Ferill 560. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 940  —  560. mál.




Beiðni um skýrslu


frá heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi.

Frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Ágústi Ólafi Ágústssyni, Bergþóri Ólasyni, Birni Leví Gunnarssyni, Guðjóni S. Brjánssyni, Guðmundi Andra Thorssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Helgu Völu Helgadóttur, Helga Hrafni Gunnarssyni, Karli Gauta Hjaltasyni, Loga Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur, Olgu Margréti Cilia, Ólafi Ísleifssyni, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Söru Elísu Þórðardóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Sigurði Páli Jónssyni, Smára McCarthy og Þorsteini Sæmundssyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um forsendur og áhrif breytinga á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Í skýrslunni komi m.a. fram:
     1.      Forsendur að baki þeirri ákvörðun að semja við erlenda rannsóknarstofu um að sinna greiningu á sýnum. Fjallað verði um samráð af hálfu heilbrigðisráðuneytisins í ferlinu, við hverja hafi verið haft samráð áður en ákveðið var að fela Hvidovre-sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn verkefnið og hver afstaða einstakra aðila hafi verið til þess að flytja greiningu á sýnum til útlanda.
     2.      Áhrif á aðgengi að sýnum fyrir sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins hérlendis og á kostnað við greiningu leghálssýna.
     3.      Hvort og þá hvernig heilbrigðisráðuneytið hafi lagt mat á greiningargetu meinafræðideildar Landspítala í tengslum við skimun fyrir leghálskrabbameini.
     4.      Áhrif breytinganna á öryggi skimunar, m.a. vegna aðgengis, flutninga og samskipta milli landa.
     5.      Áhrif breytinganna á sérhæfð störf við greiningu sýna vegna krabbameinsskimunar á Íslandi, þar á meðal hvort einhver störf glatist og þá hversu mörg, áhrif á sérfræðiþekkingu hérlendis við þessar breytingar og hver áhrif kunna að verða á aðra rannsóknar- og greiningarvinnu hérlendis.

Greinargerð.

    Ákvörðun heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini felur m.a. í sér að sýni verði flutt úr landi til greiningar. Þessi ákvörðun hefur sætt þungri gagnrýni, ekki síst af hálfu sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins. Þá hafa viðbrögð í samfélaginu jafnframt verið sterk. Læknafélag Íslands hefur ályktað að með því að flytja úr landi rannsóknarhluta leitarstarfsins hvað varðar krabbameinsleit í leghálsi séu mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi. Hin sama er afstaða Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Félags íslenskra rannsóknarlækna og meiri hluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini. Þá hefur því verið haldið fram að hætta sé á því að sérfræðiþekking innan lands kunni að glatast og jafnframt að færsla rannsóknarhlutans í ferlinu geti haft áhrif á rannsóknir innan lands að öðru leyti.
    Töluverð umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum um vinnulag í tengslum við áðurnefndar breytingar og aðrar sem kynntar voru samhliða. Hafa breytingarnar vakið sterk viðbrögð í samfélaginu, ekki síst af hálfu kvenna. Skimun varðar heilsu og líf þeirra og mikilvægt er að traust ríki á heilbrigðiskerfinu.
    Markmiðið með skýrslubeiðni þessari er að stuðla að því að unnt verði að efla traust kvenna og alls almennings á skimun fyrir krabbameini í leghálsi. Afar mikilvægt er að traust og sátt ríki í garð heilbrigðisyfirvalda sem þessa þjónustu veita.
    Skýrslubeiðendur óska þess að fram komi forsendur að baki ákvörðun heilbrigðisráðherra um að fá erlenda rannsóknarstofu til að annast rannsóknarhluta skimunar á sýnum úr leghálsi. Í skýrslunni verði varpað ljósi á hvort og þá hvers konar samráð hafi verið viðhaft í aðdraganda ákvörðunarinnar, við hvaða aðila hafi verið rætt og hver afstaða þeirra hafi verið til flutningsins. Skýrslubeiðendur óska þess jafnframt að metin verði áhrif umræddrar ákvörðunar á aðgengi sérfræðinga að sýnunum hérlendis og á kostnað sem af hefur hlotist. Þá skuli í skýrslunni koma fram hvort og þá hvernig heilbrigðisráðuneytið hafi lagt mat á getu meinafræðideildar Landspítala til að sinna greiningu á leghálssýnum, frumustroki og skimun fyrir HPV-sýkingu. Mat verði lagt á það hvaða áhrif flutningar milli landa hafi á aðgengi að sýnum og öryggi þeirra. Að lokum skuli metin áhrif breytinganna á sérhæfð störf við greiningu sýna vegna krabbameinsskimunar á Íslandi, þar á meðal hvort störf glatist, hvort hætta sé á að sérfræðiþekking glatist hérlendis við flutning þessa verkefnis sem og hver áhrif kunna að verða á aðra rannsóknar- og greiningarvinnu hérlendis.
    Að mati skýrslubeiðenda fer best á því að skýrsla um ofangreinda þætti verði unnin af óháðum aðila. Æskilegt er að samráð verði haft við þingflokka um þann óháða aðila sem fenginn verður til starfans.