Ferill 539. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 901  —  539. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skráða sambúð fleiri en tveggja aðila.


Flm.: Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Sara Elísa Þórðardóttir, Smári McCarthy, Helgi Hrafn Gunnarsson, Olga Margrét Cilia.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem vinni drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um skráða sambúð með það að markmiði að fleiri en tveir aðilar geti skráð sig í sambúð og notið réttaráhrifa hennar, óháð skyldleika og persónulegu sambandi að öðru leyti. Starfshópurinn skili drögum að frumvarpi til ráðherra eigi síðar en á vorþingi 2022.

Greinargerð.

    Gildissvið hjúskaparlaga, nr. 31/1993, er takmarkað við hjúskap tveggja aðila en tekur ekki til óvígðrar sambúðar. Engin heildarlög gilda um óvígða sambúð og fer það eftir aðstæðum og málaflokkum hver réttindi sambúðarfólks eru. Einstaklingar sem eru í samvistum og eru með sama lögheimili en eru ekki giftir eða í óupplýstri hjúskaparstöðu geta skráð sig í sambúð hjá Þjóðskrá Íslands. Sé litið til skráningareyðublaðs fyrir skráða sambúð á vef Þjóðskrár er einungis gert ráð fyrir tveimur einstaklingum í skráðri sambúð.
    Sambönd milli tveggja eða fleiri einstaklinga eru af ýmsum toga og mörg hver eru ekki kynferðisleg á neinn hátt. Aukin þekking á kynvitund og kynhneigð undirstrikar samt sem áður fjölbreytileika mannfólksins sem myndar alls konar sambönd yfir ævina – sambönd við ættingja, vini og ástvini. Við hverja, og hversu marga, bundist er með skráðri sambúð á ekki að vera háð lögformlegum fjöldatakmörkunum. Forsendur sambúðar, hvort sem hún byggist á kynvitund, kynhneigð eða öðrum aðstæðum, koma löggjafanum ekki við. Löggjafinn hefur sett grundvallarviðmið um réttaráhrif skráðrar sambúðar, t.d. með lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, ákvæðum húsaleigulaga, nr. 36/1994, og lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
    Hjúskaparlögum var breytt árið 2010 með lögum nr. 65/2010. Þá var fallið frá því skilyrði að hjúskapur væri á milli karls og konu en í staðinn voru sett skilyrði um að hjúskapur væri á milli tveggja einstaklinga óháð kyni. Að mati flutningsmanna var um tímabæra og sjálfsagða breytingu að ræða. Ljóst er að ganga má lengra þannig að skráð sambúð geti verið milli fleiri aðila en tveggja sem af einhverjum ástæðum kjósa að búa saman með þeim réttaráhrifum sem því fylgja. T.d. er ekki sjálfgefið að ábyrgð á börnum eða eignum sé einungis málefni einnar manneskju eða tveggja óskyldra einstaklinga. Þá myndu heildarlög um skráða sambúð skýra réttarstöðu þessa hóps en misskilnings hefur gætt um að skráningu í sambúð fylgi sömu réttindi og hjúskap samkvæmt hjúskaparlögum. Með þingsályktunartillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að setja á fót starfshóp sem vinni drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um skráða sambúð með það að markmiði að fleiri en tveir aðilar geti notið réttaráhrifa skráðrar sambúðar, óháð skyldleika og persónulegu sambandi að öðru leyti. Jafnframt má skoða hvort rétt sé að útvíkka hugtakið í „skráð samband“ þannig að það taki til einstaklinga sem deila ekki lögheimili, t.d. einstaklinga sem búa hver í sínu landinu. Þá er nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á framangreindum lögum sem hafa að geyma ákvæði um réttindi einstaklinga í skráðri sambúð þannig að þau nái til viðkomandi aðila sem eru í skráðri sambúð, hvort sem þeir eru tveir eða fleiri. Flutningsmenn árétta að útvíkkun á heimild til skráningar í sambúð sem þingsályktunartillagan miðar að breytir í engu efni 200. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um sifjaspell.
    Drögum að þessari þingsályktunartillögu var dreift í opnu samráðsferli á vegum Pírata. Undirtektir voru góðar og bárust 15 formlegar umsagnir sem birtar eru í fylgiskjali. Flutningsmenn fallast á athugasemdir í öllum umsögnum sem bárust. Viðhorfin sem þar birtast eru atriði sem þarf að taka tillit til. Umræða um málið var víða á samfélagsmiðlum og almennt mjög jákvæð. Þeirri gagnrýni sem helst kom fram er mætt með breytingu á tillögunni á þann hátt að einungis er lagt til að fleiri en tveir einstaklingar geti skráð sig í sambúð en hjúskapur verði áfram einungis milli tveggja einstaklinga.



Fylgiskjal.



Umsagnir sem bárust í opnu samráðsferli á vegum Pírata.


    „Þrátt fyrir nauðsyn þess að setja borgurum ákveðinn lagaramma til að sambúð ólíkra einstaklinga í samfélagi geti gengið upp skil ég ekki nauðsyn þess að reglur þurfi að gilda um ást og kærleika fullorðins fólks eða hvernig það vill haga sínum einkamálum. Hvort einstaklingar vilja vera í hjónabandi eða sambúð með einum eða fleiri einstaklingum kemur mér bara ekki við né ætti að koma löggjafanum við. Fólk á sig sjálft.“

    „Frelsi ætti að ríkja um þessa hluti þannig að fólk geti gert samkomulag/samninga sín á milli um sambúð og að deila ábyrgð varðandi húsaskjól, og fellur því tillagan að mínu viðhorfi og skoðun um málefnið.“

    „Frábær tillaga. Ég hef oft furðað mig á því misrétti sem einhleypir sem búa saman verða fyrir að geta ekki nýtt sér nein úrræði til hagræðingar á sköttum eða kostnaði. Þekki ótalmörg dæmi um land allt þar sem t.d. systkini eða önnur skyldmenni búa saman, vinir eða bara einfaldlega fólk sem af einhverjum ástæðum endaði saman í húsi svo áratugum skiptir. Þó svo að hugsanlega hafi þetta orðið eitthvað fátíðara með árunum þá þekki ég samt fjölda sveitaheimila þar sem staðan er svona enn. Það að geta nýtt sér sambúðarformið og þá ekki bara vegna fjárhagslegs ávinnings heldur einni mögulega vegna réttinda barna, erfða eða annars eru einfaldlega grundvallar mannréttindi óháð kyni, kynhneigð eða annars.“

    „Það var mikið! Svo úrelt lög og bráðnauðsynlegt að endurskoða!“

    „Mér finnst þetta alveg frábært átak. Um að gera að nútímavæða lög í takt við þróun samfélagsins.“

    „Í dag erum við systur sem búum sama. Við keyptum okkur íbúð saman og erum með sameiginleg fjármál, rekum bíl saman, borgum saman af reikningum og mat og annan kostnað sem til fellur. Þannig að ég skilgreini systur mína sem minn lífsförunaut, þó við sofum í sitthvoru herbergi og ekkert kynferðislegt sé á milli okkar.
    Þegar við keyptum íbúðina saman þá lentum við í miklu vandræðum með að fá lán þar sem einungis fólk í sambúð getur tekið lán saman. Þetta hefði því getað haft veruleg fjárhagsleg áhrif á okkur, að vera mismunað svona vegna hjúskaparstöðu. En sem betur fer leyfði lífeyrissjóður systur minnar fólki að taka lán saman óháð því hvort þau væri í sambúð eða ekki. En við erum fastar og getum ekki endurfjármagnað eða flutt þar sem lífeyrissjóður systur minnar breytti þessu og núna má bara fólk sem er í sambúð taka lán saman, sem hefur auðvitað gríðarleg áhrif á okkur fjárhagslega og okkur finnst okkur mismunað vegna hjúskaparstöðu.
    Í framtíðinni þá höfum við hugsað okkur að hugsanlega eignast barn sjálfar. Það myndi auðvelda okkur til muna ef við gætum skráð okkur báðar sem foreldri barnsins og tryggt öryggi þess til muna og fengið þá þau almennu réttindi sem aðrir foreldrar eru með. En það er auðvitað ekki hægt þar sem við erum systur. En við myndum hafa áhuga á að það væri mögulegt, að ala saman upp barn í þessum heimi. Þá myndi okkur líka þykja eðlilegt að við gætum nýtt persónuafslátt hvorrar annarrar ef aðstæður breytast með einhverju móti og við sjáum ekki muninn á því að við gerum það eða fólk í sambandi, enda erum við lífsförunautar. Svo er líka mun líklegra að fólk skilji heldur en að við hættum að vera systur ef maður fer út í þá sálma.
    Í gegnum tíðina hefur fólk oft ekki barist fyrir þessu þar sem oft er um að ræða tímabundið ástand. Núna höfum við búið saman í mörg ár og vitum ekkert hvort að það breytist eða hvort við höfum áhuga á að það breytist, tíminn einn mun leiða það í ljós. En þessi hjúskaparlög gera okkur erfitt fyrir fjárhagslega, samfélagslega og gera okkur báðum erfiðara að eignast barn.
    Eins og stendur í greinargerðinni þá er það ekki sjálfgefið að ábyrgð á börnum eða eignum sé einungis málefni einnar manneskju eða tveggja óskyldra einstaklinga. Og núna hef ég nefnt dæmi í raunveruleikanum sem þetta á við um.
    Einnig höfum við lent í því að mega ekki taka hvor aðra á árshátíð vinnustaðar þar sem við vorum ekki raunverulegt par eða í raunverulegu sambandi. Þetta er auðvitað minna atriði en hin sem ég tel hér að ofan en er samt engu að síður mismunun vegna hjúskapar og kemur með leiðinlegar tilfinningar sem best væri að sleppa við. Mikilvægt er að lögin breytist til að bæta réttindi fólks í óhefðbundinni sambúð og það getur einnig leitt til þess að fordómar og mismunun í samfélaginu minnki einnig til muna þar sem slík sambúð yrði þá meira samkvæmt lögum.
    Núverandi hjúskaparlög hafa því valdið okkur óþarflega miklum vandræðum, bæði réttindalega, fjárhagslega og samfélagslega ásamt því að valda okkur kvíða og mismunun.“

    „Hver er tilgangurinn með takmörkun við tvo í hjúskap í núverandi lögum?“

    „Ef eini tilgangurinn er að einfalda lagalegt umhverfi í kringum hjúskap þá er það sambærilegt við að setja sömu kvaðir á einkahlutafélög að hámark tveir einstaklingar megi eiga hlut í félaginu. Ef fleiri aðilar vilja koma að félagi/hjúskap og allir núverandi aðilar eru samþykkir væri eðlilegt að geta bætt fleirum við.
    Kannski væri einfaldast að sameina lög um einkahlutafélög og hjúskap undir einn hatt og láta hjúskap fá sína eigin kennitölu.“

    „Takk fyrir þessa tillögu. Ég hef oft velt þessu fyrir mér sem leigjandi, hvernig öll löggjöf gerir ráð fyrir að þeir sem leigi saman séu annaðhvort einstaklingar eða „hefðbundin“ kjarnafjölskylda. Hafandi leigt bæði með hóp af vinum en líka með móður minni, sem meðleigjandi. Þar lenti ég í smá ruglingi vegna þess að lánasjóðurinn lánar minna til fólks sem býr „í foreldrahúsum“ en til þeirra sem eru á leigumarkaði. Hvað um þá sem leigja með foreldrum sínum? Svo vantar alltaf að gera ráð fyrir því að meðleigjendur séu hlutur. Eins og einhver sagði, „einkvæni, í þessum efnahag?“ Það þarf svo sannarlega að uppfæra lög til þess að passa við lifnaðarhætti nútímafólks.“

    „Tími til kominn að lögin geri ráð fyrir breytileika sambúðarforma. Þetta væri mikilvægt skref í átt að jafnræði með tilliti til sambúðar sem grundvallast ekki á kynferðislegu sambandi, sem og með tilliti til sambúðar fleiri en tveggja aðila.
    Það á fólki að vera í sjálfsvald sett með hverjum það býr, og lögin eiga að taka tillit til þess að það eru margir aðrir möguleikar sem fólki kunna að hugnast en að vera í sambúð sem byggir á kynferðislegu sambandi við eina aðra manneskju. Líf- og mannfræðileg vitneskja okkar um það hverskonar samlífiseiningar hafa tíðkast meðal mannfólks um víða veröld sýnir berlega að margskonar sambúðar- og fjölskylduform hafa tíðkast hjá tegund okkar frá örófi alda, og að langt því frá öll þeirra grundvallast á barneign. Það er í hróplegu ósamræmi við þessa vitneskju að löggjafinn hygli einu slíku formi fram yfir önnur.
    Löggjafinn ætti að styðja til jafns við þau sambúðar- og fjölskylduform sem fólk kýs sér af fúsum og frjálsum vilja, með upplýstu og óþvinguðu samþykki. Óháð því hvort um er að ræða lögráða fólk sem kýs að búa eitt, tvö, þrjú eða fleiri í heimili. Óháð því hvort sambúð er grundvölluð á kynferðislegri aðlöðun, platónskum vinskap, fjölskylduböndum öðrum en við valinn maka, eða hreinni hagkvæmni. Löggjafinn á að vera til staðar fyrir þá sem tilheyra samfélaginu.
    Til stuðnings tillögunni væri eflaust akkur í því að ræða við mannfræðing sem hefur velt fyrir sér ólíkum samfélagsgerðum. Því miður hef ég ekki uppástungu um slíkan aðila. Til að vega upp á móti feðraveldismótaðri sýn á fjölkvæni væri skynsamlegt að kynna sér samfélög sem hafa grundvallast á fjölveri (polyandrous societies). Þá er gott að hafa í huga að rannsóknir á fjölkvæni og fjölveri eru líklegar til að vera litaðar af karllægum vestrænum sjónarhóli. Kvenréttindabaráttan hefur vissulega viljað útrýma fjölkvæni, en það er þá byggt á þeim grundvelli að slíkt fjölkvæni hefur ekki byggst á upplýstu og óþvinguðu samþykki, ólíkt því sem á við um fjölástir undir hinseginregnhlífinni.
    Líffræðilegan grunn undir mannfræðipælingarnar væri helst að finna innan atferlisfræðinnar. Þar eru mismunandi mökunarnálganir (mating strategies) rannsakaðar hjá mismunandi tegundum, og það er deginum ljósara að mannkyn beitir fjölmörgum mökunarnálgunum, eftir aðstæðum og hentugleik. T.d. má færa rök fyrir því að „serial social monogamy with tendencies towards sexual polygamy“ sé sú mökunarnálgun sem hefur verið mest við lýði á Vesturlöndum, og að lögfesting skilnaða hafi verið skref í átt að því að viðurkenna þá mökunarnálgun sem staðreynd, frekar en einvörðungu „social, sexual and genetic monogamy“ sem var hin opinbera stefna lengi vel (og er víst enn í hugum sumra).
    Sambýli systkina og/eða mismunandi ættliða til sveita er einnig gott dæmi um hvernig löggjafinn hefur hyglt kynferðislegu sambýli tveggja fram yfir aðrar gerðir sambýlis.“

    „Ekki eru færð nein heilstæð rök fyrir þessari breytingu. Svo vikið sé að einu atriði, sem eru ættleiðingar. Ef 7 manneskjur geta skráð sig í sambúð eða hjónaband og ættleitt svo barn. Hvað verður þá um barnið þegar sjömenningarnir slíta hjúskapnum? Ekki er ólíklegt að allir vilji hafa forræði yfir barninu og þá er nú forræði barnsins ekki bara sameiginlegt heldur einnig fjarska flókið. Er hagur barnsins hafður að leiðarljósi með auknu flækjustigi?“

    „Ég er hjartanlega sammála þessari tillögu þó ég hafi engan hug á að nýta mér þessa breytingu. Mér hefur alltaf þótt sérkennilegt að ríkið skipti sér af þessu enda kemur þetta engum við nema þeim sem eiga í hlut.“

    „Það þyrfti þá að taka á sama tíma í gegn lög um dánarbú og erfðir. Ef aðili í búskap fellur frá þá þarf að vera skýrt hver á erfðarétt.“

    „Mér finnst málið þarft og sjálfsagt með tilliti til réttinda fólks þegar kemur að sköttum og tekjum, eignum og eignaskiptingu, fjárfestingum og skuldsetningu, tryggingum, erfðum og þegar kemur að úrræðum er varða heilbrigðisþjónustu og bætur eða fjárhagsaðstoð. Það að skyldir sem óskyldir tveir eða fleiri geti skráð sambúð sem er jöfn að lögum við hjónaband er í dag er fyrst og fremst lagalegur réttur fólks gagnvart hvort öðru.
    Mig grunar þó að þetta eigi eftir að fara þvert ofan í stóran hóp fólks. Þar held ég að tungumálið komi til með að hafa úrslita atkvæðið. Þetta er í mínum huga spurning um orðanotkun. Það er ekki svo einfalt að breyta skilningi fólks á orðum og hugtökum. Til að koma í veg fyrir að fólk tengi þetta hjónaböndum og rómantískum samböndum þarf að velja rétt orð. „Hjúskapur“ og „maki“ eru orð sem hafa sterka merkingu. betra væri að keyra meira á „sambúð“, „sambúðarfólk“, „fjölskylda“ eða önnur orð sem hafa víðari merkingu og síður skírskotun í hjónaband og rómantíska ást.“

    „Löngu kominn tími til að fólk geti skráð sig í sambúð og giftast fleiri en einni manneskju verandi fjölkær skiptir þetta mig máli og fagna því þetta sé komið inná þing og vona innilega þetta verði samþykkt bæði sambúð og gifting“

    „Ég styð þessa tillögu. Þetta snýst einfaldlega um mannréttindi fólks. Það er ekki eðlilegt að ríki stjórni því hvernig fólk kýs að lifa lífi sínu eða haga sínum persónulegu gjörðum er snerta þeirra einkalíf og umsjón eða fyrirkomulag fjölskyldu. Við eigum að vera komin lengra en svo, það er 2021 eftir allt saman.“

    Svavar Kjarrval deildi einni umsögn um málið á samfélagsmiðlum og telja flutningsmenn nauðsynlegt að hafa þá umsögn með í greinargerð þrátt fyrir að hún hafi ekki verið send inn í gegnum formlega umsagnarferlið:
    „Álitaefnið um hjúskap og skráða sambúð þriggja eða fleiri einstaklinga er áhugavert, sérstaklega ef maður íhugar hvernig skuli haga frágangnum, þ.e. í tilviki skilnaðar og/eða andláts. Þó auðvitað þurfi að taka afstöðu með eða á móti því hvort stofna yrði hjúskapinn með öllum frá upphafi eða hvort síðari aðilar geti komið inn í þegar-stofnaðan hjúskap.
    Taka þyrfti afstöðu til þess hvort að skilnaður eins einstaklings leiði til þess að hjúskapur allra slitni í heild eða eingöngu að hluti viðkomandi einstaklings „brotni“ frá hjúskapnum. Þá má einnig hugsa út í ef tveir einstaklingar í þriggja manna hjúskap vilja skilja við einn annan en samt halda hjúskapnum sín á milli. Enn fremur ef tveir úr hjúskap sækjast eftir því að skilja við tvo eða fleiri, og hinir síðarnefndu vilja ýmist halda sínum hjúskap eður ei.
    Þá má svo sem einnig hugsa hver sé sanngjarnasta leiðin til að skipta eignunum í ljósi áðurnefndra aðstæðna. Sambúð og hjúskapur þriggja eða fleiri skapa auðvitað aðeins fleiri úrlausnarefni í þeim tilvikum, líkt og ef einn aðili hefur skilnaðarferlið en svo kemur annar aðili áður en skiptaferlinu lýkur og krefst einnig skilnaðar. Ætti þá að fresta skiptaferlinu hvað síðarnefnda aðilann varðar eða sameina? Hvað ef síðar kemur í ljós ágreiningur varðandi fyrri aðilann er leiðir til ógildingar eða breytingar?
    Jafnframt þyrfti að íhuga slíkt ferli í tilviki andláts eins maka, m.a. varðandi óskipt bú. Núna er lagalega ferlið slíkt að fyrst á að afgreiða skiptin í hjúskaparbúinu áður en skiptin í dánarbúinu eru afgreidd. Í framkvæmd eru búin oft afgreidd samtímis en með hliðsjón af þessu. Með hjúskap þriggja eða fleiri geta komið upp álitamál ef hjúskaparbú gætu tæknilega séð lifað lengur en allir í hjúskapnum þegar hinn látni dó, þ.e. ef fólk getur „bæst inn í“ hjúskapinn eftir andlátið.
    Að lokum þyrfti að íhuga stöðuna um viðurkenningu hjúskaparins utan Íslands. Fræðimenn eru á því að skyldur annarra ríkja til að viðurkenna hjúskap þriggja eða fleiri séu engar nema viðkomandi ríki hafi samsvarandi heimildir fyrir sína íbúa eða viðurkenni það sérstaklega. Því gætu hjón í slíkum hjúskap lent í því að hjúskapur þeirra verði ekki viðurkenndur erlendis.
    Með þessu er ég ekki að gefa til kynna að þetta sé óleysanlegt verkefni, en ljóst er að þetta verður ekki auðvelt mál og þyrfti mögulega að aðlaga núverandi lagakerfi að slíku fyrirkomulagi.“