Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 418  —  344. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum (stjórnsýsla neytendamála).

Frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.


I. KAFLI

Breyting á lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005.

1. gr.

    Orðin „vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði“ í 1. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Neytendastofa skal annast framkvæmd laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu svo sem nánar er kveðið á um í þeim lögum. Þá skal Neytendastofa leysa af hendi þau verk sem henni eru falin í öðrum lögum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins“ í a-lið kemur: viðskiptaháttum og markaðssetningu.
     b.      B-liður fellur brott.

II. KAFLI

Breyting á lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019.

4. gr.

    Á eftir orðinu „rafmagnsöryggismála“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: mælifræði, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu.

5. gr.

    Á eftir orðunum „tengjast orkunotkun“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

III. KAFLI

Breyting á lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995.

6. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 7. gr. laganna kemur: Faggildingarsvið Hugverkastofunnar.

7. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 11. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

8. gr.

    19. gr. a laganna orðast svo:
    Ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður nefndarinnar liggur fyrir. Ef aðili unir ekki úrskurði nefndarinnar getur hann höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Höfða skal mál innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar eða heimild til aðfarar. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer að öðru leyti samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

IV. KAFLI

Breyting á vopnalögum, nr. 16/1998.

9. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 10. mgr. 32. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. a laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                      Ákvörðunum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður nefndarinnar liggur fyrir. Ef aðili unir ekki úrskurði nefndarinnar getur hann höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Höfða skal mál innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar eða heimild til aðfarar. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer að öðru leyti samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
     b.      5. mgr. fellur brott.

V. KAFLI

Breyting á lögum um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002.

11. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofu“ í 2. tölul. 2. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                      Ákvörðunum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður nefndarinnar liggur fyrir. Ef aðili unir ekki úrskurði nefndarinnar getur hann höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Höfða skal mál innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar eða heimild til aðfarar. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer að öðru leyti samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
     b.      5.–7. mgr. falla brott.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006.

13. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

14. gr.

    38. gr. a laganna orðast svo:
    Ákvörðunum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður nefndarinnar liggur fyrir. Ef aðili unir ekki úrskurði nefndarinnar getur hann höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Höfða skal mál innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar eða heimild til aðfarar. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer að öðru leyti samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

15. gr.

    Í stað orðanna „áfrýjunarnefndar neytendamála“ í 1. og 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. og 3. mgr. 40. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018.

16. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 13. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

17. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Ákvörðunum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laga þessara sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðun verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður nefndarinnar liggur fyrir. Ef aðili unir ekki úrskurði nefndarinnar getur hann höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Höfða skal mál innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar eða heimild til aðfarar. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer að öðru leyti samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019.

18. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Póst- og fjarskiptastofnun.

19. gr.

    2.–4. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

20. gr.

    Í stað orðanna „áfrýjunarnefndar neytendamála“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. og 2. og 4. mgr. 7. gr. laganna kemur: úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

21. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í frumvarpinu eru gerðar tillögur til breytinga á lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005, lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019, og lögum sem Neytendastofa annast framkvæmd á, á sviði vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði. Lagt er til að stjórnsýsluverkefni á sviði vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði verði færð frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þá er lagt til að stjórnsýsluverkefni á sviði rafrænnar auðkenningar og traustþjónustu verði færð til Póst- og fjarskiptastofnunar.
    Starfshópur var stofnaður þann 7. september 2020 til að meta áhrif breytingatillagnanna á starfsemi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Neytendastofu. Í starfshópnum sátu fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Neytendastofu. Starfshópurinn lauk störfum í október 2020.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Stjórnsýsluverkefni Neytendastofu.
    Með lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005, var Neytendastofu komið á fót með sameiningu Löggildingarstofu og markaðssviðs Samkeppnisstofnunar. Neytendastofa er ríkisstofnun og heyrir undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Stofnunin sinnir margvíslegum stjórnýsluverkefnum á sviði neytendamála, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði, svo sem nánar er kveðið um í lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005, sbr. 1. gr. laganna. Neytendastofa annast framkvæmd laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, svo sem nánar er kveðið á um í þeim lögum. Neytendastofa hefur einnig yfirumsjón með lögmælifræði og hagnýtri mælifræði og sér um framkvæmd laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006. Neytendastofa leysir einnig af hendi verkefni sem henni eru falin í nokkrum fjölda annarra laga. Ákvörðunum Neytendastofu má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um Neytendastofu, nr. 62/2005.

Mælifræði.
    Neytendastofa fer með almenna kvörðunarþjónustu, eftirlit með mælitækjum og löggildingu vigtarmanna. Með almennri kvörðunarþjónustu er átt við varðveislu og viðhald miðlægra mæligrunna og kvarðanir og mælingar sem á þeim byggja. Með eftirliti með mælitækjum er átt við löggildingu mælitækja, reglubundið eftirlit (endurlöggildingu) og ýmislegt annað eftirlit, svo sem með gæðakerfum og forpökkuðum vörum. Neytendastofa sér einnig um menntun og löggildingu vigtarmanna og sviptingu löggildingar.
    Ný mælitæki er frjálst að setja á markað á EES-svæðinu ef þau uppfylla grunnkröfur til mælitækja samkvæmt þeim EES-gerðum sem um þau gilda. Eftir að tilskipun 2014/32/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða mælitæki fram á markaði, sbr. reglugerð nr. 876/2016 um mælitæki, var innleidd hér á landi þarf ekki lengur samþykki eða löggildingu Neytendastofu til að bjóða mælitæki fram á markaði. Í stað þess hefur Neytendastofa markaðseftirlit með því að innflutt mælitæki eða mælitæki framleidd hér á landi uppfylli grunnkröfur tilskipunarinnar. Undir tilskipunina falla eftirfarandi mælitæki: vatnsmælar, gasmælar og búnaður til að reikna rúmmál, raforkumælar, varmaorkumælar, mælikerfi fyrir samfellda og sívirka mælingu á magni vökva annarra en vatns, sjálfvirkar vogir, gjaldmælar leigubifreiða, mæliáhöld, víddamælitæki og greiningartæki fyrir útblástursloft.
    Aðildarríki hafa forræði á að kveða á um lögmælifræðilegt eftirlit með mælitækjum sem eru í notkun til þess að standa vörð um almannaheill, lýðheilsu, almannaöryggi, allsherjarreglu, umhverfisvernd, neytendavernd, skatt- og gjaldheimtu eða góða viðskiptahætti. Hér á landi er slíkt eftirlit í formi svokallaðrar löggildingar mælitækja, sbr. ákvæði laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn. Staðfesta skal með löggildingu að mælitæki í notkun uppfylli kröfur sem gerðar eru til þeirra samkvæmt viðeigandi stöðlum. Löggilding hefur jafnan ákveðinn gildistíma sem fer eftir gerð mælitækis. Að loknu löggildingartímabili er skylt að endurlöggilda mælitæki. Eigandi mælitækja eða ábyrgðaraðili mælinga getur þó óskað samþykkis Neytendastofu fyrir því að gæðakerfi eða önnur tilhögun formlegs innra eftirlits verði tekin gild í stað löggildingar. Nokkrir aðilar hafa þegar fengið slíkt samþykki stofnunarinnar. Samkvæmt lögunum er faggiltri skoðunarstofu heimilt, að fengnu starfsleyfi eða umboði frá Neytendastofu, að annast skoðanir, rannsóknir, eftirlit og úttektir á sviði markaðseftirlits eða löggildingu mælitækja samkvæmt samningi sem gerður er til lengri eða styttri tíma. Nokkrar skoðunarstofur sinna nú eftirliti í umboði Neytendastofu.
    Kvörðun mælitækja er grunnþjónusta til að viðhalda réttum eiginleikum mælitækja í notkun. Kvörðun tryggir og staðfestir að mælingar séu nákvæmar og áreiðanlegar og fer hún fram með samanburði mælitækis við annað mælitæki sem hefur þekkta eða viðurkennda eiginleika. Samkvæmt lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn er Neytendastofu heimilt að starfrækja faggilta kvörðunarþjónustu fyrir atvinnulífið. Í samræmi við þá heimild rekur Neytendastofa kvörðunarþjónustu fyrir ýmis mælitæki.
    Neytendastofa sér einnig um menntun og löggildingu vigtarmanna í samræmi við ákvæði laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn. Löggiltur vigtarmaður ber ábyrgð á vigtun sem hann vottar í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni. Í því felst að löggiltur vigtarmaður skal sjálfur vera viðstaddur vigtun, hann tryggir alla framkvæmd hennar og staðfestir hana með undirritun sinni á vigtarvottorð sem hann ber ábyrgð á í samræmi við lög og reglur settar samkvæmt þeim. Sem dæmi má nefna að löggiltir vigtarmenn sjá um vigtun sjávarafla. Fullgilt vottorð löggilts vigtarmanns er sönnun um þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið.

Markaðseftirlit á sviði neytendaréttar.
    Neytendastofa fer með eftirlit með ýmsum lögum á sviði neytendaréttar og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Nánar tiltekið fer stofnunin með eftirlit með ákvæðum eftirfarandi laga:
     1.      Laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið nr. 34/1944. Neytendastofa hefur eftirlit með notkun almenna þjóðfánans skv. 2.–10. mgr. 12. gr. laganna.
     2.      Laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002. Neytendastofa hefur eftirlit með að farið sé eftir 6.–7. gr. og 9.–11. gr. laganna.
     3.      Laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Neytendastofa, undir yfirstjórn ráðherra, fer með eftirlit samkvæmt lögunum einkum í þágu neytenda.
     4.      Laga um þjónustuviðskipti á innri markaðnum, nr. 76/2011. Neytendastofa hefur eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laganna og annast aðstoð við viðtakendur þjónustu skv. 16. gr. laganna.
     5.      Laga um neytendalán, nr. 33/2013. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laganna.
     6.      Laga um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl., nr. 120/2013. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laganna og reglna settra á grundvelli þeirra.
     7.      Laga um neytendasamninga, nr. 16/2016. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laganna og reglna settra á grundvelli þeirra.
     8.      Laga um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016. Neytendastofu er falið að hafa eftirlit með ákvæðum laganna er varða markaðssetningu og upplýsingagjöf til neytenda, sbr. XV. kafla laganna.
     9.      Laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum I.–VI. og VIII. kafla laganna og reglna settra á grundvelli þeirra.
     10.      Laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Neytendastofa hefur eftirlit með því að seljendur fullnægi upplýsingaskyldu skv. 6. og 7. gr. laganna.

Vöruöryggi og tengd verkefni.
    Neytendastofa sinnir almennu markaðseftirliti með öryggi leiktækja, leikfanga, persónuhlífa til einkanota og almennrar framleiðsluvöru sem fellur ekki undir eftirlit annarra stjórnvalda á sviði vöruöryggis. Þá hefur Neytendastofa einnig eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk samkvæmt nokkrum sérlögum sem heyra undir dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Neytendastofa gegnir auk þess lykilhlutverki sem samræmingaraðili eftirlitsstjórnvalda sem sinna eftirliti með vöruöryggi. Helstu stofnanir sem sinna slíku eftirliti eru Vinnueftirlitið, Samgöngustofa, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Lyfjastofnun og Matvælastofnun.
    Nánar tiltekið fer Neytendastofa með markaðseftirlit samkvæmt lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Neytendastofa fer einnig með eftirlit með hreinleika eðalmálma samkvæmt lögum um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þá er Neytendastofa lögbært yfirvald og hefur eftirlit með traustþjónustuveitendum samkvæmt lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Framangreind lög heyra undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
    Auk framangreinds er Neytendastofu falið að sjá um framkvæmd og viðtöku tæknilegra tilkynninganna til Eftirlitsstofnunar EFTA í umboði utanríkisráðherra samkvæmt lögum um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, nr. 57/2000, á grundvelli þjónustusamnings og samkvæmt reglugerð um tilkynningar á tæknilegum reglum um vörur og fjarþjónustu, nr. 733/2000. Neytendastofa hefur auk þess eftirlit með rafrettum og öryggi þeirra samkvæmt lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018, og reglugerðum settum samkvæmt þeim en lögin heyra undir heilbrigðisráðherra. Þá hefur Neytendastofa eftirlit með öryggi skotelda skv. VI. kafla vopnalaga, nr. 16/1998, og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Lögin heyra undir dómsmálaráðherra.

2.2. Stofnun Neytendastofu og síðari breytingar á starfsemi stofnunarinnar.
    Með lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005, var kveðið á um að Neytendastofa skyldi starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu, mælifræði, faggildingar og rafmagnsöryggismála svo sem nánar væri kveðið á um í lögum. Samhliða var sett á fót embætti talsmanns neytenda og var hlutverk hans að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd. Helsta markmiðið með því að setja Neytendastofu á fót var að efla starf að neytendamálum og þar með auka neytendavernd. Talið var að þau verkefni sem heyrðu undir Neytendastofu snertu öll hagsmuni neytenda með einum eða öðrum hætti. Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins auk opinberrar markaðsgæslu og eftirlits með öryggi vöru væru þeir málaflokkar sem augljóslega teldust til neytendamála en talið var að mælifræði og málefni rafmagnsöryggis varði einnig hagsmuni neytenda og ætti því vel heima hjá Neytendastofu.
    Frá stofnun Neytendastofu hafa nokkrar breytingar orðið á starfsemi stofnunarinnar. Með lögum um faggildingu o.fl., nr. 24/2006, voru málefni faggildingar færð frá Neytendastofu til faggildingarsviðs Einkaleyfastofu (nú Hugverkastofu). Meginástæða þeirrar breytingar var að tryggja faglegt sjálfstæði faggildingarstofu á Íslandi, einkum gagnvart þeim aðilum sem byggja á þjónustu faggildingarstofa. Neytendastofa noti faggildar stofur til að sinna tæknilegu eftirliti í sínu umboði á sviði rafmagnsöryggis, markaðseftirlits og lögmælifræði auk þess að reka kvörðunarþjónustu. Nauðsynlegt væri því að staðsetja faggildingarstofu annars staðar en hjá Neytendastofu vegna kröfu um hlutleysi.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar, nr. 29/2009, voru málefni rafmagnsöryggis bygginga færð frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar (nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun). Ástæða breytinganna var sú að talið var að verkefnin féllu mun betur að þeim verkefnum sem tilheyrðu Brunamálastofnun heldur en Neytendastofu þar sem rafmagnsöryggi bygginga tengdist óhjákvæmilega brunavörnum. Með lögunum var markaðseftirlit með rafföngum hins vegar skilið eftir hjá Neytendastofu þar sem það þótti snúa að neytendum.
    Með lögum um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005, með síðari breytingum (talsmaður neytenda o.fl.) var embætti talsmanns neytenda lagt niður. Tilgangur breytinganna var fyrst og fremst hagræðing og einföldun. Talið var að tilhögunin um sjálfstætt embætti talsmanns neytenda væri ekki í samræmi við skipulag neytendamála annars staðar á Norðurlöndum auk þess sem vísað var til skýrslu þriggja stofnana Háskóla Íslands, sem gefin var út í maí 2008 undir heitinu Ný sókn í neytendamálum, þar sem talið var að fyrirkomulagið væri til þess fallið að skapa nokkurn rugling og að skynsamlegra virtist að stefna að því að reka eina og sterka opinbera stofnun á sviði neytendamála.
    Með lögum um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar, nr. 39/2014, var eftirlit með rafföngum endanlega fært frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar. Ástæðan var sú að talið var að aðskilnaður eftirlits með rafföngum eftir því hvort þau eru varanlega tengd mannvirkjum eða ekki ætti sér enga hliðstæðu í öðrum löndum og leiddi af sér mörg álitaefni og vafamál. Auk þess var vísað til óháðrar úttektar þar sem mælt var með því að verkefnin flyttust til einnar stofnunar, þ.e. Mannvirkjastofnunar og skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2008 þar sem m.a. var lagt til að verkefni sem mælifræðisvið og öryggissvið Neytendastofu önnuðust yrðu ekki á forræði stofnunar sem starfaði að neytendamálum.
    Auk framangreindra breytinga hefur Neytendastofu einnig verið falin framkvæmd ýmissa laga og verkefna á málefnasviðum annarra ráðuneyta. Með lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018, var Neytendastofu falið að hafa markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum fyrir þær. Í frumvarpi til laganna kom fram að skynsamlegast sé talið að sú stofnun sem hefði almennt eftirlit með vörum á markaði hefði einnig eftirlit með rafrettum og áfyllingum. Þá væri Neytendastofa vel í stakk búin til að tileinka sér þá staðla sem settir verða með afleiddum Evrópugerðum um rafrettur og áfyllingar.
    Með lögum um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, með síðari breytingum (skoteldar, EES-reglur, stórfelld brot) var Neytendastofu falið að hafa markaðseftirlit með skoteldum. Í frumvarpi til laganna kom fram að Neytendastofa ynni nú þegar að flestum þeim markaðseftirlitsverkefnum sem kveðið er á um í tilskipunum sem í gildi eru í Evrópusambandinu og teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Eðlilegt væri að nýta sérhæfingu stofunnar að þessu leyti og markaðseftirlit með skoteldum geti fallið vel að kjarnastarfsemi Neytendastofu á sviði markaðseftirlits og öryggis vöru.

2.3. Endurskoðun á stjórnsýslu neytendamála hjá Neytendastofu.
    Frumvarpið er fyrsta skrefið í endurskoðun á því fyrirkomulagi neytendamála sem komið var á með lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005. Með endurskoðuninni er stefnt að því að færa verkefni Neytendastofu nær kjarnastarfsemi í öðrum stofnunum og þangað sem faglegur skyldleiki og samlegð er meiri. Í stað einnar miðlægrar ríkisstofnunar sem fari með verkefni er varði hagsmuni neytenda með einum eða öðrum hætti er stefnt að því að færa verkefnin til annarra viðeigandi stofnana. Markmið endurskoðunarinnar er að fækka ríkisstofnunum og auka skilvirkni og hagkvæmni eftirlits í þágu atvinnulífs og neytenda. Neytendastofa er lítil stofnun og fjöldi ríkisstofnana er hér á landi og ætti fækkun stofnana að öllu jöfnu að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni. Sameining stofnana eykur bolmagn vegna meiri sérhæfingar sem eykur fagmennsku og hækkar þekkingarstig. Ástæður endurskoðunarinnar eru nánar tiltekið eftirtaldar:
    Neytendamál eru dreifð víða um stjórnkerfið. Fjöldi ríkisstofnana á ólíkum málefnasviðum sinnir eftirliti og öðrum stjórnsýsluverkefnum sem eru til hagsbóta fyrir neytendur með einum eða öðrum hætti. Þá getur stefnumótun stjórnvalda varðað neytendur með ýmsu móti og sem talist getur til neytendamála. Ýmis málefni má telja til neytendamála, svo sem reglur um orkunýtni, orkumerkingar, endurvinnslu, umhverfismerkingar, fjarskiptamál, matvælaöryggi, matvælamerkingar, öryggi lyfja, lyfjamerkingar, snyrtivörur, öryggi farartækja, öryggi húsnæðis og mannvirkja, öryggi geisla og leysitækja og sólarlampa. Ýmis önnur mál er jafnframt hægt að telja til neytendamála í víðari skilningi. Til dæmis má nefna lánakjör eða skattlagningu á vöru og þjónustu. Neytendastofa fer því ekki nema með hluta þeirra verkefna innan stjórnkerfisins sem talist geta til neytendamála í víðari skilningi.
    Þrátt fyrir heiti Neytendastofu þá sinnir stofnunin að miklum hluta öðrum þáttum en þeim sem snúa með beinum hætti að neytendavernd. Neytendaréttarsvið stofnunarinnar sinnir eftirliti með hinni eiginlegu neytendaréttarlöggjöf. Þau verkefni sem öryggissvið og mælifræðisvið stofnunarinnar sinna varða neytendur hins vegar ekki með beinni hætti en ýmislegt annað eftirlit á vegum hins opinbera. Fjöldi ólíkra stofnana sinnir t.d. markaðseftirliti með öryggi vöru sem beint eða óbeint varðar hagsmuni og öryggi neytenda. Hér má nefna Vinnueftirlitið, Samgöngustofu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Lyfjastofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, Matvælastofnun og Geislavarnir ríkisins. Oftast er um að ræða eftirlit sem byggir á svokölluðum nýaðferðatilskipunum Evrópusambandsins og stöðlum. Þá teljast mælifræðiverkefni almennt ekki til hefðbundinna neytendamála þótt sum þeirra geti varðað hagsmuni neytenda með óbeinum hætti. Stór hluti mælifræðilegs eftirlits og kvarðana varðar mælitæki sem notuð eru í atvinnulífinu, svo sem eins og í iðnaði eða sjávarútvegi.
    Stjórnsýsluverkefni á sviði mælifræði, neytendaréttar og vöruöryggis eru ólík, þ.e. þau hafa ólíkan efnisrétt og markmið og ólíka aðferðafræði. Eftirlit með gagnsæi markaðarins og óréttmætum viðskiptaháttum hefur fyrst og fremst hagfræðileg markmið. Í fyrsta lagi er markmiðið að tryggja að neytendur hafi sem fullkomnastar upplýsingar (gagnsæi markaðarins). Því fullkomnari sem upplýsingagjöf er til neytenda þeim mun meiri líkur eru á að þeir taki rökréttar og hagfelldar ákvarðanir sem skilar sér í virkari samkeppni á markaðnum um verð og gæði vöru. Í öðru lagi er markmiðið að vernda neytendur og auka þannig sjálfstraust þeirra sem virkir þátttakendur í markaðshagkerfinu. Þannig aukast líkur á að neytendur kaupi vörur og þjónustu sem er til þess fallið að auka hagvöxt. Eftirlit á sviði neytendaréttar er fyrst og fremst lögfræðilegt. Eftirlit með öryggi vöru hefur það markmið að vernda líf og heilsu neytenda. Verkefnin byggja fyrst og fremst á grunni nýaðferðatilskipana Evrópusambandsins, þ.e. stöðlum, samræmismati og prófunum. Mælifræðilegt eftirlit og kvarðanir hafa það markmið að tryggja nákvæmni mælitækja. Mælifræði er fyrst og fremst raungreinafag en byggir einnig á grunni faggildra skoðunarstofa og prófana. Sé litið til fyrirmynda í nágrannaríkjunum er fáheyrt að mælifræðiverkefni séu í sömu stofnun og fer með málefni neytendaverndar. Þá er einnig nokkuð óalgengt að vöruöryggismál séu með neytendaréttarverkefnum.
    Auk framangreinds er talið heppilegra að faglega skyld verkefni séu á sömu hendi, þ.e. að lögbundin verkefni sem hafa sömu markmið og sömu eða svipaða aðferðafræði séu hjá sama stjórnvaldinu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með ýmiss konar markaðseftirlit með öryggi vöru og mannvirkja á grundvelli nýaðferðatilskipana Evrópusambandsins og er stofnunin vel í stakk búin til að taka við verkefnum Neytendastofu á sviði vöruöryggis.
    Stefnt er að því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði sterkt miðlægt stjórnvald á sviði vöruöryggismála með sama sniði og t.d. Sikkerhedsstyrelsen í Danmörku. Með því er unnt að ná verkefnamiðaðri samlegð og auka sérþekkingu og bolmagn til að takast á við flókin verkefni. Þannig er ráðgert að styrkja vöruöryggismál sem málaflokk. Með breytingunum tekur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við hlutverki samræmingaraðila markaðseftirlits á sviði vöruöryggis, sbr. III. kafla laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995. Breytingarnar opna einnig á möguleikann á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði síðar falið að fara með markaðseftirlit á sviði vöruöryggis sem önnur stjórnvöld sinna. Auk þess er stefnt að því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun nýti eftir atvikum heimild 13. gr. laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, til að fela faggiltum skoðunarstofum markaðseftirlit í samræmi við áherslur stofnunarinnar í þeim efnum.
    Þá er stefnt að því að breytingarnar verði fyrsta skrefið í endurskipulagningu lagaumhverfis mælifræði á Íslandi. Mælifræðisvið Neytendastofu sinnir mælifræðiverkefnum, þar á meðal kvörðunum mælitækja sem faggiltur einkaaðili getur hæglega sinnt. Lagaumgjörð mælifræði þarfnast endurskoðunar auk þess sem hagkvæmara og skilvirkara þykir að faggiltur einkaaðili sinni eins miklum hluta verkefnanna og hægt er. Í ráðuneytinu er unnið að því að einfalda regluverk lögmælifræði með þeim hætti að allt lögmælifræðilegt eftirlit og kvarðanir verði í formi samræmismats og að hæfum faggiltum aðila, einum eða fleiri, verði falið framkvæmd þess. Eiginlegri löggildingu mælitækja með tilheyrandi merkingum verði hætt og stjórnsýsluþáttur mælifræðilegs eftirlits verði alveg skilinn frá framkvæmdaþætti þess. Jafnframt er stefnt að því að notendur mælitækja taki upp gæðakerfi og innra eftirlit í eins miklum mæli og hægt er.
    Ekki er gert ráð fyrir að Neytendastofa verði lögð niður heldur að Neytendastofa sinni enn um sinn verkefnum á sviði neytendaréttar. Neytendastofa getur þannig óskipt sinnt eftirliti með hinni eiginlegu neytendaréttarlöggjöf í samræmi við nýlegar breytingar á eftirliti stofnunarinnar með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 21/2020. Unnið er að endurskipulagningu þeirra verkefna með hugsanlegri tilfærslu þeirra til annarrar stofnunar árið 2021.

2.4. Stjórnsýsluverkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á sviði öryggismála og markaðseftirlits.
    Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sinnir umfangsmiklu markaðseftirliti með ýmsum vörum og vöruflokkum m.t.t. mismunandi krafna, svo sem: rafföngum m.t.t. öryggis, rafsegulsamhæfis og innihalds tiltekinna hættulegra efna; byggingarvörum m.t.t. öryggis og nothæfis; orkutengdum vörum m.t.t. visthönnunar (orkunýtni) og orkumerkinga og búnaði og verndarkerfum til nota á sprengihættustöðum m.t.t. öryggis.
    Faggiltar skoðunarstofur annast í umboði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar framkvæmd skoðana á sölustöðum í samræmi við gildandi samning við stofnunina hverju sinni, verklagsreglur og skoðunarhandbók stofnunarinnar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stýrir skoðunum, tekur við skýrslum skoðunarstofanna og annast stjórnsýslu í málum, eins og við á. Áætlað er að á yfirstandandi ári verði heimsóknir til og skoðanir hjá söluaðilum milli tvö og þrjú hundruð.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í I. og II. kafla er lagt til að breyta lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005, og lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019, á þann hátt að verkefni á sviði vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði færist til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Auk þess er lagt til í III.–VII. kafla að gera breytingar á einstökum lögum sem flutninginn varða. Lagt er til að í stað Neytendastofu fari Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með þau verkefni sem kveðið er á um í lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu nr. 134/1995, vopnalögum, nr. 16/1998, lögum um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, og lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018.
    Til viðbótar við framangreindar breytingartillögur er lagt til í VIII. kafla að stjórnsýsluverkefni Neytendastofu samkvæmt lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, verði færð til Póst- og fjarskiptastofnunar. Neytendastofa hefur nú eftirlit með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum, sbr. lög nr. 55/2019. Málefni traustþjónustu og rafrænnar auðkenningar eru ekki vöruöryggismál og myndu verkefnin ekki falla vel að kjarnastarfsemi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Enn síður myndi það samræmast markmiðinu um sterka miðlæga stofnun á sviði vöruöryggis að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun færi með verkefnin. Traustþjónusta og rafræn auðkenning hafa sterkust tengsl við fjarskiptamál, netöryggismál og málefni upplýsingasamfélagsins og er því lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun fari með verkefnin.
    Tillögur frumvarpsins fela jafnframt í sér að ekki verði lengur unnt að skjóta ákvörðunum samkvæmt framangreindum lögum til áfrýjunarnefndar neytendamála. Þess í stað er lagt til að unnt verði að skjóta ákvörðunum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki sérstaka ástæðu til að ætla að það fari gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir hagsmuni atvinnulífs og neytenda. Áform um lagasetninguna voru send öðrum ráðuneytum til kynningar þann 20. ágúst 2020. Starfshópur var stofnaður í byrjun september 2020 til að meta nauðsynlegar lagabreytingar og áhrif þeirra. Í starfshópnum sátu fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Neytendastofu. Starfshópurinn lauk störfum í október 2020. Einnig var haft sérstakt samráð við dómsmálaráðuneyti vegna málefna skotelda, heilbrigðisráðuneyti vegna málefna rafrettna og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti vegna málefna traustþjónustu og rafrænnar auðkenningar.
    Áform um lagasetningu voru send í innra samráð í Stjórnarráðinu í ágúst 2020 og bárust ekki athugasemdir. Áformin voru ekki birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem endanleg greining starfshópsins á tilflutningi verkefna lá ekki fyrir á þeim tíma. Drög að frumvarpi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-230/2020) þann 28. október 2020 og frestur til umsagna veittur til 11. nóvember 2020. Umsagnir bárust í samráðsgátt frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Samtökum verslunar og þjónustu Viðskiptaráði og einum einstaklingi.
    Grímur Kjartansson bendir á að eftirlit með traustþjónustu og rafrænni auðkenningu verði að vera sinnt af einhverjum með breiðan tæknibakgrunn og mikla þekkingu á upplýsingaöryggi.
    Hagsmunasamtök heimilanna gera ekki athugasemdir við tilfærslu verkefna sem lagðar eru til í frumvarpinu en eru mótfallin því að neytendaréttarsvið Neytendastofu verði sameinað annarri stofnun.
    Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendir á að markmiði frumvarpsins um hagkvæmni og skilvirkni megi einnig ná með flutningi verkefna til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem samlegð er með ýmsum verkefnum, svo sem á sviði eftirlits með rafrettum.
    Neytendasamtökin eru ekki andvíg því að fækka smáum ríkisstofnunum í hagræðingarskyni að því gefnu að til verði stærri og öflugri stofnanir sem geta sinnt verkefnum sínum af nauðsynlegri kostgæfni og festu. Neytendasamtökin gjalda varhug við áformum um tilfærslu verkefna neytendaréttarsviðs Neytendastofu út frá sparnaðarsjónarmiðum fyrir ríkissjóð. Ákvarðanir um breytingar á verkefnum Neytendastofu eða um niðurlagningu hennar verði að taka fyrst og fremst með hag neytenda í huga og með samráði og samræðum við almenning og almannasamtök sem gæta hags neytenda. Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld til að horfa til þess sem best gerist í nágrannalöndum okkar á þessu sviði. Nú sé rétti tíminn til að renna styrkari stoðum undir neytendarétt á Íslandi og stórefla neytendastarf, bæði af opinberri hálfu og hjá samtökum neytenda. Neytendasamtökin telja brýnt að gera úttekt á kostnaði og fyrirkomulagi neytendamála á hinum Norðurlöndunum þar sem umgjörð neytendamála sé betri og sterkari en á Íslandi.
    Neytendastofa bendir á að stofnun Neytendastofu hafi komið í kjölfar þeirra margvíslegu stjórnsýsluverkefna og eftirliti tengdu hagsmunum neytenda sem fylgdu aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Neytendastofa hafi undanfarin 15 ár sinnt hlutverki sínu af kostgæfni og ljóst að ávinningurinn sé mikill fyrir samfélagið. Stofnunin hafi áunnið sér traust jafnt neytenda sem og aðila í atvinnulífinu sem hafi getað byggt aðgerðir sínar á úrlausnum stofnunarinnar og án mikils kostnaðar. Þá hafi Neytendastofa verið framarlega meðal opinberra stofnana í rafrænni þjónustu. Starf stofnunarinnar hafi verið umfangsmikið, öflugt og leiðandi á sviði vöruöryggis, góðra viðskiptahátta og mælifræði. Neytendastofa gerir athugasemdir við að af greinargerð með frumvarpsdrögum virðist mega ráða að tilflutningur verkefnanna byggi að miklu leyti á skýrslunni Ný sókn í neytendamálum frá árinu 2008 sem sé 12 ára gömul. Margt hafi breyst hjá stofnuninni síðan þá og megi þar nefna fjölda nýrra eftirlitsverkefna og framkvæmd eftirlits aðlagast að breyttum aðstæðum. Það sé full ástæða til að gera nýja hlutlausa heildarúttekt á neytendamálum í landinu og sé því ótímabært að fara í frekari breytingar á Neytendastofu fyrr en slík úttekt liggi fyrir.
    Neytendastofa vísar til þess að markmið frumvarpsins sé að auka skilvirkni og hagkvæmni eftirlits í þágu atvinnulífs og neytenda en með litlum hætti rökstutt í hverju hún muni eða geti falist. Vakin sé athygli á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé ný stofnun og vandasamt verk sé að flytja verkefni frá einni stofnun til annarrar sem sé í breytingarfasa. Nauðsynlegt sé að rannsaka og gera hlutlausa úttekt á því hvort heppilegt sé að slíkur verkefnaflutningur eigi sér stað við núverandi aðstæður og án djúpstæðrar rannsóknar á framtíðar fyrirkomulagi neytendamála í landinu. Tilfærsla verkefna virðist að hluta til byggjast á því að verkefni á sviði öryggis- og mælifræðisviðs stofnunarinnar samræmist ekki heiti Neytendastofu. Vegna þessa sé bent á að verkefnin falli ekki heldur að heiti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Óalgengt sé að mælifræðiverkefni séu með neytendamálum en það þekkist hins vegar í smærri ríkjum í Evrópu. Þá getur Neytendastofa nefnt dæmi um að vöruöryggismál séu með neytendamálum, t.d. í Svíþjóð, Möltu, Írlandi og Búlgaríu.
    Að því er varðar verkefni á sviði vöruöryggis bendir Neytendastofa á að stofnunin hafi gegnt lykilhlutverki á því sviði og hafi byggt upp öflugt tengslanet hérlendis og erlendis. Hvað samlegð ólíkra sviða stofnunarinnar varðar þá bendi Neytendastofa á að mikil samlegð geti verið með eftirliti með viðskiptaháttum netverslunar og á sviði vöruöryggis. Hafi stofnunin gert fjölda úttekta á vefsíðum sem skoðaðar eru bæði út frá vöruöryggi og viðskiptaháttum.
    Að því er varðar verkefni á sviði mælifræði þá mótmælir Neytendastofa þeim áformum að hætta eiginlegri löggildingu mælitækja með tilheyrandi merkingum. Sökum smæðar markaðarins sinni nú einungis einn aðili á markaði löggildingu mælitækja í umboði Neytendastofu. Neytendastofa bendi á að aðilar hafi í gegnum tíðina haft samband við stofnunina og viljað hefja almenna kvörðun á opinberum markaði. Stofnunin hafi hvatt til slíkra áætlana en allir hafi hætt við þau áform eftir nánari skoðun. Einn aðili á markaði framkvæmi faggilt samræmismat en hafi ekki búnað til að sinna öllu sviðinu eins og staðan sé í dag. Notkun á innra eftirliti eða gæðakerfi í stað löggildingar hafi verið heimil frá 2009 fyrir vogir og frá 2008 fyrir veitumæla og eldsneytisdælur. Bent sé á við mögulegan flutning kvörðunarþjónustu yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði að taka tillit til faggildingar Neytendastofu sem er í dag sótt til bresks aðila. Til að tryggja faggildinguna þurfi yfirgripsmikið gæðakerfi. Á umliðnum árum hafi framúrskarandi nákvæmni og gæði faggiltrar starfsemi Neytendastofu ítrekað verið staðfest.
    Neytendastofa telur ekki þörf á þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpsdrögunum til að ná fram bættri stjórnsýslu eða framfylgd laga heldur megi vinna að markmiðinu með áframhaldandi uppbyggingu Neytendastofu. Starfsemi Neytendastofu hafi tekið breytingum undanfarin ár og sé í stöðugri þróun til samræmis við tækniframfarir og aðstæður á þeim sviðum sem stofnunin sinnir eftirliti með. Neytendastofa telur ljóst að enn séu fyrir hendi allar forsendur fyrir öflugt eftirlit með löggjöf á sviði neytendaverndar innan stofnunarinnar, samhliða eftirliti með vöruöryggi, opinberri markaðsgæslu og mælifræði. Stofnunin hafi á undanförnum árum byggt upp verulega sérþekkingu og hæfni á þeim sviðum stjórnsýslunnar sem nú sé áformað að flytja til annarra stofnana. Verði niðurstaðan sú að farið verði í tilflutning verkefna verði að gæta þess að hvorki þekking né sérhæfing glatist og að framþróun verði í málaflokkunum þannig að haldið verði áfram að byggja upp góða neytendavernd til lengri tíma.
    Samtök verslunar og þjónustu lýsa stuðningi við endurskipulagningu verkefna Neytendastofu á grundvelli sjónarmiða um hagkvæmni og skilvirkni. Samtökin fagna því að lögð sé áhersla á að faggiltar skoðunarstofur geti tekið að sér verkefni í auknum mæli og hvetja til þess að það komist til skila við flutning verkefna til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samtökin hvetja ráðuneytið til að kanna hvort ekki sé tilefni til að færa verkefni sem eftir verða hjá Neytendastofu til stofnunar sem hefur svipuð verkefni á höndum eða fæst við verkefni sem hafa sambærilegt markmið.
    Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga og tekur undir stefnu stjórnvalda að auka skilvirkni og hagkvæmni ríkisstofnana. Þær breytingar sem frumvarpið feli í sér séu til bóta þar sem augljóst sé að mörg þeirra verkefna sem Neytendastofa sinni nú eigi betur við málefnasvið annarra stofnana. Mikilvægt sé að halda áfram frekari vinnu við sameiningu stofnana þar sem leiðarljós við mótun stofnanaumgjarðar eigi ávallt að vera aukin stærðarhagkvæmni og aukin gæði.
    Ráðuneytið hefur farið yfir þær umsagnir og ábendingar sem bárust um frumvarpsdrögin, þar á meðal frá Neytendastofu. Framkomnar umsagnir og ábendingar leiddu ekki til breytinga á frumvarpinu.

6. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu er lagt til að færa verkefni á sviði vöruöryggis og markaðseftirlits auk mælifræði frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
    Frumvarpið hefur í för með sér breytta stofnanaumgjörð á sviði vöruöryggis og mælifræði. Gert er ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins muni auka hagkvæmni og skilvirkni í eftirliti til hagsbóta fyrir atvinnulíf og neytendur. Þá er gert ráð fyrir auknum möguleikum á aðkomu faggiltra skoðunarstofa að markaðseftirliti á sviði vöruöryggis, eðalmálma og mælifræði.
    Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á stjórnsýslu ríkisins. Með tilfærslu verkefnanna er stefnt að því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði miðlægt stjórnvald á sviði vöruöryggis. Tilfærslan mun hafa fagleg samlegðaráhrif og auka bolmagn stofnunarinnar til að fást við vöruöryggismál. Þá er stefnt að því að mælifræðiverkefni verði færð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og að þau verkefni verði endurskipulögð á árinu 2021 með það að markmiði að færa kvarðanir og lögmælifræðilegt eftirlit til faggildra einkaaðila eins og kostur er. Gert er ráð fyrir að um réttindi starfsmanna við flutning verkefnanna til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fari eftir 2. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Frumvarpið hefur jafnframt í för með sér að Neytendastofa starfar enn um sinn í breyttri mynd og mun stofnunin þá nær eingöngu sinna eftirlitsverkefnum á sviði neytendaréttar. Unnið er að hugsanlegri tilfærslu þeirra verkefna til annarrar stofnunar árið 2021 og niðurlagningu Neytendastofu með mögulegum sparnaði fyrir ríkissjóð.
    Rammi Neytendastofu samkvæmt fjárlögum 2020 er 288,9 millj.kr., þar af er framlag úr ríkissjóði 237,4 millj. kr. og sértekjur 51,5 millj. kr. Ráðgert er að um 130 millj. kr. brúttóframlag fylgi verkefnum sem flytjast frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna launakostnaðar, húsaleigu og annars kostnaðar. Þar af er gert er ráð fyrir að 51,5 millj. kr. sértekjurnar flytjist með til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Jafnframt er gert ráð fyrir að 21 millj. kr. fylgi verkefnum sem flytjast frá Neytendastofu til Póst- og fjarskiptastofnunar sem verði endurskoðað í lok árs 2021 í samræmi við lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir fjárhagsáhrifin muni rúmast innan heildarútgjaldaramma ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum og fjármálaáætlun 2021–2025 þar sem fyrst og fremst er um að ræða tilflutning verkefna milli ríkisaðila.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–5. gr.

    Í 1.–5. gr. er kveðið á um breytingar sem gera þarf á lögum um Neytendastofu, nr. 62/2005, og lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, nr. 137/2019, til þess að færa forræði á málaflokkum vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Um 6.–8. gr.

    Í greinunum er kveðið á um breytingar sem gera þarf á lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki við framkvæmd laganna. Lagt er til í 8. gr. að í stað áfrýjunarnefndar neytendamála sæti ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ekki er minnst á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sérstaklega í ákvæðinu þar sem efni laganna geta einnig varðað fleiri eftirlitsstjórnvöld sem sinna markaðseftirliti.

Um 9.–10. gr.

    Í greinunum er kveðið á um breytingar sem gera þarf á vopnalögum, nr. 16/1998, til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki við eftirliti með skoteldum. Lagt er til í 10. gr. að í stað áfrýjunarnefndar neytendamála sæti ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Um 11.–12. gr.

    Í greinunum er kveðið á um breytingar sem gera þarf á lögum um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki við eftirliti með vörum unnum úr eðalmálmum. Lagt er til í 12. gr. að í stað áfrýjunarnefndar neytendamála sæti ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Um 13.–15. gr.

    Í greinunum er kveðið á um breytingar sem gera þarf á lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki við mælifræðiverkefnum Neytendastofu. Lagt er til í 14. og 15. gr. að í stað áfrýjunarnefndar neytendamála sæti ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Um 16.–17. gr.

    Í greinunum er kveðið á um breytingar sem gera þarf á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018, til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki við eftirliti með rafrettum. Lagt er til í 17. gr. að í stað áfrýjunarnefndar neytendamála sæti ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Um 18. gr.

    Í greininni er kveðið á um breytingar sem gera þarf á lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, til þess að Póst- og fjarskiptastofnun taki við stjórnsýsluverkefnum samkvæmt lögunum.

Um 19. gr.

    Í greininni er kveðið á um að 2.–4. mgr. 5. gr. laganna falli brott. Ákvæðin fjalla um málskotsheimild til áfrýjunarnefndar neytendamála og málsmeðferð slíkra mála. Ekki er þörf á að kveða sérstaklega á um málskotsheimild í lögunum sjálfum þar sem almenna kæruheimild á ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála er að finna í 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Um 20. gr.

    Í greininni er kveðið á um að í stað orðanna „áfrýjunarnefndar neytendamála“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. og 2. og 4. mgr. 7. gr. komi úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Ákvæðin fjalla um heimildir eftirlitsstofnunarinnar til að leggja á sektir og dagsektir vegna nánar tilgreindra brota gegn lögunum. Ákvæði 13. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, fjalla ekki sérstaklega um kæru sektarákvarðana Póst- fjarskiptastofnunar og þykir því rétt að taka af tvímæli um að ákvörðunum stofnunarinnar um að leggja á sektir og/eða dagsektir séu kæranlegar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála.

Um 21. gr.

    Í greininni er kveðið á um að lögin taki gildi þann 1. apríl 2021. Nauðsynlegt er að Neytendastofa og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi nægan tíma til að aðlaga starfsemi sína að breyttu hlutverki og verkefnum.