Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 396  —  174. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um einangrun fanga.


     1.      Við hvaða skilgreiningu á einangrun er stuðst í réttarvörslukerfinu?
    Í lögum um meðferð sakamála og í lögum um fullnustu refsinga er að finna heimild til beitingar einangrunar. Annars vegar lýtur heimildin að sakborningum sem úrskurðaðir eru í gæsluvarðhald og hins vegar að föngum sem beittir eru agaviðurlögum. Gera þarf skýran greinarmun á einangrun gæsluvarðahaldsfanga samkvæmt skilyrðum laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og einangrun sem agaviðurlög vegna brota fanga á agareglum fangelsa samkvæmt lögum nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Ólík sjónarmið liggja að baki þessum heimildum. Ekki er að finna sérstaka skilgreiningu á hugtakinu einangrun í framangreindum lögum. Á vefsíðu Fangelsismálastofnunar er einangrun lýst á þann veg að þá sé fangi mestallan sólarhringinn lokaður inni í fangaklefa. Fangi er látinn vera í einrúmi, þ.e. að hafa ekki samskipti við aðra fanga og fær ekki heimsóknir. Honum er þó heimilt að vera í samskiptum við lögmann, lögreglu, fangaverði og heilbrigðisstarfsfólk.
    Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála verður sakborningur aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald ef rökstuddur grunur er um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Þar að auki verður eitthvert skilyrða a–d-liðar 1. mgr. 95. gr. að vera fyrir hendi. Gæsluvarðhald skal ákveðið með úrskurði dómara, þar sem því skal markaður ákveðinn tími sem má ekki vera lengur en 4 vikur í senn, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga um meðferð sakamála, og að öllu jöfnu að hámarki 12 vikur nema ákæra hafi verið gefin út. Í 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála er að finna reglur um tilhögun gæsluvarðhalds. Þar er m.a. að finna ákvæði um rétt gæslufanga til að fá heimsóknir, nota síma eða önnur fjarskiptatæki og senda og taka við bréfum og öðrum skjölum. Þá mega gæslufangar fá heimsóknir, lesa dagblöð og bækur, svo og fylgjast með hljóðvarpi og sjónvarpi og eftir því sem unnt er er þeim heimilt að útvega sér vinnu meðan á gæsluvarðhaldi sendur. Réttindi þessi geta sætt takmörkunum vegna rannsóknarhagsmuna, einkum í upphafi gæsluvarðhalds, eins og fram kemur í c-, d- og e-liðum 1. mgr. 99. gr. laganna. Þá verða gæsluvarðhaldsfangar ekki látnir vera í einrúmi nema samkvæmt úrskurði dómara, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laganna og skal slíkur úrskurður rökstuddur sérstaklega. Í einrúminu felst að viðkomandi er vistaður einn í klefa og fær ekki að hafa samskipti við aðra fanga eða fá heimsóknir. Þó á sá sem vistaður er í gæsluvarðhaldi ávallt rétt á að hafa samband við verjanda sinn og heilbrigðisstarfsfólk. Ekki má úrskurða hann til að sæta einangrun nema hún sé nauðsynleg þar sem ætla má að hann muni torvelda rannsókn málsins eða til að verja aðra fyrir árásum hans eða verja hann fyrir árásum annarra. Þá má einangrun ekki standa lengur en 4 vikur nema brot varði 10 ára fangelsi.
    Í 1. mgr. 74. gr. laga um fullnustu refsinga er mælt fyrir um tegundir agaviðurlaga við agabrotum fanga. Ein tegund agaviðurlaga er einangrun í allt að 15 daga. Aðeins er heimilt að beita einangrun sem agaviðurlögum vegna tiltekinna brota á reglum fangelsis, þ.e. vegna stroks, smygls, vörslu eða neyslu áfengis, ólöglegra lyfja eða fíkniefna, vörslu vopna, ofbeldis eða hótunar um ofbeldi gegn öðrum föngum eða starfsmönnum, grófra skemmdarverka eða annarra grófra eða endurtekinna minni háttar brota. Áður en ákvörðun er tekin um agaviðurlög skulu málsatvik rannsökuð og skal fanga gefinn kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma sjónarmiðum sínum um þau á framfæri. Ákvörðun um agaviðurlög skal rökstudd, bókuð og birt fanga í viðurvist vitnis. Ákvörðun um agaviðurlög er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og ber forstöðumanni fangelsis að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við ákvörðun um agaviðurlög. Ef fangi er látinn sæta einangrun nýtur hann annarra réttinda á meðan, en hins vegar er heimilt að beita fanga fleiri en einni tegund agaviðurlaga samtímis. Föngum er þó alltaf leyft að hafa sjónvarp hjá sér og fá til sín blöð og tímarit en skv. 51. gr. laga um fullnustu refsinga skal fangi að jafnaði eiga kost á að fylgjast með gangi þjóðmála með lestri dagblaða í gegnum útvarp og sjónvarp. Þeim er einnig alltaf heimilt að hringja í ákveðin símanúmer, svo sem í opinberar stofnanir og til lögmanns.

     2.      Telst þriggja mánaða dvöl fanga á öryggisdeild án samneytis við aðra fanga vera einangrun?
    Samkvæmt 5. mgr. 21. gr. laga um fullnustu refsinga er forstöðumanni heimilt í öryggisskyni eða vegna sérstakra aðstæðna að flytja fanga á milli deilda og klefa fangelsis. Ekki er skylt að gefa fanga kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin en gæta skal hagsmuna fangans í því sambandi.
    Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um fullnustu refsinga er heimilt er að skipta fangelsum upp í deildir, svo sem gæsluvarðhaldsdeildir, öryggisdeildir og meðferðardeildir. Á öryggisdeild fangelsis er unnt að vista fanga sem hafa gerst sekir um alvarleg eða ítrekuð agabrot, eru taldir stefna öryggi fangelsisins í hættu eða geta ekki vistast með öðrum föngum vegna hegðunar sinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar um fullnustu refsinga. Skv. 4. gr. reglugerðarinnar tekur forstöðumaður viðkomandi fangelsis ákvörðun um að vista skuli fanga á öryggisdeild. Slíka ákvörðun skal rökstyðja skriflega og bóka. Vistun á öryggisdeild er óheimilt að ákvarða í lengri tíma en þrjá mánuði í senn.
    Um réttindi og skyldur fanga sem vistast á öryggisdeild kemur fram í 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsinga að stundi fangi sem vistaður er á öryggisdeild vinnu eða nám skuli sú starfsemi að jafnaði fara fram á öryggisdeild. Enn fremur skal útivera og tómstundir fanga á öryggisdeild að jafnaði fara fram á öðrum tíma en útivera og tómstundir annarra fanga. Samskipti við fanga utan öryggisdeildar eru ekki heimil nema með heimild forstöðumanns. Skulu samskipti þá að jafnaði fara fram í gegnum bréfaskipti. Að öðru leyti fer um réttindi og skyldur fanga sem vistaður er á öryggisdeild eftir lögum um fullnustu refsinga, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnusturefsingar. Í 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að forstöðumaður fangelsis skuli þegar fangi er vistaður á öryggisdeild tilkynna lækni um vistunina. Læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður, svo sem sálfræðingur eða hjúkrunarfræðingur, skal hafa reglulegt eftirlit með fanganum. Vistun á öryggisdeild hefur í för með sér takmörkun á samskiptum og samvistum við aðra fanga og er eðli málsins samkvæmt því meira íþyngjandi eftir því sem hún varir lengur og getur haft áhrif á líkamlegt og andlegt heilbrigði annars vegar og félagsleg samskipti og færni hins vegar, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7590/2013. Af þessum sökum er m.a. sérstaklega kveðið á um í 6. gr. reglugerðar um fullnustu refsinga að þegar fangi er vistaður á öryggisdeild skuli tilkynna lækni um vistunina. Í slíkum tilvikum hittir heilbrigðisstarfsmaður fanga á öryggisdeild að lágmarki vikulega en yfirleitt oftar. Læknum fangelsisins er ávallt kunnugt um vistun fanga á öryggisdeild og hafa eftirlit með fanganum. Læknar eiga kost á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi hæfi fanga til að vistast á öryggisgangi og taka fangelsisyfirvöld tillit til þeirra. Fangar á öryggisdeild hafa aðang að íþróttahúsi eða æfingasal. Aðgang að útivistargarði við öryggisgarð, ótakmarkaðan og gjaldfrjálsan aðgang að síma og sjónvarp í klefa. Fangaverðir eiga í daglegum samskiptum við fanga á öryggisdeild og óska eftir aðstoð fyrir fanga ef þörf krefur.

     3.      Fór fram könnun á mögulegum andlegum afleiðingum allt að þriggja mánaða einangrunarvistunar á öryggisdeild áður en reglur um slíkar deildir voru settar, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 240/2018 um fullnustu refsinga?
    Áður en kveðið var á um vistun á öryggisdeild í reglugerð um fullnustu refsinga nr. 240/2018 voru í gildi sérstakar reglur um vistun á öryggisdeild. Þær voru fyrst settar árið 1995 og tóku nokkrum breytingum eftir það, sbr. reglur frá 6. júní 2012 sem síðan voru leystar af hólmi með reglum frá 1. júní 2016. Þær reglur voru settar með heimild í 3. mgr. 98. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Ákvörðun um vistun á öryggisdeild er byggð á 5. mgr. 21. gr. laga um fullnustu refsinga.
    Reglurnar kveða á um málsmeðferð við ákvarðanatöku um vistun fanga á öryggisdeild og um þau réttindi fanga sem þar eru vistaðir, svo sem varðandi heimsóknir, útivist, nám og vinnu og nánari tilhögun þeirra. Sérstaklega er kveðið á um í reglunum að ákvörðun um vistun á öryggisdeild sé tímabundin, að hámarki 3 mánuðir í senn. Reglugerð um fullnustu refsinga hefur ekki að geyma ákvæði um hámark samfelldrar vistunar á öryggisdeild. Fangelsisyfirvöldum ber hins vegar að meta stöðugt þörfina á að vista fanga á öryggisdeild þannig að vistunin verði aldrei lengri en þörf er á þó að hámarki megi hún vera allt að 3 mánuðir í senn. Heimild til vistunar fanga á öryggisgangi er yfirleitt nýtt í mun skemmri tíma en þrjá mánuði og er aflétt um leið og aðstæður leyfa. Samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar skulu fangelsisyfirvöld ávallt gæta þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til og því er vistun á öryggisdeild á aflétt þegar það er talið öruggt.

     4.      Telur ráðherra tímabært að endurskoða reglur um vistun á öryggisdeild?
    Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 7590/2013 kom m.a. fram að vistun fanga á öryggisdeild geti verið afar þungbær og mæltu hagsmunir fanga með því að slíkri vistun væri búinn traustur og vandaður grundvöllur í lögum. Taldi umboðsmaður mikilvægt að hugað yrði að tilteknum atriðum við ákvörðun um og framkvæmd vistunar á öryggisdeild í reglugerð sem ráðherra setti á grundvelli laga um fullnustu refsinga. Með reglugerð nr. 240/2018 um fullnustu refsinga voru gerðar þær breytingar að nú er kveðið sérstaklega á um ákvörðunartöku og réttindi og skyldur fanga á öryggisdeild. Þar er m.a. kveðið á um að þegar fangi er vistaður á öryggisdeild skuli tilkynna lækni um vistunina og að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður, svo sem sálfræðingur eða hjúkrunarfræðingur, hafi reglulegt eftirlit með líkamlegri og andlegri heilsu fanga. Var þetta ákvæði sett til að gæta hagsmuna þeirra sem vistaðir eru á öryggisdeild því mikilvægt er að fangar í slíkri stöðu njóti aðstoðar heilbrigðisstarfsfólks og stuðnings fagfólks. Þekkt er að fangelsisvist geti haft neikvæð áhrif á þá sem henni sæta og getur vistun á öryggisdeild reynst mörgum þungbær. Var því slíkt haft að leiðarljósi við setningu reglna og síðar reglugerðar um vistun á öryggisdeild. Með vísan til þeirra breytinga sem gerðar voru með greindri reglugerð telur ráðherra að framkvæmdin hafi breyst mjög til batnaðar en hefur falið ráðuneytinu að skoða hvort ástæða kunni að vera til að setja nánari ákvæði um vistun fanga á öryggisdeild í lög um fullnustu refsinga, nr. 15/2016.