Ferill 526. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 972  —  526. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um stöðu aðgerða samkvæmt þingsályktun nr. 18/150 um fræðslu um vefjagigt og endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.

     1.      Hefur ráðherra beitt sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og ef svo er, með hvaða hætti? Ef ekki, hvenær má vænta þess?
    Heilbrigðisráðuneytið samdi árið 2011 við Þraut, miðstöð vefjagigtar og tengdra sjúkdóma, um endurhæfingarþjónustu. Miðstöðin annast sérhæfða þjónustu fyrir einstaklinga með vefjagigt þar á meðal greiningu, endurhæfingu og fræðslu. Í byrjun árs 2021 var samningur við Þraut endurnýjaður. Við endurnýjun samnings var lögð sérstök áhersla á þrennt, þar á meðal fræðslu til almennings og starfsfólks heilsugæslu um vefjagigt og er gert ráð fyrir að sú vinna hefjist á þessu ári. Þá var einnig lögð áhersla á að stytta biðlista eftir greiningarmati þannig að hefja megi endurhæfingarmeðferð fyrr og snemmtæk inngrip til að fyrirbyggja framgang sjúkdómsins og koma í veg fyrir örorku.

     2.      Hefur farið fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu? Ef ekki, hvenær má vænta þess?
    Endurskoðun hefur farið fram en vorið 2020 kom út endurhæfingarstefna. Í framhaldinu vann ráðuneytið aðgerðaáætlun um endurhæfingu til fimm ára sem heilbrigðisráðherra kynnti í lok síðasta árs. Í aðgerðaáætluninni er rík áhersla lögð á aukið hlutverk heilsugæslu í endurhæfingu og jafnframt er stefnt að því að stórauka fjarheilbrigðisþjónustu á þessu sviði. Að auki er sérstök áhersla lögð á að styrkja þátt endurhæfingar í grunnnámi heilbrigðisstétta. Einn liður í aðgerðaáætluninni er stofnun endurhæfingarteyma í hverju heilbrigðisumdæmi og er slíkt endurhæfingarteymi þegar tekið til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þetta fyrsta endurhæfingarteymi mun beita heildrænni nálgun við endurhæfingu og fyrst um sinn þjónusta einstaklinga með þráláta verki vegna stoðkerfisvanda. Gert er ráð fyrir að endurhæfingarteymi verði stofnuð í öðrum heilbrigðisumdæmum í kjölfarið.

     3.      Hefur verið unnið að því að styrkja greiningarferlið vegna vefjagigtar og ef svo er, með hvaða hætti? Ef ekki, hvenær má vænta þess?
    Eins og fram kemur í Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er heilsugæslan fyrsti viðkomustaður í heilbrigðisþjónustu og er því sjálfsagður greiningaraðili vefjagigtar. Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar miðar samningur við Þraut m.a. að því að auka fræðslu um vefjagigt meðal starfsfólks heilsugæslunnar, auk þess sem aðgerðir í aðgerðaáætlun um endurhæfingu til næstu fimm ára munu styrkja hlutverk heilsugæslunnar á sviði greininga og endurhæfingar.

     4.      Er byrjað að bjóða upp á heildræna meðferð við vefjagigt byggða á gagnreyndum rannsóknum? Ef ekki, hvenær má vænta þess?
    Í nóvember sl. skipaði heilbrigðisráðherra þverfaglegan starfshóp um langvinna verki. Hlutverk hópsins er að taka saman tölulegar upplýsingar um fjölda, aldur og kyn skjólstæðinga; meðferðir sem veittar eru, hvar og af hverjum og gera tillögur að úrbótum í þjónustu og skipulagi sem auðveldar aðgengi og ferli sjúklinga í kerfinu. Starfshópurinn mun skila stöðuskýrslu í byrjun apríl sem mun verða innlegg í frekari vinnu við sérhæfðari endurhæfingarþjónustu vegna langvinnra verkja, þ.m.t. þjónustu vegna vefjagigtar.