Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 376  —  205. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978 (greiðslufrestun).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rún Knútsdóttur og Maríu Dungal frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Ólaf Sigurðsson og Helgu Láru Hauksdóttur frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Landssamtökum lífeyrissjóða og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 25/2020, sbr. lög nr. 82/2020, var m.a. samþykkt ákvæði til bráðabirgða við þinglýsingalög, nr. 39/1978, sem veitti viðauka við veðbréf sem kveður á um frestun greiðslna á skuldum einstaklinga eða fyrirtækja í allt að níu mánuði sömu réttaráhrif og ef honum væri þinglýst og hann samþykktur af síðari veðhöfum. Heimildin var áður bundin við að kröfuhafar skyldu þinglýsa viðaukanum fyrir 16. mars 2021. Með frumvarpinu er lagt til að kröfuhafar fái lengri frest til að þinglýsa viðaukum við veðbréf sem veita skuldara greiðslufrest á afborgunum og/eða vöxtum til allt að 18 mánaða fram til 16. maí 2021.
    Gestir voru samdóma um það að heimildin hafi nýst vel, bæði fyrir kröfuhafa og skuldara, og hafi leitt til einföldunar og meiri skilvirkni. Þá væri mikilvægt að framlengja frestinn, m.a. með hliðsjón af sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins.
    Meiri hlutinn áréttar að ekki er um íþyngjandi heimild að ræða og telur nauðsynlegt að kröfuhafar geti boðið upp á tímabundin úrræði fyrir skuldara til að mæta tímabundnum erfiðleikum vegna áhrifa heimsfaraldursins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Páll Magnússon var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. nóvember 2020.

Páll Magnússon,
form., frsm.
Guðmundur Andri Thorsson. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.