Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 352  —  202. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Brynju Einarsdóttur og Þórarin Örn Þrándarson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
    Nefndinni bárust umsagnir frá STEF – sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Tónlistarborginni Reykjavík og ÚTÓN.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á einu skilyrða fyrir endurgreiðslu skilgreinds kostnaðar við útgáfu hljóðritunar á tónlist, sbr. 5. gr. laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. Innlendir og erlendir aðilar geta að skilyrðum uppfylltum sótt um endurgreiðslu kostnaðar sem fellur til við hljóðritun á tónlist hér á landi. Þá eru einnig endurgreidd 25% þess framleiðslukostnaðar sem fellur til á Evrópska efnahagssvæðinu ef meira en 80% framleiðslukostnaðar fellur til hér á landi.
    Eitt skilyrða endurgreiðslu er að samanlagður spilunartími tónlistar hljóðritana sé 30 mínútur, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. laganna. Með frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að nægilegt verði að spilunartíminn nái 14 mínútum. Viðmið endurgreiðsluhæfrar útgáfu verði því að lágmarki fjögur lög að meðallengd (4 x 3,5 mínútur). Breytingunni er ætlað að styðja við innlendan tónlistariðnað, útgefendur og listamenn með því að fjölga þeim hljóðritunum sem uppfylla skilyrði um spilunartíma.
    Þær umsagnir sem nefndinni bárust vegna málsins voru jákvæðar. Fram kom að sú breyting sem lögð er til með frumvarpinu er talin endurspegla þær breytingar sem hafa orðið á útgáfu tónlistar síðustu ár. Stytting spilunartíma geti einnig styrkt samkeppnisstöðu Íslands sem ákjósanlegs upptökustaðar fyrir erlent tónlistarfólk.
    Í umsögnum var jafnframt bent á að mikilvægt væri að skoða hvort hækka ætti endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35%. Með því væri kominn nægilegur hvati til að fá erlenda aðila til upptöku tónlistar hér á landi, auk þess sem slík hækkun mundi hvetja innlenda aðila til að nýta sér úrræðið í auknum mæli. Nokkur umræða varð um málið í nefndinni en í greinargerð frumvarpsins kom fram að tillaga um hækkun endurgreiðsluhlutfalls hefði komið fram í samráðsferli um frumvarpsdrögin. Ákveðið hefði verið að fara ekki þá leið að þessu sinni heldur frekar að stytta spilunartímann og koma þannig til móts við innlendan tónlistariðnað í ljósi breyttra aðstæðna. Með breytingunni væri líklegt að fleiri verkefni næðu viðmiðunarmörkum og að endurgreiðslur yrðu tíðari en ekki yrði þörf á viðbótarfjármagni þótt árleg heildarupphæð endurgreiðslu hækkaði lítillega í kjölfarið þar sem fjármunir ætlaðir til endurgreiðslu hafi hingað til ekki verið fullnýttir. Nefndin óskaði eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hve mikið viðbótarfjármagn þyrfti til að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35%. Fram kom að það sem af er ári 2020 hefur 29 millj. kr. verið ráðstafað til endurgreiðslu en samkvæmt fylgiriti fjárlaga sé gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs geti numið 54,5 millj. kr. Hefði endurgreiðsluhlutfall þessa árs verið 35% væri búið að ráðstafa 40,6 millj. kr. nú í byrjun nóvember. Fram kom að með erlendum aðilum sé í raun átt við erlend verkefni sem íslenskir aðilar standa að, t.d. hljóðritanir sem fara fram í innlendum hljóðverum. Forsendur vanti til að reikna áhrif þess á umsóknir innlendra og erlendra aðila ef endurgreiðsluhlutfallið væri hækkað í 35% frá árinu 2021. Ráðuneytið benti jafnframt á að málið verði skoðað í samhengi við skoðun á endurgreiðslum til kvikmyndagerðar í ráðuneytinu. Sú skoðun taki einhverja mánuði en geti gefið hugmynd um fjárhæðarmörk þegar kemur að endurgreiðslum vegna hljóðritunar á tónlist.
    Með vísan til þess að ráðuneytið mun taka til skoðunar hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna hljóðritunar á tónlist telur meiri hlutinn sér ekki fært að leggja til hækkun endurgreiðsluhlutfalls að svo stöddu. Meiri hlutinn hvetur til þess að slíkri endurskoðun verði hraðað og hlutfall endurgreiðslu hækkað gefi niðurstöður tilefni til þess.
    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016 (spilunartími).

Alþingi, 16. nóvember 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Halla Signý Kristjánsdóttir, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Haraldur Benediktsson. Njáll Trausti Friðbertsson.