Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 623  —  374. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur (fjármagnstekjuskattur).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


Hækkun frítekjumarks vaxtatekna.
    Í frumvarpinu er lagt til að frítekjumark fjármagnstekjuskatts verði tvöfaldað, úr 150.000 kr. í 300.000 kr., en einnig að frítekjumarkið verði útvíkkað þannig að það nái til arðstekna og söluhagnaðar. Einnig er lagt til að breytingar verði gerðar á skattlagningu söluhagnaðar frístundahúsnæðis og að frádráttarheimild verði komið á við innlausn gengishagnaðar af höfuðstól við úttekt af sérgreindum sparnaðarreikningum. 
    Sú ákvörðun að fella arð og söluhagnað undir frítekjumarkið mun kosta ríkissjóð um 1 milljarð kr. Áætlað er að frumvarpið kosti ríkissjóð um 1,5–1,8 milljarða kr. verði það óbreytt að lögum. Það er óábyrgt á þessum tímum þegar útgjöld ríkissjóð vaxa ótæpilega að breyta fjármagnstekjuskattinum á þennan veg. Auk þess veitir frítekjumarkið einungis tekjuhæstu 10% framteljenda vaxtatekna viðbótarskjól fyrir áhrifum verðbólgu.
    Fyrsti minni hluti leggst gegn þessu frumvarpi  og telur óboðlegt að létta sköttum af þeim sem breiðustu bökin hafa í dýpstu efnahagslægð í 100 ár.
    Alþýðusamband Íslands bendir á í umsögn sinni að athyglisvert sé að ekki hafi verið brugðist við ábendingum sem fram koma um veikleika núverandi fyrirkomulags reiknaðs endurgjalds í skýrslum sem gerðar hafa verið fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og einnig í eldri úttektum á skattkerfinu. Á Íslandi hafi sú leið verið farin að einstaklingum beri að reikna sér laun sem ekki eru lægri en laun sem hefðu fengist hjá óskyldum aðila og að jafnaði ekki lægri en viðmið Skattsins. Þessi nálgun sé ólík þeirri sem þekkist í hinum norrænu ríkjunum sem hafa tvíþætt skattkerfi þar sem önnur en eðlileg arðsemi er meðhöndluð sem laun. Hvatar séu í núverandi kerfi til að reikna sér sem lægst laun, tilflutningur eigi sér stað milli launa og fjármagnstekna og eigendur hafi tilhneigingu til að ofreikna kostnað.
    Eignaójöfnuður er að aukast um heim allan og mörg lönd sem við viljum bera okkur saman við leita nú leiða til að beita skattkerfinu með markvissum hætti til að ráðast gegn eignaójöfnuði. Í ljósi samþjöppunar auðs og eigna er mikilvægt að berjast af krafti gegn eignaójöfnuði. Ríkustu fimm hundraðshlutar íslenskra framteljenda áttu rúm 40% alls fjár sem talið var fram til skatts á Íslandi í fyrra. Þeir sem tilheyra ríkasta 1% landsmanna áttu samtals 865 milljarða kr. en það er nálægt heilum fjárlögum íslenska ríkisins og þeir sem tilheyra 0,1% ríkustu Íslendinganna juku eign sína um 22 milljarða kr. á árinu 2019.
    Alþjóðastofnanir hafa lagt mikla áherslu á að skattkerfið sé skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til að stuðla að jöfnuði. Eigið fé Íslendinga hækkaði um 433 milljarða kr. í fyrra. Það er töluvert minna en sú hækkun sem varð á árunum 2017 sem þá var 760 milljarðar kr. og 2018 nam hækkunin 641 milljarði kr. en á þeim árum varð mesta hækkun sem átt hefur sér stað á vexti eigin fjár frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur. Eigið fé landsmanna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 milljarðar kr. í lok árs 2010 í að vera 5.176 milljarðar kr. um síðustu áramót. Eigið fé ríkustu 10% landsmanna er vanmetið, og er mun meira en tölur Hagstofunnar segja til um. Hluti verðbréfaeignar, hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, er metinn á nafnvirði en ekki markaðsvirði. Þá eru fasteignir metnar samkvæmt fasteignamati en ekki markaðsvirði sem er í flestum tilfellum hærra. Tekjuhæsta 1% landsmanna er með lægri skattbyrði en aðrir tekjuhópar vegna þess að tekjur þess hóps eru að stórum hluta fjármagnstekjur og bera því lægri skatt en atvinnutekjur og lífeyristekjur líkt og BSRB bendir á í umsögn sinni.
    Í skýrslu nefndar um endurskoðun skattstofns fjármagnstekjuskatts er ekki að finna nein sterk rök fyrir breytingunum sem boðaðar eru í þessum frumvarpi. Í skýrslunni má sjá að upptaka frítekjumarks árið 2010 hefur dregið verulega úr áhrifum verðbólgu og vegið á móti hækkun á hlutfalli fjármagnstekjuskatts. Þeir sem eiga allt að 6 millj. kr. höfuðstól fá því skjól gagnvart áhrifum verðbólgu og greiða að hámarki skatt af raunávöxtun. Sé dreifing innstæðna samkvæmt skattgrunnskrá skoðuð sést að núverandi frítekjumark nýtist um 90% framteljenda, eða 259 þúsund af 292 þúsund framteljendum vaxtatekna. Hækkun frítekjumarks er því aðgerð sem veitir einungis 10% af tekjuhæstu framteljendum vaxtatekna viðbótarskjól fyrir áhrifum verðbólgu.

Skattlagning söluhagnaðar frístundahúsnæðis.
    Bent hefur verið á að skattleysi söluhagnaðar frístundahúsnæðis komi mörgum eldri borgurum sem selja sumarbústaði sína vel. Dæmi eru um að fólk sem selur sumarbústaði sína eftir að hafa hafið töku lífeyris hafi lent í vítahring ef megnið af söluandvirði kemur út sem söluhagnaður. Þá leggst á hann 22% fjármagnstekjuskattur og lífeyririnn frá Tryggingastofnun skerðist um 45–57% af „hagnaðinum“ með þeirri afleiðingu að greiðslur til fólksins falla niður mánuðum saman. Til að leiðrétta þetta þarf að endurskoða tekjutengingu í almannatryggingakerfinu. Lausnin er ekki að breyta fjármagnstekjuskattinum fyrir alla sem gagnast helst allra ríkasta fólki landsins.

Fjármagnstekjuskattur og sveitarfélög.
    Reykjavíkurborg sendi nefndinni ábendingar um að nauðsynlegt væri að endurskoða fjármagnstekjuskatt sem lagður er á sveitarfélög. Jafnframt stæðu sanngirnisrök til þess að veita sveitarfélögum hlutdeild í tekjum ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti þar sem margir einstaklingar og lögaðilar sem þæðu þjónustu sveitarfélaga greiddu litla eða enga skatta til þeirra enda greiddist ekki útsvar af fjármagnstekjum. 1. minni hluti tekur undir ábendingar Reykjavíkurborgar.

Alþingi, 15. desember 2020.

Oddný G. Harðardóttir.