Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 444  —  351. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Eitt af mikilvægustu hlutverkum ríkisins á hverjum tíma er að tryggja öryggi landsmanna. Nú er engin þyrla tilbúin til að fara í loftið ef ákall um það kæmi. Jafnvel þó að samið yrði núna strax, eða frumvarpið samþykkt í dag, yrðu aðeins tvær þyrlur tiltækar í tíu daga í desember. Það liggur því fyrir að áhrifa verkfallsins mun gæta næstu vikur og mánuði. Að mati 1. minni hluta er sú óviðunandi staða sem upp er komin algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.
    Fyrsti minni hluti leggur ríka áherslu á að samningsréttur launamanna sé varinn í samræmi við 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og telur ótvírætt að mjög sterk rök þurfi til að grípa inn í hann með lagasetningu. Það er á ábyrgð samningsaðila að ná samningum. Ef þeir bregðast í því hlutverki hefur ríkissáttasemjari samkvæmt lögum ýmsar leiðir til að knýja á um niðurstöðu. Allar slíkar leiðir þarf að fullnýta áður en inngrip löggjafans geta komið til álita.
    Dómstólar hafa ekki hafnað því að löggjafinn grípi inn í kjaradeilu, svo fremi að ríkir almannahagsmunir séu í húfi eða efnahagsleg vá vofi yfir. Í því sambandi er rétt að vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli ASÍ gegn ríkinu, sbr. mál nr. 167/2002, þar sem fram kemur að dómstólar gera ríkar kröfur um skilgreiningu almannahagsmuna og afgerandi rökstuðning til að slík inngrip geti talist réttlætanleg og m.a. er þar ítarlega vísað til lögskýringargagna.
    Fyrsti minni hluti telur hlutverk löggjafans að vega og meta hvort þeir almannahagsmunir sem hér um ræðir séu nægjanlega ríkir til að sett séu lög á rétt fólks til að berjast fyrir kjörum sínum og réttindum. Það er álit 1. minni hluta að enn sé það ekki fullreynt að samningar gætu tekist. Hins vegar eru mjög ríkir almannahagsmunir hér í húfi, að tryggja öryggi og heilsu fólks, og tíminn naumur. 1. minni hluti telur það því varla forsvaranlegt að greiða atkvæði gegn þessari lagasetningu og mun því sitja hjá.

Alþingi, 27. nóvember 2020.

Guðmundur Andri Thorsson.