Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 926  —  7. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (varnarlína um fjárfestingarbankastarfsemi).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í kjölfar bankahrunsins 2008 hefur starfsemi fjármálafyrirtækja verið mjög til endurskoðunar um allan heim. Regluverk hefur verið endurskoðað og reynt að reisa skorður við of mikilli áhættusækni. Sérstaklega hefur verið horft til kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Ísland er hér engin undantekning, en þróunin hér á landi hefur ráðist að miklu leyti af breytingum á löggjöf innan Evrópusambandsins.
    Á liðnum árum hefur verið lögð umtalsverð vinna af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins í að fara yfir íslenska löggjöf og þróun íslensks fjármálamarkaðar, m.a. um tengsl starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Þeir starfshópar og nefndir sem hafa komið að þessari vinnu eru sammála um að rétt sé að takmarka samtvinnun þessarar starfsemi til þess að draga úr áhættu innstæðueigenda og fjármálakerfisins í heild. Niðurstaða þessarar vinnu er að skynsamlegt sé að bein og óbein stöðutaka kerfislega mikilvægra banka verði takmörkuð þannig að eiginfjárþörf vegna hennar verði ekki umfram 10–15% af eiginfjárgrunni þeirra, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu.
    Fyrsti minni hluti telur að hafa verði í huga að íslenska fjármálakerfið er lítið í alþjóðlegum samanburði og íslenskt efnahags- og atvinnulíf er tiltölulega einsleitt. Hér á landi eru krosseignatengsl umtalsverð. Þetta leiðir til þess að áhættan af sameiginlegu áfalli í fjármálakerfinu getur orðið meiri ef út af bregður.
    Fyrsti minni hluti telur að verði takmörk sett á beina eða óbeina stöðutöku kerfislega mikilvægra viðskiptabanka og sparisjóða, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, sé rétt að miða við þau neðri mörk sem voru sett fram í aðdraganda frumvarpsins. Mörkin verði þannig sett við 10% en ekki 15%. Þannig eru tekin varfærin skref sem veita samt sem áður viðskiptabönkum og sparisjóðum talsvert svigrúm miðað við það hlutfall stöðutöku sem nú er, eða um 5%.
    Fyrsti minni hluti telur jafnframt að rétt sé að taka þetta hlutfall til endurskoðunar að fenginni nokkurri reynslu af þessari takmörkun. Þá verður hægt að leggja mat á hvort rétt sé að hækka eða lækka þetta hlutfall og hvort það skili tilætlaðri vörn gegn áhættutöku eða hvort þurfi að grípa til annarra ráðstafana. Þá er hugsanlegt að í ljós komi að takmarkanir af þessu tagi séu óþarfar og að breytingar á áhættuvörnum íslenska fjármálakerfisins með innleiðingu nýrra laga og reglna dugi til. Lagt er til að slík endurskoðun fari fram innan fjögurra ára frá gildistöku.
    Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað „15%“ í 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. komi: 10%.
     2.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Ákvæði 28. gr. a skulu endurskoðuð fyrir 1. janúar 2026.

Alþingi, 19. febrúar 2021.

Jón Steindór Valdimarsson.