Ferill 328. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 384  —  328. mál.




Beiðni um skýrslu


frá heilbrigðisráðherra um liðskiptaaðgerðir.

Frá Ásmundi Friðrikssyni, Haraldi Benediktssyni, Bryndísi Haraldsdóttur, Brynjari Níelssyni, Jóni Gunnarssyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Páli Magnússyni, Vilhjálmi Árnasyni og Óla Birni Kárasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um liðskiptaaðgerðir og leiðir til úrbóta svo auka megi þjónustu við þá sem eru í brýnni þörf fyrir slíkar aðgerðir.
    Í skýrslunni komi eftirfarandi fram:
          Fjöldi þeirra sem bíða eftir því að komast í liðskiptaaðgerð auk upplýsinga um stöðu biðlista sl. 5 ár. Óskað er eftir því að upplýsingarnar verði sundurliðaðar með tilliti til þess hvort um er að ræða aðgerð á hné eða mjöðm.
          Hvaða sjúkrastofnanir taki að sér liðskiptaaðgerðir á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
          Reynsla af liðskiptaaðgerðum á sjúkrastofnunum á landsbyggðinni.
          Tillögur um hvernig stytta megi biðlista og tryggja skilvirkni með samningum við einkarekna heilbrigðisþjónustu.
          Sundurliðun kostnaðar vegna liðskiptaaðgerðar erlendis (aðgerðin, flug, hótel, dagpeningar fyrir sjúkling og aðstoðarmann og annar tilfallandi kostnaður).
          Ítarlegur samanburður á kostnaði vegna liðskiptaaðgerða sem framkvæmdar eru erlendis og kostnaði af aðgerðum sem hefði fallið til á síðustu árum ef Sjúkratryggingar Íslands væru með samning við einkarekna heilbrigðisþjónustu um liðskiptaaðgerðir hér á landi.
          Hvernig tryggja megi jafnt aðgengi sjúklinga að einkarekinni heilbrigðisþjónustu vegna liðskiptaaðgerða hér á landi.
          Tillögur um hvernig tryggja megi að liðskiptaaðgerðir falli ekki niður þegar neyðarástand skapast, eins og nú hefur gerst í kórónuveirufaraldrinum.

Greinargerð.

    Í mars 2016 samdi heilbrigðisráðuneytið við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir tilgreindum aðgerðum, þar á meðal liðskiptaaðgerðum. Var samið við Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og fyrirtækið Sjónlag hf. Samkvæmt frétt á vef Stjórnarráðsins frá 21. mars 2016 kom fram að markmiðið hefði verið að í lok átaksins þyrftu sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð. Embætti landlæknis var falið að efla umgjörð um biðlista þannig að ávallt lægju fyrir upplýsingar um biðtíma og fjölda þeirra sem bíða. Ríkisstjórnin samþykkti að verja 1,663 millj. kr. á árunum 2016–2018 til að stytta bið eftir aðgerðum. Í samningunum fólst að sérstaklega hefði verið samið um fjármuni til að framkvæma tilteknar aðgerðir umfram það sem stofnanirnar höfðu ráðgert miðað við rekstrarfé af fjárlögum. Með átakinu bættust við 530 aðgerðir, sem var 52% aukning milli ára.
    Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Landspítala hefur kórónuveiran (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum haft mikil áhrif á biðlistaátakið. Samningurinn kveður á um að árlega er samið um tiltekinn fjölda átaksaðgerða sem er umfram þann fjölda sem föst fjárveiting spítalans nær til og greitt er fyrir hverja átaksaðgerð. Þrátt fyrir að tekist hafi að vinna á biðlistum vegna samningsins kemur fram í upplýsingum Landspítala að ljóst sé þó að eftirspurn fari vaxandi og einstaklingum hafi fjölgað á biðlistum sl. tvö ár átaksins. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Landspítala bætast að meðaltali um 80 nýir sjúklingar á biðlista liðskiptaaðgerða hvern mánuð. Vegna COVID-19 þurfti að stöðva allar valkvæðar skurðaðgerðir sl. vor og aftur í haust. Í ár hafi verið unnið sérstaklega í því að stytta bið eftir göngudeildartíma þar sem endanlegt mat fyrir aðgerð fer fram. Sá biðtími hafi styst um nokkra mánuði en að sama skapi aukist fjöldi þeirra sem komnir eru á biðlistann. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsi Akureyrar og Heilbrigðisstofnun Vesturlands hafa einnig orðið tafir vegna liðskiptaaðgerða sem framkvæmdar eru þar vegna COVID-19.
    Umræddur átakssamningur hefur, að mati skýrslubeiðenda, skilað góðum árangri með styttingu á biðtíma eftir aðgerð sé horft til viðmiðunarmarka sem embætti landlæknis hefur sett varðandi bið eftir aðgerð sem eru 90 dagar. Ljóst er þó, samkvæmt sömu upplýsingum frá Landspítala, að eftirspurn fer vaxandi og einstaklingum hefur fjölgað á biðlistum sl. tvö ár.
    Skýrslubeiðendur telja mikilvægt að draga fram þróun og stöðu biðlista eftir liðskiptaaðgerðum hér á landi og alla kosti í stöðunni svo að hægt sé að meta næstu skref. Skýrsla af þessu tagi yrði mikilvægt innlegg í stefnumótun til framtíðar í þessum efnum til að hægt sé að mæta fólki í brýnni þörf með fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu.