Ferill 544. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 910  —  544. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki (varanleg hækkun).

Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      Í stað „20 hundraðshlutum“ í 1. málsl. kemur: 35 hundraðshlutum.
     b.      Á eftir orðunum „vegna þessara verkefna“ í 1. málsl. kemur: í tilfelli lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25 hundraðshluta í tilviki stórra fyrirtækja.
     c.      Í stað 2. og 3. málsl. kemur einn nýr málsliður sem orðast svo: Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki skal vera 1.100.000.000 kr. á rekstrarári, þar af skal heimilt að telja til þeirrar fjárhæðar allt að 200.000.000 kr. vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr.

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með lögum nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var tveimur bráðabirgðaákvæðum bætt við lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í þeim felst að stuðningur við staðfest rannsóknar- og þróunarverkefni nýsköpunarfyrirtækja, sbr. 5. gr. laganna, er aukinn tímabundið. Annars vegar eiga fyrirtæki með staðfest verkefni rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 og hins vegar er hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 hækkað.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að bráðabirgðaákvæðin verði færð varanlega inn í lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Framangreindar ívilnanir hafa stuðlað að arðbærum rannsóknum og þróun hjá nýsköpunarfyrirtækjum og miklu skiptir að skapa stöðugleika til frambúðar með því að festa þær í lögum. Fjölmörg nýsköpunarfyrirtæki hafa náð góðum árangri, ekki síst fyrir tilstuðlan þessa kerfis. Óhætt er að segja að hörð alþjóðleg samkeppni ríki um staðsetningu nýsköpunarfyrirtækja og um að skapa umhverfi sem veitir þeim tækifæri til áframhaldandi vaxtar. Nýsköpun og fjárfestingar henni tengdar eru langtímaverkefni og þess vegna skiptir máli að horft sé til langs tíma þegar stuðningur og ívilnanir eru ákveðnar. Þar má Ísland ekki vera eftirbátur annarra.
    Þetta er stuðningur sem er almennur en ekki sértækur. Hann krefst þess að fyrirtækin sjálf fjármagni leiðina í upphafi en færir þeim mikilvægt svigrúm til þess að taka aðeins meiri áhættu með fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Það leiðir til þess að til verða vel launuð störf í fyrirtækjunum sem skila auknum skatttekjum. Fyrirtækin eflast, auka fjölbreytni í atvinnulífinu og skila þannig ávinningi til samfélagsins, framförum, sköttum og atvinnusköpun.