Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 965  —  136. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rán Tryggvadóttur og Karitas H. Gunnarsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Kristin Halldór Einarsson frá Blindrafélaginu, Sædísi Ósk Harðardóttur, Sigrúnu Huld Auðunsdóttur og Lilju Guðrúnu Björnsdóttur frá Félagi íslenskra sérkennara, Halldór Þ. Birgisson og Heiðar Inga Svansson frá Félagi íslenskra bókaútgefanda, Marínu Guðrúnu Hrafnsdóttur frá Hljóðbókasafni Íslands og Stefán Hjörleifsson frá Storytel á Íslandi.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Blindrafélaginu, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Félagi íslenskra sérkennara, Hljóðbókasafni Íslands og Storytel á Íslandi.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum 19. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, um takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir þá sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál til lesturs verði breytt í samræmi við ákvæði Marakess-sáttmálans um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum og felur í sér innleiðingu á tilskipun (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um sama efni.

Umfjöllun nefndarinnar.
Tímabundin veikindi eða nemendur með annað tungumál en íslensku (2. gr.).
    Í a-lið 2. gr. frumvarpsins er að finna merkingu hugtaka, svo sem hver telst vera einstaklingur með sjón- eða lestrarhömlun, án tillits til annarrar fötlunar, geti ekki á annan hátt, vegna líkamlegrar fötlunar, haldið á bók eða meðhöndlað hana eða náð sjónskerpu eða hreyft augun að því marki að viðunandi sé til að geta lesið.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að takmörkun á einkarétti höfunda ætti einnig að ná til nemenda sem hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli og til tímabundinna veikinda, þ.e. fyrir einstaklinga sem eru máttfarnir vegna meðferðar eða endurhæfingar.
    Skuldbindingar samkvæmt alþjóðasáttmálum og EES-samningnum setja ramma um að hvaða marki má takmarka einkarétt höfunda. Heimild til að takmarka einkarétt höfunda vegna einstaklinga sem ekki hafa viðkomandi tungumál að móðurmáli er ekki innan þess ramma sem heimilar takmarkanir á einkarétti höfunda. Meiri hluti nefndarinnar telur að finna þurfi aðrar leiðir til að koma til móts við þarfir þessara hópa sem þurfa að byggjast á samningum við rétthafa. Þá nær takmörkunarheimildin ekki til tímabundinna veikinda heldur nær eingöngu til fötlunar. Ef hægt er að túlka slíkt ástand sem tímabundna fötlun getur það fallið undir ákvæði d-liðar 19. gr. a. Samt sem áður þarf að tryggja að aðgangur veittur á grundvelli slíkrar tímabundinnar fötlunar sé einnig tímabundinn. Að því sögðu telur meiri hlutinn ekki grundvöll til þess að leggja til breytingar samkvæmt framangreindu.

Öryggisráðstafanir.
    Í e-lið 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldur og öryggisatriði sem viðurkenndir einingar þurfa að uppfylla og gæta að við gerð og notkun eintaka sem framleidd eru á aðgengilegu formi á grundvelli heimildar sem lögð er til með c-lið 1. mgr. e-liðar 2. gr. frumvarpsins. Þar á meðal skal viðurkennd starfseining gera viðeigandi ráðstafanir til þess að vinna gegn óheimilli eftirgerð eintaka á aðgengilegu formi eða því að þeim sé dreift, miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi með óheimilum hætti, sbr. b-lið sömu málsgreinar.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að aldraðir, sjónskertir og blindir ættu sumir hverjir erfitt með tæknibreytingar og breytingar á Hljóðbókasafni. Því væru frekari öryggisráðstafanir líklegar til að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir safnið. Í ljósi þess ætti að taka fram í ákvæðinu að öryggisráðstafanir mættu ekki hamla aðgengi þeirra sem á þyrftu að halda.
    Meiri hlutinn áréttar að markmið frumvarpsins er að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum. Þær viðurkenndu einingar sem nýta sér heimildir frumvarpsins muni sjálfar hafa frumkvæði að því að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að reglurnar verði ekki misnotaðar. Slíkar reglur og ráðstafanir mætti setja í samvinnu- eða í samstarfssamningi viðkomandi viðurkenndra eininga og rétthafasamtaka. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin orðalagið „viðeigandi ráðstafanir“ í b-lið 1. mgr. e-liðar 2. gr. frumvarpsins vera fullnægjandi.

Útgefendur sem rétthafar og útgáfa hljóðbóka.
    Nefndinni var bent á að ekki gætir samræmis milli ákvæða frumvarpsins og umfjöllunar í greinargerð en skv. d-lið 2. gr. frumvarpsins er bótaréttur takmarkaður við höfund en í greinargerð með frumvarpinu er vísað til rétthafa. Þannig væri rétthafi ekki endilega alltaf höfundur verks heldur geti rétthafi einnig verið útgefandi. Útgefandi sem fjárfestir í útgáfu verks geti til að mynda orðið fyrir tjóni þegar samhliða er gert annað eintak af verkinu. Við meðferð málsins komu einnig fram sjónarmið um mikilvægi þess að breytingar á höfundalögum skekktu ekki samkeppnisstöðu eða gerðu það að verkum að útgefendur sæju ekki hag sinn í því að gefa einnig út hljóðbækur. Skoða þyrfti hvort rétt væri að gera takmarkanir á þessu eða reyna með einhverjum hætti að samnýta þær hljóðbókaútgáfur sem hafa verið gerðar eða stendur til að ráðast í gegn greiðslu til útgefanda. Þá kom einnig fram að ráðast verði í endurskoðun á regluverki um Hljóðbókasafn og gerða nauðsynlegar úrbætur á framkvæmd útlána hjá safninu í samvinnu og sátt við rétthafa. Að auki var bent á að örðugt hefði reynst að fá upplýsingar um umfang útlána frá Hljóðbókasafninu.
    Höfundalög og tilskipun 2001/29/EB tryggja höfundum einkarétt til að heimila og banna not verka sinna. Tilgangur laganna og tilskipunarinnar er að gefa höfundum tækifæri til að framselja réttindi sín og afla sér þannig fjár til að halda áfram sköpun sinni. Þannig er réttur til útgáfu á bókmenntaverkum oftast framseldur tímabundið til útgefanda sem hefur þá oftast einkarétt á að gefa slík verk út í ákveðinn tíma samkvæmt ákvæðum viðkomandi samnings við höfund. Réttur útgefanda er þannig ekki einkaréttur sem tryggður er í höfundalögum heldur réttur byggður á samningum við höfunda. Ákveðnar takmarkanir á einkarétti höfundar eiga m.a. að tryggja aðgengi blindra og annarra sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál. Þær takmarkanir gilda líka um samninga höfundar við útgefanda. Í mörgum ríkjum heims er slík takmörkun sett án þess að höfundum séu greiddar bætur og er það í samræmi við alþjóðasáttmála sem kveða á um að aðildarríki hafi val um þetta atriði. Mörg ríki hafa hins vegar fyrir reglu að greiða bætur til höfunda, m.a. öll Norðurlöndin. Þetta hefur helgast af því að þegar um prentaðar bækur er að ræða snertir gerð þeirra á öðru sniði ekki hagsmuni annarra en höfunda þar sem tilgangur takmörkunarinnar er að bækur á öðru sniði séu eingöngu fyrir þá sem ekki geta notað prentað mál. Það eiga öryggisráðstafanir líka að tryggja. Með tilkomu og aukinni útgáfu hljóðbóka á almennum markaði eru þessi mörk orðin óskýrari en þó er það ekki sjálfsagt að blindir og aðrir sjónhamlaðir eða lesblindir geti nýtt sér hljóðbækur gefnar út á almennum markaði án einhverra tilfæringa. Hins vegar er ljóst að munurinn er orðinn minni og því leggur nefndin áherslu á að hægt verði að koma á samvinnu Hljóðbókasafns og útgefenda um samnýtingu og um framkvæmd útlána, svo framarlega sem tryggt er að lánþegar Hljóðbókasafns njóti aðgengis að hljóðbókum á sama tíma og bók kemur út í fyrsta sinn á prenti, enda er tilgangur takmarkana á einkarétti höfunda að jafna stöðu einstaklinga með sjón- eða lestrarhömlun við stöðu þeirra sem ekki hafa slíka fötlun. Meiri hlutinn bendir á í þessu samhengi að samkvæmt formálsgrein 14 í tilskipun (ESB) 2019/1564, sem frumvarpinu er ætlað að innleiða, má ekki krefjast þess að þeir sem hafa heimild til að nýta sér undanþáguna kanni fyrir fram hvort verk sem lesa á inn sem hljóðbók sé þegar til á almennum markaði. Í ljósi skilgreiningar á rétthafa og tilgangs takmörkunarinnar þykir ekki rétt að gera ráð fyrir að bætur fyrir not á grundvelli hennar séu greiddar til þeirra sem eru rétthafar á grundvelli samninga við höfunda, sérstaklega í ljósi þess að öryggisráðstafanir eiga að tryggja að enginn geti notað eintök sem gerð eru á grundvelli takmörkunarinnar aðrir en lánþegar Hljóðbókasafnsins. Þá er heldur ekki hægt að binda í lög að forsenda fyrir notkun takmörkunarinnar sé að kanna hvort aðgengilegt form sé þegar til á markaði.
    Varðandi aðgang rétthafa að upplýsingum um útlán og öryggi útlána þá miðar frumvarpið að því að fastar verði kveðið á um og gengið eftir að slíkar upplýsingar séu aðgengilegar, sbr. c-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Blindraletur.
    Við meðferð málsins komu fram sjónarmið um að nota orðið „punktaletur“ í stað orðsins „blindraletur“ í 2. mgr. d-liðar 2. gr. frumvarpsins.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreint og telur þá orðanotkun vera m.a. til samræmis við lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, og leggur því til breytingar þess efnis.

Gildistaka o.fl.
    Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2021. Í ljósi þess að það tímamark er liðið leggur meiri hlutinn til breytingar þess efnis að lögin öðlist þegar gildi. Auk þess leggur meiri hlutinn til breytingar sem eru tæknilegs eðlis sem og minni háttar orðalagsbreytingar.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 1. mars 2021.

Páll Magnússon,
form.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Birgir Ármannsson. Katla Hólm Þórhildardóttir. Steinunn Þóra Árnadóttir.