Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 691  —  376. mál.
3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (úthlutun tollkvóta).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Frumvarpinu var vísað til nefndarinnar að nýju eftir 2. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Martin Eyjólfsson frá utanríkisráðuneyti.

Umfjöllun nefndarinnar.
Endurskoðun tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins.
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkisráðuneyti hafa gert úttekt á tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins um landbúnaðarvörur. Sú úttekt staðfestir að forsendur samningsins hafa breyst til muna frá því að samningurinn var gerður og að verulegt ójafnvægi er á milli samningsaðila, íslenskum útflytjendum í óhag. Nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til Evrópusambandsins er í flestum tilfellum lítil eða engin en tollkvótar til innflutnings frá Evrópusambandinu hafa nær allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta.
    Fyrir nefndinni kom fram að nokkrar skýringar væru á þessu mikla ójafnvægi í samningnum. Þannig hafa markaðsaðstæður fyrir íslenska vöru á borð við skyr gjörbreyst því talið er heppilegra að flytja mjólkurduft frá Íslandi til framleiðslu á skyri fyrir nærmarkað í Evrópu en að flytja það fullunnið frá Íslandi. Þá hefur yfirvofandi brotthvarf Bretlands af innri markaðinum umtalsverð áhrif en Bretland hefur verið einn helsti útflutningsmarkaður fyrir íslenskt lambakjöt um árabil.
    Að mati meiri hluta er því ljóst að það jafnvægi sem lá til grundvallar samningnum hefur raskast. Áríðandi er að ráðin verði bót á því. Í máli utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kom fram að hann hefði óskað eftir því við Evrópusambandið að tollasamningurinn yrði endurskoðaður. Meiri hlutinn fagnar þessari þróun málsins. Mikilvægt er að slík endurskoðun leiði til betra jafnvægis á milli samningsaðila þannig að hann þjóni betur hagsmunum Ísland.

Ákvæði 112. gr. EES-samningsins.
    Við umfjöllun málsins hafa talsverðar umræður verið um ákvæði 1. mgr. 112. gr. EES-samningsins í tengslum við framkvæmd tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins. Þar segir að ef upp komi alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, geti samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr. EES-samningsins. Af því tilefni ræddi nefndin sérstaklega um þýðingu greinarinnar í tengslum við fyrirliggjandi mál.
    Fyrir nefndinni kom fram að nauðsynlegt væri að lesa ákvæði 112. gr. í samhengi við gildissvið EES-samningsins, eins og það er skilgreint í 3. mgr. 8. gr. samningsins. Þar segir m.a. að ef ekki er annað tekið sérstaklega fram taki ákvæði samningsins einungis til framleiðsluvara sem falla undir 25.–97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni. Landbúnaðarvörur og sjávarafurðir falla undir 1.–24. kafla skrárinnar og það þýðir að landbúnaðarafurðir sem hér eru til umræðu falla ekki undir meginmál EES-samningsins. Undantekning felst þó í að gildissviðið hefur verið útvíkkað á nokkrum afmörkuðum sviðum, m.a. um merkingar og dýravelferð. Þessi skilningur hefur verið til grundvallar afstöðu íslenskra stjórnvalda frá upphafsdögum EES-samningsins. Það er því ljóst að ákvæði 112. gr. tekur ekki til tollasamningsins.
    Nefndinni var jafnframt bent á að beiting 112. gr. samningsins varðar ekki aðeins hagsmuni Íslands. Ákvörðun Íslands um að beita fyrir sig 112. gr. myndi þýða að hún tæki einnig til annarra EFTA-ríkja innan EES, þ.e. Noregs og Liechtenstein. Slíka ákvörðun getur Ísland því ekki tekið einhliða.
    Að mati meiri hlutans kemur því beiting 112. gr. EES-samningsins ekki til greina að því er varðar tollasamning Íslands og Evrópusambandsins. Í tollasamningnum er þó að finna ákvæði um endurskoðun og samráð, sbr. 13. gr. samningsins. Meiri hlutinn ítrekar því fyrri afstöðu sína um að í þeirri endurskoðun sem utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur boðað, verði nýtt öll þau úrræði sem íslenskum stjórnvöldum standa til boða til að tryggja að innlend framleiðsla geti keppt á jafnréttisgrundvelli við innfluttar afurðir.

Fjölgun útboða.
    Að mati meiri hlutans er brýnt að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fjölgi útboðum yfir árið þannig að minna magn sé boðið út í einu. Nauðsynlegt er að tryggja jafnara flæði innfluttra vara á íslenskan markað og draga þar með úr mögulegum árstíðasveiflum í innflutningi. Með því fyrirkomulagi er tilboðsgjöfum jafnframt gefin fleiri tækifæri til að bjóða í tollkvóta og sníða tilboð betur að árstíðabundinni eftirspurn. Þeir þurfa því ekki að bjóða í heilsárskvóta ef eftirspurn viðskiptavina þeirra er aðeins á seinni hluta ársins eða bíða heilt ár eftir nýrri úthlutun verði tilboði þeirra ekki tekið. Tækifærum til að fá úthlutað tollkvóta fjölgar. Slík breyting drægi jafnframt úr fjárbindingu innflutningsaðila vegna fyrirframgreiðslu á tollkvótanum.

Áhrif frumvarpsins á verðlagningu.
    Í umræðum við málið hefur verið fjallað um möguleg áhrif þess að taka upp að nýju eldra útboðsfyrirkomulag tollkvóta. Fram hafa komið sjónarmið um að slíkt leiddi til hækkunar á verði á landbúnaðarafurðum til neytenda. Að mati meiri hlutans er ekki sjálfgefið að það leiði til hærra verðs fyrir neytendur að taka upp eldra fyrirkomulag. Fram hefur komið að offramboð er á kjöti á erlendum mörkuðum. Almennt heimsmarkaðsverð á kjöti hefur lækkað um 14% frá því í janúar 2020 samkvæmt tölum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þá er líklegt að áframhald verði á þessari þróun. Þá hefur orðið mikil birgðasöfnun í lifandi nautgripum og öðrum afurðum hér á landi. Að mati meiri hluta er því ekki sjálfgefið að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif til hækkunar á verði til neytenda.

Samkeppnisumhverfi landbúnaðar.
    Meiri hlutinn ítrekar að hann tekur undir þær ábendingar sem komu fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins um ýmsar leiðir sem miða að því að bæta hag bænda.
    Nefndinni var bent á þá breytingu sem gerð var á 1.–3. mgr. 15. gr. samkeppnislaga um undanþágur frá banni við samkeppnishömlum, sbr. 4. gr. laga nr. 103/2020, en breytingin öðlast gildi 1. janúar nk. Með breytingunni verði fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja, í stað þess að óska undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu gert að meta hvort ráðstafanir sem m.a. fela í sér samstilltar aðgerðir, sem hafa áhrif á markað og sem ella féllu undir bannákvæði 10. eða 12. gr. laganna, uppfylli umrædd skilyrði og séu þar með heimilar. Samkeppniseftirlitið gefur út leiðbeiningar um undanþágur samkvæmt ákvæðinu en meiri hlutinn telur að þessi breyting gagnist íslenskum landbúnaði.

Matvælaöryggi.
    Vorið 2019 samþykkti Alþingi aðgerðaráætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Sú aðgerðaáætlun miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Hún var sett upp í 17 liðum sem þegar eru komnar að nokkru leyti í framkvæmd. Vernd búfjárstofna og efling matvælaöryggis bætir samkeppnisstöðu innlendrar matvöruframleiðslu. Allar þjóðir heims eru farnar að huga að því að tryggja matvælaöryggi betur, ekki síst í því ástandi sem nú ríkir en tryggja þarf að mengun berist ekki á milli manna og dýra og í því sambandi þarf að huga sérstaklega að innfluttum landbúnaðarafurðum. Í aðgerðaáætlun um matvælaöryggi er lögð áhersla á aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis og tryggja þannig að íslenskir neytendur hafi öruggt val þegar kemur að innkaupum á landbúnaðarvörum. Í aðgerðaáætluninni er líka lögð áhersla á betri merkingar matvæla sem neytendur megi treysta. Í versnandi efnahagsástandi er eðlileg krafa neytenda um ódýrari matvöru en þá er hætta á að kröfur innflytjenda minnki varðandi matvælaöryggi.
    Nefndinni var bent á að í aðgerðaáætlun sem fylgir nýrri matvælastefnu til ársins 2030 er að finna tvær aðgerðir sem snerta tengsl matvælaframleiðslu við þjóðaröryggi. Annars vegar að mótuð verði fæðuöryggisstefna sem verði þáttur í þjóðaröryggisstefnu. Markmið hennar er að tryggja fæðuöryggi á Íslandi og að sérstök fæðuöryggisstefna með viðbragðsáætlunum liggi fyrir. Hins vegar er aðgerð sem felur í sér að þjóðaröryggisvísar taki mið af fæðu- og matvælaöryggi, svo sem birgðastöðu matar og vatns, viðbragðsáætlunum og fleiru. Markmið þess er að haldið sé utan um birgðahald og viðbragðsáætlanir með reglubundnum hætti.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að í engu verði kvikað frá þeirri stefnu stjórnvalda að efla matvælaöryggi og að vernd búfjárstofna verði tryggð.

Mælaborð landbúnaðarins.
    Að mati meiri hlutans er mikilvægt að til staðar séu aðgengilegar hagtölur þegar kemur að því að meta og fylgjast með stöðu landbúnaðarins. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók undir það sjónarmið en taldi að sláandi væri hversu lítil tölfræði og gögn eru til um ýmsar mikilvægar hagtölur í landbúnaði sem snúa að landbúnaðarframleiðslu, svo sem framleiðslutölum, framleiðsluspám, birgðastöðu, magni og neyslu. Unnið sé að því í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að koma á mælaborði fyrir landbúnaðinn þar sem ýmsar hagtölur verði birtar og uppfærðar. Stefnt sé að því að mælaborðið verði tilbúið á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Gildistími frumvarpsins og breyting á tilvísun í tollskrárnúmer.
    Nefndin hefur tekið að nýju til skoðunar gildistíma ákvæða frumvarpsins. Að mati meiri hlutans hníga rök að því að þriggja ára gildistími sé of langur. Hins vegar sé ljóst að heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft skaðleg áhrif á innlenda framleiðslu og verulegt fall orðið í eftirspurn eftir búvörum þegar erlendir ferðamenn nánast hurfu af landi brott og neysla dróst verulega saman. Meiri hlutinn bendir á að nú er fyrirsjáanlegt að tímabil sóttvarnaaðgerða standi lengur en gert var ráð fyrir þegar frumvarpið var samið. Enginn veit hvernig faraldurinn þróast, og því er óvissan gríðarleg. Eins og fram hefur komið hefur verið óskað eftir endurskoðun á tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins. Þá eru jafnframt mörg verkefni nú í burðarliðnum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem miða að því að styrkja innlendan landbúnað með því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Meiri hlutinn bendir á að þegar það fyrirkomulag sem nú er fyrir hendi við úthlutun tollkvóta tók gildi 1. janúar sl. voru aðstæður allt aðrar og ferðaþjónusta í blóma. Með tilkomu heimsfaraldurs kórónuveiru hafi í raun orðið forsendubrestur og því mikilvægt að bregðast sem fyrst við breyttum aðstæðum á markaði.
    Til að létta undir með innlendri landbúnaðarframleiðslu á meðan stjórnvöld fara yfir margþætt atriði varðandi starfsskilyrði landbúnaðarins leggur meiri hlutinn til að gildistími þess bráðabirgðaákvæðis sem lagt er til með 2. gr. verði lengdur um sex mánuði og eldra fyrirkomulag við útboð tollkvóta gildi því til 1. ágúst 2022.
    Þá vakti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið athygli nefndarinnar á því að tollskrárnúmerið 0603.1911-1917 í 1. gr. frumvarpsins er rangt en þar á að standa 0603.1911-1918. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Í stað „0603.1911-1917“ í 1. gr. komi: 0603.1911-1918.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna „gildistöku laganna“ í 1. málsl. komi: gildistöku ákvæðis þessa.
                  b.      Í stað „1. febrúar 2022“ í 1. málsl. komi: 1. ágúst 2022.
                  c.      3. málsl. falli brott.

Alþingi, 17. desember 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, form. Haraldur Benediktsson, frsm. Ásmundur Friðriksson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson.