskólamanna stóð fyrir innan aðildarfélaga BHM í list- og menningargreinum, að mikil aukning hefur orðið á atvinnuleysi innan þeirra raða. Þessar þrengingar á vinnumarkaði og minni möguleikar á stuðningi frá atvinnulífinu draga verulega úr möguleikum listamanna til að afla sér lífsviðurværis með listsköpun sinni. Í ljósi þessa er brýnt að fjölga listamönnum á starfslaunum þannig að fleiri listamönnum verði gefinn kostur á að starfa að listsköpun sinni á næsta ári.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir að veita 225 millj. kr. tímabundið í launasjóði listamanna í ljósi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á sjálfstætt starfandi listamenn. Framlagið er liður í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar í kjölfar áhrifa heimsfaraldursins. Með auknu framlagi verður hægt að tryggja listamönnum starfslaun sem samsvara 550 mánaðarlaunum, til viðbótar við þau 1.600 sem er úthlutað vegna ársins 2020, með breyttri hlutfallsskiptingu frá því sem nú er kveðið á um í 6.–11. gr. laga um listamannalaun, nr. 57/2009. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 37/2020, var framlagið ákveðið 250 millj. kr. þannig að á árinu 2020 hafa alls verið veitt 2.200 starfslaun, sbr. 10. gr. þeirra laga.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að við lög um listamannalaun, nr. 57/2009, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að samanlögðum starfslaunum árið 2021 verði fjölgað tímabundið úr 1.600 mánaðarlaunum í 2.150. Í könnun sem Bandalag íslenskra listamanna stóð að kom í ljós að allar listgreinar hafa orðið fyrir tjóni, en tónlistarflytjendur og sviðslistafólk sýnu mest. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir því að hlutfallsskipting starfslauna árið 2021 taki mið af þeim listgreinum sem harðast hafa orðið úti í heimsfaraldri kórónuveiru á árinu 2020. Lagt til að sviðslistafólk og tónlistarflytjendur njóti mestrar hlutfallslegrar hækkunar en að allar listgreinar njóti einnig hækkunar. Breyting á hlutfallsskiptingunni er unnin að höfðu samráði við Bandalag íslenskra listamanna. Hlutfallsskipting starfslauna og styrkja til listamanna árið 2021, skv. 6.–11. gr. laganna, verður því þannig að starfslaun og styrkir hönnuða munu svara til 75 mánaðarlauna; starfslaun og styrkir myndlistarmanna til 526 mánaðarlauna; starfslaun og styrkir rithöfunda til 646 mánaðarlauna; starfslaun og styrkir sviðslistafólks til 307 mánaðarlauna; starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda til 315 mánaðarlauna og starfslaun og styrkir tónskálda til 281 mánaðarlauna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til mats á samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Við vinnslu þessa frumvarps var stuðst við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2021 og unnið í samráði við Bandalag íslenskra listamanna.
    Í frumvarpinu er að finna breytingu á lögum um listamannalaun í tengslum við fjárlög fyrir árið 2021. Vegna eðlis málsins og tengsla við frumvarp til fjárlaga voru frumvarpsáform, frummat á áhrifum og frumvarpsdrög ekki sett í samráðsferli samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna, sbr. 9. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, þar sem kveðið er á um að heimilt sé að víkja frá þessu ef mál eru sérlega brýn eða aðrar gildar ástæður eru fyrir hendi. Sjá ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 1. gr., 2. málsl. 3. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. samþykktarinnar.

6. Mat á áhrifum.
    Gert er ráð fyrir að veita 225 millj. kr. tímabundið á árinu 2021 í launasjóð listamanna í ljósi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á sjálfstætt starfandi listamenn. Heildarkostnaður sem fellur á ríkissjóð kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Útgjaldabreytingar eru tímabundnar og eiga við eina úthlutun listamannalauna, sem fer fram í janúar ár hvert.
    Hvað varðar áhrif á jafnrétti kynjanna er listamannalaunum úthlutað af faglegum úthlutunarnefndum. Tölur og upplýsingar um fjölda karla og kvenna sem fá úthlutun liggja fyrir á vef Rannís. Viðbótarfjármagni samkvæmt frumvarpinu verður úthlutað eins og öðrum listamannalaunum með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.
    Um áhrif á lýðheilsu, stöðu tiltekinna þjóðfélagshópa og samfélagslegan ávinning mun aukinn fjöldi mánaðarlauna til listamanna bæta heilsu þeirra er njóta og bæta afkomu þeirra sem fá úthlutun.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Ákvæðinu er ætlað að breyta samanlögðum starfslaunum árið 2021 og miða þau við 2.150 mánaðarlaun.
    Skiptingin kemur fram í 1. efnismgr. þar sem lagt er til að starfslaun og styrkir hönnuða verði 75 mánaðarlaun í stað 50 sem er 50% hækkun, starfslaun og styrkir myndlistarmanna verði 526 mánaðarlaun í stað 435 sem er 21,1% hækkun, starfslaun og styrkir rithöfunda verði 646 mánaðarlaun í stað 555 sem er 16,4% hækkun, starfslaun og styrkir sviðslistafólks verði 307 mánaðarlaun í stað 190 sem er 61,5% hækkun, starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda verði 315 mánaðarlaun í stað 180 sem er 73,8% hækkun og að lokum verði starfslaun og styrkir tónskálda 281 mánaðarlaun í stað 190 sem er 48,4% hækkun.
    Tillagan byggist á því að hlutfallsskipting starfslauna árið 2021 taki mið af þeim listgreinum sem harðast hafa orðið úti í heimsfaraldri kórónuveiru á árinu 2020. Þannig verði hlutfallslega mest hækkun á starfslaunum og styrkjum til sviðslistafólks og tónlistarflytjenda, en aðrar listgreinar hækki einnig.

Um 2. gr.

    Lagt er til að við gildandi lög um listamannalaun bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Er það gert til að fjölga listamönnum á starfslaunum listamanna árið 2021 og bregðast þannig við þeim aðstæðum sem uppi eru í samfélaginu. Verði frumvarpið samþykkt er lagt til að lögin taki gildi í byrjun árs 2021.