Ferill 583. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 991  —  583. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um greiðsluþjónustu.

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um greiðsluþjónustu sem veitt er hér á landi.
    Ákvæði IV.–VII. kafla gilda um greiðslur í gjaldmiðli aðildarríkis ef bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru staðsettir í aðildarríki, eða ef einungis einn greiðsluþjónustuveitandi kemur að framkvæmd greiðslunnar og hann er staddur í aðildarríki.
    Ákvæði IV. kafla, að undanskildum b-lið 1. mgr. 50. gr., e-lið 2. tölul. 54. gr. og a-lið 58. gr., og V.–VII. kafla, að undanskildum 87.–90. gr., gilda um greiðslur sem framkvæmdar eru á Evrópska efnahagssvæðinu og í gjaldmiðli sem er ekki gjaldmiðill aðildarríkis ef bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru staðsettir í aðildarríki, eða ef einungis einn greiðsluþjónustuveitandi kemur að framkvæmd greiðslu og er staðsettur í aðildarríki.
    Ákvæði IV. kafla, að undanskildum b-lið 1. mgr. 50. gr., e-lið 2. tölul. 54. gr., g-lið 5. tölul. 54. gr. og a-lið 58. gr., og V.–VII. kafla, að undaskildum 3. og 4. mgr. 64. gr., 82. gr., 83. gr., 1. mgr. 88. gr., 93. gr. og 96. gr., gilda um greiðslur í öllum gjaldmiðlum þar sem annar greiðsluþjónustuveitandinn er staðsettur í aðildarríki og um er að ræða greiðslur sem eru framkvæmdar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Þrátt fyrir 4. mgr. gilda ákvæði 88.–91. gr. aðeins um eftirfarandi greiðslur:
     a.      greiðslur í evrum,
     b.      greiðslur í íslenskum krónum innan Íslands,
     c.      greiðslur sem fela aðeins í sér einn gjaldmiðilsumreikning milli evru og íslenskrar krónu að því tilskildu að gjaldmiðilsumreikningurinn fari fram á Íslandi og, þegar um er að ræða greiðslur yfir landamæri, að þær fari fram í evrum,
     d.      aðrar greiðslur innan aðildarríkjanna, nema um annað hafi verið samið; þetta á þó ekki við um 91. gr. sem er ófrávíkjanleg.

2. gr.

Takmörkun á gildissviði.

    Lög þessi gilda ekki um:
     1.      Greiðslur sem fara einvörðungu fram í reiðufé beint frá greiðanda til viðtakanda greiðslu milliliðalaust.
     2.      Greiðslur frá greiðanda til viðtakanda greiðslu fyrir milligöngu umboðsmanns sem hefur leyfi samkvæmt samningi til að semja um eða ganga frá sölu eða kaupum á vöru eða þjónustu fyrir hönd greiðanda eingöngu eða viðtakanda greiðslu eingöngu.
     3.      Flutning í atvinnuskyni á seðlum og mynt, þ.m.t. söfnun þeirra, meðhöndlun og afhendingu.
     4.      Greiðslur sem felast í söfnun á reiðufé og afhendingu, sem er ekki í atvinnuskyni, innan ramma starfsemi sem er ekki í hagnaðar- eða góðgerðaskyni.
     5.      Þjónustu þar sem viðtakandi greiðslu afhendir greiðanda reiðufé, í kjölfar skýrrar beiðni greiðanda rétt áður en framkvæmd greiðslunnar fer fram, til kaupa á vöru og þjónustu.
     6.      Gjaldeyrisviðskipti í reiðufé þar sem fjármunir eru ekki geymdir á greiðslureikningi.
     7.      Greiðslur sem byggjast á tékkum, ferðatékkum, víxlum, úttektarseðlum eða póstávísunum á pappír.
     8.      Greiðslur sem fara fram í greiðslu- eða verðbréfauppgjörskerfi milli uppgjörsaðila, miðlægra mótaðila, greiðslujöfnunarstöðva og/eða seðlabanka og annarra aðila að kerfinu og greiðsluþjónustuveitenda, sbr. þó 36. gr.
     9.      Greiðslur sem tengjast umsýslu verðbréfa, þ.m.t. arðgreiðslur og aðrar tekjur, svo sem vegna innlausnar eða sölu, sem aðilar þeir er um getur í 8. tölul. eða fjármálafyrirtæki með leyfi til að stunda viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti eða sjóðir um sameiginlega fjárfestingu, svo sem verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóðir, annast.
     10.      Stoðþjónustu tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustu sem felur ekki í sér að þau hafi nokkurn tíma eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skal, þ.m.t. úrvinnslu og geymslu gagna, þjónustu við verndun trúnaðarupplýsinga og friðhelgi einkalífs, sannvottun gagna og eininga, þjónustuveitu upplýsingatækni- og samskiptanets, útvegun og viðhald skjástöðva og búnaðar fyrir greiðsluþjónustu, að undanskilinni greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu.
     11.      Greiðslumiðla sem einungis er hægt að nota til kaupa á vöru eða þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða á athafnasvæði nets þjónustuveitenda samkvæmt viðskiptasamningi hvers þeirra um sig við útgefanda greiðslumiðilsins, sbr. þó 2. mgr. 38. gr.
     12.      Greiðslumiðla sem einungis er hægt að nota til kaupa á afmörkuðu úrvali vöru og þjónustu, sbr. þó 2. og 3. mgr. 38. gr.
     13.      Greiðslumiðla sem aðeins eru gjaldgengir í einu aðildarríki, lagðir eru fram að ósk fyrirtækis eða opinbers aðila og falla undir reglur landsbundins eða svæðisbundins opinbers yfirvalds í tilteknum félagslegum eða skattalegum tilgangi í því skyni að kaupa tilteknar vöru eða þjónustu af birgjum sem hafa gert viðskiptasamning við útgefanda.
     14.      Greiðslur sem framkvæmdar eru af veitanda fjarskiptanets eða veitanda viðbótarþjónustu við fjarskiptaþjónustu til handa áskrifanda að fjarskiptanetsþjónustunni eða viðbótarþjónustunni:
                  a.      fyrir kaup á stafrænu efni og talþjónustu, án tillits til búnaðarins sem notaður er til að kaupa eða nota stafrænt efni, og skuldfærðar eru á reikning áskrifanda eða
                  b.      fyrir milligöngu rafræns búnaðar og skuldfærðar á reikning áskrifanda vegna framlaga til góðgerðastarfsemi eða fyrir kaup á miðum og
                  c.      að því tilskildu að fjárhæð hverrar stakrar greiðslu sem um getur í 1. og 2. tölul. sé ekki hærri en jafngildi 50 evra í íslenskum krónum og samanlögð fjárhæð greiðslna sérhvers áskrifanda sé ekki hærri en 300 evrur á mánuði í íslenskum krónum eða ef áskrifandi greiðir fyrir fram inn á reikning sinn hjá veitanda fjarskiptanets eða fjarskiptaþjónustu og samanlögð fjárhæð greiðslna er ekki hærri en 300 evrur á mánuði í íslenskum krónum. Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
     15.      Greiðslur sem fara milli greiðsluþjónustuveitenda, umboðsaðila þeirra eða útibúa fyrir þeirra eigin reikning.
     16.      Greiðslur og tengda þjónustu sem fer fram milli móður- og dótturfélags eða milli dótturfélaga sama móðurfélags fyrir milligöngu greiðsluþjónustuveitanda sem tilheyrir sömu samstæðu.
     17.      Þjónustu sem rekstraraðilar hraðbanka veita í tengslum við úttekt reiðufjár úr hraðbanka fyrir hönd eins eða fleiri kortaútgefenda þegar rekstraraðili er ekki aðili að þeim rammasamningi sem gildir um þann viðskiptavin sem tekur peninga út af greiðslureikningi með aðstoð hraðbankans, að því tilskildu að þessir rekstraraðilar reki ekki neina aðra greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 22. tölul. 3. gr. Þó skal veita viðskiptavininum upplýsingar um öll úttektargjöld sem um getur í 45. gr., 49. gr., 51. gr. og 52. gr. áður en úttekt fer fram, sem og á kvittun fyrir reiðufénu við lok færslu eftir úttekt.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
     2.      Beingreiðsla: Greiðsluþjónusta við skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að skuldfærslunni á grundvelli samþykkis greiðanda, sem hann veitir viðtakanda greiðslu, til greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu eða til eigin greiðsluþjónustuveitanda greiðanda.
     3.      Eiginfjárgrunnur: Eiginfjárgrunnur eins og hann er skilgreindur í 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem a.m.k. 75% af eiginfjárþætti 1 er í formi almenns eigin fjár þáttar 1 eins og um getur í 84. gr. a sömu laga og þáttur 2 er jafn eða minni en þriðjungur af almennu eigin fé þáttar 1.
     4.      Fjargreiðsla: Greiðsla sem er framkvæmd á netinu eða með búnaði sem mögulegt er að nota til fjarskipta.
     5.      Fjarsamskiptamiðill: Aðferð sem nota má til að gera greiðsluþjónustusamning milli greiðsluþjónustuveitanda og notanda greiðsluþjónustu án þess að aðilar séu viðstaddir samtímis í eigin persónu.
     6.      Fjarskiptanet: Fjarskiptanet eins og það er skilgreint í lögum um fjarskipti.
     7.      Fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta eins og hún er skilgreind í lögum um fjarskipti.
     8.      Fjármunir: Peningaseðlar og mynt, inneign á reikningum eða rafeyrir samkvæmt skilgreiningu í 5. tölul. 4. gr. laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013.
     9.      Færsluhirðing greiðslna: Greiðsluþjónusta sem veitt er af greiðsluþjónustuveitanda sem gerir samning við viðtakanda greiðslu um móttöku og vinnslu greiðslna og hefur í för með sér yfirfærslu fjármuna til viðtakanda greiðslu.
     10.      Gildisdagur: Viðmiðunartími sem greiðsluþjónustuveitendur nota til að reikna vexti af fjármunum sem eru skuldfærðir af eða eignfærðir á greiðslureikning.
     11.      Gistiaðildarríki: Annað aðildarríki en heimaaðildarríkið þar sem greiðsluþjónustuveitandi hefur umboðsaðila og/eða útibú og veitir greiðsluþjónustu.
     12.      Greiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og heimilar greiðslufyrirmæli tengd greiðslureikningnum eða, þegar engum greiðslureikningi er fyrir að fara, einstaklingur eða lögaðili sem gefur greiðslufyrirmæli.
     13.      Greiðsla: Aðgerð sem greiðandi eða einhver fyrir hans hönd eða viðtakandi greiðslu fyrir hönd greiðanda á frumkvæði að með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni án tillits til þess hvort einhverjar skuldbindingar milli greiðanda og viðtakanda greiðslu liggja til grundvallar.
     14.      Greiðslufyrirmæli: Fyrirmæli greiðanda eða viðtakanda greiðslu til greiðsluþjónustuveitanda um framkvæmd greiðslu.
     15.      Greiðslukerfi: Kerfi til að yfirfæra fjármuni með formlegu og stöðluðu fyrirkomulagi og sameiginlegum reglum um meðferð, greiðslujöfnun og/eða uppgjör greiðslna.
     16.      Greiðslumiðill: Persónubundinn búnaður og/eða aðferðir sem notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi koma sér saman um að nota til að gefa greiðslufyrirmæli.
     17.      Greiðslureikningur: Reikningur í nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu, sem er notaður við framkvæmd greiðslu.
     18.      Greiðslustofnun: Lögaðili sem fengið hefur starfsleyfi til starfrækslu greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
     19.      Greiðsluvirkjandi: Greiðsluþjónustuveitandi sem stundar greiðsluvirkjun skv. g-lið 22. tölul.
     20.      Greiðsluvirkjun: Þjónusta sem felst í að virkja greiðslufyrirmæli að beiðni notanda greiðsluþjónustu að því er varðar greiðslureikning sem vistaður er hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda.
     21.      Greiðsluvörumerki: Hvers konar efnislegt eða rafrænt nafn, heiti, merki, tákn, eða samsetning þeirra, sem getur tilgreint innan hvaða greiðslukortakerfis kortatengdar greiðslur eru framkvæmdar.
     22.      Greiðsluþjónusta:
                  a.      Þjónusta sem gerir kleift að leggja reiðufé inn á greiðslureikning ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
                  b.      Þjónusta sem gerir kleift að taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru vegna rekstrar greiðslureiknings.
                  c.      Framkvæmd greiðslna, þ.m.t. millifærslur fjármuna á og af greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda notanda eða hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda:
                      1.      framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna,
                      2.      framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
                      3.      framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna.
                  d.      Framkvæmd greiðslna ef fjármunir eru tryggðir með lánalínu fyrir notanda greiðsluþjónustu:
                      1.      framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna,
                      2.      framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
                      3.      framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna.
                  e.      Útgáfa greiðslumiðla og/eða færsluhirðing greiðslna.
                  f.      Peningasending.
                  g.      Greiðsluvirkjun.
                  h.      Reikningsupplýsingaþjónusta.
     23.      Greiðsluþjónustuveitandi:
                  a.      Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning, þ.m.t. útibú þeirra, eins og þau eru skilgreind í 12. tölul. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ef slík útibú eru á Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem aðalskrifstofur þessara útibúa eru innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við 47. gr. tilskipunar 2013/36/ESB og landslög.
                  b.      Rafeyrisfyrirtæki í samræmi við lög um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, þ.m.t. útibú þeirra í samræmi við 34. gr. þeirra laga ef slík útibú eru staðsett innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðalskrifstofur þeirra eru utan þess að því marki sem greiðsluþjónustan sem þessi útibú veita er í tengslum við útgáfu rafeyris.
                  c.      Póstgíróstofnun sem hefur rétt samkvæmt landslögum til að veita greiðsluþjónustu.
                  d.      Greiðslustofnun.
                  e.      Seðlabanki Evrópu og seðlabankar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála.
                  f.      Stjórnvöld ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra.
                  g.      Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.
                  h.      Lögaðili eða einstaklingur sem hefur fengið undanþágu skv. 35. gr.
     24.      Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu: Greiðsluþjónustuveitandi sem býður og viðheldur greiðslureikningi fyrir greiðanda.
     25.      Heimaaðildarríki: Annaðhvort aðildarríkið þar sem skráð skrifstofa greiðsluþjónustuveitanda er eða, ef greiðsluþjónustuveitandi hefur enga skráða skrifstofu, aðildarríkið þar sem hann er með aðalskrifstofu.
     26.      Kortasamstarf: Þegar tvö eða fleiri greiðsluvörumerki eða greiðsluleiðir sama vörumerkis eru á sama greiðslumiðlinum.
     27.      Millifærsla fjármuna: Greiðsluþjónusta við eignfærslu á reikningi viðtakanda greiðslu, með greiðslu eða röð greiðslna af greiðslureikningi greiðanda, framkvæmd af greiðsluþjónustuveitandanum sem geymir reikning greiðanda, á grundvelli fyrirmæla hans.
     28.      Neytandi: Einstaklingur sem í samningum um greiðsluþjónustu kemur fram í öðrum tilgangi en vegna starfs síns eða atvinnurekstrar.
     29.      Notandi greiðsluþjónustu: Einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér greiðsluþjónustu sem greiðandi, viðtakandi eða hvort tveggja.
     30.      Peningasending: Greiðsluþjónusta þar sem tekið er við fjármunum frá greiðanda, án þess að stofnaðir hafi verið greiðslureikningar í nafni greiðanda eða viðtakanda greiðslu, í þeim eina tilgangi að senda samsvarandi fjárhæð til viðtakanda greiðslu eða til annars greiðsluþjónustuveitanda fyrir hönd viðtakanda greiðslu og/eða þegar tekið er við fjármunum fyrir hönd viðtakanda greiðslu og þeir afhentir honum til ráðstöfunar.
     31.      Persónubundin öryggisskilríki: Persónubundnir þættir sem greiðsluþjónustuveitandi afhendir notanda greiðsluþjónustu í tilgangi sannvottunar.
     32.      Rammasamningur: Samningur um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna og röð greiðslna í framtíðinni og sem kann að fela í sér skyldu til stofnunar greiðslureiknings og skilmála þar um.
     33.      Reikningsupplýsingaþjónusta: Beinlínuþjónusta sem veitir samsteyptar upplýsingar um einn eða fleiri greiðslureikninga sem notandi greiðsluþjónustu á hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda eða hjá fleiri en einum greiðsluþjónustuveitanda.
     34.      Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi: Greiðsluþjónustuveitandi sem stundar reikningsupplýsingaþjónustu skv. h-lið 22. tölul.
     35.      Samstæða: Samstæða eins og hún er skilgreind í 33. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, eða fyrirtæki eins og þau eru skilgreind í 4.–7. gr. framseldrar reglugerðar (ESB) nr. 241/2014, sem tengjast hvert öðru með sambandi sem um getur í 1. mgr. 10. gr. eða 6. eða 7. mgr. 113. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 sem innleidd var með reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017.
     36.      Sannvottun: Aðferð sem gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að sannreyna að greiðslufyrirmæli hafi komið frá notanda greiðsluþjónustu eða notkun tiltekins greiðslumiðils, þ.m.t. notkun á persónubundnum öryggisskilríkjum notandans.
     37.      Sérstakt kennimerki: Samsetning bókstafa, tölustafa eða tákna sem greiðsluþjónustuveitandi úthlutar viðkomandi notanda greiðsluþjónustu og sem notandi greiðsluþjónustu skal tilgreina til að unnt sé að staðfesta ótvírætt deili á öðrum notanda greiðsluþjónustu og/eða númer greiðslureiknings þess notanda greiðsluþjónustu vegna greiðslu.
     38.      Smágreiðslumiðill: Greiðslumiðill sem rammasamningur kveður á um að einstakar greiðslur fari ekki yfir jafnvirði 30 evra í íslenskum krónum eða hefur annaðhvort útgjaldaþak sem nemur jafnvirði 150 evra í íslenskum krónum eða geymir fjármuni sem fara aldrei yfir jafnvirði 150 evra í íslenskum krónum. Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
     39.      Stafrænt efni: Vara eða þjónusta sem er veitt í stafrænu formi, notkun hennar eða neysla takmörkuð við tæknibúnað og sem felur ekki á neinn hátt í sér notkun eða neyslu á efnislegri vöru eða þjónustu.
     40.      Sterk sannvottun viðskiptavinar: Sannvottun á grundvelli notkunar tveggja eða fleiri þátta sem flokkast sem þekking, þ.e. eitthvað sem notandinn einn veit, umráð, þ.e. eitthvað sem notandinn einn hefur umráð yfir, og eðlislægni, þ.e. eitthvað sem notandinn er. Þættirnir sem um ræðir skulu vera óháðir hver öðrum þannig að brot á einum hafi ekki áhrif á áreiðanleika hinna. Vottunin er hönnuð til að vernda trúnað sannvottunargagnanna.
     41.      Umboðsaðili: Einstaklingur eða lögaðili sem kemur fram fyrir hönd greiðslustofnunar við veitingu greiðsluþjónustu.
     42.      Útgáfa greiðslumiðla: Greiðsluþjónusta samkvæmt samningi um að veita greiðanda greiðslumiðil til að setja af stað og vinna greiðslur.
     43.      Útgefandi kortatengds greiðslumiðils: Greiðsluþjónustuveitandi sem gefur út kortatengdan greiðslumiðil sem notaður er til að setja af stað greiðslu út af greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda notanda greiðsluþjónustu sem veitir reikningsþjónustu.
     44.      Útibú: Starfsstöð önnur en aðalskrifstofa sem er hluti af greiðslustofnun án þess að teljast sjálfstæður lögaðili og framkvæmir beint nokkrar eða allar greiðslur sem fylgja rekstri greiðslustofnunar. Allar starfsstöðvar greiðslustofnunar í einu og sama aðildarríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu skulu teljast eitt útibú ef aðalskrifstofa greiðslustofnunarinnar er í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
     45.      Varanlegur miðill: Sérhver miðill sem gerir notanda greiðsluþjónustu kleift að geyma upplýsingar sem beint er til hans persónulega á þann hátt að þær séu aðgengilegar til samanburðar síðar og eins lengi og þarf miðað við tilgang upplýsinganna, og gerir kleift að afrita upplýsingarnar sem þar eru geymdar óbreyttar.
     46.      Viðkvæm greiðslugögn: Gögn, þ.m.t. persónubundin öryggisskilríki, sem unnt er að nota í sviksamlegum tilgangi. Í starfsemi greiðsluvirkjenda og reikningsupplýsingaþjónustuveitenda teljast nafn reikningseiganda og reikningsnúmer ekki vera viðkvæm greiðslugögn.
     47.      Viðmiðunargengi: Gengið sem er notað til grundvallar útreikningi við gjaldeyrisviðskipti og er aðgengilegt hjá greiðsluþjónustuveitanda eða opinberlega.
     48.      Viðmiðunarvextir: Vaxtastig sem notað er til grundvallar útreikningi á vöxtum og aðgengilegt er opinberlega og báðir aðilar að greiðsluþjónustusamningi geta sannreynt.
     49.      Viðskiptadagur: Dagur þegar opið er hjá greiðsluþjónustuveitanda greiðanda eða viðtakanda greiðslu, sem er aðili að framkvæmd greiðslu, og viðkomandi starfar eftir því sem þörf fyrir framkvæmd greiðslu krefur.
     50.      Viðtakandi greiðslu: Einstaklingur eða lögaðili sem er fyrirhugaður viðtakandi fjármuna sem hafa verið viðfang greiðslu.

II. KAFLI

Greiðslustofnanir.

A. Umsókn.

4. gr.

Umsókn um starfsleyfi.

    Umsókn um starfsleyfi skal berast Fjármálaeftirlitinu. Hún skal vera skrifleg og ítarleg til að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að ganga úr skugga um að skilyrði 6.–8. gr., 11. gr., 12. gr. og 16.–19. gr. séu uppfyllt. Eftirfarandi skal koma fram í umsókn:
     1.      Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi sé lögaðili og að höfuðstöðvar og a.m.k. hluti af greiðsluþjónustustarfsemi fari fram hér á landi, sbr. 6. gr.
     2.      Lýsing á núverandi og fyrirhugaðri starfsemi umsækjanda þar sem tilgreint er hvers konar greiðsluþjónustu umsækjandi ætlar að veita og hvort hann ætlar að stunda aðra starfsemi, sbr. 16. gr.
     3.      Viðskipta- og rekstraráætlun fyrir a.m.k. þrjú fyrstu rekstrarárin, sem sýnir fram á að umsækjandi geti staðið fyrir ábyrgum rekstri, ásamt síðasta endurskoðaða ársreikningi, ef honum er til að dreifa.
     4.      Upplýsingar um starfsskipulag umsækjanda, þ.m.t. hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu, opna útibú eða nota umboðsmenn í starfsemi félagsins, sbr. 17. gr., hvort um útvistun sé að ræða, sbr. 18. gr. eða hvort um verði að ræða þátttöku í innlendu eða alþjóðlegu greiðslukerfi.
     5.      Upplýsingar um hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila, sbr. 23.–26. gr.
     6.      Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi hafi yfir að ráða því stofnframlagi sem krafist er skv. 7. gr.
     7.      Upplýsingar sem gera unnt að meta hvort stjórnarmenn og stjórnendur uppfylli kröfur um hæfi skv. 11. gr.
     8.      Upplýsingar um þá einstaklinga sem eiga hlutdeild í umsækjanda, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild í umsækjanda í skilningi VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, stærð eignarhlutdeildar þeirra og gögn um hæfni þeirra með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórn greiðslustofnunar, sbr. 5. gr.
     9.      Upplýsingar um hvernig varðveislu fjármuna verði háttað í samræmi við 10. gr.
     10.      Lýsing á verkferli sem fylgja skal til að hafa eftirlit með, meðhöndla og fylgja eftir rekstrar- eða öryggisfrávikum og kvörtunum viðskiptavina að því er varðar öryggisatriði, þ.m.t. fyrirkomulag tilkynninga um atvik sem varða tilkynningarskyldu greiðslustofnunar til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 100. gr.
     11.      Lýsing á stjórnunarfyrirkomulagi og innra skipulagi umsækjanda, þ.m.t. innri eftirlitsferlum, aðferðum við stjórnun, áhættustýringu og reikningsskilum, sem sýnir að stjórnarhættir, eftirlitskerfi og verkferlar séu viðeigandi miðað við umfang starfseminnar og traustir og fullnægjandi.
     12.      Lýsing á innra eftirlitskerfi sem verður komið á fót til að fara að kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, að því er varðar umsækjanda sem fellur undir lögin.
     13.      Lýsing á verklagi við að skrá, vakta, rekja og takmarka aðgang að viðkvæmum greiðslugögnum og hvernig skilyrði 21. gr. verði uppfyllt.
     14.      Lýsing á fyrirkomulagi rekstrarsamfellu þar sem mikilvæg starfsemi er skýrt tilgreind, skilvirkri viðbragðsáætlun og ferli til að kanna reglulega og endurskoða hversu fullnægjandi og skilvirkar áætlanirnar eru.
     15.      Lýsing á meginreglum og skilgreiningum sem beitt er við söfnun á tölfræðilegum gögnum um árangur, færslur og svik.
     16.      Öryggisstefna og lýsing á öryggiskerfi umsækjanda, sem skal innihalda ítarlegt áhættumat í tengslum við greiðsluþjónustu, lýsingu á eftirlitsaðgerðum sem gripið er til í því skyni að vernda notendur greiðsluþjónustu með fullnægjandi hætti fyrir tilgreindri áhættu, svo sem svikum og ólöglegri notkun viðkvæmra gagna og persónuupplýsinga. Sérstaklega skal tilgreina hvernig eftirlitsaðgerðir tryggja öflugt tæknilegt öryggi og persónuvernd, þ.m.t. fyrir hugbúnað og upplýsingatæknikerfi sem umsækjandi eða útvistunaraðili, sem starfseminni er að öllu leyti eða hluta útvistað til, notar. Eftirlitsaðgerðirnar skulu einnig taka til öryggisráðstafana sem mælt er fyrir um í 99. gr.
     17.      Upplýsingar um löggiltan endurskoðanda, sbr. 15. gr.
     18.      Staðfesting á því að umsækjandi um starfsleyfi sem greiðsluvirkjandi eða reikningsupplýsingaþjónustuveitandi hafi tryggingu skv. 3. mgr. 12. gr.
    Upplýsingar sem getið er um í 5. tölul. og 10.–13. tölul. 1. mgr. skulu jafnframt fela í sér lýsingu á því fyrirkomulagi sem umsækjandinn hefur innleitt til að gera allar þær ráðstafanir sem raunhæfar teljast til að vernda hagsmuni notenda greiðsluþjónustu hans og tryggja samfellu og áreiðanleika við framkvæmd þjónustunnar.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um þær upplýsingar sem koma þurfa fram í umsókn og nauðsynleg fylgigögn til þess að umsóknin teljist fullnægjandi.
    Greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi skv. 12. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.

B. Virkur eignarhlutur, stofnun og fjárhagsgrundvöllur.

5. gr.

Virkur eignarhlutur.

    Aðili sem hyggst eignast, einn eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í greiðslustofnun í skilningi laga um fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 30% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að greiðslustofnun verði talin dótturfyrirtæki hans.
    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um eiganda virks eignarhlutar sem hyggst draga svo úr hlutafjár- eða stofnfjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut. Í tilkynningu skal koma fram hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 30% eða 50% eða svo mikið að greiðslustofnunin hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjár- eða stofnfjáraukningar.
    Ákvæði um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, gilda um meðferð virkra eignarhluta í greiðslustofnunum og mat á hæfi virks eiganda eftir því sem við á.
    Fjármálaeftirlitið skal setja nánari viðmið um þær upplýsingar sem greina þarf í tilkynningu.

6. gr.

Rekstrarform og höfuðstöðvar.

    Aðilar, aðrir en þeir sem taldir eru upp í a–c-lið og e–g-lið 23. tölul. 3. gr., auk 35. gr., er hyggjast veita greiðsluþjónustu skulu afla sér starfsleyfis sem greiðslustofnun áður en greiðsluþjónusta hefst.
    Greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi skv. 12. gr. skal vera lögaðili, hafa höfuðstöðvar sínar hérlendis og a.m.k. hluti af greiðsluþjónustustarfseminni þarf að fara fram hérlendis.

7. gr.

Stofnframlag.

    Stofnframlag greiðslustofnunar skal á hverjum tíma taka mið af þeirri greiðsluþjónustu skv. 22 tölul. 3. gr. sem greiðslustofnun veitir.
    Stofnframlag greiðslustofnunar skal á hverjum tíma nema að lágmarki:
     a.      jafnvirði 20.000 evra í íslenskum krónum ef greiðslustofnun veitir einungis greiðsluþjónustu skv. f-lið 22. tölul. 3. gr.,
     b.      jafnvirði 50.000 evra í íslenskum krónum ef greiðslustofnun veitir greiðsluþjónustu skv. g-lið 22. tölul. 3. gr.,
     c.      jafnvirði 125.000 evra í íslenskum krónum ef greiðslustofnun veitir greiðsluþjónustu skv. a–e-lið 22. tölul. 3. gr.
Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
    Stofnframlag greiðslustofnunar skal samsett úr þeim liðum sem taldir eru upp í 1. mgr. 84. gr. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

8. gr.

Eiginfjárgrunnur.

    Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 7. gr. eða 9. gr., hvor fjárhæðin sem er hærri.
    Greiðslustofnun sem tilheyrir samstæðu þar sem í er önnur greiðslustofnun, fjármálafyrirtæki, rekstraraðili sérhæfðs sjóðs eða vátryggingafélag er einungis heimilt að telja eiginfjárliði einu sinni til eiginfjárgrunns. Það sama á við ef greiðslustofnun stundar aðra starfsemi en greiðsluþjónustu skv. 22. tölul. 3. gr.
    Ef skilyrði 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 eru uppfyllt er heimilt að undanþiggja greiðslustofnun frá útreikningi eigin fjár skv. 9. gr. falli hún undir eftirlit á samstæðugrunni með móðurfélagi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

9. gr.

Útreikningur eiginfjárgrunns.

    Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar skal ávallt reiknaður í samræmi við eina af aðferðunum þremur sem greinir í 2.–5. mgr. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Þetta á þó ekki við um greiðslustofnun sem einungis veitir greiðsluþjónustu skv. g- og/eða h-lið 22. tölul. 3. gr.
    Aðferð A: Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar skal nema a.m.k. 10% af föstum rekstrarkostnaði síðastliðinna 12 mánaða. Fjármálaeftirlitið getur breytt þessari ákvörðun verði verulegar breytingar á rekstri greiðslustofnunar á milli ára. Hafi greiðslustofnun starfað skemur en eitt rekstrarár þegar útreikningur eiginfjárgrunns fer fram skal eiginfjárgrunnur hennar nema a.m.k. 10% af samsvarandi föstum rekstrarkostnaði sem gert er ráð fyrir í rekstraráætlun, nema Fjármálaeftirlitið krefjist þess að þeirri áætlun sé breytt.
    Aðferð B: Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar skal nema a.m.k. samanlagðri fjárhæð eftirfarandi liða margfaldaðri með kvarðastuðlinum k, sem skilgreindur er í 5. mgr., þar sem greiðslumagn samanstendur af ./ 12 af heildarfjárhæð greiðslna síðustu 12 mánaða:
     a.      4,0% af greiðslumagni sem nemur allt að jafnvirði 5 milljóna evra í íslenskum krónum,
     b.      2,5% af greiðslumagni sem nemur jafnvirði 5 milljóna evra og allt að jafnvirði 10 milljóna evra í íslenskum krónum,
     c.      1% af greiðslumagni sem nemur jafnvirði 10 milljóna evra og allt að jafnvirði 100 milljóna evra í íslenskum krónum,
     d.      0,5% af greiðslumagni sem nemur jafnvirði 100 milljóna evra og allt að jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum og
     e.      0,25% af greiðslumagni umfram jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum.
Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
    Aðferð C: Fjárhæð eiginfjárgrunns greiðslustofnunar skal vera a.m.k. viðeigandi vísir sem skilgreindur er í 1. og 2. tölul., margfaldaður með margfeldisstuðlinum, sem skilgreindur er í 3. tölul. og með kvarðastuðlinum k sem skilgreindur er í 5. mgr.:
     1.      Viðeigandi vísir er samtala eftirfarandi liða:
                  a.      vaxtatekna,
                  b.      vaxtakostnaðar,
                  c.      fenginna umboðslauna og þóknana, og
                  d.      annarra rekstrartekna.
     2.      Hver liður skal tekinn með í samtöluna með plús- eða mínusmerki. Ekki má nota óreglulega tekjuliði í útreikningi á viðeigandi vísum. Útgjöld vegna útvistunar á þjónustu hjá þriðja aðila geta minnkað viðeigandi vísi ef félagið sem stofnar til útgjaldanna er eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum þessum. Viðeigandi vísir er reiknaður á grundvelli síðasta reikningsárs. Viðeigandi vísir skal reiknaður yfir síðasta reikningsár. Eigi að síður skal eiginfjárgrunnur, sem reiknaður er í samræmi við aðferð C, ekki vera undir 80% af meðaltali þriggja undanfarinna reikningsára fyrir viðeigandi vísi. Ef endurskoðaðar tölur liggja ekki fyrir má nota eigið mat greiðslustofnunarinnar.
     3.      Margföldunarstuðullinn skal vera:
                  a.      10% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur allt að jafnvirði 2,5 milljóna evra í íslenskum krónum,
                  b.      8% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 2,5 milljóna evra og allt að jafnvirði 5 milljóna evra í íslenskum krónum,
                  c.      6% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 5 milljóna evra og allt að jafnvirði 25 milljóna evra í íslenskum krónum,
                  d.      3% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 25 milljóna evra og allt að jafnvirði 50 milljóna evra í íslenskum krónum,
                  e.      1,5% af þeim hluta viðeigandi vísis umfram jafnvirði 50 milljóna evra í íslenskum krónum.
Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
    Kvarðastuðullinn k, sem nota skal í aðferðum B og C, sbr. 3. og 4. mgr., skal vera:
     a.      0,5 ef greiðslustofnunin stundar aðeins greiðsluþjónustu skv. f-lið 22. tölul. 3. gr.,
     b.      1 ef greiðslustofnun stundar greiðsluþjónustu skv. a–e-lið 22. tölul. 3. gr.
    Fjármálaeftirlitið getur á grundvelli mats á áhættustýringarferlum, gagnagrunni yfir tapsáhættu og innra eftirlitskerfi greiðslustofnunar gert kröfu um að eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar sé allt að 20% hærri en fjárhæðin sem stafar af beitingu aðferðarinnar sem valin er í samræmi við 1. mgr. Á sama grundvelli getur Fjármálaeftirlitið heimilað að fjárhæð eiginfjárgrunns greiðslustofnunar sé allt að 20% lægri en fjárhæðin sem leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1. mgr.

C. Varðveisla fjármuna.

10. gr.

Varðveisla fjármuna.

    Greiðslustofnun sem veitir greiðsluþjónustu skv. a–f-lið 22. tölul. 3. gr. skal varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitendum vegna framkvæmdar greiðslu og halda þeim skýrt aðgreindum frá fjármunum í eigu greiðslustofnunarinnar og fjármunum í eigu annarra en notenda greiðsluþjónustu. Fjármunir teljast tryggilega varðveittir ef þeir eru geymdir á innlánsreikningi hjá fjármálafyrirtæki eða ef fjárfest er með þeim í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum.
    Fjármunir skv. 1. mgr. skulu teljast sértökukröfur í þrotabú greiðsluþjónustuveitanda komi til gjaldþrots. Um rétthæð þeirra fer skv. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, enda sýni eigandi fjármuna fram á eignarrétt sinn að þeim.
    Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um tryggilega varðveislu fjármuna samkvæmt þessari grein.

D. Hæfi.

11. gr.

Hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.

    Um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda samkvæmt skipulagi greiðslustofnunar gilda 52. gr. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á.
    Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn fyrirtækis og framkvæmdastjórn, sbr. 4. mgr. 4. gr., og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt.

E. Starfsleyfi.

12. gr.

Skilyrði og tilkynning um veitingu eða synjun starfsleyfis.

    Starfsleyfi skal veitt eða, í tilviki reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, skráning staðfest, sbr. 35. gr., ef umsækjandi uppfyllir að mati Fjármálaeftirlitsins í umsókn sinni og meðfylgjandi gögnum skilyrði 4. gr. og sýnir fram á að skipulag í fyrirhuguðum rekstri greiðsluþjónustu sé skýrt, fullnægjandi verklagsreglur séu fyrir hendi er þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um efni 1. málsliðar. Um efni reglnanna skulu höfð til hliðsjónar ákvæði 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á.
    Þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar greiðsluþjónustu sem fyrirhugað er að veita og verður umsækjandi að uppfylla þær á hverjum tíma með því að haga skipulagi, verklagsreglum og öðru skv. 1. mgr. í samræmi við umfang þjónustunnar
    Umsækjandi um starfsleyfi fyrir greiðsluvirkjun skv. g-lið 22. tölul. 3. gr. skal hafa starfsábyrgðartryggingu, sem nær yfir svæðið þar sem hann hyggst bjóða greiðsluþjónustu, eða aðra sambærilega tryggingu til að geta mætt bótaábyrgð sem stofnast getur til í samræmi við 79. gr., 93. gr., 94. gr. og 96. gr.
    Umsækjandi um staðfestingu skráningar sem reikningsupplýsingaþjónusta skv. h-lið 22. tölul. 3. gr. skal hafa starfsábyrgðartryggingu, sem nær yfir svæðið þar sem hann hyggst bjóða þjónustu, eða aðra sambærilega tryggingu til að mæta bótaábyrgð gagnvart greiðsluþjónustuveitanda reikningsþjónustu eða notanda greiðsluþjónustu, sem leiðir af óheimiluðum eða sviksamlegum aðgangi að eða notkun á upplýsingum um greiðslureikninga.
    Við mat á umsókn um starfsleyfi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar annarra viðeigandi opinberra yfirvalda.
    Fjármálaeftirlitið getur gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur greiðsluþjónustu skv. 22. tölul. 3. gr. ef greiðslustofnun sinnir annarri starfsemi samhliða og ef sú starfsemi rýrir eða líkur eru á að hún rýri traustafjárhagsstöðu greiðslustofnunar eða torveldi eftirlit með henni.
    Fjármálaeftirlitið skal synja um starfsleyfi ef það telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar greiðslustofnunar.
    Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl greiðslustofnunar við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit með starfseminni af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við ef lög eða reglur, sem gilda um slíka tengda aðila, hindra eftirlit. Með nánum tengslum er í lögum þessum átt við náin tengsl í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Enn fremur skal starfsleyfi ekki veitt ef lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja lands, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem greiðslustofnunin hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
    Fullnægi umsókn um starfsleyfi skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins veitir það starfsleyfi. Starfsleyfið gildir í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og gerir hlutaðeigandi greiðslustofnun kleift að veita greiðsluþjónustuna sem fellur undir starfsleyfið alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, að fullnægðum skilyrðum 23.–25. gr. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið rökstyðja synjun um starfsleyfi.
    Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn barst.

13. gr.

Afturköllun starfsleyfis.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi greiðslustofnunar í heild eða að hluta ef:
     a.      greiðslustofnun nýtir ekki starfsleyfið innan 12 mánaða frá því að það var veitt, afsalar sér ótvírætt leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði samfellt;
     b.      starfsleyfis hefur verið aflað á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt;
     c.      greiðslustofnun uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu eða upplýsir Fjármálaeftirlitið ekki um umfangsmikla þróun starfseminnar;
     d.      áframhaldandi rekstur greiðsluþjónustu af hálfu greiðslustofnunar ógnar stöðugleika eða trausti á greiðslukerfi;
     e.      starfsemi greiðslustofnunar fellur undir annað ákvæði í landslögum sem kveður á um afturköllun leyfis; eða
     f.      greiðslustofnun brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal greiðslustofnun veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef unnt er að koma þeim við að mati Fjármálaeftirlitsins. Þetta á þó ekki við um a-lið 1. mgr.
    Afturköllun á starfsleyfi greiðslustofnunar skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Auk þess skal tilkynning send lögbærum eftirlitsaðilum í ríkjum þar sem hlutaðeigandi greiðslustofnun starfrækir útibú eða veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.
    Fjármálaeftirlitið skal enn fremur uppfæra skrá yfir greiðslustofnanir sem um getur í 14. gr. og birta þar opinberlega afturköllun á starfsleyfi.

14. gr.

Skrá yfir greiðslustofnanir.

    Fjármálaeftirlitið heldur opinbera skrá yfir greiðslustofnanir samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um greiðslustofnanir, svo sem um starfsheimildir, afturköllun starfsheimilda og, ef við á, um umboðsaðila og útibú. Færa skal útibú erlendrar greiðslustofnunar hér á landi í skrá aðildarríkis. Stofnanir sem hafa heimild samkvæmt sérlöggjöf til að veita greiðsluþjónustu skulu einnig færðar í skrá Fjármálaeftirlitsins. Auk þess skal tilgreina og aðgreina aðila skv. 2. málslið frá þeim einstaklingum og lögaðilum sem njóta undanþágu í samræmi við 34. og 35. gr. og, ef við á, útibúa og umboðsaðila þeirra.
    Almenningur skal hafa aðgang að skrá yfir greiðslustofnanir á vef Seðlabanka Íslands og skal hún uppfærð þegar breytingar verða.
    Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni um þær upplýsingar sem það færir í skrána yfir greiðslustofnanir. Fjármálaeftirlitið er ábyrgt gagnvart Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni fyrir því að upplýsingar í skrá yfir greiðslustofnanir séu réttar.

F. Reikningsskil og endurskoðun.

15. gr.

Reikningsskil og lögboðin endurskoðun.

    Reikningsár greiðslustofnunar er almanaksárið. Greiðslustofnun skal leggja fram aðskilin reikningsskil fyrir annars vegar greiðsluþjónustu og hins vegar fyrir aðra starfsemi sem hún hefur heimild til að stunda skv. 1. mgr. 16. gr.
    Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki eða eftir atvikum laga um ársreikninga gilda að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda greiðslustofnana til Fjármálaeftirlitsins.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um ársreikninga greiðslustofnana.

G. Starfsheimildir.

16. gr.

Önnur starfsemi.

    Greiðslustofnun er heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi auk greiðsluþjónustu:
     a.      rekstur nátengdrar stoðþjónustu, svo sem að tryggja framkvæmd greiðslna, gjaldeyrisviðskipti, fjárvörslu og geymslu og vinnslu gagna;
     b.      starfrækja greiðslukerfi;
     c.      aðra starfsemi en greiðsluþjónustu í samræmi við aðra gildandi löggjöf.
    Greiðslustofnun er heimilt að halda greiðslureikninga sem skal einungis nota við framkvæmd greiðslna.
    Fjármunir sem greiðslustofnun móttekur frá notendum greiðsluþjónustu, vegna þjónustunnar, teljast ekki innlán, endurgreiðanlegir fjármunir frá almenningi eða rafeyrir.
    Í tengslum við greiðsluþjónustu skv. d- eða e-lið 22. tölul. 3. gr. má greiðslustofnun veita lán ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     a.      lánveitingin er hliðarstarfsemi og er einungis veitt í tengslum við framkvæmd greiðslu;
     b.      endurgreiðslutími lánveitingar yfir landamæri er ekki lengri en 12 mánuðir;
     c.      lánveitingin er ekki fjármögnuð með fjármunum sem mótteknir eru eða varðveittir vegna framkvæmdar greiðslu; og
     d.      eiginfjárgrunnur stofnunarinnar uppfyllir kröfur laga þessara og er að mati Fjármálaeftirlitsins fullnægjandi með tilliti til heildarlánveitinga.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um lánveitingar greiðslustofnunar.
    Greiðslustofnun er óheimilt að stunda innlánsstarfsemi eða taka við endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.
    Fjármálaeftirlitið getur bannað greiðslustofnun að hluta til eða öllu leyti að stunda starfsemi samkvæmt þessari grein. Um slíkt bann gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 13. gr.

H. Veiting greiðsluþjónustu innan lands í gegnum umboðsaðila eða með stofnun útibús.

17. gr.

Veiting greiðsluþjónustu í gegnum umboðsaðila eða með stofnun útibús.

    Greiðslustofnun sem hyggst veita greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans sem meðal annars skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir séu hæfir ef þeir eru ekki þegar greiðsluþjónustuveitendur, upplýsingar um greiðsluþjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa.
    Fjármálaeftirlitið skráir umboðsaðila í skrá skv. 14. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr., innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna og sendir samhliða greiðslustofnun upplýsingar um skráninguna. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir greiðslustofnanir ef það metur að upplýsingarnar skv. 1. mgr. séu ekki réttar. Ef Fjármálaeftirlitið metur upplýsingarnar ófullnægjandi eða rangar er því heimilt að hafna skráningu. Synji Fjármálaeftirlitið eða hafni skráningu skal greiðslustofnun upplýst um það án tafar og er henni óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila frá þeim tíma.
    Greiðslustofnun er heimilt að veita greiðsluþjónustu í gegnum umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd hennar eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 14. gr.
    Greiðslustofnun skal sjá til þess að umboðsaðilar eða útibú upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.
    Greiðslustofnun skal án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á umboðsmönnum, þ.m.t. viðbótarumboðsmönnum, og skal við það fylgja málsmeðferð skv. 2.–4. mgr.
    Ef greiðslustofnun óskar eftir því að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki í gegnum umboðsaðila fer um slíkt skv. 25. gr.

I. Útvistun.

18. gr.

Útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu.

    Greiðslustofnun sem hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram.
    Útvistun mikilvægra rekstrarþátta, þ.m.t. rekstur upplýsingakerfa, er óheimil ef hún dregur umtalsvert úr gæðum innra eftirlits greiðslustofnunar og torveldar eftirlit með framkvæmd laga þessara. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu greiðslustofnunar til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi hennar eða skyldur samkvæmt lögunum, fjárhagslega afkomu stofnunarinnar eða traustleika eða samfellda greiðsluþjónustu hennar.
    Greiðslustofnun má aðeins útvista mikilvægum rekstrarþætti að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Útvistunin má ekki leiða til þess að ábyrgð stjórnenda verði framseld til útvistunaraðila.
     2.      Skyldur og samband greiðslustofnunar gagnvart notendum greiðsluþjónustu hennar samkvæmt lögum þessu breytist ekki.
     3.      Greiðslustofnun uppfyllir eftir sem áður skilyrðin sem eru forsendan fyrir starfsleyfi hennar.
     4.      Hvorki skal breyta né fella brott einhver þeirra skilyrða sem liggja til grundvallar starfsleyfi greiðslustofnunar.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um útvistun mikilvægra rekstrarþátta greiðslustofnunar.
    Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar sem verða á útvistun starfseminnar og skal við það fylgja málsmeðferð skv. 2.–4. mgr. 17. gr.

J. Góðir viðskiptahættir, þagnarskylda og bótaábyrgð.

19. gr.

Góðir viðskiptahættir og þagnarskylda.

    Greiðslustofnun skal viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Seðlabanki Íslands setur reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur.
    Um þagnarskyldu stjórnarmanna greiðslustofnunar, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

20. gr.

Bótaábyrgð.

    Greiðslustofnun ber skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til athafna starfsmanna hennar, umboðsaðila, útibúa og þeirra aðila sem rekstrarþáttum greiðsluþjónustu hefur verið útvistað til.
    Greiðslustofnun sem reiðir sig á þriðja aðila til að annast tiltekna rekstrarþætti skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.

K. Varðveisla gagna.

21. gr.

Varðveisla gagna.

    Greiðslustofnun ber að varðveita öll viðeigandi gögn er varða þennan kafla að lágmarki í fimm ár.

L. Eftirlit með starfsemi greiðslustofnana.

22. gr.

Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi greiðslustofnana, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu, sem fellur undir ákvæði II. kafla, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
    Fjármálaeftirlitið hefur meðal annars heimild til að:
     a.      krefjast þess að greiðslustofnun leggi fram allar upplýsingar sem þörf er á til að unnt sé að hafa eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt og skal Fjármálaeftirlitið þá tilgreina tilganginn að baki beiðninni og gefa tiltekinn skilafrest,
     b.      framkvæma skoðun á starfsstöð greiðslustofnunar, umboðsaðila eða útibúi þar sem veitt er greiðsluþjónusta sem greiðslustofnun ber ábyrgð á eða þar sem útvistunaraðili er til húsa,
     c.      gefa út fyrirmæli, leiðbeiningar og bindandi stjórnsýslufyrirmæli,
     d.      stöðva tímabundið eða afturkalla starfsleyfi skv. 13. gr.,
     e.      beita heimildum sem því eru fengnar í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið skal sérstaklega grípa til ráðstafana skv. 2. mgr. til að tryggja nægilegt eigið fé greiðslustofnunar til greiðsluþjónustustarfsemi, einkum ef sú starfsemi greiðslustofnunar sem ekki er greiðsluþjónusta rýrir eða er líkleg til að rýra trausta fjárhagsstöðu hennar.

M. Veiting þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila.

23. gr.

Starfsemi greiðslustofnana erlendis án stofnunar útibús eða umboðsaðila.

    Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki án stofnunar útibús eða umboðsaðila skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer greiðslustofnunar ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta er fólgin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort greiðslustofnun hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu til þriðja aðila í aðildarríkinu sem í hlut á. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins.
    Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi greiðslustofnun ákvörðun sína varðandi ætlaða starfsemi erlendis. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlits er jákvæð skal samhliða færa upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr.

24. gr.

Starfsemi greiðslustofnana erlendis með stofnun útibús.

    Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki með stofnun útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða aðildarríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta er fólgin, heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer greiðslustofnunar ef því er að skipta, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins, í hvaða ríkjum útibúið hyggst veita greiðsluþjónustu og skipulag þess, þ.m.t. lýsing á innra eftirlitskerfi, verkferlum, áhættustýringu, reikningsskilum og viðskiptaáætlun fyrir fyrstu þrjú fjárhagsárin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort greiðslustofnun hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins.
    Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi greiðslustofnun ákvörðun sína. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr. Útibúið getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
    Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem greiðslustofnun hyggst stofna útibú um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingarnar um útibúið í skrá skv. 14. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
    Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu í mati sínu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
    Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem hún hefur starfsemi fyrir milligöngu útibús.
    Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarútibú eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð skv. 3. og 4. mgr.
    Greiðslustofnun skal sjá til þess að útibú upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.

25. gr.

Þjónusta erlendis fyrir milligöngu umboðsaðila.

    Greiðslustofnun sem óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki, fyrir milligöngu umboðsaðila sem staðsettur er í öðru aðildarríki, skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer greiðslustofnunar ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta er fólgin. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans, sem meðal annars skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og skráningu skal uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir uppfylli hæfiskröfur 3. mgr. 5. gr. ef þeir eru ekki þegar greiðsluþjónustuveitendur, upplýsingar um greiðsluþjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa. Að endingu skal koma fram í tilkynningunni hvort greiðslustofnun hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu til þriðja aðila í gistiaðildarríkinu. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein auk staðfestingar á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins ásamt beiðni um umsögn.
    Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi greiðslustofnun ákvörðun sína. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingarnar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr. Umboðsaðilinn getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
    Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem greiðslustofnun hyggst bjóða greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að tilnefning umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um umboðsaðilann í skrá skv. 14. gr. eða afturkalla skráningu, hafi hún þegar farið fram.
    Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu í mati sínu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
    Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem hún hefur starfsemi sína fyrir milligöngu umboðsaðila.
    Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarumboðsaðila eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð skv. 3. og 4. mgr.
    Greiðslustofnun skal sjá til þess að umboðsaðili sem veitir greiðsluþjónustu fyrir hennar hönd upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.

26. gr.

Starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin, auk annarra upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.
    Fjármálaeftirlitið getur bannað starfsemi skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun eða fjárhagsstaða hlutaðeigandi greiðslustofnunar sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er.

27. gr.

Þjónusta greiðslustofnunar með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.

    Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
    Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu hér á landi eftir að tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 23. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru stjórnvaldi heimaaðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan þess mánaðarfrests sem því er gefinn og í kjölfarið getur lögbært stjórnvald í heimaaðildarríki greiðslustofnunar samþykkt veitingu umbeðinnar greiðsluþjónustu yfir landamæri og uppfært skrá í heimaaðildarríki sambærilega þeirri sem um getur í 14. gr.

28. gr.

Þjónusta greiðslustofnunar með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis.

    Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
    Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru stjórnvaldi heimaaðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan þess mánaðarfrests sem því er gefinn. Í kjölfarið getur lögbært stjórnvald í heimaaðildarríki greiðslustofnunar samþykkt stofnun útibús eða veitingu umbeðinnar greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila á Íslandi og uppfært skrá í heimaaðildarríki sambærilega þeirri sem um getur í 14. gr.
    Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibús eða veiting greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal það tilkynna lögbærum stjórnvöldum heimaaðildarríkis um það. Ákveði lögbær stjórnvöld heimaaðildarríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi af slíkri tilkynningu er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi frá þeim tíma.
    Ef lögbær stjórnvöld í heimaaðildarríki taka ekki tillit til athugasemda Fjármálaeftirlitsins og veita greiðslustofnun heimild til að stofna útibú eða veita greiðsluþjónustu á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila getur Fjármálaeftirlitið borið þá ákvörðun undir Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
    Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal sjá til þess að útibú eða umboðsaðili upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.

29. gr.

Stofnun útibús eða þjónusta veitt fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis af hálfu stofnunar utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Fjármálaeftirlitið getur heimilað stofnun sem veitir greiðsluþjónustu, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, að opna útibú eða veita þjónustu hér á landi fyrir milligöngu innlends umboðsaðila. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að stofnunin hafi leyfi til að stunda hliðstæða starfsemi í heimaríki sínu, sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu og að gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í því ríki. Til að útibú geti hafið starfsemi hér á landi skal heimaríki stofnunarinnar undirrita samning við íslensk stjórnvöld, sem fer að öllu leyti að stöðlum skv. 26. gr. skattasamningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar um tekjur og fjármagn og tryggir skilvirk upplýsingaskipti um skattamál, ef við á.
    Fjármálaeftirlitið skal innan sex mánaða frá því að stofnun lagði fram fullnægjandi umsókn tilkynna um ákvörðun sína vegna umsóknar um að starfrækja útibú eða veita þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis.

N. Eftirlit með þjónustu yfir landamæri.

30. gr.

Eftirlit gistiaðildarríkis með greiðslustofnunum sem veita þjónustu yfir landamæri með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.

    Fjármálaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær stjórnvöld í gistiaðildarríki um framkvæmd eftirlits með lögum þessum vegna starfsemi umboðsaðila og útibúa í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríki þegar það hyggst framkvæma skoðun á starfsstöð umboðsaðila eða útibúi í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fela lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríki framkvæmd skoðunar á starfsstöð umboðsaðila eða útibúi sem staðsett er í því ríki.
    Lögbær stjórnvöld í gistiaðildarríki geta krafist þess að greiðslustofnanir, sem hafa umboðsaðila eða útibú á yfirráðasvæði þess, gefi þeim skýrslu með reglulegu millibili um starfsemina á yfirráðasvæði þeirra. Krefjast skal slíkra skýrslna í upplýsingaskyni eða í tölfræðilegum tilgangi, að því marki sem umboðsaðilarnir og útibúin stunda greiðsluþjónustu á grundvelli 24. og 25. gr., til að fylgjast með því að farið sé að ákvæðum laga gistiaðildarríkis sem eru samsvarandi IV.–VII. kafla.
    Fjármálaeftirlitið skal, eftir að hafa lagt mat á upplýsingar sem það fær frá lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríki þess efnis að greiðslustofnun með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu fari ekki að reglum II. og III. kafla eða IV.–VII. kafla, án ótilhlýðilegrar tafar, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi greiðslustofnun fari að settum reglum. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt tilkynna lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríkinu og í öðrum hlutaðeigandi gistiaðildarríkjum tafarlaust um þessar ráðstafanir.
    Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærra stjórnvalda í gistiaðildarríki eða að eigin frumkvæði veita þeim viðeigandi upplýsingar, einkum þegar um er að ræða brot eða grun um brot umboðsaðila eða útibús og staðfesta hvort greiðslustofnunin uppfyllir skilyrði 2. mgr. 7. gr.

31. gr.

Eftirlit með greiðslustofnunum með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu hérlendis með stofnun útibús eða með milligöngu umboðsaðila.

    Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að greiðslustofnun með útibú eða umboðsaðila hér á landi gefi skýrslu með reglulegu millibili um starfsemina hérlendis. Krefjast skal slíkra skýrslna í upplýsingaskyni eða í tölfræðilegum tilgangi, að því marki sem umboðsaðilarnir og útibúin stunda greiðsluþjónustu á grundvelli 27. og 28. gr., til að fylgjast með því að farið sé að ákvæðum IV.–VII. kafla.
    Ef Fjármálaeftirlitið kemst að raun um að greiðslustofnun sem veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú hérlendis fer ekki að ákvæðum II.–VII. kafla skal það upplýsa lögbært yfirvald í heimaaðildarríki um það án tafar.
    Fjármálaeftirlitið getur gripið til tafarlausra aðgerða reynist það nauðsynlegt í ljósi neyðarástands vegna alvarlegrar ógnar gegn sameiginlegum hagsmunum notenda greiðsluþjónustu hérlendis eða gert varúðarráðstafanir samhliða samstarfi við lögbær stjórnvöld í heimaaðildarríki greiðslustofnunar og fram að ráðstöfunum þeirra stjórnvalda. Hér skiptir ekki máli hvort neyðarástand skapast vegna útibús hérlendis, umboðsaðila hérlendis eða greiðsluþjónustu sem starfrækt er hér á landi á vegum greiðslustofnunar með starfsleyfi frá Evrópska efnahagssvæðinu. Varúðarráðstafanirnar skulu vera viðeigandi og í réttu samhengi við þann tilgang að verjast alvarlegri ógn gegn sameiginlegum hagsmunum notenda greiðsluþjónustu hér á landi. Þær mega ekki leiða til þess að notendur greiðsluþjónustunnar hérlendis fyrir milligöngu umboðsaðila, í gegnum útibú erlendrar greiðslustofnunar eða vegna veitingar greiðsluþjónustu yfir landamæri án hvors tveggja, njóti betri meðferðar en notendur greiðsluþjónustu í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess skulu varúðarráðstafanirnar vera tímabundnar og þeim skal lokið þegar tekið hefur verið á þeirri alvarlegu ógn sem greind var, þ.m.t. í samvinnu við lögbær stjórnvöld í heimaaðildarríki greiðslustofnunar sem í hlut á eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, sbr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010.
    Fjármálaeftirlitið skal, ef við á, upplýsa lögbær stjórnvöld í aðildarríkjum sem í hlut eiga, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, fyrir fram og án ástæðulausrar tafar, um varúðarráðstafanirnar sem gripið er til skv. 3. mgr. og rökstyðja þær.
    Telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki greiðslustofnunar sýni athafnaleysi með því að grípa ekki til þeirra ráðstafana sem það hafi viðurkennt að nauðsynlegt sé að grípa til, hafni samstarfi og/eða láti undir höfuð leggjast að bregðast við neyðarástandi eða viðurkenni ekki að fyrir hendi sé neyðarástand getur Fjármálaeftirlitið leitað aðstoðar Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar vegna þeirrar afstöðu og leitað lausnar þess ágreinings. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.

32. gr.

Samstarf og upplýsingaskipti við erlendar stofnanir vegna eftirlits.

    Fjármálaeftirlitið skal, eftir því sem við á, viðhafa samstarf við eftirlitsstofnanir í aðildarríkjum, Seðlabanka Evrópu, seðlabanka aðildarríkjanna, Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og Eftirlitsstofnun EFTA og önnur viðeigandi eftirlitsstjórnvöld í tengslum við framkvæmd eftirlits með greiðsluþjónustuveitendum.
    Fjármálaeftirlitið skal að ósk eftirlitsstofnana í aðildarríkjum, Seðlabanka Evrópu, seðlabanka aðildarríkja og, ef við á, annarra opinberra yfirvalda, sem eru ábyrg fyrir eftirliti með greiðslu- og uppgjörskerfum, og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, í samræmi við það hlutverk að stuðla að samræmdri og samfelldri eftirlitsráðstöfun eins og um getur í lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, auk Eftirlitsstofnunar EFTA, veita viðeigandi upplýsingar um greiðsluþjónustuveitendur sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið að ósk annarra lögbærra stjórnvalda, sem hafa eftirlit með greiðsluþjónustuveitendum, svo sem lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, veita viðeigandi upplýsingar um greiðslustofnanir sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Upplýsingagjöf Fjármálaeftirlitsins fer eftir ákvæðum 14. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

33. gr.

Tilnefning miðlægs tengiliðar greiðslustofnunar með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.

    Greiðslustofnun sem starfar á Íslandi í gegnum umboðsaðila skal tilnefna miðlægan tengilið til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal hafa samband við miðlægan tengilið til að fá upplýsingar og skýrslugjöf til að sinna eftirliti samkvæmt þessum lögum.

O. Undanþágur frá skilyrðum greiðslustofnunar.

34. gr.

Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.

    Greiðslustofnun sem uppfyllir skilyrði skv. 2. mgr. er heimilt að veita greiðsluþjónustu skv. a–f-lið 22. tölul. 3. gr. á grundvelli takmarkaðs starfsleyfis.
    Mánaðarlegt meðaltal heildarfjárhæðar greiðslna næstliðinna 12 mánaða, sem greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi hefur framkvæmt, má að hámarki nema jafnvirði 1 milljónar evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Fari mánaðarlegt meðaltal heildarfjárhæðar greiðslna næstliðinna 12 mánaða yfir jafnvirði 1 milljónar evra í íslenskum krónum fellur undanþágan niður. Sendi greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi þá fullnægjandi umsókn um starfsleyfi sem greiðslustofnun innan 30 daga frá niðurfellingu síns takmarkaða leyfis má hún starfa áfram á meðan Fjármálaeftirlitið afgreiðir umsóknina.
    Ákvæði þessa kafla gilda um greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi, að undanskildum ákvæðum 7.–9. gr., 9. mgr. 12. gr., 4. mgr. 16. gr. og 23.–28. gr.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir takmörkuðu starfsleyfi.

35. gr.

Reikningsupplýsingaþjónustuveitendur.

    Ákvæði 4.–21. gr. og 3. mgr. 22. gr. gilda ekki um reikningsupplýsingaþjónustuveitanda sem aðeins veitir þá þjónustu, sbr. h-lið 22. tölul. 3. gr., með þeirri undantekningu að ákvæði 1.–4., 10., 11., 13., 14. og 16. tölul. 4. gr., 4. mgr. 12. gr., 1.–3. mgr. og 1. og 2. málsl. 4. mgr. 14. gr. og 22.–33. gr. gilda.
    Farið skal með reikningsupplýsingaþjónustuveitanda sem um getur í 1. mgr. sem greiðslustofnun en þó eiga ákvæði IV.–VII. kafla ekki við um hann að undanskildum ákvæðum 43. gr., 49. gr. og 54. gr., eftir því sem við á, og 70.–72. gr. og 99.–101. gr.

III. KAFLI

Almenn ákvæði um greiðsluþjónustuveitendur.

36. gr.

Þátttaka í greiðslukerfum.

    Greiðsluþjónustuveitanda sem er lögaðili og með starfsleyfi skal vera heimilt að gerast þátttakandi í greiðslukerfi í samræmi við 2. og 3. mgr., sbr. þó 4. mgr.
    Reglur um þátttöku í greiðslukerfum skulu vera hlutlægar, án mismununar og hóflegar. Þær mega ekki hamla aðgangi meira en nauðsynlegt er til að verjast tiltekinni áhættu, svo sem uppgjörsáhættu, rekstraráhættu eða viðskiptaáhættu, og vernda fjárhags- og rekstrarlegan stöðugleika greiðslukerfisins.
    Í greiðslukerfum skulu ekki gerðar kröfur til greiðsluþjónustuveitenda, notenda greiðsluþjónustu eða annarra greiðslukerfa sem:
     a.      takmarka virka þátttöku þeirra í öðrum greiðslukerfum,
     b.      mismuna greiðsluþjónustuveitendum hvort heldur þeir eru skráðir eða með starfsleyfi, að því er varðar réttindi, skyldu eða heimildir þátttakenda, eða
     c.      takmarka þátttöku á grundvelli félagaréttarlegrar stöðu.
    Ákvæði 1.–3. mgr. gilda ekki um:
     a.      greiðslukerfi sem viðurkennd hafa verið og hafa verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum,
     b.      greiðslukerfi þar sem þátttaka einskorðast við greiðsluþjónustuveitendur sem tilheyra tiltekinni samstæðu.
    Ef þátttakandi í greiðslukerfi skv. a-lið 4. mgr. leyfir greiðsluþjónustuveitanda sem ekki er þátttakandi í greiðslukerfinu að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins skal þátttakandinn veita öðrum skráðum greiðsluþjónustuveitendum eða þeim sem eru með starfsleyfi sama tækifæri á hlutlægan, hóflegan hátt og án mismununar í samræmi við 2. mgr.
    Synji þátttakandi í greiðslukerfi skv. a-lið 4. mgr. beiðni greiðsluþjónustuveitanda um að fá að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins skal hann upplýsa greiðsluþjónustuveitandann um allar ástæður fyrir synjuninni.

37. gr.

Aðgangur að reikningum hjá lánastofnun.

    Lánastofnanir og viðskiptabankar skulu veita greiðslustofnunum aðgang að greiðslureikningaþjónustu þeirra á hlutlægan hátt, án mismununar og í samræmi við það lögmæta markmið sem greiðslustofnun stefnir að. Aðgangur skal vera nógu víðtækur til að gera greiðslustofnunum kleift að veita greiðsluþjónustu á óhindraðan og skilvirkan hátt.
    Synji lánastofnun eða viðskiptabanki greiðslustofnun um umbeðinn aðgang, sbr. 1. mgr., skal sá sem synjar tilkynna Fjármálaeftirlitinu og upplýsa um helstur ástæður synjunar.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um tilkynningu skv. 2. mgr.

38. gr.

Greiðslumiðlar með takmörkuð afnot.

    Einstaklingi og lögaðila sem er hvorki greiðsluþjónustuveitandi né fellur ótvírætt utan gildissviðs laga þessara skv. 2. gr. er óheimilt að veita greiðsluþjónustu.
    Þjónustuveitandi sem býður þjónustu sem tilgreind er í 11. og 12. tölul. 2. gr. og heildarfjárhæð greiðslna sem hafa verið framkvæmdar á næstliðnum 12 mánuðum er hærri en 1 milljón evra skal senda eftirfarandi til Fjármálaeftirlitsins:
     a.      Lýsingu á þjónustunni sem viðskiptavinum er boðin.
     b.      Tilvísun í þá undanþágu skv. 11. og 12. tölul. 2. gr. sem þjónustan heyrir undir.
    Fjármálaeftirlitið tekur á grundvelli upplýsinga skv. 2. mgr. rökstudda ákvörðun með vísan til 11. og 12. tölul. 2. gr. um hvort starfsemin telst vera afmarkað þjónustukerfi og tilkynnir þjónustuveitandanum. Falli starfsemin ekki undir undanþáguna skal Fjármálaeftirlitið banna frekari starfsemi en sendi þjónustuveitandinn fullnægjandi umsókn um starfsleyfi sem greiðslustofnun innan 30 daga frá dagsetningu bannsins má þjónustuveitandinn halda starfseminni áfram á meðan Fjármálaeftirlitið afgreiðir umsóknina.

39. gr.

Veitandi fjarskiptanets eða veitandi viðbótarþjónustu við fjarskiptaþjónustu.

    Þjónustuveitandi sem býður þjónustu sem lýst er í 14. tölul. 2. gr. skal senda eftirfarandi til Fjármálaeftirlitsins:
     a.      Lýsingu á þjónustunni sem boðin er viðskiptavinum.
     b.      Nákvæma lýsingu á því hvernig þjónustuveitandinn hefur eftirlit með því að þjónustan uppfylli á hverjum tíma skilyrði 14. tölul. 2. gr.
     c.      Árlegt álit úttektaraðila sem staðfestir að starfsemin sé í samræmi við 14. tölul. 2. gr.
            Á grundvelli þessara upplýsinga metur Fjármálaeftirlitið hvort starfsemin fellur undir undanþágu 14. tölul. 2. gr. Falli starfsemin ekki undir undanþáguna skal Fjármálaeftirlitið banna frekari starfsemi, en sendi þjónustuveitandinn fullnægjandi umsókn um starfsleyfi sem greiðslustofnun innan 30 daga frá dagsetningu bannsins má þjónustuveitandinn halda starfseminni áfram á meðan Fjármálaeftirlitið afgreiðir umsóknina.
    Áður en þjónustuveitandi býður þjónustuna í fyrsta sinn skal hann senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar skv. a- og b-lið 1. mgr.

40. gr.
Heimild til að vísa ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til dómstóla.

    Vilji greiðsluþjónustuveitandi eða þjónustuveitandi skv. 39. gr. ekki una ákvörðun eða athafnaleysi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem byggjast á þeim getur hann vísað málinu til dómstóla, sbr. 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

IV. KAFLI

Gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu.

A. Almenn ákvæði.

41. gr.

Gildissvið kaflans.

    Ákvæði þessa IV. kafla gilda um stakar greiðslur, rammasamninga og greiðslur sem falla undir þá.
    Víkja má frá ákvæðum þessa IV. kafla með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
    Ákvæði 47.–52. gr. gilda aðeins um gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu þegar um ræðir stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga.
    Ákvæði 53.–60. gr. gilda aðeins um gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu þegar um ræðir greiðslur sem falla undir rammasamninga.
    Geri önnur lög ríkari kröfur til upplýsingagjafar vegna lánveitingar til neytenda gilda ákvæði þeirra laga að því leyti.
    Ef lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005, eiga einnig við víkja ákvæði 5. gr., 1. og 3. tölul. 6. gr., 3., 4., 6. og 7. tölul. 7. gr. og 1. tölul. 8. gr. II. kafla þeirra laga fyrir ákvæðum 48. gr., 49. gr., 53. gr. og 54. gr.

42. gr.

Gjaldtaka vegna upplýsingagjafar.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal ekki krefja notanda greiðsluþjónustu um gjald fyrir upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessum kafla.
    Semja má um gjaldtöku fyrir viðbótarupplýsingagjöf, tíðari upplýsingagjöf eða aðra upplýsingagjöf en tilgreind er í rammasamningi, að því tilskildu að það sé að beiðni notanda greiðsluþjónustunnar og að gjaldtakan sé viðeigandi og í samræmi við raunkostnað.

43. gr.

Sönnunarbyrði greiðsluþjónustuveitanda.

    Greiðsluþjónustuveitandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi uppfyllt kröfur um upplýsingagjöf sem fram koma í þessum kafla.

44. gr.

Undanþágur frá kröfum um upplýsingagjöf vegna smágreiðslumiðla.

    Greiðsluþjónustuveitandi getur í samningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu vikið frá 53. gr., 54. gr., 56.–58. gr. og 60. gr. og einungis veitt greiðanda upplýsingar um helstu einkenni greiðsluþjónustunnar, sbr. 2. og 3. mgr.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal þrátt fyrir 53. gr., 54. gr. og 58. gr. aðeins veita greiðanda upplýsingar um helstu einkenni greiðsluþjónustunnar, þ.m.t. um notkun greiðslumiðla, bótaábyrgð, gjöld og aðrar viðeigandi upplýsingar sem þörf er á til að taka upplýsta ákvörðun. Greiðsluþjónustuveitandinn skal veita einfaldar og aðgengilegar leiðbeiningar um hvar aðrar upplýsingar og skilmála skv. 54. gr. er að finna.
    Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að semja við notanda greiðsluþjónustu um að honum sé ekki skylt að leggja til breytingar á skilmálum rammasamnings eins og kveðið er á um í 1. mgr. 53. gr.
    Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að semja við notanda greiðsluþjónustu um að víkja frá 59. gr. og 60. gr. og veita einungis eftirfarandi upplýsingar eftir að greiðsla hefur farið fram:
     a.      Tilvísun sem gerir notanda greiðsluþjónustu kleift að bera kennsl á greiðsluna.
     b.      Fjárhæð hennar.
     c.      Gjöld.
     d.      Þegar um er að ræða nokkrar sams konar greiðslur til sama viðtakanda, upplýsingar um heildarfjárhæð og gjöld vegna þessara greiðslna.
    Ef greiðslumiðill er gefinn út á handhafa eða greiðsluþjónustuveitandi er að öðru leyti ekki tæknilega í stakk búinn til að veita upplýsingarnar er greiðsluþjónustuveitandanum ekki skylt að veita þær.

45. gr.

Gjaldmiðill og umreikningur gjaldmiðils.

    Greiðslur skulu vera í þeim gjaldmiðli sem aðilar hafa komið sér saman um.
    Ef boðinn er gjaldmiðilsumreikningur áður en greiðsla á sér stað og sú þjónusta er boðin í hraðbanka, á sölustað eða af hálfu viðtakanda greiðslu skal sá aðili sem býður greiðanda þjónustuna veita honum allar upplýsingar um gjöld og það gengi sem nota á við umreikning greiðslunnar. Greiðandi skal samþykkja þjónustu við umreikning gjaldmiðils á þeim grundvelli.

46. gr.

Upplýsingar um viðbótargjald eða afslátt.

    Ef viðtakandi greiðslu býður lækkun vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils, umfram aðra greiðslumiðla, skal hann tilkynna greiðanda um það áður en greiðslan er framkvæmd.
    Ef greiðsluþjónustuveitandi krefst gjalds vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils skal hann tilkynna notanda greiðsluþjónustu um það áður en greiðslan er framkvæmd.
    Greiðandinn þarf einungis að greiða gjöldin sem um getur í 1. og 2. mgr. ef upplýst var um heildarfjárhæð þeirra áður en greiðslan var framkvæmd.

B. Stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga.

47. gr.

Sérákvæði um greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu sem send er með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning.

    Þegar greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu eru send með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning er greiðsluþjónustuveitandi ekki skuldbundinn til að veita eða koma á framfæri upplýsingum sem notandi greiðsluþjónustu hefur þegar fengið á grundvelli rammasamnings við annan greiðsluþjónustuveitanda eða sem honum verða veittar í samræmi við slíkan rammasamning.

48. gr.

Almenn upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.

    Áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi koma upplýsingum og skilmálum skv. 49. gr. á framfæri við notandann á aðgengilegan hátt.
    Upplýsingar og skilmálar skulu lagðir fram á pappír eða öðrum varanlegum miðli ef notandi greiðsluþjónustu óskar þess.
    Framsetning upplýsinga og skilmála skal vera skýr og auðskiljanleg, á íslensku eða hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
    Ef þjónustusamningur hefur verið gerður um stakar greiðslur að beiðni notanda greiðsluþjónustu fyrir tilstilli fjarsamskiptamiðils sem ekki gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að fara að 1.–3. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandinn uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim ákvæðum þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd.
    Skyldu til upplýsingagjafar skv. 1.–3. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að þjónustusamningi um staka greiðslu eða drögum að greiðslufyrirmælum sem geyma þær upplýsingar og skilmála sem komið skal á framfæri við notandann samkvæmt lögum þessum.

49. gr.

Upplýsingar og skilmálar um þjónustu í tengslum við stakar greiðslur.

    Eftirfarandi upplýsingar og skilmálar skulu afhentir eða hafðir aðgengilegir fyrir notendur greiðsluþjónustu:
     a.      Lýsing á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu þarf að gefa upp til að greiðslufyrirmæli verði framkvæmd rétt.
     b.      Hámarkstími sem framkvæmd greiðsluþjónustunnar má taka.
     c.      Öll gjöld sem notanda greiðsluþjónustu ber að greiða greiðsluþjónustuveitanda og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda.
     d.      Ef við á, raunverulegt gengi eða viðmiðunargengi sem gilda skal um greiðslu.
     e.      Ef við á, viðeigandi upplýsingar og skilmálar sem tilgreindir eru í 54. gr.
    Greiðsluvirkjandi skal gera eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar greiðanda með skýrum og ítarlegum hætti áður en greiðsla er virkjuð:
     a.      Heiti greiðsluvirkjanda, heimilisfang aðalskrifstofu hans auk útibús og umboðsaðila hérlendis ef því er til að dreifa, aðrar samskiptaupplýsingar, þ.m.t. netfang, sem viðeigandi er í boðskiptum við greiðsluvirkjandann.
     b.      Samskiptaupplýsingar Fjármálaeftirlitsins.
    Öðrum viðeigandi upplýsingum og skilmálum skv. 54. gr. skal eftir atvikum komið á framfæri við notanda greiðsluþjónustunnar á auðveldan og aðgengilegan hátt.

50. gr.
Upplýsingaskylda greiðsluvirkjanda eftir að gefin hafa verið greiðslufyrirmæli.

    Eftirfarandi upplýsingar skal greiðsluvirkjandi afhenda eða gera aðgengilegar greiðanda eða, eftir atvikum, viðtakanda greiðslu þegar í stað eftir að greiðslufyrirmæli hafa verið virkjuð fyrir milligöngu hans:
     a.      Staðfestingu á að greiðslufyrirmæli hafi tekist hjá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu.
     b.      Tilvísun sem gerir greiðanda og viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðsluna og, ef það á við, viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðandann og þær upplýsingar sem sendar eru með greiðslunni.
     c.      Fjárhæð greiðslunnar.
     d.      Fjárhæð gjalda sem greiða skal greiðsluvirkjanda fyrir greiðsluna, og sundurliðun þeirra.
    Greiðsluvirkjandi skal gera tilvísun í greiðsluna aðgengilega greiðsluþjónustuveitanda sem veitir greiðanda reikningsþjónustu.

51. gr.

Upplýsingagjöf gagnvart greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla um staka greiðslu.

    Eftirfarandi upplýsingar vegna eigin þjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi afhenda eða gera greiðanda aðgengilegar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. 48. gr. þegar í stað eftir viðtöku greiðslufyrirmæla:
     a.      Tilvísun sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl á greiðslu og, ef við á, upplýsingar sem varða viðtakanda greiðslu.
     b.      Fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem kveðið er á um í greiðslufyrirmælunum.
     c.      Fjárhæð gjalda sem greiðanda ber að greiða vegna framkvæmdar greiðslu og, ef við á, sundurliðun slíkra gjalda.
     d.      Ef við á, gengið sem greiðsluþjónustuveitandi notar í greiðslunni eða tilvísun til þess ef um ræðir annað gengi en það sem kveðið er á um í samræmi við d-lið 1. mgr. 49. gr., svo og fjárhæð greiðslu eftir gjaldmiðilsumreikning.
     e.      Dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.

52. gr.

Upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda greiðslu eftir framkvæmd stakrar greiðslu.

    Eftirfarandi upplýsingar skal greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu afhenda eða gera viðtakandanum aðgengilegar, vegna eigin þjónustu, með þeim hætti sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. 48. gr., þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd:
     a.      Tilvísun sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðsluna og, ef við á, greiðanda, svo og þær upplýsingar sem kunna að hafa verið sendar með greiðslunni.
     b.      Fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem fjármunirnir sem viðtakandi greiðslu fær til ráðstöfunar eru í.
     c.      Fjárhæð gjalda sem viðtakanda hennar ber að greiða vegna framkvæmdar greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda.
     d.      Ef við á, gengið sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda notar í greiðslunni og fjárhæð greiðslu áður en gjaldmiðilsumreikningur fór fram.
     e.      Gildisdag eignfærslu.

C. Greiðslur sem falla undir rammasamninga.

53. gr.

Almenn upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamning verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.

    Áður en rammasamningur eða tilboð um greiðsluþjónustu verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi afhenda notanda upplýsingar og skilmála skv. 54. gr. á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
    Framsetning upplýsinga og skilmála skal vera skýr og auðskiljanleg, á íslensku eða á hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
    Ef rammasamningur hefur verið gerður að beiðni notanda greiðsluþjónustu fyrir tilstilli fjarsamskiptamiðils sem ekki gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að fara að 1. og 2. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandinn uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim ákvæðum þegar í stað að lokinni gerð rammasamnings.
    Skyldu til upplýsingagjafar skv. 1. og 2. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að rammasamningi sem geyma upplýsingar og skilmála skv. 54. gr.

54. gr.

Upplýsingar og skilmálar um þjónustu í tengslum við greiðslur sem falla undir rammasamning.

    Eftirfarandi upplýsingar og skilmálar skulu afhentir notendum greiðsluþjónustu:
     1.      Að því er varðar greiðsluþjónustuveitanda:
                  a.      heiti, heimilisfang höfuðstöðva og viðeigandi póstföng, svo og sambærilegar upplýsingar um umboðsaðila og útibú ef við á, og
                  b.      hvaða lögbær eftirlitsaðili fer með eftirlit með starfsemi hans og, eftir því sem við kann að eiga, upplýsingar um viðeigandi opinbera skrá um starfsleyfi greiðsluþjónustuveitanda og skráningarnúmer eða jafngilda aðferð til auðkenningar í þeirri skrá.
     2.      Að því er varðar notkun greiðsluþjónustunnar:
                  a.      lýsing á þjónustunni sem um ræðir,
                  b.      lýsing á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu skal leggja fram til að greiðslufyrirmæli verði sett af stað eða rétt framkvæmd,
                  c.      hvernig og á hvaða formi samþykki skal veitt til að gefa greiðslufyrirmæli eða fyrir framkvæmd greiðslu og afturköllun slíks samþykkis í samræmi við 64. gr. og 86. gr.
                  d.      við hvaða tímamark viðtaka greiðslufyrirmæla miðast, sbr. 84. gr., svo og um skilgreindan lokunartíma greiðsluþjónustuveitanda, ef við á,
                  e.      hámarkstíma sem framkvæmd greiðslu má taka,
                  f.      hvort mögulegt sé að ákvarða útgjaldaþak vegna greiðslna sem framkvæmdar eru með greiðslumiðli í samræmi við 1. mgr. 74. gr., og
                  g.      upplýsingar um réttindi notanda greiðsluþjónustu skv. 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/751 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, sem var lögfest með samnefndum lögum nr. 31/2019, ef um er að ræða greiðslur sem eru tengdar kortum sem falla undir kortasamstarf.
     3.      Að því er varðar gjaldtöku, vexti og gengi:
                  a.      öll gjöld sem notanda greiðsluþjónustu ber að greiða greiðsluþjónustuveitanda, þ.m.t. þau sem tengjast því með hvaða hætti og hversu oft upplýsingar eru veittar eða gerðar aðgengilegar samkvæmt lögum þessum og með sundurliðuðum fjárhæðum ef við á,
                  b.      vextir og gengi, ef við á; ef miða á við viðmiðunarvexti og viðmiðunargengi skulu notanda afhentar upplýsingar um aðferðina sem nota skal við vaxtaútreikning og viðeigandi dagsetningar og vísitölu eða grunn til að ákvarða viðmiðunarvexti eða viðmiðunargengi, og
                  c.      reglur um breytingar á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi, þ.m.t. gildistíma slíkra breytinga, skv. 2. mgr. 56. gr., ef við á.
     4.      Að því er varðar boðleiðir og samskipti:
                  a.      umsamdar samskiptaaðferðir vegna sendingar upplýsinga eða tilkynninga samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. að því er varðar tæknilegar kröfur til búnaðar og hugbúnaðar notanda greiðsluþjónustu,
                  b.      háttur og tíðni miðlunar upplýsinga samkvæmt lögum þessum,
                  c.      tungumál rammasamnings og boðskipta meðan á samningssambandi stendur, og
                  d.      réttur notanda greiðsluþjónustu til að fá afhenta skilmála rammasamnings og upplýsingar og skilmála í samræmi við 55. gr.
     5.      Að því er varðar varúðarráðstafanir og ábyrgð:
                  a.      lýsing á þeim ráðstöfunum sem notanda greiðsluþjónustu ber að grípa til í því skyni að tryggja örugga varðveislu greiðslumiðils, ef við á, svo og hvernig staðið skuli að tilkynningu til greiðsluþjónustuveitanda skv. 3. mgr. 75. gr.,
                  b.      upplýsingar um hvaða örugga ferli greiðsluþjónustuveitandi notar til að tilkynna notanda greiðsluþjónustu ef um er að ræða grun um eða eiginleg svik eða öryggisógn,
                  c.      skilyrði áskilnaðar greiðsluþjónustuveitanda til stöðvunar á notkun greiðslumiðils í samræmi við 74. gr., ef um það er samið,
                  d.      ábyrgð greiðanda skv. 80. gr., þ.m.t. upplýsingar um fjárhæðarmörk,
                  e.      hvernig og innan hvaða tímamarka notanda greiðsluþjónustu ber að tilkynna greiðsluþjónustuveitanda um óheimilaða greiðslu sem hefur verið sett af stað eða hefur verið framkvæmd á rangan hátt skv. 77. gr. auk upplýsinga um bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda skv. 79. gr.,
                  f.      hvernig notandi greiðsluþjónustu skal tilkynna greiðsluþjónustuveitandanum um óheimilaða greiðslu sem hefur verið sett af stað eða hefur verið rangt framkvæmd og frest sem hann hefur til þess í samræmi við 79. gr. sem og ábyrgð greiðsluþjónustuveitandans á óheimiluðum greiðslum í samræmi við 93. gr.,
                  g.      skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 82. gr. og 83. gr.
     6.      Að því er varðar breytingar og uppsögn rammasamnings:
                  a.      ef um það er samið, að notandi greiðsluþjónustu teljist hafa samþykkt breytingar á skilmálum rammasamnings skv. 56. gr. nema notandi greiðsluþjónustu tilkynni greiðsluþjónustuveitandanum að hann samþykki þær ekki áður en breytingarnar öðlast gildi,
                  b.      gildistími rammasamningsins,
                  c.      réttur notanda greiðsluþjónustu til uppsagnar rammasamnings og öðrum samningum sem tengjast uppsögn, sbr. 1. mgr. 56. gr. og 57. gr.
     7.      Að því er varðar úrlausn ágreiningsmála:
                  a.      hvaða lög gilda um rammasamninginn,
                  b.      hvaða kosti notandi greiðsluþjónustu á skv. 103.–104. gr. laga þessara um úrlausn ágreiningsmála utan dómstóla og meðferð bótamála.

55. gr.

Aðgengilegar upplýsingar og skilmálar rammasamnings.

    Hvenær sem er meðan á samningssambandi stendur getur notandi greiðsluþjónustu óskað eftir og skal þá fá afhenta skilmála rammasamnings ásamt upplýsingum og skilmálum skv. 54. gr. á pappír eða öðrum varanlegum miðli.

56. gr.

Breytingar á skilmálum rammasamnings.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal leggja tillögur að breytingum á rammasamningi, sem og á upplýsingum og skilmálum skv. 54. gr., fyrir notanda greiðsluþjónustu með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir fyrirhugaða gildistöku breytinganna. Notandi greiðsluþjónustunnar getur annaðhvort samþykkt breytingarnar eða synjað þeim fyrir fyrirhugaða gildistöku þeirra. Ef um það hefur verið samið, sbr. a-lið 6. tölul. 54. gr., skal greiðsluþjónustuveitandi tilkynna notanda greiðsluþjónustu að hann teljist hafa samþykkt slíkar breytingar tilkynni hann ekki um annað fyrir fyrirhugaða gildistöku. Notanda greiðsluþjónustu er heimilt að segja rammasamningi upp þegar í stað án sérstakrar gjaldtöku áður en fyrirhugaðar breytingar öðlast gildi og skal greiðsluþjónustuveitandi jafnframt upplýsa notandann um það.
    Breytingar á vöxtum eða gengi taka gildi þegar í stað og án viðvörunar ef samið hefur verið um slíkt í rammasamningi og breytingarnar byggjast á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi sem samið hefur verið um í samræmi við b- og c-lið 3. tölul. 54. gr. Tilkynna skal notanda greiðsluþjónustu um allar breytingar á vöxtum eins fljótt og kostur er með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. nema aðilar hafi komið sér saman um að slíkar upplýsingar skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega eða á tiltekinn hátt. Þó má breyta vöxtum eða gengi án tilkynningar ef slíkar breytingar eru notanda greiðsluþjónustu í hag.
    Breytingar á vöxtum eða gengi sem miðað er við í greiðslum skulu framkvæmdar og reiknaðar á hlutlausan hátt þannig að notendum greiðsluþjónustu verði ekki mismunað.

57. gr.

Uppsögn rammasamnings.

    Notanda greiðsluþjónustu er heimilt að segja rammasamningi upp hvenær sem er, nema samið hafi verið um uppsagnarfrest. Slíkur uppsagnarfrestur skal ekki vera lengri en einn mánuður.
    Uppsögn rammasamnings með föstum eða ótilteknum samningstíma skal vera notanda greiðsluþjónustu að kostnaðarlausu.
    Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að segja rammasamningi með ótilteknum samningstíma upp með a.m.k. tveggja mánaða uppsagnarfresti. Notanda greiðsluþjónustu skal tilkynnt um uppsögnina með þeim hætti sem greinir í 1. og 2. mgr. 53. gr.
    Ef samið hefur verið um reglubundnar greiðslur á samningstímanum fyrir greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi skal hlutfallslega tekið tillit til gildistíma uppsagnar við innheimtu greiðslna eftir uppsögn samnings. Ef gjöld vegna greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi eru greidd fyrir fram skulu þau endurgreidd notanda hlutfallslega, með tilliti til gildistíma uppsagnar.

58. gr.

Upplýsingagjöf áður en kemur til framkvæmdar einstakra greiðslna sem falla undir rammasamning.

    Samhliða beiðni greiðanda um að setja af stað tiltekna greiðslu sem fellur undir rammasamning skal greiðsluþjónustuveitandi veita skýrar upplýsingar um öll eftirfarandi atriði:
     a.      hámarkstíma sem framkvæmd greiðslu má taka,
     b.      þau gjöld sem greiðanda ber að greiða vegna hennar, og
     c.      ef við á, sundurliða fjárhæðir gjalda.

59. gr.

Upplýsingagjöf fyrir greiðanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust veita greiðanda eftirfarandi upplýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. eftir að fjárhæð einstakrar greiðslu sem fellur undir rammasamning er skuldfærð af reikningi greiðanda eða, ef greiðandi notar ekki greiðslureikning, eftir viðtöku greiðslufyrirmæla:
     a.      tilvísun sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl á hverja greiðslu og, ef við á, upplýsingar sem varða viðtakanda greiðslu,
     b.      fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem skuldfærð er á greiðslureikning greiðanda eða í þeim gjaldmiðli sem er notaður í greiðslufyrirmælunum,
     c.      fjárhæð gjalda vegna greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda, svo og upplýsingar um vexti sem greiðanda ber að greiða,
     d.      það gengi sem greiðsluþjónustuveitandi greiðanda notar við framkvæmd greiðslu og fjárhæð greiðslu eftir gjaldmiðilsumreikning, ef við á, og
     e.      gildisdag skuldfærslu eða dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.
    Í rammasamningi skal kveða á um að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, a.m.k. einu sinni í mánuði, án endurgjalds, með þeim hætti sem gerir greiðanda kleift að geyma eða kalla upplýsingarnar fram óbreyttar.

60. gr.

Upplýsingagjöf fyrir viðtakanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust veita viðtakanda greiðslu eftirfarandi upplýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. eftir framkvæmd einstakrar greiðslu sem fellur undir rammasamning:
     a.      tilvísun sem gerir viðtakandanum kleift að bera kennsl á greiðslu og greiðanda, svo og aðrar upplýsingar sem kunna að hafa verið sendar með greiðslunni,
     b.      fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem eignfærður er á greiðslureikning viðtakanda,
     c.      fjárhæð gjalda vegna greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda, svo og upplýsingar um vexti sem viðtakanda ber að greiða,
     d.      það gengi sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda notar við framkvæmd greiðslu og fjárhæð greiðslu áður en gjaldmiðilsumreikningur fer fram, ef við á, og
     e.      um gildisdag eignfærslu.
    Heimilt er að kveða á um það í rammasamningi að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, a.m.k. einu sinni í mánuði, án endurgjalds, með þeim hætti sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að geyma eða kalla upplýsingarnar fram óbreyttar.

V. KAFLI.

Réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu.

A. Almenn ákvæði.

61. gr.

Gildissvið kaflans.

    Ef notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi geta notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi komið sér saman um að 1. og 2. mgr. 62. gr., 3. mgr. 64. gr., 78. gr., 80. gr., 82. gr., 83. gr., 86. gr. og 93. gr. skuli ekki gilda í heild eða að hluta til. Notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi geta einnig komið sér saman um önnur tímamörk en þau sem mælt er fyrir um í 77. gr.
    Geri lög um neytendalán eða önnur löggjöf ríkari kröfur fyrir lánveitingu til neytenda gilda ákvæði þeirra laga að því leyti.

62. gr.

Gjaldtaka.

    Greiðsluþjónustuveitanda er óheimilt að innheimta gjald af notanda greiðsluþjónustu vegna upplýsinga sem skylt er að veita skv. V.–VII. kafla eða vegna leiðréttingarráðstafana eða fyrirbyggjandi ráðstafana skv. V.–VII. kafla nema kveðið sé á um annað í 1. mgr. 85. gr., 5. mgr. 86. gr. og 2. mgr. 92. gr.
    Notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi skulu semja sín í milli um þessi gjöld og skulu þau vera viðeigandi og í samræmi við raunverulegan kostnað greiðsluþjónustuveitandans.
    Viðtakandi greiðslu skal greiða gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi hans leggur á þegar greiðslan á sér stað innan Evrópska efnahagssvæðisins og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu er eini greiðsluþjónustuveitandi greiðslunnar eða þegar greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu og greiðanda eru báðir innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Greiðandi skal greiða gjöldin sem greiðsluþjónustuveitandi hans leggur á þegar greiðslan á sér stað innan Evrópska efnahagssvæðisins og greiðsluþjónustuveitandi greiðanda er eini greiðsluþjónustuveitandi greiðslunnar eða þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og viðtakanda eru báðir innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra. Honum er þó heimilt að bjóða greiðanda afslátt eða stýra greiðanda með öðrum hætti að notkun tiltekins greiðslumiðils.

63. gr.

Undanþágur og frávik vegna smágreiðslumiðla.

    Greiðsluþjónustuveitandi getur í rammasamningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu vikið frá:
     a.      3. mgr. 75. gr., 4. mgr. 76. gr. og 6. mgr. 80. gr. ef ekki er unnt að stöðva notkun greiðslumiðilsins eða koma í veg fyrir frekari notkun hans,
     b.      78. gr., 79. gr. og 1.–4. mgr. og 6. mgr. 80. gr. ef greiðslumiðill er notaður undir nafnleynd eða greiðsluþjónustuveitandinn er ekki í stakk búin, af öðrum ástæðum sem eru órjúfanlegur hluti greiðslumiðilsins, til að sýna fram á að greiðslan hafi verið heimiluð,
     c.      1. og 2. mgr. 85. gr. um tilkynningarskyldu til notanda greiðsluþjónustu um synjun á greiðslufyrirmælum ef greinilegt er af málavöxtum að þau hafa ekki verið framkvæmd.
    Greiðsluþjónustuveitandi getur einnig í rammasamningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu samið um að greiðandi geti ekki, þrátt fyrir 86. gr., afturkallað greiðslufyrirmæli eftir að hafa sent þau eða veitt viðtakanda greiðslu samþykki fyrir framkvæmd greiðslunnar og þrátt fyrir 88. gr. og 89. gr. gildi önnur framkvæmdatímabil en tilgreind eru í rammasamningnum.
    Ákvæði 79. gr. og 80. gr. ná einnig til greiðslna með rafeyri. Frá þessu er þó sú undantekning að þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hefur ekki getu til að frysta greiðslureikninginn sem geymir rafeyrinn eða loka greiðslumiðlinum eiga 79. gr. og 80. gr. ekki við.

B. Heimild fyrir greiðslu.

64. gr.

Samþykki fyrir greiðslu og afturköllun samþykkis.

    Greiðsla telst því aðeins heimiluð að greiðandi hafi veitt samþykki fyrir framkvæmd hennar. Greiðandi getur heimilað greiðslu fyrir framkvæmd greiðslunnar eða eftir hana, ef greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans hafa samið um það.
    Samþykki fyrir framkvæmd greiðslu eða röð greiðslna skal veitt á því formi sem greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans koma sér saman um. Einnig má veita samþykki fyrir greiðslu fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu eða greiðsluvirkjanda. Ef samþykki er ekki fyrir hendi telst greiðsla ekki hafa verið heimiluð.
    Greiðandi getur afturkallað samþykki hvenær sem er, en þó ekki eftir að greiðslufyrirmæli teljast óafturkallanleg í skilningi 86. gr. Samþykki fyrir framkvæmd á röð greiðslna má einnig afturkalla og hefur það þau áhrif að greiðslur sem framkvæmdar eru eftir það tímamark teljast óheimilar.
    Sú aðferð sem greiðandi notar við að veita samþykki skal vera samkomulagsatriði milli greiðanda og viðkomandi greiðsluþjónustuveitanda.

C. Útgefandi kortatengds greiðslumiðils.

65. gr.

Staðfesting á aðgengileika fjármagns.

    Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal þegar í stað eftir að honum hefur borist beiðni frá útgefanda kortatengds greiðslumiðils staðfesta hvort fjárhæðin sem nauðsynleg er til að framkvæma kortatengda greiðslu sé aðgengileg á greiðslureikningi greiðandans, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
     a.      greiðslureikningur greiðandans er aðgengilegur á netinu þegar beiðnin er lögð fram,
     b.      greiðandinn hefur veitt greiðsluþjónustuveitandanum sem veitir reikningsþjónustu skýlaust samþykki til að svara beiðnum frá tilteknum greiðsluþjónustuveitanda um að staðfesta að fjárhæðin sem samsvarar tiltekinni kortatengdri greiðslu sé aðgengileg á greiðslureikningi greiðandans,
     c.      samþykkið, sem um getur í b-lið, hefur verið veitt áður en fyrsta beiðnin um staðfestingu er sett fram.
    Útgefandi kortatengds greiðslumiðils getur óskað eftir staðfestingunni sem um getur í 1. mgr. ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     a.      greiðandinn hefur veitt greiðsluþjónustuveitandanum skýlaust samþykki sitt til að biðja um staðfestinguna,
     b.      greiðandinn hefur sett af stað kortatengdu greiðsluna fyrir umræddri fjárhæð með kortatengdum greiðslumiðli sem greiðsluþjónustuveitandinn gefur út,
     c.      útgefandi kortatengds greiðslumiðils auðkennir sig gagnvart greiðsluþjónustuveitandanum sem veitir reikningsþjónustu fyrir hverja beiðni um staðfestingu og með öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitandann sem veitir reikningsþjónustu í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.
    Staðfestingin sem um getur í 1. mgr. skal, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, einfaldlega vera „já“ eða „nei“ og ekki koma fram á reikningsyfirliti. Hún heimilar ekki greiðsluþjónustuveitandanum sem veitir reikningsþjónustu að frysta fjármuni á greiðslureikningi greiðandans. Hvorki skal geyma svarið né nota það í öðrum tilgangi en vegna framkvæmdar á kortatengdu greiðslunni.
    Greiðandi getur óskað eftir því að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu sendi greiðandanum upplýsingar um greiðsluþjónustuveitandann og svarið sem gefið er.
    Ákvæði 1.–4. mgr. gilda ekki um greiðslur sem settar eru af stað með kortatengdum greiðslumiðlum sem varðveita rafeyri eins og hann er skilgreindur í lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.

D. Greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónusta.

66. gr.

Réttur greiðanda til að nýta sér greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu.

    Greiðandi sem á greiðslureikning sem er aðgengilegur á netinu á rétt á að nýta sér greiðsluvirkjun, sbr. g-lið 22. tölul. 3. gr., og reikningsupplýsingaþjónustu, sbr. h-lið 22. tölul. 3. gr.
    Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda sem veitir reikningsþjónustu getur ekki sett það sem skilyrði að samningssamband sé á milli hans annars vegar og greiðsluvirkjandans eða reikningsupplýsingaþjónustuveitandans hins vegar.

67. gr.

Skyldur greiðsluvirkjanda vegna veitingar greiðsluþjónustu.

    Greiðsluvirkjandi verður að afla skýlauss samþykkis frá greiðanda í samræmi við b-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 65. gr. áður en hann getur virkjað greiðslu.
    Greiðsluvirkjandi skal í tengslum við veitingu þjónustu sinnar:
     a.      sjá til þess að persónubundin öryggisskilríki notanda greiðsluþjónustunnar séu ekki aðgengileg öðrum aðilum, að undanskildum notanda greiðsluþjónustunnar og útgefanda persónubundnu öryggisskilríkjanna, og að greiðsluvirkjandinn sendi þau öruggar og skilvirkar leiðir,
     b.      gera grein fyrir sér gagnvart greiðsluþjónustuveitanda sem veitir greiðanda reikningsþjónustu í hvert sinn sem greiðsla er virkjuð, og
     c.      eiga í öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, greiðanda og viðtakanda greiðslunnar í samræmi reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.
    Greiðsluvirkjandi má aldrei geyma fjármuni greiðanda í tengslum við greiðsluvirkjun og hvorki breyta fjárhæð, viðtakanda greiðslu né öðrum þáttum greiðslunnar.

68. gr.

Meðhöndlun upplýsinga og gagna sem greiðsluvirkjandi aflar.

    Greiðsluvirkjandi má hvorki nota, nálgast né geyma gögn í öðrum tilgangi en til að veita greiðsluvirkjun sem greiðandinn óskar eftir.
    Þrátt fyrir 1. mgr. má greiðsluvirkjandi aldrei geyma viðkvæm greiðslugögn notanda greiðsluþjónustu.
    Aðrar upplýsingar um notanda greiðsluþjónustu, sem fást við veitingu greiðsluvirkjunar má greiðsluvirkjandi einungis veita viðtakanda greiðslu og aðeins með skýlausu samþykki notanda greiðsluþjónustunnar.

69. gr.

Skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu.

    Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal þegar í stað eftir viðtöku greiðslufyrirmæla frá greiðsluvirkjanda veita greiðsluvirkjanda allar nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmd greiðslu sem eru honum aðgengilegar.
    Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skal eiga örugg samskipti við greiðsluvirkjendur í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.
    Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu má ekki mismuna þeim sem gefa greiðslufyrirmæli, hvort sem um er að ræða greiðsluvirkjanda eða greiðanda sem sendir greiðslufyrirmæli beint, nema af hlutlægum ástæðum, einkum með tilliti til tímasetningar, forgangs eða gjalda.

70. gr.

Skyldur reikningsupplýsingaþjónustuveitanda.

    Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi verður að afla skýlauss samþykkis frá notanda greiðsluþjónustunnar áður en hann veitir reikningsupplýsingaþjónustu.
    Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi má aðeins nálgast upplýsingar frá tilnefndum greiðslureikningum og tengdum greiðslum.
    Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi skal við veitingu reikningsupplýsingaþjónustu:
     a.      tryggja að persónubundin öryggisskilríki notanda greiðsluþjónustunnar séu ekki aðgengileg öðrum aðilum, að undanskildum notanda og útgefanda persónubundnu öryggisskilríkjanna,
     b.      staðfesta fyrir hverja boðskiptalotu hver hann er gagnvart greiðsluþjónustuveitendum sem veita notanda greiðsluþjónustunnar reikningsþjónustu, og
     c.      eiga í öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitendurna, sem veita notanda þjónustu reikningsþjónustu, og notanda greiðsluþjónustunnar.
    Í reglum sem Seðlabanki Íslands setur skv. 2. mgr. 114. gr. skal nánar kveðið á um framkvæmd a–c-liðar 3. mgr.

71. gr.

Meðhöndlun gagna sem reikningsupplýsingaþjónustuveitandi aflar.

    Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi má hvorki nota, nálgast né geyma gögn í öðrum tilgangi en að annast reikningsupplýsingaþjónustu sem notandi greiðsluþjónustunnar óskar sérstaklega eftir, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Þrátt fyrir 1. mgr. má reikningsupplýsingaþjónustuveitandi ekki óska eftir viðkvæmum greiðslugögnum sem tengjast greiðslureikningum.

72. gr.

Skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu vegna öruggra samskipta og gagnabeiðna.

    Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal í tengslum við greiðslureikninga eiga í öruggum samskiptum við reikningsupplýsingaþjónustuveitendur í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.
    Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal afgreiða beiðnir um gögn, sem sendar eru fyrir milligöngu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, án mismununar af öðrum ástæðum en hlutlægum.

73. gr.

Synjað um upplýsingar um og aðgang að greiðslureikningi.

    Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu getur synjað reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluvirkjanda um aðgang að greiðslureikningi sökum þess að aðgangur viðkomandi er óheimill eða fenginn með sviksamlegum hætti.
    Synji greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluvirkjanda um aðgang að greiðslureikningi skal hann tilkynna greiðanda það áður en greiðanda er synjað um aðgang og eigi síðar en strax í kjölfar synjunar auk ástæðna fyrir synjuninni á fyrirframsamþykktu formi. Tilkynningarskyldan fellur þó niður ef hún teflir öryggi tengdu greiðslureikningi í tvísýnu eða lög kveða á um annað.
    Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skal veita aðgang að greiðslureikningi þegar ástæður fyrir synjun eiga ekki lengur við.
    Í þeim tilvikum þegar greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu synjar um aðgang, sbr. 1. mgr., skal hann þegar í stað skýra Fjármálaeftirlitinu frá synjuninni og ástæðum hennar. Upplýsingarnar skulu innihalda málsatvik og ástæður þess að synjað var um aðgang. Fjármálaeftirlitið skal meta hvert tilvik og grípa til viðeigandi aðgerða gerist þess þörf.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um tilkynningu sem um getur í 4. mgr.

E. Framkvæmd greiðslu.

74. gr.

Takmarkanir á notkun greiðslumiðils.

    Ef nota skal tiltekinn greiðslumiðil til að veita samþykki fyrir framkvæmd greiðslna geta greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans samið um útgjaldaþak vegna þeirra greiðslna sem framkvæmdar eru með honum.
    Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðsluþjónustuveitandi áskilið sér rétt til að stöðva notkun greiðslumiðils af ástæðum sem rökstuddar eru á hlutlægan hátt með hliðsjón af öryggi greiðslumiðilsins, grun um óheimila eða sviksamlega notkun greiðslumiðilsins eða, þegar um er að ræða greiðslumiðil sem lánsheimildir fylgja, verulega aukinni hættu á því að greiðandi kunni að vera ófær um að uppfylla greiðsluskyldu sína.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal tilkynna greiðanda um stöðvun notkunar greiðslumiðils og ástæður fyrir henni á umsaminn hátt svo fljótt sem auðið er, nema þess háttar tilkynning tefli öryggi greiðslumiðilsins í hættu eða lög kveði á um annað. Ef mögulegt er skal uppfylla þessa tilkynningarskyldu áður en notkun greiðslumiðils er stöðvuð, en hún skal í síðasta lagi uppfyllt tafarlaust í kjölfar stöðvunar.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal opna fyrir notkun greiðslumiðils eða afhenda nýjan greiðslumiðil í hans stað þegar ástæður fyrir stöðvun notkunar eru ekki lengur fyrir hendi.

75. gr.

Skyldur notanda greiðsluþjónustu í tengslum við greiðslumiðil og persónubundin öryggisskilríki.

    Notandi greiðsluþjónustu, sem á rétt á að nota greiðslumiðil, skal nota greiðslumiðilinn í samræmi við skilmála um útgáfu og notkun hans og skulu skilmálarnir vera hlutlægir, án mismununar og gæta meðalhófs.
    Við viðtöku greiðslumiðils ber notanda að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja öryggi persónubundinna öryggisskilríkja greiðslumiðilsins.
    Notandi greiðsluþjónustu, sem á rétt á að nota greiðslumiðil, skal án óþarfa tafar tilkynna greiðsluþjónustuveitanda, eða öðrum sem hann tilnefnir, um það verði hann var við tap, þjófnað eða misnotkun á greiðslumiðli eða óheimila notkun hans.

76. gr.

Skyldur greiðsluþjónustuveitanda í tengslum við greiðslumiðil.

    Greiðsluþjónustuveitandi sem gefur út greiðslumiðil skal tryggja að persónubundin öryggisskilríki greiðslumiðilsins séu ekki aðgengileg öðrum en þeim notanda greiðsluþjónustu sem á rétt á að nota greiðslumiðilinn án þess að það hafi áhrif á skyldur notanda greiðsluþjónustu skv. 75. gr.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal ekki senda notanda greiðsluþjónustu greiðslumiðil óumbeðinn, nema nýr greiðslumiðill eigi að koma í stað þess sem notandinn hefur þegar fengið.
    Greiðsluþjónustuveitandi ber alla áhættu af sendingu greiðslumiðils og hvers kyns persónubundnum öryggisskilríkjum tengdum honum til greiðanda.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal tryggja að notanda greiðsluþjónustu sé kleift að koma tilkynningu skv. 3. mgr. 75. gr. á framfæri hvenær sem er sólarhringsins endurgjaldslaust og óska eftir að opnað verði fyrir notkun greiðslumiðils í samræmi við 4. mgr. 74. gr. Greiðsluþjónustuveitanda ber jafnframt að sjá til þess að í 18 mánuði frá því að notandi kemur tilkynningu skv. 3. mgr. 75. gr. á framfæri hafi notandinn úrræði til að sanna að hann hafi gefið út slíka tilkynningu. Greiðsluþjónustuveitandi má einungis taka gjald fyrir endurnýjunarkostnað sem tengist greiðslumiðlinum beint.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal koma í veg fyrir alla notkun greiðslumiðils þegar tilkynningu skv. 3. mgr. 75. gr. hefur verið komið á framfæri.

77. gr.

Tilkynning um óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu og leiðréttingu á henni.

    Notandi greiðsluþjónustu skal tilkynna greiðsluþjónustuveitanda án óþarfa tafar verði hann var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu sem gefur tilefni til kröfu um leiðréttingu samkvæmt ákvæðum laga þessara, þ.m.t. 93. gr., og eigi síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi veitti notanda greiðsluþjónustunnar ekki upplýsingar um greiðsluna eða hafði aðgengilegar fyrir hann í samræmi við ákvæði IV. kafla.
    Ef greiðsluvirkjandi á hlut að máli skal notandi greiðsluþjónustu fá leiðréttingu frá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu skv. 1. mgr., að teknu tilliti til 2. og 3. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 93. gr.

78. gr.

Sannvottun vegna framkvæmdar greiðslu.

    Ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmd greiðslu eða heldur því fram að greiðsla hafi ekki verið réttilega framkvæmd skal greiðsluþjónustuveitandi hans sanna að sannvottun hafi átt sér stað, að framkvæmd greiðslu hafi verið nákvæmlega skráð og færð í reikningshald og að tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver annar ágalli.
    Ef greiðslan er virkjuð fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda skal hann bera sönnunarbyrðina um að sannvottun hafi átt sér stað, að framkvæmd greiðslu hafi verið rétt skráð og að tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver ágalli.
    Ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmda greiðslu fer það eftir atvikum hvort notkun greiðslumiðils sem greiðsluþjónustuveitandi skráir, eða greiðsluvirkjandi, eftir því sem við á, dugi ein og sér til sönnunar á því að greiðandi hafi annaðhvort heimilað greiðsluna eða hann hafi með sviksamlegum hætti, að yfirlögðu ráði eða af stórfelldu gáleysi, látið hjá líða að uppfylla eina eða fleiri af skyldum skv. 75. gr. Greiðsluþjónustuveitandinn eða greiðsluvirkjandinn, eftir því sem við á, skal leggja fram sönnunargögn til að sýna fram á svik eða stórfellt gáleysi notanda greiðsluþjónustunnar.

79. gr.

Bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda vegna óheimilaðrar greiðslu.

    Ef notandi greiðsluþjónustu heldur því fram að greiðsla sé óheimil skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda, að uppfylltum skilyrðum 77. gr., endurgreiða greiðanda þegar í stað fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar og eigi síðar en við lok næsta virka dags frá því að hann uppgötvaði hana eða var tilkynnt um hana. Greiðsluþjónustuveitandi greiðandans skal koma greiðslureikningnum sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en óheimilaða greiðslan átti sér stað. Tryggja skal að eignfærslan á greiðslureikning greiðandans hafi sama gildisdag og þegar fjárhæðin var skuldfærð. Hafi greiðsluþjónustuveitandi greiðanda grun um svik getur hann neitað endurgreiðslu og skal hann þá tilkynna um grun sinn til Fjármálaeftirlitsins.
    Ef óheimiluð greiðslufyrirmæli eru virkjuð fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda skal greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu endurgreiða þegar í stað fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar og eigi síðar en við lok næsta virka dags og, eftir atvikum, koma greiðslureikningnum sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en óheimilaða greiðslan átti sér stað.
    Ef greiðsluvirkjandi ber ábyrgð á óheimilaðri greiðslu skal hann þegar í stað bæta greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, að beiðni hans, tapið sem hann varð fyrir eða fjárhæðirnar sem hann endurgreiddi greiðanda, þ.m.t. fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar. Í samræmi við 2. mgr. 78. gr. skal greiðsluvirkjandinn bera sönnunarbyrðina um að sannvottun hafi átt sér stað, að framkvæmd greiðslu hafi verið rétt skráð og að tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver ágalli.
    Ákvarða má greiðanda frekari bætur ef lög sem gilda um samninginn milli greiðandans og greiðsluþjónustuveitanda eða samninginn milli greiðandans og greiðsluvirkjanda, ef við á, kveða á um slíkt.
    Ákvæði þetta gildir einnig um rafeyri í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um form tilkynningar vegna gruns greiðsluþjónustuveitanda um svik.

80. gr.

Ábyrgð greiðanda vegna óheimilaðrar greiðslu.

    Þrátt fyrir 79. gr. skal greiðandi bera tap vegna óheimilaðra greiðslna sem nema allt að jafnvirði 50 evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni þegar tapið má rekja til notkunar á týndum eða stolnum greiðslumiðli eða það stafar af óréttmætri notkun greiðslumiðils.
    Ákvæði 1. mgr. gildir ekki ef:
     a.      greiðanda gat ekki orðið ljóst að greiðslumiðill var tapaður, honum stolið eða hann notaður með óréttmætum hætti og hann hefur ekki sýnt af sér sviksamlega háttsemi, eða
     b.      tap greiðanda á greiðslumiðlinum stafaði af aðgerðum eða aðgerðaleysi starfsmanns greiðsluþjónustuveitandanda, umboðsaðila eða útvistunaraðila hans.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal greiðandi bera allt tjón sem rekja má til óheimilaðra greiðslna ef hann hefur stofnað til þeirra með sviksamlegum hætti eða látið ógert að uppfylla eina eða fleiri af skyldum sínum skv. 75. gr. af ásetningi eða af stórfelldu gáleysi. Þegar þetta á við gildir hámarksfjárhæðin sem um getur í 1. mgr. ekki.
    Þegar háttsemi greiðanda hefur hvorki verið sviksamleg né hann af ásetningi látið ógert að uppfylla skyldur sínar skv. 75. gr. skal tekið tillit til eðlis persónubundinna öryggisskilríkja greiðslumiðils og aðstæðna þegar greiðslumiðill týndist, honum var stolið eða hann notaður með óréttmætum hætti við ákvörðun um þá fjárhæð sem greiðanda verður gert að bera sjálfur ábyrgð á skv. 1. og 3. mgr.
    Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda krefst ekki sterkrar sannvottunar viðskiptavinar skal greiðandi ekki bera neitt fjárhagstjón nema greiðandinn hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Ef viðtakandi greiðslu eða greiðsluþjónustuveitandi hanssamþykkir ekki sterka sannvottun skal hann endurgreiða fjárhagslegt tjón sem það veldur greiðsluþjónustuveitanda greiðanda.
    Greiðandi skal ekki bera tjón sem hlýst af notkun á greiðslumiðli sem týnist, er stolið eða notaður með óréttmætum hætti eftir tímamark tilkynningar skv. 3. mgr. 75. gr. Þetta á þó ekki við ef greiðandi hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
    Greiðandi skal ekki bera tjón sem hlýst af notkun greiðslumiðils ef greiðsluþjónustuveitandi hefur ekki gert viðeigandi ráðstafanir samkvæmt lögum þessum vegna tilkynningarskyldu um greiðslumiðil sem hefur týnst, verið stolið eða notaður með óréttmætum hætti, eins og krafist er skv. 4. mgr. 76. gr. Þetta á þó ekki við ef greiðandi hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
    Ákvæði þetta gildir einnig um rafeyri í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli.

81. gr.

Heimild til að frysta fjármuni á greiðslureikningi þegar fjárhæð greiðslu er ekki þekkt fyrir fram.

    Þegar greiðsla er sett af stað af eða fyrir milligöngu viðtakanda hennar í tengslum við kortatengda greiðslu og nákvæm fjárhæð er ekki þekkt á þeirri stundu sem greiðandi veitir samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslunnar getur greiðsluþjónustuveitandi greiðandans aðeins fryst fjármuni á greiðslureikningi greiðandans ef greiðandinn hefur veitt samþykki fyrir nákvæmlega þeirri fjárhæð sem fyrirhugað er að frysta.
    Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal afhenda fjármunina sem frystir hafa verið á greiðslureikningi greiðandans skv. 1. mgr. án ótilhlýðilegrar tafar eftir viðtöku upplýsinga um nákvæma fjárhæð greiðslunnar og eigi síðar en strax eftir viðtöku greiðslufyrirmælanna.

82. gr.

Endurgreiðslur á greiðslum sem viðtakandi greiðslu setur af stað eða hefur milligöngu um.

    Greiðandi á rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda sínum vegna heimilaðrar greiðslu sem viðtakandi hefur sett af stað eða haft milligöngu um ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
     a.      fjárhæð greiðslunnar var ekki nákvæmlega tilgreind í heimildinni þegar hún var veitt,
     b.      fjárhæð greiðslunnar var hærri en svo að hægt væri að gera ráð fyrir að greiðandi réði við þá fjárhæð miðað við útgjaldamynstur hans fram að því, skilmála í rammasamningi og málsatvik að öðru leyti.
    Að beiðni greiðsluþjónustuveitanda skal greiðandi leggja fram gögn og færa fram sönnur fyrir að skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. teljist uppfyllt.
    Af því er varðar b-lið 1. mgr. getur greiðandi þó ekki byggt kröfu um endurgreiðslu á gengisástæðum ef beitt var viðmiðunargengi sem hann samdi um við greiðsluþjónustuveitanda í samræmi við d-lið 1. mgr. 49. gr. og b-lið 3. tölul. 54. gr.
    Endurgreiðsla tekur til allrar greiðslunnar sem framkvæmd var. Eignfærslan á greiðslureikning greiðanda skal hafa sama gildisdag og þegar fjárhæðin var skuldfærð.
    Greiðandi hefur auk réttinda sem um getur í 1.–3. mgr. skilyrðislausan rétt á endurgreiðslu innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um í 83. gr. vegna beingreiðslna sem um getur í 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012 um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum, sem innleidd er með lögum um greiðslur yfir landamæri í evrum nr. 78/2014.
    Heimilt er að semja um það í rammasamningi um greiðsluþjónustu að greiðandi eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef hann hefur veitt samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslu beint til greiðsluþjónustuveitanda og, ef við á, greiðsluþjónustuveitandi eða viðtakandi greiðslu veitti fyrir fram upplýsingar um greiðslur eða kom þeim á framfæri við greiðanda á umsaminn hátt a.m.k. fjórum vikum fyrir gjalddaga.
    Að því er varðar beingreiðslur í íslenskum krónum er heimilt að semja um það í rammasamningi um greiðsluþjónustu að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda í samræmi við beingreiðslukerfi hans, jafnvel þótt skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 1. mgr. séu ekki uppfyllt.

83. gr.

Meðferð beiðna um endurgreiðslu vegna greiðslna sem viðtakandi setur af stað eða hefur milligöngu um.

    Greiðandi skal óska eftir endurgreiðslu skv. 82. gr. á heimilaðri greiðslu sem er sett af stað fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu innan átta vikna frá þeim degi sem fjármunir voru skuldfærðir.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal innan tíu viðskiptadaga frá móttöku beiðni skv. 1. mgr. annaðhvort endurgreiða að fullu fjárhæð greiðslunnar eða rökstyðja synjun um endurgreiðslu og tilgreina þá aðila sem greiðandi getur vísað málinu til í samræmi við 102.–104. gr. ef hann sættir sig ekki við rökstuðninginn fyrir synjuninni.
    Réttur greiðsluþjónustuveitanda skv. 2. mgr. til að synja um endurgreiðslu á ekki við um tilvik skv. 7. mgr. 82. gr.

84. gr.

Viðtaka greiðslufyrirmæla.

    Viðtökutími greiðslufyrirmæla er sá tími þegar greiðslufyrirmæli berast greiðsluþjónustuveitanda. Ekki skal skuldfæra af reikningi greiðandans fyrr en tekið hefur verið við greiðslufyrirmælum. Ef viðtökutíminn er ekki á viðskiptadegi að því er varðar greiðsluþjónustuveitanda greiðanda skal litið svo á að tekið hafi verið við greiðslufyrirmælunum næsta virka dag á eftir. Greiðsluþjónustuveitandi getur fastsett lokunartíma nálægt lokum virks dags og skulu greiðslufyrirmæli sem hann tekur við eftir það teljast vera móttekin næsta viðskiptadag á eftir.
    Ef notandi greiðsluþjónustu sem gefur greiðslufyrirmæli og greiðsluþjónustuveitandi hans semja um að greiðsla samkvæmt greiðslufyrirmælunum skuli hefjast á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag sem greiðandi hefur lagt inn fjármuni til ráðstöfunar fyrir greiðsluþjónustuveitanda hans telst viðtökutíminn í skilningi 81. gr. vera dagurinn sem samið var um. Ef dagurinn sem samið var um er ekki viðskiptadagur skal litið svo á að tekið hafi verið við greiðslufyrirmælunum næsta viðskiptadag á eftir.

85. gr.

Greiðslufyrirmælum hafnað.

    Ef greiðsluþjónustuveitandi synjar greiðslufyrirmælum eða neitar að setja af stað greiðslu skal tilkynna notanda greiðsluþjónustunnar um synjunina og, ef unnt er, ástæður fyrir henni og málsmeðferð við mögulega leiðréttingu á því sem veldur. Þetta á þó ekki við ef lög kveða á um annað.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal koma á framfæri tilkynningu skv. 1. mgr. á umsaminn hátt við fyrsta tækifæri og eigi síðar en innan þess frests sem greinir í 88. gr. Í rammasamningi um greiðsluþjónustu má kveða á um að greiðsluþjónustuveitanda sé heimilt að taka sanngjarnt gjald fyrir þess háttar synjun enda sé hún í samræmi við lög og rökstudd á hlutlægan hátt.
    Ef öll skilyrðin sem fram koma í rammasamningi greiðanda eru uppfyllt er greiðsluþjónustuveitandi sem veitir greiðanda reikningsþjónustu óheimilt að synja heimiluðum greiðslufyrirmælum án tillits til þess hvort greiðandi setur af stað greiðslufyrirmælin, þ.m.t. fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda, eða viðtakandi greiðslu setur þau af stað eða hefur um það milligöngu. Þetta á þó ekki við ef lög kveða á um annað.
    Af því er varðar 88. gr. og 93. gr. skal líta á synjun greiðslufyrirmæla eins og ekki hafi verið tekið við þeim.

86. gr.

Afturköllun greiðslufyrirmæla.

    Notandi greiðsluþjónustu getur ekki afturkallað greiðslufyrirmæli þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hefur tekið við þeim, nema 2.–5. mgr. eigi við.
    Ef greiðsluvirkjandi virkjar greiðslu eða viðtakandi setur af stað eða hefur milligöngu um greiðslu getur greiðandi ekki afturkallað greiðslufyrirmæli eftir að hann hefur veitt samþykki sitt fyrir greiðslunni.
    Þrátt fyrir 2. mgr. getur greiðandi afturkallað greiðslufyrirmæli um beingreiðslu í síðasta lagi í lok síðasta viðskiptadags fyrir umsaminn skuldfærsludag fjárins.
    Ef notandi greiðsluþjónustu sem gefur greiðslufyrirmæli og greiðsluþjónustuveitandi hans semja um að greiðsla samkvæmt greiðslufyrirmælum skuli fara fram á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag þegar greiðandi hefur lagt inn fjármuni til ráðstöfunar greiðsluþjónustuveitanda hans, sbr. 2. mgr. 84. gr., getur notandi greiðsluþjónustu í síðasta lagi afturkallað greiðslufyrirmæli við lok síðasta viðskiptadags fyrir umsaminn dag.
    Eftir tímamörkin sem tilgreind eru í 1.–4. mgr. er aðeins unnt að afturkalla greiðslufyrirmæli ef notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi hafa samið um það. Í því tilviki sem um getur í 2. og 3. mgr. skal samþykki viðtakanda greiðslu jafnframt liggja fyrir. Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðsluþjónustuveitandi krafist gjalds vegna afturköllunar greiðslufyrirmæla samkvæmt þessari málsgrein.

87. gr.

Fjárhæð greiðslu.

    Greiðsluþjónustuveitandi og milliliður hans skulu millifæra fjárhæð greiðslu óskerta. Gjöld skulu ekki dregin frá millifærðri fjárhæð.
    Viðtakandi greiðslu og greiðsluþjónustuveitandi hans geta þó samið um að gjöld greiðsluþjónustuveitandans vegna greiðsluþjónustu verði dregin frá millifærslu áður en hún er eignfærð á viðtakanda. Þegar þetta á við er greiðslan aðskilin frá gjöldunum í þeim upplýsingum sem viðtakanda greiðslu eru veittar.
    Ef einhver önnur gjöld en þau sem um getur í 2. mgr. eru dregin frá millifærslu skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda sjá til þess að viðtakandi fái alla fjárhæðina sem greiðandi millifærir. Í tilvikum þar sem viðtakandi greiðslu setur af stað eða hefur milligöngu um greiðslu skal greiðsluþjónustuveitandi hans tryggja að viðtakandinn fái óskerta fjárhæð greiðslunnar.

F. Framkvæmdartími greiðslu og gildisdagur.

88. gr.

Greiðsla inn á greiðslureikning.

    Frá viðtökutíma skv. 84. gr. skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda tryggja að greiðsla sé eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda í síðasta lagi í lok næsta viðskiptadags. Þennan frest má þó framlengja um einn viðskiptadag í tilviki greiðslu sem er á pappírsformi.
    Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda skal eftir viðtöku greiðslu setja gildisdag á greiðsluna og tryggja að fjárhæð hennar sé viðtakanda til ráðstöfunar á greiðslureikningi hans í samræmi við 91. gr., nema samningsaðilar tiltaki annan frest.
    Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda skal senda greiðsluþjónustuveitanda greiðanda greiðslufyrirmæli um greiðslur sem viðtakandi setur af stað eða hefur milligöngu um innan þess uppgjörsfrests sem viðtakandinn og greiðsluþjónustuveitandi hans hafa komið sér saman um. Þegar um ræðir beingreiðslur skulu greiðslufyrirmælin send á umsömdum gjalddaga.

89. gr.

Viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda.

    Ef viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda skal greiðsluþjónustuveitandinn sem tekur við fjármununum fyrir hönd viðtakanda hafa þá aðgengilega til ráðstöfunar fyrir hann innan þess frests sem tilgreindur er í 88. gr.

90. gr.

Reiðufé lagt inn á greiðslureikning.

    Ef notandi greiðsluþjónustu leggur reiðufé inn á greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda í gjaldmiðli greiðslureikningsins skal greiðsluþjónustuveitandinn tryggja að fjárhæðin sé til ráðstöfunar og gildisdagsett tafarlaust eftir viðtöku fjármunanna.

91. gr.

Gildisdagur og fjármunir til ráðstöfunar.

    Gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu telst vera eigi síðar en þann viðskiptadag þegar fjárhæð greiðslunnar er eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu.
    Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skal tryggja að fjárhæð greiðslunnar sé til ráðstöfunar fyrir viðtakanda þegar í stað eftir að fjárhæðin hefur verið eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu að því tilskildu að ekki eigi sér stað:
     a.      umreikningur gjaldmiðils eða
     b.      umreikningur gjaldmiðils milli evru og gjaldmiðils aðildarríkis eða milli gjaldmiðla tveggja aðildarríkja.
Sama skylda á við þrátt fyrir að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu og greiðanda sé sá sami.
    Gildisdagur skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda telst vera eigi fyrr en fjárhæð greiðslunnar er skuldfærð af greiðslureikningnum.

G. Bótaábyrgð og vinnsla persónuupplýsinga.

92. gr.

Sérstakt kennimerki er rangt.

    Ef greiðslufyrirmæli eru í samræmi við sérstakt kennimerki skulu þau teljast hafa verið rétt framkvæmd ef þau varða þann viðtakanda greiðslu sem er tilgreindur með því sérstaka kennimerki.
    Ef notandi greiðsluþjónustu gefur upp rangt sérstakt kennimerki er greiðsluþjónustuveitandi ekki ábyrgur skv. 93. gr. hafi framkvæmd greiðslu ekki átt sér stað eða verið gölluð.
    Hafi greiðsla átt sér stað skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda leitast við að endurheimta fjármunina sem greiðsla fól í sér. Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal í því skyni hafa samband við greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og óska eftir öllum viðeigandi upplýsingum vegna innheimtu fjármunanna sem hann býr yfir og ber greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu að vera samvinnuþýður. Takist greiðsluþjónustuveitanda greiðanda ekki að endurheimta fjármunina ber honum að afhenda greiðanda allar upplýsingar sem hann hefur tiltækar og skipta greiðandann máli til að hann geti haft upp réttarkröfu til að endurheimta fjármunina berist skrifleg beiðni þessa efnis frá greiðanda. Semja má um gjaldtöku vegna slíkra ráðstafana greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í rammasamningi.
    Ef notandi greiðsluþjónustu hefur veitt upplýsingar til viðbótar þeim sem hann þarf að gefa upp, sbr. a-lið 1. mgr. 49. gr. eða b-lið 2. tölul. 54. gr., verður greiðsluþjónustuveitandi aðeins bótaskyldur vegna framkvæmdar greiðslunnar í samræmi við sérstaka kennimerkið sem notandi greiðsluþjónustunnar gaf upp.

93. gr.

Bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda þegar greiðsla á sér ekki stað eða er gölluð og greiðslufyrirmæli eru gefin milliliðalaust.

    Ef greiðandi gefur greiðslufyrirmæli milliliðalaust skal greiðsluþjónustuveitandi hans, með fyrirvara um 77. gr., 2. og 3. mgr. 92. gr. og 97. gr., bera ábyrgð á því gagnvart greiðanda að greiðsla verði framkvæmd rétt. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda getur sannað fyrir greiðanda og, ef við á, greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu hafi tekið við greiðslu í samræmi við 1. mgr. 88. gr. en í því tilviki verður greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ábyrgur fyrir réttri framkvæmd greiðslunnar.
    Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann án óþarfa tafar endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, ef við á, koma greiðslureikningnum sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en gallaða greiðslan átti sér stað. Eignfærslan á greiðslureikning greiðanda skal hafa sama gildisdag og þegar fjárhæðin var skuldfærð.
    Ef greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann sjá til þess að fjárhæð greiðslunnar sé tafarlaust til ráðstöfunar fyrir viðtakandann og, ef við á, eignfæra samsvarandi fjárhæð inn á greiðslureikning viðtakanda. Eignfærslan á greiðslureikning viðtakanda greiðslu skal hafa sama gildisdag og hefði greiðslan verið rétt framkvæmd skv. 91. gr.
    Ef greiðsla er framkvæmd of seint skal greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu tryggja, að fenginni skriflegri beiðni greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, að gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu verði þann dag sem greiðslan átti sér stað hefði hún verið framkvæmd réttilega.
    Hafi greiðsla ekki farið fram eftir að greiðandi gaf greiðslufyrirmæli skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda, að beiðni greiðanda og án tillits til þess hver ber ábyrgð, gera tafarlaust ráðstafanir til að rekja greiðsluna og tilkynna greiðanda um niðurstöðuna honum að kostnaðarlausu.
    Ef viðtakandi greiðslu gefur greiðslufyrirmæli eða hefur milligöngu um það skal greiðsluþjónustuveitandi hans, með fyrirvara um 77. gr., 2. og 3. mgr. 92. gr. og 97. gr., vera ábyrgur gagnvart viðtakanda greiðslu fyrir því að greiðslufyrirmæli skili sér til greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í samræmi við 3. mgr. 88. gr. Skulu greiðslufyrirmælin send greiðsluþjónustuveitanda greiðanda tafarlaust eða, eftir atvikum, endursend tafarlaust. Hafi greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda sent greiðslufyrirmælin of seint skal hann þó sjá til þess að gildisdagur fjárhæðarinnar á greiðslureikningi viðtakanda sé sá sami og hefði greiðslan verið framkvæmd rétt. Á sama hátt er greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ábyrgur gagnvart viðtakanda greiðslu fyrir að greiðslan sé meðhöndluð skv. 91. gr. Skal fjárhæð greiðslunnar vera viðtakanda greiðslu til ráðstöfunar þegar í stað eftir að hún hefur verið eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakandans. Eignfærslan á greiðslureikning viðtakanda greiðslu skal hafa sama gildisdag og hefði greiðslan verið rétt framkvæmd.
    Ef greiðsla fer ekki fram eða er gölluð og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ber ekki ábyrgð á skv. 5. og 6. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda vera ábyrgur gagnvart greiðanda. Skal hann án óþarfa tafar endurgreiða greiðanda fjárhæðina sem um ræðir og, ef við á, koma greiðslureikningnum í þá stöðu sem hann var í áður en sem skuldfært var af honum. Eignfærslan á greiðslureikning greiðandans skal hafa sama gildisdag og skuldfærslan átti sér stað. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda færir sönnur á að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda hafi eigi að síður fengið fjárhæð greiðslunnar. Þá fellur það greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda í skaut að setja gildisdag fjárhæðarinnar á greiðslureikning viðtakanda greiðslu eigi síðar en þann dag hefði hún verið framkvæmd rétt.
    Hafi viðtakandi greiðslu gefið greiðslufyrirmæli eða haft milligöngu um það en framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð skal greiðsluþjónustuveitandi hans, að beiðni viðtakanda greiðslu og án tillits til þess hver ber ábyrgð, rekja greiðsluna og tilkynna viðtakanda um niðurstöðuna honum að kostnaðarlausu.
    Greiðsluþjónustuveitandi er ábyrgur gagnvart notanda greiðsluþjónustu fyrir gjöldum og vöxtum sem kunna að falla á notandann í kjölfar greiðslu sem fór ekki fram eða var gölluð, þ.m.t. of seinni greiðslu, sbr. 1.–8. mgr.

94. gr.

Bótaábyrgð þegar greiðandi gefur greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda og greiðsla á sér ekki stað eða er gölluð.

    Ef greiðandi gefur greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda skal greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu, með fyrirvara um 77. gr. og 2. og 3. mgr. 92. gr., endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, eftir atvikum, koma greiðslureikningi sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en skuldfært var af honum.
    Greiðsluvirkjandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu hafi tekið við greiðslufyrirmælum í samræmi við 84. gr. og, að því marki sem hlutverk greiðsluvirkjanda nær til, að greiðslan hafi verið heimiluð, rétt skráð og að tæknileg bilun eða annar ágalli hafi ekki haft þau áhrif að greiðslan hafi verið gölluð, ekki framkvæmd eða framkvæmd of seint.
    Takist greiðsluvirkjanda ekki að færa sönnur á þau atriði sem nefnd eru í 2. mgr. ber hann ábyrgð á að greiðsla hafi verið gölluð, ekki framkvæmd eða framkvæmd of seint. Greiðsluvirkjandinn skal þegar í stað, að beiðni greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, bæta þjónustuveitandanum tapið sem hann varð fyrir eða a.m.k. fjárhæðina sem hann endurgreiddi greiðanda

95. gr.

Frekari fébætur.

    Ákvarða má frekari fébætur, auk þeirra sem kveðið er á um í 92.–94. gr., í samræmi við lög og samning notanda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda hans.

96. gr.

Endurkröfuréttur.

    Ef ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda skv. 79. gr. og 93. gr. má rekja til annars greiðsluþjónustuveitanda eða milliliðar skal sá greiðsluþjónustuveitandi eða milliliður bæta allt tjón sem sá fyrrnefndi varð fyrir, eða fjárhæðir sem hann þurfti að greiða á grundvelli 79. gr. og 93. gr. Þetta á einnig við þegar einhver greiðsluþjónustuveitandi hefur ekki framfylgt kröfu um sterka sannvottun af hálfu viðskiptavina.
    Ákvarða má frekari fébætur í samræmi við lög og samninga milli greiðsluþjónustuveitenda og/eða milliliða.

97. gr.

Óeðlilegar og ófyrirsjáanlegar aðstæður.

    Bótaábyrgð skv. 64.–96. gr. gildir ekki ef rekja má tjón til óeðlilegra eða ófyrirsjáanlegra aðstæðna sem aðilar máls höfðu engin áhrif á eða gátu afstýrt þrátt fyrir tilraunir til þess. Sama gildir um tjón sem leiðir af öðrum lögum sem gilda um greiðsluþjónustuveitanda.

VI. KAFLI

Persónuvernd, öryggismál og sterk sannvottun.

98. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga.

    Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga er heimil greiðsluþjónustuveitendum og rekstraraðilum greiðslukerfa þegar það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir, rannsaka og greina greiðslusvik. Um meðferð persónuupplýsinga fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
    Greiðsluþjónustuveitendur skulu aðeins afla, vinna og viðhalda nauðsynlegum persónuupplýsingum til að geta veitt greiðsluþjónustu að fengnu skýlausu samþykki notanda þjónustunnar.

99. gr.

Eftirlitskerfi rekstrar- og öryggisáhættu.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal koma á og viðhalda:
     a.      áhættumiðuðum ferlum og eftirlitskerfi til að stýra rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem hann veitir,
     b.      skilvirkri atvikastjórnun, sem meðal annars felst í greiningu og flokkun alvarlegra rekstrar- eða öryggisfrávika,
     c.      fullnægjandi öryggisráðstöfunum til að vernda trúnað og heilleika persónubundinna öryggisskilríkja notenda greiðsluþjónustunnar í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal a.m.k. árlega veita Fjármálaeftirlitinu uppfært og ítarlegt mat á rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem hann veitir og lýsingu á þeim varúðarráðstöfunum og eftirlitsaðgerðum sem hann hefur innleitt til að bregðast við áhættunni.
    Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

100. gr.

Viðbrögð við alvarlegu rekstrar- eða öryggisfráviki.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um alvarlegt rekstrar- eða öryggisfrávik.
    Hafi rekstrar- eða öryggisfrávik áhrif eða geti haft áhrif á fjárhagslega hagsmuni notenda greiðsluþjónustunnar verður greiðsluþjónustuveitandi tafarlaust að upplýsa Fjármálaeftirlitið um atvikið og allar ráðstafanir sem hafa verið gerðar og þeir hyggjast grípa til til að draga úr skaðlegum áhrifum þess.
    Við viðtöku tilkynningar sem um getur í 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið, eftir því sem við á, gera allar ráðstafanir til að vernda öryggi fjármálakerfisins. Auk þess skal Fjármálaeftirlitið, án ástæðulausrar tafar, veita Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni og Seðlabanka Evrópu viðeigandi upplýsingar um atvikið. Fjármálaeftirlitið skal meta mikilvægi atviksins fyrir önnur viðkomandi stjórnvöld og tilkynna þeim ef þess gerist þörf.
    Fjármálaeftirlitið skal, í samstarfi við Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og Seðlabanka Evrópu, meta mikilvægi atviksins fyrir önnur viðkomandi yfirvöld innan Evrópska efnahagssvæðisins og tilkynna þeim ef þörf krefur.
    Þegar Fjármálaeftirlitið er ekki viðtakandi tilkynningar skv. 1. mgr. en fær sambærilega tilkynningu og getið er um í 4. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu, eftir því sem við á, að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda öryggi fjármálakerfisins.
    Greiðsluþjónustuveitandi skal a.m.k. árlega veita Fjármálaeftirlitinu tölfræðiupplýsingar um svik í tengslum við þá greiðslumiðla sem greiðsluþjónustuveitandinn meðhöndlar. Fjármálaeftirlitið skal veita Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni og Seðlabanka Evrópu samantekt úr gögnunum.

101. gr.

Sterk sannvottun.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal krefjast sterkrar sannvottunar hjá greiðanda þegar hann:
     a.      vill fá aðgang að greiðslureikningi sínum á netinu,
     b.      virkjar rafræna greiðslu,
     c.      framkvæmir aðgerð fyrir milligöngu boðleiðar úr fjarlægð, sem gæti haft í för með sér hættu á greiðslusvikum eða annars konar misnotkun.
    Þegar greiðandi virkjar rafræna greiðslu skv. b-lið 1. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandi krefjast sterkrar sannvottunar viðskiptavinar sem felur í sér þætti sem tengja greiðsluna með virkum hætti við tiltekna fjárhæð og tiltekinn viðtakanda greiðslu í tilviki rafrænna fjargreiðslna.
    Ákvæði 2. mgr. og c-liðar 1. mgr. 99. gr. á einnig við þegar greiðsla er virkjuð fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda. Þá eiga ákvæði 1. mgr. og c-liðar 1. mgr. 99. gr. við þegar óskað er eftir upplýsingum fyrir milligöngu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda. Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal gera greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda kleift að treysta á sannvottunarferlið sem hann veitir notanda greiðsluþjónustu í samræmi við 1. mgr. og c-lið 1. mgr. 99. gr. auk 2. mgr. 99. gr. ef greiðsluvirkjandi á í hlut.

VII. KAFLI

Eftirlit, réttarúrræði og viðurlög.

102. gr.

Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi greiðslustofnana skv. II. kafla, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu, skv. 22. gr., 23. gr., 24. gr., 25. gr. og 26. gr.
    Fjármálaeftirlitið sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hefur eftirlit með umboðsaðilum og útibúum erlendra greiðslustofnana hérlendis, sbr. 28. gr. og 31. gr. Auk þess hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með veitingu greiðsluþjónustu hérlendis í útibúum og fyrir milligöngu umboðsaðila stofnunar, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, skv. 29. gr., vegna stofnana frá þriðja ríki.
    Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

103. gr.

Úrlausn kvartana hjá greiðsluþjónustuveitanda.

    Greiðsluþjónustuveitandi skal hafa sérstaka málsmeðferð til að greiða úr kvörtunum notenda greiðsluþjónustu um réttindi og skyldur sem leiða af IV.–VII. kafla. Skal málsmeðferðin vera skilvirk. Greiðsluþjónustuveitandi skal beita sömu málsmeðferð vegna kvartana notenda greiðsluþjónustunnar í öllum aðildarríkjum þar sem hann býður fram greiðsluþjónustu. Upplýsingar um málsmeðferð kvartana skulu vera aðgengilegar notendum greiðsluþjónustunnar á tungumáli viðkomandi aðildarríkis eða á öðru tungumáli ef greiðsluþjónustuveitandi og notandi semja um slíkt.
    Seðlabanki Íslands skal setja frekari reglur um málsmeðferð kvartana sem berast greiðsluþjónustuveitanda, svo sem um svarfrest sem má að jafnaði ekki vera lengri en 15 virkir dagar, tafir við afgreiðslu kvörtunar og upplýsingagjöf.

104. gr.

Úrskurðaraðili.

    Notendur greiðsluþjónustu geta skotið ágreiningi sínum gagnvart greiðsluþjónustuveitendum og tilnefndum fulltrúum þeirra, svo sem umboðsmönnum, um réttindi og skyldur, sem leiða af IV.–VII. kafla, til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um að úrskurðaraðili sem leysir úr ágreiningi notanda greiðsluþjónustu við greiðsluþjónustuveitanda skuli hafa samvinnu við lögbundna og viðurkennda úrskurðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa með þeim samstarf um úrlausn deilumála yfir landamæri að því er varðar réttindi og skyldur sem leiða af IV.–VII. kafla.

105. gr.

Upplýsingaskylda greiðsluþjónustuveitenda og Fjármálaeftirlitsins gagnvart neytendum.

    Fjármálaeftirlitið skal útbúa rafrænan bækling framkvæmdastjórnar Evrópu þar sem upplýsingar um réttindi neytenda samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum og tengdri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu eru skýrar, auðskiljanlegar og aðgengilegar á vef Seðlabanka Íslands.
    Greiðsluþjónustuveitendur skulu sjá til þess að rafrænn bæklingur, skv. 1. mgr., sé og aðgengilegur á vef þeirra og í prentaðri útgáfu í útibúum þeirra, hjá umboðsaðilum og öðrum einingum sem þeir útvista starfsemi sinni til. Greiðsluþjónustuveitendur mega ekki innheimta gjald af viðskiptavinum sínum fyrir að veita upplýsingarnar.
    Upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. skulu vera aðgengilegar fötluðum einstaklingum.

106. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      4. mgr. 4. gr. um að breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. 4. gr. skuli tilkynna án tafar til Fjármálaeftirlitsins.
     2.      1. og 2. mgr. 5. gr. um virkan eignarhlut.
     3.      1. mgr. 6. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis.
     4.      7. gr. um stofnframlag.
     5.      8. og 9. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eiginfjárgrunns greiðslustofnunar.
     6.      19. gr. um góða viðskiptahætti og þagnarskyldu.
     7.      10. gr. um varðveislu fjármuna.
     8.      6. mgr. 16. gr. um aðra starfsemi.
     9.      11. gr. um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.
     10.      15. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
     11.      1. og 3.–5. mgr. 17. gr. um veitingu greiðsluþjónustu í gegnum umboðsaðila eða með stofnun útibús.
     12.      1.–3. mgr. og 5. mgr. 18. gr. um útvistun rekstrarþátta og greiðsluþjónustu.
     13.      1. mgr. 23. gr. um starfsemi greiðslustofnana erlendis án stofnunar útibús eða umboðsaðila.
     14.      1. mgr. og 5.–7. mgr. 24. gr. um starfsemi greiðslustofnana erlendis með stofnun útibús.
     15.      1. mgr. og 5.–7. mgr. 25. gr. um veitingu þjónustu erlendis í gegnum umboðsaðila.
     16.      1. mgr. 26. gr. um starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     17.      1. mgr. 29. gr. um stofnun útibús eða þjónustu veitta fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis af hálfu stofnunar utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     18.      2. mgr. 20. gr. um skyldu til að tryggja að þriðji aðili, sem falið hefur verið að annast tiltekna rekstrarþætti, geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.
     19.      21. gr. um varðveislu gagna.
     20.      34. gr. um greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.
     21.      36. gr. um þátttöku í greiðslukerfum.
     22.      37. gr. um aðgang að reikningum hjá lánastofnun.
     23.      1. mgr. 38. gr. um einkarétt til að veita greiðsluþjónustu hér á landi.
     24.      2. mgr. 38. gr. um skyldu til að senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um heildarfjárhæð greiðslna vegna greiðslumiðla með takmörkuð afnot.
     25.      1. og 5. mgr. 62. gr., um gjaldtöku.
     26.      45. gr. um gjaldmiðil og umreikning gjaldmiðils.
     27.      1. og 2. mgr. 46. gr. um upplýsingar um viðbótargjald eða afslátt.
     28.      1.–4. mgr. 48. gr. um upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
     29.      49. gr. um upplýsingar og skilmála um þjónustu í tengslum við stakar greiðslur.
     30.      50. gr. um upplýsingaskyldu greiðsluvirkjanda eftir að gefin hafa verið greiðslufyrirmæli.
     31.      51. gr. um upplýsingagjöf gagnvart greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla um staka greiðslu.
     32.      52. gr. um upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda greiðslu eftir framkvæmd stakrar greiðslu.
     33.      1.–3. mgr. 53. gr. um almenna upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamning verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
     34.      54. gr. um upplýsingar og skilmála um þjónustu í tengslum við greiðslur sem falla undir rammasamninga.
     35.      55. gr. um aðgengilegar upplýsingar og skilmála rammasamnings.
     36.      56. gr. um breytingar á skilmálum rammasamnings.
     37.      57. gr. um uppsögn rammasamnings.
     38.      58. gr. um upplýsingagjöf áður en kemur til framkvæmdar einstakra greiðslna sem falla undir rammasamning.
     39.      59. gr. um upplýsingagjöf gagnvart greiðanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
     40.      60. gr. um upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
     41.      62. gr. um gjaldtöku.
     42.      1., 3. og 4. mgr. 65. gr. um staðfestingu á aðgengileika fjármagns.
     43.      2. mgr. 66. gr. um rétt greiðanda til að nýta sér greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu.
     44.      67. gr. um skyldur greiðsluvirkjanda vegna veitingar greiðsluþjónustu.
     45.      68. gr. um meðhöndlun upplýsinga og gagna sem greiðsluvirkjandi aflar.
     46.      69. gr. um skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu.
     47.      70. gr. um skyldur reikningsupplýsingaþjónustuveitanda.
     48.      71. gr. um meðhöndlun gagna sem reikningsupplýsingaþjónustuveitandi aflar.
     49.      72. gr. um skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu vegna öruggra samskipta og afgreiðslu beiðna um gögn.
     50.      2.–4. mgr. 73. gr. um hvenær greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu getur synjað um upplýsingar um og aðgang að greiðslureikningi.
     51.      3.–4. mgr. 74. gr. um takmarkanir á notkun greiðslumiðils.
     52.      2. mgr. 81. gr. um heimildir greiðsluþjónustuveitanda til að frysta fjármuni á greiðslureikningi þegar fjárhæð greiðslu er ekki þekkt fyrir fram.
     53.      1.–3. mgr. 85. gr. um synjun um framkvæmd greiðslufyrirmæla.
     54.      3.–4. mgr. 86. gr. um afturköllun greiðslufyrirmæla.
     55.      87. gr. um fjárhæð greiðslu.
     56.      88.–91. gr. um framkvæmdartíma greiðslu og gildisdag.
     57.      93. gr. um bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda þegar framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð og greiðslufyrirmæli eru gefin milliliðalaust.
     58.      1. og 2. mgr. 99. gr. um eftirlitskerfi rekstrar- og öryggisáhættu.
     59.      1. og 2. mgr. 100. gr. um viðbrögð við alvarlegum rekstrar- eða öryggisfrávikum.
     60.      101. gr. um sterka sannvottun.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 65 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
    Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t.:
     a.      alvarleika brots,
     b.      hvað brotið hefur staðið yfir lengi,
     c.      ábyrgðar hins brotlega,
     d.      fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af heildarársveltu lögaðila eða árstekjum einstaklings,
     e.      ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
     f.      hvort brot hafi leitt til taps fyrir þriðja aðila,
     g.      hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
     h.      samstarfsvilja hins brotlega,
     i.      fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða,
     j.      ráðstafana sem hinn brotlegi grípur til til að koma í veg fyrir endurtekið brot.
    Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að ákvarða lögaðila eða einstaklingi stjórnvaldssekt sem nemur allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur af brotinu nemur eða tapi sem er forðað með broti.
    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.


107. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglna eða reglugerða, sem settar eru á grundvelli þeirra, eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggi við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
    Seðlabanki Íslands setur reglur um framkvæmd greinarinnar.

108. gr.

Réttur grunaðs manns og saknæmi.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
    Stjórnsýsluviðurlögum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

109. gr.

Frestur til að leggja á stjórnsýsluviðurlög.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnsýsluviðurlög samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að brotinu.

110. gr.

Sektir eða fangelsi.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
     1.      1. mgr. 6. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis.
     2.      8. og 9. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eiginfjárgrunns greiðslustofnunar.
     3.      2. mgr. 19. gr. um þagnarskyldu.
     4.      15. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
     5.      1. mgr. 38. gr. um einkarétt til að veita greiðsluþjónustu.
    Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi greiðsluþjónustuveitanda eða annað er hann varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða notenda greiðsluþjónustu.
    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

111. gr.

Kæra til lögreglu.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum og ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

112. gr.

Opinber birting stjórnsýsluviðurlaga.

    Fjármálaeftirlitið skal án tafar birta á vefsíðu sinni sérhverja niðurstöðu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara í kjölfar tilkynningar til hins brotlega um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaða sem er birt skal að lágmarki innihalda upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega.
    Telji Fjármálaeftirlitið að opinber birting á nafni hins brotlega, annarra lögaðila eða einstaklinga sem koma fram í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins samræmist ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða að birting geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn getur Fjármálaeftirlitið:
     a.      frestað birtingu niðurstöðunnar þar til ástæður fyrir að birta hana ekki eru ekki lengur fyrir hendi, eða
     b.      birt niðurstöðu án þess að nafngreina hinn brotlega eða aðra lögaðila eða einstaklinga sem getið er í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að birta ekki niðurstöðu ef eftirlitið telur að birting skv. 2. mgr. geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn.
    Í tilviki nafnlausrar birtingar niðurstöðu skv. b-lið 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta nafn viðkomandi þegar ástæður fyrir nafnleynd eiga ekki lengur við.
    Fjármálaeftirlitið skal birta upplýsingar á vefsíðu sinni ef höfðað er mál fyrir dómstólum til ógildingar ákvörðun þess um beitingu viðurlaga vegna brota. Fjármálaeftirlitið skal enn fremur birta upplýsingar um lyktir málsins á hverju dómstigi. Afturkalli Fjármálaeftirlitið ákvörðun sína um beitingu viðurlaga skal stofnunin upplýsa um það á vefsíðu sinni.
    Niðurstöður um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara skulu birtar á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins í að lágmarki fimm ár. Persónuupplýsingar sem koma fram í niðurstöðunum skulu ekki vera birtar lengur en málefnalegar ástæður leyfa í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Fjármálaeftirlitið skal birta á vefsíðu sinni þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar samkvæmt þessari grein.

VIII. KAFLI

Gildistaka, stjórnvaldsfyrirmæli, breyting á öðrum lögum o.fl.

113. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 frá 25. nóvember 2015 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 2002/65/EB, 2009/110/EB og 2013/36/ESB og á reglugerð (ESB) nr. 1093/2010 og niðurfellingu á tilskipun 2007/64/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.

114. gr.

Reglugerðar- og regluheimildir.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366, þar á meðal um:
     1.      Tæknilegar kröfur um þróun, rekstur og viðhald á rafrænu miðlægu skránni, sbr. 14. gr., og um aðgengi að upplýsingum sem er að finna í henni. Tæknilegu kröfurnar skulu tryggja að aðeins Fjármálaeftirlitið og Evrópska bankaeftirlitsstofnunin geti breytt upplýsingunum.
     2.      Upplýsingaskipti og samvinnu milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í heima- og gistiaðildarríki vegna greiðslustofnana sem starfa yfir landamæri.
    Seðlabanki Íslands skal setja nánari reglur um sterka sannvottun, sbr. 97. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366.
    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um er snúa að tilnefningu miðlægs tengiliðar og hlutverki hans skv. 5. mgr. 29. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366.


115. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2021. Falla þá jafnframt úr gildi lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

116. gr.

Lagaskil.

    Greiðslustofnun sem hefur hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, skal fyrir 1. september 2021 leggja fram viðeigandi upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins svo að það geti metið hvort greiðslustofnunin uppfylli þær kröfur sem mælt er fyrir um í II. og III. kafla. Ef þau skilyrði eru ekki uppfyllt ber Fjármálaeftirlitinu að greina greiðslustofnuninni frá því hvort það ætli að afturkalla starfsleyfið eða til hvaða ráðstafana greiðslustofnunin verði að grípa til að tryggja að hún fari að ákvæðum þessara laga.
    Fjármálaeftirlitið skal veita greiðslustofnun sem uppfyllir kröfur II. og III. kafla sjálfkrafa starfsleyfi og færa hana í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr.
    Ef greiðslustofnun uppfyllir ekki kröfur II. og III. kafla fyrir 1. desember 2021, eftir að hafa verið veittur tími til að grípa til viðeigandi ráðstafana skv. 1. mgr., skal Fjármálaeftirlitið banna henni að veita greiðsluþjónustu í samræmi við 1. mgr. 38. gr.
    Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi skv. 27. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, skal eigi síðar en 1. janúar 2022 hafa sótt um áframhaldandi takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi sem greiðslustofnun hjá Fjármálaeftirlitinu. Ef greiðslustofnunin uppfyllir ekki kröfur II. og III. kafla eða undanþágu skv. 34. gr. fyrir 1. janúar 2022 skal Fjármálaeftirlitið banna henni að veita greiðsluþjónustu.
    Þjónustuveitandi sem hefur fyrir gildistöku laga þessara boðið þjónustu sem lýst er í 14. tölul. 2. gr. og mun gera það áfram skal eigi síðar en 1. október 2021 senda Fjármálaeftirlitinu þær upplýsingar sem áskilið er í a- og b-lið 1. mgr. 39. gr.
    Rafeyrisfyrirtæki sem hefur hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um útgáfu og meðferð rafeyris skal fyrir 1. september 2021 senda viðeigandi upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins svo að það geti metið hvort rafeyrisfyrirtækið uppfylli þær kröfur sem mælt er fyrir um í III. kafla þeirra laga. Ef þau skilyrði eru ekki uppfyllt ber Fjármálaeftirlitinu að greina rafeyrisfyrirtækinu frá því hvort það ætli að afturkalla starfsleyfið eða til hvaða ráðstafana rafeyrisfyrirtækið verði að grípa til að tryggja að það fari að ákvæðum þeirra laga.
    Fjármálaeftirlitið skal veita rafeyrisfyrirtæki sem uppfyllir kröfur III. kafla laga um útgáfu og meðferð rafeyris sjálfkrafa starfsleyfi og færa það í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki.
    Ef rafeyrisfyrirtæki uppfyllir ekki kröfur III. kafla laga um útgáfu og meðferð rafeyris fyrir 1. desember 2021, eftir að hafa verið veittur tími til að grípa til viðeigandi ráðstafana, skal Fjármálaeftirlitið banna því að veita þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris.

117. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013:
                  a.      Laganúmerið „nr. 120/2011“ í 2. og 7. tölul. 4. gr. laganna fellur brott.
                  b.      9. gr. laganna orðast svo:
                     Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. eða 16. gr. laga þessara skal vera lögaðili, hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi og framkvæma a.m.k. hluta af rafeyrisþjónustu sinni hérlendis.
                  c.      Í stað „12. gr.“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: 9. gr.
                  d.      17. gr. laganna orðast svo:
                     Fjármálaeftirlitið heldur opinbera skrá yfir rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um rafeyrisfyrirtæki, svo sem um starfsheimildir, afturköllun starfsheimilda og, ef við á, um umboðsaðila og útibú. Færa skal útibú erlends rafeyrisfyrirtækis hér á landi í skrá aðildarríkis. Auk þess skal tilgreina, og aðgreina frá aðilum 2. málslið, þá einstaklinga og lögaðila sem njóta undanþágu skv. 16. gr. og, ef við á, umboðsaðila þeirra.
                     Almenningur skal hafa aðgang að skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 1. mgr. á vef Seðlabanka Íslands og skal hún uppfærð þegar í stað ef breytingar verða.
                     Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni um þær upplýsingar sem það færir í skrána yfir rafeyrisfyrirtæki. Fjármálaeftirlitið er ábyrgt gagnvart Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni fyrir því að upplýsingar í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki séu réttar.
                  e.      18. gr. laganna orðast svo:
                     Umsókn um starfsleyfi skal berast Fjármálaeftirlitinu. Hún skal vera skrifleg og ítarleg til að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að ganga úr skugga um að skilyrði 9. gr., 11. gr. og 12. gr., 20. gr., 23. gr., 24. gr., 26. gr., og 38.–40. gr. séu uppfyllt. Eftirfarandi skal koma fram í umsókn:
                      1.      Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi sé lögaðili og að höfuðstöðvar og a.m.k. hluti af starfsemi rafeyrisfyrirtækis fari fram hér á landi, sbr. 9. gr.
                      2.      Lýsing á núverandi og fyrirhugaðri þjónustu umsækjanda vegna rafeyris og hvort umsækjandi ætli að vera í annarri starfsemi, sbr. 24. gr.
                      3.      Viðskipta- og rekstraráætlun fyrir a.m.k. þrjú fyrstu rekstrarárin, sem sýnir fram á að umsækjandinn geti staðið fyrir ábyrgum rekstri, ásamt síðasta endurskoðaða ársreikningi, ef honum er til að dreifa.
                      4.      Upplýsingar um starfsskipulag umsækjanda, þ.m.t. hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu, opna útibú eða nota umboðsmenn í starfsemi félagsins, sbr. 36. og 37. gr., hvort um útvistun sé að ræða, sbr. 38. gr. eða hvort um verði að ræða þátttöku í innlendu eða alþjóðlegu greiðslukerfi.
                      5.      Upplýsingar um hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila, sbr. 29.–35. gr.
                      6.      Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi hafi yfir að ráða því stofnfé sem krafist er skv. 11 gr.
                      7.      Upplýsingar sem gera unnt að meta hvort stjórnarmenn og stjórnendur uppfylli kröfur um hæfi skv. 26. gr.
                      8.      Upplýsingar um þá einstaklinga sem eiga hlutdeild í umsækjanda, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild í umsækjanda í skilningi VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, stærð eignarhlutdeildar þeirra og gögn um hæfni þeirra með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórn rafeyrisfyrirtækis.
                      9.      Upplýsingar um hvernig varðveislu fjármuna verði háttað í samræmi við 25. gr.
                      10.      Lýsing á verkferli sem fylgja skal til að hafa eftirlit með, meðhöndla og fylgja eftir rekstrar- eða öryggisfrávikum og kvörtunum viðskiptavina að því er varðar öryggisatriði.
                      11.      Lýsing á stjórnunarfyrirkomulagi og innra skipulagi umsækjanda, þ.m.t. innri eftirlitsferlum, aðferðum við stjórnun, áhættustýringu og reikningsskilum, sem sýnir að stjórnarhættir, eftirlitskerfi og verkferlar séu viðeigandi miðað við umfang starfseminnar og traustir og fullnægjandi.
                      12.      Lýsing á eftirlitskerfi sem verður komið á fót til að fara að kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að því er varðar umsækjanda sem fellur undir lögin.
                      13.      Lýsing á hvernig skilyrði 40. gr. um varðveislu gagna verði uppfyllt.
                      14.      Lýsing á fyrirkomulagi rekstrarsamfellu þar sem mikilvæg starfsemi er skýrt tilgreind, skilvirkri viðbragðsáætlun og ferli til að kanna reglulega og endurskoða hversu fullnægjandi og skilvirkar áætlanirnar eru.
                      15.      Lýsing á meginreglum og skilgreiningum sem beitt er við söfnun á tölfræðilegum gögnum um árangur, færslur og svik.
                      16.      Öryggisstefna og lýsing á öryggiskerfi umsækjanda sem skal fela í sér ítarlegt áhættumat í tengslum við þjónustu vegna útgáfu eða meðferðar rafeyris, lýsingu á eftirlitsaðgerðum sem gripið er til í því skyni að vernda handhafa rafeyris með fullnægjandi hætti fyrir tilgreindri áhættu, svo sem svikum og ólöglegri notkun viðkvæmra gagna og persónuupplýsinga. Sérstaklega skal tilgreina hvernig eftirlitsaðgerðir tryggja öflugt tæknilegt öryggi og persónuvernd, þ.m.t. fyrir hugbúnað- og upplýsingatæknikerfi sem umsækjandinn eða útvistunaraðili, sem starfseminni er að öllu leyti eða hluta útvistað til, notar.
                      17.      Upplýsingar um löggilta endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki, sbr. 27. gr.
                     Upplýsingar sem getið er um í 5. tölul. og 11.–13. tölul. 1. mgr. skulu jafnframt fela í sér lýsingu á því fyrirkomulagi sem umsækjandinn hefur innleitt til að gera allar þær ráðstafanir sem raunhæfar teljast til að vernda hagsmuni handhafa rafeyris og tryggja samfellu og áreiðanleika við framkvæmd þjónustunnar.
                     Fjármálaeftirlitið er heimilt að setja reglur um þær upplýsingar sem koma verða fram í umsókn og nauðsynleg fylgigögn til þess að umsóknin teljist fullnægjandi.
                     Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 20. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.
                  f.      20. gr. laganna orðast svo:
                     Starfsleyfi skal veitt ef umsækjandi uppfyllir að mati Fjármálaeftirlitsins, í umsókn sinni og meðfylgjandi gögnum, skilyrði 18. gr. og sýnir fram á að skipulag í fyrirhuguðum rekstri vegna útgáfu og meðferðar rafeyris sé skýrt, fullnægjandi verklagsreglur séu fyrir hendi er þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um efni 1. málsl. Um efni reglnanna er rétt að hafa til hliðsjónar ákvæði 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á.
                     Þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar þjónustu sem fyrirhugað er að veita og verður umsækjandi að uppfylla þær á hverjum tíma með því að aðlaga skipulag, verklagsreglur og annað skv. 1. mgr. í samræmi við umfang rekstrar.
                     Við mat á umsókn um starfsleyfi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar annarra viðeigandi opinberra stjórnvalda.
                     Fjármálaeftirlitið getur gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris ef rafeyrisfyrirtæki sinnir annarri starfsemi samhliða og sá hluti rekstrarins hefur áhrif á fjárhagslegan styrk rafeyrisfyrirtækisins eða torveldar eftirlit með því.
                     Fjármálaeftirlitið skal synja um veitingu starfsleyfis ef það telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar rafeyrisfyrirtækis.
                     Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl rafeyrisfyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit Fjármálaeftirlitsins með starfseminni. Hið sama á við ef lög eða reglur sem gilda um slíka tengda aðila hindra eftirlit. Með nánum tengslum er í lögum þessum átt við náin tengsl í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Enn fremur skal starfsleyfi ekki veitt ef lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja lands, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, sem rafeyrisfyrirtækið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
                  g.      21. gr. laganna orðast svo:
                     Fullnægi umsókn um starfsleyfi skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins veitir það starfsleyfi. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið synja um starfsleyfi með rökstuðningi. Starfsleyfið gildir í öllum aðildarríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerir hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki kleift að veita þjónustu sem fellur undir starfsleyfið alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu að fullnægðum skilyrðum 29.–31. gr.
                     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn barst.
                  h.      Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
                      1.      Á eftir orðinu „leyfisveitingu“ í c-lið 1. mgr. kemur: eða upplýsir Fjármálaeftirlitið ekki um umfangsmikla þróun starfseminnar.
                      2.      Við d-lið 1. mgr. bætist: eða trausti á því,
                      3.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                             Fjármálaeftirlitið skal enn fremur uppfæra skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. í 17. gr. og birta þar opinberlega afturköllun á starfsleyfi.
                  i.      Eftirfarandi breytingar verða á b-lið 1. mgr. 24. gr. laganna:
                      1.      Í stað „4., 5. og 7. tölul. 4. gr.“ kemur: d- og e-lið 22. tölul. 3. gr. og 14. tölul. 2. gr.
                      2.      Í stað „5. mgr. 19. gr.“ kemur: 4. mgr. 16. gr.
                  j.      Í stað „29. tölul. 8. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr. 25. gr. laganna kemur: 49. tölul. 3. gr.
                  k.      27. gr. laganna orðast svo:
                     Reikningsár rafeyrisfyrirtækis er almanaksárið. Rafeyrisfyrirtæki skal leggja fram aðskilin reikningsskil fyrir annars vegar þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris og hins vegar fyrir aðra starfsemi sem hún hefur heimild til að stunda skv. 1. mgr. 24. gr.
                     Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, eða eftir atvikum laga um ársreikninga, gilda að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda rafeyrisfyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins.
                     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um ársreikninga rafeyrisfyrirtækja.
                  l.      28. gr. laganna orðast svo:
                     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta vegna útgáfu og meðferðar rafeyris, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
                     Fjármálaeftirlitið hefur m.a. heimild til að:
                     a.    krefjast þess að rafeyrisfyrirtæki leggi fram allar upplýsingar sem þörf er á til að unnt sé að hafa eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt. Skal Fjármálaeftirlitið tilgreina tilganginn að baki beiðninni og gefa tiltekinn skilafrest,
                    b.    framkvæma skoðun á starfsstöð rafeyrisfyrirtækis, umboðsaðila eða útibúi þar sem veitt er þjónusta sem rafeyrisfyrirtæki ber ábyrgð á eða þar sem útvistunaraðili er til húsa,
                    c.    gefa út fyrirmæli, leiðbeiningar og bindandi stjórnsýslufyrirmæli,
                    d.    stöðva tímabundið eða afturkalla starfsleyfi skv. 20. gr.,
                    e.    beita heimildum sem því eru fengnar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
                     Fjármálaeftirlitið skal fyrst og fremst grípa til ráðstafana sem lýst er í 2. mgr. til að tryggja nægilegt eigið fé rafeyrisfyrirtækis til þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris, einkum ef sú starfsemi rafeyrisfyrirtækis sem ekki er útgáfa eða meðferð rafeyris rýrir eða er líkleg til að rýra trausta fjárhagsstöðu þess.
                  m.      Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
                      1.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin.
                      2.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggst útvista rekstrarþætti þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris til þriðja aðila í því aðildarríki sem í hlut á.
                      3.      2. mgr. orðast svo:
                             Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlits er jákvæð skal samhliða færa upplýsingarnar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr.
                      4.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Starfsemi rafeyrisfyrirtækja erlendis án stofnunar útibús.
                  n.      30. gr. laganna orðist svo, ásamt fyrirsögn:

Starfsemi rafeyrisfyrirtækja erlendis með stofnun útibús.

                     Hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki með stofnun útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða aðildarríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin, heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins, í hvaða ríkjum útibúið hyggst veita þjónustu og skipulag þess, þ.m.t. lýsing á innra eftirlitskerfi, verkferlum, áhættustýringu, reikningsskilum og viðskiptaáætlun fyrir fyrstu þrjú fjárhagsárin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggist útvista rekstrarþætti þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins.
                     Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingarnar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Útibúið getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
                     Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst stofna útibú um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um útibúið í skrá skv. 17. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
                     Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
                     Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem það hefur starfsemi sína fyrir milligöngu útibúsins.
                     Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarútibú eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð sem fram kemur í 3. og 4. mgr.
                     Rafeyrisfyrirtæki skal sjá til þess að útibú sem veitir þjónustu fyrir þess hönd upplýsi notendur um það.
                  o.      31. gr. laganna orðast svo:
                     Rafeyrisfyrirtæki sem óskar eftir því að dreifa rafeyri í öðru aðildarríki, fyrir milligöngu umboðsaðila, skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi er fólgin. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans, sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir uppfylli hæfiskröfur 3. mgr. 14. gr. ef umboðsaðilinn er ekki rafeyrisfyrirtæki, upplýsingar um þjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa. Að endingu skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggst útvista rekstrarþætti þjónustunnar til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis ásamt beiðni um umsögn.
                     Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingar um rafeyrisfyrirtækið í skrá skv. 17. gr. Umboðsaðilinn getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
                     Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst dreifa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að tilnefning umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um umboðsaðilann í skrá skv. 17. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
                     Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu í mati sínu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
                     Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem hún hefur starfsemi sína fyrir milligöngu umboðsaðila.
                     Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarumboðsaðila eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð sem fram kemur í 3. og 4. mgr.
                     Rafeyrisfyrirtæki ber ábyrgð á því að umboðsaðili upplýsi notendur þjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis.
                     Rafeyrisfyrirtæki sem dreifir rafeyri á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilnefna miðlægan tengilið til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur m.a. samband við miðlægan tengilið til að fá upplýsingar og skýrslu til að sinna eftirliti samkvæmt þessum lögum.
                  p.      33. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þjónusta rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis án stofnunar útibús.

                     Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús.
                     Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu hér á landi eftir að tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 29. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan mánaðar.
                  q.      34. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þjónusta rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis með stofnun útibús.

                     Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi með stofnun útibús.
                     Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skv. 1. mgr. er heimilt að veita þjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 30. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan mánaðar.
                     Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibús geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis um það. Ákveði lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi af slíkri tilkynningu er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita þjónustu hér á landi frá þeim tíma.
                     Ef lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki taka ekki tillit til athugasemda Fjármálaeftirlitsins og veita rafeyrisfyrirtæki heimild til að stofna útibú eða veita þjónustu á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila getur Fjármálaeftirlitið borið þá ákvörðun undir evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
                     Útibú sem veitir þjónustu fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis skal upplýsa notendur þjónustu um það.
                     Ákvæði laga um hlutafélög varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.
                  r.      35. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Opnun útibús eða dreifing rafeyris fyrir milligöngu umboðsaðila af hálfu rafeyrisfyrirtækis utan Evrópska efnahagssvæðisins.

                     Fjármálaeftirlitið getur heimilað fyrirtæki, sem gefur út rafeyri, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu innlends umboðsaðila hér á landi. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda hliðstæða starfsemi í heimaríki sínu, að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu og að gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í því ríki. Til að útibú geti hafið starfsemi hér á landi skal heimaríki fyrirtækisins undirrita samning við íslensk stjórnvöld, sem fer að öllu leyti að stöðlum skv. 26. gr. skattasamningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar um tekjur og fjármagn og tryggir skilvirk upplýsingaskipti um skattamál, þ.m.t. hvers konar marghliða samninga um skattamál, ef við á.
                     Fjármálaeftirlitið skal innan sex mánaða frá því að fyrirtæki lagði fram fullnægjandi umsókn tilkynna ákvörðun sína um veitingu eða synjun umsóknar um að starfrækja útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila hér á landi.
                  s.      Á eftir 35. gr. koma tvær nýjar greinar, 35. gr. a og 35. gr. b, ásamt fyrirsögn svohljóðandi:
                     a. (35. gr. a.)

Eftirlit gistiaðildarríkis með rafeyrisfyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu yfir landamæri með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.

                     Fjármálaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki um framkvæmd eftirlits með lögum þessum vegna starfsemi umboðsaðila og útibúa rafeyrisfyrirtækis sem eru staðsett í gistiaðildarríki. Skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þegar það hyggst framkvæma skoðun á starfstöð umboðsaðila eða útibúi í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fela lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki framkvæmd skoðunar á starfsstöð umboðsaðila eða í útibúi sem staðsett er í því ríki.
                     Komist lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki að raun um að rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu, sem hefur umboðsaðila eða útibú á yfirráðasvæði þeirra, fari ekki að reglum, tekur Fjármálaeftirlitið á móti upplýsingum um það. Fjármálaeftirlitið skal, eftir að hafa lagt mat á upplýsingarnar sem það fær samkvæmt þessari grein, án ótilhlýðilegrar tafar, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki fari að settum reglum. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt tilkynna lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu og lögbærum yfirvöldum í öðrum hlutaðeigandi gistiaðildarríkjum tafarlaust um þessar ráðstafanir.
                     Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki eða að eigin frumkvæði veita þeim viðeigandi upplýsingar, einkum þegar um er að ræða brot eða grun um brot umboðsaðila eða útibús og hvort rafeyrisfyrirtæki uppfylli skilyrði 9. gr.
                     b. (35. gr. b.)

Eftirlit með rafeyrisfyrirtækjum með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu hérlendis með stofnun útibús eða í gegnum umboðsaðila.

                     Ef Fjármálaeftirlitið kemst að raun um að rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú hérlendis fer ekki að ákvæðum III. kafla skal það upplýsa lögbært yfirvald í heimaaðildarríki um það án tafar.
                     Fjármálaeftirlitið getur gripið til tafarlausra aðgerða reynist það nauðsynlegt í ljósi neyðarástands vegna alvarlegrar ógnar gegn sameiginlegum hagsmunum handhafa rafeyris hérlendis eða gert varúðarráðstafanir samhliða samstarfi við lögbær yfirvöld í aðildarríki rafeyrisfyrirtækis og fram að ráðstöfunum þeirra yfirvalda. Hér skiptir ekki máli hvort neyðarástandið skapast vegna útibús hérlendis, umboðsaðila hérlendis eða vegna þjónustu rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi frá Evrópska efnahagssvæðinu. Varúðarráðstafanirnar skulu vera viðeigandi og í réttu hlutfalli við þann tilgang þeirra að verjast alvarlegri ógn gegn sameiginlegum hagsmunum handhafa rafeyris hérlendis. Þær mega ekki leiða til þess að handhafar rafeyris hér á landi fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú erlends rafeyrisfyrirtækis njóti betri meðferðar en handhafar rafeyris í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess skulu varúðarráðstafanirnar vera tímabundnar og þeim hætt þegar tekið hefur verið á þeirri alvarlegu ógn sem greind er, þ.m.t. með hjálp eða í samvinnu við lögbær yfirvöld í aðildarríki rafeyrisfyrirtækis sem í hlut á eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010.
                     Fjármálaeftirlitið skal, ef við á, upplýsa lögbær yfirvöld í aðildarríkjum sem í hlut eiga, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina fyrir fram og án ástæðulausrar tafar um varúðarráðstafanirnar sem gripið er til skv. 2. mgr. og rökstyðja þær.
                     Telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rafeyrisfyrirtækis sýni athafnaleysi með því að grípa ekki til þeirra ráðstafana sem það hafi viðurkennt að nauðsynlegt sé að grípa til, hafni samstarfi og/eða láti undir höfuð leggjast að bregðast við neyðarástandi eða viðurkenni ekki að fyrir hendi sé neyðarástand getur Fjármálaeftirlitið leitað aðstoðar Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar vegna þeirrar afstöðu og leitað lausnar þess ágreinings. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
                  t.      36. gr. laganna orðast svo:
                     Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst dreifa eða innleysa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir séu hæfir að mati Fjármálaeftirlitsins ef umboðsaðilinn er ekki rafeyrisfyrirtæki, upplýsingar um þá þjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni hans, sé því til að dreifa.
                     Fjármálaeftirlitið skráir rafeyrisfyrirtæki í skrá skv. 17. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr. innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna og sendir samhliða rafeyrisfyrirtæki upplýsingar um það. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki ef það er mat þess að ósannað teljist að upplýsingar skv. 1. mgr. séu réttar. Ef Fjármálaeftirlitið metur upplýsingarnar ófullnægjandi eða rangar er því heimilt að hafna skráningu. Synji Fjármálaeftirlitið um skráningu eða hafni skráningu skal rafeyrisfyrirtækið upplýst um það án tafar og er því óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila til að dreifa og innleysa rafeyri frá þeim tíma.
                     Rafeyrisfyrirtæki er heimilt að dreifa rafeyri og innleysa hann í gegnum umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd þess eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 17. gr. Útgáfa rafeyris í gegnum umboðsaðila er óheimil.
                     Rafeyrisfyrirtæki skal sjá til þess að umboðsaðilar sem dreifa eða innleysa rafeyri fyrir þess hönd upplýsi handhafa rafeyris um það.
                     Rafeyrisfyrirtæki skal án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á umboðsmönnum, þ.m.t. viðbótarumboðsmönnum, og skal við það fylgt málsmeðferð skv. 2.–4. mgr.
                     Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því dreifa rafeyri í öðru aðildarríki í gegnum umboðsaðila fer um slíkt skv. 31. gr.
                  u.      Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
                      1.      Í stað „23. gr. g“ í 1. mgr. kemur: 17. gr.
                      2.      Í stað „23. gr. b“ í 2. mgr. kemur: 25. gr.
                  v.      38. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Útvistun rekstrarþátta.

                     Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst útvista rekstrarþætti í starfsemi sinni skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um það.
                     Útvistun mikilvægra rekstrarþátta, þ.m.t. útvistun upplýsingakerfa, er óheimil ef hún dregur umtalsvert úr gæðum innra eftirlits rafeyrisfyrirtækis og torveldar eftirlit með framkvæmd laga þessara. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu rafeyrisfyrirtækis til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi þess eða skyldur samkvæmt lögunum, fjárhagslega afkomu rafeyrisfyrirtækis eða traustleika eða samfelldni þjónustunnar sem um ræðir.
                     Þegar rafeyrisfyrirtæki útvistar mikilvægum rekstrarþætti verður það að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                      1.      Útvistunin má ekki leiða til þess að ábyrgð stjórnenda verði framseld til útvistunaraðila.
                      2.      Skyldur og samband rafeyrisfyrirtækis gagnvart handhöfum rafeyris samkvæmt lögum þessum breytist ekki.
                      3.      Rafeyrisfyrirtæki uppfyllir eftir sem áður skilyrðin sem eru forsendan fyrir starfsleyfi þess.
                      4.      Hvorki skal breyta né fella brott einhver þeirra skilyrða sem liggja til grundvallar starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis.
                     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um útvistun mikilvægra rekstrarþátta rafeyrisfyrirtækis.
                  w.      Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
                      1.      2. mgr. orðast svo:
                             Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta þjónustunnar, skv. 28.–32. gr., nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
                      2.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                             Fjármálaeftirlitið sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hefur eftirlit með umboðsaðilum og útibúum erlendra rafeyrisfyrirtækja hér á landi, sbr. 28. gr. og 34. gr. Auk þess hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með veitingu þjónustu í útibúum hérlendis og fyrir milligöngu innlends umboðsaðila fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, skv. 35. gr. vegna stofnana frá þriðju ríki.
                  x.      42. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Úrskurðaraðili.

                     Handhafar rafeyris geta skotið ágreiningi sínum gagnvart útgefanda rafeyris er varða fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
                  y.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 43. gr. laganna:
                      1.      17. tölul. 1. mgr. orðast svo: 1. mgr. 29. gr., 1., 5.–7. mgr. 30. gr., 1., 5.–8. mgr. 31. gr. og 5. mgr. 34. gr. um veitingu þjónustu yfir landamæri.
                      2.      18. tölul. 1. mgr. orðast svo: 1., 3.–4. mgr. 36. gr. og 37. gr. um veitingu þjónustu í gegnum umboðsaðila.
                      3.      19. tölul. 1. mgr. orðast svo: 1.–3. mgr. 38. gr. um útvistun rekstrarþátta.
     2.      Lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017: Við 1. tölul. 3. gr. laganna bætist: með þeim breytingum sem leiðir af 112. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 frá 25. nóvember 2015 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 2002/65/EB, 2009/110/EB og 2013/36/ESB og á reglugerð (ESB) nr. 1093/2010 og niðurfellingu á tilskipun 2007/64/EB, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 87 frá 17. desember 2020, bls. 180–272, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Reglur sem Seðlabanki Íslands skal setja skv. 2. mgr. 114. gr. skal birta á vef bankans fyrir 1. júlí 2021 og eigi síðar senda í lögformlega birtingu. Á sama tíma skal prófunarumhverfi netskilaflata greiðsluþjónustuveitenda sem veita reikningsþjónustu vera tilbúið.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samráði við Seðlabanka Íslands.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpið leggur til innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 2002/65/EB, 2009/110/EB og 2013/36/ESB og á reglugerð (ESB) nr. 1093/2010 og niðurfellingu á tilskipun 2007/64/EB. Tilefni heildarendurskoðunar Evrópusambandsins á greiðsluþjónustutilskipun sinni er sú aukning sem orðið hefur á rafrænni greiðslumiðlun og verslun á netinu. Tilgangur tilskipunarinnar er að efla innri markaðinn á sviði greiðsluþjónustu, auka samkeppni á því sviði, auka öryggi og hagræði fyrir neytendur og stuðla að tækniframþróun í Evrópu. Enn fremur að tryggja eftirlit með nýjum aðilum á markaði sem nú lúta margir engu eftirliti og tryggja upplýsingaöryggi.
    Fyrri greiðsluþjónustutilskipun 2007/64/EB var innleidd í íslenskan rétt með lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 14. júní 2019. Því þykir tilefni til að endurskoða gildandi greiðsluþjónustulög í heild sinni í þá veru að þau samræmist endurskoðaðri tilskipun.
    Samkvæmt EES-samningum ber Íslandi að innleiða þær gerðir sem teknar eru upp í samninginn í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti. Með lögfestingu frumvarpsins verður tryggt að íslensk löggjöf um greiðsluþjónustu verði samræmd löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu um sama efni og að Ísland fullnægi skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er kveðið á um ný heildarlög um greiðsluþjónustu sem eru innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 sem er stundum nefnd önnur greiðsluþjónustutilskipunin (stundum nefnd tilskipunin). Jafnframt eru lagðar til einstakar breytingar á lögum um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, sem einnig byggjast að hluta til á efni tilskipunarinnar. Heimildir til frávika frá efnisákvæðum tilskipunarinnar, við innleiðingu í landsrétt, eru takmarkaðar. Sérstaklega er gerð grein fyrir valkvæðum ákvæðum í skýringum við einstök ákvæði frumvarpsins þegar það á við. Verði frumvarpið samþykkt mun tilskipunin verða innleidd að fullu.

3.1. Gildissvið og orðskýringar.
    Ákvæði frumvarpsins gilda um greiðsluþjónustuveitendur en hugtakið er skilgreint í 12. tölul. 4. gr. og tekur meðal annars til fjármálafyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja, greiðslustofnana, greiðslustofnana með takmarkað starfsleyfi, póstrekanda með rekstrarleyfi samkvæmt lögum um póstþjónustu, seðlabanka Evrópu (ECB) og seðlabanka ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála og stjórnvalda ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra. Skv. 1. gr. frumvarpsins tekur það til greiðsluþjónustu sem sömu aðilar veita hvort heldur um er að ræða greiðslur framkvæmdar hér á landi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins og í gjaldmiðli aðildarríkis eða öðrum gjaldmiðli innan sama svæðis. Tiltekin ákvæði í IV. kafla frumvarpsins gilda einnig um greiðslur sem framkvæmdar eru innan Evrópska efnahagssvæðisins en í öðrum gjaldmiðli en notaður er í einhverju aðildarríkjanna og um þann hluta greiðslu sem framkvæmdur er innan Evrópska efnahagssvæðisins, óháð gjaldmiðli, þegar annar greiðsluþjónustuveitandinn er staðsettur í aðildarríki. Þær greiðslur kallast á ensku „one-leg“-greiðslur. Greiðandi og viðtakandi greiðslu geta því verið staðsettir utan Evrópska efnahagssvæðisins en hluti greiðslunnar fer fram innan svæðisins því greiðsluþjónustuveitandi sem tekur þátt í framkvæmd greiðslunnar er staðsettur innan Evrópska efnahagssvæðisins. Breytingin á milli gildandi laga og þessa frumvarps er því að gildissviðið hefur verið útvíkkað og nær ekki einungis til svokallaðra „one-leg“-greiðslna í evrum eða öðrum gjaldmiðlum innan Evrópska efnahagssvæðisins heldur til allra gjaldmiðla.
    Tilskipunin kveður einnig á um undanþágur frá gildissviði sínu og eru þær innleiddar í 2. gr. frumvarpsins. Undanþágurnar ná meðal annars til reiðufjár, greiðslna á fjármunum sem byggjast á víxlum, tékkum og ferðatékkum, greiðslna sem fara fram í greiðslu- eða verðbréfauppgjörskerfi milli uppgjörsaðila, miðlægra mótaðila, greiðslujöfnunarstöðva o.fl., og stoðþjónustu tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustu. Auk þess undanþiggur frumvarpið greiðsluþjónustu í formi greiðslumiðla sem einungis er hægt að nota til kaupa á vörum eða þjónustu á athafnasvæði útgefanda, eða einungis hægt að nota til kaupa á afmörkuðu úrvali vöru og þjónustu. Að endingu eru greiðslur sem framkvæmdar eru af veitanda fjarskiptanetsþjónustu eða viðbótarþjónustu við fjarskiptanetsþjónustu að vissum skilyrðum uppfylltum undanþegnar gildissviði laganna. Hér er um að ræða stafrænt efni eða stafræna þjónustu sem er hvort tveggja framleidd og afhent í stafrænu formi auk þess sem notkun efnisins getur einungis átt sér stað á rafrænan hátt. Dæmi um þjónustu af þessum toga eru hringitónar, sérstök smáskilaboð, þátttaka í sjónvarps- og útvarpsútsendingum, svo sem með kosningu, þátttöku í keppnum og veitingu beinnar endurgjafar o.fl. Síðasttalda undanþágan er í gildandi lögum talin til greiðsluþjónustu sem fellur undir gildissvið laganna og einungis greiðsluþjónustuveitendum er heimilt að veita, sbr. 7. tölul. 4. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Þrátt fyrir að veitendur fjarskiptaþjónustu eða viðbótarþjónustu við fjarskiptaþjónustu þurfi ekki lengur að sækja um leyfi til Fjármálaeftirlitsins og sæta eftirliti þess þá verða þeir eigi að síður að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsemi sína, sbr. 38. gr. frumvarpsins. Með því móti getur Fjármálaeftirlitið haft eftirlit með því að þjónustan sem veitt er sé undanþegin samkvæmt þessum lögum. Slíkt tryggir einsleita túlkun á reglunum alls staðar á innri markaðnum. Auk þess er neytendavernd tryggð með því.
    Í tilskipuninni eru mörg hugtök og flest þeirra voru einnig í 2007/64/EB eða svokallaðri fyrstu greiðsluþjónustutilskipun. Eigi að síður bættust ný hugtök við með tilskipuninni þar sem gildissvið hennar er útvíkkað frá fyrstu greiðsluþjónustutilskipuninni og hugtökin í þeirri tilskipun reyndust ekki vera nægilega samræmt innleidd innan innri markaðarins. Í samræmi við að gildissvið tilskipunarinnar er útvíkkað líkt og fyrr greinir þá geymir tilskipunin ný hugtök sem eru innleidd í 3. gr. frumvarpsins svo sem greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu, sbr. 24. tölul. 3. gr., reikningsupplýsingaþjónusta, sbr. 33. tölul. 3. gr., reikningsupplýsingaþjónustuveitandi, sbr. 34. tölul. 3. gr., greiðsluvirkjun, sbr. 20. tölul. 3. gr., og greiðsluvirkjandi, sbr. 19. tölul. 3. gr. Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu er skilgreindur sem greiðsluþjónustuveitandi sem býður og viðheldur greiðslureikningi fyrir greiðanda, sbr. 24. tölul. 3. gr. Oftast nær eru þeir bankar og í frumvarpinu eru þeim bæði veitt réttindi og lagðar á þá skyldur gagnvart notendum greiðsluþjónustu, reikningsupplýsingaþjónustuveitendum og greiðsluvirkjendum.
    Bæði reikningsupplýsingaþjónustuveitendur og greiðsluvirkjendur verða að vera greiðslustofnun en eru ólíkir núverandi greiðsluþjónustuveitendum að því leyti að þeir reka ekki greiðslureikning sem greiðandi nýtir sér til að framkvæma greiðslu eða sækja sér upplýsingar um. Sökum þessara nýju tegunda greiðslustofnana varð auk þess nauðsynlegt að gera kröfu um persónubundin öryggisskilríki, sbr. 31. tölul. 3. gr., sem telst til persónubundinna þátta sem greiðsluþjónustuveitandinn afhendir notanda greiðsluþjónustu í tilgangi sannvottunar. Auk þess, og í samræmi við það markmið frumvarpsins að tryggja öryggi við rafrænar greiðslur, var nauðsynlegt að innleiða hugtakið sterk sannvottun viðskiptavinar, sbr. 40. tölul. 3. gr., sem er sannvottun á grundvelli notkunar tveggja eða fleiri þátta sem flokkast sem þekking (eitthvað sem notandinn einn veit), umráð (eitthvað sem notandinn einn hefur umráð yfir) og eðlislægni (eitthvað sem notandinn er) sem eru óháðir, þannig að brot á einum þætti hefur ekki áhrif á áreiðanleika hinna þáttanna, og er hönnuð til að vernda trúnað sannvottunargagnanna.
    Fáeinum hugtökum í frumvarpinu er breytt frá gildandi lögum þar sem þeim hafði einnig verið breytt í tilskipuninni frá fyrstu greiðsluþjónustutilskipuninni. Á meðal þeirra er hið mikilvæga hugtak greiðsla, sbr. 13. tölul. 3. gr. Hugtakið greiðsla er nú skilgreint sem aðgerð sem greiðandi eða einhver fyrir hans hönd eða viðtakandi greiðslu fyrir hönd greiðanda á frumkvæði að með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni, án tillits til þess hvort einhverjar skuldbindingar milli greiðanda og viðtakanda greiðslu liggja til grundvallar. Breytingin felur í sér að nú er heimilað að þriðji aðili, þ.e. greiðsluvirkjandi, geti sett af stað greiðslu fyrir hönd greiðanda. Þá er hugtakinu sannvottun, sbr. 36. tölul. 3. gr., breytt en hún er aðferð sem gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að sannreyna að greiðslufyrirmæli komu frá notanda greiðsluþjónustu eða notkun tiltekins greiðslumiðils, þ.m.t. notkun á persónubundnum öryggisskilríkjum notandans. Breytingin felur í sér að greiðsluþjónustuveitandinn á hvort tveggja að geta sannreynt að greiðslufyrirmæli hafi komið frá notanda greiðsluþjónustu og að tiltekinn greiðslumiðill hafi verið notaður en ekki staðfesta einungis notkun tiltekins greiðslumiðils líkt og í gildandi lögum.
3.2. Nýir greiðsluþjónustuveitendur.
    Greiðsluvirkjendur og reikningsupplýsingaþjónustuveitendur falla ekki undir gildandi lög enda er hér um að ræða þjónustu sem þróaðist, sérstaklega í Evrópu, frá því að fyrsta greiðsluþjónustutilskipunin tók gildi og á allra síðustu árum hér á landi. Greiðsluvirkjun er skilgreind sem þjónusta sem felst í að gefa greiðslufyrirmæli að beiðni notanda greiðsluþjónustu að því er varðar greiðslureikning sem vistaður er hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda, sbr. 20. tölul. 3. gr. Sofort og Trustly eru útbreiddir greiðsluvirkjendur í Evrópu en þar var ekki fyrr en með innleiðingu tilskipunarinnar í Evrópu sem þeir urðu að sækja um starfsleyfi sem greiðslustofnun og sæta eftirliti.
    Reikningsupplýsingaþjónusta hefur það að markmiði að veita notanda reikningsupplýsingaþjónustu samanteknar upplýsingar um einn eða fleiri greiðslureikninga sem hann hefur hjá einum eða fleiri greiðsluþjónustuveitendum. Á Íslandi hafa ekki komið fram margir reikningsupplýsingaþjónustuveitendur á undanförnum árum líkt og í Evrópu, svo sem Monzo, sem þurfa nú að verða greiðslustofnun og skráðir aðilar hjá Fjármálaeftirlitinu. Þó er vitað að Meniga býður þá þjónustu að einstaklingar sem gerast viðskiptavinir Meniga geti samstillt reikninga sína til að fá yfirsýn yfir fjármálin sín. Aðrir sem hafa boðið þá þjónustu eru bankar.
    Búast má við á komandi árum að fleiri þjónustuveitendur hafi áhuga á að bjóða greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu í samræmi við aukna sjálfvirknivæðingu og notkun stafrænnar þjónustu. Með frumvarpinu er lagt til að þessir nýju greiðsluþjónustuveitendur verði greiðslustofnanir og annars vegar sæki um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins, þ.e. sem greiðsluvirkjendur, og hins vegar verði skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu, þ.e. sem reikningsupplýsingaþjónustuveitendur. Með þessu fyrirkomulagi verði neytendavernd, persónuvernd, öryggi og ábyrgð vegna veitingar þessarar þjónustu tryggð, en því þótti ábótavant og er nýjum greiðsluþjónustulögum ætlað að bæta þar úr.

3.2.1. Greiðsluvirkjandi.
    Þrátt fyrir að greiðsluvirkjandi verði að sækja um starfsleyfi sem greiðslustofnun þá þarf hann eingöngu að uppfylla skilyrði um stofnframlag, sbr. 7. gr. frumvarpsins, en er undanþeginn kröfum um útreikning eiginfjárgrunns greiðslustofnunar, sbr. 9. gr., sem getur leitt til framlagningar aukins fjármagns. Þess í stað skal greiðsluvirkjandi vera með gilda starfsábyrgðartryggingu sem nær yfir svæðið þar sem hann hyggst bjóða greiðsluþjónustu, eða aðra sambærilega tryggingu til að geta mætt bótaábyrgð sem stofnast getur til í samræmi við 77., 91., 92. og 94. gr.
    Að öðru leyti eru lagðar á greiðsluvirkjendur sömu kröfur og aðrar greiðslustofnanir, svo sem að heimila notanda greiðsluþjónustu að afturkalla greiðslu, að greiðsluvirkjandi getur þurft að bera bótaábyrgð og hann skal einnig uppfylla kröfur um að veita notanda greiðsluþjónustu upplýsingar við veitingu greiðsluþjónustu og varðveita persónuupplýsingar og önnur gögn tryggilega. Sem dæmi má nefna verður greiðsluvirkjandi að tryggja að persónubundin öryggisskilríki notanda greiðsluþjónustunnar komist ekki í hendur annarra og hann má ekki geyma viðkvæm greiðslugögn. Kröfur um eftirlit með rekstrar- og öryggisáhættu og persónuvernd eru þær sömu og hjá öðrum greiðsluþjónustuveitendum, svo sem bönkum. Þá verður greiðsluvirkjandi að eiga í öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitandann sem veitir reikningsþjónustu, greiðandann og viðtakanda greiðslunnar.

3.2.2. Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi.
    Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi verður líkt og greiðsluvirkjandi að vera greiðslustofnun en hann þarf þó ekki að sækja um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins heldur er einungis skráningarskyldur. Þá er hann einnig undanþeginn nokkrum af þeim reglum sem aðrar greiðslustofnanir og greiðsluþjónustuveitendur þurfa að uppfylla. Ástæða þess er að hann kemur ekki að framkvæmd greiðslufyrirmæla auk þess sem hann, eins og greiðsluvirkjandi, hefur ekki aðgengi að fjármunum og snertir aldrei á þeim. Greiðslustofnun sem er reikningsupplýsingaþjónustuveitandi er því undanþegin kröfu um stofnframlag skv. 7. gr. en skal þess í stað vera með gilda starfsábyrgðartryggingu sem nær yfir svæðið þar sem hann hyggst bjóða greiðsluþjónustu, eða aðra sambærilega tryggingu til að geta mætt bótaábyrgð gagnvart greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu eða notanda greiðsluþjónustu, sem leiðir af óheimiluðum eða sviksamlegum aðgangi að, eða óheimilaðri eða sviksamlegri notkun á, upplýsingum um greiðslureikninga.
    Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi er undanþeginn 10. gr. um varðveislu fjármuna og lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá eru ekki sömu kröfur lagðar á reikningsupplýsingaþjónustuveitanda varðandi gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við veitingu greiðsluþjónustu í IV. kafla eða réttindi og skyldur í tengslum við veitingu þjónustunnar í V. kafla. Hafi greiðslustofnun sem er reikningsupplýsingaþjónustuveitandi hins vegar í hyggju að veita þjónustu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins að þá gilda sömu reglur og fyrir aðrar greiðslustofnanir.

3.2.3. Réttindi og skyldur greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda.
    Í 64. gr. frumvarpsins er kveðið á um skilyrðislausan rétt neytanda sem á greiðslureikning sem er aðgengilegur á netinu til að nýta sér greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu. Að sama skapi er þar með kominn tilvistarréttur greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda til að starfa og greiðsluþjónustuveitandi greiðandans sem veitir reikningsupplýsingaþjónustu (oftast banki) getur ekki sett það sem skilyrði að samningssamband sé á milli hans annars vegar og greiðsluvirkjandans eða reikningsupplýsingaþjónustuveitandans hins vegar.
    Í 65.–70. gr. er kveðið á um réttindi og skyldur greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, svo sem að þeir verði að afla skýlauss samþykkis frá notanda greiðsluþjónustunnar, að þeir verði að tryggja að persónubundin öryggisskilríki notanda greiðsluþjónustunnar séu ekki aðgengileg öðrum aðilum, að undanskildum notanda og útgefanda persónubundnu öryggisskilríkjanna, að þeir verði að eiga í öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitendurna sem veita notanda greiðsluþjónustu reikningsþjónustu og að nota hvorki, nálgast né geyma gögn í öðrum tilgangi en að annast hina téðu þjónustu sem notandi greiðsluþjónustu óskar eftir.

3.3. Þátttaka í greiðslukerfum og aðgangur að reikningum hjá lánastofnun.
    Í III. kafla eru ákvæði um þátttöku greiðsluþjónustuveitenda í greiðslukerfum. Hér er átt við greiðslukerfi önnur en greiðslukerfi sem hafa verið viðurkennd og tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópsku verðbréfamarkaðsstofnunarinnar í samræmi við lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, og greiðslukerfi þar sem þátttaka einskorðast við greiðsluþjónustuveitendur sem tilheyra tiltekinni samstæðu.
    Greiðsluþjónustuveitendum með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu skal vera heimilt að gerast þátttakendur í slíkum greiðslukerfum. Gæta skal að því að jafnræði ríki milli allra greiðsluþjónustuveitenda til þátttöku og aðgengis að greiðslukerfum með því að reglur um greiðslukerfi séu hlutlægar, án mismununar og hóflegar. Þær mega ekki hamla aðgangi meira en nauðsynlegt er til að verjast tiltekinni áhættu, svo sem uppgjörsáhættu, rekstraráhættu eða viðskiptaáhættu, og vernda fjárhags- og rekstrarlegan stöðugleika greiðslukerfisins. Það þýðir að ekki má mismuna t.d. greiðslustofnunum á kostnað banka heldur verða þær að geta keppt á samkeppnisgrundvelli vegna þeirrar greiðsluþjónustu sem þær veita. Mismunur í verðlagningu má einungis helgast af mismunandi kostnaði sem hlýst af þátttöku greiðsluþjónustuveitanda. Gerist þess þörf skal þó setja fram ólík þátttökuskilyrði fyrir greiðslustofnanir með takmarkað starfsleyfi þar sem varfærniskröfur til greiðslustofnana með takmarkað starfsleyfi eru mun minni.
    Ef þátttakandi í greiðslukerfi leyfir greiðsluþjónustuveitanda sem ekki er þátttakandi í greiðslukerfinu, hvort heldur sem um ræðir skráðan greiðsluþjónustuveitanda eða með starfsleyfi, að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins skal þátttakandinn veita öðrum skráðum greiðsluþjónustuveitendum eða þeim sem eru með starfsleyfi sama tækifæri á hlutlægan, hóflegan hátt og án mismununar. Í því tilviki að þátttakandi í greiðslukerfi synjar beiðni greiðsluþjónustuveitanda um að fá að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins skal hann upplýsa greiðsluþjónustuveitandann um allar ástæður fyrir synjun.
    Í IV. kafla er lánastofnunum og viðskiptabönkum einnig gert að veita greiðslustofnunum aðgang að þeirra greiðslureikningaþjónustu á hlutlægan hátt, án mismununar. Aðgangur skal vera nógu víðtækur til að gera greiðslustofnunum kleift að veita greiðsluþjónustu á óhindraðan og skilvirkan hátt. Þegar greiðsluþjónustuveitendur annast eina gerð greiðsluþjónustu eða fleiri, ættu þeir ávallt að hafa greiðslureikninga sem notaðir eru einvörðungu vegna greiðslna, sbr. 10. gr. Af þeim sökum er greiðslustofnunum nauðsynlegt að geta opnað greiðslureikninga hjá lánastofnunum og/eða viðskiptabönkum. Aðgangurinn að greiðslureikningaþjónustu má ekki fela í sér mismunun gagnvart greiðslustofnunum og skal vera nægjanlegur svo greiðslustofnun geti boði þjónustu sína til sömu viðskiptavina og lánastofnanir og bankar á óhindraðan og skilvirkan hátt. Synji lánastofnun eða viðskiptabanki greiðslustofnun um umbeðinn aðgang skal sá sem synjar tilkynna Fjármálaeftirlitinu og upplýsa um helstur ástæður synjunar.

3.4. Eftirlitsskyld greiðslustofnun.
    Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um greiðslustofnanir og hvaða skilyrði lögaðili þurfi að uppfylla til þess að geta orðið eftirlitsskyld greiðslustofnun og hvaða upplýsingar þurfi að liggja fyrir í tengslum við umsókn, sbr. 4. gr. Greiðslustofnanir urðu ný tegund fyrirtækja á sviði fjármálaþjónustu með gildistöku laga um greiðsluþjónustu árið 2011. Greiðslustofnanir þá, líkt og samkvæmt frumvarpi þessu, sinna mun takmarkaðri fjármálaþjónustu og afmarkaðri starfsemi en viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki gera samkvæmt gildandi lögum. Greiðslustofnanir eru allar eftirlitsskyldar hjá Fjármálaeftirlitinu og verða að sækja um starfsleyfi hjá því nema reikningsupplýsingaþjónustuveitandi sem er einungis skráningarskyldur hjá Fjármálaeftirlitinu. Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi er því annað afbrigði af greiðslustofnun.
    Í ljósi þess að afmarkaðri áhætta fylgir starfsemi greiðslustofnana eru minni kröfur gerðar til þeirra en áðurgreindra tegunda fjármálafyrirtækja, svo sem að því er varðar kröfur um lágmarksstofnfé. Greiðslustofnanir taka ekki við innlánum og gefa ekki út rafeyri, enda er slík starfsemi leyfisskyld samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Þeim ber að varðveita fjármuni viðskiptavina tryggilega og þær eru til að mynda bundnar af lögum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka líkt og fjármálafyrirtæki. Greiðslustofnunum ber þó að hafa margskonar innviði, sbr. þær kröfur sem gerðar eru til þeirra í umsóknarferli skv. 4. gr. og í 12. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. 12. gr. er tilgreint að skipulag í fyrirhuguðum rekstri greiðsluþjónustu þurfi að vera skýrt, fullnægjandi verklagsreglur skuli vera til staðar sem þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil. Þar sem greiðslustofnanir veita mismunandi greiðsluþjónustu skulu þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar greiðsluþjónustu sem fyrirhugað er að veita en jafnframt verður umsækjandi að uppfylla þær á hverjum tíma, sbr. 2. mgr. 12. gr.
    Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar frá gildandi löggjöf hvað varðar greiðslustofnanir. Í fyrsta lagi er í 2. mgr. 6. gr. gerð krafa um að ekki einungis skuli greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi skv. 12. gr. vera lögaðili og hafa höfuðstöðvar sínar hérlendis, líkt og áskilnaður er nú um í 9. gr. gildandi laga, heldur verður greiðslustofnun að framkvæma a.m.k. hluta af greiðsluþjónustustarfsemi sinni hérlendis. Með þessu er útilokað að greiðslustofnun geti verið með höfuðstöðvar sínar í aðildarríki en eingöngu veitt greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki.
    Í öðru lagi er í 99. gr. gerð krafa um að greiðslustofnun hafi á að skipa eftirlitskerfi rekstrar- og öryggisáhættu. Það þýðir að greiðslustofnun líkt og aðrir greiðsluþjónustuveitendur skal koma á og viðhalda áhættumiðuðum ferlum og eftirlitskerfi til að stýra rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við greiðsluþjónustuna sem hún veitir. Greiðslustofnun verður að viðhafa skilvirka atvikastjórnun sem meðal annars hefur að geyma greiningu og flokkun alvarlegra rekstrar- eða öryggisfrávika auk þess að hafa yfir að ráða fullnægjandi öryggisráðstöfunum til að vernda trúnað og heilleika persónubundinna öryggisskilríkja. Árlega ber svo greiðslustofnun líkt og öðrum greiðsluþjónustuveitendum að senda Fjármálaeftirlitinu uppfært og ítarlegt mat á rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem hún veitir. Í 100. gr. er síðan fjallað um hvað greiðsluþjónustuveitendur skuli gera í því tilviki að það verður alvarlegt rekstrar- eða öryggisfrávik. Fyrir utan að til kynna Fjármálaeftirlitinu um það skal greiðsluþjónustuveitandinn auk þess tafarlaust upplýsa notendur greiðsluþjónustunnar um atvikið, geti það haft áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra, og allar ráðstafanir sem hafa verið gerðar, og sem þeir sjálfir geta gripið til, til að draga úr skaðlegum áhrifum þess.
    Í þriðja lagi verða til nýjar tegundir greiðslustofnana, sbr. umfjöllun í köflum 3.2.1 og 3.2.2 hér að framan. Í 22. tölul. 3. gr. er hugtakið greiðsluþjónusta skilgreint og er um að ræða átta tegundir af greiðsluþjónustu sem eru sumar hverjar ólíkar og hafa í för með sér mismunandi áhættu sem leiðir til þess að gerðar eru mismunandi eiginfjárkröfur eftir tegund greiðsluþjónustu. Það kemur sérstaklega í ljós varðandi nýjar tegundir greiðsluþjónustuveitenda, greiðsluvirkjendur og reikningsupplýsingaþjónustuveitendur en þeir hafa ekki aðgengi að fjármunum frá notendum greiðsluþjónustunnar og snerta ekki á þeim. Líkt og greinir í köflum 3.2.1 og 3.2.2 þá þarf greiðsluvirkjandi eingöngu að uppfylla skilyrði um stofnframlag, sbr. 7. gr. en er undanþeginn kröfum um útreikning eiginfjárgrunns greiðslustofnunar, sbr. 9. gr., sem getur leitt til framlagningar aukins fjármagns. Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi er hvort tveggja undanþeginn kröfu um stofnframlag skv. 7. gr. og kröfu um útreikning eiginfjárgrunns greiðslustofnunar, sbr. 9. gr. Þess í stað skulu greiðsluvirkjandi og reikningsupplýsingaþjónustuveitandi vera með gilda starfsábyrgðartryggingu sem nær yfir svæðið þar sem þeir hyggjast bjóða greiðsluþjónustu, eða aðra sambærilega tryggingu til að geta mætt bótaábyrgð sem stofnast getur til vegna veitingar greiðsluþjónustunnar.
    Í fjórða lagi er ber að nefna að í 14. gr. er það nýmæli að ekki einungis skal Fjármálaeftirlitið halda opinbera skrá yfir greiðslustofnanir og skrá þar inn helstu upplýsingar um greiðslustofnanir, svo sem um starfsheimildir, afturköllun starfsheimilda, útibú og umboðsmenn, heldur skal Fjármálaeftirlitið samhliða veita Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni sömu upplýsingar, en stofnunin starfrækir og viðheldur miðlægri skrá um skráningu greiðslustofnana í hverju aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu sem er aðgengileg öllum. Með þessu móti næst eitt af markmiðum með tilskipuninni að styrkja eftirlit á milli aðildarríkja.
    Þriðja afbrigðið af greiðslustofnunum eru eftirlitsskyldar greiðslustofnanir með takmarkað starfsleyfi skv. g-lið 23. tölul. 3. gr. Í frumvarpi þessu líkt og í gildandi lögum eru gerðar minni kröfur til greiðslustofnana með takmarkað starfsleyfi. Sækja þarf um starfsleyfi fyrir greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 12. gr. Þær þurfa þó ekki að leggja fram stofnframlag skv. 7. gr. og eru því undanþegnar kröfum um eiginfjárgrunn skv. 8. og 9. gr. Þær hafa ekki heimild til að veita lán í tengslum við veitingu greiðsluþjónustu, sbr. 4. mgr. 16. gr., og geta ekki veitt greiðsluþjónustu yfir landamæri, sbr. 9. mgr. 12. gr. Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi ber að framfylgja reglum í IV. kafla um gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við veitingu greiðsluþjónustu og V. kafla um réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu. Neytandinn nýtur því sömu réttarverndar óháð því hvort hann er notandi greiðsluþjónustu hjá greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi eður ei.
    Ekki ósvipað þriðja afbrigði greiðslustofnana eru aðilar sem þurfa að tilkynna sig til Fjármálaeftirlitsins. Er hér átt við veitendur fjarskiptaneta sem minnst var á í kafla 3.1 hér að framan. Þrátt fyrir að veitendur fjarskiptaþjónustu eða viðbótarþjónustu við fjarskiptaþjónustu þurfi ekki lengur að sækja um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins vegna greiðsluþjónustu og sæti eftirliti með vísan til 7. tölul. 4. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, þá verða þeir eigi að síður að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsemi sína, sbr. 39. gr. frumvarpsins. Hér er því um að ræða breytingu frá gildandi lögum.
    Þá verður að geta í þessu samhengi útgefenda greiðslumiðla með takmörkuð afnot. Skv. 2. mgr. 38. gr. er þjónustuveitanda sem gefur út greiðslumiðla með takmörkuð afnot, þ.e. greiðslumiðil sem einungis er hægt að nota til kaupa á vörum eða þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða til kaupa á afmörkuðu úrvali vöru og þjónustu, sbr. 11.–12. tölul. 2. gr., ekki skylt að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsemi sína fyrr en heildarfjárhæð greiðslna, sem hafa verið framkvæmdar á næstliðnum 12 mánuðum, fer yfir 1 milljón evra. Við það tímamark ákvarðar Fjármálaeftirlitið hvort þjónustan falli undir 11. eða 12. tölul. 2. gr., eftir því sem við á, eða bannar frekari starfsemi. Þjónustuveitandinn verður þá að sækja um starfsleyfi sem greiðslustofnun.

3.4.1. Heimildir greiðslustofnunar til að veita þjónustu yfir landamæri.
    Líkt og í gildandi lögum er í frumvarpinu lagt til að greiðslustofnun sem hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu (að undanskildri greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi) eða hefur uppfyllt skráningarskyldu til Fjármálaeftirlitsins (reikningsupplýsingaþjónustuveitandi) geti veitt greiðsluþjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða milligöngu umboðsaðila, sbr. ákvæði 23.–26. gr. frumvarpsins. Með þessu móti gefst íslenskum greiðslustofnunum tækifæri til að stækka greiðsluþjónustumarkað sinn og vera í beinni samkeppni við aðra evrópska greiðsluþjónustuveitendur. Að sama skapi geta greiðslustofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu veitt greiðsluþjónustu til Íslands með eða án stofnunar útibús eða milligöngu umboðsaðila, sbr. 27.–29. gr.
    Fjármálaeftirlitið hefur ávallt eftirlit með þeim greiðslustofnunum sem það hefur veitt starfsleyfi og breytir veiting greiðsluþjónustu yfir landamæri engu þar um, sbr. 22. gr., 23.–26. gr. og 2. mgr. 102. gr. Mun svo áfram vera samkvæmt frumvarpinu auk þess sem eftirlit með greiðslustofnunum sem veita þjónustu í öðru aðildarríki í gegnum útibú eða fyrir milligöngu umboðsaðila fer einnig fram af hálfu lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki. Á það bæði við um eftirlit með starfsemi útibúsins og umboðsmannsins og framfylgd þeirra við ákvæði í landslögum gistiaðildarríkis, sem eru sambærileg við ákvæði IV.–VII. kafla í frumvarpi þessu, og landslög gistiaðildarríkis um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
    Ákvæðin sem um ræðir lúta að neytendavernd og hegðun á markaði og því þykir eðlilegt að lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis hafi eftirlit með útibúum og umboðsaðilum frá greiðslustofnunum annars aðildarríkis sem veita greiðsluþjónustu á sama markaði og eftirlitsskyldir aðilar fjármálaeftirlits gistiaðildarríkis. Með því er tryggð jöfn neytendavernd og samkeppnisskilyrði á sama markaði.
    Áður en greiðslustofnun getur veitt þjónustu yfir landamæri verður hún að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um áform sín og veita ýmsar upplýsingar, svo sem um tegund greiðsluþjónustu sem á að veita í gistiaðildarríki, svo að Fjármálaeftirlitið getið tekið ákvörðun um hvort það muni heimila veitingu greiðsluþjónustunnar yfir landamæri, sbr. 1. mgr. 23. gr., 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. Fjármálaeftirlitið tilkynnir lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki um fyrirhugaða veitingu greiðsluþjónustunnar í þeirra ríki og í því tilviki að íslensk greiðslustofnun hefur í hyggju að veita þjónustu í gegnum útibú eða fyrir milligöngu umboðsaðila leggja lögbær yfirvöld fyrirhugaðs gistiaðildarríkis mat á hvort aukin hætta sé á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka vegna veitingar þjónustunnar í gistiaðildarríki, sbr. 2. og 3. mgr. 23. gr., 2. og 3. mgr. 24. gr. og 2. og 3. mgr. 25. gr. Sé svo ekki þá uppfærir Fjármálaeftirlitið upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir, sbr. 14. gr., og útibúið eða umboðsaðilinn getur hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
    Verði Fjármálaeftirlitið og lögbær yfirvöld ekki sammála er lagt til nýtt úrræði í 4. mgr. 24. gr. og 4. mgr. 25. gr. um atbeina Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA eftir því sem við á. Er slíkt í samræmi við 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Í því tilviki að greiðslustofnun í öðru aðildarríki hefur í hyggju að veita greiðsluþjónustu til Íslands þá gilda sömu reglur og Fjármálaeftirlitið verður í hlutverki lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki líkt og hér er lýst að framan, sbr. 28. gr., 31. gr. og 3. mgr. 102. gr. frumvarpsins.

3.5. Upplýsingaskylda.
    Í III. kafla laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, er kveðið á um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu. Ekki er um miklar breytingar að ræða í IV. kafla frumvarpsins frá gildandi lögum. Eftir sem áður ber greiðsluþjónustuveitanda að veita notanda greiðsluþjónustunnar margvíslegar upplýsingar um þá greiðsluþjónustuna sem hann hyggst nýta sér. Gerður er greinarmunur á hve víðfeðm skylda til upplýsingagjafar er eftir því hvort um er að ræða samninga eða upplýsingagjöf vegna stakra greiðslna eða upplýsingagjöf vegna samnings eða tilboðs vegna greiðslna sem falla undir rammasamninga. Í ljósi þess að rammasamningar eru þýðingarmeiri en samningar um stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga, svo sem rammasamningar um greiðslukort og beingreiðslur, þá eru gerðar ítarlegri kröfur til upplýsingagjafar og gagnsæis skilmála í rammasamningum. Þó er í hvorugu tilviki heimilt að krefja notanda greiðsluþjónustu um gjald fyrir upplýsingar sem veittar eru samkvæmt IV. kafla frumvarpsins. Einnig skal framsetning upplýsinga og skilmála vera með skýrum og auðskiljanlegum hætti, á íslensku eða hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um og skal greiðsluþjónustuveitandi afhenda notanda upplýsingar og skilmála á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
    Til skýringar er IV. kafla frumvarpsins skipt í þrjá hluta:
    A.    Almenn ákvæði (41.–46. gr.).
    B.    Stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga (47.–52. gr.).
    C.    Greiðslur sem falla undir rammasamninga (53.–60. gr.).
    Helstu nýmæli IV. kafla eru í 50. gr. sem fjallar um upplýsingar til greiðandans, viðtakanda greiðslu og greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, eftir að gefin hafa verið greiðslufyrirmæli. Er í ákvæðinu lögð sama skylda á greiðsluvirkjanda, sem er nýr greiðsluþjónustuveitandi, og hafði áður verið á greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu. Tilefni þykir til að minna á kröfur laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga til skýrleika staðlaðra samningsskilmála og þeirrar meginreglu að í vafamálum gildir sú túlkun sem neytandanum kemur best samkvæmt hefðbundnum skýringar- og túlkunarreglum neytendaréttar.

3.6. Réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu.
    IV. kafli laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, fjallar um réttindi og skyldur greiðsluþjónustuveitanda og notanda greiðsluþjónustu í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu. Lagt er til að V. kafli frumvarpsins beri sama heiti og hafi sambærilega uppbyggingu og í gildandi lögum. Til skýringar er kaflanum skipt í sjö hluta:
    A.    Almenn ákvæði (61.–63. gr.).
    B.    Heimild fyrir greiðslu (64. gr.).
    C.    Útgefandi kortatengds greiðslumiðils (65. gr.).
    D.    Greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónusta (66.–73. gr.).
    E.    Framkvæmd greiðslu (74.–87. gr.).
    F.    Framkvæmdatími greiðslu (88.–91. gr.).
    G.    Bótaábyrgð og vinnsla persónuupplýsinga (92.–97. gr.).
    Þær helstu breytingar eru gerðar í ákvæðum kaflans að fjárhæð sjálfsábyrgðar í því tilviki að greiðandi skuli bera tap vegna óheimilaðra greiðslna sem rekja má til notkunar á týndum eða stolnum greiðslumiðli eða stafar af óréttmætri nýtingu greiðslumiðils verður allt að jafnvirði 50 evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni, sbr. 1. mgr. 80. gr. frv. Í gildandi lögum er fjárhæðin 150 evrur. Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda krefst ekki sterkrar sannvottunar viðskiptavinar skal greiðandinn ekki bera neitt fjárhagstjón nema greiðandinn hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Ef viðtakandi greiðslu eða greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu samþykkir ekki sterka sannvottun skal hann endurgreiða fjárhagslegt tjón sem það veldur greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, sbr. 5. mgr. 80. gr.
    Þá er það nýmæli lagt til í 81. gr. að þegar greiðsla er sett af stað, af eða fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu í tengslum við kortatengda greiðslu, og nákvæm fjárhæð er ekki þekkt á þeirri stundu sem greiðandinn veitir samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslunnar getur greiðsluþjónustuveitandi greiðandans aðeins fryst fjármuni á greiðslureikningi greiðandans ef greiðandinn hefur veitt samþykki fyrir nákvæmlega þeirri fjárhæð sem fyrirhugað er að frysta. Greiðsluþjónustuveitandi greiðandans skal síðan afhenda fjármunina sem frystir hafa verið á greiðslureikningi greiðandans án ótilhlýðilegrar tafar eftir viðtöku upplýsinga um nákvæma fjárhæð greiðslunnar og eigi síðar en strax eftir viðtöku greiðslufyrirmælanna. Við kaup á bensíni, herbergi og þjónustu á hóteli og leigu á bílaleigubíl er ekki vitað fyrr en við lok þjónustunnar hver endanleg fjárhæð greiðslu skuli vera. Til langs tíma hefur því tíðkast að þessir söluaðilar óski eftir heimild til útgefanda kortsins fyrir áætlaðri fjárhæð sem síðan er lækkuð þegar þjónustan hefur verið afhent og fjárhæðin kunnug.
    Ákvæðið felur í sér neytendavernd á þann veg að notandi greiðsluþjónustu þarf að samþykkja þá fjárhæð sem söluaðili leggur til að skuli frátekin/fryst af úttektarheimild hans til tryggingar greiðslu. Notandi greiðsluþjónustunnar getur þá sjálfur lagt mat á hvort fjárhæðin sem söluaðili óskar eftir að fá heimild fyrir hjá útgefanda kortsins sé viðeigandi eða ekki. Ef hann telur hana ekki viðeigandi þá getur hann gert athugasemd um slíkt við söluaðila. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja að úttektarheimild korthafa sé sem réttust hverju sinni og hann geti því sem mest ótruflaður nýtt kortið til greiðslu á vöru og þjónustu. Nýmæli kaflans beinast þó fyrst og fremst að nýjum greiðsluþjónustuveitendum og þjónustu þeirra, þ.e. greiðsluvirkjendum og reikningsupplýsingaþjónustuveitendum og einnig greiðsluþjónustuveitendum sem veita reikningsþjónustu, sbr. 66. gr. sem fjallar um rétt neytenda til að nýta sér greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu, 67. gr. sem fjallar um skyldur greiðsluvirkjanda vegna veitingar greiðsluþjónustu, 68. gr. sem fjallar um hvernig greiðsluvirkjandi skuli meðhöndla upplýsingar og gögn sem hann aflar í tengslum við þjónustu sína, og 69. gr. sem útlistar skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu vegna aðgengileika upplýsinga, öruggra samskipta og framkvæmd greiðslufyrirmæla. Skv. 3. mgr. 69. gr. frumvarpsins má þessi greiðsluþjónustuveitandi, sem oftast er banki, ekki mismuna greiðslufyrirmælum, sem send eru fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda, gagnvart greiðslufyrirmælum sem greiðandinn sendir beint til hans, nema af hlutlægum ástæðum, einkum með tilliti til tímasetningar, forgangs eða gjalda. Mismunun getur falist í því að á notanda greiðsluþjónustunnar yrði lagt gjald vegna greiðslufyrirmæla sem framkvæmd væru fyrir hann fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda en ekki ef hann myndi framkvæma þau beint hjá greiðsluþjónustuveitanda sínum sem býður reikningsþjónustu.
    Í 70. gr. eru útlistaðar skyldur reikningsupplýsingaþjónustuveitanda vegna veitingar reikningsupplýsingaþjónustu og um skyldur í tengslum við meðhöndlun þeirra gagna sem hann aflar er fjallað í 71. gr. Ákvæði 72. og 73. gr. lúta að greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu og fjalla um skyldu hans til öruggra samskipta og afgreiðslu beiðna um gögn og hvenær hann getur synjað um upplýsingar um og aðgang að greiðslureikningi. Markmiðið er að allir greiðsluþjónustuveitendur sem hafa ekki greiðslureikning geti haft aðgengi að samkeppnismarkaði um greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu óháð samningssambandi við greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, sbr. 2. mgr. 66. gr. Þá verða hinir nýju greiðsluþjónustuveitendur að sjá til þess að persónubundin öryggisskilríki notanda greiðsluþjónustunnar séu ekki aðgengileg öðrum aðilum, að undanskildum notanda greiðsluþjónustunnar og útgefanda persónubundnu öryggisskilríkjanna, og að greiðsluvirkjandinn sendi þau um öruggar og skilvirkar leiðir, sbr. 67. og 70. gr.

3.7. Upplýsingaöryggi og persónuvernd.
    Á undanförnum árum hefur áhætta í tengslum við upplýsingaöryggi aukist samhliða aukinni tæknivæðingu á öllum sviðum og með fjölda stafrænna greiðslulausna sem hafa komið fram á sjónarsviðið í Evrópu og aukinni notkun netsins við greiðsluþjónustu. Af þeim sökum er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 lögð sérstök áhersla á að tryggja nægjanlega áhættustýringu gegn þessari ógn, sem felur meðal annars í sér aukin svik, auðkennisstuld o.fl.

3.7.1. Persónuvernd.
    Samkvæmt 98. gr. frumvarpsins gilda lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við greiðsluþjónustu. Í frumvarpinu er auk þess mælt fyrir um sérreglur á þessu sviði. Sú fyrri er í 1. málsl. 1. mgr. 98. gr. en þar er vinnsla persónuupplýsinga heimiluð í greiðslukerfum og af hálfu greiðsluþjónustuveitenda þegar það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir, rannsaka og greina greiðslusvik. Sú síðari er sérreglan um að greiðsluþjónustuveitandi þurfi ávallt að afla skýlauss samþykkis frá notanda greiðsluþjónustu fyrir vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við þjónustuna sem hann veitir, sbr. 1.–2. mgr. 65. gr., 1. mgr. 67. gr., 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 98. gr.

3.7.2. Rekstrar- og upplýsingaöryggi.
    Hvað varðar áhættustýringu vegna rekstrar- og upplýsingaöryggis er lagt til í 99. gr. frumvarpsins að greiðsluþjónustuveitandi skuli koma á eftirlitskerfi til að stýra rekstrar- og öryggisáhættu auk þess sem gerð er krafa um að fullnægjandi öryggisráðstafanir séu fyrir hendi vegna persónubundinna öryggisskilríkja. Til að stuðla að trausti og stöðugleika í fjármálakerfinu er nauðsynlegt að fastsetja reglur um öryggi í tengslum við greiðsluþjónustu svo að bæði neytendur og lögaðilar geti treyst því að greiðslufyrirmæli sem þeir hafi gefið séu meðhöndluð á öruggan hátt. Þar með er dregið úr líkum á svikum, eyðileggingu og tæknilegum bilunum þegar greiðsluþjónustuveitandi framkvæmir greiðsluna.
    Hér er því í fyrsta lagi lagt til að gerðar verði kröfur til allra greiðsluþjónustuveitenda, þ.m.t. viðskiptabanka. Óháð rekstrarformi og stærð skal greiðsluþjónustuveitandi koma á og viðhalda sérstökum áhættumiðuðum ferlum og eftirlitskerfi til að stýra rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá tegund greiðsluþjónustu sem hann veitir. Ferlar skulu innihalda viðeigandi stýringar og mótvægisaðgerðir til að halda áhættu innan ásættanlegra marka. Til að unnt sé að viðhalda ferlum og eftirlitskerfi sem komið hefur verið á þarf að rýna og uppfæra í samræmi við breytingar og kröfur sem kunna að hafa verið gerðar.
    Í öðru lagi er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi verði að koma á og viðhalda skilvirkri atvikastjórnun, sem meðal annars hefur að geyma greiningu og flokkun alvarlegra rekstrar- og öryggisfrávika. Hér getur verið um að ræða rekstrarrof, tæknilegt rof, eyðileggingu eða skemmdarverk unnin á öryggisaðgerðum sem getur haft rekstrar- eða fjárhagslegar afleiðingar fyrir notanda greiðsluþjónustunnar. Skráning atvika ætti að taka til allra þátta greiðsluþjónustunnar, t.d. innbrota í netbanka, svika eða eyðileggingar í greiðslukerfi eða kortakerfi sem leiðir til þess að greiðsla verður gölluð eða hún ekki framkvæmd. Þá ber að flokka atvikin og greina alvarleika þeirra og ákveða hvernig skuli brugðist við þeim. Þessi aðferðafræði styður við þær kröfur sem gerðar eru í 100. gr.
    Í þriðja lagi er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli koma á og viðhalda fullnægjandi öryggisráðstöfunum til að vernda trúnað og heilleika persónubundinna öryggisskilríkja notenda greiðsluþjónustunnar í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr. Persónubundin öryggisskilríki eru skilgreind í 31. tölul. 3. gr. sem persónubundnir þættir sem greiðsluþjónustuveitandinn afhendir notanda greiðsluþjónustu í tilgangi sannvottunar. Sannvottun er aðferð sem gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að sannreyna að greiðslufyrirmæli hafi komið frá notanda greiðsluþjónustu eða að tiltekinn greiðslumiðill hafi verið notaður, þ.m.t. persónubundin öryggisskilríki notandans, sbr. 36. tölul. 3. gr. Til að koma í veg fyrir að aðferð sannvottunar á notanda greiðsluþjónustu verði ekki misnotuð af þriðja aðila, t.d. að einhver látist vera notandi greiðsluþjónustunnar, þá skiptir sköpum trúnaður og áreiðanleiki þeirra þátta sem ferlið reiðir sig á og að þar verði ekki misbrestur. Af þeim sökum verður greiðsluþjónustuveitandi að innleiða viðhlítandi eftirlitsaðgerðir og öryggisráðstafanir sem skulu tryggja öryggi persónubundinna öryggisskilríkja notanda greiðsluþjónustunnar. Eftirlits- og öryggisráðstafanirnar þarf því að endurskoða reglulega og uppfæra í samræmi við uppfært áhættumat. Greiðsluþjónustuveitandi skal a.m.k. árlega veita Fjármálaeftirlitinu uppfært og ítarlegt mat á rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við greiðsluþjónustu þá sem hann veitir og lýsingu á þeim varúðarráðstöfunum og eftirlitsaðgerðum sem hann hefur innleitt til að bregðast við áhættunni.
    Í 3. mgr. 99. gr. er lagt til að Seðlabanki Íslands setji nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins. Í 3.–4. mgr. 95. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að Evrópska bankaeftirlitsstofnunin skuli í samstarfi við Seðlabanka Evrópu og að höfðu samráði við alla viðkomandi hagsmunaaðila, þ.m.t. þá sem eru á greiðsluþjónustumarkaði, að teknu tilliti til allra viðeigandi hagsmuna, gefa út viðmiðunarreglur í samræmi við 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 um að koma á, framkvæma og hafa eftirlit með öryggisráðstöfunum, þ.m.t. vottunarferli ef við á. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur um öryggisráðstafanir fyrir rekstrar- og öryggisáhættu vegna tilskipunarinnar og tóku þær gildi 13. janúar 2018. Gera má ráð fyrir að Seðlabanki Íslands taki mið af viðmiðunarreglunum við gerð sinna reglna. Ákvæðið er nýmæli.
    Í 100. gr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um alvarlegt rekstrar- eða öryggisfrávik. Það getur verið rekstrarrof, tæknilegt rof, eyðilegging eða skemmdarverk unnin á öryggisaðgerðum sem getur haft rekstrar- eða fjárhagslegar afleiðingar fyrir notanda greiðsluþjónustunnar. Skráning greiðsluþjónustuveitanda á atvikum á að taka til allra þátta greiðsluþjónustunnar, t.d. innbrota í netbanka, svika eða eyðileggingar í greiðslukerfi eða kortakerfi sem leiðir til þess að greiðsla verður gölluð eða hún ekki framkvæmd. Þá ber að flokka atvikin og greina alvarleika þeirra og ákveða hvernig skuli brugðist við þeim. Hvort atvik teljist alvarlegt rekstrar- eða öryggisfrávik veltur á mati á margs konar aðstæðum, svo sem hvort atvikið geti þróast í að vera stóráfall sem muni gangsetja viðbragðsáætlun greiðsluþjónustuveitandans vegna stóráfalla, hvort atvikið geti haft afleiðingar fyrir fjármálainnviði eða haft í för með sér lögreglurannsókn, eða hvort trúnaður gagna sé í hættu. Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust upplýsa um rekstrar- eða öryggisfrávikið og allar ráðstafanir sem gerðar hafi verið til að draga úr skaðlegum áhrifum þess, muni frávikið, eða geti, haft áhrif á fjárhagslega hagsmuni notenda greiðsluþjónustunnar.

3.7.3. Sterk sannvottun.
    Í 101. gr. frumvarpsins er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli krefjast sterkrar sannvottunar í þeim tilvikum þegar stuðst er við rafræna leið til að framkvæma greiðslu og hún getur haft í för með sér hættu á greiðslusvikum eða annars konar misnotkun. Sama skal einnig eiga við þegar greiðsla er sett af stað fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda eða þegar óskað er eftir upplýsingum fyrir milligöngu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda.
    Öryggi rafrænna greiðslna er mikilvægt til að tryggja vernd notenda og þróun trausts umhverfis fyrir rafræna verslun. Markmiðið er því að efla öryggisráðstafanir í tilviki rafrænna greiðslna, sbr. 95. lið formálsorða tilskipunarinnar. Án sterkrar sannvottunar er hægt að framkvæmda greiðslu með greiðslukorti einungis með því að styðjast við upplýsingar sem eru á greiðslukortinu sjálfu. Með sterkri sannvottun er hins vegar t.d. krafist samþykkis með SMS-skilaboðum. Það er því augljóslega erfiðara að misnota greiðslukortið þegar krafist er sterkrar sannvottunar.
    Aukin hætta á svikum er fyrir hendi í þeim tilvikum þegar greiðandi og viðtakandi greiðslu eru ekki landfræðilega á sama stað. Af þeim sökum eru lagðar til auknar kröfur í þeim tilvikum með því að greiðsla skal tengd með virkum hætti við tiltekna fjárhæð og tiltekinn viðtakanda.

3.8. Eftirlit og réttarúrræði.
3.8.1 Eftirlit.
    Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði alfarið falið eftirlit með framkvæmd laga um greiðsluþjónustu. Áður hafði Fjármálaeftirlitið eftirlit með framkvæmd laganna að undanskildu eftirliti með ákvæði 7. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, um þátttöku í greiðslukerfum, sem er nú í 36. gr. frumvarpsins. Í frumvarpi þessu er fallið frá þeirri skipan þar sem dregið hefur verið í efa að Samkeppniseftirlitið gæti beitt valdheimildum samkeppnislaga vegna brots á 7. gr. laga nr. 120/2011 þar sem valdheimildir og viðurlagaákvæði samkeppnislaga taka til brota á þeim lögum en ekki öðrum.
    Hafa þarf í huga að þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitinu sé ekki fengið sérstakt eftirlitsverkefni á grundvelli þessa frumvarps þá taka samkeppnislög til þeirrar háttsemi sem fyrirtæki sem starfa á þessu sviði viðhafa. Þannig getur synjun á greiðsluþjónustu falið í sér brot á samkeppnislögum hvort sem Samkeppniseftirlitinu er falið að hafa eftirlit með 36. gr. frumvarpsins eða ekki.
    Meginefni tilskipunarinnar snýr að skyldum greiðsluþjónustuveitenda gagnvart notendum greiðsluþjónustu og leggur þeim meðal annars skyldur á herðar að því er varðar ítarlega samningsskilmála. Skipan mála hvað varðar eftirlit með framkvæmd laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, hefur ekki sætt gagnrýni og því má ljóst vera að það samræmist vel þeim venjum sem eru um eftirlit á fjármálamarkaði að fela Fjármálaeftirlitinu í 102. gr. alfarið eftirlit með lögum um greiðsluþjónustu. Það athugast að Persónuvernd hefur eftirlit með ákvæðum laga sem snerta vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 98. gr. frumvarpsins.
    Líkt og greinir í 4. gr. og 22. gr., 30. gr. og 31. gr. er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið veiti greiðslustofnunum starfsleyfi skv. II. kafla og hafi eftirlit með starfsemi þeirra. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit sem lögbært yfirvald í heimaaðildarríki með starfsemi innlendra greiðslustofnana, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu hérlendis og erlendis og að Fjármálaeftirlitið sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hafi eftirlit með umboðsaðilum og útibúum erlendra greiðslustofnana hérlendis vegna IV.–VII. kafla laganna, sbr. 2. og 3. mgr. 102. gr. Að sama skapi er lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með greiðsluþjónustu hérlendis í útibúum og fyrir milligöngu hérlends umboðsaðila stofnunar með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skv. 29. gr. vegna greiðslustofnana frá þriðja ríki. Í 4. mgr. 102. gr. er lagt til að um eftirlit Fjármálaeftirlitsins gildi lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

3.8.2. Réttarúrræði.
    Lagt er til í 103. gr. að á greiðsluþjónustuveitanda verði lögð sú skylda að hann hafi fyrir hendi sérstaka málsmeðferð til að greiða úr kvörtunum notenda greiðsluþjónustu um réttindi og skyldur sem leiða af IV.–VII. kafla laganna. Sama málsmeðferð skal viðhöfð vegna kvartana frá öllum notendum greiðsluþjónustunnar óháð því í hvaða aðildarríki þeir þáðu þjónustuna. Seðlabanka Íslands er síðan falið að setja frekari reglur.
    Líkt og kveðið er á um í 76. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, er lagt til í 104. gr. frumvarpsins að notandi greiðsluþjónustu geti skotið ágreiningi við greiðsluþjónustuveitanda til óháðs úrskurðaraðila. Í 105. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið og greiðsluþjónustuveitendur skuli gera rafrænan bækling Framkvæmdastjórnar Evrópu um réttindi neytenda samkvæmt tilskipuninni og tengdri löggjöf Evrópusambandsins, tiltækan og aðgengilegan. Neytendum á því að vera kunnugt um rétt sinn og geta fengið úrlausn mála sinna.

3.9. Breytingar á lögum um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013.
    Í 111. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um breytingar á tilskipun 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim eða svokallaðri EMDII sem innleidd var með lögum um útgáfu og meðferð rafeyris nr. 17/2013. Í a–y-lið 1. tölul. 117. gr. frumvarpsins eru því gerðar breytingar á þeim lögum. Breytingarnar lúta að ákvæðum í III. kafla þeirra um rafeyrisfyrirtæki og IV. kafla um eftirlit, réttarúrræði og viðurlög og er ætlað að samræma þau ákvæði sambærilegum ákvæðum í frumvarpi þessu. Ákvæðin voru samræmd sambærilegum ákvæðum í lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, enda gerður áskilnaður um slíkt í EMDII sem vísaði þá til tiltekinna ákvæða í tilskipun 2007/69/EB eða PSD1 tilskipuninni fyrirrennara PSD2. Ákvæðin sem lagt er til að verði breytt eru:
»      4. gr. um orðskýringar,
»      9. gr. um rekstrarform og höfuðstöðvar,
»      13. gr. um útreikninga eigin fjár rafeyrisfyrirtækja,
»      17. gr. um skrá yfir rafeyrisfyrirtæki,
»      18. gr. um umsókn um starfsleyfi,
»      20. gr. um starfsleyfisskilyrði,
»      21. gr. um tilkynningu um veitingu eða synjun starfsleyfis,
»      22. gr. um afturköllun leyfis,
»      24. gr. um starfsemi,
»      25. gr. um varðveislu fjármuna,
»      27. gr. um reikningsskil og endurskoðun,
»      28. gr. um eftirlit,
»      29. gr. um starfsemi innlendra rafeyrisfyrirtækja erlendis án stofnunar útibús,
»      30. gr. um starfsemi innlendra rafeyrisfyrirtækja erlendis með stofnun útibús,
»      31. gr. um veitingu þjónustu erlendis í gegnum umboðsaðila,
»      33. gr. um þjónustu rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu án stofnunar útibús,
»      34. gr. um þjónustu rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis með stofnun útibús,
»      35. gr. um opnun útibús eða dreifingu rafeyris fyrir milligöngu umboðsaðila af hálfu fyrirtækis utan Evrópska efnahagssvæðisins,
»      einnig eru lagðar til tvær nýjar greinar: 35. gr. a um eftirlit gistiaðildarríkis með rafeyrisfyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu yfir landamæri með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila; og 35. gr. b um eftirlit með rafeyrisfyrirtækjum með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu hérlendis með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila,
»      36. gr. um veitingu rafeyrisþjónustu í gegnum umboðsaðila,
»      37. gr. um veitingu greiðsluþjónustu rafeyrisfyrirtækis í gegnum umboðsaðila,
»      38. gr. um útvistun rekstrarþátta,
»      41. gr. um Fjármálaeftirlit,
»      42. gr. um úrskurðaraðila,
»      43. gr. um stjórnvaldssektir.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á Evrópugerð og ekki er tilefni til að ætla að efni þess stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst neytendur, söluaðila, lánastofnanir, greiðslustofnanir og rafeyrisfyrirtæki. Þá leiðir það til nýrra verkefna hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Fjármála- og efnahagsráðherra skipaði nefnd 31. október 2017 undir forystu ráðuneytisins skipaða fulltrúum frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og Samtökum fjármálafyrirtækja til að rýna tilskipunina. Í kjölfarið var frumvarpið samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
    Áform um frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu og frummat á áhrifum voru birt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-137/2020) 16. júlí 2020 og var opið fyrir umsagnir til 31. ágúst 2020. Ein umsögn barst frá Samtökum fjármálafyrirtækja þar sem óskað var eftir því að haghafar fengju góðan tíma til að kynna sér drög að frumvarpinu. Ráðuneytið brást við því með að þegar frumvarpið var birt í samráðsgáttinni var opið fyrir umsagnir við drögin í þrjár vikur í stað tveggja eins og áskilið er að lágmarki auk þess sem ráðuneytið birti kynningarefni um frumvarpið í samráðsgáttinni. Samkvæmt umsögninni telja Samtök fjármálafyrirtækja að það verði áskorun að ljúka uppsetningu á prófunarkerfi til að prófa samskipti banka og nýrra aðila, þ.e. greiðsluvirkjenda og reikningsupplýsingaþjónustuveitenda fyrir 1. júlí 2021. Jafnframt sé æskilegt að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands styðji við þá vinnu til að auka líkur á að niðurstaðan verði í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í frumvarpinu. Ráðuneytið telur að enn sé nægur tími til að mæta kröfum frumvarpsins í tæka tíð. Að auki hefur frumvarpið í för með sér mikilvæga réttarbót fyrir neytendur og er ætlað að efla nýsköpun og auka samkeppni á sviði greiðsluþjónustu. Ráðuneytið telur því ekki ástæða til að seinka fyrirætlunum um gildistöku reglna Seðlabanka Íslands um sterka sannvottun og örugg samskipti á milli banka og nýrra greiðsluþjónustuveitenda sem Seðlabankanum verður skylt að setja á grundvelli laganna frá því sem kynnt var í áformum ráðuneytisins síðastliðið sumar.
    Þá var haft samráð við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið við samningu frumvarpsins.
    Drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um greiðsluþjónustu voru birt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 4. nóvember 2020 (mál nr. S-232/2020) með fresti til að skila umsögn til 24. nóvember 2020. Frumvarpinu fylgdi kynning á frumvarpinu og yfirlit með samanburði ákvæða á milli gildandi laga og frumvarpsins. Fjórar umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Neytendastofu, Samtökum fjártæknifyrirtækja og Persónuvernd.
    Samtök fjármálafyrirtækja eru fylgjandi innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt enda mikilvægt að íslenskur fjármálamarkaður starfi eftir alþjóðlega viðurkenndri lagaumgjörð. Var sú leið farin að senda frumvarpsdrögin, með athugasemdum, sem fylgiskjal með umsögninni en í því voru ýmsar tillögur að breytingum á lagatexta og texta í greinargerð.
    Samtök fjármálafyrirtækja gera athugasemd við að 11. gr. frumvarpsins um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra greiðslustofnunar vísi til 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem fjallað er um önnur störf stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Samtök fjármálafyrirtækja benda á að ekki sé um innleiðingu á greiðsluþjónustutilskipuninni að ræða heldur innleiðingu á tilskipun um eiginfjárkröfur fjármálafyrirtækja sem gildi ekki um greiðslustofnanir að þessu leyti. Gildandi lög um greiðsluþjónustu vísa til alls VII. kafla í lögum um fjármálafyrirtæki um stjórn, stjórnarhætti og starfsmenn en ráðuneytið taldi nákvæmara að vísa einungis til 52. gr. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki. Ákvæði 52. gr. a er séríslensk grein sem kom inn í lög nr. 161/2002 á fjármálamarkaði árið 2010 eftir reynsluna af fjármálahruninu og á að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem komið geta upp við að stjórnarmenn sitji í stjórn fleiri en eins óskylds aðila á fjármálamarkaði. Telja verður eðlilegt að sömu kröfur séu gerðar til stjórnarmanna í greiðslustofnunum og fjármálafyrirtækjum hvað þetta varðar.
    Samtök fjármálafyrirtækja lögðu til að skerpt yrði á orðalagi 12. gr. um starfsleyfisskilyrði í þá veru að ljóst sé af ákvæðinu að reikningsupplýsingaþjónustuveitendur sæki um skráningu hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands en aðrir greiðsluþjónustuveitendur um starfsleyfi og var orðið við því.
    Bent var á varðandi 1. og 5. mgr. 36. gr. sem fjallar um þátttöku í greiðslukerfum að reikningsupplýsingaþjónustuveitendur gefa ekki greiðslufyrirmæli og var orðalagi ákvæðisins breytt í þá veru að það tekur eingöngu til greiðsluþjónustuveitanda með starfsleyfi til að bæta úr því.
    Samtök fjármálafyrirtækja bentu á að í 40. gr. frumvarpsins um heimild til að vísa ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til dómstóla vantaði orðið „athafnaleysi“ til að fylgja orðalagi 25. gr. tilskipunarinnar. Hefur nú verið bætt úr því.
    Ákvæði 55. gr. fjallar um að upplýsingar og skilmálar rammasamnings skuli ávallt vera aðgengilegir notanda greiðsluþjónustu og lögðu Samtök fjármálafyrirtækja til að greiðsluþjónustuveitandi geti uppfyllt skyldur sínar með því að upplýsa notanda greiðsluþjónustu um hvar upplýsingar er að finna á vefs sínum. Því er til að svara að ákvæðið segir í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar að notandi greiðsluþjónustu eigi rétt á að fá upplýsingarnar á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Hefur hugtakið varanlegur miðill þróast með ákveðnum hætti í EES-rétti sem ráðuneytið telur eðlilegt að verði litið til við túlkun ákvæðisins. Samkvæmt því verður upplýsingunum að vera beint persónulega til notandans og hann að geta afritað þær óbreyttar. Ráðuneytið telur að viðbótin sem lögð er til geti takmarkað þau réttindi sem tryggja á notanda greiðsluþjónustu samkvæmt tilskipuninni og verður því ekki fallist á hana.
    Samtök fjármálafyrirtækja leggja til að í 57. gr., sem fjallar um uppsögn rammasamnings, verði viðbótarheimildir til handa greiðsluþjónustuveitanda fyrir einhliða og fyrirvaralausri uppsögn rammasamnings. Ákvæðið er ekki í samræmi við tilskipunina og er því ekki fallist á tillöguna. Þá kveða lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á um að slíta skuli samningssambandi við notanda fjármálaþjónustu án tafar ef fyrir liggur grunur um brot gegn þeim lögum svo ekki er þörf á því að endurtaka þá heimild hér.
    Samtök fjármálafyrirtækja leggja til viðbót við 73. gr. sem fjallar um hvenær greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu, sem oftast er banki, getur synjað um upplýsingar og aðgang að greiðslureikningi. Viðbótin er ekki í samræmi við tilskipunina og er því ekki fallist á hana.
    Þá bentu Samtök fjármálafyrirtækja á að betur færi á að í fyrirsögn 80. gr. væri notað orðið „ábyrgð“ í stað „bótaábyrgðar“ en ákvæðið fjallar um ábyrgð greiðanda þegar um ræðir óheimila greiðslu. Var fallist á tillöguna.
    Þá var bent á vegna 104. gr., sem fjallar um úrskurðaraðila að frá því að frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda hefur atvinnu- og nýsköpunarráðherra birt frumvarp í samráðsgátt þar sem lagt er til að úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki verði ekki lengur lögbundin en þess í stað gildi lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Ákvæði 104. gr. hefur verið endurskoðað með hliðsjón af þessum fyrirætlunum.
    Að lokum gerðu Samtök fjármálafyrirtækja tillögur að breytingum á orðalagi greinargerðar og skýringa við ýmis ákvæði í frumvarpinu og var fallist á þær þar sem þær töldust til bóta.
    Neytendastofa vildi í umsögn sinni vekja sérstaka athygli fjármála- og efnahagsráðuneytisins á skýrslu starfshóps atvinnu- og nýsköpunarráðherra um starfsumhverfi smálánafyrirtækja sem skilaði niðurstöðu sinni í janúar 2019. Í niðurstöðum starfshópsins var því velt upp hvort hægt sé að gera auknar kröfur til banka og sparisjóða þegar kemur að könnun áreiðanleika viðskiptavina þeirra eða hvort breyta megi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, svo sem með því að banna innheimtu kostnaðar sem brýtur í bága við lög um neytendalán. Því er til að svara að ráðuneytið telur slíka kröfu vera of íþyngjandi hvað varðar allar greiðslur í greiðslukerfum en kanna mætti hvort hægt væri að skylda greiðsluþjónustuveitendur til að stöðva greiðslur fyrir ákveðna veitendur smálána sem Neytendastofa hefur úrskurðað brotlega við lög um neytendalán. Bann af þeim toga ætti þó best heima í lögum um neytendalán. Af hálfu Neytendastofu var enn fremur óskað eftir að kannað væri hvort hægt sé að veita greiðendum sem eru neytendur aukinn rétt til leiðréttingar á óheimilli eða ranglega framkvæmdri greiðslu skv. 77. gr. frumvarpsdraganna eða endurgreiðslu á greiðslum sem viðtakandi greiðslu setur af stað/eða hefur milligöngu um skv. 82. gr. frumvarpsdraganna. Að mati ráðuneytisins eru ákvæði 77. gr. og 82. gr. í fullu samræmi við tilskipunina sem almennt styrkir réttindi neytenda og því ekki tilefni til að breyta þeim.
    Samtök fjártæknifyrirtækja eru fylgjandi innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt og telja mikilvægt að innleiðingunni verði hraðað eins og mögulegt er. Að mati samtakanna er rétt að forðast að setja fram í lögunum og frumvarpinu ákvæði eða skýringar sem ekki samræmast tilskipuninni. Sem dæmi um skilgreiningu sem rétt er að gæta að haldi þeirri almennu skírskotun og þýðingu sem þeim er ætlað að hafa eru hugtök eins og „varanlegur miðill“. Þá er Samtökum fjártæknifyrirtækja sérstaklega umhugað um að lagasetningunni og meðfylgjandi regluverki verði fylgt eftir eins hratt og hægt er. Þrátt fyrir að gildistaka sé lögð til 1. júlí 2021 þá sé ekki skýrt hvernig fylgja eigi eftir gildistöku tæknistaðla og afleiddra reglugerða. Að mati samtakanna er sérstaklega mikilvægt að tæknistaðlar fyrir sterka sannvottun og örugga sameiginlega opna samskiptastaðla taki gildi á sama tíma og lögin og leggja til að slíkt verði áskilið í frumvarpinu. Því er til að svara að lagt hefur verið til bráðabirgðaákvæði í lögunum sem á að tryggja að umræddar reglur liggi fyrir í tæka tíð og að greiðsluþjónustuveitendur verði tilbúnir með netskilafleti 1. júlí 2021.
    Í umsögn Persónuverndar eru gerðar nokkrar athugasemdir. Persónuvernd leggur til að við 21. gr. um varðveislu gagna verði bætt málsgrein þar sem kveðið verði á um að ekki skuli varðveita persónuupplýsingar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu á því formi að unnt sé að bera kennsl á skráða einstaklinga. Framsetning ákvæðisins er í samræmi við tilskipunina. Því var ekki fallist á breytingatillögu Persónuverndar en þess í stað hefur verið gerð breyting á skýringu við 21. gr. og minnst á að um vinnslu persónuupplýsinga fari samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 98. gr. frumvarpsins. Persónuvernd taldi æskilegra að í 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 71. gr. yrði notast við orðalagið „vinna með“ í stað „nota, nálgast né geyma“. Ákvæðin eru í samræmi við tilskipunina og því var ekki fallist á tillögu Persónuverndar en þess í stað hefur tillaga Persónuverndar verið felld inn í texta skýringa við ákvæðin til aukins skýrleika. Með sömu sjónarmiðum var ekki unnt að fallast á með Persónuvernd að skýra yrði nánar í skýringu við 3. mgr. 65. gr. til hvaða sjónarmiða í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga vísað er í 3. mgr. 65. gr. frumvarpsins þar sem 3. mgr. 65. gr. tilskipunarinnar vísar beinlínis til tilskipunar 95/46/EB, fyrirrennara reglugerðar (ESB) 2016/679, sem innleidd var með lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Þá benti Persónuvernd á ósamræmi í texta milli 1. og 3. mgr. 68. gr. og 3. mgr. 68. gr. í skýringum við ákvæðin. Ákvæðið hefur verið lagfært meðal annars með því að færa inn orðin: „notanda greiðsluþjónustu“ í 3. mgr. 68. gr. frumvarpsins í til samræmis við c-lið 3. mgr. 66. gr. tilskipunarinnar. Persónuvernd taldi einnig á vanta að fjallað væri nánar um í skýringum við 1. mgr. 65. gr. hvaða kröfur væru gerðar til skýlauss samþykkis og að hvaða leyti slíkt samþykki sé frábrugðið afdráttarlausu samþykki samkvæmt lögum um persónuvernd. Hefur verið fallist á þessa athugasemd og í skýringum við ákvæðið hefur verið bætt við orðunum: „í tengslum við aðgengi að, vinnslu og varðveislu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að veita greiðsluþjónustu og er þess vegna ekki það sama og afdráttarlaust samþykki samkvæmt lögum vinnslu og meðferð persónuupplýsinga“. Er það gert með vísan til skýringar númer 35 í leiðbeiningum Evrópska persónuverndarráðsins nr. 06/2020 frá 17. júlí 2020. Persónuvernd gerði einnig athugasemd við að í frumvarpinu væri vísað til „meðferðar persónuupplýsinga“ og lagði til að fremur skyldi talað um „vinnslu persónuupplýsinga“. Var fallist á þá athugasemd.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér að löggjöf um greiðsluþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins verður samþætt í þeim tilgangi að skapa jafnari samkeppnisgrundvöll fyrir alla markaðsaðila og koma á eftirliti með nýjum tegundum greiðsluþjónustuveitenda. Jafnframt á frumvarpið að leiða til aukins framboðs og nýjunga í greiðsluþjónustu fyrir neytendur og söluaðila, auk þess að efla upplýsingaöryggi og neytendavernd.
    Úrval greiðsluþjónustuleiða kann að aukast, sérstaklega tengt nýsköpun í kortum og net- og símalausnum sem meðal annars geta komið frá nýjum tegundum greiðsluþjónustuveitenda, greiðsluvirkjendum og reikningsupplýsingaþjónustuveitendum. Neytendavernd verður efld þar sem gildissvið nýju laganna verður víðtækara en þeirra eldri. Gildissvið frumvarpsins nær til allra gjaldmiðla ef annar greiðsluþjónustuveitandinn er staðsettur á Evrópska efnahagssvæðinu en ekki einungis til gjaldmiðla aðildarríkja líkt og áður. Nýsköpunaraðilar á sviði greiðsluþjónustu, þ.e. greiðsluvirkjendur og reikningsupplýsingaþjónustuveitendur þurfa nú að sæta eftirliti. Á móti kemur að þeir njóta góðs af jafnari samkeppnisgrundvelli við rótgrónari fyrirtæki. Jafnframt verða meiri kröfur gerðar til upplýsingagjafar frá greiðsluþjónustuveitendum og sömu aðilum verður gert að taka meiri ábyrgð á að tryggja örugga greiðslumiðlun, meðal annars með því að krefja greiðendur um sterka sannvottun við netgreiðslur og draga þannig úr sviksemi við framkvæmd greiðslna.
    Tekjur starfandi greiðsluþjónustuveitenda munu líklega dragast saman vegna aukinnar samkeppni frá nýjum tegundum greiðsluþjónustuveitenda á markaði og erlendum greiðsluþjónustuveitendum sem hyggjast veita þjónustu yfir landamæri. Bankar munu þurfa að veita nýjum greiðsluþjónustuveitendum, þ.e. greiðsluvirkjendum og reikningsupplýsingaþjónustuveitendum sem hafa skýlaust samþykki viðskiptavina aðgang að upplýsingum í kerfum sínum af greiðslureikningum viðskiptavina án endurgjalds. Gagnasamskipti þeirra í milli skulu vera örugg og í samræmi við reglur sem Seðlabanki Íslands setur og innleiða framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/389 sem kveður á um tæknistaðla fyrir sterka sannvottun og örugga sameiginlega opna samskiptastaðla. Einhver kostnaður mun hljótast af því að uppfylla skilyrði öruggu samskiptanna. Mögulegt er að samræming á reglum og frekari stöðlun, þ.m.t. í tækni, í viðskiptum tengdum greiðsluþjónustu hafi í för með sér sparnað til lengri tíma litið. Lagabreytingin kann einnig að skapa tækifæri fyrir nýjar virðisaukandi þjónustur sem og þjónustu íslenskra greiðsluþjónustuveitenda yfir landamæri.
    Helstu áhrif frumvarpsins á söluaðila (smásala) er aukin stærðarhagkvæmni fyrir söluaðila með netverslun. Hún helgast af betra aðgengi að greiðsluþjónustuveitendum, meðal annars utan heimalands, þar sem koma á í kring samvirkni á milli kerfa. Slíkt á að auka möguleika greiðsluþjónustuveitenda að bjóða upp á greiðslulausn yfir landamæri fyrir debetkort og netgreiðslur og þannig styðja við að söluaðili geti hjá einum greiðsluþjónustuveitanda samið um greiðslulausnir og notið stærðarhagkvæmni í verði og þjónustu. Ný lög munu gera auknar kröfur til allra þeirra sem veita greiðsluþjónustu um að krefjast sterkrar sannvottunar á netgreiðslum og mun það hafa áhrif á söluaðila með því að seinka afgreiðslu í netverslun og valda einhverjum kostnaði í innleiðingu.
    Áformuð lagasetning mun fela í sér aukin verkefni fyrir Seðlabanka Íslands. Með lagasetningunni munu greiðsluvirkjandi og reikningsupplýsingaþjónustuveitandi verða nýir greiðsluþjónustuveitendur á greiðslumarkaðnum og lúta eftirliti eða, eftir atvikum, verða skráningarskyldir. Gerðar verða tæknilegar kröfur til upplýsingakerfa þeirra og að þeir komi á og viðhaldi eftirlitskerfi rekstrar- og öryggisáhættu. Þær kröfur sem Fjármálaeftirlitið mun annast eftirlit með eru að miklu leyti nýmæli. Stofnunin mun jafnframt sinna starfsleyfisumsóknum og umsóknum um skráningar frá þeim sem vilja sinna greiðsluþjónustu. Annast þarf eftirlit með nýjum tegundum greiðsluþjónustuveitenda til frambúðar eftir að umsóknir hafa verið afgreiddar. Þá þarf að uppfæra ýmis innanhússkerfi vegna nýrra eftirlitsskyldra aðila og taka á móti gögnum og upplýsingum. Sinna þarf viðvarandi eftirliti með opnun netskilflata (e. online interface) hjá viðskiptabönkum og lánastofnunum til þriðju aðila sem heimilt verður að fá gögn af greiðslureikningum viðskiptavina þeirra með þeirra samþykki.
    Gert er ráð fyrir að ný verkefni vegna áformaðrar lagasetningar feli í sér kostnað fyrir Seðlabanka Íslands sem nemur 25 millj. kr. á ársgrundvelli. Hefur þá verið tekið tillit til launa og aðstöðu til uppbyggingar upplýsingakerfa. Þessum viðbótarkostnaði verður mætt með hækkun eftirlitsgjalds. Að öðru leyti er ekki talið að áhrifin af reglusetningu sem slíkri hafi bein áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að gildissvið verði skilgreint í 1. gr. Um er að ræða innleiðingu á 2. og 82. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði skýrt á um að lögin skuli ná til greiðsluþjónustu sem veitt er hér á landi, jafnvel þó að aðeins hluti þjónustunnar fari fram hérlendis. Með ákvæðum 2.–5. mgr. er gildissviðið skýrt nánar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að IV.–VII. kafli skuli gilda um greiðslur í gjaldmiðli aðildarríkis ef bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru staðsettir í aðildarríki eða ef einungis einn greiðsluþjónustuveitandi kemur að framkvæmd greiðslunnar og er staðsettur í aðildarríki. Greiðsluþjónustuveitandi telst staðsettur í aðildarríki ef hann hefur tilskilin leyfi til að veita greiðsluþjónustu í aðildarríki. Með aðildarríki er skv. 1. tölul. 3. gr. átt við ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að IV. kafli, að undanskildum tilteknum ákvæðum gildi um greiðslur sem framkvæmdar eru á Evrópska efnahagssvæðinu og í gjaldmiðli sem er ekki gjaldmiðill aðildarríkis ef bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru staðsettir í aðildarríki, eða ef einungis einn greiðsluþjónustuveitandi kemur að framkvæmd greiðslu og er staðsettur í aðildarríki.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að ákvæði IV. kafla, að undanskildum tilteknum ákvæðum, gildi um greiðslur í öllum gjaldmiðlum, hvort heldur gjaldmiðli aðildarríkis eða ekki, þar sem annar greiðsluþjónustuveitandinn er staðsettur í aðildarríki og um er að ræða framkvæmdar greiðslur innan Evrópska efnahagssvæðisins. Breytingin á milli gildandi laga og þessa frumvarps er að gildissviðið hefur verið útvíkkað og nær ekki einungis til svokallaðra „one-leg“-greiðslna í evrum eða öðrum gjaldmiðlum innan Evrópska efnahagssvæðisins heldur til allra gjaldmiðla. Með „one-leg“ er átt við að einungis annar greiðsluþjónustuveitandinn, sem kemur að framkvæmd greiðslu, sé staðsettur í aðildarríki.
    Í 5. mgr. er þrengt að skilyrðum þeim sem koma fram í 4. mgr. vegna tiltekinna greiðslna og um þær gilda sérreglur. Sérreglur eiga við um framkvæmdartíma greiðslu og gildisdag skv. 88.–91. gr. Sérreglurnar koma fram í undirkafla F í V. kafla frumvarpsins.
    Lagt er til að Ísland nýti ekki heimildina í 5. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar sem tæki þá til Byggðastofnunar og Lánasjóðs sveitarfélaga. Þær stofnanir stunda ekki greiðsluþjónustu en skyldu þær ætla sér það síðar væri eðlilegt að um hana giltu reglur þessa frumvarps.

Um 2. gr.

    Hér er um innleiðingu á 3. gr. tilskipunarinnar að ræða.
    Um 1. tölul. Lagt er til að ákvæði frumvarpsins eigi ekki við um milliliðalausar greiðslur í reiðufé frá greiðanda til viðtakanda greiðslu. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
    Um 2. tölul. Undanþágan nær til umboðsaðila sem hefur umboð frá annaðhvort seljanda eða kaupanda til að selja eða kaupa vöru/þjónustu fyrir hönd greiðanda eða viðtakanda greiðslu. Annaðhvort tekur umboðsaðili við greiðslu frá greiðanda (kaupanda) fyrir hönd viðtakanda greiðslu (seljanda) eða sendir fyrirmæli um greiðslu til viðtakanda hennar (seljanda) fyrir hönd kaupanda. Í báðum tilvikum er litið svo á að greiðslan falli einungis undir samning milli seljanda og kaupanda. Hlutverk umboðsaðilans fellur utan gildissviðs laganna og telst hann þar af leiðandi ekki greiðsluþjónustuveitandi samkvæmt þeim, óháð því hvort hann hafi í umboði sínu haft fjármuni um stundarsakir í sínum vörslum fyrir hönd annaðhvort seljanda eða kaupanda, eftir því sem við á. Er slíkt í samræmi við þá staðreynd að hann hefur umboð umbjóðanda síns og kemur því fram fyrir hans hönd. Undanþágan nær aukinheldur til tilvika þar sem umboðsaðili kemur fram bæði fyrir hönd greiðanda og viðtakanda greiðslu, t.d. í tengslum við rekstur netverslunar , að því gefnu að umboðsaðili hafi á engum tímapunkti fjármuni viðskiptavinar í sinni vörslu eða undir sinni stjórn. Þessi breyting frá 2. tölul. 2. gr. gildandi laga er á þann veg að koma á í veg fyrir að sami rekstraraðili geti bæði móttekið greiðslur fyrir hönd seljanda vöru/þjónustu og sent greiðslufyrirmæli fyrir hönd kaupanda. Með því fyrirkomulagi sem er í gildandi lögum er aukin hætta á að neytendavernd verði kastað fyrir róða þar sem greiðslurnar falla þá utan gildissviðs laganna sem er meðal annars ætlað að tryggja vernd til handa neytendum. Um er að ræða innleiðingu b-liðar 3. gr. tilskipunarinnar.
    Um 3. tölul. Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um flutning í atvinnuskyni á áþreifanlegum seðlum og mynt. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Um er að ræða innleiðingu á c-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
    Um 4. tölul. Undantekning þessi á einungis við um greiðslur í reiðufé. Ef söfnun í þessu skyni fer hins vegar fram með millifærslum af bankareikningum eða kortagreiðslum á netinu falla greiðslurnar undir gildissvið laga þessara. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, og er innleiðing á d-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
    Um 5. tölul. Undanþágan á við um tilvik þegar viðskiptavinur í tengslum við kaup á þjónustu eða vöru, sem ekki er greitt fyrir með reiðufé, greiðir meira en andvirðinu nemur og fær til baka reiðufé sem er þá umfram verð vörunnar eða þjónustunnar. Undanþágunni er ætlað að tryggja að verslunareigandinn, sem býður téða þjónustu, verði ekki talinn greiðsluþjónustuveitandi. Greiðslan sem viðskiptavinurinn innti af hendi með greiðslumiðli fellur hins vegar undir lögin. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Um er að ræða innleiðingu á e-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
    Um 6. tölul. Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um gjaldeyrisviðskipti í reiðufé þar sem fjármunir eru ekki geymdir á greiðslureikningi. Sem dæmi um slíka starfsemi má nefna gjaldeyrisskiptastöðvar, sbr. 8. tölul. 3. gr. og 35. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Undantekning þessi á því bæði við um skipti ólíkra gjaldmiðla í reiðufé, og skipti á t.d. stærri mynt fyrir smærri í sama gjaldmiðli, svo sem skipti á fimm hundruð króna seðli í fimm hundrað krónu myntir. Um er að ræða innleiðingu á f-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 7. tölul. Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um greiðslur fjármuna til viðtakanda sem byggjast á tékkum, ferðatékkum, víxlum, úttektarseðlum og póstávísunum á pappír. Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Um er að ræða innleiðingu á g-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 8. tölul. Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um greiðslur sem fara fram í greiðslu- eða verðbréfauppgjörskerfi milli uppgjörsaðila, miðlægra mótaðila, greiðslujöfnunarstöðva og/eða seðlabanka og annarra aðila að kerfinu og greiðsluþjónustuveitenda, með fyrirvara um 36. gr. Ákvæði þetta hefur því ekki áhrif á ákvæði 36. gr. um þátttöku í greiðslukerfum. Undantekning þessi hefur í för með sér að lögin gilda ekki um greiðslur milli Seðlabanka Íslands annars vegar og reikningseigenda í Seðlabankanum hins vegar, svo og um allar greiðslur milli reikningseigenda í Seðlabankanum. Efni ákvæðins er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Um er að ræða innleiðingu á h-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 9. tölul. Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um greiðslur sem tengjast umsýslu verðbréfa, þ.m.t. arðgreiðslur, aðrar tekjur, svo sem vegna innlausnar eða sölu, sem nánar tilgreindir aðilar annast. Töluliðurinn er óbreyttur frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Um er að ræða innleiðingu á i-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 10. tölul. Lagt er til að stoðþjónusta tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustuveitendur falli utan gildissviðs laganna, þ.m.t. úrvinnsla og geymsla gagna, þjónusta við verndun trúnaðarupplýsinga, sannvottun gagna, rekstur samskiptanets ásamt afhendingu og viðhaldi á greiðsluposum eða sambærilegu, svo sem netposum o.fl., enda hafi tækniþjónustufyrirtækin aldrei eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skal. Tækniþjónustufyrirtækin sem hér um ræðir eru ekki í beinu samningssambandi við notendur greiðsluþjónustu hvort sem þau eru greiðendur eða viðtakendur greiðslu. Sem dæmi um tækniþjónustufyrirtæki er hægt að nefna Reiknistofu bankanna hf. (RB), Verifone á Íslandi ehf. og LS Retail ehf. Þau nýmæli eru í ákvæðinu að minnst er á greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu og skýrt tekið fram að slík þjónusta falli undir lögin og undanþágan eigi því ekki við um hana. Ef tækniþjónustufyrirtæki, sem njóta undanþágunnar, fara að bjóða greiðsluvirkjun eða reikningsupplýsingaþjónustu fellur sú þjónusta þar með undir gildissvið laganna. Um er að ræða innleiðingu á j-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 11. tölul. Lagt er til að þjónusta sem byggist á greiðslumiðlum, sem aðeins er hægt að nota til kaupa á vöru og þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða á athafnasvæði nets þjónustuveitenda samkvæmt viðskiptasamningi hvers þeirra um sig við útgefanda, falli utan gildissviðs laganna. Um er að ræða undanþágu vegna afmarkaðs þjónustukerfis. Greiðslumiðill sem einungis er hægt að nota í tiltekinni verslunarmiðstöð getur talist vera dæmi um afmarkað athafnasvæði. Er þá átt við að allar verslanir og þjónustuaðilar í verslunarmiðstöðinni hafi gert með sér samning um útgáfu greiðslumiðils sem hægt er að nota til að greiða öllum verslunar- og þjónustuaðilum í verslunarmiðstöðinni og einungis er unnt að nota í verslunarmiðstöðinni. Annað dæmi er þegar tiltekin verslunarkeðja gefur út sinn eigin greiðslumiðil til greiðslu á vöru eða þjónustu í verslunum innan keðjunnar. Ekki er gerð krafa til þess að allar verslanir í verslunarkeðjunni séu í eigu sama lögaðila heldur einungis að verslanirnar séu bundnar af sams konar samningi um að nota megi greiðslumiðilinn hjá þeim. Sé á hinn bóginn um að ræða fjölda söluaðila, sem taka við tilteknum greiðslumiðli, og sá hópur er ekki landfræðilega bundinn verslunarmiðstöð og getur þar af leiðandi endalaust fjölgað viðtakendum greiðslumiðilsins, þá er ekki um að ræða greiðslumiðil sem fellur utan gildissviðs laganna. Greiðslumiðill sem einungis er hægt að nota hjá útgefanda korts telst hafa takmarkað gildissvið. Um er að ræða innleiðingu á i-lið k-liðar 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 12. tölul. Lagt er til að greiðslumiðlar sem einungis er hægt að nota til kaupa á afmörkuðu úrvali vöru og þjónustu falli utan gildissviðs laganna, sbr. þó 2. og 3. mgr. 38. gr. Um er að ræða undanþágu vegna afmarkaðs þjónustukerfis. Skilyrðið er háð því að um sé að ræða afmarkaðan fjölda tengdra vara eða þjónustu án tillits til landfræðilegrar staðsetningar sölustaðarins, þ.e. ekki skiptir máli hvort mikill fjöldi verslana- og þjónustuaðila taki á móti téðum greiðslumiðli. Greiðslumiðlarnir geta verið eldsneytiskort, aðildarkort fyrir almenningssamgöngur, bílastæðamiðar og matarmiðar. Um er að ræða innleiðingu á ii-lið k-liðar 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 13. tölul. Lagt er til að greiðslumiðlar, sem aðeins eru gjaldgengir í einu aðildarríki og lagðir eru fram að ósk fyrirtækis eða opinbers aðila og falla undir reglur landsbundins eða svæðisbundins opinbers yfirvalds í tilteknum félagslegum eða skattalegum tilgangi í því skyni að kaupa tiltekna vöru eða þjónustu af birgjum sem hafa gert viðskiptasamning við útgefandann, falli utan gildissviðs laganna. Um er að ræða undanþágu vegna afmarkaðs þjónustukerfis. Tilgangurinn er að undanþiggja greiðslumiðla sem hafa félagslegan eða skattalegan tilgang, svo sem ávísun á matarinnkaup. Engin dæmi eru á Íslandi um notkun þess konar greiðslumiðla. Um er að ræða nýmæli og innleiðingu á iii-lið k-liðar 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 14. tölul. Hér er lögð til sú breyting að greiðsla sem framkvæmd er af veitendum fjarskiptaneta eða veitendum viðbótarþjónustu við fjarskiptaþjónustu fyrir áskrifanda að fjarskiptanetsþjónustunni eða viðbótarþjónustunni falli utan gildissviðs laganna í ákveðnum tilvikum. Í fyrsta lagi þarf samþykki greiðandans að hafa verið gefið með aðstoð stafræns búnaðar, símtækni- eða upplýsingatæknibúnaðar. Í öðru lagi þarf greiðslan að berast til rekstraraðila fjarskiptakerfisins eða netsins. Í þriðja lagi má rekstraraðili einungis gegna því hlutverki að vera milliliður milli notanda, greiðsluþjónustuveitanda, þess sem afhendir vöruna og þjónustuveitandans sem býður upp á vöruna. Það þýðir jafnframt að þessir þjónustuveitendur þurfa ekki að sæta eftirliti Fjármálalaeftirlitsins. Fjarskiptanet og fjarskiptaþjónusta eru skilgreind í lögum um fjarskipti. Þrátt fyrir að þjónustuveitendurnir þurfi ekki að sæta eftirliti Fjármálaeftirlitsins verða þeir eigi að síður að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsemi sína. Með því móti getur Fjármálaeftirlitið haft eftirlit með því að þjónustan sem veitt er sé undanþegin reglum frumvarpsins. Slíkt tryggir einsleita túlkun á reglunum á öllum innri markaðnum. Auk þess er neytendavernd tryggð með því. Stafrænt efni er vara eða þjónusta sem er í senn framleidd og afhent í stafrænu formi auk þess sem notkun efnisins getur einungis farið fram rafrænt. Dæmi um þjónustu af þessum toga eru hringitónar, sérstök smáskilaboð, talþjónusta, afþreying á borð við spjall, niðurhal, t.d. á myndböndum, tónlist og leikjum, upplýsingar um svo sem veður, fréttir, íþróttafréttir, hlutabréf, þátttöku í sjónvarps- og útvarpsútsendingum, t.d. með kosningu, þátttöku í keppnum og beinni endurgjöf.
     Um 15. tölul. Undantekning þessi á við um greiðslur sem ekki tilheyra notendum greiðsluþjónustu heldur greiðsluþjónustuveitendum sjálfum. Ákvæðið er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, og er innleiðing á m-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 16. tölul. Lagt er til að greiðslur og tengd þjónusta, sem fer fram milli móður- og dótturfélaga eða milli dótturfyrirtækja sama móðurfélagsins, falli utan gildissviðs laganna, enda fari greiðslur og tengd þjónusta fram fyrir milligöngu greiðsluþjónustuveitanda innan sömu samstæðu. Sú breyting hefur verið gerð frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, að bætt hefur verið við þjónustu sem er tengd greiðslum. Um er að ræða innleiðingu á n-lið 3. gr. tilskipunarinnar.
     Um 17. tölul. Undanþágunni svipar til undanþágu 5. tölul. 2. gr. Einungis úttekt fjármuna úr hraðbanka fellur utan gildissviðs reglna frumvarpsins að því gefnu að rekstraraðili hraðbankans veiti enga aðra greiðsluþjónustu. Greiðslur úr hraðbönkum sem reknir eru af greiðsluþjónustuveitendum sem veita aðra greiðsluþjónustu, t.d. bönkum, eru innan gildissviðs laganna. Á Íslandi eru Tomato-hraðbankar dæmi um hraðbanka þar sem rekstraraðili þjónustu hraðbankanna er ekki aðili að rammasamningi sem gildir um þann viðskiptavin sem tekur út fjármuni af viðeigandi greiðslureikningi. Aðilar að þeim rammasamningi eru hins vegar t.d. Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. Um rammasamning um notkun greiðslumiðils, svo sem greiðslukorts, og greiðslur í samræmi við hann gilda eigi að síður ákvæði laganna. Í ljósi neytendaverndar er rekstraraðila hraðbankans þó skylt að veita þeim sem tekur út fjármuni úr hraðbankanum upplýsingar um kostnað og annað sem hlýst af þjónustunni, sbr. 45. gr., 49. gr., 51. gr. og 52. gr. Rétt þykir að hnykkja á því að rekstraraðilar hraðbanka lúta lögum um greiðslur yfir landamæri í evrum, nr. 78/2014, að því marki sem þau lög taka til þeirra. Lög nr. 78/2014 eru innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 924/2009.

Um 3. gr.

    Hér er meðal annars um að ræða innleiðingu á 4. gr. tilskipunar ESB 2015/2366 að ræða.
    Í 1. tölul. er orðið aðildarríki skilgreint. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins nái til ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í 2. tölul. er orðið beingreiðsla skilgreint. Um ræðir innleiðingu á 23. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Grundvallaratriðið er að viðtakandi greiðslu á frumkvæði að því að greiðsla er tekin af reikningi viðkomandi á grundvelli samþykkis greiðanda. Þetta er öfugt við millifærslu fjármuna en þá gefur greiðandinn greiðslufyrirmæli. Þekkt er að fjarskiptafyrirtæki, orkufyrirtæki o.fl. bjóða viðskiptavinum sínum að greiða fyrir áskrift og notkun með beingreiðslu. Skilgreiningin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 3. tölul. er hugtakið eiginfjárgrunnur skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 46. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 4. tölul. er orðið fjargreiðsla skilgreint. Við mat á því hvort um sé að ræða fjargreiðslu vegna búnaðarins sem notaður var verður fjarsamskiptaþáttur búnaðarins að hafa verið notaður við fjargreiðsluna. Með farsíma er hægt að framkvæma greiðslu með notkun netsins í símanum þegar greiðandi er á vef og gefur upplýsingar til að hægt sé að framkvæma greiðslu (fjarsamskiptaþáttur). Einnig er hægt að framkvæma greiðslu í farsíma þegar notuð er greiðslulausn sem er smáforrit eða app í símanum, svo sem Apple Pay og Android Pay, og er þá ekki verið að nýta fjarsamskiptaþátt farsímans heldur greiðslulausn sem farsíminn býr yfir. Skilgreiningin er nýmæli. Um er að ræða innleiðingu á 6. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 5. tölul. er orðið fjarsamskiptamiðill skilgreint. Fjarsamskiptamiðill er aðferð sem nota má til að gera greiðsluþjónustusamning milli greiðsluþjónustuveitanda og notanda greiðsluþjónustu, t.d. farsími, armbandsúr eða tölva með netaðgangi, sem gerir þeim kleift að koma á samningi um greiðsluþjónustu án þess að vera viðstaddir samtímis í eigin persónu. Skilgreiningin er ný og er innleiðing á 34. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin á að vera tæknilega hlutlaus og nægjanlega víð til þess að koma í veg fyrir að tómarúm skapist í löggjöf vegna tækniþróunar þegar fram líða stundir. Hún á því að taka til núverandi aðferða og annarra sem eiga eftir að koma fram.
    Í 6. tölul. er vísað í skilgreiningu laga um fjarskipti á orðinu fjarskiptanet skilgreint. Í 41. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar er rafrænt fjarskiptanet skilgreint og vísað í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/21/EB.
    Í 7. tölul. er vísað í skilgreiningu laga um fjarskipti á orðinu fjarskiptaþjónusta. Í 42. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar er rafræn fjarskiptaþjónusta skilgreind og vísað í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/21/EB.
    Í 8. tölul. er orðið fjármunir skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 25. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 9. tölul. er hugtakið færsluhirðing greiðslna skilgreint. Færsluhirðing greiðslna er t.d. framkvæmd með kredit- eða debetkorti en sú tegund færsluhirðingar hefur verið algengust á Íslandi til þessa. Skilgreiningin á færsluhirðingu samkvæmt tilskipuninni er hins vegar tæknilega hlutlaus svo að greiðslumiðillinn gæti verið einhver annar. Þegar greiðslumiðillinn er greiðslukort notar greiðandinn kortið til að greiða fyrir vöru eða þjónustu. Færsluhirðirinn greiðir söluaðila andvirði heildarsölu á vöru eða þjónustu sem greitt var með greiðslukorti að frádreginni þóknun. Færsluhirðirinn fær greitt frá útgefanda greiðslukortanna. Á Íslandi er vitað um þrjá færsluhirða, Borgun hf., Kortaþjónustuna hf. og Valitor hf. Margir íslenskir söluaðilar nýta sér einnig þjónustu færsluhirða sem veita þjónustu yfir landamæri, sbr. II. kafla frumvarpsins. Skilgreiningin er nýmæli og er innleiðing á 44. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 10. tölul. er orðið gildisdagur skilgreint. Um ræðir innleiðingu á 26. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 11. tölul. er orðið gistiaðildarríki skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 2. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 12. tölul. er orðið greiðandi skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 8. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 13. tölul. er orðið greiðsla skilgreint. Um ræðir innleiðingu á 5. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Hugtakið er breytt frá gildandi lögum þar sem þriðji aðili getur nú komið fram fyrir hönd greiðanda og virkjað greiðslu. Sá aðili er leyfisskyldur sem greiðsluvirkjandi hjá eftirlitsstjórnvaldi hérlendis eða annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Í 14. tölul. er orðið greiðslufyrirmæli skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 13. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Sem dæmi um greiðslufyrirmæli má nefna millifærslu sem framkvæmd er í netbanka greiðanda. Greiðandi fyllir út í netbanka upplýsingar um fjárhæð og viðtakanda greiðslu. Í kjölfarið kemur bankinn, sem greiðsluþjónustuveitandi greiðanda, greiðslunni til viðtakanda greiðslu.
    Í 15. tölul. er orðið greiðslukerfi skilgreint. Skilgreining á hugtakinu er eins í gildandi lögum um greiðsluþjónustu. Um er að ræða innleiðingu á 7. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Greiðslukerfi geta verið af ýmsum toga en almennt er sú krafa gerð að þau séu í senn skilvirk og örugg. Sem dæmi um greiðslukerfi má nefna eigin kerfi fjármálafyrirtækja, kerfi alþjóðlegu kortasamtakanna Visa og Mastercard og millibankakerfi Seðlabanka Íslands (MBK). Síðastnefnda kerfið fellur undir gildissvið laga um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, sem byggjast á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/26/EB og nr. 2009/44/EB. Í þeim lögum er orðið kerfi skilgreint með öðrum hætti en hér er gert og sú heimild sem kveðið er á um í 36. gr. þessa frumvarps um þátttöku í greiðslukerfum á ekki við um kerfi sem falla undir gildissvið laga nr. 90/1999.
    Í 16. tölul. er orðið greiðslumiðill skilgreint. Hugtakið hefur verið útvíkkað frá gildandi lögum þar sem nú er fallinn brott áskilnaður um að notandi greiðsluþjónustu sé sá sem noti greiðslumiðilinn til að virkja greiðslufyrirmæli. Er slíkt í samræmi við aðra breytingu í þessu frumvarpi um að notandi greiðsluþjónustu, auk greiðsluvirkjanda fyrir hönd notanda greiðsluþjónustu, geti nýtt sér búnaðinn eða aðferðina. Til að nefna dæmi teljast debet- og kreditkort til áþreifanlegra greiðslumiðla en símar og óáþreifanlegir greiðslumiðlar geta verið símaveski og stafrænn gjaldmiðill. Greiðslufyrirmæli gefin í netbanka, t.d. um millifærslu, fela í sér aðferðir sem notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi hafa komið sér saman um að nota til að gefa greiðslufyrirmæli en þá einungis ef notandinn þarf jafnframt að gefa upp leyninúmer, rafræna auðkenningu eða annað til að geta virkjað greiðslufyrirmælin. Netbankinn einn og sér telst því ekki greiðslumiðill án þess að auðkenni, íslykill eða leyniorð sé notað til að gefa greiðslufyrirmæli. Til að geta talist greiðslumiðill verður bankinn að bjóða notanda greiðsluþjónustu þann möguleika að staðfesta greiðslufyrirmælin á þann hátt að öruggt sé að þau stafi frá þeim sem hefur heimild til þess að gefa þau. Greiðslumiðill getur því verið nafnlaus en í því tilviki verður að vera fyrir hendi aðferð sem greiðsluþjónustuveitandi og notandi greiðsluþjónustunnar hafa komið sér saman um að notandinn fylgi til að gefa greiðslufyrirmæli. Í ljósi þess að ekki er lengur gerður áskilnaður um að notandi greiðsluþjónustunnar sé sá sem noti greiðslumiðilinn teljast nafnlaus gjafakort greiðslumiðill að því gefnu að samningur sé í gildi milli handhafa gjafakortsins og greiðsluþjónustuveitandans um hvernig greiðslufyrirmæli skuli gefin, t.d. með notkun kóða samhliða notkun kortsins. Greiðslumiðill er notaður til að afla vöru og þjónustu, greiða fyrir millifærslu fjármuna og taka út fjármuni. Um er að ræða innleiðingu á 14. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 17. tölul. er orðið greiðslureikningur skilgreint sem reikningur í nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu, sem notaður er við og ætlaður er til að framkvæma greiðslu, þ.e. aðgerð sem felst í því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni. Slíkur reikningur verður því að vera þess eðlis að geyma fjármuni sem eru skilgreindir í 8. tölul. Til að reikningur teljist greiðslureikningur verður að hafa verið til hans stofnað með það að markmiði að geta framkvæmt greiðslur. Skilyrðið telst uppfyllt ef t.d. greiðslumiðill líkt og debetkort tengist reikningnum þannig að hægt sé að tengjast í gegnum netbanka og framkvæma þaðan greiðslur af reikningnum eða að viðtakandi greiðslu geti virkjað beingreiðslu af reikningnum. Greiðslureikningur getur verið í nafni fleiri en eins aðila. Hugtakið er óbreytt frá gildandi lögum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins útskýrði í svörum við spurningum vegna greiðsluþjónustutilskipunar nr. 1 (Payment Service Directive 1), ec.europa.eu/info/sites/info/files/faq-transposition-psd-22022011_en.pdf, að skilgreining greiðslureiknings skyldi ná til allra sparnaðarreikninga sem eigandi reiknings getur lagt inn á eða tekið út fjármuni af án frekari íhlutunar greiðsluþjónustuveitanda, svo sem hlaupareikninga, eða þarf að greiða aukagjöld vegna þess að hann hafi ekki virt tímann sem fjármununum var ætlað að vera á reikningnum. Að sama skapi telst innlánsreikningur ekki vera greiðslureikningur sé eiganda hans gert, í tilviki staðlaðra skilmála um innlánsreikninginn, að greiða aukagjald eða þola missi vaxta ef hann tekur út innan umsamins tíma. Í máli Evrópudómstólsins C-191/17 frá 4. október 2018 var kveðið á um að í tilviki sparnaðarreikninga gætu þeir einungis talist greiðslureikningar ef væri hægt að greiða út af slíkum reikningi beint á reikning þriðja aðila. Ef greiða þarf fyrst inn á annan hlaupareikning og framkvæma greiðslu af honum til þriðja aðila sé ekki um að ræða greiðslureikning. Málið var útkljáð á grundvelli PSD1 en þar sem hugtakið er samhljóða í PSD2 mun það vera fordæmisgefandi innan Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins útskýrði enn fremur í fyrrgreindum svörum við spurningum vegna greiðsluþjónustutilskipunar nr. 1 (Payment Service Directive 1) að veðlánsreikningar, sem stofnað væri til samhliða veðláni fyrir veðskuldara til að greiða inn á afborgun af láninu, væru ekki greiðslureikningar þar sem kröfuhafi skuldarinnar væri lánveitandinn. Aukinheldur skyldi litið á samtvinnaða reikninga, sem hafa t.d. að geyma veðlán, sparnað og greiðsluaðferðir í þeim tilgangi að lækka heildarveðlánsstöðu, sem greiðslureikninga að því marki sem reikningarnir væru notaðir til að framkvæma greiðslur (bls. 28 í svörum). Innlánsreikningar í viðskiptabönkum og sparisjóðum eru dæmi um greiðslureikninga. Dæmi um reikninga sem ekki teljast til greiðslureikninga eru læstir sparnaðarreikningar barna, ábyrgðarreikningar og afsalsreikningar sem notaðir eru í íbúðaviðskiptum. Um ræðir innleiðingu á 12. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreining hugtaksins er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 18. tölul. er orðið greiðslustofnun skilgreint. Greiðslustofnun kom inn sem ný tegund fyrirtækja á sviði fjármálaþjónustu með lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Vísast til skýringa við 22. og 23. tölul. Skilgreiningin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu.
    Í 19. tölul. er orðið greiðsluvirkjandi skilgreint sem greiðsluþjónustuveitandi sem veitir þjónustu skv. g-lið 22. tölul. Vakin er athygli á skýringu á hugtakinu greiðsluvirkjun sem lagt er til að skilgreint verði í 20. tölul. Einkenni á greiðsluvirkjanda er að hann varðveitir aldrei fjármuni notanda greiðsluþjónustunnar í greiðslukeðjunni. Hins vegar þegar greiðsluvirkjandi sem veitir greiðsluvirkjun vill auk þess geta sinnt varðveislu á fjármunum notandans verður hann að fá leyfi fyrir þeirri tegund þjónustu frá Fjármálaeftirlitinu. Í Evrópu eru Sofort og Trustly útbreiddir greiðsluvirkjendur. Um ræðir innleiðingu á 18. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar og er nýmæli.
    Í 20. tölul. er orðið greiðsluvirkjun skilgreint. Greiðsluvirkjun byggist á aðgangi greiðsluvirkjanda að reikningi greiðandans. Greiðsluvirkjun er ný tegund greiðsluþjónustu sem hefur þróast á undanförnum árum, ekki hvað síst á sviði vefverslunar og þá er greiðsluvirkjandinn milliliður milli vefs söluaðila og netbanka greiðsluþjónustuveitanda sem veitir greiðanda reikningsþjónustu og setur af stað netgreiðslu sem millifærir fjármuni. Netverslunin á sér þá stað án notkunar greiðslukorta. Greiðsluvirkjandi veitir viðtakanda greiðslu fullvissu um að greiðslufyrirmæli hafi verið gefin og hvetur þannig viðtakanda greiðslu til að láta af hendi vörur eða veita þjónustu án ástæðulausrar tafar. Greiðsluvirkjandinn varðveitir ekki fjármuni notanda greiðsluþjónustunnar í greiðslukeðjunni. Greiðsluvirkjun gefur möguleika á að versla á netinu án þess að eiga greiðslukort. Greiðsluvirkjun er nýmæli og mun í fyrsta skipti sæta eftirliti og þurfa að uppfylla skilyrði neytendaverndar, persónuverndar og samkeppnissjónarmiða, verði frumvarp þetta að lögum. Um ræðir innleiðingu á 15. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 21. tölul. er hugtakið greiðsluvörumerki skilgreint. Skilgreiningin er sú sama og í 30. tölul. 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/751 sem hlaut lagagildi með lögum um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, nr. 31/2019. Heimsþekkt greiðslukortakerfi eru Visa, Mastercard og Amex. Í Danmörku er Dankort mjög útbreitt og þekkt. Hér á landi er ekki til innlent greiðslukortakerfi. Korthafi getur séð hvort hann geti notað greiðslukortið með hliðsjón af merkingum sem söluaðili hefur sett upp á sínum sölustað eða vef. Innan hvers greiðsluvörumerkis geta verið ýmsar tegundir greiðslukorts, svo sem gullkort, silfurkort, ferðakort o.s.frv. Í rammasamningi á milli korthafa (notanda greiðsluþjónustu) og kortaútgefanda (greiðsluþjónustuveitanda) er að jafnaði kveðið á um tegund greiðsluvörumerkis korts. Skilgreiningin er nýmæli og er innleiðing á 47. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 22. tölul. er lagt til að orðið greiðsluþjónusta verði skilgreint í átta liðum. Gera verður ráð fyrir áframhaldandi þróun greiðsluþjónustu og greiðslumiðla líkt og sést hefur í Evrópu og hérlendis. Í a–d-lið er um að ræða þjónustu sem er íslenskum notendum greiðsluþjónustu að góðu kunn og þarfnast ekki nánari skýringar, þ.e. einkum hefðbundin banka- og greiðslukortaviðskipti. Í e-lið er tilgreind útgáfa greiðslumiðla og færsluhirðing greiðslna. Færsluhirðing felst í þeirri þjónustu við söluaðila að veita þeim heimildarþjónustu til að taka við greiðslum með greiðslukortum (oft nefnt kortafærslur) og greiða söluaðilum andvirði greiðslna með greiðslukortum að frádreginni þóknun á umsömdum greiðsludegi. Greiðsludagur getur verið á hverjum virkum degi, einu sinni í viku, mánaðarlega o.s.frv., allt eftir því hvernig semst á milli færsluhirðis og söluaðila. Fram til þessa hefur útgáfa greiðslumiðla á Íslandi einungis verið í höndum banka og sparisjóða en líkt og þróunin hefur orðið í Evrópu má gera ráð fyrir að greiðslustofnanir hérlendis hefji slíka útgáfu. Hugtakið færsluhirðir er skilgreint í reglugerð (ESB) 2015/751 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, sem var lögfest með samnefndum lögum nr. 31/2019, sem greiðsluþjónustuveitandi sem gerir samning við viðtakanda greiðslu um að taka við og vinna úr kortatengdum greiðslum, sem hefur í för með sér yfirfærslu fjármuna til viðtakanda greiðslu. Í f-lið er peningasending talin upp sem ein tegund greiðsluþjónustu, en orðið er skilgreint í 30. tölul. Í g-lið er greiðsluvirkjun talin sem ein tegund greiðsluþjónustu og er sú þjónusta ný af nálinni en orðið er skilgreint í 20. tölul. Að endingu er í h-lið reikningsupplýsingaþjónusta talin upp sem ein tegund greiðsluþjónustu en hún er einnig ný af nálinni. Orðið er skilgreint í 33. tölul. 22. tölul. er innleiðing á viðauka I við tilskipunina.
    Í 23. tölul. er orðið greiðsluþjónustuveitandi skilgreint. Um ræðir innleiðingu á 1. mgr. 1. gr. og 11. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
     Um a-lið. Fjármálafyrirtækin sem um ræðir eru viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þ.e. fjármálafyrirtæki sem falla undir hugtakið lánastofnun sem er skilgreint í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. a sömu laga í samræmi við skilgreiningu í 1-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012. Eitt innlent greiðslukortafyrirtæki hefur samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu nú leyfisskylda starfsemi skv. b-lið 1. tölul., þ.e. móttöku endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi, eða skuldaviðurkenninga, og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þ.e. veitingu útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, og með starfsheimild skv. 4. tölul. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, þ.e. greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu. Tvö innlend greiðslukortafyrirtæki eru með starfsleyfi sem greiðslustofnun skv. 15. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Viðskiptabankar og sparisjóðir skulu skv. 2. málsl. 1. tölul. og 3. málsl. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Skv. 3. mgr. 20. gr. sömu laga getur starfsemi lánafyrirtækja tekið til útlánastarfsemi, líkt og starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. 2. tölul. 1. mgr. sömu greinar.
     Um b-lið. Starfsemi rafeyrisfyrirtækja tekur til útgáfu rafeyris. Þá er þeim heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu, sbr. a-lið 1. mgr. 24. gr. laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, veita lán í tengslum við greiðsluþjónustu, sbr. b-lið 1. mgr. 24. gr. sömu laga, og sinna annarri starfsemi og stoðþjónustu er tengist útgáfu rafeyris eða veitingu greiðsluþjónustu sem um getur í a-lið 1. mgr. 24. gr. þeirra laga, sbr. c-lið 1. mgr. 24. gr. sömu laga. Þá er rafeyrisfyrirtækjum heimilt að halda greiðslureikninga sem skal einungis nota við framkvæmd greiðslna, sbr. 4. mgr. 24. gr. sömu laga.
     Um c-lið. Í lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019, er ekki minnst á póstgíróstofnanir. Engin slík er hér á landi. Hins vegar eru póstgíróstofnanir þekktar í Evrópu, svo sem í Þýskalandi, og tilskipunin gerir ráð fyrir að þær geti veitt greiðsluþjónustu yfir landamæri, hvort heldur án eða með útibúi eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Um d-lið. Vísað er til skýringa við 5. tölul. 4. gr. Nánar er kveðið á um skilyrði fyrir stofnun og starfsemi greiðslustofnana í II. kafla frumvarpsins.
     Um e-lið. Skv. 1. mgr. 2. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, skal bankinn stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.
     Um f-lið. Stjórnvöld teljast til greiðsluþjónustuveitenda í skilningi tilskipunarinnar, að því marki sem greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra. Fjársýsla ríkisins sér um greiðslustýringu fyrir flestar opinberar stofnanir. Stýringin felur í sér að Fjársýsla ríkisins framkvæmir greiðslur úr ríkissjóði og greiðir ríkisstofnunum þeirra framlag og einnig birgjum þeirra auk þess að greiða laun fyrir hönd stofnunarinnar. Þetta er hlutverk Fjársýslu ríkisins og því er hún ekki greiðsluþjónustuveitandi vegna þessara greiðslna. Hins vegar er Fjársýsla ríkisins einnig innheimtuaðili fyrir ríkissjóð og sendir út kröfur til einstaklinga og gefur þeim tækifæri til að greiða þær með debet- eða kreditkorti. Í framtíðinni er fyrirséð að Fjársýsla ríkisins muni bjóða einstaklingum þá þjónustu að senda greiðslufyrirmæli til viðskiptabanka þeirra til efnda á kröfunni. Þá mun Fjársýsla ríkisins þurfa að sækja um skráningu sem greiðslustofnun vegna greiðsluvirkjunar.
     Um g-lið. Um greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi er fjallað í 34. gr. og er vísað í þá grein ásamt greinargerð.
     Um h-lið. Lögaðili eða einstaklingur sem hefur fengið undanþágu skv. 35. gr.
    Í 24. tölul. er hugtakið greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skilgreint. Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu er sá sem býður upp á möguleika á stofnun greiðslureiknings, t.d. bankar og greiðslustofnanir. Bjóði greiðsluþjónustuveitandi upp á stofnun annars konar reikninga en greiðslureiknings telst hann ekki vera greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu vegna þeirra reikninga. Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu og setur á laggirnar fyrirkomulag sem veitir viðskiptavinum aðgang að reikningum skal einnig heimila greiðsluvirkjendum aðgang að fengnu skýlausu samþykki eiganda viðkomandi greiðslureiknings. Hugtakið er nýmæli. Um er að ræða innleiðingu á 17. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 25. tölul. er orðið heimaaðildarríki skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 1. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 26. tölul. er hugtakið kortasamstarf skilgreint. Í skilgreiningunni felst t.d. að sama greiðslukortið er hægt að nota til að greiða með Visa, Mastercard eða UnionPay. Að sama skapi þá gæti persónubundinn búnaður eins og farsími verið notaður til að greiða með mismunandi greiðslukorti.
    Í 27. tölul. er hugtakið millifærsla fjármuna skilgreint. Skilgreiningin er nýmæli. Um er að ræða innleiðingu á 24. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Sem dæmi má nefna að greiðandi gefur greiðsluþjónustuveitanda sem býður reikningsþjónustu greiðslufyrirmæli í gegnum netbanka þess efnis að millifæra fjármuni af greiðslureikningi í hans eigu inn á reikning viðtakanda greiðslu.
    Í 28. tölul. er orðið neytandi skilgreint. Skilgreining þessi er í samræmi við skilgreiningar á sama hugtaki í annarri löggjöf er byggist á Evrópugerðum á sviði neytendaréttar. Um ræðir innleiðingu á 20. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi löggjöf um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 29. tölul. er hugtakið notandi greiðsluþjónustu skilgreint. Um ræðir innleiðingu á 10. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Notandi greiðsluþjónustu getur í senn verið greiðandi og viðtakandi greiðslu. Skilgreiningin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 30. tölul. er orðið peningasending skilgreint. Í peningasendingum tíðkast að draga þóknun frá þeirri fjárhæð sem er send. Þóknunin á að samsvara kostnaði við flutning peninganna. Líkt og kemur fram í skilgreiningunni er það ekki forsenda til að greiðsla teljist peningasending að nákvæmlega sama fjárhæð skili sér til viðtakanda greiðslu. Ekki skiptir heldur máli að greiðandi peningasendingar greiði eina fjárhæð sem afhendist til nokkurra viðtakenda greiðslu. Til þess að greiðsla falli undir peningasendingu má hvorki greiðslureikningur hjá greiðanda né viðtakanda greiðslu koma við sögu. Sem dæmi um þjónustu sem fellur undir þessa skilgreiningu má nefna hraðsendingarþjónustu Western Union sem stendur til boða í gegnum þjónustu Póstsins. Um ræðir innleiðingu á 22. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 31. tölul. er hugtakið persónubundin öryggisskilríki skilgreint. Skilgreiningin er nýmæli og er innleiðing á 31. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Persónubundin öryggisskilríki samanstanda af einum eða fleiri þáttum sem notandi skal nýta sér til að hann geti sannreynt hjá greiðsluþjónustuveitanda hver hann er. Rafræn skilríki frá Auðkenni ehf. sem falla undir hugtakið rafræn auðkenning í lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, teljast til persónubundinna öryggisskilríkja. Í skilgreiningunni er tiltekið að greiðsluþjónustuveitandi afhendi persónubundnu þættina. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur í 38. tölul. í áliti sínu frá 13. júní 2018 sérstaklega tiltekið að í nokkrum aðildarríkjum sé þegar að finna persónubundin öryggisskilríki sem notandi greiðsluþjónustu geti notað hjá margs konar greiðsluþjónustuveitendum. Því verður að líta svo á að ekki sé skilyrðislaus áskilnaður um að ávallt sé það greiðsluþjónustuveitandi sem afhendi persónubundnu þættina heldur að greiðsluþjónustuveitendur geti reitt sig á útgefin rafræn skilríki, svo sem frá Auðkenni. Einhverjir greiðsluþjónustuveitendur, t.d. þeir sem eru með starfsleyfi í öðru aðildarríki en veita þjónustu hérlendis, geta kosið aðra leið og munu þá sjálfir afhenda notendum greiðsluþjónustunnar hina persónubundnu þætti.
    Í 32. tölul. er orðið rammasamningur skilgreint. Aðilar að rammasamningi geta verið neytandi og greiðsluþjónustuveitandi notanda, t.d. banki eða greiðslustofnun. Sem dæmi um slíka rammasamninga má nefna samninga um notkun greiðslumiðla, samninga um stofnun og notkun netbanka, samninga um stofnun debetkortareikninga og samninga um beingreiðslur. Rammasamningur getur verið hluti af almennum viðskiptaskilmálum sem viðskiptavinur banka eða annars greiðsluþjónustuveitanda samþykkir. Þá eru rammasamningar gerðir milli færsluhirðis og söluaðila. Greiðsluþjónusta sem felur í sér að bjóða útgáfu greiðslukorts eða greiðslureikning krefst ávallt rammasamnings. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Um er að ræða innleiðingu á 21. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 33. tölul. er orðið reikningsupplýsingaþjónusta skilgreint. Notandi reikningsupplýsingaþjónustu fær og getur meðhöndlað samanteknar upplýsingar um einn eða fleiri greiðslureikninga sem hann hefur hjá einum eða fleiri greiðsluþjónustuveitendum. Þjónustan er aðgengileg í gegnum netskilfleti frá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu. Reikningsupplýsingaþjónustuveitanda berast með þessu móti mikið af fjárhagsgögnum sem eru persónugreinanleg og hann getur notað til að veita notanda reikningsupplýsingaþjónustu en honum er ekki heimilt að nota gögnin í öðrum tilgangi, t.d. selja gögnin til þriðja aðila. Notandinn getur með þessu móti haft yfirsýn yfir fjárhagsstöðu sína án tafar hvenær sem er. Ekki er áskilið með orðinu „samsteyptar“ í skilgreiningunni að upplýsingarnar séu settar fram með sérstakri flokkun. Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi getur t.d. afhent notanda greiðsluþjónustu hugbúnað sem gerir honum kleift að sækja upplýsingar af greiðslureikningum hjá mismunandi greiðsluþjónustuveitendum. Með því að gera reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eftirlitsskylda greiðslustofnun og skráningarskyldan aðila hjá Fjármálaeftirlitinu eru greiðslu- og reikningsupplýsingar neytenda verndaðar og neytendum veitt réttarvissa um stöðu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, sbr. skilgreiningu í 34. tölul. Hugtakið reikningsupplýsingaþjónusta er nýmæli. Um er að ræða innleiðingu á 16. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 34. tölul. er orðið reikningsupplýsingaþjónustuveitandi skilgreint. Algengt er að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi bjóði upp á lausn sem felur í sér viðmót fyrir að stýra eigin fjármálum svo notandi geti haft betri yfirsýn yfir fjármálin sín og auðveldi honum að gera fjárhagsáætlanir og hefja sparnað. Minnt er á hvað segir í skýringum við hugtakið reikningsupplýsingaþjónusta í 33. tölul. um að heimil nýting reikningsupplýsingaþjónustuveitanda á mótteknum gögnum sé takmörkuð. Sem dæmi um reikningsupplýsingaþjónustuveitendur má nefna banka, fyrirtæki sem bjóða lánshæfismat eins og írska fyrirtækið Experian, íslenska fyrirtækið Meniga hf. og síðan hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfa sig í hugbúnaði fyrir fjármálageirann eins og skoska fyrirtækið Freeagent. Hugtakið er nýmæli og um er að ræða innleiðingu á 19. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 35. tölul. er orðið samstæða skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 40. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 36. tölul. er orðið sannvottun skilgreint. Skilgreiningin er innleiðing 29. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar og hefur verið breytt frá gildandi lögum í samræmi við orðalag þar.
    Í 37. tölul. er hugtakið sérstakt kennimerki skilgreint. Númer á bankareikningi, þ.m.t. svokölluð IBAN-númer (International Bank Account Number) og BIC-auðkenni (Bank Identifier Code), svo og kortanúmer eru dæmi um sérstök kennimerki í þessum skilningi. Tilgreining sérstakra kennimerkja er nauðsynleg svo að framkvæma megi greiðslur. Skilgreiningunni hefur verið lítillega breytt frá gildandi lögum og er innleiðing á 33. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar en þar er hugtakið þýtt sem einkvæmt auðkenni.
    Í 38. tölul. er orðið smágreiðslumiðill skilgreint. Sérstaklega er fjallað um smágreiðslumiðla í tveimur ákvæðum frumvarpsins, þ.e. í 44. gr. og 63. gr.
    Í 39. tölul. er hugtakið stafrænt efni skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 43. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin er nýmæli.
    Í 40. tölul. er hugtakið sterk sannvottun viðskiptavinar skilgreint. Sterk sannvottun viðskiptavinar er tegund sannvottunar sem á að vera sérlega sterk og örugg og tryggja að einungis réttur aðili fái að koma fram sem notandi greiðsluþjónustu og að hann sé sá sem hann segist vera. Sterk sannvottun viðskiptavinar byggist á sannvottun á grundvelli tveggja eða fleiri þátta sem flokkast í fyrsta lagi sem þekking, sem er eitthvað sem notandinn einn veit, og það getur verið t.d. PIN-númer, leyninúmer, öryggisnúmer eða annar auðkenningarkóði. Í öðru lagi er eitthvað sem notandinn einn hefur umráð yfir og getur verið t.d. örgjörvi í korti, svo sem greiðslukorti eða aðgangskorti, og í þriðja lagi t.d. fingraför notandans eða lithimna augna hans. Þessir þrír þættir verða að vera óháðir hver öðrum þannig að brot á einum þætti hafi ekki áhrif á áreiðanleika hinna þáttanna. Sterka sannvottunin er hönnuð til að vernda trúnað sannvottunargagnanna. Skilgreiningin er nýmæli og um er að ræða innleiðingu á 30. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Í tilskipuninni er gerð krafa um sterka sannvottun til að auka öryggi rafrænna greiðslna í Evrópu. Meginreglan á því að vera sú að krafa sé gerð um sterka sannvottun í hvert skipti sem notandi greiðsluþjónustu gefur greiðslufyrirmæli um rafræna greiðslu, sjá nánar 101. gr. frumvarpsins. Sem dæmi um sterka sannvottun má nefna að þegar notandi greiðsluþjónustu nýtir rafrænt skilríki frá Auðkenni ehf. verður hann einnig að slá inn PIN-númer til að komast í tengsl við netbanka banka og sparisjóða. PIN-númerið er talið uppfylla einn af þremur þáttum sem sterk sannvottun byggist á og telst til einhvers sem notandinn einn veit. Rafræn skilríki Auðkennis tryggja umráð með því að einkalykill notandans er varðveittur á fullgildum undirskriftarbúnaði. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin hefur í áliti sínu frá 21. júní 2019 um þætti sterkrar sannvottunar, Opinion of the European Banking Authority on the elements of strong customer authentication under PSD2 , lýst því að rafræn undirritun með einkalykli í öruggri varðveislu uppfylli skilyrði um „umráð“ í kröfum um sterka sannvottun, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Nánar er fjallað um notkun sterkrar sannvottunar í reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) 2018/389 sem byggist á 98. gr. tilskipunarinnar. Í reglugerðinni er veitt heimild til að víkja frá kröfum um sterka sannvottun að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 2. mgr. 114. gr. frumvarpsins er Seðlabanka Íslands gert skylt að setja reglur um nánari framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 er snúa að sannvottun skv. 97. gr. hennar.
    Í 41. tölul. er orðið umboðsaðili skilgreint. Einstaklingur eða lögaðili sem kemur fram fyrir hönd greiðslustofnunar er t.d. sá sem fer með umboð greiðsluþjónustu í húsfélagi því sem greiðslustofnun tilheyrir. Um er að ræða innleiðingu á 38. tölul. tilskipunarinnar.
    Í 42. tölul. er hugtakið útgáfa greiðslumiðla skilgreint. Útgáfa greiðslumiðla er greiðsluþjónusta sem veitt er af greiðsluþjónustuveitanda sem gerir samning um að veita greiðanda greiðslumiðil til að setja af stað og vinna greiðslur greiðandans. Útgefandi greiðslumiðils er því sá sem er tilgreindur í samningnum og lætur greiðanda greiðslumiðil í té og sá sem greiðandi er skuldbundinn gagnvart samkvæmt samningnum. Það er ekki skilyrði að útgefandi greiðslumiðils sé einnig greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu. Skilgreiningin er nýmæli og er innleiðing á 45. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 43. tölul. er hugtakið útgefandi kortatengds greiðslumiðils skilgreint. Um er að ræða greiðsluþjónustuveitanda sem gefur út kortatengdan greiðslumiðil sem tengist greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu. Þegar notandi greiðsluþjónustunnar notar greiðslumiðilinn til að setja af stað greiðslu ber útgefanda kortatengda greiðslumiðilsins að óska eftir staðfestingu frá greiðsluþjónustuveitandanum, sem veitir notanda greiðsluþjónustunnar reikningsþjónustu og er oftast nær banki, þess efnis hvort nægir fjármunir séu á reikningnum. Hugtakið kemur fyrir í 65. gr. frumvarpsins auk reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/39 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um sterka sannvottun viðskiptavina og almenna og örugga opna staðla vegna samskipta.
    Í 44. tölul. er orðið útibú skilgreint. Um ræðir innleiðingu á 39. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 45. tölul. er hugtakið varanlegur miðill skilgreint. Skilgreining er í gildandi lögum og í 35. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreining þessi er sambærileg skilgreiningum á sama hugtaki í annarri löggjöf sem byggist á Evrópugerðum á sviði neytendaréttar. Skv. 57. lið formálsorða tilskipunarinnar uppfylla upplýsingar á pappír, geisladiskum (CD-ROM, DVD), hörðum diskum einkatölva þar sem tölvupóstur getur verið geymdur og á vefjum, séu þær í talsverðan tíma aðgengilegar óbreyttar, skilyrði laganna um að vera veittar á varanlegum miðli. Upplýsingar í tölvupósti sem greiðsluþjónustuveitandi sendir notanda greiðsluþjónustu telst þannig vera varanlegur miðill. Hvað varðar upplýsingar í SMS/MMS skilaboðum þá geta þær talist afhentar á varanlegum miðli ef geymslutími þeirra í símanum er töluvert langur. Þá telst netbanki lánastofnunar vera varanlegur miðill að því gefnu að hann uppfylli skilyrði skilgreiningarinnar um að gera neytanda kleift að geyma upplýsingar sem beint er til hans óbreyttar þannig að hann geti afritað þær og flett upp í þeim í hæfilegan tíma. Við mat á því hvað telst vera varanlegur miðill ber að taka tillit til þróunar í upplýsingatækni og nýrra stafrænna lausna sem greiðsluþjónustuveitendur bjóða til upplýsingamiðlunar.
    Í 46. tölul. er hugtakið viðkvæm greiðslugögn skilgreint. Það fer eftir þeirri greiðsluþjónustu sem um ræðir hverju sinni hvort um er að ræða viðkvæm greiðslugögn þar sem tegund og magn gagna er misjafnt. Dæmi um viðkvæm greiðslugögn eru greiðslukort með notendanafni, leyniorði og PIN-númeri þar sem hætta er á misnotkun ef slík kort komast í hendur óprúttinna aðila. Í skilgreiningunni er sérstaklega tekið fram hvað teljist ekki viðkvæm greiðslugögn hjá greiðsluvirkjendum og reikningsupplýsingaþjónustuveitendum en það er nafn reikningseiganda og reikningsnúmer. Um er að ræða innleiðingu á 32. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin er nýmæli.
    Í 47. tölul. er orðið viðmiðunargengi skilgreint. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi lögum. Um er að ræða innleiðingu á 27. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 48. tölul. er orðið viðmiðunarvextir skilgreint. Aðilar greiðsluþjónustusamnings þurfa að geta rakið vaxtarstig aftur í tímann. Skilgreiningin er óbreytt frá gildandi lögum. Um ræðir innleiðingu á 28. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 49. tölul. er orðið viðskiptadagur skilgreint, þ.e. virkur dagur þegar opið er hjá greiðsluþjónustuveitanda greiðanda eða viðtakanda greiðslu eftir því sem þörf fyrir framkvæmd greiðslu krefur. Ekki er aðeins um opna starfsstöð að ræða í hefðbundinni merkingu enda kann greiðsluþjónustuveitandi að veita þjónustu á netinu og er ekki endilega með opna starfsstöð á sama tíma og hann veitir þjónustuna. Skilgreiningin hefur þýðingu vegna afturköllunar skv. 64. gr. frumvarpsins vegna tímans sem gefinn er til að framkvæma greiðslu og til gengisútreiknings. Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að setja mismunandi skilmála um hvenær viðskiptadegi vegna tiltekinna tegunda af greiðslum lýkur, t.d. kl. 15. Um er að ræða innleiðingu á 37. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar.
    Í 50. tölul. er hugtakið viðtakandi greiðslu skilgreint. Um er að ræða innleiðingu á 9. tölul. 4. gr. tilskipunarinnar. Skilgreiningin tekur hvorki til rangs viðtakanda greiðslu né greiðsluþjónustuveitanda sem tekur við greiðslu sem milliliður fyrir greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu.

Um 4. gr.

    Lagt er til að 5. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 4. gr. frumvarpsins. Umsókn skal vera skrifleg og upplýsingar sem koma fram í henni skulu vera ítarlegar. Markmiðið er að umsækjendur geri fyrir fram grein fyrir þeirri starfsemi sem fyrirhugað er að sinna, hvernig henni verði sinnt og sýni fram á að þeir séu hæfir til að sinna henni.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er gerð krafa um staðfestingu á að 6. gr. sé uppfyllt. Um er að ræða innleiðingu á p- og q-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að umsækjandi tilgreini þá greiðsluþjónustu sem hann hyggst veita og greini frá því ef hann ætlar að vera í annarri starfsemi skv. 16. gr. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er umsækjanda uppálagt að leggja fram viðskipta- og rekstraráætlun fyrir a.m.k. þrjú fyrstu rekstrarárin og síðasta endurskoðaða ársreikning, sé honum til að dreifa. Um er að ræða innleiðingu á b-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 4. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á l-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 5. tölul. 1. mgr. er umsækjanda uppálagt að veita upplýsingar um hvort fyrirhugað sé að veita greiðsluþjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila skv. 23.–26. gr. Vakin er athygli á því að skv. 22.–24. gr. er ekki hægt að hefja þann feril að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaða starfsemi erlendis fyrr en starfsleyfi greiðslustofnunar hefur fengist samþykkt. Um er að ræða innleiðingu á a- og l-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 6. tölul. 1. mgr. er krafist af umsækjanda að leggja fram gögn til staðfestingar á því að hann hafi yfir að ráða því stofnframlagi sem krafist er í 7. gr. Um er að ræða innleiðingu á c-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 7. tölul. 1. mgr. er lagt til að umsækjandi leggi fram upplýsingar sem sýni fram á að stjórnarmenn og stjórnendur umsækjanda uppfylli hæfniskröfur 11. gr. Um er að ræða innleiðingu á n-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 8. tölul. 1. mgr. er farið fram á upplýsingar um deili á einstaklingum sem eiga hlutdeild í umsækjanda í samræmi við kröfur 5. gr. Um er að ræða m-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 9. tölul. 1. mgr. er farið fram á upplýsingar sem greina frá hvernig varðveislu fjármuna í eigu notenda greiðsluþjónustu verði háttað til að uppfylla 10. gr. Um er að ræða innleiðingu á d-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 10. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á f-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 11. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á e-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 12. tölul. 1. mgr. er umsækjanda, sem mun meðhöndla fjármuni, gert að lýsa innra eftirlitskerfi sem komið verður á fót til að farið verði að kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Um er að ræða innleiðingu á k-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 13. tölul. 1. mgr. er gerð krafa um að umsækjandi lýsi verklagi sem hann hefur til að skrá, vakta, rekja og takmarka aðgang að viðkvæmum greiðslugögnum og hvernig skilyrði 21. gr. laganna verði uppfyllt. Viðkvæm greiðslugögn eru skilgreind í 46. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Að mestu leyti er um er að ræða innleiðingu á g-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 14. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á h-lið. 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 15. tölul. 1. mgr. er kallað eftir lýsingu á meginreglum og skilgreiningum sem umsækjandi beitir við söfnun á tölfræðilegum gögnum um árangur, færslur og svik. Um getur verið að ræða upplýsingar um færslufjölda, fjárhæð færslna eða fjöldi sviksamlegra færslna. Markmið með söfnun upplýsinganna er meðal annars að veita Fjármálaeftirlitinu þær samkvæmt beiðni þess, sbr. 21. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/389, sem nýtast auk þess við almennt eftirlit. Um er að ræða innleiðingu á i-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 16. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á j-lið 1. mgr. og síðustu tveimur lokamálsl. 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 17. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að greina skuli frá hver sé löggiltur endurskoðandi umsækjanda. Um er að ræða innleiðingu á o-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 18. tölul. 1. mgr. er óskað eftir staðfestingu á því að umsækjandi hafi tryggingu skv. 3. mgr. 12. gr. sæki hann um starfsleyfi fyrir greiðsluvirkjun eða reikningsupplýsingaþjónustu. Um er að ræða innleiðingu á 2. og 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, sbr. einnig 3. og 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að upplýsingar sem getið er um í 5. tölul. og 10.–13. tölul. 1. mgr. skuli jafnframt fela í sér lýsingu á því fyrirkomulagi sem umsækjandinn hafi innleitt til að geta gert allar þær ráðstafanir sem raunhæfar teljast til að vernda hagsmuni notenda greiðsluþjónustu hans og tryggja samfellu og áreiðanleika við framkvæmd greiðsluþjónustunnar. Með því er Fjármálaeftirlitinu enn fremur gert kleift að tryggja að nægjanlegar ráðstafanir verði gerðar til að vernda hagsmuni notenda greiðsluþjónustu sem geta hvort heldur verið lögaðilar eða einstaklingar. Um er að ræða innleiðingu á 2. undirgrein 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er Seðlabanka Íslands veitt heimild til að setja nánari reglur um þau atriði sem greina þarf frá í umsókn og hvaða fylgigögn beri að afhenda svo að umsókn teljist fullnægjandi. Hér getur t.d. verið um að ræða vottorð úr fyrirtækjaskrá Skattsins um félagaform, samþykktir umsækjanda o.fl. sem er þegar tilgreint í gildandi gátlista Fjármálaeftirlitsins vegna umsóknar um starfsleyfi sem greiðslustofnun.
    Lagt er til að 16. gr. tilskipunarinnar verði innleidd í 4. mgr. þessarar greinar frumvarpsins. Í ákvæðinu felst að greiðslustofnun er skylt að uppfæra tafarlaust allar breytingar sem kunna að verða frá því að upplýsingar skv. 1. mgr. ákvæðisins voru veittar.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt er til að 6. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 10. mgr. 15. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, er að finna ákvæði varðandi mat á hæfi aðila sem fara með virkan eignarhlut í greiðslustofnun. Ákvæðið byggist á tilvísun í sams konar ákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með frumvarpinu verða ákvæði um tilkynningar vegna virkra eignarhluta í greiðslustofnunum gerð ítarlegri og skýrari í lögum um greiðsluþjónustu og samræmist sú nálgun bæði 6. gr. tilskipunarinnar auk þess sem hún fylgir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í löggjöf á fjármálamarkaði. Ákvæði þessara laga um tilkynningar og mat á hæfi vegna virkra eignarhluta er þannig að miklu leyti samhljóða sams konar ákvæði í 14. gr. laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013. Ákvæðið verður nýmæli í lögum um greiðsluþjónustu, nái frumvarp þetta fram að ganga.


Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Lagt er til að aðilar, aðrir en þeir sem taldir eru upp í a–c-lið, þ.e. fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána, rafeyrisfyrirtæki og póstgíróstofnun, og e–g-lið 23. tölul. 3. gr., þ.e. Seðlabanki Evrópu og seðlabankar á Evrópska efnahagssvæðinu, stjórnvöld og greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi, auk 35. gr. um reikningsupplýsingaþjónustuveitendur, er hyggjast veita greiðsluþjónustu skuli afla sér starfsleyfis sem greiðslustofnun. Starfsleyfi skal ná til einnar eða fleiri tegunda greiðsluþjónustu í skilningi 22. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu skv. 12. gr. skuli vera lögaðili, hafa höfuðstöðvar sínar hérlendis og framkvæma a.m.k. hluta af greiðsluþjónustustarfsemi sinni hérlendis. Í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar er líkt og í fyrri tilskipun gert ráð fyrir að starfsleyfi sem greiðslustofnun skuli aðeins veitt lögaðilum með staðfestu í aðildarríki en ekki einstaklingum. Því er lagt til að kveðið verði á um það í þessari grein. Í 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar er enn fremur gert ráð fyrir að greiðslustofnun skuli hafa höfuðstöðvar sínar í því ríki þar sem hún er skráð og a.m.k. hluti af greiðsluþjónustustarfsemi stofnunarinnar fari fram í því landi. Hvort höfuðstöðvar teljast hérlendis veltur á því hvort höfuðstöðvum sé raunverulega stjórnað hérlendis, svo sem hvort ákvarðanataka fari fram í höfuðstöðvunum, hvort aðalfundur fari fram hérlendis, hvort einhverjir viðskiptavinir séu innlendir. Fjármálaeftirlitið á að hafa eftirlit með því að ekki eigi sér stað misnotkun á staðfesturéttinum og getur synjað um starfsleyfi ef eina ástæðan fyrir stofnsetningu greiðslustofnunar hérlendis er til að sneiða fram hjá löggjöf í því ríki þar sem aðalstarfsemi stofnunarinnar fer fram. Ákvæðið á sér hliðstæðu í 9. gr. gildandi laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að 7. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ólíkar kröfur eru gerðar um stofnframlag eftir því hvers kyns greiðsluþjónustu greiðslustofnun veitir, en greiðslustofnunum er ávallt skylt að uppfylla þær frá því að starfsleyfi er veitt. Kröfur til stofnframlags greiðslustofnunar eru vægari en til lánastofnunar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og endurspegla minni áhættu af starfsemi greiðslustofnunar. Að sama skapi er greiðslustofnun óheimilt að taka við innlánum. Fyrirtæki sem einungis er í þeirri starfsemi að veita reikningsupplýsingaþjónustu er undanþegið kröfu um stofnframlag. Áhættan af rekstri þess konar þjónustu er mun minni þar sem veitandi reikningsupplýsingaþjónustu varðveitir aldrei fjármuni notanda greiðsluþjónustu í greiðslukeðjunni, sbr. 33. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Í 34. lið formálsorða tilskipunarinnar er tekið fram að greiðsluþjónustuveitendur sem aðeins annast greiðsluvirkjun eigi að teljast bera miðlungsáhættu að því er varðar stofnfé, þ.e. stofnframlag samkvæmt ákvæðinu.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða ákvæði 10. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að 8. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að eigið fé greiðslustofnunar megi á hverjum tíma ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 7. gr. eða 9. gr. frumvarpsins, hvor fjárhæðin sem er hærri. Líkt og fram kemur í 35. lið formálsorða tilskipunarinnar er ótilhlýðilegt að gera kröfur um eiginfjárgrunn til greiðsluvirkjenda eða reikningsupplýsingaþjónustuveitenda veiti þeir einungis þá þjónustu. Í 9. og 12. gr. koma fram þær kröfur sem gerðar eru til þessara greiðsluþjónustuveitenda. Ákvæðið er efnislega samhljóða 11. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, að öðru leyti en því að rekstraraðilar sérhæfðra sjóða bætast við upptalningu þeirra aðila sem geta tilheyrt samstæðu og hverra eiginfjárliði er óheimilt að telja tvisvar, auk innleiðingar 3. mgr. sem ekki var gert með gildandi lögum. Þar er lagt til að heimilt verði að undanþiggja greiðslustofnun frá útreikningi eigin fjár skv. 9. gr. frumvarpsins þegar hún fellur undir eftirlit á samstæðugrunni með móðurfélagi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 var innleidd með reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja nr. 233/2017.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að 9. gr. tilskipunarinnar um útreikning eiginfjárgrunns verði innleidd. Greinin tekur þó ekki til greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda í samræmi við 35. lið formálsorða tilskipunarinnar. Í 1. mgr. er kveðið á um að það sé ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hvaða aðferð (A, B eða C) skuli beitt hverju sinni við útreikning eigin fjár greiðslustofnunar. Hinar ólíku aðferðir, ásamt nauðsynlegum stuðlum, eru nánar skilgreindar í 2.–5. mgr. ákvæðisins. Í 6. mgr. er gert ráð fyrir heimild Fjármálaeftirlitsins til að gera kröfu um aukið eigið fé greiðslustofnunar sem leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1. mgr. Enn fremur er mælt fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til eftirgjafar, þ.e. að fjárhæð eigin fjár greiðslustofnunar sé lægri en leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1. mgr. Ákvæðið er efnilega samhljóða 12. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að 10. gr. tilskipunarinnar verði innleidd með nánari reglusetningu Seðlabanka Íslands. Í 10. gr. tilskipunarinnar er fjallað um varðveislu og vernd fjármuna sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitanda vegna framkvæmdar greiðslu.

    Í 1. mgr. eru lagðar skyldur á herðar greiðslustofnunum um tryggilega varðveislu fjármuna sem mótteknir hafa verið vegna framkvæmdar greiðslu.

    Greiðsluvirkjandi og reikningsupplýsingaþjónustuveitandi eru undanþegnir kröfunum enda kemur aldrei til þess að þeir varðveiti fjármuni notanda greiðsluþjónustu í greiðslukeðjunni.
    2. mgr. þarfnast ekki skýringar.

    Í 3. mgr. er Seðlabanka Íslands falið að setja nánari reglur um hvernig tryggilegri varðveislu fjármuna skal háttað með hagsmuni notenda greiðsluþjónustu að leiðarljósi. Reglurnar skulu byggjast á 10. gr. tilskipunarinnar.
    Hér er lagt til að tekinn verði sami valkostur við innleiðingu 10. gr. tilskipunarinnar og gert er í gildandi lögum, þ.e. að fjármunum skuli ekki blandað saman og hafnað að fara þá leið að fjármunir skuli tryggðir með vátryggingarsamningi líkt og aðildarríkjum er gefinn kostur á skv. b-lið 1. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið er efnislega samhljóða 18. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 11. gr.

    Lagt er til að í 1. mgr. 11. gr. verði kveðið á um að 52. gr. og 52. gr. a í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra og önnur störf stjórnarmanna skuli gilda að því er varðar stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur samkvæmt skipulagi greiðslustofnunar. Tilvísunin gegnir því hlutverki að samræma þær kröfur sem gerðar eru til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda greiðslustofnana og fjármálafyrirtækja. Skv. n-lið 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar skal sýna fram á það við umsókn um starfsleyfi sem greiðslustofnun að fyrrgreindir aðilar hafi góðan orðstír og búi yfir viðeigandi þekkingu og reynslu til að annast greiðsluþjónustu samkvæmt því sem heimaaðildarríki stofnunarinnar ákvarðar. Um er að ræða innleiðingu á þeim lið.
    Lagt er til að í 2. mgr. verðið kveðið á um að tilkynna beri Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn og framkvæmdastjórn greiðslustofnunar. Upplýsingar sem nauðsynlegar kunna að teljast til hæfismats hlutaðeigandi einstaklinga skuli fylgja slíkum tilkynningum, ellegar kunni Fjármálaeftirlitið að kalla eftir ítarlegri gögnum við framkvæmd matsins. Um er að ræða innleiðingu á 16. gr. tilskipunarinnar sem var einnig innleidd í 4. mgr. 4. gr. Ákvæði 11. gr. er breyting frá 20. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, þar sem kveðið er á um að lög um fjármálafyrirtæki gildi um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda greiðslustofnunar eftir því sem við á.

Um 12. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 2. mgr. og 4.–9. mgr. 11. gr. og 12. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að starfsleyfi skuli veitt ef umsækjandi uppfylli í umsókn sinni og meðfylgjandi gögnum, sbr. 4. gr., að mati Fjármálaeftirlitsins skilyrði 4. gr. og sýnir fram á að stjórnun hans sé skýr, traust, varfærin og undirsett fullnægjandi innra eftirliti. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um um þessi atriði og skal hafa til hliðsjónar ákvæði 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á. Með því er átt við að reglurnar skuli miðast við mismunandi greiðslustofnanir en starfsemi þeirra er ólík t.d. eftir því hvort um er að ræða reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu og er oftast banki. Reglur Seðlabanka Íslands skulu auk þess taka mið af 4. gr. frumvarpsins, sbr. 1. málslið, og lúta að skýrleika stjórnskipulags, traustri og varfærinni stjórnun, skýrum verklagsreglum er lúta að áhættu sem starfsemin er eða kann að vera óvarin fyrir og fullnægjandi innri eftirlitskerfum. Með skýru stjórnskipulagi er varðar rekstur greiðsluþjónustu er átt við að ábyrgð umsækjanda sé vel skilgreind, gagnsæ og samræmd. Um er að ræða innleiðingu á 2. og 4. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar, að hluta.
    Í 2. mgr. er tekið fram að þær kröfur sem gerðar séu til umsækjanda um starfsleyfi skuli vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar greiðsluþjónustu sem fyrirhugað sé að veita og að umsækjandi verði að uppfylla þær á hverjum tíma með því að sníða skipulag, verklagsreglur og annað skv. 1. mgr. Einsýnt er að rekstur þróast að umfangi og starfsemi og innviðir hans verða að breytast að sama skapi. Um er að ræða innleiðingu á 2. og 4. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar, að hluta.
    Í 3. og 4. mgr. er lögð sú skylda á greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda að kaupa sér tryggingu vegna mögulegra skaðabóta sem stofnast getur til í samræmi við 79. gr., 93. gr., 94. gr., 96. gr.
    Greiðsluvirkjandi og reikningsupplýsingaþjónustuveitandi hafa ekki yfir fjármunum viðskiptavina sinna að ráða líkt og greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu, sbr. 24. tölul. 3. gr. Af þeim sökum er ekki gerð krafa um tiltekið stofnframlag hjá þeim. Eigi að síður þarf að tryggja að þeir geti mætt bótaábyrgð sem á þá geti verið lögð og er tryggingu ætlað að tryggja greiðslu þeirra bóta. Um er að ræða innleiðingu á 2. og 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, sbr. einnig 18. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leita ráðgjafar annarra viðeigandi opinberra yfirvalda við mat á umsókn um starfsleyfi. Ráðgjöf getur til að mynda varðað fyrirhugaða þátttöku umsækjanda í greiðslukerfi. Um er að ræða innleiðingu á 2. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar.
    Í 6. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur greiðsluþjónustu til að aðskilja hana annarri starfsemi sem greiðslustofnunin sinnir eða hyggst sinna og sá hluti rekstrarins rýri eða geti rýrt trausta fjárhagsstöðu greiðslustofnunarinnar eða torveldi eftirlit með henni. Um er að ræða innleiðingu á 5. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar.
    Í 7. og 8. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að synja beri um starfsleyfi ef Fjármálaeftirlitið metur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar greiðslustofnunar og ef náin tengsl, í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, hindra eftirlit með starfsemi greiðslustofnunar. Auk þess er lagt til að synja beri um starfsleyfis komi lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja lands eða vandkvæði við framkvæmd þeirra í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Um er að ræða innleiðingu á 6. mgr., 7. mgr. og 8. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar.
    Í 9. og 10. mgr. er lagt til að innleidd verði ákvæði 9. mgr. 11. gr. og 12. gr. tilskipunarinnar um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun um starfsleyfi og tilkynningu þar um. Auk þess er kveðið á um að starfsleyfið gildi í öllum aðildarríkjum að fullnægðum skilyrðum 23.–25. gr. Það er Fjármálaeftirlitsins að meta hvenær umsókn telst fullnægjandi og hvort skilyrðum sé fullnægt.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 15. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 13. gr.

    Í þessari grein er lagt til að 13. gr. tilskipunarinnar verði innleidd.
    Í 1. mgr. er lagt til að talin verði upp helstu tilvik sem leitt geta til afturköllunar starfsleyfis greiðslustofnunar. Afturköllun starfsleyfis er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem veltur á mati. Eðlilegt er að Fjármálaeftirlitið hafi svigrúm til að meta hvort beita skuli afturköllun eða öðrum vægari úrræðum við nánar tilgreindar aðstæður. Þá felur orðalag 1. mgr. í sér að unnt er að afturkalla starfsleyfi fyrir einstökum þáttum starfsemi, þ.e. afturköllun að hluta. Fjármálaeftirlitið getur því látið við það sitja að afturkalla heimild greiðslustofnunar til að stunda tiltekna starfsemi ef ástæður afturköllunar snerta ekki hæfi til að sinna öðrum þáttum í starfseminni. Er þetta í samræmi við hina almennu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. A–e-liður þarfnast ekki skýringar.
     Um f-lið 1. mgr. Ástæður afturköllunar eru ekki tæmandi taldar í þessari málsgrein, enda er ekki unnt að sjá fyrir öll þau tilvik sem kunna að gera afturköllun nauðsynlega vegna þeirra verndarhagsmuna sem frumvarp þetta byggist á. Því er gert ráð fyrir að alvarleg eða ítrekuð brot gegn lögunum, verði frumvarp þetta að lögum, eða reglum settum samkvæmt þeim kunni að varða afturköllun starfsleyfis.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að afturköllun starfsleyfis skuli að jafnaði ekki beitt án þess að greiðslustofnun hafi fyrst gefist færi á að færa starfsemi sína í löglegt horf. Slíkur frestur kann þó í einhverjum tilfellum að geta leitt til tjóns, t.d. fyrir viðskiptamenn greiðslustofnunar, auk þess sem frestur til úrbóta á ekki við allar aðstæður sem tilgreindar eru í 1. mgr. Því er ekki um fortakslausan rétt greiðslustofnunar til úrbóta að ræða samkvæmt ákvæðinu. Þá athugast að ekki er gert ráð fyrir að 2. mgr. eigi við um a-lið 1. mgr., enda eðlilegast að líta svo á að starfsleyfi teljist niður fallið við þær aðstæður.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ákvörðun um afturköllun starfsleyfis samkvæmt ákvæði þessu verði tilkynnt stjórn hlutaðeigandi greiðslustofnunar, með skriflegum rökstuðningi, og kynnt opinberlega. Sérstaklega er kveðið á um að tilkynning um afturköllun skuli send lögbærum eftirlitsaðilum í ríkjum þar sem hlutaðeigandi greiðslustofnun starfrækir útibú eða veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsmanns.
    4. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Ákvæðið byggist, sem fyrr segir, á 13. gr. tilskipunarinnar og er nær efnislega samhljóða 16. gr. laga um um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 14. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 14. gr. og 1.–3. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Fjármálaeftirlitið skal halda opinbera skrá yfir greiðslustofnanir, umboðsaðila og útibú þeirra, svo og hvers konar greiðsluþjónustu þær veita. Auk þess skal tilgreina og aðgreina aðila í 2. málslið frá þeim einstaklingum og lögaðilum sem njóta undanþágu í samræmi við 34. gr. sem greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi og 35. gr. sem reikningsupplýsingarþjónustuveitandi og, ef við á, útibú og umboðsaðila þeirra. Almenningur skal hafa aðgang að skránni, en í því felst að birta skal skrána á vef Seðlabanka Íslands og uppfæra hana þegar í stað ef breytingar verða. Erlendar greiðslustofnanir sem hyggjast veita greiðsluþjónustu hér á landi með stofnun útibús skulu aftur á móti tilkynna það fyrir fram til lögbærs eftirlitsaðila í heimaríki sínu, í samræmi við efni 17. gr. frumvarpsins, því að það stendur hlutaðeigandi eftirlitsaðila nær að uppfæra upplýsingar um umboðsmenn og útibú erlendis. Yfirlit yfir erlenda aðila sem hafa heimild til að veita þjónustu á Íslandi er að finna á vef Seðlabanka. Hafi stofnanir heimild samkvæmt sérlögum til að veita greiðsluþjónustu skulu þær einnig skráðar í téða skrá.
    Fjármálaeftirlitinu ber einnig að tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnunni um efni skrár sinnar um greiðslustofnanir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin þróar, starfrækir og viðheldur rafrænni miðlægri skrá um skráningu greiðslustofnana í hverju aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu sem er aðgengileg öllum. Æskilegt er að Fjármálaeftirlitið birti á vef sínum tengil á rafræna skrá Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar yfir greiðslustofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu, umboðsmenn þeirra og útibú á erlendri grundu.
    Ákvæðið er útvíkkun á 13. gr. a laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 15. gr.

    Í greininni er lagt til að 17. gr. tilskipunarinnar verði innleidd um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
    Þar segir að reikningsár greiðslustofnunar sé almanaksárið og að greiðslustofnun skuli leggja fram aðskilin reikningsskil fyrir annars vegar greiðsluþjónustu og hins vegar aðra starfsemi sem hún annast skv. 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins. Greinin þarfnast ekki frekari skýringar.
    Ákvæðið er nær efnislega samhljóða 20. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 16. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 18. gr. tilskipunarinnar. Í 1. mgr. segir að greiðslustofnunum sé heimilt samkvæmt ákvæðinu að stunda tiltekna starfsemi auk greiðsluþjónustu. Skv. a-lið er greiðslustofnun heimilt að stunda rekstur nátengdrar stoðþjónustu, svo sem að tryggja framkvæmd greiðslna, gjaldeyrisviðskipti, fjárvörslu, geymslu og vinnslu gagna, t.d. gagnagreiningar. Útgefandi greiðslukorts býður oftar en ekki upp á viðbótarþjónustu eins og afsláttarkjör vegna notkunar kortsins og telst slík þjónusta stoðþjónusta. Með gjaldeyrisviðskiptum er átt við gjaldeyrisviðskipti þar sem fjármunir eru geymdir á greiðslureikningi. Slík viðskipti eiga sér t.d. stað þegar færsluhirðir móttekur kortatengdar greiðslur í ýmsum gjaldmiðlum fyrir netverslun söluaðila en gerir upp við söluaðilann í einum gjaldmiðli. Skv. b-lið er greiðslustofnun heimilt að starfrækja greiðslukerfi. Greiðslustofnun getur þannig hvort heldur hannað eða keypt og rekið eigin greiðslukerfi, ellegar greitt fyrir þátttöku í öðrum greiðslukerfum (eða hvort tveggja). Skv. c-lið er greiðslustofnun heimilt að sinna annarri starfsemi í samræmi við aðra gildandi löggjöf. Í einhverjum tilvikum getur slík starfsemi verið háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins, t.d. lánastarfsemi sem er ekki í tengslum við greiðsluþjónustu en þarf að uppfylla skilyrði í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Á hinn bóginn getur lánastarfsemi verið undanþegin eftirliti Fjármálaeftirlitsins og þá gilda engu að síður lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og greiðslustofnun er þar með háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins vegna þess þáttar í lánastarfseminni. Greiðslustofnun er heimilt að stunda aðra starfsemi í dótturfélagi. Eigi að síður eru slíkum heimildum takmörk sett í lögunum.
    Í 2. mgr. er heimild greiðslustofnana til að halda greiðslureikninga bundin því skilyrði að slíkir reikningar séu einungis notaðir í tengslum við framkvæmd greiðslna. Orðið greiðslureikningur er skilgreint í 17. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Greiðslustofnun má einungis móttaka fjármuni frá neytanda í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu, hvort sem er strax eða síðar á fyrirframgefnum dögum líkt og á við um beingreiðslur. Fjármunirnir mega ekki vera í varðveislu hjá greiðslustofnuninni lengur en þörf krefur vegna tæknilegra atriða við framkvæmd greiðslu. Kveðið er á um tímafrest greiðslna og gildisdag í 83. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er sérstaklega tekið fram að fjármunir sem greiðslustofnun móttekur vegna greiðsluþjónustu teljist hvorki innlán, endurgreiðanlegir fjármunir frá almenningi né rafeyrir. Þetta þýðir að greiðslustofnun má ekki gera samning við notanda greiðsluþjónustu um að hann geti farið fram á endurgreiðslu fjármunanna hvenær sem er. Notandi greiðsluþjónustu getur á hinn bóginn farið fram á endurgreiðslu fjármuna úr hendi greiðslustofnunar þegar einhver skilyrð eftirfarandi greina eru fyrir hendi: 77. gr., 78. gr., 79. gr., 80. gr., 81. gr., 82. gr. eða 83. gr. Fjármunir sem greiðslustofnun móttekur frá notanda greiðsluþjónustu þurfa ekki að vera eyrnamerktir tiltekinni greiðslu. Ekki er heldur lagt bann við að greiðslustofnun bjóði vexti eða afsláttarkjör í tengslum við fjármuni sem hún hefur móttekið frá notanda greiðsluþjónustu til að framkvæma greiðslu.
    Í 4. mgr. eru tilgreind skilyrði heimildar greiðslustofnana til lánveitinga í tengslum við greiðsluþjónustu sem um getur í d- eða e-lið 22. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Það er í fyrsta lagi skilyrði að lánveiting sé hliðarstarfsemi. Hún þarf því að vera boðin notanda greiðsluþjónustu í tengslum við greiðsluþjónustu, svo sem lánveiting við útgáfu kreditkorts. Í öðru lagi er sú regla varðandi lánveitingar yfir landamæri að endurgreiðslutími slíkra lána skuli að hámarki vera 12 mánuðir. Lánveitingin má vera hlaupandi lán með tiltekna lánaheimild svipað og úttektarheimildir kreditkorta en einu sinni á ári þarf lánþeginn að greiða upp lánaheimildina. Í þriðja lagi er óheimilt að fjármagna lánveitingu með fjármunum sem mótteknir eru eða varðveittir vegna greiðslu. Í fjórða lagi verður eiginfjárgrunnur hlutaðeigandi greiðslustofnunar að uppfylla kröfur frumvarpsins og vera, að mati Fjármálaeftirlitsins, fullnægjandi með tilliti til heildarlánveitinga. Það þýðir þó ekki að Fjármálaeftirlitið geti farið fram á frekara eigið fé en heimilt er skv. 8. og 9. gr. Hins vegar skal Fjármálaeftirlitið við ákvörðun á eigin fé greiðslustofnunar hafa hliðsjón af hversu umfangsmikla lánastarfsemi greiðslustofnunin hyggst stunda í tengslum við greiðsluþjónustu. Bjóði greiðslustofnun viðskiptavinum lán en þó ekki í tengslum við greiðsluþjónustu er talað um aðra starfsemi í skilningi c-liðar 1. mgr. Árétta skal að um lánveitingar greiðslustofnunar til einstaklinga gilda lögum neytendalán, nr. 33/2013. Jafnframt er Seðlabanka Íslands veitt heimild til að setja nánari reglur um lánveitingar greiðslustofnana.
    Í 5. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að setja nánari reglur um lánveitingar greiðslustofnunar.
    Í 6. mgr. er lagt til að kveðið verði skýrlega á um að greiðslustofnun sé óheimilt að stunda innlánsstarfsemi eða taka við endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki enda um starfsemi að ræða sem er leyfisskyld samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
    Í 7. mgr. er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að banna greiðslustofnun að stunda að hluta til eða öllu leyti aðra starfsemi skv. þessari grein.
    Ákvæðið er nokkuð breytt frá 19. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 17. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að greiðslustofnun sem hyggst veita greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila skuli tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skuli fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans sem meðal annars skuli uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skuli einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og að þeir séu hæfir ef þeir eru ekki greiðsluþjónustuveitendur fyrir. Að auki skuli greiðslustofnunin veita upplýsingar um þá greiðsluþjónustu sem umboðsaðilinn hafi umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa. Umboðsaðili telst sá sem hefur heimild til að skuldbinda greiðslustofnun. Aðili sem tekur þátt í markaðssókn greiðslustofnunar telst ekki umboðsaðili hafi hann ekki heimild til að skuldbinda stofnunina. Á hinn bóginn getur aðili sem kemur fram í eigin nafni ekki gert það sem umboðsaðili heldur skal hann hafa sitt eigið leyfi sem greiðslustofnun. Umboðsaðilinn getur verið með umboð frá greiðslustofnun fyrir allri greiðsluþjónustunni sem hún býður upp á eða einungis hluta þjónustunnar. Ákvæði 1. mgr. er innleiðing á 1. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er lagt er til að Fjármálaeftirlitið skrái umboðsaðila í skrá skv. 14. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr., innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna. Tveggja mánaða fresturinn á við í því tilviki að Fjármálaeftirlitið hafi fengið fullnægjandi upplýsingar. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitinu ber að senda greiðslustofnun upplýsingar um hvort umboðsaðili hafi verið færður inn á skrána. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila ef það er mat þess að upplýsingar skv. 1. mgr. séu ekki réttar. Ef Fjármálaeftirlitið metur upplýsingarnar ófullnægjandi eða rangar er því heimilt að hafna skráningu. Hafi Fjármálaeftirlitið annaðhvort synjað um skráningu eða hafnað skráningu skal tilkynna greiðslustofnun það án ótilhlýðilegrar tafar og er greiðslustofnuninni óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila frá þeim tíma. Ákvæði 2. mgr. er innleiðing á 1. málsl. 2. mgr., 3. og 4. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að greiðslustofnun verði heimilt að veita greiðsluþjónustu í gegnum umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd þess eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá yfir greiðslustofnanir, sbr. 14. gr. Ákvæði 3. mgr. er innleiðing á 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar.
    Í 4. mgr. er lagt til að greiðslustofnun skuli sjá til þess að umboðsaðilar eða útibú upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd. Notandi greiðsluþjónustu á að vita að hann að eigi viðskipti við umboðsaðila tiltekinnar greiðslustofnunar. Ákvæðið er innleiðing á 7. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. er lagt til að greiðslustofnun tilkynni til Fjármálaeftirlitsins um breytingar á umboðsmönnum, þ.m.t. viðbótarumboðsmönnum, og skal við það fylgja málsmeðferð skv. 2.–4. mgr. Ákvæðið er innleiðing á 8. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar.
    Í 6. mgr. er lagt til að þegar greiðslustofnun óskar eftir því að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki í gegnum umboðsaðila fari um slíkt skv. 25. gr. Er hér um að ræða innleiðingu á 5. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar.

Um 18. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 6. og 8. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar. Í 1. mgr. segir að greiðslustofnun beri að tilkynna um fyrirhugaða útvistun til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið getur þá gengið úr skugga um að útvistun sé í samræmi við þær kröfur sem eru gerðar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að sérstakar reglur gildi um svokallaða mikilvæga rekstrarþætti. Útvistun slíkra þátta, þ.m.t. rekstri upplýsingakerfa, má ekki draga verulega úr gæðum innra eftirlits greiðslustofnunar og getu Fjármálaeftirlitsins til að hafa eftirlit með starfsemi greiðslustofnunar; geri hún það er hún óheimil. Þetta birtist meðal annars í því að greiðslustofnunin og endurskoðandi hennar skulu hafa aðgengi að öllum nauðsynlegum upplýsingum hjá útvistunaraðila vegna verkefnisins til að greiðslustofnunin geti fullvissað sig um að útvistunaraðili framfylgi stefnum hennar eins og hann hefur lofað í samningi. Ávallt er um útvistun á mikilvægum rekstrarþáttum að ræða þurfi stjórn greiðslustofnunar að taka ákvörðun um þá í samræmi við stjórnarhætti greiðslustofnunarinnar. Útvistun verkefna sem ekki hafa þýðingu fyrir starfsemi greiðsluþjónustunnar telst ekki útivistun á mikilvægum rekstrarþáttum þrátt fyrir að verkefnin séu mikilvæg, svo sem lögmannsþjónusta, símenntun starfsmanna, bókhald, þrif og rekstur mötuneytis.
    Í 3. mgr. eru talin upp þau skilyrði sem greiðslustofnun verður að uppfylla til að mega útvista mikilvægum rekstrarþætti. Fyrsta skilyrðið er að útvistun leiði ekki til þess að ábyrgð stjórnenda verði framseld til útvistunaraðila. Stjórnendur greiðslustofnunar geta meðal annars tryggt þetta með því að hafa nægjanlegt eftirlit með útvistunaraðila sem felur meðal annars í sér að fylgjast með að hann hafi á hverjum tíma tilhlýðilega þekkingu og styrk til að annast verkefnið og geti gefið um það skýrslu til stjórnenda greiðslustofnunar. Annað skilyrðið er að skyldur og samband greiðslustofnunar gagnvart notendum greiðsluþjónustu hennar samkvæmt lögum þessu breytist ekki. Greiðslustofnun má ekki útvista verkefnum til útvistunaraðila sem ekki býr yfir nægum styrk til að tryggja greitt og snurðulaust aðgengi að þeirri greiðsluþjónustu sem greiðslustofnun býður. Þriðja skilyrðið er að greiðslustofnunin uppfylli enn skilyrðin sem eru forsendan fyrir starfsleyfi hennar sem greiðslustofnunar. Greiðslustofnun verður því að tryggja við samningsgerð við útvistunaraðila að hann skuldbindi sig til að fylgja nauðsynlegum stefnum og því verklagi greiðslustofnunarinnar sem við á, svo sem öryggisstefnu, innri reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og persónuverndarstefnu, sbr. 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins. Fjórða og síðasta skilyrðið er að hvorki skuli breyta né fella brott einhver þeirra skilyrða sem liggja til grundvallar starfsleyfi greiðslustofnunarinnar. Fjármálaeftirlitið getur t.d. hafa gert það að skilyrði að greiðsluþjónusta sem félag hyggst veita skuli fara fram í sérstakri einingu fyrir rekstur greiðslustofnunar, sbr. 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. er Seðlabanka Íslands veitt heimild til að setja nánari reglur um hvernig greiðslustofnun skuli standa að útvistun mikilvægra rekstrarþátta samkvæmt þessu ákvæði, meðal annars til að tryggja að reglur þessara laga séu í heiðri hafðar. Ákvæðið á sér hliðstæðu í 3. mgr. 24. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    5. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 19. gr.

    Lagt er til að í 19. gr. verði kveðið á um skyldu greiðslustofnunar til að viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í starfsemi sinni. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi greiðslustofnana, sbr. 22. gr. frumvarpsins, og að um eftirlitið fari samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Samkvæmt þeim lögum skal Fjármálaeftirlitið meðal annars fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Við skýringu á því hvað felst í hugtökunum eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur verður bæði litið til laga, almennra siðareglna og viðtekinna venja. Þá geta ákvæði reglugerða, reglna og tilmæli Seðlabanka Íslands veitt leiðbeiningu hvað þetta varðar.
    Í 2. mgr. er lagt til að stjórnarmenn greiðslustofnunar, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins verði bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Um þagnarskylduna fer skv. 58.–60. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Ákvæði 19. gr. er samhljóða 17. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, sem er þó ekki innleiðing á tilskipuninni.

Um 20. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 20. gr. tilskipunarinnar. Greinin er samhljóða 25. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 21. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 21. gr. tilskipunarinnar. Kveðið er á um að greiðslustofnun beri að varðveita öll viðeigandi gögn er varða II. kafla frumvarpsins í a.m.k. fimm ár. Hafa verður í huga að önnur lög kunna að gera ríkari kröfur um varðveislu gagna en þetta ákvæði. Sem dæmi má nefna lög um bókhald og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Auk þess er rétt að nefna að skv. 1 mgr. 98. gr. frumvarpsins fer um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem gæti haft áhrif á varðveislutíma gagna.
    Ákvæðið er samhljóða 26. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 22. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með starfsemi greiðslustofnana sem falla undir ákvæði II. kafla laganna, þ.m.t. umboðsaðila, útibúa og útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu. Fjármálaeftirlitinu eru gefnar heimildir til að afla upplýsinga, mæta á starfsstöð greiðslustofnunar, umboðsaðila eða útibús hennar auk þess sem Fjármálaeftirlitinu er fengin heimild til að standa fyrir skoðun á starfsstöð útvistunaraðila. Eðli máls samkvæmt verður greiðslustofnun að tryggja slíkt aðgengi í samningi við útvistunaraðila. Þá getur Fjármálaeftirlitið stöðvað eða afturkallað starfsleyfi greiðslustofnunar. Til fyllingar a–d-liði er Fjármálaeftirlitinu í e-lið veitt víðtækar heimildir til eftirlitsaðgerða. Í lögum um opinbert eftirlit er t.d. fjallað um leiðbeinandi tilmæli, athugasemdir og úrbætur. Hér er um innleiðingu á 23. gr. tilskipunarinnar að ræða. Í 1. mgr. 22. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, er að finna ákvæði sem er nær efnislega samhljóða 1. mgr. þessarar greinar frumvarpsins en ákvæði 2. og 3. mgr. verða nýmæli í lögunum.

Um 23. gr.

    Greiðslustofnun telst veita þjónustu yfir landamæri án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila ef hún veitir þjónustu í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins án þess að hafa þar afgreiðslustöð eða skrifstofu. Þegar boðið er upp á greiðsluþjónustu á netinu eða með öðrum fjarskiptum telst slík þjónusta falla hér undir. Sama gildir um greiðslustofnun sem býður þjónustu sína einungis í formi hraðbanka í öðrum aðildarríkjum. Greiðsluþjónusta í formi beingreiðslna þar sem viðtakandi greiðslu er í öðru aðildarríki, millifærsla fjármuna til viðtakanda greiðslu sem býr í öðru aðildarríki og notkun greiðslukorts í öðru landi en útgáfulandinu telst ekki greiðsluþjónusta sem greiðslustofnun veitir yfir landamæri.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að greiðslustofnun skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaða veitingu á þjónustu og hvaða upplýsingar skuli koma fram í tilkynningunni. Innan mánaðar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins. Eins mánaðar fresturinn byrjar að líða þegar greiðslustofnun hefur veitt allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Um er að ræða innleiðingu á 1. mgr. 28. gr. og 1. undirgreinar 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna greiðslustofnun ákvörðun sína og sé hún jákvæð skuli Fjármálaeftirlitið samhliða uppfæra upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr. Þriggja mánaða fresturinn er frá því að eins mánaðar fresturinn skv. 1. mgr. byrjar að líða. Lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa einn mánuð til að yfirfara upplýsingarnar og gera athugasemdir. Að endingu hefur Fjármálaeftirlitið mánuð til að meta athugasemdir lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki og taka ákvörðun. Við endanlega ákvörðun skal Fjármálaeftirlitið taka mið af afstöðu þeirra. Rétt er að geta þess til skýringar við þessa grein að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með veitingu greiðsluþjónustu greiðslustofnunar þegar hún er veitt yfir landamæri t.d. til Danmerkur eða Noregs, sbr. 22. gr. frumvarpsins. Um er að ræða innleiðingu á 1. undirgrein 3. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar. Ákvæði 23. gr. frumvarpsins er nær samhljóða 23. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Skilyrðum hefur fjölgað, svo sem um að tilkynna um hvort fyrirhugað sé að útvista rekstrarþætti.

Um 24. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að greiðslustofnun sem hyggst veita þjónustu í öðru aðildarríki með stofnun útibús skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það og veita því upplýsingar, meðal annars um í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta sé fólgin og hvaða aðildarríki eigi í hlut ásamt upplýsingum um innviði greiðslustofnunar. Innan mánaðar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á að þjónustan sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins. Eins mánaðar fresturinn byrjar að líða þegar greiðslustofnun hefur veitt allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Um er að ræða innleiðingu á 1. mgr. 28. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna greiðslustofnun ákvörðun sína og sé hún jákvæð skuli Fjármálaeftirlitið samhliða uppfæra upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr. Þriggja mánaða fresturinn er frá því að eins mánaðar fresturinn skv. 1. mgr. byrjar að líða. Lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa einn mánuð til að yfirfara upplýsingarnar og gera athugasemdir. Að endingu hefur Fjármálaeftirlitið mánuð til að meta athugasemdir þeirra og taka ákvörðun. Við endanlega ákvörðun skal Fjármálaeftirlitið taka mið af afstöðu lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríkinu. Um er að ræða innleiðingu á 14. gr. og 1. málsl. 3. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem greiðslustofnun hyggst stofna útibú um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skuli Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um útibúið í skrá skv. 14. gr. eða afturkalla skráningu, hafi hún þegar farið fram. Um er að ræða innleiðingu á 2.–5. málsl. 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 4. mgr. er gerð grein fyrir því úrræði sem Fjármálaeftirlitinu stendur til boða telji það að lögbært yfirvald í öðru aðildarríki hafi ekki uppfyllt skilyrði þess samstarfs sem gert er ráð fyrir í lögum þessum að sé á milli lögbærra yfirvalda vegna eftirlits með greiðslustofnunum sem neyta staðfesturéttar og nýta frelsið til að veita þjónustu. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur án ástæðulausrar tafar ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess að eigin frumkvæði aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.
    Í 5.–7. mgr. er kveðið á um að greiðslustofnun skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þann dag sem hún hefur starfsemi fyrir milligöngu útibúsins, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar eru skv. 1. mgr. og sjá til þess að útibú sem veitir greiðsluþjónustu fyrir hennar hönd upplýsi notendur um þá staðreynd. Um er að ræða innleiðingu á 7. mgr. 19. gr. og 3. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Ákvæði þetta á sér samsvörun í 23. gr. a laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, en er ítarlegra.

Um 25. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að greiðslustofnun sem hyggst veita þjónustu í öðru aðildarríki fyrir milligöngu umboðsaðila sem staðsettur er í ríkinu skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það og veita því upplýsingar meðal annars um í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta sé fólgin og hvaða aðildarríki eigi í hlut ásamt upplýsingum um innra eftirlitskerfi umboðsaðilans. Innan mánaðar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins. Eins mánaðar fresturinn byrjar að líða þegar greiðslustofnun hefur veitt allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Um er að ræða innleiðingu á 1. mgr. 28. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna greiðslustofnun ákvörðun sína og sé hún jákvæð skuli Fjármálaeftirlitið samhliða uppfæra upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr. Þriggja mánaða fresturinn telst frá sama tíma og eins mánaðar fresturinn skv. 1. mgr. byrjar að líða. Lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa einn mánuð til að yfirfara upplýsingarnar og gera athugasemdir. Að endingu hefur Fjármálaeftirlitið mánuð til að meta athugasemdir þeirra og taka ákvörðun. Við endanlega ákvörðun skal Fjármálaeftirlitið taka mið af afstöðu lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríkinu. Um er að ræða innleiðingu á 1. málsl. 3. mgr. 28. gr. og 14. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er um að ræða innleiðingu á 2.–4. málsl. 2. mgr. 28. gr. og 14. gr. tilskipunarinnar
    Í 4. mgr. er gerð grein fyrir því úrræði sem Fjármálaeftirlitinu stendur til boða telji það að lögbært yfirvald í öðru aðildarríki hafi ekki staðið við það samstarf sem gert er ráð fyrir í lögum þessum að sé á milli lögbærra yfirvalda vegna eftirlits með greiðslustofnunum sem neyta staðfesturéttar og nýta frelsi til að veita þjónustu. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur þá ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, án ástæðulausrar tafar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi að eigin frumkvæði í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.
    Vísað er til skýringa við 4.–6. mgr. 24. gr. vegna 4.–6. mgr. 25. gr. eftir því sem við á.
    Um er að ræða innleiðingu á 3. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 28. gr. tilskipunar og 7. mgr. 19 gr. tilskipunarinnar. Ákvæði þetta á sér hliðstæðu í 23. gr. b laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, en er þó mun ítarlegra.

Um 26. gr.

    Í greininni er lagt til að Fjármálaeftirlitinu skuli tilkynnt um það fyrir fram ákveði greiðslustofnun að hefja starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá skal tilkynna heiti og heimilisfang fyrirtækis, viðkomandi ríki sem á í hlut og í hverju þjónustan verði fólgin, sem og aðrar upplýsinga sem eftirlitið telur nauðsynlegar. Ákvæðið er samhljóða 23. gr. d laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sé heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila. Um er að ræða innleiðingu á 1. undirgrein 1. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hlutverk Fjármálaeftirlitsins í tilkynningarferli því sem fram fer í heimaaðildarríki greiðslustofnunar og að frá þeim tíma sem lögbært yfirvald aðildarríkis hafi uppfært skrá sambærilega þeirri sem um getur í 14. gr. frumvarpsins sé greiðslustofnun heimilt að veita greiðsluþjónustu á Íslandi án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila. Um er að ræða innleiðingu á 2. undirgrein 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Ákvæðið er nær efnislega samhljóða 23. gr. c laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 28. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að greiðslustofnun, sem hafi staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, sé heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila. Um er að ræða innleiðingu á 1. undirgrein 1. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hlutverk Fjármálaeftirlitsins í tilkynningarferli því sem fram fer í heimaaðildarríki greiðslustofnunar og að frá þeim tíma sem lögbært yfirvald aðildarríkis hafi uppfært skrá sambærilega þeirri sem um getur í 14. gr. sé greiðslustofnun heimilt að veita greiðsluþjónustu á Íslandi með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila. Um er að ræða innleiðingu á 1. og 2. undirgrein 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að upplýsa lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki telji það að aukin hætta sé á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna veitingar greiðsluþjónustu með stofnun útibús hér á landi eða fyrir milligöngu umboðsaðila. Ákveði lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi slíkrar tilkynningar er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi frá þeim tíma. Um er að ræða innleiðingu á 2. undirgrein 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar.
    Í 4. mgr. er fjallað um úrræði Fjármálaeftirlitsins í því tilviki þegar lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki hafa ekki tekið tillit til athugasemda þess og greiðslustofnun er veitt heimild til stofnunar útibús hérlendis eða veitingar greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur þá ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, án ástæðulausrar tafar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi að eigin frumkvæði í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að notendur greiðsluþjónustu skuli hafa vitneskju um að þeir eigi í viðskiptum við útibú eða umboðsaðila greiðslustofnunar en ekki beint við hana sjálfa. Um er að ræða innleiðingu á 7. mgr. 19. gr. tilskipunarinnar.
    Ákvæðið á sér nokkra hliðstæðu í 23. gr. e laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, sem tekur þó einungis til þjónustu greiðslustofnunar innan Evrópska efnahagssvæðisins með stofnun útibús en ekki fyrir milligöngu umboðsaðila. Þá eru skilyrðin fleiri í frumvarpinu sem þarf að uppfylla.

Um 29. gr.

    Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að veita stofnun í þriðja ríki, sem veitir greiðsluþjónustu, að opna útibú eða veita þjónustu hér á landi fyrir milligöngu innlends umboðsaðila. Um veitingu slíks starfsleyfis, eftirlit, afturköllun o.fl. fari samkvæmt þessum lögum, nái frumvarpið fram að ganga. Skilyrði fyrir veitingu leyfisins sé að stofnunin hafi leyfi til að stunda starfsemi í heimaríki sínu hliðstæða þeirri sem það hyggst stunda hér á landi, að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu og að gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í því ríki. Til að útibú geti hafið starfsemi hér á landi skuli heimaríki stofnunarinnar hafa undirritað samning við íslensk stjórnvöld, sem fari að öllu leyti að stöðlum skv. 26. gr. skattasamningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar um tekjur og fjármagn og tryggir skilvirk upplýsingaskipti um skattamál, þ.m.t. hvers konar marghliða samninga um skattamál, eigi það við.
    2. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Ákvæðið á sér hliðstæðu í 23. gr. f laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 30. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að innleidd verði 1. mgr. 29. gr. tilskipunarinnar um samstarf Fjármálaeftirlitsins við systurstofnanir erlendis vegna starfsemi greiðslustofnana yfir landamæri sem fengið hafa starfsleyfi á grundvelli II. kafla.
    Í 2. mgr. er lagt til að innleidd verði 2. mgr. 29. gr. tilskipunarinnar um upplýsingagjöf greiðslustofnunar til lögbærra stjórnvalda í gistiaðildarríki. Lögbær stjórnvöld í gistiaðildarríki skulu samkvæmt tilskipuninni hafa eftirlit með greiðsluþjónustu hvað varðar neytendavernd eða samsvarandi ákvæði og í IV.–VII. kafla.
    Í 3. mgr. er lagt til að 1. mgr. 30. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Fjármálaeftirlitið skal, eftir að hafa lagt mat á upplýsingarnar sem það fær samkvæmt þessari grein frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki, án ótilhlýðilegrar tafar, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi greiðslustofnun fari að settum reglum. Á Fjármálaeftirlitinu hvílir enn fremur sú skylda að sinna upplýsingagjöf til lögbærs yfirvalds í gistiaðildarríki.
    Í 4. mgr. er lagt til að 3. mgr. 29. gr. tilskipunarinnar verði innleidd, um upplýsingaskipti eftirlitsstofnana. Með mikilvægum upplýsingum er í ákvæði þessu einkum átt við upplýsingar um rekstur og starfsemi greiðslustofnunar sem kunna að hafa áhrif á skilyrði starfsleyfisveitingar hlutaðeigandi stofnunar eða traustleika og heilbrigði rekstrar hennar. Á það skal jafnframt bent að lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gilda einnig um eftirlit með greiðslustofnunum, sbr. 1. mgr., en í IV. kafla þeirra er meðal annars fjallað um samskipti við eftirlitsstjórnvöld.

Um 31. gr.

    Lagt er til að í 1. mgr. verði 2. mgr. 29. gr. tilskipunarinnar innleidd. Upplýsingagjöfin til Fjármálaeftirlitsins er gerð í því skyni að það geti haft eftirlit með því að ákvæðum IV.–VI. kafla sé fylgt. Þetta geta t.d. verið upplýsingar um fjölda viðskiptavina, heildarvelta greiðslna hjá útibúinu eða umboðsmanninum, auk afrits af stöðluðum viðskiptaskilmálum og verðskrá til að tryggja að farið sé að ákvæðum III. kafla. Fjármálaeftirlitið aflar þeirra upplýsinga sem þörf er á til að það geti sinnt eftirliti með neytendavernd, nema annað leiði af sérlögum.
    Í 2.–4. mgr. er fjallað um skyldur sem hvíla á Fjármálaeftirlitinu vegna umboðsaðila og útibúa erlendra greiðslustofnana, sem starfa hér á landi og fara ekki að ákvæðum II.–VII. kafla. Skapist neyðarástand getur Fjármálaeftirlitið gripið til varúðarráðstafana og á það einnig við skapist neyðarástand af völdum greiðslustofnunar með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veitir greiðsluþjónustu yfir landamæri án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila. Um er að ræða innleiðingu á 30. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.
    Í 5. mgr. greinir frá því úrræði sem Fjármálaeftirlitinu stendur til boða telji það að lögbært yfirvald í öðru aðildarríki hafi ekki staðið við það samstarf sem gert er ráð fyrir í lögum þessum að sé á milli lögbærra yfirvalda aðildarríkis greiðslustofnunar og gistiaðildarríkis hennar til að lögum þessum sé framfylgt og öðrum landslögum sem innleiða tilskipunina og til að bregðast við neyðarástandi með nauðsynlegum varúðarráðstöfunum. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur þá ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, án ástæðulausrar tafar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi að eigin frumkvæði í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019. Ákvæði 31. gr. er nýmæli.

Um 32. gr.

    Í greininni er lagt til að 26. gr. tilskipunarinnar verði innleidd eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.
    Í 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið, í tengslum við eftirlit með greiðsluþjónustuveitendum, skuli, eftir því sem við á, eiga samstarf við evrópsk lögbær stjórnvöld og eftirlitsstofnanir innan Evrópska efnahagssvæðisins, svo sem Seðlabanka Evrópu, Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og Eftirlitsstofnun EFTA.
    Í 2. mgr. er lagt til að veitt verði undanþága frá þagnarskyldu Fjármálaeftirlitsins í þágu skilvirkrar samvinnu og eftirlits milli eftirlitsstofnana og eftirlitsstjórnvalda í mismunandi aðildarríkjum, sem er nauðsynlegt í ljósi þess að greiðsluþjónustuveitendur sem eru greiðslustofnanir geta veitt öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu þjónustu. Ákvæðið er í samræmi við 14. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Ákvæðið er nýmæli í þessum lögum.

Um 33. gr.

    Í greininni er lagt til að 4. mgr. 29. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Tilgangur með því að tilnefna miðlægan tengilið er að tryggja að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með erlendri greiðslustofnun sem veitir greiðsluþjónustu hérlendis fyrir milligöngu umboðsaðila sé skilvirkt og nái tilgangi sínum. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með neytendavernd sem er fléttuð í lögin og birtist í IV.–VII. kafla. Miðlægur tengiliður er ábyrgur fyrir því að Fjármálaeftirlitinu berist þau gögn og þær upplýsingar sem það óskar eftir í tengslum við eftirlit sitt. Þess ber að geta að kröfur um að tilnefna miðlægan tengilið er einnig að finna í j-lið 57. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Ákvæði 33. gr. er nýmæli í þessum lögum.

Um 34. gr.

    Í greininni er lagt til að nýtt verði valkvætt ákvæði 32. gr. tilskipunarinnar og það innleitt. Með því að kveða á um mánaðarlegt meðaltal heildargreiðslna á mánuði, líkt og gert er í 2. mgr., er ætlunin að tryggja að heimildin til veitingar greiðsluþjónustu, sem fæst með undanþágu frá því sem gildir annars um greiðsluþjónustuveitendur, sbr. 23. tölul. 3. gr., einskorðist við smærri fyrirtæki. Þegar umsvif eru með öðrum orðum slík að mánaðarlegt meðaltal heildarfjárhæðar framkvæmdra greiðslna, að frátöldum greiðslum með smágreiðslumiðlum, nemur hærri fjárhæð en tilgreind er í 2. mgr. er talið æskilegra að ríkari kröfur séu gerðar til greiðsluþjónustuveitandans.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að helstu ákvæði II. kafla frumvarpsins, um greiðslustofnanir, gildi um greiðslustofnanir með takmarkað starfsleyfi sem heimilt er að veita greiðsluþjónustu skv. 1. mgr. Ekki er gert ráð fyrir að eftirfarandi ákvæði gildi: 7. gr., 8. gr., 9. gr., 9. mgr. 12. gr., 4. mgr. 16. gr., 18. gr., 23.–28. gr. Að öðru leyti gerir frumvarpið ráð fyrir að greiðslustofnanir með takmarkað starfsleyfi séu háðar sömu skilyrðum og aðrar greiðslustofnanir.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir heimild til handa Seðlabanka Íslands um nánari reglusetningu á grundvelli ákvæðisins.
    Ákvæðið er nokkuð sambærilegt 27. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 35. gr.

    Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi mun sæta eftirliti á sama hátt og greiðslustofnun þrátt fyrir að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi inni hvorki af hendi stofnframlag né beri að hafa tiltekinn eiginfjárgrunn, sbr. 7. gr. og 9. gr. Mörg skilyrði laganna eiga ekki við um hann en hann ber þó sömu skyldur til að veita notendum greiðsluþjónustu upplýsingar fyrir fram hvort heldur er vegna stakra greiðslna eða samkvæmt rammasamningi, sbr. 43. gr., 49. gr. og 54. gr. Þá eru hann bundinn af ákvæðum 70.–72. gr. sem fjalla um skyldur reikningsupplýsingaþjónustuveitanda í tengslum við reikningsupplýsingaþjónustu og um meðhöndlun gagna sem hann aflar og um persónuvernd, stýringu rekstrar- og öryggisáhættu o.fl., sbr. 98.–100. gr.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um 36. gr.

    Í greininni er lagt til að 35. gr. tilskipunarinnar verði innleidd en samkvæmt ákvæðinu skal greiðsluþjónustuveitendum, sem hafa starfsleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu, vera heimilt að gerast þátttakendur í greiðslukerfum. Skulu aðildarríki tryggja að reglur um þátttöku greiðsluþjónustuveitenda með starfsleyfi í greiðslukerfum séu með ákveðnum hætti. Gæta skal að því að jafnræði ríki milli allra greiðsluþjónustuveitenda til þátttöku og aðgengis að greiðslukerfum og ekki má mismuna t.d. greiðslustofnunum heldur verða þær að geta keppt á samkeppnisgrundvelli vegna þeirrar greiðsluþjónustu sem þær veita. Mismunur í verðlagningu má einungis helgast af mismunandi kostnaði sem hlýst af þátttöku greiðsluþjónustuveitanda og skal þá setja fram ólík þátttökuskilyrði fyrir greiðslustofnanir með takmarkað starfsleyfi líkt og segir í 50. lið formálsorða tilskipunarinnar þar sem varfærniskröfur til greiðslustofnana með takmarkað starfsleyfi eru mun minni.
    Tiltekin greiðslukerfi eru þó undanþegin í 4. mgr., þar á meðal greiðslukerfi sem viðurkennd hafa verið og tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum og falla þar af leiðandi undir gildissvið þeirra laga.
    Orðið greiðslukerfi er skilgreint í 15. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um þá meginreglu að greiðsluþjónustuveitendum, hvort heldur sem þeir starfa á starfa á grundvelli skráningar hjá Fjármálaeftirlitinu eða starfsleyfis sem eftirlitið veitir, skuli vera heimilt að gerast þátttakendur í greiðslukerfum til samræmis við 2. og 3. mgr. greinarinnar. Mikilvægt er enda fyrir greiðsluþjónustuveitendur að hafa aðgang að þjónustu tæknilegra grunnvirkja greiðslukerfa til að geta starfað og veitt þá greiðsluþjónustu sem um ræðir. Að sama skapi er mikilvægt að greiðsluþjónustuveitendur sem sækja um aðild að greiðslukerfi gæti að því að þeir sjálfir bera áhættuna af eigin vali í þessum efnum. Líkt og sjá má af ákvæðinu er heimild þessi þó ekki einhlít og ákveðin greiðslukerfi undanþegin framangreindri meginreglu, sbr. umfjöllun um 4. mgr.
    Í 2. mgr. er fjallað um reglur um þátttöku í greiðslukerfum og kveðið á um að þær skuli vera hlutlægar, án mismununar og hóflegar og ekki hamla aðgangi meira en nauðsynlegt er til að verjast ákveðnum áhættum, ásamt því að vernda fjárhags- og rekstrarlegan stöðugleika viðkomandi greiðslukerfis. Kröfur sem gerðar eru til þátttöku í greiðslukerfi skulu almennt miða að því að tryggja öryggi og skilvirkni þess. Það telst t.d. ekki hamla þátttöku í greiðslukerfi að krefja greiðsluþjónustuveitanda sem sækir um aðild að greiðslukerfi um að hann sýni fram á, áður en þátttaka er heimiluð, að innra fyrirkomulag hans sé nægilega vel varið gegn hvers konar áhættu, að þátttaka hans skapi ekki áhættu, svo sem rekstraráhættu, fyrir greiðslukerfið og að hann uppfylli allar viðeigandi kröfur laga, stjórnvaldsfyrirmæla og greiðslukerfisins sjálfs í því sambandi, t.d. er varðar tæknilausnir, upplýsingavernd, viðbúnað og áætlanir um samfelldan rekstur. Samhengisins vegna má nefna að undanfarin ár hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á rekstraráhættuþætti, þ.m.t. netöryggismál, í ljósi stöðugt vaxandi netógnar.
    Í 3. mgr. er fjallað um óheimilar takmarkanir vegna þátttöku í greiðslukerfum.
    Í 4. mgr. er í tveimur stafliðum (a- og b-lið) kveðið á um að ákvæði 1.–3. mgr. greinarinnar eigi ekki við um ákveðin greiðslukerfi og þau séu með öðrum orðum undanþegin þeirri meginreglu að greiðsluþjónustuveitendum, hvort heldur sem þeir starfa á grundvelli skráningar hjá Fjármálaeftirlitinu eða starfsleyfis sem eftirlitið veitir, skuli vera heimilt að gerast þátttakendur í þeim. Annars vegar eru í a-lið tilgreind greiðslukerfi sem viðurkennd hafa verið og tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, og falla þar af leiðandi undir gildissvið þeirra laga. Hér má sem dæmi nefna millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands en bankinn hefur sett um það sérstakar reglur nr. 1030/2020. Í þeim segir meðal annars að Seðlabankinn taki ákvörðun um aðild nýrra þátttakenda að kerfinu, tilgreint sé hverjir geti gerst þátttakendur og nokkuð ítarlega fjallað um þátttökuskilyrði. Þess má enn fremur geta að fjármálastöðugleikanefnd sem starfar á grundvelli laga um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019, hefur staðfest millibankagreiðslukerfi Seðlabankans sem kerfislega mikilvægan fjármálainnvið. Það felur meðal annars í sér að starfsemi kerfisins er talin geta haft áhrif á fjármálastöðugleika en lögum samkvæmt skal Seðlabankinn stuðla að fjármálastöðugleika og öruggri fjármálastarfsemi sem og að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd. Hins vegar eru í b-lið tilgreind greiðslukerfi þar sem þátttaka einskorðast við greiðsluþjónustuveitendur sem tilheyra tiltekinni samstæðu. Slík greiðslukerfi geta verið í samkeppni við önnur greiðslukerfi en fyrirfinnast þó helst í tilteknum markaðskima sem greiðslukerfi taka ekki fyllilega til. Slík kerfi eru t.d. kortakerfi þriggja aðila, svo sem AMEX, að því marki sem þau starfa aldrei í reynd sem kerfi fjögurra aðila, t.d. með því að treysta á leyfishafa, umboðsaðila eða samstarfsaðila. Að endingu má nefna innri kerfi bankasamstæðu.
    Í 5. mgr. er kveðið á um að ef til þess kemur að greiðsluþjónustuveitandi, sem uppfyllir skilyrði til aðildar að greiðslukerfi, sem hefur verið tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA í samræmi við lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, og telst þar með vera þátttakandi í því greiðslukerfi, leyfi greiðsluþjónustuveitanda sem ekki er þátttakandi í viðkomandi greiðslukerfi að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins þá skuli þátttakandinn einnig veita öðrum greiðsluþjónustuveitendum með starfsleyfi sama tækifæri á hlutlægan, hóflegan hátt og án mismununar. Er þetta gert til að tryggja jafnræði greiðsluþjónustuveitenda í sambærilegri stöðu og sanngjarna samkeppni þeirra á milli. Greiðsluþjónustuveitendur sem fá slíkan aðgang í gegnum þátttakanda teljast þó sjálfir ekki vera þátttakendur í þeim greiðslukerfum í skilningi laga um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, og njóta því ekki verndar samkvæmt þeim lögum. Í 10. tölul. 2. gr. laga um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, nr. 90/1999, eru þessir aðilar hins vegar skilgreindir sem óbeinir þátttakendur og með sambærilegum hætti í reglum nr. 1030/2020 um millibankagreiðslukerfi Seðlabanka Íslands en þar er nánar kveðið á um réttindi og skyldur þeirra.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að ef þátttakandi í greiðslukerfi, sem tilkynnt hefur verið til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við lög nr. 90/1999, synjar greiðsluþjónustuveitanda sem ekki er þátttakandi í viðkomandi greiðslukerfi að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins, sbr. nánar 5. mgr., þá skuli sá sem það gerir rökstyðja synjunina svo að sá sem synjunin beinist að geti skilið ástæður að baki synjuninni og betur gert sér grein fyrir því hvaða kröfur hann þurfi að uppfylla til að geta sent greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu greiðslukerfisins á grundvelli aðildar þátttakandans að viðkomandi kerfi.
    Ákvæðið á sér hliðstæðu í 7. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 37. gr.

    Í greininni er lagt til að 36. gr. tilskipunarinnar, sem er nýmæli, verði innleidd. Þegar greiðsluþjónustuveitendur annast eina gerð greiðsluþjónustu eða fleiri ættu þeir ávallt að hafa greiðslureikninga sem notaðir eru einvörðungu vegna greiðslna. Af þeim sökum er greiðslustofnunum nauðsynlegt að geta opnað greiðslureikninga hjá lánastofnunum og/eða viðskiptabönkum. Aðgangurinn að greiðslureikningaþjónustu má ekki fela í sér mismunun gagnvart greiðslustofnunum og skal vera nægjanlegur svo að greiðslustofnun geti boði þjónustu sína til sömu viðskiptavina og lánastofnanir og bankar á óhindraðan og skilvirkan hátt. Í 2. mgr. er lánastofnun eða viðskiptabanka, eftir því hvort þeirra synjar greiðslustofnun um aðgang að greiðslureikningaþjónustu, gert skylt að tilkynna synjunina til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitinu ber að kanna hvort synjunin feli í sér mismunun og ef synjunin er ólögmæt skal Fjármálaeftirlitið bregðast við, svo sem með því að ákveða að lánastofnun eða viðskiptabankinn sem um ræðir skuli veita greiðslustofnuninni sem í hlut á aðgengi að greiðslureikningaþjónustu og fylgja því eftir með viðurlögum gerist þess þörf.

Um 38. gr.

    Tilgangurinn með ákvæðinu er að banna öðrum en greiðsluþjónustuveitendum að veita greiðsluþjónustu. Hyggist aðrir veita greiðsluþjónustu verða þeir að sækja um starfsleyfi sem greiðslustofnun til Fjármálaeftirlitsins. Þá tryggir ákvæðið Fjármálaeftirlitinu yfirsýn yfir þá aðila sem bjóða þjónustu sem fellur undir undanþágur 11. tölul. 2. gr., þ.e. greiðslumiðla sem einungis er hægt að nota til kaupa á vöru eða þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða nets þjónustuveitenda, og 12. tölul. 2. gr., þ.e. greiðslumiðla sem einungis er hægt að nota til kaupa á afmörkuðu úrvali vöru og þjónustu, og er því upphaflega ekki skylt að skrá eða sækja um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið móttekur tekur það ákvörðun um hvort þjónustustarfsemin falli enn undir undanþáguna. Komist Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að starfsemin heyri ekki undir undanþáguna er þjónustuveitanda tilkynnt um það með skriflegum rökstuðningi og honum veittar leiðbeiningar um hvað hann skuli gera til að geta haldið starfseminni áfram.
    Ákvæðið er nýmæli en réttarstaðan er þó óbreytt. Helgast það af því að ákvæðið er innleiðing á 1. og 2. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar og 29. gr. tilskipunar 2007/64/EB er samhljóða 1. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar en 29. gr. tilskipunar 2007/64/EB var að hluta til innleidd í 13. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 39. gr.

    Tilgangurinn með ákvæðinu er að Fjármálaeftirlitið geti haft yfirsýn yfir þá aðila sem bjóða þjónustu sem fellur undir undanþágu 14. tölul. 2. gr. er snýr að greiðslum sem framkvæmdar eru af veitanda fjarskiptanets eða viðbótarþjónustu til handa áskrifanda að fjarskiptanetinu eða viðbótarþjónustunni og hafa því ekki skyldu til að skrá eða sækja um starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið móttekur tekur það ákvörðun um hvort þjónustustarfsemin falli undir undanþáguna. Komist Fjármálaeftirlitið að þeirri ákvörðun að þjónustustarfsemin heyri ekki undir undanþáguna er þjónustuveitanda tilkynnt um það með skriflegum rökstuðningi og honum veittar leiðbeiningar um hvað hann skuli gera til að geta haldið starfseminni áfram. Áður en þjónustuveitandi býður þjónustuna skal hann skv. 2. mgr. senda Fjármálaeftirlitinu þær upplýsingar sem kveðið er á um í a- og b-lið 1. mgr. Ákvæðið er nýmæli og er innleiðing á 1. mgr. og 3. mgr. 37. gr. tilskipunarinnar.

Um 40. gr.

    Í greininni er 25. gr. tilskipunarinnar innleidd. Lagt er til að aðildarríki skuli sjá til þess að unnt sé að vefengja fyrir dómstólum ákvarðanir sem lögbær yfirvöld taka að því er varðar greiðslustofnanir samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Sama á við um athafnaleysi Fjármálaeftirlitsins. Í 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er öllum aðilum mála hjá Fjármálaeftirlitinu tryggt aðgengi að dómstólum. Skv. 1. mgr. 18 gr. skal mál höfðað innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og málshöfðun frestar hvorki réttaráhrifum ákvörðunar né heimild Fjármálaeftirlitsins til aðfarar samkvæmt henni, sbr. þó 2. mgr. 11. gr. þeirra laga. Þá gilda jafnframt almennar reglur réttarfars. Ákvæðið er nýmæli í löggjöfinni.


Um 41. gr.

    Lagt er til að gildissvið IV. kafla verði skilgreint í ákvæði þessu. Skv. 1. mgr. ná ákvæði kaflans til stakra greiðslna, rammasamninga og greiðslna sem falla undir slíka samninga.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði að víkja frá ákvæðum IV. kafla með samningi, hvort heldur í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi í skilningi 28. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Ef um neytanda er að ræða er hins vegar óheimilt að víkja frá ákvæðum IV. kafla.
    Svo sem greinir í 3. og 4. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir sérákvæðum um annars vegar gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu þegar um ræðir stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga og hins vegar gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu þegar um ræðir greiðslur sem falla undir rammasamninga. Ákvæði 3. og 4. mgr. innleiða 1. mgr. 43. gr. og 50. gr. tilskipunarinnar.
    Í 5. mgr. er ákvæði sem snýr að því þegar önnur lög gera ríkari kröfur til upplýsingagjafar en greinir í frumvarpi þessu. Sem dæmi má nefna að skylda lánveitenda til upplýsingagjafar samkvæmt lögum um neytendalán stendur óhögguð þrátt fyrir að lánasamningar kunni að falla bæði undir þá löggjöf og lög um greiðsluþjónustu. Lánveitanda ber með öðrum orðum að uppfylla skyldur sínar samkvæmt báðum lagabálkum. Um ræðir innleiðingu á 3. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar.
    Í 6. mgr. er lagt til að innleidd verði 2. mgr. 39. gr. tilskipunarinnar, sem mælir fyrir um að þegar ákvæði tilskipunar 2002/65/EB um fjarsölu á fjármálaþjónustu eigi við auk ákvæða laga þessara skuli hluti 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2002/65/EB, um upplýsingaskyldu gagnvart neytanda áður en hann er bundinn af fjarsölusamningi eða tilboði, víkja fyrir 48. gr., 49. gr., 53. gr. og 54. gr.
    Þess ber að geta að Ísland nýtir ekki heimild sem veitt er í 2. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar um að ákvæðum IV. kafla verði beitt á örfyrirtæki á sama hátt og neytendur. Fyrirtæki á Íslandi eru smá á mælikvarða Evrópu og skilgreining á örfyrirtæki í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar frá 6. maí 2002 (Stjórnartíðindi ESB L 124, 20. maí 2003, bls. 36) er fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn þar sem árleg velta eða efnahagsreikningur fer ekki yfir 2 milljónir evra.
    Ákvæðið er nær samhljóða 28. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 42. gr.

    Í greininni er lagt til að 40. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að greiðsluþjónustuveitanda verði skylt að veita notendum greiðsluþjónustu lágmarksupplýsingar skv. IV. kafla frumvarpsins gjaldfrjálst.
    Í 2. mgr. er hins vegar gert ráð fyrir að semja megi um gjaldtöku fyrir viðbótarupplýsingar eða tíðari upplýsingagjöf en kveðið er á um í IV. kafla, svo og aðrar upplýsingar en tilgreindar eru í rammasamningi. Það er skilyrði að notandi greiðsluþjónustunnar hafi óskað eftir aukinni þjónustu og að innheimt gjöld séu viðeigandi og í samræmi við raunkostnað sem sú þjónusta, þ.e. umfram lágmarkskröfur IV. kafla frumvarpsins, hefur í för með sér fyrir greiðsluþjónustuveitandann. Í 61. lið formálsorða tilskipunarinnar er vikið að mikilvægi gagnsæis við verðlagningu og ólíkum þörfum viðskiptavina, til grundvallar heimild þessari. Jafnframt er í 84. lið formálsorða tilskipunarinnar vikið að nauðsyn þess að notendur greiðsluþjónustu hafi upplýsingar um raunverulegan kostnað og gjöld fyrir þjónustuna, til samanburðar við þjónustu ólíkra greiðsluþjónustuveitenda.
    Ákvæðið er samhljóða 31. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 43. gr.

    Í greininni er lagt til að 41. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið leggur þá sönnunarbyrði á herðar greiðsluþjónustuveitanda að hann sýni fram á að hafa uppfyllt kröfur skv. IV. kafla frumvarpsins um upplýsingagjöf. Það er enn fremur í takt við auknar kröfur um upplýsingagjöf á sviði fjármálaþjónustu að leggja þessa sönnunarbyrði á herðar greiðsluþjónustuveitendum.
    Ákvæðið er samhljóða 30. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, sem byggist á valkvæðu ákvæði í 33. gr. greiðsluþjónustutilskipunar nr. 2007/64/EB.

Um 44. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði 42. gr. tilskipunarinnar verði innleidd en þau fjalla um um undanþágur frá kröfum IV. kafla um gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu. Orðið smágreiðslumiðill er skilgreint í 38. tölul. 3. gr. Einstakar greiðslur með smágreiðslumiðlum mega að hámarki nema jafnvirði 30 evra, þ.e. ca. 4.897 kr. á núverandi gengi, og/eða smágreiðslumiðill hefur útgjaldaþak/geymir að hámarki jafnvirði 150 evra, þ.e. um það bil 24.485 kr. á núverandi gengi.
    Ástæður þess að réttlætanlegt þykir að veita undanþágur frá upplýsingagjöf eru taldar upp í 81. lið formálsorða tilskipunarinnar. Samkvæmt þeim lið eiga smágreiðslumiðlar að vera ódýr og auðnýtanlegur kostur þegar um er að ræða lágverðsvöru og -þjónustu. Því eigi ekki að íþyngja þeim með óhóflegum kröfum um upplýsingagjöf; kröfurnar eigi að takmarkast við nauðsynlega upplýsingagjöf og tekið skuli tillit til tæknilegra möguleika sem réttlætanlegt sé að vænta af slíkum greiðslumiðlum. Sem dæmi um smágreiðslumiðil eru mötuneytiskort. Þrátt fyrir það eigi notendur smágreiðslumiðla að njóta fullnægjandi verndar, að teknu tilliti til takmarkaðrar áhættu vegna þeirra, einkum að því er varðar fyrirframgreidda greiðslumiðla.
    Í 2. mgr. er gerð krafa um að greiðsluþjónustuveitandi veiti leiðbeiningar um hvar öðrum upplýsingum og skilmálum, sbr. 54. gr., er komið á framfæri á auðveldan og aðgengilegan hátt. Með einföldum og aðgengilegum leiðbeiningum er átt við að þær séu gefnar munnlega, í auglýsingu, í bæklingi á starfsstöð eða á vef greiðsluþjónustuveitandans. Það eru því ekki gerðar sömu kröfur til umfangs og framsetningar upplýsinga og gerðar eru varðandi rammasamninga, sbr. 56. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er greiðsluþjónustuveitanda veitt heimild til að gera breytingar á skilmálum rammasamnings án þess að uppfylla kröfur 1. mgr. 53. gr., sem þýðir að greiðsluþjónustuveitandi þarf ekki að boða breytingar á rammasamningi á pappír eða öðrum varanlegum miðli og þær þurfa ekki að vera á íslensku. Hafa verður í huga að samkvæmt lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, er heimilt að víkja til hliðar ósanngjörnum samningsákvæðum.
    Í 4. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitanda verði heimilt að semja við notanda greiðsluþjónustu um að víkja frá 59. gr. og 60. gr. eftir að greiðsla hefur farið fram. Því takmarkast upplýsingagjöf greiðsluþjónustuveitanda við nauðsynlegar upplýsingar, þ.e. tilvísanir sem gera notanda greiðsluþjónustu kleift að bera kennsl á greiðsluna, fjárhæð hennar, gjöld, og/eða þegar um er að ræða nokkrar sams konar greiðslur til sama viðtakanda, upplýsingar um heildarfjárhæð og gjöld vegna þessara greiðslna. Hins vegar þarf greiðsluþjónustuveitandi ekki að veita eða koma á framfæri fyrrgreindum upplýsingum ef greiðslumiðill er ekki gefinn út á nafn notanda heldur handhafa eða greiðsluþjónustuveitandinn er að öðru leyti ekki tæknilega í stakk búinn til að koma þeim á framfæri.
    Fjöldi smágreiðslumiðla í umferð á Íslandi er lítill, ef nokkur, og þýðing ákvæðisins því takmörkuð, enn sem komið er.
    Í lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, hafði ráðherra verið falið að gefa út reglugerð um undanþágur frá kröfum um upplýsingagjöf vegna smágreiðslumiðla. Reglugerðin hefur ekki verið gefin út og þykir því rétt að innleiða ákvæði 42. gr. tilskipunarinnar í frumvarp þetta.

Um 45. gr.

    Í greininni er lagt til að 59. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að greiðslur skuli vera í þeim gjaldmiðli sem aðilar hafa komið sér saman um, sbr. einnig 3. tölul. 54. gr. frumvarpsins í þessu sambandi. Það athugast að heimild til að semja um gjaldmiðil í greiðslum kann að takmarkast af lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir upplýsingagjöf af hálfu þess aðila sem býður greiðanda gjaldmiðilsumreikning áður en greiðsla á sér stað, hvort sem það er í hraðbanka, á sölustað, þá væntanlega greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, eða af hálfu viðtakanda greiðslu. Veittar skulu upplýsingar um gjöld og það gengi sem nota á við umreikning greiðslunnar og skal greiðandi samþykkja þjónustuna við gjaldmiðilsumreikninginn á þeim grundvelli. Gjaldmiðilsumreikningur er þjónusta sem boðin er notendum til að draga úr gengisáhættu þeirra. Í ákvæðinu er lagt til að greiðandinn fái allar upplýsingar um þau gjöld sem leggjast ofan á greiðsluna, t.d. vöruverðið, vegna gjaldmiðilsumreikningsins áður en hann veitir samþykki fyrir greiðslu. Hafa ber í huga 43. gr. frumvarpsins um að greiðsluþjónustuveitandinn beri sönnunarbyrðina af því að hafa veitt þær upplýsingar sem honum ber skylda til að veita.
    Í 2. mgr. er það nýmæli að ákvæðið gildir einnig um þau tilvik þegar þjónusta er boðin í hraðbanka. Að öðru leyti er ákvæðið samhljóða 32. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 46. gr.

    Í greininni er lagt til að 60. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að tilkynningarskylda verði lögð á viðtakanda greiðslu gagnvart greiðanda. Það athugast að í 5. mgr. 62. gr. frumvarpsins er lagt til að viðtakanda greiðslu verði óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils.
    Í 2. mgr. er lagt til að lögð verði sambærileg skylda á herðar greiðsluþjónustuveitanda að því er varðar gjaldtöku af hans hálfu vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils. Það athugast að hér er um að ræða gjaldtöku af hálfu greiðsluþjónustuveitanda, en ekki viðtakanda greiðslu sem bannið í 5. mgr. 62. gr. frumvarpsins snýr einmitt að. Sem dæmi má nefna að færslugjöld vegna debetkorta falla undir 2. mgr. 46. gr.
    Í 3. mgr. er nýmæli sem tryggir að greiðandinn þurfi einungis að greiða gjöldin sem um getur í 1. og 2. mgr. ef upplýst var um heildarfjárhæð þeirra áður en greiðslan var framkvæmd. Hann getur því komist hjá því að greiða gjöldin hafi skort á upplýsingagjöfina.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eru nær samhljóða 33. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 47. gr.

    Í greininni er lagt til að 43. gr. tilskipunarinnar verði innleidd, þ.e. sérákvæði um greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu sem send eru með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning. Dæmi um greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu sem send eru með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning er úttekt reiðufjár úr hraðbanka á vegum aðila sem ekki er í samningssambandi við greiðanda vegna greiðslumiðilsins.
    Ákvæðið er samhljóða 34. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 48. gr.

    Í greininni er lagt til að 44. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Líkt og fram kemur í 41. gr. frumvarpsins gilda tiltekin ákvæði IV. kafla, þ.e. 47.–52. gr. frumvarpsins, um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu þegar um ræðir stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga.
    Í 1.–3. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli koma ítarlegum upplýsingum og skilmálum um þjónustuna á framfæri við notanda greiðsluþjónustu á aðgengilegan hátt áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notandann. Greiðsluþjónustuveitandinn getur veitt upplýsingarnar munnlega, með auglýsingum eða bæklingi á starfsstöð eða á vef sínum. Það eru því ekki gerðar sömu kröfur til umfangs og framsetningar upplýsinga og gerðar eru við gerð rammasamninga, sbr. 58. gr.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að í þeim tilvikum sem greiðsluþjónustuveitanda er ómögulegt að uppfylla upplýsingaskyldu sína í samræmi við 1.–3. mgr. fyrir fram skuli metið fullnægjandi að veita tilskildar upplýsingar þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd. Orðið fjarsamskiptamiðill er skilgreint í 5. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er lagt til að skyldu til upplýsingagjafar skv. 1.–3 mgr. ákvæðisins megi uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að þjónustusamningi um stakar greiðslur eða drögum að greiðslufyrirmælum sem geyma upplýsingar og skilmála, sbr. 1.–3. mgr.
    Ákvæðið er samhljóða 35. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 49. gr.

    Í greininni er lagt til að 45. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. eru skilgreindar þær upplýsingar og þeir skilmálar sem greiðsluþjónustuveitanda ber að koma á framfæri við notanda greiðsluþjónustu á aðgengilegan hátt áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notandann, sbr. 48. gr. frumvarpsins. Í 60. lið formálsorða tilskipunarinnar er fjallað um að gera upplýsingar aðgengilegar og er þá átt við að móttakandi upplýsinganna kunni að þurfa að eiga frumkvæði að tilteknum aðgerðum til að nálgast upplýsingarnar, svo sem óska eftir því við greiðsluþjónustuveitanda að fá þær afhentar, skrá sig inn í netbanka eða framvísa greiðslukorti í kortalesara til að fá reikningsyfirlit eða í hraðbanka til að prenta út kvittun. Greiðsluþjónustuveitandi ætti í því skyni að tryggja að aðgangur að upplýsingunum sé opinn og þeim komið á framfæri við notanda greiðsluþjónustunnar.
    Samkvæmt a-lið er í fyrsta lagi um að ræða nauðsynlegar upplýsingar, eða sérstakt kennimerki, sem notandi greiðsluþjónustu þarf að gefa upp svo að greiðslufyrirmæli verði framkvæmd rétt. Hugtakið sérstakt kennimerki er skilgreint í 37. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Í b-lið er um að ræða upplýsingar um hámarkstíma framkvæmdar greiðsluþjónustu. Í c-lið er um að ræða upplýsingar um gjaldtöku greiðsluþjónustuveitanda vegna greiðsluþjónustunnar. Í d-lið er um að ræða upplýsingar um raunverulegt gengi eða viðmiðunargengi sem gilda skal um greiðslu, ef við á. Orðið viðmiðunargengi er skilgreint í 47. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Loks er í e-lið kveðið á um að öðrum viðeigandi upplýsingum og skilmálum sem tilgreindir eru í 54. gr. frumvarpsins skuli, eftir því sem við kann að eiga, komið á framfæri með vísan til 48. gr. Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 36. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu greiðsluvirkjenda, sem eru nýir aðilar á greiðsluþjónustumarkaði, til að veita samskiptaupplýsingar um sig og sitt útibú eða umboðsaðila hérlendis ef því er til að dreifa og samskiptaupplýsingar eftirlitsaðila með starfsemi þeirra, sem er Fjármálaeftirlitið. Tilgangurinn er að notandi greiðsluþjónustunnar geti staðreynt hvort greiðsluvirkjandinn hafi starfsleyfi, t.d. með því að fletta honum upp á vef Fjármálaeftirlitsins sem gefur yfirlit yfir aðila sem hlotið hafa starfsleyfi sem greiðsluvirkjendur. Ákvæðið er nýmæli.
    Í 3. mgr. er lagt á greiðsluvirkjanda að leggja mat á hvort frekari upplýsingum, sem væri skylt að veita ef um væri að ræða rammasamning, skuli komið á framfæri. Slíkt gæti t.d. átt við þegar um væri að ræða einstaka greiðslu sem skal framkvæmd á tilteknum degi. Hægt er að afturkalla slík greiðslufyrirmæli fram að þeim degi skv. 4. mgr. 86. gr. Þær upplýsingar ætti að veita á aðgengilegan hátt til notanda greiðsluþjónustunnar.

Um 50. gr.

    Í greininni er lagt til að 46. gr. og 47. gr. tilskipunarinnar verði innleiddar.
    Í 1. mgr. er lögð sú skylda á greiðsluvirkjanda að afhenda eða gera tiltekin gögn aðgengileg greiðanda og eftir atvikum viðtakanda greiðslu. Auk þess getur greiðsluþjónustuveitanda með reikningsþjónustu verið gert að veita sömu upplýsingar til sama aðila, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Notandi greiðsluþjónustu sem sendir greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda á að fá tilvísun í greiðslu og upplýsingar um greiðslufjárhæð frá greiðsluvirkjanda og einnig frá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustuna með vísan til rammasamnings við hann. Í a-lið 1. mgr. er verið að tryggja að bæði greiðandi og viðtakandi greiðslu séu upplýstir um að greiðslufyrirmælin hafi borist til greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu og framkvæmd af honum í samræmi við fyrirmælin. Skv. b-lið 1. mgr. á greiðsluvirkjandi að geta gefið tilvísun í greiðsluna. Tilvísun í greiðslu getur meðal annars verið með því að veita færslunúmer greiðslunnar. Að þessu leyti er greiðsluvirkjandi háður upplýsingum frá greiðsluþjónustuveitanda með reikningsþjónustuna. Veiti greiðandinn einungis upplýsingar um þann reikning sem greiðslan skal leggjast inn á getur greiðsluvirkjandinn ekki veitt viðtakanda greiðslunnar upplýsingar um hver greiðandinn var. Í c-lið 1. mgr. er kveðið á um skyldu greiðsluvirkjanda að upplýsa um fjárhæð greiðslunnar. Skylda hans til að veita þær upplýsingar er aðskilin frá skyldu greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustuna til að gera slíkt hið sama gagnvart notanda greiðsluþjónustunnar. Skv. d-lið 1. mgr. verður greiðsluvirkjandi að veita upplýsingar um fjárhæð gjalda sem greiða skal fyrir greiðsluna og sundurliðun þeirra. Greiðsluvirkjandi má innheimta eina heildarþóknun en hann verður samhliða að veita greiðanda og viðtakanda greiðslu upplýsingar um sundurliðun gjalda.
    Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við 2. mgr. 71. gr. tilskipunarinnar. Upplýsingagjöfin á að tryggja að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustuna geti auðkennt greiðsluna sem um ræðir og metið hvort leiðrétting sé réttmæt.
    Ákvæðið er nýmæli og samhljóða ákvæði fyrirfinnst ekki í lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 51. gr.

    Í greininni er lagt til að 48. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið lýtur að upplýsingagjöf af hálfu greiðsluþjónustuveitanda gagnvart greiðanda þegar í stað eftir viðtöku greiðslufyrirmæla, þegar um ræðir stakar greiðslur. Upplýsingarnar skulu afhentar greiðanda, eða gerðar honum aðgengilegar, með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 1.–3. mgr. 48. gr. frumvarpsins. Með orðunum að gera upplýsingar aðgengilegar er skv. 60. innlangslið tilskipunarinnar átt við að móttakandi upplýsinganna kunni að þurfa að eiga frumkvæði að tilteknum aðgerðum til að nálgast upplýsingarnar, svo sem óska eftir því við greiðsluþjónustuveitanda að fá þær afhentar, skrá sig inn í netbanka eða framvísa greiðslukorti í prentara eða hraðbanka til að prenta út kvittun.
    Hvað varðar skýringar á stafliðunum er rétt að benda á vegna a-liðar að hafi greiðandinn einungis gefið upp reikningsnúmer til að greiða inn á reikninginn mun þjónustuveitandi notanda greiðsluþjónustunnar ekki geta gefið upplýsingar um nafn á viðtakanda greiðslunnar. Vegna b-liðar er rétt að taka fram að sé óskað eftir að millifæra í evrum með úttekt af krónureikningi skal veita upplýsingar um evrufjárhæðina og einnig hver hafi verið endanleg fjárhæð í íslenskum krónum skv. d-lið. Vegna c-liðar er rétt að taka fram að greiðsluþjónustuveitandi má innheimta eina heildarþóknun en hann verður samhliða að veita greiðanda upplýsingar um sundurliðun þóknunar sé hún samsett úr mismunandi gjöldum. Vegna d-liðar skal þess getið að óviðráðanlegar ytri aðstæður kunna t.d. að leiða til þess að miða þurfi við annað gengi við framkvæmd greiðslu en upphaflega var upplýst um. Loks skal getið vegna e-liðar að dagsetningin sem átt er við er dagurinn þegar greiðslufyrirmælin voru gefin, sem þarf ekki að vera sami dagur og greiðslan fer fram.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 37. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 52. gr.

    Í greininni er lagt til að 49. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið lýtur að upplýsingagjöf greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu gagnvart viðtakanda sem á að fara þegar í stað fram eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd. Upplýsingarnar skulu afhentar viðtakanda greiðslu, eða gerðar honum aðgengilegar, með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 1.–3. mgr. 48. gr. frumvarpsins.
    Stafliðirnir þarfnast ekki nánari skýringa og er vísað til umfjöllunar um c-lið í skýringum við 51. gr. frumvarpsins varðandi c-lið þessarar greinar. Þó skal þess getið að því er varðar e-lið, þ.e. gildisdag eignfærslu, að orðið gildisdagur er skilgreint í 10. tölul. 3. gr. frumvarpsins og ekki telst vera um eignfærslu að ræða ef greiðsla leiðir ekki til millifærslu fjármuna inn á reikning viðtakanda greiðslu.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 38. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 53. gr.

    Líkt og fram kemur í 41. gr. frumvarpsins gilda ákvæði 53.–60. gr. aðeins um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu þegar um ræðir greiðslur sem falla undir rammasamninga. Orðið rammasamningur er skilgreint í 32. tölul. 3. gr. frumvarpsins sem samningur um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna og röð greiðslna í framtíðinni og kann að fela í sér skyldu til stofnunar greiðslureiknings og skilmála þar um. Eins og fram kemur í 57. lið formálsorða tilskipunarinnar eru rammasamningar um greiðsluþjónustu og greiðslur sem falla undir slíka samninga mun algengari en stakar greiðslur og skipta meira máli í efnahagslegu tilliti en stakar greiðslur. Rammasamnings er þörf ef greiðslureikningur eða tiltekinn greiðslumiðill er fyrir hendi vegna greiðsluþjónustu. Tilskipunin gerir kröfu um ítarlega upplýsingagjöf fyrir gerð rammasamnings á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
    Í greininni er lagt til að 50. og 51. gr. tilskipunarinnar verði innleiddar.
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um upplýsingaskyldu greiðsluþjónustuveitanda gagnvart notanda greiðsluþjónustu áður en rammasamningur eða tilboð um greiðsluþjónustu verður bindandi fyrir notandann. Vakin er athygli á því að strangari kröfur eru gerðar til miðlunar upplýsinga gagnvart notendum greiðsluþjónustu þegar rammasamningur er annars vegar en þegar um ræðir stakar greiðslur, sbr. einkum 48. og 49. gr. frumvarpsins. Í 45. tölul. 3. gr. er hugtakið , varanlegur miðill skilgreint. Greiðsluþjónustuveitandi og notandi greiðsluþjónustu geta samið um það í rammasamningnum hvernig upplýsingar um framkvæmdar greiðslur séu veittar síðar meir, t.d. þannig að í netbanka eða smáforriti séu allar upplýsingar um greiðslureikninginn gerðar aðgengilegar. Ekki er gert ráð fyrir að frumkvæði notanda greiðsluþjónustu þurfi til með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 48. gr. frumvarpsins.
    Í 2.–4. mgr. er gert ráð fyrir að sambærilegar reglur eigi við um almenna upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamning verður bindandi fyrir notanda og kveðið er á um í 48. gr. frumvarpsins, um stakar greiðslur. Vísast því til skýringa við 48. gr. hér að framan.
    Ákvæðið er samhljóða 39. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 54. gr.

    Í greininni er lagt til að 52. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið kveður á um að upplýsingar og skilmálar, er varða greiðsluþjónustuveitanda, notkun greiðsluþjónustu, gjöld, vexti og gengi, samskipti, ráðstafanir til verndar og úrbóta, breytingar og uppsögn rammasamnings, svo og úrlausn ágreiningsmála, skuli afhentir notendum greiðsluþjónustu. Þær upplýsingar og skilmálar sem um ræðir eru tíundaðir í sjö töluliðum. Upplýsingar og skilmálar skulu afhentir með þeim hætti sem greinir í 53. gr. frumvarpsins.
     1. tölul. snýr að hlutaðeigandi greiðsluþjónustuveitanda. Upplýsa skal notanda greiðsluþjónustu um heiti hans, heimilisfang höfuðstöðvar og viðeigandi póstföng, þ.m.t. tölvupóstföng. Enn fremur skal upplýsa notandann um það hvaða lögbær eftirlitsaðili fer með eftirlit með starfseminni, t.d. Fjármálaeftirlitið, og, eftir því sem við á, upplýsingar um opinbera skráningu greiðsluþjónustuveitandans, t.d. skrá yfir greiðslustofnanir skv. II. kafla frumvarpsins eða skrá yfir eftirlitsskylda aðila, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998. Líkt og áður greinir er í 1. mgr. 38. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að þeim einum verði heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi sem teljist til greiðsluþjónustuveitenda í skilningi frumvarpsins, sbr. 23. tölul. 3. gr., enda hafi þeir tilskilin leyfi stjórnvalda hér á landi eða í öðru aðildarríki.
     2. tölul. snýr að þeirri þjónustu sem um ræðir. Upplýsa skal notanda greiðsluþjónustu um helstu einkenni viðkomandi þjónustu, þ.e. þá grundvallarþætti sem framkvæmd og veiting greiðsluþjónustu felur í sér, svo sem mikilvægustu eiginleika greiðslukorts og hvort það er tengt einhverjum fríðindum o.s.frv. Enn fremur um það sérstaka kennimerki, sbr. orðskýringar í 37. tölul. 3. gr. frumvarpsins, eða upplýsingar sem notandinn skal leggja fram til að greiðslufyrirmæli verði sett af stað eða framkvæmd á réttan hátt, t.d. greiðslureikningsnúmer; hvernig og á hvaða formi samþykki skuli veitt til að gefa greiðslufyrirmæli eða fyrir framkvæmd greiðslu og afturköllun slíks samþykkis í samræmi við tiltekin ákvæði V. kafla frumvarpsins; við hvaða tímamark viðtaka greiðslufyrirmæla miðast og um lokunartíma sem greiðsluþjónustuveitandi fastsetur, ef um hann er að ræða; hámarkstíma sem framkvæmd greiðslu má taka en notandi greiðsluþjónustu þarf að geta vitað hvenær fjármunirnir eiga að vera til ráðstöfunar fyrir viðtakanda greiðslu; hvort mögulegt sé að ákvarða útgjaldaþak vegna greiðslna sem framkvæmdar eru með greiðslumiðli, eins og þekkist með úttektarheimildir greiðslukorta; og loks veita upplýsingar um réttindi notanda greiðsluþjónustu ef um er að ræða greiðslur sem eru tengdar kortum sem falla undir kortasamstarf, sbr. lög um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, nr. 31/2019. Um er að ræða greiðslukort sem hafa að geyma fleira vörumerki en eitt, líkt og Dankort í Danmörku sem er samstarf Visa eða Mastercard annars vegar og svo Dankortsins hins vegar. Notandi greiðsluþjónustunnar þarf að geta vitað að hann geti valið hvaða kort í kortasamstarfinu hann notar hverju sinni.
     3. tölul. snýr að gjaldtöku, vöxtum og gengi. Upplýsa skal notanda greiðsluþjónustu um öll gjöld sem honum ber að greiða greiðsluþjónustuveitanda, þ.m.t. þau sem tengjast því með hvaða hætti og hversu oft upplýsingar eru veittar og gerðar aðgengilegar og skulu fjárhæðir sundurliðaðar, ef við á. Ef við á skal enn fremur upplýsa notandann um þá vexti og gengi sem nota skal við veitingu greiðsluþjónustunnar; eða, ef miða á við viðmiðunarvexti og viðmiðunargengi, upplýsingar um þá aðferð sem nota skal við útreikning á vöxtum og viðeigandi dagsetningu og vísitölu eða grunn til að ákvarða viðmiðunarvexti eða -gengi. Loks skal, ef um það er samið, upplýsa notandann um að breytingar á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi og tilkynningarskylda í tengslum við slíkar breytingar taki gildi þegar í stað í samræmi við 2. mgr. 56. gr. frumvarpsins. Orðin viðmiðunargengi og viðmiðunarvextir eru skilgreind í 47. og 48. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
     4. tölul. snýr að boðleiðum og samskiptum notanda greiðsluþjónustu við greiðsluþjónustuveitandann. Upplýsa skal notanda greiðsluþjónustu um hvernig samskiptum við greiðsluþjónustuveitandann skuli háttað, þ.e. hvernig nauðsynlegum upplýsingum og tilkynningum skuli miðlað þeirra á milli. Ef við á skal upplýsa notanda um þær tæknilegu kröfur sem kunna að vera gerðar til búnaðar hans, t.d. tölvu og hugbúnaðar. Þá skal kynna fyrir notanda með hvaða hætti og hve títt upplýsingar skuli veittar eða gerðar aðgengilegar honum vegna greiðsluþjónustunnar, á hvaða tungumáli rammasamningur og boðskipti skuli vera og rétt hans til að fá afhenta skilmála rammasamnings og upplýsingar og skilmála í samræmi við 55. gr. frumvarpsins.
     5. tölul. snýr að varúðarráðstöfunum og bótaábyrgð. Lýsa ber þeim ráðstöfunum sem notandi greiðsluþjónustu skal grípa til í því skyni að tryggja örugga varðveislu greiðslumiðils, t.d. varðveislu PIN-númera greiðslukorta. Enn fremur skal upplýsa notanda um öruggt ferli sem greiðsluþjónustuveitandi notar til að tilkynna um grun eða eiginleg svik eða öryggisógn. Auk þess skal upplýsa notanda um það hvernig tilkynningu til greiðsluþjónustuveitanda skuli háttað verði hann var við að greiðsla hafi verið sett af stað án heimildar eða framkvæmd á rangan hátt, þjófnað eða misnotkun á greiðslumiðli eða óheimila notkun hans. Þá skal upplýsa notandann um skilyrði áskilnaðar greiðsluþjónustuveitanda til stöðvunar á notkun greiðslumiðils, ef um það er samið, um bótaábyrgð greiðanda vegna óheimilaðrar færslu og tilheyrandi fjárhæðarmörk, hvernig og innan hvaða tímamarka tilkynna skal greiðsluþjónustuveitanda um óheimilaða greiðslu sem hefur verið sett af stað á rangan hátt sem og ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda á óheimiluðum greiðslum. Loks er gert ráð fyrir skyldu til að upplýsa notanda um bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda við framkvæmd greiðslu skv. 93. gr. frumvarpsins og skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 82. gr. og 83. gr. frumvarpsins.
     6. tölul. snýr að breytingum og uppsögn rammasamnings. Upplýsa skal notanda greiðsluþjónustu um að notandi teljist hafa samþykkt breytingar á skilmálum rammasamnings skv. 56. gr. nema hann tilkynni greiðsluþjónustuveitanda að hann samþykki þær ekki áður en fyrirhugaður gildistími breytinganna hefst, ef um það er samið. Einnig skal upplýsa notanda um gildistíma rammasamnings og rétt notandans til uppsagnar rammasamnings í samræmi við 1. mgr. 56. gr. og 57. gr.
     7. tölul. snýr að úrlausn ágreiningsmála. Upplýsa skal notanda greiðsluþjónustu um hvaða lög gilda um rammasamninginn og hvaða kosti notandinn á við úrlausn ágreiningsmála utan dómstóla og meðferð bótamála.
    Ákvæðið er efnislega nær samhljóða 40. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 55. gr.

    Í greininni er lagt til að 53. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið mælir fyrir um að skilmálar rammasamnings, svo og upplýsingar og skilmálar skv. 54. gr., skuli hvenær sem er meðan á samningssambandi stendur vera aðgengilegir notanda greiðsluþjónustu, á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Þannig geti notandinn borið saman þjónustu ólíkra greiðsluþjónustuveitenda og skilmála þeirra, svo og í ágreiningsmálum gengið úr skugga um réttindi og skyldur samkvæmt samningnum. Ákvæðið er samhljóða 41. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 56. gr.

    Í greininni er lagt til að 54. gr. tilskipunarinnar verði innleidd.
    Í 1. mgr. er lagt til að tillögur að breytingum á rammasamningi skuli kynntar notanda greiðsluþjónustu eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir fyrirhugaðan gildistíma breytinganna, á pappír eða varanlegum miðli. Breytingartillögurnar skulu vera skýrar og auðskiljanlegar, sbr. 2. mgr. 53. gr. frumvarpsins. Hafi aðilar samið um að notandi greiðsluþjónustu teljist hafa samþykkt slíkar breytingar ef hann tilkynnir ekki um annað áður en fyrirhugaður gildistími hefst skal greiðsluþjónustuveitandi upplýsa notandann um það. Í því tilviki skal greiðsluþjónustuveitandinn jafnframt taka fram að notandinn eigi rétt á að segja rammasamningnum upp þegar í stað án sérstakrar gjaldtöku áður en fyrirhugaðar breytingar öðlast gildi. Breytingar á rammasamningi sem eru til hagsbóta fyrir notanda greiðsluþjónustu geta tekið gildi þegar þær eru kynntar notanda greiðsluþjónustu.
    Í 2. mgr. er fjallað um breytingar á vöxtum eða gengi. Lagt er til að slíkar breytingar öðlist gildi þegar í stað, án viðvörunar, ef samið hefur verið um slíkt í rammasamningi og breytingarnar byggjast á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi sem samið hefur verið um. Tilkynna skal notanda greiðsluþjónustu um allar breytingar á vöxtum eins fljótt og kostur er, nema aðilar hafi komið sér saman um að slíkar upplýsingar skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega eða á tiltekinn annan hátt. Þó má breyta vöxtum eða gengi án tilkynningar ef slíkar breytingar eru notanda greiðsluþjónustu í hag. Orðin viðmiðunarvextir og viðmiðunargengi eru skilgreind í 47. og 48. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að breytingar á vöxtum eða gengi sem notað er í greiðslum skuli framkvæmdar og reiknaðar á hlutlausan hátt þannig að notendum greiðsluþjónustu sé ekki mismunað.
    Ákvæðið er nær samhljóða 42. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 57. gr.

    Í greininni er lagt til að 55. gr. tilskipunarinnar verði innleidd.
    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um almenna uppsagnarheimild notanda greiðsluþjónustu. Uppsögn taki gildi þegar í stað, nema samið hafi verið um tiltekinn uppsagnarfrest. Ekki er heimilt að semja um lengri uppsagnarfrest en sem nemur einum mánuði.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að uppsögn rammasamnings, hvort heldur með föstum samningstíma eða ótilteknum samningstíma, skuli vera notanda greiðsluþjónustu að kostnaðarlausu. Hér verði því nýtt valkvæð heimild 6. mgr. 55. gr. tilskipunarinnar, sem kveður á um að heimilt sé að gera uppsögn á greiðsluþjónustusamningum hagfelldari fyrir notendur en 55. gr. tilskipunarinnar kveður á um, í þessu tilviki 2. mgr. Sams konar valkvæða heimild var að finna í 6. mgr. 45. gr. 2007/64/EB sem var innleidd með 2. mgr. 43. gr. gildandi laga. Þannig hefur framkvæmdin verið á Íslandi og sem dæmi má nefna uppsögn greiðslukortaviðskipta. Hér er því horft til þess markmiðs tilskipunarinnar að auka neytendavernd. Minnt skal á að skv. 2. mgr. 41. gr. frumvarpsins má víkja frá ákvæðum IV. kafla með samningi þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi. Því á ákvæðið ekki að koma í veg fyrir að greiðsluþjónustuveitandi geti samið um sérstakt uppsagnargjald þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
    Í 3. mgr. er sérstaklega vikið að heimild greiðsluþjónustuveitanda til uppsagnar á rammasamningi um greiðsluþjónustu sem er með ótiltekinn samningstíma. Lagt er til að uppsagnarfrestur í slíkum tilvikum verði bundinn við a.m.k. tvo mánuði, í samræmi við 3. mgr. 68. gr. tilskipunarinnar, enda greini þá heimild í hlutaðeigandi rammasamningi. Notanda greiðsluþjónustu skal tilkynnt um uppsögnina með þeim hætti sem 1. og 2. mgr. 53. gr. frumvarpsins gera ráð fyrir, þ.e. á pappír eða öðrum varanlegum miðli, með skýrum og auðskiljanlegum hætti.
    Í 4. mgr. er fjallað um áhrif uppsagnar rammasamnings á innheimtu greiðslna fyrir greiðsluþjónustu. Lagt er til að kveðið verði á um að notanda greiðsluþjónustu beri aðeins að greiða hlutfallsleg gjöld vegna greiðsluþjónustu, sem krafist er reglubundið á samningstíma, fram að gildistíma uppsagnar rammasamnings. Ef slík gjöld hafa verið greidd fyrir fram skuli þau endurgreidd notanda hlutfallslega.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 43. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 58. gr.

    Í greininni er lagt til að 56. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið er samhljóða 44. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 59. gr.

    Í greininni er lagt til að 57. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er kveðið á um að greiðsluþjónustuveitandi skuli tafarlaust veita greiðandanum nánar tilgreindar upplýsingar á pappír eða öðrum varanlegum miðli, með skýrum og auðskiljanlegum hætti. Ef greiðandi notar ekki greiðslureikning getur greiðsluþjónustuveitandi ekki vitað hvenær fjármunirnir eru skuldfærðir hjá greiðanda og því ber honum að upplýsa greiðanda strax eftir viðtöku greiðslufyrirmælanna. Þess skal getið vegna a-liðar 1. mgr. að gefi greiðandinn einungis upplýsingar um þann reikning sem leggja skal greiðsluna inn á getur greiðsluþjónustuveitandinn ekki veitt viðtakanda greiðslunnar upplýsingar um hver greiðandinn var. Vegna c-liðar 1. mgr. skal tekið fram að heimilt er að innheimta eina heildarþóknun en samhliða verður greiðsluþjónustuveitandi að veita greiðanda upplýsingar um sundurliðun gjalda. Vegna d-liðar 1. mgr. skal þess getið að óviðráðanlegar ytri aðstæður kunna t.d. að leiða til þess að grípa þurfi til notkunar á öðru gengi en upphaflega var upplýst um að notað yrði við framkvæmd greiðslu. Orðið gildisdagur er skilgreint í 10. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu til að setja ákvæði í rammasamning um að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, a.m.k. einu sinni í mánuði, með einhverjum þeim hætti, nánar skilgreindum í rammasamningi, sem gerir greiðanda kleift að geyma eða kalla fram upplýsingarnar óbreyttar án endurgjalds. Upplýsingar geta t.d. verið aðgengilegar í netbanka eða í smáforriti eða mánaðarlegu reikningsyfirliti á pappír.
    Ákvæðið er nær efnislega samhljóða 45. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 60. gr.

    Í greininni er lagt til að 58. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust veita viðtakandanum nánar tilgreindar upplýsingar á pappír eða öðrum varanlegum miðli, með skýrum og auðskiljanlegum hætti. Þess skal getið vegna a-liðar 1. mgr. að gefi greiðandinn einungis upplýsingar um þann reikning sem greiðslan skal leggjast inn á getur greiðsluþjónustuveitandinn ekki veitt viðtakanda greiðslunnar upplýsingar um hver greiðandinn var. Vegna c-liðar 1. mgr. skal tekið fram að heimilt er að innheimta eina heildarþóknun en samhliða verður greiðsluþjónustuveitandi að veita viðtakanda greiðslu upplýsingar um sundurliðun gjalda. Vegna d-liðar 1. mgr. skal þess getið að óviðráðanlegar ytri aðstæður kunna t.d. að leiða til þess að grípa þurfi til notkunar á öðru gengi en upphaflega var upplýst um að notað yrði við framkvæmd greiðslu. Orðið gildisdagur sem kemur fyrir í e-lið er skilgreint í 10. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði að semja um það í rammasamningi að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, a.m.k. einu sinni í mánuði, með einhverjum þeim hætti, nánar skilgreindum í rammasamningi, sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að geyma eða kalla fram upplýsingarnar óbreyttar, svo sem á pappír eða á öðrum varanlegum miðli án endurgjalds.
    Ákvæðið er nær efnislega samhljóða 46. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 61. gr.

    Í greininni er lagt til að 61. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi geti hann og greiðsluþjónustuveitandinn komið sér saman um að eftirfarandi ákvæði skuli ekki gilda í heild eða að hluta til: 1. og 2. mgr. 62. gr., 3. mgr. 64. gr. og 78. gr., 80. gr., 82. gr., 83. gr., 86. gr. og 93. gr. Téð ákvæði eru sérstaklega miðuð að neytendavernd og í tilviki annarra en neytenda má semja sig frá ákvæðunum. Einnig er lagt til að notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandinn geti komið sér saman um önnur tímamörk en þau sem mælt er fyrir um í 77. gr. Auk þess nýtir Ísland ekki heimild sem veitt er í 3. mgr. 61. gr. tilskipunarinnar um að ákvæðum IV. bálks sem innleidd eru í V.–VII. kafla verði beitt á örfyrirtæki á sama hátt og neytendur. Fyrirtæki á Íslandi eru smá á mælikvarða Evrópu og skilgreining á örfyrirtæki í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar frá 6. maí 2002 (Stjórnartíðindi ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36) er fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn þar sem árleg velta eða efnahagsreikningur fer ekki yfir 2 milljónir evra. Það eru því ekki örfyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Í annarri löggjöf á fjármálamarkaði er ekki heldur nýtt sams konar heimild.
    Í 3. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum að lög um neytendalán, nr. 33/2013, eða önnur löggjöf kveði á um önnur skilyrði fyrir lánveitingu til neytenda en greinir í þessum lögum gangi þau framar þessum lögum.
    Ákvæðið er á margan hátt efnislega samhljóða 1. mgr. 47. gr., 3. mgr. 49. gr., 2. mgr. 53. gr., 3. mgr. 54. gr., 6. mgr. 56. gr., 6. mgr. 57. gr., 4. mgr. 58. gr. og 6. mgr. 61. gr. í lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 62. gr.

    Í greininni er lagt til að 62. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að meginreglan verði sú að greiðsluþjónustuveitanda verði ekki heimilt að innheimta gjald af notendum greiðsluþjónustu vegna upplýsinga sem honum er skylt að veita samkvæmt ákvæðum V.–VII. kafla frumvarpsins eða vegna leiðréttingarráðstafana og fyrirbyggjandi ráðstafana samkvæmt sömu köflum. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir undantekningum frá þeirri meginreglu. Í samræmi við 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins er 1. mgr. 62. gr. frávíkjanleg þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að greiðsluþjónustuveitandi og notandi greiðsluþjónustu skuli semja um gjöldin sín á milli og að þau verði í senn að vera viðeigandi og megi ekki vera hærri en raunverulegur kostnaður greiðsluþjónustuveitandans.
    Í 3. og 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að viðtakandi greiðslu skuli bera kostnað af gjaldtöku greiðsluþjónustuveitanda hans vegna framkvæmdar greiðslu, og greiðandi sömuleiðis gagnvart sínum greiðsluþjónustuveitanda, ef greiðslan er innan Evrópska efnahagssvæðisins og greiðsluþjónustuveitendur viðtakanda og greiðanda eru það einnig.
    Í 5. mgr. er lagt til að valkvætt ákvæði 5. mgr. 62. gr. tilskipunarinnar verði nýtt, þ.e. aðildarríkjum er heimilað að banna eða takmarka rétt viðtakanda greiðslu til að krefjast gjalda að teknu tilliti til nauðsynjar þess að efla samkeppni og notkun skilvirkra greiðslumiðla. Að því sögðu er hér lagt til að viðtakanda greiðslu verði óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra. Sambærileg heimild bauðst aðildarríkjum í 2. málsl. 2. mgr. 52. gr. tilskipunar 2007/64/EB og var hún nýtt í 3. mgr. 47. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Í athugasemdum við 3. mgr. 47. gr. frumvarps þess er varð að lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, sagði meðal annars „Málsgrein þessi er því, að mati frumvarpshöfunda, í samræmi við markmið Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins um rafrænt samfélag. Hafa verður í huga gildandi reglur um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar sem gera seljendum vöru og þjónustu meðal annars skylt að birta endanlegt verð þar sem vara eða þjónusta er boðin til sölu. Með öðrum orðum er hætta á að reglur um verðmerkingar og verðupplýsingar yrðu ekki í heiðri hafðar þar sem endanlegt verð til neytanda verður að vera án nokkurra viðbótarálaga. Það þýðir að söluaðili vöru eða þjónustu yrði að greina við verðmerkingu hvert væri hið endanlega verð óháð greiðslumiðli. Með því að nýta ekki hið valkvæða ákvæði tilskipunarinnar yrðu skilyrði sköpuð til samkeppni milli ólíkra tegunda greiðslumiðla. Líklegast er að samkeppni greiðslumiðla yrði á milli reiðufjár og greiðslukorta. Aukning reiðufjár í umferð hefur í för með sér kostnað við prentun seðla og myntsláttu og kann þar að auki að leiða til frekari skattundandráttar en ella. Vegna þess hve notkun greiðslukorta á Íslandi er víðtæk hafa skattyfirvöld einmitt nýtt sér greiðslukortaveltu rekstraraðila sem sterka vísbendingu við áætlun raunverulegrar veltu. Er um að ræða mikilvægar hagrænar upplýsingar fyrir skattyfirvöld. Kjósi neytendur reiðufé í auknum mæli sem greiðslumiðil er líklegt að erfiðara verði fyrir skattyfirvöld að áætla raunverulega veltu sem getur þá bæði verið of- eða vanáætluð eða jafnvel áætlun veltu ekki talin nægjanlega rökstudd með vísan til greiðslukortaveltu. Rafrænar greiðslur eru enn fremur í samræmi við markmið Evrópusambandsins, sbr. SEPA. Hvað viðvíkur samkeppni á milli greiðslumiðla þá er hætta á að í tilviki greiðslukorta muni neytandinn missa yfirsýn yfir hvaða greiðslukort séu honum hagstæðust í notkun á hverjum sölustað. Þjónustugjöldum vegna móttöku greiðslumiðla hefur nú þegar verið velt í verðlagið til neytenda, af hálfu söluaðila. Verður að teljast ólíklegt að söluaðilar muni við heimild til að innheimta kostnað lækka vöruverð sitt á sama tíma. Er því líklegt að þarna verði til auknar álögur á neytendur bæði strax í kjölfar þess að heimild fæst og við vörukaup með greiðslumiðlum sem söluaðili vill leggja á viðbótargjald vegna notkunar þess. Frumvarpshöfundar telja það því í anda þeirra neytendahagsmuna sem tilskipun 2007/64/EB sem hér er verið að innleiða að með jákvæðum hætti verði lagt bann við þess konar álögum.“ Í 5. mgr. er auk þess lagt til að viðtakanda greiðslu verði heimilað að bjóða afslátt eða stýra með öðrum hætti greiðanda að notkun tiltekins greiðslumiðils sem felst þó ekki í því að innheimta gjald en gæti t.d. verið í formi punktasöfnunar og fríðinda.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 31. gr. og 47. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Ákvæði 2. málsl. 5. mgr. er nýmæli og innleiðing á 1. málsl. 3. mgr. 62. gr. tilskipunarinnar.

Um 63. gr.

    Í greininni er lagt til að 63. gr. tilskipunarinnar verði innleidd.
    Í lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, hafði ráðherra verið falið að gefa út reglugerð um undanþágur frá kröfum um upplýsingagjöf vegna smágreiðslumiðla. Reglugerðin hefur ekki verið gefin út og þykir því rétt að innleiða ákvæði 63. gr. tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi geti í rammasamningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu vikið frá 3. mgr. 75. gr., 4. mgr. 76. gr. og 6. mgr. 80. gr. ef ekki er unnt að stöðva notkun greiðslumiðilsins eða koma í veg fyrir frekari notkun hans, 78. gr. og 79. gr., og 1.–4. mgr. og 6. mgr. 80. gr. ef greiðslumiðill er notaður undir nafnleynd eða greiðsluþjónustuveitandinn er ekki í stakk búin, af öðrum ástæðum sem eru órjúfanlegur hluti greiðslumiðilsins, til að sýna fram á að greiðslan hafi verið heimiluð og vikið frá 1. og 2. mgr. 85. gr. um tilkynningarskyldu til notanda greiðsluþjónustu um synjun á greiðslufyrirmælum ef greinilegt er af málavöxtum að þau hafi ekki verið framkvæmd.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi geti einnig í rammasamningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu samið um að greiðandi geti ekki þrátt fyrir 86. gr. afturkallað greiðslufyrirmæli eftir að hafa sent greiðslufyrirmæli eða veitt samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslunnar til viðtakanda greiðslu og þrátt fyrir 88. gr. og 89. gr. gildi önnur framkvæmdatímabil en tilgreind eru í rammasamningnum.
    Í 3. mgr. er. lagt til að ákvæði 79. gr. og 80. gr. nái einnig til greiðslna með rafeyri. Frá þessu er þó sú undantekning að í þeim tilvikum að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hefur ekki getu til að frysta greiðslureikninginn sem geymir rafeyrinn eða loka greiðslumiðlinum þá eiga 79. gr. og 80. gr. ekki við. Ákvæðið er nýmæli.

Um 64. gr.

    Í greininni er lagt til að 64. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Samkvæmt ákvæðinu telst greiðsla því aðeins heimiluð að greiðandi hafi veitt samþykki fyrir framkvæmd hennar, sbr. 1. mgr. Þekktar aðferðir þar sem greiðandi gefur til kynna samþykki sitt er innsláttur PIN-númers greiðslukorts í posa og einnig notkun á rafrænu auðkenni. Samþykki skal veitt á því formi sem greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans koma sér saman um, sbr. 2. mgr. Getur slíkt átt sér stað t.d. með því að slá inn kóða eða rafrænt auðkenni í netbanka. Í 3. mgr. er fjallað um afturköllun samþykkis. Ákvæði 80. gr. tilskipunarinnar kveður nánar á um það tímamark og aðstæður sem samþykki fyrir framkvæmd greiðslu verður óafturkallanlegt. Þessi málsgrein er frávíkjanleg þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi, líkt og 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir. Í 4. mgr. er aukinheldur bætt við að samþykki skuli veitt með þeirri aðferð sem sömu aðilar koma sér saman um. Ef samþykki er ekki fyrir hendi telst greiðsla ekki hafa verið heimiluð.
    Ákvæðið er nær efnislega samhljóða 49. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 65. gr.

    Í greininni er lagt til að 65. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skuli þegar í stað eftir að honum hefur borist beiðni frá útgefanda kortatengds greiðslumiðils staðfesta hvort fjárhæðin sem nauðsynleg er til að framkvæma kortatengda greiðslu sé aðgengileg á greiðslureikningi greiðandans, að því tilskildu að þrenns konar skilyrði séu uppfyllt. Fyrsta skilyrðið er að greiðslureikningur greiðandans sé aðgengilegur á netinu þegar beiðnin er lögð fram. Að vera aðgengilegur á netinu þýðir að upplýsingatæknikerfi sem geymir greiðslureikninginn sé beintengt netinu og samstundis sé hægt að sjá innstæðu á honum. Ekki er gert að skilyrði að notandi hafi nýtt sér aðgengi að netbanka. Annað skilyrðið um að fjárhæðin sem samsvarar tiltekinni kortatengdri greiðslu sé aðgengileg á greiðslureikningi greiðandans þýðir að fjárhæðin sé ekki frátekin fyrir aðra greiðslu. Í öðru skilyrði er einnig gerð krafa um skýlaust samþykki og það þýðir að hvorki „þögn er sama og samþykki“ né athafnaleysi er fullnægjandi og óbeint samþykki ekki heldur. Sönnunarbyrði fyrir því að skýlaust samþykki liggi fyrir hvílir á útgefanda kortatengda greiðslumiðilsins. Þess má geta að „skýlaust samþykki“ er í tilskipuninni orðað á ensku sem „explicit consent“. Sú tegund samþykkis hefur verið þýtt í lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og evrópsku persónuverndarreglugerðinni (ESB) 2016/679 sem „afdráttarlaust samþykki“ og er það ein möguleg vinnsluheimild fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Evrópska persónuverndarráðið hefur gefið það út í leiðbeiningum sínum nr. 06/2020 frá 17. júlí 2020 að „explicit consent“ sem kemur fyrir í 2. mgr. 94. gr. tilskipunarinnar sé ekki það sama og „explicit consent“ í persónuverndarreglugerðinni. Telur Evrópska persónuverndarráðið að skýlaust samþykki í 2. mgr. 94. gr. tilskipunarinnar sé viðbótarskilyrði fyrir vinnsluheimildina „samningur“, þ.e. 2. tölul. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, í tengslum við aðgengi að, vinnslu og varðveislu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að veita greiðsluþjónustu og er þess vegna ekki það sama og afdráttarlaust samþykki samkvæmt fyrrgreindum lögum. Þriðja skilyrðið er að samþykki greiðanda hafi verið veitt áður en fyrsta beiðnin um staðfestingu er lögð fram.
    Í 2. mgr. eru þrjú skilyrði sem útgefandi kortatengds greiðslumiðils þarf að uppfylla til að geta óskað eftir staðfestingu skv. 1. mgr. Útgefandi kortatengds greiðslumiðils veitir greiðsluþjónustu skv. e-lið 22. tölul. 3. gr. Hvað varðar fyrsta skilyrðið í a-lið skal greiðsluþjónustuveitandandi með reikningsþjónustu tryggja að skýlaust samþykki stafi frá réttum greiðsluþjónustuveitanda, þ.e. greiðsluþjónustuveitandanum sem gaf út kortatengda greiðslumiðilin, en ellegar hafna beiðninni. Skv. b-lið er annað skilyrðið að greiðandinn verður að hafa sett af stað kortatengdu greiðsluna fyrir umræddri fjárhæð með kortatengdum greiðslumiðli sem greiðsluþjónustuveitandinn gefur út. Þriðja skilyrðið í c-lið er að útgefandi kortatengds greiðslumiðils skuli auðkenna sig gagnvart greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu fyrir hverja beiðni og með öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitandann sem veitir reikningsþjónustu í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr. Hafi t.d. notandi greiðsluþjónustu auðkennt sig til að komast inn í netbanka þá hefur auðkenning gagnvart greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu átt sér stað. Örugg samskipti eru nauðsynleg til þess að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu geti verið þess fullviss að greiðsluþjónustuveitandi sem óskar staðfestingar sé til þess bær og ekki sé um að ræða tilraun til svika. Auðkenning getur t.d. átt sér stað í samræmi við lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að staðfesting megi einungis vera í formi „já“ eða „nei“ og því má greiðsluþjónustuveitandinn sem veitir reikningsupplýsingaþjónustu ekki veita frekari upplýsingar, t.d. um heildarinnstæðu á greiðslureikningi eða síðustu úttektir. Að sama skapi er hann ekki ábyrgur fyrir því að nóg sé á greiðslureikningi þegar tekið er út af honum ef t.d. stuttu eftir að beiðnin var send hafi notandi greiðsluþjónustunnar tekið út af reikningnum.
    Í 4. mgr. er lagt til að greiðandi geti beðið um að honum verði sendar upplýsingar um útgefanda kortatengda greiðslumiðilsins og svar greiðsluþjónustuveitandans sem veitir reikningsþjónustu. Með þessu móti getur greiðandi verið með eigið eftirlit með umgengni um greiðslureikninginn sinn.
    Að endingu er rafeyrir á kortatengdum greiðslumiðlum undanþeginn ákvæðum 1.–4. mgr. þar sem þessi framkvæmd gæti ekki átt við um rafeyri.

Um 66. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 1. og 5. mgr. 66. gr. ásamt 1. og 4. mgr. 67. gr. tilskipunarinnar, sem fjalla um skilyrði fyrir að nýta greiðsluvirkjun eða reikningsupplýsingaþjónustu. Í 1. mgr. er lagt til að annars vegar verði greiðslureikningur greiðanda að vera aðgengilegur á netinu, svo sem í gegnum netbanka eða farsímabanka eða með annarri tæknilausn sem þjónar sama tilgangi. Hins vegar má greiðsluþjónustuþjónustuveitandi greiðandans sem veitir reikningsþjónustu ekki gera að skilyrði að fyrirliggjandi sé samningssamband milli hans annars vegar og greiðsluvirkjanda eða reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eftir atvikum, hins vegar. Í samræmi við 98. gr. tilskipunarinnar hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefið út reglugerð (ESB) 2018/389 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um sterka sannvottun viðskiptavina og örugga opna staðla vegna samskipta. Þar er lagt til í 1. mgr. 30. gr. að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsupplýsingaþjónustu skuli a.m.k. bjóða eina samskiptaleið til að tryggja aðgang greiðandans að þjónustu greiðsluvirkjanda eða reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eftir atvikum. Samskiptaleiðin þarf ekki að vera sú sama og greiðsluþjónustuveitandinn sem veitir reikningsupplýsingaþjónustu býður notanda greiðsluþjónustunnar, sbr. 31. gr. reglugerðarinnar, en þarf eigi að síður að uppfylla kröfur hennar. Tilgangur ákvæðisins er að auka samkeppni á markaði greiðsluþjónustu, t.d. varðandi útgáfu greiðslukorta og í formi millifærslna frá greiðanda til viðtakanda greiðslu án notkunar greiðslukorts. Skv. 2. mgr. 114. gr. skal Seðlabanki Íslands setja reglur um nánari framkvæmd tilskipunar (ESB) 2015/2366 er snúa að sannvottun skv. 97. gr. hennar.
    Bann við því að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu megi krefjast samningssambands þjónar þeim tilgangi að útiloka að slík krafa geti verið hindrun fyrir innkomu nýrra þjónustuaðila inn á greiðsluþjónustumarkað.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um 67. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 2. mgr. og a-, b-, d- og h-lið 3. mgr. 66. gr. sem fjalla um skyldur greiðsluvirkjanda vegna veitingar greiðsluþjónustu.
    Í 1. mgr. er lagt til að greiðsluvirkjandi verði að afla skýlauss samþykkis frá greiðanda áður en hann getur sett af stað greiðslu. Hér eru gerðar sömu kröfur og gerðar eru í 1. og 2. mgr. 65. gr. Samþykki má hvorki vera veitt með þögn né athafnaleysi og óbeint samþykki er heldur ekki fullnægjandi sem skýlaust samþykki. Sönnunarbyrði fyrir því að skýlaust samþykki liggi fyrir hvílir á greiðsluvirkjanda. Í 2. mgr. er kveðið á um að greiðsluvirkjanda sé skylt að koma á tryggum og öruggum samskiptum milli greiðsluvirkjanda og notanda greiðsluþjónustunnar og greiðsluþjónustuveitanda hans sem veitir reikningsþjónustu. Í a-lið 2. mgr. er vísað í persónubundin öryggisskilríki sem eru skilgreind í 31. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Með tilkomu greiðsluvirkjanda er nýr aðili á milli notanda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda hans sem veitir reikningsþjónustu. Greiðsluvirkjandi hefur samband við hinn síðarnefnda fyrir hönd greiðanda í stað þess að hann hafi beint samband sjálfur. Af þeim sökum er nauðsynlegt, til að draga úr líkum á svikum, að greiðsluvirkjandi auðkenni sig ávallt gagnvart greiðsluþjónustuveitanda greiðanda sem veitir reikningsþjónustu. Auðkenning getur t.d. átt sér stað í samræmi við lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Skv. 2. mgr. 114. gr. skal Seðlabanki Íslands setja nánari reglur um sterka sannvottun vegna framkvæmdar 97. gr. tilskipunarinnar. Í samræmi við 98. gr. tilskipunarinnar hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefið út reglugerð (ESB) 2018/389 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um sterka sannvottun viðskiptavina og almenna örugga opna staðla vegna samskipta sem meðal annars tilgreina kröfurnar um sterka sannvottun viðskiptavinar sem um getur í 1. og 2. mgr. 97. gr. tilskipunarinnar. Þar er nánar fjallað um þá þætti sem koma fram í a–c-lið 2. mgr.
    Í 3. mgr. er lagt til að greiðsluvirkjandi megi aldrei geyma fjármuni greiðandans í tengslum við greiðsluvirkjun og hvorki breyta fjárhæð, viðtakanda greiðslunnar né öðrum þáttum hennar. Tilgangurinn með ákvæðinu er að leggja þá skyldu á greiðsluvirkjanda að koma í veg fyrir að misnotkun geti átt sér stað á fjármunum notanda greiðsluþjónustunnar. Hafi greiðsluvirkjandi, sbr. 19. tölul. 3. gr., fengið skýlaust samþykki notanda til að setja af stað greiðslu og mistök verða í tengslum við greiðslufyrirmælin getur greiðsluvirkjandinn ekki gert breytingar á greiðslufyrirmælunum. Notandi verður að byrja upp á nýtt og óska eftir að greiðsluvirkjandi setji af stað greiðslu fyrir hans hönd. Slík framkvæmd kemur einnig fram í 93. gr., 94. gr. og 96. gr. en samkvæmt þeim ákvæðum ber greiðsluvirkjandi hlutlæga ábyrgð á að framkvæma greiðslufyrirmæli í samræmi við upplýsingar notandans.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um 68. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða c-, e- og g-liður 3. mgr. 66. gr. sem fjalla um meðhöndlun gagna og upplýsinga sem greiðsluvirkjandi aflar.
    Í 1. mgr. er lagt til að skýrt verði tekið á því að gögn sem aflað er í þeim tilgangi að veita greiðsluvirkjun megi hvorki nota, nálgast né geyma í öðrum tilgangi. Þess má geta að vinnsla persónuupplýsinga er skilgreind í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2018 sem aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, svo sem söfnun, skráning, flokkun, kerfisbinding, varðveisla, aðlögun eða breyting, heimt, skoðun, notkun, miðlun með framsendingu, dreifing eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar, samtenging eða samkeyrsla, aðgangstakmörkun, eyðing eða eyðilegging. Ákvæði 1. mgr. verður að skoðast í samhengi við 98. gr. frumvarpsins um vinnslu persónuupplýsinga.
    Í 2. mgr. kemur fyrir hugtakið viðkvæm greiðslugögn en það er skilgreint í 46. tölul. 3. gr. frumvarpsins og falla persónubundin öryggisskilríki þar undir. Ákvæðið tekur því til annarra tilvika en koma fram í 98. gr. frumvarpsins. Upplýsingar sem unnt er að beita í sviksamlegum tilgangi eru t.d. þeir þrír þættir sem mynda persónubundin öryggisskilríki, án þess að hver þáttur um sig teljist persónugreinanlegur og heyri því til persónuupplýsinga. Á hinn bóginn eru nafn og reikningsnúmer persónuupplýsingar án þess að teljast viðkvæm greiðslugögn. Ákvæðið skal einnig skoða í samhengi við a-lið 2. mgr. 67. gr. Það þýðir að ákvæði 2. mgr. kemur ekki í veg fyrir að greiðsluvirkjandi meðhöndli viðkvæm greiðslugögn í tengslum við að miðla áfram persónubundnum öryggisskilríkjum, en hann má ekki geyma þau. Ákvæðið er nýmæli.
    Í 3. mgr. er lagt til að aðrar upplýsingar sem fást við veitingu greiðsluvirkjunar megi greiðsluvirkjandi einungis veita viðtakanda greiðslunnar og með því skilyrði að notandi greiðsluþjónustunnar hafi veitt til þess skýlaust samþykki sitt.

Um 69. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 4. mgr. 66. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu er lúta að aðgengilegum upplýsingum, öruggum samskiptum og framkvæmd greiðslufyrirmæla án mismununar. Ákvæðið er nýmæli.
    Ákvæðið 1. mgr. er til að tryggja að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu, sem langoftast er banki, geti ekki komið í veg fyrir eða gert það verulega erfitt fyrir notanda greiðsluþjónustu að nýta sér þjónustu greiðsluvirkjanda. Hinn síðastnefndi skal vera jafnsettur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu þegar kemur að aðgengi að upplýsingum um framkvæmd greiðslunnar og hvenær þær verða honum aðgengilegar. Um er að ræða innleiðingu á b-lið 4. mgr. 66. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skuli eiga örugg samskipti við greiðsluvirkjendur í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands. Seðlabanki Íslands mun setja reglur um það efni, sbr. 2. mgr. 114. gr. Markmiðið er að tryggja öryggi í samskiptum milli greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu og greiðsluvirkjanda. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 4. mgr. 66. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu megi ekki mismuna nema af hlutlægum ástæðum, einkum með tilliti til tímasetningar, forgangs eða gjalda. Mismunun getur falist í því að á notanda greiðsluþjónustunnar yrði lagt gjald vegna greiðslufyrirmæla sem framkvæmd væru fyrir hann fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda en ekki ef hann mundi framkvæma þau beint hjá greiðsluþjónustuveitanda sínum sem býður reikningsþjónustu. Um er að ræða innleiðingu á c-lið 4. mgr. 66. gr. tilskipunarinnar.

Um 70. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða a–d-lið 2. mgr. 67. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið er nýmæli.
    Í 1. mgr. er lagt til að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi verði að afla skýlauss samþykkis frá notanda greiðsluþjónustu áður en hann veitir reikningsupplýsingaþjónustu. Það þýðir líkt og kemur fram í skýringum við 65. gr. og 67. gr. frumvarpsins að hvorki sé „þögn er sama og samþykki“ né athafnaleysi fullnægjandi og óbeint samþykki ekki heldur. Sönnunarbyrði fyrir því að skýlaust samþykki liggi fyrir hvílir á reikningsupplýsingaþjónustuveitanda. Þegar samþykki er veitt þarf skýrlega að koma fram um hvaða reikninga er að ræða og hjá hvaða greiðsluþjónustuveitanda sem býður notanda greiðsluþjónustu reikningsþjónustu, t.d. hvaða bankareikningur í hvaða banka. Skoða verður áskilnaðinn með hliðsjón af c-lið 1. mgr. 99. gr. sem kveður á um að tryggja skuli trúnað og heilleika upplýsinga notanda. Það getur verið nauðsynlegt að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi áframsendi samþykkið til greiðsluþjónustuveitanda sem býður notanda greiðsluþjónustu reikningsþjónustu svo að hann geti verið viss um að notandi greiðsluþjónustunnar hafi gefið samþykki sitt. Slíkt verður að eiga sér stað í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 114. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi megi aðeins nálgast upplýsingar frá tilnefndum greiðslureikningnum og tengdum greiðslum. Tilgangurinn er að tryggja að reikningsupplýsingaþjónustuveitandinn fái ekki aðgang að öðrum gögnum en þeim sem nauðsynleg eru til að veita reikningsupplýsingaþjónustuna og notandi greiðsluþjónustunnar hefur gefið samþykki sitt fyrir.
    Í a–c-lið 3. mgr. eru lagðar kröfur á reikningsupplýsingaþjónustuveitanda sem lúta að öruggum samskiptum milli hans, notanda greiðsluþjónustunnar, greiðsluþjónustuveitanda notanda greiðsluþjónustunnar sem veita notandanum reikningsþjónustu og annarra. Í a-lið er vísað í persónubundin öryggisskilríki sem eru skilgreind í 31. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Þau geta meðal annars verið notendanafn og PIN-númer. Vakin er athygli á því að séu persónubundin öryggisskilríki notuð sem sterk sannvottun, sbr. 36. tölul. 3. gr. og 101. gr. frumvarpsins, má útgefandi persónubundnu öryggisskilríkjanna heldur ekki hafa aðgang að þeim þegar þau fela í sér eitthvað sem notandinn einn veit (þekkingu) eða notandinn er (eðlislægni). Í b-lið er lagt til að fyrir hverja boðskiptalotu skuli reikningsupplýsingaþjónustuveitandi staðfesta hver hann sé gagnvart greiðsluþjónustuveitendunum sem veita notanda greiðsluþjónustunnar reikningsþjónustu. Örugg samskipti eru nauðsynleg til þess að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu geti verið þess fullviss að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi sem óskar staðfestingar sé til þess bær og ekki sé um að ræða tilraun til svika. Auðkenning getur t.d. átt sér stað í samræmi við lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Í c-lið er lagt til að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi skuli eiga í öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitendur sem veita notanda greiðsluþjónustunnar reikningsþjónustu og notanda greiðsluþjónustunnar.
    4. mgr. þarfnast ekki skýringar.

Um 71. gr.

    Í greininni er lagt til að e- og f-liður 2. mgr. 67. gr. tilskipunarinnar verði innleiddir.
    Í 1. mgr. er lagt til að reikningsupplýsingaþjónustuveitandi megi hvorki nota, nálgast né geyma gögn í öðrum tilgangi en að annast reikningsupplýsingaþjónustu sem notandi greiðsluþjónustunnar óskar sérstaklega eftir, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þess má geta að vinnsla er skilgreind í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2018 sem aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, svo sem söfnun, skráning, flokkun, kerfisbinding, varðveisla, aðlögun eða breyting, heimt, skoðun, notkun, miðlun með framsendingu, dreifing eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar, samtenging eða samkeyrsla, aðgangstakmörkun, eyðing eða eyðilegging. Í samræmi við þessar kröfur verður í samningi reikningsupplýsingaþjónustuveitanda við notanda greiðsluþjónustunnar að vera tilgreint hvaða gögn um ræðir. Ákvæði 1. mgr. verður að skoða í samhengi við 98. gr.
    Í 2. mgr. kemur fyrir hugtakið viðkvæm greiðslugögn en það er skilgreint í 46. tölul. 3. gr. frumvarpsins og falla persónubundin öryggisskilríki þar undir. Þegar reikningsupplýsingaþjónustuveitandi getur fengið afhent gögn sem ekki eru talin viðkvæm greiðslugögn í gegnum aðra samskiptaleið en þá sem miðlar viðkvæmum greiðslugögnum getur hann fengið afhent notendanafn að þeim gögnum Ákvæðið er nýmæli.

Um 72. gr.

    Í greininni er lagt til að 3. mgr. 67. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skuli í tengslum við greiðslureikninga eiga í öruggum samskiptum við reikningsupplýsingaþjónustuveitendur í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands skv. 2. mgr. 114. gr. Í 2. mgr. 114. gr. er lögð skylda á Seðlabanka Íslands að setja reglur um sannvottun vegna framkvæmdar 97. gr. tilskipunarinnar. Í samræmi við 98. gr. tilskipunarinnar hefur framkvæmdastjórn Evrópu gefið út reglugerð (ESB) 2018/389 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um sterka sannvottun viðskiptavina og almenna örugga opna staðla vegna samskipta sem meðal annars tilgreina kröfurnar um sterka sannvottun viðskiptavinar sem um getur í 1. og 2. mgr. 97. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skuli afgreiða beiðnir um gögn, sem send eru fyrir milligöngu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, án mismununar af öðrum ástæðum en hlutlægum. Ákvæðinu er ætlað að tryggja að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu, sem langoftast er banki, geti ekki komið í veg fyrir eða gert það verulega erfitt fyrir notanda reikningsupplýsingaþjónustu að nýta sér þjónustu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda. Þetta felur í sér að upplýsingar sem eru aðgengilegar notanda greiðsluþjónustu hjá greiðsluþjónustuveitanda hans, sem veitir reikningsþjónustu í gegnum netbanka, skuli einnig vera aðgengilegar reikningsupplýsingaþjónustuveitandanum. Að lágmarki er um að ræða upplýsingar sem greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skal veita greiðanda eftir móttöku greiðslufyrirmæla, sbr. 51. gr. og 59. gr. Að því marki sem greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu gefur notanda greiðsluþjónustunnar frekari upplýsingar varðandi greiðslureikninginn skulu þær upplýsingar einnig veittar til reikningsupplýsingaþjónustuveitandans. Ákvæðið er nýmæli.

Um 73. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 5.–6. mgr. 68. gr. tilskipunarinnar. Í 1. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu geti synjað reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluvirkjanda um aðgang að greiðslureikningi greiðanda. Líkt og ráða má af reikningsupplýsingaþjónustu eins og hún er skilgreind í 33. tölul. 3. gr. frumvarpsins hefur reikningsupplýsingaþjónustuveitandi einungis aðgang að greiðslureikningi til að geta veitt upplýsingar um hann en ekki til að virkja greiðslufyrirmæli líkt og greiðsluvirkjandi. Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu getur synjað greiðanda um aðgang að greiðslureikningi í þeim tilvikum þegar greiðsluvirkjandi eða reikningsupplýsingaþjónustuveitandi hefur hegðað sér sviksamlega, eða hefur í heimildarleysi virkjað greiðslufyrirmæli til greiðsluþjónustuveitanda greiðanda sem veitir reikningsþjónustu þar sem skýlaust samþykki vantar. Jafnframt getur hann synjað greiðanda um aðgang að greiðslureikningi í þeim tilvikum þegar grunur er um að þriðji aðili reyni í heimildarleysi að fá aðgang að greiðslureikningnum í gegnum greiðsluvirkjanda eða reikningsupplýsingaþjónustuveitanda. Slíkt gæti gerst ef þriðji aðili hefur brotist inn í upplýsingakerfi greiðsluvirkjanda.
    Í 2. mgr. er lagt til að synji greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu veitanda reikningsupplýsingaþjónustu eða greiðsluvirkjanda um aðgang að greiðslureikningi skuli hann tilkynna greiðandanum það áður en hann synjar greiðanda um aðgang að greiðslureikningi og eigi síðar en strax í kjölfar synjunar, auk ástæðna fyrir synjun og það á fyrirframsamþykktu formi. Tilkynningin gefur greiðandanum möguleika á því að bregðast við og hafa samband við sinn reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluvirkjanda eftir atvikum. Tilkynningarskyldan fellur þó niður ef hún teflir í tvísýnu metnu öryggi tengdu greiðslureikningi eða lög kveða á um annað. Sem dæmi má nefna að í 27. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, er fjallað um hvenær lagt sé bann við upplýsingagjöf.
    Í 3. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skuli veita aðgang að greiðslureikningnum þegar ástæður fyrir synjuninni eigi ekki lengur við. Með þessum áskilnaði er verið að tryggja að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu, sem er að jafnaði samkeppnisaðili reikningsupplýsingaþjónustuveitanda og greiðsluvirkjanda, noti ekki tækifærið og loki á aðgang að greiðslureikningi lengur en þörf krefur.
    Í 4. mgr. er lagt til að þegar greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu synjar um aðgang, sbr. 1. mgr., skuli hann þegar í stað skýra Fjármálaeftirlitinu frá synjuninni og ástæðum hennar. Upplýsingarnar skuli jafnframt innihalda málsatvik og ástæður þess að synja varð um aðgang. Fjármálaeftirlitið metur síðan synjunina og grípur til viðeigandi aðgerða gerist þess þörf. Með þessu móti getur eftirlitsaðilinn greint hvort hlutaðeigandi greiðsluþjónustuveitandi er í erfiðleikum.
    Í 5. mgr. er Seðlabanka Íslands veitt heimild til að setja reglur um hvernig tilkynningu vegna 4. mgr. skuli háttað.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um 74. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 1.–4. mgr. 68. gr. tilskipunarinnar. Í 1. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar notkun greiðslumiðils felur í sér samþykki, sbr. 64. gr., svo sem notkun greiðslukorta, geti greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi komið sér saman um hámarksúttektarheimild vegna greiðslna sem framkvæmdar eru með greiðslumiðlinum. Í tilviki greiðslukorta væri um að ræða úttektarheimild hjá útgefendum.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi geti í rammasamningi áskilið sér rétt til að stöðva notkun greiðslumiðils vegna öryggis, sviksamlegrar notkunar eða þegar verulegar líkur eru á að greiðandi kunni að vera ófær um að uppfylla greiðsluskyldu sína. Slíkur áskilnaður er bundinn því skilyrði að beiting stöðvunarréttarins grundvallist á áðurgreindum ástæðum og að hugsanlegt tilefni stöðvunar sé metið á hlutlægan hátt. Sviksamleg notkun getur bæði átt sér stað hjá þriðja manni og eiganda greiðslumiðilsins, t.d. með því að fara yfir úttektarhámark. Ef eigandi greiðslukorts óskar eftir endurnýjun fyrir gildistíma þess er eðlilegt að útgefandi greiðslukortsins stöðvi notkun þess eldra af öryggisástæðum. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að ákvörðun um að stöðva notkun greiðslumiðils megi ekki byggjast á ómálefnalegum ástæðum, sbr. 2. mgr. 68. gr. tilskipunarinnar, en ekki er hægt að semja um slíkt. Stöðvun getur verið framkvæmd af greiðsluþjónustuveitandanum eða þjónustuveitanda sem hann hefur samið við, t.d. fyrirtæki sem sérhæfir sig í rekstri hugbúnaðar.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir tilkynningarskyldu gagnvart greiðanda um stöðvun á notkun greiðslumiðils og ástæður fyrir henni, svo fremi að þess háttar tilkynning tefli ekki í tvísýnu raunhæft metnu öryggi greiðslumiðilsins eða löggjöf kveði á um annað. Við beitingu þessa ákvæðis kemur helst til álita löggjöf sem af öryggisástæðum kann að takmarka miðlun upplýsinga, t.d. refsilöggjöf og lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilkynna ber um stöðvun fyrir fram ef það er framkvæmanlegt, en ella í síðasta lagi tafarlaust í kjölfar stöðvunar. Gera verður ráð fyrir að notandi greiðsluþjónustu hafi hagsmuni af því að fá sem fyrst upplýsingar um stöðvun á notkun greiðslumiðils, líkt og greiðsluþjónustuveitandi, þegar t.d. grunur leikur á stuldi á greiðslukortanúmerum eða annarri misnotkun greiðslumiðils.
    Í 4. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitanda verði skylt að opna að nýju fyrir notkun greiðslumiðils, sem notkun hefur verið stöðvuð á, eða afhenda nýjan greiðslumiðil í stað þess fyrri þegar ástæður fyrir stöðvun notkunar eru ekki lengur fyrir hendi. Skyldan sem hvílir á greiðsluþjónustuveitanda er ekki lengur fyrir hendi hafi greiðslureikningi verið sagt upp og samningssambandi því slitið. Sama á við um uppsögn á samningi um útgáfu greiðslukorts.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 50. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 75. gr.

    Í greininni er lagt til að 69. gr. tilskipunarinnar verði innleidd.
    Notandanum ber að nota greiðslumiðil í samræmi við skilmála um útgáfu og notkun hans og skulu þeir jafnframt vera hlutlægir, án mismununar og gæta meðalhófs. Útgefandi greiðslumiðils getur ekki haldið til streitu samningsskilmálum sem ganga mun lengra en þörf krefur vegna áhættunnar sem tengd er notkun greiðslumiðilsins sem um ræðir. Þá er í 2. mgr. lagt til að sett verði varúðarregla gagnvart notanda greiðsluþjónustu um að hann geri nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi persónubundinna öryggisskilríkja greiðslumiðils síns, þ.e. að þau komist ekki í hendur annarra aðila. Árétta ber að varúðarreglan á við um persónubundin öryggisskilríki greiðslumiðils, en ekki greiðslumiðilinn sjálfan, þ.e. t.d. PIN-númer á greiðslukortum. Með nauðsynlegum ráðstöfunum er átt við aðgerðir notandans sem telja má að réttmætt sé að krefjast af honum. Hugtakið persónubundin öryggisskilríki er skilgreint í 31. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í því skyni að draga úr áhættu og afleiðingum af óheimiluðum greiðslum er í 3. mgr. gert ráð fyrir að notandi greiðsluþjónustu tilkynni greiðsluþjónustuveitanda, með þeirri aðferð sem kveðið er á um í rammasamningi þeirra á milli, án tafar verði hann var við tap eða þjófnað á greiðslumiðli eða misnotkun. Ákvæðið er efnislega samhljóða 51. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 76. gr.

    Í greininni er lagt til að 70. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa. Rétt er að árétta að skv. 3. mgr. er gert ráð fyrir að greiðsluþjónustuveitandi beri alla áhættu af sendingu greiðslumiðils og hvers kyns persónubundnum öryggisskilríkjum greiðslumiðils til greiðanda. Þetta þýðir að komist t.d. greiðslukort ásamt PIN-númeri ekki til skila bréfleiðis til notanda greiðsluþjónustu og af því hlýst óheimil notkun á greiðslukortinu þá ber greiðsluþjónustuveitandanum að bæta það tjón notanda að fullu án sjálfsábyrgðar notanda sem getið er um í 80. gr. Jafnframt er vakin athygli á skyldu greiðsluþjónustuveitanda til að sjá notanda greiðsluþjónustu fyrir úrræðum til að sanna að sá síðarnefndi hafi komið tilkynningu skv. 3. mgr. 75. gr. frumvarpsins á framfæri í 18 mánuði, sbr. 4. mgr. Ákvæðið er efnislega samhljóða 52. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 77. gr.

    Í greininni er lagt til að 71. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið felur í sér að gerð er sú krafa til notanda greiðsluþjónustu að hann tilkynni greiðsluþjónustuveitanda án óþarfa tafar um það verði hann var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu og eigi síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi hefur vanrækt upplýsingaskyldu sína gagnvart notandanum samkvæmt ákvæðum IV. kafla. Ákvæðið tekur ekki til greiðslna sem falla undir 81. gr. þar sem greiðandi heimilaði greiðslu án þess að fjárhæð lægi fyrir. Í tilvikum þegar viðtakandi greiðslu tilkynnir greiðsluþjónustuveitanda er viðmiðið dagsetning eignfærslu. Uppfylli notandi ekki tilkynningaskyldu skv. 1. málsl. 1. mgr. kann hann að tapa rétti gagnvart greiðsluþjónustuveitanda vegna óheimilaðra eða rangt framkvæmdra greiðslna. Þó svo að ákvæðið geri ráð fyrir allt að 13 mánaða tilkynningarfresti getur notandi greiðsluþjónustu með tómlæti sínu fyrirgert rétti sínum til leiðréttingar færslu, sbr. grundvallarkröfu skv. 1. mgr. um að tilkynningaskyldu sé sinnt án óþarfa tafar. Hafi notandi t.d. móttekið greiðsluyfirlit frá greiðsluþjónustuveitanda eða haft aðgang að því í gegnum netbanka kann hann að fyrirgera 13 mánaða frestinum, enda yrði almennt litið svo á að hann hefði ekki tilkynnt um óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu án óþarfa tafar, nema hann gæti sýnt fram á að greiðsluþjónustuveitandinn hefði ekki veitt honum nauðsynlegar upplýsingar svo að hann gæti uppgötvað hina ranglega framkvæmdu greiðslu. Upplýsingar í netbanka um greiðslu kunna til að mynda að hafa verið rangar. Hafi greiðsluþjónustuveitandi ekki gert samning við notanda greiðsluþjónustunnar, sbr. 2. mgr. 59. gr., þá reiknast 13 mánaða fresturinn frá þeim degi sem greiðsluþjónustuveitandinn veitti upplýsingarnar. Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 53. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli og þarfnast ekki skýringar.

Um 78. gr.

    Í greininni er lagt til að 72. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið snýr að sannvottun vegna framkvæmdar greiðslu eða sönnunarbyrði um notkun greiðslumiðils í þeim tilvikum þegar notandi greiðsluþjónustu neitar að hann hafi heimilað framkvæmd greiðslu. Í 1. og 2. mgr. segir að ef notandi greiðsluþjónustu neiti að hann hafi heimilað greiðslu eða heldur því fram að greiðsla hafi ekki verið réttilega framkvæmd skal greiðsluþjónustuveitandi hans, eða greiðsluvirkjandi eftir atvikum, sanna að framkvæmd greiðslu hafi verið án ágalla og að persónubundin öryggisskilríki hafi verið notuð. Greiðsla er meðal annars haldin ágalla í skilningi ákvæðisins ef hún hefur ekki verið nákvæmlega skráð, ekki verið færð í reikningshald eða ef tæknileg bilun hefur haft áhrif á hana. Greiðsluþjónustuveitandanum eða greiðsluvirkjandanum, eftir atvikum, ber að sýna fram á að sannvottun hafi farið fram í tengslum við framkvæmd greiðslu, en sannvottun er skilgreind í 36. tölul. 3. gr. frumvarpsins, þ.e. aðferð sem gerir greiðsluþjónustuveitandanum kleift að sannreyna að greiðslufyrirmæli komi frá notanda greiðsluþjónustu eða notkun tiltekins greiðslumiðils, þ.m.t. notkun á persónubundnum öryggisskilríkjum notandans. Sönnunin snýst því að þessu leyti um að ganga t.d. úr skugga um að rétt PIN-númer hafi verið notað í ferlinu við framkvæmd greiðslu, ef við á.
    Í 3. mgr. er sérstaklega tiltekið að ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmd greiðslu er sú staðreynd ein og sér að greiðslumiðill var notaður ekki endilega fullnægjandi sönnun þess að greiðandi hafi annaðhvort heimilað greiðsluna eða af ásetningi eða stórfelldu gáleysi látið ógert að uppfylla skyldur skv. 75. gr. Af þessu leiðir að við mat á þætti notanda greiðsluþjónustu við framkvæmd greiðslu hverju sinni skal litið til annarra atvika.
    Áréttað skal að víkja má frá 1. og 2. mgr. með samningi, sbr. 1. mgr. 61. gr., í heild eða að hluta þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi. Ákvæðið á sér nokkra hliðstæðu í 54. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 79. gr.

    Í greininni er lagt til að 73. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Lagt er til í 1. mgr. að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skuli endurgreiða greiðanda fjárhæð óheimilaðrar greiðslu og ef við á koma greiðslureikningnum sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann hefði verið í ef óheimilaða greiðslan hefði ekki átt sér stað. Hvort greiðsla teljist óheimil skal meðal annars metið með hliðsjón af 64. gr. Greiðsluþjónustuveitandinn skal einnig tryggja að gildisdagur eignfærslunnar á greiðslureikning greiðandans sé ekki síðar en dagurinn sem fjárhæðin var skuldfærð. Hafi greiðsluþjónustuveitandi greiðanda grun um svik getur hann neitað endurgreiðslu og skal hann þá tilkynna um grun sinn til Fjármálaeftirlitsins. Tilgangurinn er að Fjármálaeftirlitið fái tækifæri til að meta hvort og í hve miklum mæli misnotkun á greiðslumiðlum á sér stað og hvort einhver greiðsluþjónustuveitandi neiti greiðendum ítrekað um endurgreiðslu. Greiðsluþjónustuveitandi getur ekki neitað endurgreiðslu eftir að ljóst er að svik voru ekki í tafli.
    Í 2. mgr. er lagt til að ef óheimiluð greiðslufyrirmæli voru sett af stað fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda skuli greiðsluþjónustuveitandi sem veitti reikningsþjónustuna endurgreiða þegar í stað fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar. Sé greiðsluvirkjandinn hins vegar ábyrgur fyrir óheimiluðu greiðslunni er lagt til í 3. mgr. að hann skuli þegar í stað bæta greiðsluþjónustuveitanda sem veitti reikningsþjónustuna, að beiðni hans, tapið sem hann varð fyrir eða fjárhæðirnar sem hann hefur greitt vegna endurgreiðslu til greiðandans, þ.m.t. fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar, mögulega vexti og þóknanir. Ákvæðið 3. mgr. er nýmæli og er áréttað að meðal annars verði að hafa hliðsjón af 1. mgr. 78. gr.
    4. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Í 5. mgr. er lagt til að ákvæðið skuli jafnframt gilda um rafeyri í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli. Ef rafeyrir er gefinn út á handhafa, t.d. í gjafakortum, er sjaldnast mögulegt að frysta greiðslureikninginn sem geymir rafeyrinn. Af þeim sökum er lagt til að undanskilja slíkan rafeyri.
    6. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Ákvæðið á sér nokkra hliðstæðu í 55. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 80. gr.

    Í greininni er lagt til að 74. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Það athugast að ákvæðið er frávíkjanlegt þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi, sbr. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er lagt til að sjálfsábyrgð greiðanda á tapi vegna óheimilaðra greiðslna sem rekja megi til notkunar á týndum eða stolnum greiðslumiðli eða sem stafi af óréttmætri notkun greiðslumiðils skuli nema allt að jafnvirði 50 evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Frá þessu eru þó lagðar til tvær undantekningar í 2. mgr. Sú fyrri er í a-lið og felur í sér að hámarkið gildi ekki þegar greiðanda gat ekki orðið ljóst að greiðslumiðill væri tapaður, honum hefði verið stolið eða hann notaður á óréttmætan hátt og greiðandi sýndi auk þess ekki af sér sviksamlega háttsemi. Slíkt gæti t.d. átt sér stað þegar PIN-númer kemst í hendur óprúttinna aðila vegna ónógra öryggisráðstafana vefþjónustu eða skýjalausnar. Sú síðari er í b-lið og felur í sér að hámarkið gildi ekki ef tap greiðanda stafaði af aðgerðum eða aðgerðaleysi starfsmanns, greiðsluþjónustuveitanda, umboðsaðila eða útvistunaraðila hans.
    Í 2. mgr. er lagt til að þrátt fyrir 1. mgr. skuli greiðandi bera allt tap sem rekja má til óheimilaðra greiðslna hafi hann sjálfur stofnað til þeirra með sviksamlegum hætti eða hann af ásetningi eða stórfelldu gáleysi látið ógert að uppfylla skyldur sínar skv. 75. gr.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að nýtt verði valkvætt ákvæði 5. málsl. 1. mgr. 74. gr. tilskipunarinnar. Gera má ráð fyrir að fordæmi úrskurðarnefndar og dómstóla skapist fljótt um framkvæmd ákvæðisins og þykir heppilegt að svigrúm sé til lækkunar sjálfsábyrgðar greiðanda vegna óheimilaðra greiðslna gefi kringumstæður tilefni til. Í þessu ákvæði felst mikilvæg neytendavernd. Sambærilegt valkvætt ákvæði var innleitt í 3. mgr. 56. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 4. mgr. er lagt til að í þeim tilvikum þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda krefst ekki sterkrar sannvottunar viðskiptavinar skuli greiðandi ekki bera neitt fjárhagstjón nema greiðandinn hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Að sama skapi ber viðtakanda greiðslu eða greiðsluþjónustuveitanda hans að endurgreiða greiðsluþjónustuveitanda greiðanda fjárhagstjón hans ef þeir samþykkja ekki sterka sannvottun. Hugtakið sterk sannvottun viðskiptavinar er skilgreint í 40. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er lagt til að hafi greiðandi fullnægt tilkynningarskyldu sinni skv. 3. mgr. 75. gr. skuli hann ekki bera tjón sem til verður vegna notkunar greiðslumiðilsins eftir að slík tilkynning var send greiðsluþjónustuveitanda. Þetta á þó ekki við ef greiðandinn hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
    Að sama skapi er lagt til í 6. mgr. að greiðandi skuli ekki bera tjón sem hlýst af notkun greiðslumiðils ef greiðsluþjónustuveitandi hefur ekki gert viðeigandi ráðstafanir samkvæmt lögum þessum vegna tilkynningarskyldu um greiðslumiðil sem hefur týnst, verið stolið eða hann notaður með óréttmætum hætti, eins og krafist er skv. 4. mgr. 76. gr. Þetta á þó ekki við ef greiðandi hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
    Skv. 7. mgr. gildir ákvæði þetta einnig um rafeyri í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli. Ef rafeyrir er gefinn út á handhafa t.d. í gjafakortum er sjaldnast mögulegt að frysta greiðslureikninginn sem geymir rafeyrinn. Af þeim sökum er lagt til að undanskilja slíkan rafeyri.
    Ákvæðið á sér hliðstæðu í 56. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 81. gr.

    Í greininni er lagt til að 75. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að þegar greiðsla er sett af stað af eða fyrir milligöngu viðtakanda hennar í tengslum við kortatengda greiðslu og nákvæm fjárhæð er ekki þekkt á þeirri stundu sem greiðandinn veitir samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslunnar getur greiðsluþjónustuveitandi greiðandans aðeins fryst fjármuni á greiðslureikningi greiðandans ef greiðandinn hefur veitt samþykki fyrir nákvæmlega þeirri fjárhæð sem fyrirhugað er að frysta. Þegar kortatengd greiðsla er framkvæmd er fyrst send svokölluð heimildarbeiðni til útgefanda kortsins til að kanna hvort korthafi eigi næga úttektarheimild fyrir greiðslu á vöru eða þjónustu sem hann er að kaupa. Útgefandinn gefur svar og eru þá eftirstöðvar úttektarheimildar lækkaðar samsvarandi. Við kaup á t.d. bensíni, herbergi og þjónustu á hóteli og leigu á bílaleigubíl er ekki vitað fyrr en við lok þjónustunnar hver endanleg greiðsla verður. Til langs tíma hefur því tíðkast að þessir söluaðilar óski eftir heimild hjá útgefanda kortsins fyrir áætlaðri fjárhæð sem síðan er lækkuð þegar þjónustan hefur verið afhent og fjárhæðin er kunnug. Ákvæðið felur í sér neytendavernd á þann veg að notandi greiðsluþjónustu þarf að samþykkja þá fjárhæð sem söluaðili leggur til að skuli frátekin/fryst af úttektarheimild hans til tryggingar greiðslu. Notandi greiðsluþjónustunnar getur þá sjálfur lagt mat á hvort fjárhæðin sem söluaðili óskar eftir að fá heimild fyrir hjá útgefanda kortsins sé viðeigandi eða ekki. Ef hann telur hana ekki viðeigandi getur hann gert athugasemd þess efnis við söluaðila. Líkur á því að söluaðili geri upp vöru- eða þjónustukaup sem eiga að hafa átt sér stað, t.d. á hótelbar eða vegna tjóns á bílaleigubíl, eru því hverfandi.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi greiðandans skuli afhenda fjármunina sem frystir hafa verið á greiðslureikningi greiðandans skv. 1. mgr. án ótilhlýðilegrar tafar eftir viðtöku upplýsinganna um nákvæma fjárhæð greiðslunnar og eigi síðar en strax eftir viðtöku greiðslufyrirmælanna. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja að úttektarheimild korthafa sé eins rétt og mögulegt er hverju sinni og hann geti því sem mest ótruflaður nýtt kortið til greiðslu á annarri vöru eða þjónustu.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um 82. gr.

    Í greininni er lagt til að 76. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið lýtur að rétti greiðanda til endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda sínum vegna heimilaðra greiðslna sem viðtakandi hefur sett af stað eða haft milligöngu um. Hér undir falla því beingreiðslur og greiðslur með greiðslukorti. Hótel og bílaleigur geta dregið af greiðslukorti vegna notkunar á míníbar á hótelherbergi eða skemmdar á bílaleigubíl. Endurgreiðsla tekur til allrar fjárhæðar greiðslunnar sem var framkvæmd. Vegna b-liðar 1. mgr. er ekki alltaf auðvelt að ákvarða hvort fjárhæðin sé innan þess sem greiðandi gat vænst miðað við útgjaldamynstur hans fram að þeim tíma, skilmála í rammasamningi og málsatvik að öðru leyti. Ef greiðanda er gert að greiða fyrir vörur á míníbar á hóteli sem eru umfram það sem mögulegt er að neyta á míníbarnum er ljóst að skilyrði endurgreiðslu eru til staðar. Sama á við um greiðslu kostnaðar vegna sprautunar á bílaleigubíl ef bílaleigan gerði ekki athugasemd við ástand lakksins þegar bílnum var skilað. Vafatilvik ber að túlka greiðanda í hag því að eðlilegt er að viðtakandi greiðslu beri hallann af því að greiðandi hafi ekki samþykkt nákvæma fjárhæð greiðslunnar. Ákvæðið leggur tilteknar skyldur á herðar greiðsluþjónustuveitendum við framkvæmd slíkra greiðslna. Ljóst má vera að vanda þarf til verka við smíði rammasamninga og verklags við framkvæmd greiðsluþjónustu þegar um er að ræða greiðslur sem viðtakandi hefur sett af stað eða hefur milligöngu um.
    Vakin er athygli á að orðin beingreiðsla og viðmiðunargengi eru skilgreind í 2. tölul. og 47. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Áréttað er að víkja má frá 1.–4. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi, sbr. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins. Hins vegar er gert ráð fyrir að 6. og 7. mgr. sé umsemjanlegar, hvort sem notandi greiðsluþjónustu er neytandi eður ei, sbr. 3. mgr. 76. gr. tilskipunarinnar.
    Ákvæðið er nær efnislega samhljóða 57. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 83. gr.

    Í greininni er lagt til að 77. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið tekur til reglna um meðferð beiðna um endurgreiðslu skv. 82. gr., þ.m.t. um frest greiðanda til að leggja fram slíka beiðni og afgreiðslufrest greiðsluþjónustuveitanda.
    Í 1. mgr. er lagt til að greiðandi fái átta vikna frest frá þeim degi þegar fjármunir voru skuldfærðir til að óska eftir endurgreiðslu í samræmi við 82. gr. á greiðslu sem var heimiluð og sett af stað af viðtakanda greiðslu eða fyrir milligöngu hans.
    Í 2. mgr. er lagt til að afgreiðslufrestur beiðna um endurgreiðslu verði tíu viðskiptadagar. Greiðsluþjónustuveitandi annaðhvort endurgreiðir í samræmi við kröfu greiðanda ellegar rökstyður synjun um endurgreiðslu. Ef endurgreiðslu er hafnað skal greiðandi sérstaklega upplýstur um mögulegar leiðir til málskots. Orðið viðskiptadagur er skilgreint í 49. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að synjunarréttur greiðsluþjónustuveitanda skv. 2. mgr. gildi ekki að því er varðar beingreiðslur ef samið hefur verið um það í rammasamningi um greiðsluþjónustu að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda þrátt fyrir að skilyrði 1. mgr. 82. gr. séu ekki uppfyllt. Hér er um innleiðingu á 2. málsl. 2. mgr. 77. gr. tilskipunarinnar að ræða.
    Áréttað er að víkja má frá 1.–3. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi, sbr. 1. mgr. 61. gr. frumvarpsins.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 58. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 84. gr.

    Í greininni er lagt til að 78. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að viðtökutími greiðslufyrirmæla sé skilgreindur sem sá tími þegar greiðslufyrirmæli berast greiðsluþjónustuveitanda greiðanda. Auk þess er lagt til að ekki skuli skuldfæra af reikningi greiðandans fyrr en tekið hefur verið við greiðslufyrirmælunum. Einnig er mælt fyrir um heimild til handa greiðsluþjónustuveitanda til að fastsetja lokunartíma nálægt lokum viðskiptadags og skulu þá greiðslufyrirmæli, sem hann tekur við eftir það, teljast til næsta viðskiptadags á eftir. Orðið viðskiptadagur er skilgreint í 49. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Viðtökutími skiptir máli í tengslum við endurgreiðslur, sbr. 82. gr., hvenær greiðsla á að hafa átt sér stað, sbr. 88. gr. og 89. gr.

    Í 2. mgr. er lagt til að ef fyrir er að fara samningi milli annars vegar notanda greiðsluþjónustu sem gefur greiðslufyrirmæli og hins vegar greiðsluþjónustuveitanda hans um að framkvæmd greiðslufyrirmælanna skuli hefjast á tilteknum tíma telst viðtökutíminn í skilningi 88. gr. vera dagurinn sem samið var um. Hinn tiltekni tími getur verið tilgreindur dagur, við lok tiltekins tímabils eða þann dag sem greiðandi hefur lagt inn fjármuni til ráðstöfunar fyrir greiðsluþjónustuveitanda sinn. Hér er um sérreglu að ræða að því er varðar framkvæmdartíma greiðslufyrirmæla. Þegar sá dagur sem samið hefur verið um er ekki á viðskiptadegi í skilningi laganna skal litið svo á að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi tekið við greiðslufyrirmælunum næsta viðskiptadag á eftir. Árétta skal í því sambandi d-lið 2. tölul. 54. gr. frumvarpsins hvað varðar tímamark viðtöku greiðslufyrirmæla og skilgreindan lokunartíma greiðsluþjónustuveitanda, ef við á, og 58. gr. frumvarpsins um upplýsingagjöf áður en kemur til framkvæmdar einstakra greiðslna sem falla undir rammasamning.

    Ákvæðið er nær samhljóða 59. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 85. gr.

    Í greininni er lagt til að 79. gr. tilskipunarinnar verði innleidd um þær kringumstæður þegar greiðsluþjónustuveitandi synjar um framkvæmd greiðslufyrirmæla eða að setja af stað greiðslu, þ.e. hvernig tilkynningu til notanda greiðsluþjónustu um synjunina skal háttað o.fl.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hvaða skyldur greiðsluþjónustuveitandi hefur ef hann neitar að verða við greiðslufyrirmælum frá notanda eða setja af stað greiðslu. Í þeim tilvikum skal greiðsluþjónustuveitandi tilkynna notanda um synjunina og, ef unnt er, ástæður fyrir henni og málsmeðferð við mögulega leiðréttingu á því sem veldur neituninni. Sem dæmi má nefna rammasamning þar sem kveðið er á um að næg innstæða á greiðslureikningi sé forsenda fyrir greiðslu af reikningnum. Séu þau skilyrði ekki uppfyllt synjar greiðsluþjónustuveitandi greiðslufyrirmælum eða greiðslu. Á sama hátt er greiðsluþjónustuveitanda óheimilt að synja um framkvæmd greiðslufyrirmæla eða neita að setja af stað greiðslu séu skilyrðin uppfyllt og önnur ákvæði í löggjöf kveði ekki á um annað. Sem dæmi um löggjöf sem getur leitt til þess að greiðsluþjónustuveitandi geti synjað framkvæmd greiðslufyrirmæla eða neitað að setja af stað greiðslu má nefna þegar fjármunir á greiðslureikningi eru óaðgengilegir greiðanda vegna dómsúrskurðar, svo sem á grundvelli ákvæða laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, um hald á munum eða vegna kyrrsetningar samkvæmt lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990. Þá kann skylda til að forðast viðskipti skv. 22. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, jafnframt að koma til skoðunar í þessu samhengi. Löggjöfin getur kveðið á um þagnarskyldu greiðsluþjónustuveitanda og hann getur því ekki tilkynnt notanda greiðsluþjónustunnar í þeim tilvikum um ástæður fyrir synjuninni.
    Í þeim tilvikum sem lög um greiðsluþjónustu og eftir atvikum önnur lög gera ráð fyrir að heimilt sé að hafna greiðslufyrirmælum skal notanda greiðsluþjónustu tilkynnt um synjunina í samræmi við 2. og 3. mgr. Auk þess er lagt til í 2. mgr. að greiðsluþjónustuveitandi geti í rammasamningi kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir synjun enda sé synjunin í samræmi við lög og rökstudd á hlutlægan hátt. Samkvæmt þessu verður gjaldið að vera sanngjarnt og einungis að standa straum af raunverulegum kostnaði greiðsluþjónustuveitanda við synjunina.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að líta skuli á greiðslufyrirmæli sem synjað hefur verið eins og ekki hafið verið tekið við þeim. Því reynir ekki á ákvæði 88. gr. og 93. gr. um hvenær fjárhæð greiðslu skuli vera viðtakanda til ráðstöfunar.
    Ákvæðið á sér hliðstæðu í 60. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 86. gr.

    Í greininni er lagt til að 80. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Notanda verði ekki heimilt að afturkalla greiðslufyrirmæli þegar greiðsluþjónustuveitandi hefur tekið við þeim nema 2.–5. mgr. ákvæðisins eigi við og eru skilyrði afturköllunar skilgreind með ólíkum hætti eftir aðstæðum. Greiðsluþjónustuveitandi hefur tekið við greiðslufyrirmælum þegar greiðandi hefur t.d. undirritað form fyrir greiðslufyrirmæli, staðfest þau í netbanka, t.d. með lykilorði eða PIN-kóða, eða þeirri aðferð sem greiðsluþjónustuveitandi og notandi greiðsluþjónustunnar hafa samið um.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eiga við þegar annaðhvort greiðsluvirkjandi með samþykki greiðanda eða viðtakandi greiðslu setur af stað eða hefur milligöngu um greiðslu. Í síðarnefndri málsgrein er að finna sérreglu að því er varðar beingreiðslur, án þess að slíkt hafi áhrif á endurkröfuréttindi, en orðið beingreiðsla er skilgreint í 2. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Greiðsluþjónustuveitandi getur samið um í rammasamningi að afturköllun verði að berast fyrir tiltekinn tíma nálægt lokum viðskiptadags ellegar verði greiðslufyrirmælum framfylgt.
    Ákvæði 4. mgr. á við í því tilviki sem um getur í 2. mgr. 84. gr., þ.e. þegar samið hefur verið um að framkvæmd greiðslufyrirmæla skuli fara fram á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag sem fjármunir hafa verið lagðir til ráðstöfunar hjá greiðsluþjónustuveitanda.
    Eftir tímamörkin sem skilgreind eru í 1.–4. mgr. er aðeins unnt að afturkalla greiðslufyrirmæli ef aðilar semja um það, sbr. 5. mgr. Í rammasamningi má kveða á um heimild til gjaldtöku vegna afturköllunar greiðslufyrirmæla samkvæmt þessari málsgrein.
    Loks athugast að 1.–5. mgr. eru frávíkjanlegar þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi, sbr. 1. mgr. 51. gr. tilskipunarinnar.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 61. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 87. gr.

    Í greininni er lagt til að 81. gr. tilskipunarinnar verði innleidd.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að meginreglan verði sú að greiðslur skuli millifærðar óskertar og gjöld skuli ekki dregin frá millifærðri fjárhæð. Þetta á við um allan feril greiðslu, þ.e. greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda og mögulega milliliði þeirra.     
    Þó er í 2. mgr. gert ráð fyrir að viðtakandi greiðslu og greiðsluþjónustuveitandi hans geti samið um að hinn síðarnefndi dragi gjöld sín vegna greiðsluþjónustunnar frá millifærðri fjárhæð áður en hún er eignfærð á viðtakandann. Semji aðilar með fyrrgreindum hætti skal öll fjárhæð greiðslunnar aðskilin frá gjöldunum í þeim upplýsingum sem viðtakanda greiðslu eru veittar skv. IV. kafla, svo sem 52. gr. og 60. gr. Eingöngu er heimilt að draga frá umsamin gjöld vegna greiðsluþjónustunnar en ekki vegna t.d. annarra viðskiptaaðila, sbr. 80. lið formálsorða tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að ef atvik eru með þeim hætti að einhver önnur gjöld en þau sem um getur í 2. mgr. eru dregin frá millifærðri fjárhæð skuli greiðsluþjónustuveitandi greiðanda sjá til þess að viðtakandi greiðslu fái alla fjárhæð greiðslunnar sem greiðandi setur af stað. Í tilvikum þar sem viðtakandi greiðslu setur af stað greiðslu eða hefur milligöngu um hana skal greiðsluþjónustuveitandi hans tryggja að viðtakandinn fái óskerta fjárhæð greiðslunnar. Með ákvæðinu er ábyrgð því lögð á herðar greiðsluþjónustuveitendum um að meginregla 1. mgr. sé virt í framkvæmd.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 62. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 88. gr.

    Í greininni er lagt til að 83. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að frá viðtökutíma þeim sem tilgreindur er í 84. gr. skuli greiðsluþjónustuveitandi tryggja að fjárhæð greiðslu sé eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda í síðasta lagi í lok næsta viðskiptadags. Þegar um ræðir greiðslu sem er á pappírsformi má þó lengja frestinn um einn viðskiptadag.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda beri eftir viðtöku fjármuna að setja gildisdag á greiðslu og leggja fjárhæð hennar á greiðslureikning viðtakanda til ráðstöfunar í samræmi við 91. gr., nema samningsaðilar tiltaki annan tímafrest.
    Ákvæði 3. mgr. er sérákvæði sem gildir um greiðslur sem viðtakandinn hefur milligöngu um, t.d. greiðsla með greiðslukorti á sölustað, og greiðslur sem viðtakandinn á frumkvæði að, t.d. beingreiðslur. Að því er beingreiðslur varðar skulu viðtakandi og greiðsluþjónustuveitandi hans semja um tímafrest sendingar greiðslufyrirmæla til greiðsluþjónustuveitanda greiðanda til þess að uppgjör eigi sér stað á þeim gjalddaga sem greiðandinn og viðtakandi greiðslu hafa komið sér saman um. Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda verður að treysta á þann gjalddaga sem viðtakandinn ákveður, vegna þess að gjalddaginn er ákveðinn með samningi milli greiðanda og viðtakanda. Þetta á t.d. við um beingreiðslur vegna orku- og rafmagnskostnaðar. Viðtökudagur greiðslufyrirmæla skv. 84. gr. frumvarpsins verður hinn umsamdi gjalddagi og á þeim degi má í fyrsta lagi skuldfæra reikning greiðanda. Orðin beingreiðsla og viðskiptadagur eru skilgreind í 2. tölul. og 49. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Að því er færsluhirðingu varðar getur hér einungis verið um að ræða samning milli söluaðila og færsluhirðis. Í 82. lið formálsorða tilskipunarinnar segir að til að auka skilvirkni greiðslna innan Evrópska efnahagssvæðisins ætti um öll greiðslufyrirmæli, sem greiðandi á frumkvæði að og eru tilgreind í evrum eða í gjaldmiðli aðildarríkis sem hefur ekki evru sem gjaldmiðil, þ.m.t. millifærslur fjármuna og peningasendingar, að gilda hámarksframkvæmdartími sem er einn dagur. Um allar aðrar greiðslur, svo sem greiðslur sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að því að setja af stað eða hefur milligöngu um, þ.m.t. beingreiðslur og kortagreiðslur, ætti að gilda sami framkvæmdartími, sem er einn dagur, ef ekki liggur fyrir skýrt samkomulag milli greiðsluþjónustuveitanda og greiðanda um lengri framkvæmdartíma. Sama kemur fram í skýringum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um færsluhirðingu vegna tilskipunar 2007/64/EB, þ.e. að greiðsluþjónustuveitandi og söluaðili skuli semja sín á milli um framkvæmd greiðslu til söluaðila. Um það hvenær greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda (færsluhirðir) greiðir viðtakanda (söluaðila) uppgjör inn á greiðslureikning hans er hins vegar fjallað í 2. mgr. þessarar greinar og 91. gr. Skv. 8. tölul. 2. gr. frumvarpsins fellur færsluvísing og uppgjör milli útgefanda og færsluhirðis utan gildissviðs laga um greiðsluþjónustu.
    Ákvæðið er efnislega samhljóða 64. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 89. gr.

    Í greininni er lagt til að 84. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið á við þegar viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda og mælir fyrir um að fjármunir skuli hafðir aðgengilegir til ráðstöfunar fyrir viðtakandann innan þess frests sem tilgreindur er í 88. gr. Peningasending skv. f-lið 22. tölul. 3. gr. frumvarpsins er dæmi um greiðsluþjónustu þar sem viðtakandi greiðslu á ekki greiðslureikning. Ákvæðið leggur ekki skyldu á greiðsluþjónustuveitanda að samþykkja móttöku greiðslunnar.
    Ákvæði 89. gr. er samhljóða 65. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 90. gr.

    Í greininni er lagt til að 85. gr. tilskipunarinnar verði innleidd en þó þannig að valkvætt ákvæði 86. gr. tilskipunarinnar verði nýtt. Ákvæðið á við þegar reiðufé er lagt inn á greiðslureikning. Leggi notandi greiðsluþjónustu, hvort sem hann er neytandi eða ekki, reiðufé inn á greiðslureikning í gjaldmiðli reikningsins skal greiðsluþjónustuveitandi tryggja að fjárhæðin sé til ráðstöfunar og gildisdagsett tafarlaust eftir skráða viðtöku fjármunanna. Skv. 86. gr. tilskipunarinnar er heimilt að kveða á um strangari tímafresti en kveðið er á um í 82.–87. gr. tilskipunarinnar og er gert ráð fyrir, líkt og í gildandi lögum, að sú heimild verði nýtt á þann hátt að greiðsla skuli gildisdagsett tafarlaust eftir viðtöku fjárins af hálfu greiðsluþjónustuveitanda, enda tæknilegt umhverfi með þeim hætti á Íslandi að slíkt er framkvæmanlegt. Orðin gildisdagur og viðskiptadagur eru skilgreind í 10. tölul. og 49. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er samhljóða 66. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 91. gr.

    Í greininni er lagt til að 87. gr. tilskipunarinnar verði innleidd.
    Í 1. mgr. er gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda skilgreindur og telst hann vera eigi síðar en þann viðskiptadag þegar fjárhæð greiðslunnar er eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skuli tryggja að fjárhæð greiðslunnar sé viðtakanda til ráðstöfunar þegar í stað eftir að hún hefur verið eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda að því tilskildu að hvorki eigi sér stað umreikningur gjaldmiðils né umreikningur gjaldmiðils milli evru og gjaldmiðils aðildarríkis eða milli tveggja aðildarríkja. Skyldan er sú sama í þeim tilvikum þegar um er að ræða greiðslur innan eins greiðsluþjónustuveitanda. Greiðslureikningur er skilgreindur í 17. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er gildisdagur skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda skilgreindur og telst hann vera eigi fyrr en sá tímapunktur þegar fjárhæð greiðslunnar er skuldfærð af greiðslureikningi greiðanda hjá greiðsluþjónustuveitanda. Þar af leiðandi má ekki hætta að greiða vexti af innstæðu á greiðslureikningi greiðanda fyrr en á þeim tímapunkti sem fjárhæðin fer raunverulega út af reikningi hans.
    Orðin gildisdagur og viðskiptadagur eru skilgreind í 10. tölul. og 49. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Ákvæði 91. gr. er nær efnislega samhljóða 67. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 92. gr.

    Í greininni er lagt til að 88. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið á við þegar greiðsluþjónustuveitandi hefur úthlutað notanda greiðsluþjónustu sérstöku kennimerki, sem tilgreina skal vegna framkvæmdar greiðslu, til að unnt sé að bera ótvíræð kennsl á notandann og/eða greiðslureikning hans. Sérstakt kennimerki er samsett úr bókstöfum, tölustöfum og/eða táknum, sbr. orðskýringu í 37. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt 1. mgr. skulu greiðslufyrirmæli teljast hafa verið framkvæmd réttilega ef tilgreindur viðtakandi greiðslu er með það tiltekna sérstaka kennimerki sem greiðslufyrirmæli eru framkvæmd í samræmi við.
    Gefi notandi greiðsluþjónustu upp rangt sérstakt kennimerki og greiðsla skilar sér ekki af þeim sökum eða er gölluð er ekki gert ráð fyrir ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda skv. 93. gr. Notandi greiðsluþjónustu ber ábyrgð á því ef hann notar ekki rétt sérstakt kennimerki. Þó ber greiðsluþjónustuveitanda að gera ráðstafanir til aðstoðar greiðanda, eftir því sem mögulegt er, um endurheimtu þeirra fjármuna sem greiðsla fól í sér og í því skyni hafa samband við greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda til að fá frekari upplýsingar. Honum ber að sýna samvinnu og afhenda upplýsingarnar sem hann býr yfir. Semja má um gjaldtöku fyrir slíka aðstoð í rammasamningi, ef það er ekki gert, er slík gjaldtaka óheimil.
    Í 4. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að ef notandi greiðsluþjónustu veitir upplýsingar til viðbótar þeim sem hann þarf samkvæmt frumvarpinu að gefa upp til að greiðslufyrirmæli verði framkvæmd rétt skuli greiðsluþjónustuveitandi aðeins vera ábyrgur vegna framkvæmdar greiðslunnar í samræmi við sérstaka kennimerkið sem notandi greiðsluþjónustunnar gefur upp. Markmið ákvæðisins er að skera úr um réttarstöðu greiðsluþjónustuveitanda þegar um mótsagnakenndar upplýsingar er að ræða frá notanda.
    Ákvæði 92. gr. er nær samhljóða 68. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 93. gr.

    Í greininni er lagt til að 89. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið á t.d. við þegar röng fjárhæð er dregin af bankareikningi við millifærslu eða röng skráning á sér stað, svo sem rangt reikningsnúmer. Lagt er til að annars vegar greiðandi og hins vegar viðtakandi greiðslu njóti hlutlægrar bótaábyrgðar í tilgreindum tilvikum og greiðsluþjónustuveitandi greiðanda eða viðtakanda greiðslu séu ábyrgir eftir atvikum.
    Ákvæði 1.–5. mgr. eiga við þegar greiðandi gefur greiðslufyrirmæli. Ákvæðin gilda þó með fyrirvara um 77. gr., 2.–3. mgr. 92. gr. og 97. gr.
    Meginreglan er tilgreind í 1. málsl. 1. mgr., en hún er sú að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda, í því tilviki að greiðandi hafi gefið greiðslufyrirmæli milliliðalaust, ber ábyrgð gagnvart greiðanda á því að greiðsla verði réttilega framkvæmd. Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðandans getur hins vegar sannað að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda hafi tekið við hlutaðeigandi greiðslu í samræmi við 2. mgr. 88. gr. frumvarpsins verður greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda ábyrgur fyrir réttri framkvæmd greiðslunnar í samræmi við 88. gr. Ábyrgð hans á réttri framkvæmd greiðslu er gagnvart viðtakanda greiðslunnar og nær hún einungis til beins tjóns. Hér eiga undir millifærslur á milli bankareikninga og tjónið getur verið tapaðar vaxtatekjur. Meginreglan er því sú í samræmi við 88. gr. að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda ber ábyrgð gagnvart greiðanda á því að greiðsla verði réttilega framkvæmd fram að þeim tímapunkti að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda hefur móttekið greiðsluna en þá flyst ábyrgðin yfir á greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda vegna beins tjóns sem viðtakandi greiðslu verður fyrir.
    Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann skv. 2. mgr. endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu án óþarfa tafar og, ef við á, færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið í ef gallaða greiðslan hefði ekki átt sér stað. Áskilið er að gildisdagur eignfærslunnar að því er varðar greiðslureikning greiðandans skuli vera eigi síðar en daginn þegar fjárhæðin var skuldfærð.
    Ef greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann skv. 3. mgr. þegar í stað sjá til þess að fjárhæð greiðslunnar sé til ráðstöfunar fyrir viðtakanda greiðslu og, ef við á, eignfæra samsvarandi fjárhæð á greiðslureikning viðtakanda greiðslu. Gildisdagur eignfærslunnar á greiðslureikningi viðtakanda greiðslu skal ekki vera síðar en dagurinn sem hefði verið gildisdagur ef greiðslan hefði verið framkvæmd rétt í samræmi við 91. gr.
    Í 4. mgr. er lagt til að sú skylda verði lögð á greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu, þegar greiðsla hafi verið framkvæmd of seint og að fenginni skriflegri beiðni greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, að tryggja að gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu verði sá dagur sem greiðslan hefði átt að fara fram hefði hún verið framkvæmd réttilega.
    Í 5. mgr. er lagt til að lögð verði sú skylda á herðar greiðsluþjónustuveitanda greiðanda að gera þegar í stað ráðstafanir til að rekja óframkvæmda greiðslu eða gallaða framkvæmda greiðslu ef greiðandi æskir þess, án tillits til þess hver ber ábyrgð skv. 1. mgr., og skal hann tilkynna greiðanda um niðurstöðuna. Þetta skal vera greiðandanum að kostnaðarlausu. Sem dæmi má nefna að greiðsluþjónustuveitandi greiðanda komist að því hver sé viðtakandi greiðslunnar og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu og komi þeim upplýsingum til greiðanda.
    Ákvæði 6.–8. mgr. eiga við þegar viðtakandi greiðslu gefur greiðslufyrirmælin eða hefur milligöngu um að þau eru gefin. Hér undir eiga því beingreiðslur og greiðslur með greiðslukortum (milliganga). Skv. 6. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda bera ábyrgð á því gagnvart viðtakandanum að greiðslufyrirmælin sem hann gaf eða hafði milligöngu um verði réttilega send greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, sbr. 3. mgr. 88. gr. frumvarpsins. Ábyrgðin nær til beins tjóns. Skulu greiðslufyrirmælin send tafarlaust eða eftir atvikum endursend. Hafi greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda sent greiðslufyrirmælin of seint skal hann þó sjá til þess að gildisdagur fjárhæðarinnar á greiðslureikningi viðtakanda sé hinn sami og hefði greiðslan verið framkvæmd rétt. Skv. 6. mgr. er greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu jafnframt ábyrgur gagnvart viðtakandanum fyrir að greiðslan sé meðhöndluð í samræmi við 91. gr. frumvarpsins. Málsgreinin gildir með fyrirvara um 77. gr., 2. og 3. mgr. 92. gr. og 97. gr.
    Í 7. mgr. er lagt til að áhættan af réttri framkvæmd greiðslu yfirfærist á greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í þeim tilvikum sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda telst ekki ábyrgur skv. 5. og 6. mgr. Hinn fyrrnefndi skal þá án óþarfa tafar endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, ef við á, færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið í ef gallaða greiðslan hefði ekki átt sér stað. Gildisdagur eignfærslunnar á greiðslureikningi greiðandans skal ekki vera síðar en dagurinn sem fjárhæðin var skuldfærð. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda færir sönnur á að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda hafi eigi að síður fengið fjárhæð greiðslunnar. Þá fellur það greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda í skaut að setja gildisdag fjárhæðarinnar á greiðslureikning viðtakanda greiðslu eigi síðar en þann dag sem hefði verið gildisdagur hefði hún verið framkvæmd rétt.
    Ákvæði 8. mgr. er efnislega sambærilegt ákvæði 5. mgr., nema hvað það snýr að viðtakanda greiðslu og greiðsluþjónustuveitanda hans.
    Í 9. mgr. er kveðið á um ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda gagnvart notanda greiðsluþjónustu að því er varðar gjöld og vexti sem mögulega falla á notandann sem afleiðing af óframkvæmdri eða gallaðri greiðslu, þ.m.t. þegar greiðsla er framkvæmd of seint. Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda ber ábyrgð samkvæmt þessari málsgrein gagnvart greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu gagnvart viðtakandanum. Notandi greiðsluþjónustu skal með öðrum orðum vera skaðlaus.
    Áréttað er að víkja má frá ákvæðum þessarar greinar með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi, sbr. 61. gr. frumvarpsins. Ákvæðið er um margt sambærilegt 69. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 94. gr.

    Í greininni er lagt til að 90. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skuli endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, eftir atvikum, færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið í ef gallaða greiðslan hefði ekki farið fram. Þetta gildir með fyrirvara um 77. gr. og 2. og 3. mgr. 92. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluvirkjandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu hafi fengið greiðslufyrirmælin í samræmi við 84. gr. og hvað hans starfsemi varðar að greiðslan hafi verið heimiluð, rétt skráð og að tæknileg bilun eða annar ágalli hafi ekki haft þau áhrif að greiðslan varð gölluð, hún hafi ekki verið framkvæmd eða framkvæmd of seint.
    Í 3. mgr. er lagt til að greiðsluvirkjandi skuli bera ábyrgð takist honum ekki að færa sönnur á þau atriði sem nefnd eru í 2. mgr. og þá í framhaldinu skuli hann bæta greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu tapið sem hann varð fyrir, sem telst a.m.k. fjárhæðin sem hann endurgreiddi greiðandanum, komi fram beiðni þar um.
    Ákvæðið er nýmæli og fyrirfinnst ekki í lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 95. gr.

    Í greininni er lagt til að 91. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Gert er ráð fyrir að ákvarða megi frekari fébætur, enda sé stoð fyrir slíku í samningi milli notanda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda hans.
    Rétt þykir í þessu samhengi að minna t.d. á ákvæði 79. gr. er snýr að ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda þegar um ræðir óheimilaða greiðslu, 80. gr. um ábyrgð greiðanda þegar um ræðir óheimilaða greiðslu og 82. gr. og 83. gr. hvað varðar endurgreiðslur á greiðslum sem viðtakandi á frumkvæði að eða hefur milligöngu um. Ákvæðið er samhljóða 70. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 96. gr.

    Í greininni er lagt til að 92. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið snýr að ábyrgð annarra greiðsluþjónustuveitenda eða milliliða gagnvart greiðsluþjónustuveitendum greiðanda eða viðtakanda greiðslu (endurkröfurétti) sem orðið hafa fyrir tjóni á grundvelli 79. gr. og 93. gr., enda megi rekja tjónið til fyrrgreindra aðila. Milliliðir og aðrir greiðsluþjónustuveitendur geta verið þeir sem eru hluti af greiðsluferlinu og eru milliliðir á milli greiðanda og greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu en einnig getur milliliður verið viðtakandi greiðslu í því tilviki að greiðsluþjónustuveitandi hans hafi orðið fyrir tjóni af hans sökum.
    Ákvæðið er samhljóða 71. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 97. gr.

    Í greininni er lagt til að 93. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Bótaábyrgð skv. 64.–96. gr. laganna nær ekki til tjóns sem rekja má til 1) óeðlilegra eða 2) ófyrirsjáanlegra aðstæðna 3) sem ekki eru á valdi þess aðila sem ber fyrir sig þessar aðstæður og hann hafði engin áhrif á og 4) hefði ekki getað afstýrt þrátt fyrir tilraunir til þess. Öll fjögur skilyrðin þurfa að vera uppfyllt til að unnt sé að losna undan bótaábyrgðinni. Bótaábyrgð samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum nær heldur ekki til tjóns sem kann að hljótast í tengslum við aðrar lagaskyldur sem greiðsluþjónustuveitandi er undirorpinn. Sem dæmi má nefna mögulegar þvingandi aðgerðir á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Um VI. kafla.

    Kaflinn felur í sér innleiðingu á IV. bálki 4.–5. kafla tilskipunarinnar, að frátaldri 102. gr., og tekur í víðasta skilningi til öryggis gagna og hvað gert skuli til að tryggja að neytendur og lögaðilar treysti því að greiðslufyrirmæli séu meðhöndluð á öruggan hátt og draga úr líkum á svikum og tæknilegum bilunum. Allur kaflinn, fyrir utan 98. gr., er nýmæli og undirstrikar það markmið með innleiðingu tilskipunarinnar að auka upplýsingaöryggi og neytendavernd.

Um 98. gr.

    Í greininni er lagt til að 94. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Í 1. mgr. er greiðsluþjónustuveitendum og rekstraraðilum greiðslukerfa heimiluð vinnsla persónuupplýsinga þegar það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir, rannsaka og greina greiðslusvik. Um vinnslu persónuupplýsinga fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, en með þeim voru innleidd í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga.
    2. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 99. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 1. og 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. tilskipunarinnar. Kveðið er á um að greiðsluþjónustuveitandi skuli koma á eftirlitskerfi til að stýra rekstrar- og öryggisáhættu og að krafa sé gerð um að fullnægjandi öryggisráðstafanir séu fyrir hendi vegna persónubundinna öryggisskilríkja. Til að stuðla að trausti og stöðugleika í fjármálakerfinu er nauðsynlegt að fastsetja reglur um öryggi í tengslum við greiðsluþjónustu svo að neytendur og lögaðilar geti treyst því að greiðslufyrirmæli sem þeir hafi gefið séu meðhöndluð á öruggan hátt og þar með dregið úr líkum á svikum, eyðileggingu og tæknilegum bilunum þegar greiðsluþjónustuveitandi framkvæmir greiðsluna.
    Í 1. mgr. eru tilgreind þrjú atriði í a–c-lið sem greiðsluþjónustuveitandi verður að koma á og viðhalda. Ákveðið samhengi er á milli þessara skilyrða og þeirra sem gerð eru til greiðslustofnana, sbr. 1. mgr. 13. gr. Hér er því í fyrsta lagi lagt til að gerðar verði kröfur til allra greiðsluþjónustuveitenda, þ.m.t. viðskiptabanka. Óháð rekstrarformi og stærð skal greiðsluþjónustuveitandi koma á og viðhalda sérstökum áhættumiðuðum ferlum og eftirlitskerfi til að stýra rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem hann veitir. Ferlar skulu innihalda viðeigandi stýringar og mótvægisaðgerðir til að halda áhættu innan ásættanlegra marka. Til að unnt sé að viðhalda ferlum og eftirlitskerfi sem komið hefur verið á þarf að rýna og uppfæra í samræmi við breytingar og kröfur sem kunna að hafa verið gerðar.
    Í öðru lagi er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi verði að koma á og viðhalda skilvirkri atvikastjórnun, sem meðal annars hefur að geyma greiningu og flokkun alvarlegra rekstrar- og öryggisfrávika. Hér getur verið um að ræða rekstrarrof, tæknilegt rof, eyðileggingu eða skemmdarverk unnin á öryggisaðgerðum sem getur haft rekstrar- eða fjárhagslegar afleiðingar fyrir notanda greiðsluþjónustunnar. Skráning atvika ætti að taka til allra þátta greiðsluþjónustunnar, t.d. innbrots í netbanka, svika eða eyðileggingar á greiðslukerfi eða kortakerfi sem leiðir til þess að greiðsla verður gölluð eða hún ekki framkvæmd. Þá ber að flokka atvikin og greina alvarleika þeirra og taka ákvörðun um hvernig skuli brugðist við þeim. Þessi aðferðafræði styður við kröfur skv. 100. gr.
    Í þriðja lagi er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli koma á og viðhalda fullnægjandi öryggisráðstöfunum til að vernda trúnað og heilleika persónubundinna öryggisskilríkja notenda greiðsluþjónustunnar í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr. Persónubundin öryggisskilríki eru skilgreind í 31. tölul. 3. gr. frumvarpsins sem persónubundnir þættir sem greiðsluþjónustuveitandinn afhendir notanda greiðsluþjónustu í tilgangi sannvottunar. Sannvottun er aðferð sem gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að sannreyna að greiðslufyrirmæli hafi komið frá notanda greiðsluþjónustu eða að tiltekinn greiðslumiðill hafi verið notaður, þ.m.t. notkun á persónubundnum öryggisskilríkjum notandans, sbr. 36. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Til að koma í veg fyrir að aðferð sannvottunar verði ekki misnotuð af þriðja aðila, t.d. að einhver þykist vera notandi greiðsluþjónustunnar, skiptir sköpum að trúnaður og áreiðanleiki sé um ferlið og að ekki verði misbrestur þar á. Af þeim sökum verður greiðsluþjónustuveitandi að innleiða viðhlítandi eftirlitsaðgerðir og öryggisráðstafanir sem skulu tryggja öryggi persónubundinna öryggisskilríkja notanda greiðsluþjónustunnar. Eftirlits- og öryggisráðstafanirnar þurfa því að vera endurskoðaðar reglulega og uppfærðar í samræmi við endurskoðað áhættumat.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli a.m.k. árlega veita Fjármálaeftirlitinu uppfært og ítarlegt mat á rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem hann veitir og lýsingu á þeim varúðarráðstöfunum og eftirlitsaðgerðum sem hann hefur innleitt til að bregðast við áhættunni. Hér er því ítrekuð krafan skv. a-lið 1. mgr. um að greiðsluþjónustuveitandinn skuli reglulega gera áhættumat sem taki mið af þeirri tegund greiðsluþjónustu sem hann veitir og í framhaldinu innleiði hann viðeigandi eftirlitsaðgerðir og varúðarráðstafanir til að stýra áhættunni.
    3. mgr. þarfnast ekki skýringa. Ákvæðið er nýmæli.

Um 100. gr.

    Í greininni er lagt til að 1., 2. og 6. mgr. 96. gr. tilskipunarinnar verði innleiddar. Í 1. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um alvarlegt rekstrar- eða öryggisfrávik. Það getur verið rekstrarrof, tæknilegt rof, eyðilegging eða skemmdarverk unnin á öryggisbúnaði sem getur haft rekstrar- eða fjárhagslegar afleiðingar fyrir notanda greiðsluþjónustunnar. Líkt og kemur fram í skýringum við a-lið 1. mgr. 99. gr. frumvarpsins á skráning atvika að taka til allra þátta greiðsluþjónustunnar, t.d. innbrots í netbanka, svika eða eyðileggingar á greiðslukerfi eða kortakerfi sem leiðir til þess að greiðsla verður gölluð eða hún ekki framkvæmd. Þá ber að flokka atvikin og greina alvarleika þeirra og taka ákvörðun um hvernig skuli brugðist við þeim. Hvort atvik teljist alvarlegt rekstrar- eða öryggisfrávik veltur á mati á margs konar aðstæðum, svo sem hvort atvikið geti þróast í að verða stóráfall sem muni gangsetja viðbragðsáætlun greiðsluþjónustuveitandans vegna stóráfalla, hvort atvikið geti haft afleiðingar fyrir fjármálainnviði eða lögreglurannsókn, hvort trúnaður gagna sé í hættu o.s.frv.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli tafarlaust upplýsa um rekstrar- eða öryggisfrávik og allar ráðstafanir sem gerðar hafi verið til að draga úr skaðlegum áhrifum þess á fjárhagslega hagsmuni notenda greiðsluþjónustunnar. Gölluð greiðsla eða greiðsla sem ekki var framkvæmd getur t.d. leitt til þess að launþegi fái ekki reglulega launagreiðslu. Það er því eðlilegt að honum sé tilkynnt um misbrestinn. Einnig er mikilvægt að notandi fái tækifæri til að grípa til þeirra ráðstafana sem hann getur sjálfur gripið til til að lágmarka líkur á tjóni í kjölfar atviks, svo sem með því að lækka úttektarheimildir o.fl.
    Í 3.–5. mgr. er lagt til það ferli sem fara á í gang eftir að Fjármálaeftirlitið hefur móttekið tilkynningu skv. 1. mgr. Fjármálaeftirlitið er skuldbundið miðað við mikilvægi atviksins að veita Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni, Seðlabanka Evrópu og öðrum viðkomandi stjórnvöldum upplýsingar um atvikið. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin og Seðlabanki Evrópu skulu, í samstarfi við Fjármálaeftirlitið, meta mikilvægi atviksins fyrir önnur viðkomandi stjórnvöld innan Evrópska efnahagssvæðisins og tilkynna þeim til samræmis við það. Seðlabanki Evrópu skal jafnframt tilkynna aðilum seðlabankakerfis Evrópu og seðlabönkum EFTA-ríkjanna um málefni sem varða greiðslukerfi. Atvik getur átt sér stað í öðru aðildarríki en á Íslandi, sem er tilkynnt til lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríkinu. Eigi að síður getur Fjármálaeftirlitinu borist tilkynning um rekstrar- eða öryggisfrávikið sem hagsmunaaðila og þá ber því að meta möguleg áhrif á íslenska fjármálakerfið og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda öryggi þess. Um er að ræða innleiðingu á 2. mgr. 96. gr. tilskipunarinnar líkt og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.
    Í 6. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli a.m.k. árlega veita Fjármálaeftirlitinu tölfræðiupplýsingar um svik í tengslum við þá greiðslumiðla sem greiðsluþjónustuveitandinn meðhöndlar. Upplýsingarnar geta meðal annars lotið að greiðslufjölda, heildarfjárhæð greiðslna, uppitíma kerfa og misnotkun greiðslna með greiðslukortum og í gegnum netbanka. Tölfræðiupplýsingarnar veita Fjármálaeftirlitinu yfirsýn yfir stöðu öryggismála vegna greiðslna og rekstraröryggis þeirra auk þess sem það getur séð hvernig hver og einn greiðsluþjónustuveitandi stendur sig að þessu leyti í samanburði við aðra greiðsluþjónustuveitendur. Fjármálaeftirlitinu ber jafnframt að taka saman slík gögn fyrir Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og Seðlabanka Evrópu.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um 101. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 1.og 2. mgr. og 4. og 5. mgr. 97. gr. tilskipunarinnar. Í a–c-lið 1. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar greiðsluþjónustuveitandi skal krefjast sterkrar sannvottunar, þ.e. þegar stuðst er við rafræna leið til að framkvæma greiðslu sem getur haft í för með sér hættu á greiðslusvikum eða annars konar misnotkun. Oft er talað um tveggja þátta auðkenningu. Öryggi rafrænna greiðslna er mikilvægt til að tryggja vernd notenda og þróun trausts umhverfis fyrir rafræna verslun. Markmiðið er því að efla öryggisráðstafanir í tilviki rafrænna greiðslna, sbr. 95. lið formálsorða tilskipunarinnar. Án sterkrar sannvottunar væri hægt að framkvæma greiðslu með greiðslukorti með því að styðjast einfaldlega við upplýsingar sem eru á greiðslukortinu sjálfu. Með sterkri sannvottun væri hins vegar t.d. krafist samþykkis með SMS-skilaboðum. Það er því augljóslega erfiðara að misnota greiðslukort þegar krafist er sterkrar sannvottunar.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi skuli krefjast sterkrar sannvottunar sem felur í sér þætti sem tengja greiðsluna með virkum hætti við tiltekna fjárhæð og tiltekinn viðtakanda greiðslu í tilviki rafrænna fjargreiðslna, í þeim tilvikum þegar greiðandi virkjar rafræna greiðslu eins og um getur í b-lið 1. mgr. Aukin sviksemisáhætta er fyrir hendi í þeim tilvikum þegar greiðandi og viðtakandi greiðslu eru ekki á sama stað. Af þeim sökum eru hér lagðar til auknar kröfur í þeim tilvikum. Greiðsla skal tengd við tiltekna fjárhæð og tiltekinn viðtakanda. Hugtakið fjargreiðsla er skilgreint í 4. tölul. 3. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er lagt til að ákvæði 2. mgr. og c-liðar. 1. mgr. 99. gr. skuli einnig eiga við þegar greiðsla er sett af stað fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda. Að sama skapi skuli ákvæði 1. mgr. og c-liðar 1. mgr. 99. gr. eiga við þegar óskað er eftir upplýsingum fyrir milligöngu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda. Reikningsupplýsingaþjónusta á sér stað með þeim hætti að reikningsupplýsingaþjónustuveitandinn fær upplýsingar um greiðslureikning notandans frá hans greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu. Forsendur þess er að persónubundin öryggisskilríki notandans hafi verið notuð. Til að tryggja að óviðkomandi fái ekki aðgang að upplýsingum af greiðslureikningi notandans er krafist sterkrar sannvottunar þegar greiðsluvirkjandi sækir upplýsingar af greiðslureikningi. Þar að auki er mikilvægt að gera kröfu um öryggisráðstafanir til að vernda trúnað og heilleika persónubundinna öryggisskilríkja notanda greiðsluþjónustunnar. Þegar reikningsupplýsingaþjónustuveitandinn reiðir sig á persónubundin öryggisskilríki sem eru gefin út af greiðsluþjónustuveitanda notanda sem veitir reikningsþjónustu er sérstaklega mikilvægt að reikningsupplýsingaþjónustuveitandinn beiti fullnægjandi öryggisráðstöfunum til að tryggja heilleika og trúnað persónubundnu öryggisskilríkjanna, þ.m.t. tryggja að allir þrír þættir í persónubundnu öryggisskilríkjunum séu ekki aðgengilegir öðrum en notanda sjálfum.
    Í 4. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skuli gera greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda kleift að treysta á sannvottunarferlið sem hann veitir notanda greiðsluþjónustu í samræmi við 1. mgr. og c-lið 1. mgr. 99. gr. auk 2. mgr. 99. gr. ef greiðsluvirkjandi á í hlut. Persónubundin öryggisskilríki sem notuð eru til sterkrar sannvottunar á notanda greiðsluþjónustunnar eða af greiðsluvirkjanda eða reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eru jafnan gefin út af greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu. Ekki er gerð krafa um að greiðsluvirkjandi eða reikningsupplýsingaþjónustuveitandi geri samning við greiðsluþjónustuveitanda notandans sem veitir reikningsþjónustu. Hins vegar verður sá síðarnefndi að gera það mögulegt fyrir notanda greiðsluþjónustu sinnar að hann geti nýtt sér þjónustu greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda með því að hanna sannvottunarferlið á þann hátt að það sé mögulegt fyrir greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda að nýta sér persónubundin öryggisskilríki sem notanda greiðsluþjónustunnar hefur verið úthlutað til að setja af stað greiðslu fyrir hönd notanda greiðsluþjónustunnar eða til að fá aðgengi að upplýsingum á greiðslureikningi hans.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um VII. kafla.

    Lagt er til að í VII. kafla verði ákvæði um eftirlit, réttarúrræði og viðurlög. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með framkvæmdinni, sbr. skýringar við 102. gr. Í 103. gr. er lagt til það nýmæli að á greiðsluþjónustuveitanda verði lögð sú skylda að hann hafi sérstaka málsmeðferð til að greiða úr kvörtunum notenda greiðsluþjónustu um réttindi og skyldur sem leiða af IV.–VII. kafla. Sama málsmeðferð skal viðhöfð vegna kvartana frá öllum notendum greiðsluþjónustunnar óháð því í hvaða aðildarríki þeir þáðu þjónustuna. Ágreiningi sem varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni verður notendum greiðsluþjónustu heimilt að skjóta til úrskurðaraðila á sviði neytendamála í samræmi við samnefnd lög nr. 81/2019, sbr. 104. gr. frumvarpsins Málarekstur fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hefur reynst ódýr og skjótvirk leið fyrir viðskiptamenn fjármálafyrirtækja til að fá úr einkaréttarlegum kröfum skorið.
    Um viðurlög við brotum gegn ákvæðum frumvarpsins er kveðið á um í 106. gr. og 110. gr. Ákvæði 103. gr. tilskipunarinnar kveður á um að aðildarríki skuli mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum gegn innlendri löggjöf til lögleiðingar á tilskipuninni og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þær komi til framkvæmda. Slík viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi. Aðildarríki skuli tryggja að brot gegn þeim lögum, reglugerðum og reglum, sem innleiða ákvæði tilskipunarinnar, sæti viðeigandi stjórnsýsluviðurlögum sem séu í senn áhrifarík, viðeigandi og hafi fullnægjandi varnaðaráhrif.

Um 102. gr.

    Í greininni er lagt er til að 100. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með framkvæmd laga um greiðsluþjónustu líkt og verið hefur. Meginefni tilskipunarinnar snýr að skyldum greiðsluþjónustuveitenda gagnvart notendum greiðsluþjónustu og leggur þeim meðal annars skyldur á herðar að því er varðar ítarlega samningsskilmála. Skipan mála hvað varðar eftirlit með gildandi lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, hefur ekki sætt gagnrýni og því má ljóst vera að það samræmist vel þeim venjum sem eru um eftirlit á fjármálamarkaði að fela Fjármálaeftirlitinu í 1. mgr. alfarið eftirlit með lögum um greiðsluþjónustu. Það athugast að Persónuvernd hefur eftirlit með ákvæðum laga sem snerta vinnslu og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 98. gr. frumvarpsins. Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 74. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Líkt og greinir í 4. gr. og 22. gr., 30. gr. og 31. gr. er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið veiti greiðslustofnunum skv. II. kafla starfsleyfi og hafi eftirlit með starfsemi þeirra. Í 2. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit sem lögbært yfirvald í heimaaðildarríki með starfsemi innlendra greiðslustofnana, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu hérlendis og erlendis. Ákvæði 2. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 74. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í 3. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hafi eftirlit með umboðsaðilum og útibúum erlendra greiðslustofnana hérlendis vegna IV.–VII. kafla. Þess má geta að lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa að sama skapi eftirlit með umboðsaðilum og útibúum innlendra greiðslustofnana í gistiaðildarríki hvað varðar efnisreglur sambærilegar og eru í IV.–VII. kafla. Að endingu er í 3. mgr. lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með veitingu greiðsluþjónustu hérlendis í útibúum og fyrir milligöngu umboðsaðila stofnunar, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, skv. 29. gr. vegna stofnana frá þriðja ríki. Ákvæði 3. mgr. nýmæli.
    Í 4. mgr. er lagt til að um eftirlit Fjármálaeftirlitsins gildi lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Um er að ræða innleiðingu á 1.–4. mgr. 100. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið á sér nokkra samsvörun í 74. og 75. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 103. gr.

    Í greininni er lagt til að 101. gr. tilskipunarinnar verði innleidd, sem varðar meðhöndlun kvartana notenda greiðsluþjónustu. Í 1. mgr. er lagt til að á greiðsluþjónustuveitanda verði lögð sú skylda að hann hafi sérstaka málsmeðferð til að greiða úr kvörtunum notenda greiðsluþjónustu um réttindi og skyldur sem leiða af IV.–VII. kafla. Sama málsmeðferð skal viðhöfð vegna kvartana frá öllum notendum greiðsluþjónustunnar óháð því í hvaða aðildarríki þeir þáðu þjónustuna.
    Í 2. mgr. er lagt til að Seðlabanki Íslands setji frekari reglur. Til eru reglur Seðlabanka Íslands um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja, nr. 1001/2018. Þær reglur taka á þeim þáttum sem 1.–4. mgr. 101. gr. tilskipunarinnar kveður á um nema skv. 2. mgr. 101. gr. skal svar greiðsluþjónustuveitanda við kvörtun notanda greiðsluþjónustunnar berast honum innan 15 daga frá viðtöku kvörtunarinnar og frestur til að veita lokasvar skal aldrei vera lengri en 35 virkir dagar. Í 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. gildandi reglna er svarfrestur kvörtunar innan við fjórar vikur. Reynist ekki unnt að svara kvörtun innan framangreindra tímamarka skal sá er kom kvörtun á framfæri upplýstur um töfina, ástæður hennar og hvenær svars sé að vænta. Er gert ráð fyrir að reglur Seðlabankans verði uppfærðar til samræmis.
    Ákvæðið er nýmæli.

Um 104. gr.

    Í greininni er lagt er til að 99. gr. og 102. gr. tilskipunarinnar verði innleiddar. Í 1. mgr. 99. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að tekin verði upp málsmeðferð sem geri notendum greiðsluþjónustu og öðrum hagsmunaaðilum, þ.m.t. neytendasamtökum, kleift að leggja fram kvartanir hjá lögbærum yfirvöldum vegna meintra brota greiðsluþjónustuveitenda á ákvæðum tilskipunarinnar. Kvörtunum er hægt að beina til Fjármálaeftirlitsins í samræmi við stjórnsýslulög. Fjármálaeftirlitið eða aðrir opinberir eftirlitsaðilar, svo sem Neytendastofa, skera ekki úr um einkaréttarleg álitaefni eða kröfur um skaðabætur. Eftirlit með framkvæmd laganna skv. 102. gr. er allsherjarréttarlegs eðlis. Því er gert ráð fyrir að notendur greiðsluþjónustu geti skotið ágreiningi vegna réttinda og skyldna sem leiða af IV.–VII. kafla til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála, nr. 81/2019. Jafnframt er lagt til að notendur greiðsluþjónustu geti skotið ágreiningi sínum gagnvart greiðsluþjónustuveitendum til óháðs úrskurðaraðila samkvæmt sömu lögum. Rétt þykir að vekja sérstaklega athygli á 1. mgr. 6. gr. þeirra laga, en samkvæmt henni ber greiðsluþjónustuveitendum að veita notendum greiðsluþjónustu upplýsingar um úrskurðaraðila sem notendur geta leitað til vegna ágreinings greiðsluþjónustuveitanda og notanda.
    Notendur greiðsluþjónustu geta jafnframt borið ágreining undir dómstóla. Beini notandi greiðsluþjónustu formlegri kvörtun til Fjármálaeftirlitsins verður honum leiðbeint um hvert hann skuli beina kvörtuninni.
    Ákvæði 2. mgr. er innleiðing á 2. mgr. 102. gr. tilskipunarinnar.
    Ákvæði 1. mgr. á sér nokkra hliðstæðu í 76. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, en ákvæði 2. mgr. er nýmæli.

Um 105. gr.

    Í greininni er lagt til að innleiða 2. málsl. 2. mgr. og 3.–5. mgr. 106. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið er nýmæli. Í 1. mgr. 106. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um skyldu framkvæmdastjórnar Evrópu til að útbúa notendavænan rafrænan bækling sem setur á skýran og auðskiljanlegan hátt fram réttindi neytenda samkvæmt tilskipuninni og tengdri löggjöf Evrópusambandsins.
    Í 1. mgr. er því lagt til að Fjármálaeftirlitið skuli gera bæklinginn tiltækan á aðgengilegan hátt á vef Seðlabanka Íslands, sem er jafnframt vefsíða Fjármálaeftirlitsins. Ákvæðið er innleiðing á 2. málsl. 2. mgr. 106. gr. tilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að greiðsluþjónustuveitendur skuli sjá til þess að bæklingur framkvæmdastjórnarinnar verði auðsóttur á vefjum þeirra, séu þeir til, og í prentaðri útgáfu í útibúum þeirra, hjá umboðsaðilum og hjá einingum sem þeir útvista starfsemi sinni til. Fyrir þessa upplýsingagjöf mega greiðsluþjónustuveitendur ekki innheimta gjald af viðskiptavinum sínum. Ákvæðið er innleiðing á 3. og 4. mgr. 106. gr. tilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. er lagt til að bæði Fjármálaeftirlitið og greiðsluþjónustuveitendur skuli jafnframt gera upplýsingarnar tiltækar og aðgengilegar fyrir fatlaða einstaklinga, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Ákvæðið er innleiðing á 5. mgr. 106. gr. tilskipunarinnar.

Um 106. gr.

    Með 1. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði gert heimilt að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota samkvæmt reglum frumvarpsins. Lagt er til að eftirlitinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga og lögaðila sem brjóta gegn þeim ákvæðum frumvarpsins sem koma fram í viðkomandi töluliðum.
    Um er að ræða innleiðingu á 1. mgr. 103. gr. tilskipunarinnar. 1. og 2. mgr. greinarinnar eru nær samhljóða 1. og 2. mgr. 77. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011. Ákvæði 3. og 4. mgr. eru nýmæli að fyrirmynd sambærilegra ákvæða í annarri löggjöf á sviði fjármálaþjónustu.

Um 107. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að ljúka með sátt málum vegna brota á ákvæðum frumvarpsins eða ákvörðunum eftirlitsins á grundvelli þeirra innan ákveðins ramma. Til að unnt sé að ljúka máli með sátt verður samþykki málsaðila að liggja fyrir. Sættir eru því ekki einhliða ákvarðanir stjórnvalds. Því er lagt til að kveðið verði skýrt á um að sátt verði bindandi fyrir aðila þegar hann hefur samþykkt hana og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitinu er ekki heimilt að ljúka máli með sátt ef um er að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Ákvæðið er samhljóða 2. og 3. málsl. 3. mgr. 77. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 108. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um rétt manns til að neita að tjá sig um viðkomandi mál eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Þá er kveðið á um að stjórnsýsluviðurlögum verði beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Ákvæðið er nær samhljóða 4. mgr. 77. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 109. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um frest Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssekt. Ákvæðið er samhljóða 5. og 6. mgr. 77. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 110. gr.

    Ákvæðið er innleiðing á 1. mgr. 103. gr. tilskipunarinnar. Ákvæðið er samhljóða 1.–5. mgr. og 12. mgr. 78. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, að fyrirmynd sambærilegra ákvæða í annarri löggjöf á sviði fjármálaþjónustu.

Um 111. gr.

    Í greininni er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið hafi rétt til að vísa málum til saksóknar. Ákvæðið er samhljóða 6.–11. mgr. 78. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Um 112. gr.

    Í greininni er lagt til að 2. mgr. 103. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið fjallar um opinbera birtingu stjórnsýsluviðurlaga. Birtingu niðurstaðna um beitingu viðurlaga vegna brota er ætlað að tryggja bæði almenn og sérstök varnaðaráhrif þeirra og stuðla að bættri framkvæmd á fjármálamarkaði. Þá er birting mikilvæg leið til að upplýsa markaðsaðila um það hvaða háttsemi er andstæð lögum.
    Samkvæmt 9. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta opinberlega niðurstöður í athugunum og málum er varða lögin. Birting samkvæmt ákvæðinu er háð því skilyrði að málið varði fjármálamarkaðinn, ógni ekki fjármálastöðugleika og valdi aðila ekki tjóni umfram það sem eðlilegt er. Í þessari grein er gengið lengra en í 9. gr. a því að samkvæmt ákvæðinu er Fjármálaeftirlitinu skylt að birta opinberlega niðurstöður sínar um beitingu viðurlaga vegna brota á ákvæðum frumvarpsins. Niðurstaða sem er birt skal að lágmarki innihalda upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fresta um tiltekinn tíma birtingu á nafni aðila sem tilgreindur er í ákvörðuninni eða birta niðurstöðuna nafnlaust ef nafnabirting samræmist ekki meðalhófsreglunni, birting geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn. Þá getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að birta ekki niðurstöðu ef birting er talin stofna stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða hún talin geta skaðað yfirstandandi rannsókn. Með öðrum orðum geta sjónarmið er varða hlutaðeigandi aðila ekki komið í veg fyrir að niðurstaða verði birt. Mat á birtingu samkvæmt framangreindu fer fram í hverju máli fyrir sig. Ákvæðið er nýmæli.

Um VIII. kafla.

    Í kaflanum er kveðið á um gildistöku og breytingar á öðrum lögum. Að auki er í kaflanum grein um lagaskil, þ.e. 116. gr., sem kveður á um hvað greiðslustofnanir sem hafa starfsleyfi þurfi að gera til að viðhalda því og ákvæði sem heimilar ráðherra og Seðlabanka Íslands að setja reglugerðir eða reglur sem innleiða í íslenskan rétt þær reglugerðir Evrópusambandsins sem settar eru með lagastoð í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366, þ.e. 114. gr. Í 2. mgr. 114. gr. er enn fremur lögð skylda á Seðlabanka Íslands að innleiða í íslenskan rétt afleidda gerð tilskipunarinnar sem er framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB)2018/389 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um sterka sannvottun viðskiptavina og örugga opna staðla vegna samskipta. Sú reglugerð byggist á tæknistaðli frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (EBA).

Um 113. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 114. gr.

    Í greininni er lagt til að ráðherra og Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja reglugerðir eða reglur sem innleiða í íslenskan rétt þær reglugerðir Evrópusambandsins sem settar eru með lagastoð í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366.
    Í 1. mgr. er að finna reglugerðarheimild fyrir ráðherra fyrir afleiddum gerðum tilskipunarinnar. Þessar gerðir eru framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/411 um tæknilegar kröfur um þróun, rekstur og viðhald á rafrænu miðlægu skránni skv. 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/410 um nákvæm efnisatriði og form upplýsinganna sem skal tilkynna inn í miðlæga skrá skv. 3. mgr. 14. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. og 3. mgr. er lagt til að Seðlabanka Íslands verði annars vegar gert skylt og hins vegar heimilt að setja reglur sem fela í sér innleiðingu í íslenskan rétt afleiddar gerðir tilskipunarinnar. Þetta eru annars vegar framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/389 sem kveður á um tæknistaðla fyrir sterka sannvottun og örugga sameiginlega opna samskiptastaðla. Sú reglugerð byggist á tæknistaðli frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni (EBA). Hins vegar er það framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1108 um viðmiðanir sem skal beita við ákvörðun þegar rétt þykir að tilnefna miðlægan tengilið og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar

Um 115. gr

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2021. Í ljósi þess að aðilar sem undir lögin falla, þ.e. einkum greiðsluþjónustuveitendur, þurfa að innleiða sterka sannvottun og greiðsluþjónustuveitendur sem veita reikningsþjónustu þurfa jafnframt að setja á laggirnar netskilafleti fyrir greiðsluvirkjendur, reikningsupplýsingaþjónustuveitendur ásamt útgefendum kortatengdra greiðslumiðla til aðgengis að greiðslureikningum viðskiptavina sinna, þykir rétt að fresta gildistöku fram á mitt sumar 2021.

Um 116. gr.

    Í greininni er lagt er til að 109. gr. tilskipunarinnar verði innleidd. Ákvæðið fjallar um hvaða aðgerða sé þörf til að greiðslustofnanir með starfsleyfi á grundvelli gildandi laga um greiðsluþjónustu geti haldið áfram starfsemi eftir gildistöku laga þessara. Í frumvarpi þessu er verið að leggja ýmsar frekari kröfur á greiðslustofnanir frá því sem er í gildandi lögum, svo sem vera með eftirlitskerfi rekstrar- og öryggisáhættu, vera með sterka sannvottun o.fl.
    Ákvæði 1.–3. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Hvað varðar 4. mgr. skal áréttað að Fjármálaeftirlitið getur, eftir atvikum, með vísan til II. kafla og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi óskað eftir frekari gögnum eða skýringum.
    Ákvæði 5. mgr. nær að samræma aðstöðu þeirra sem eru að hefja veitingu þjónustunnar og þeirra sem munu halda henni áfram. Hér má ætla nærri að flest fjarskiptafyrirtæki á íslenskum markaði muni falla undir og þurfa að hefja samskipti við Fjármálaeftirlitið.
    Ákvæði 6. mgr. kveður á um að rafeyrisfyrirtæki þurfi að leggja fram viðeigandi upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins fyrir 1. september 2021 svo það geti metið hvort það uppfylli kröfur III. kafla laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013. Ef þau skilyrði eru ekki uppfyllt ber Fjármálaeftirlitinu að greina rafeyrisfyrirtæki frá hvort það ætli að afturkalla starfsleyfið eða til hvaða ráðstafana rafeyrisfyrirtæki verði að grípa svo það haldi starfsleyfi sínu.
    Ákvæði 7. mgr. þarfnast ekki skýringar.
    Ákvæði 8. mgr. kveður á um að ef rafeyrisfyrirtæki uppfyllir ekki kröfur III. kafla laga um útgáfu og meðferð rafeyris fyrir 1. desember 2021 eftir að hafa verið veittur tími til að grípa til ráðstafana skuli Fjármálaeftirlitið banna því að veita þjónustu vegna útgáfu og meðferð rafeyris.

Um 117. gr.

    Um a-lið 1. tölul.
    Lögð er til breyting á tilvísun í númer laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, í ljósi heildarendurskoðunar laganna.
    Um b-lið 1. tölul.
    Lagt er til að það verði skilyrði að þau rafeyrisfyrirtæki sem sækja um og öðlast starfsleyfi hér á landi skuli starfa sem lögaðilar með höfuðstöðvar sínar hér á landi, hvort heldur um ræðir fullt eða takmarkað starfsleyfi, og framkvæma a.m.k. hluta af rafeyrisþjónustu sinni hérlendis. Hér er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII (E-Money Directive II eða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim), sbr. 1. mgr. 11. gr. PSD2 (Payment Services Directive II eða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366). Enn fremur er gert ráð fyrir að rafeyrisfyrirtæki skuli hafa höfuðstöðvar sínar í því ríki þar sem það er skráð og framkvæma a.m.k. hluta af þjónustu sinni í því landi. Hvort höfuðstöðvar teljast hérlendis veltur á því hvort raunveruleg stjórnun höfuðstöðva fari fram hér á landi, svo sem hvort ákvörðunartaka fari fram í höfuðstöðvum, hvort aðalfundur fari fram hérlendis, hvort einhverjir viðskiptavinir séu hérlendir. Fjármálaeftirlitið á að hafa eftirlit með því að ekki eigi sér stað misneyting á staðfesturéttinum og getur synjað um starfsleyfi ef eina ástæðan fyrir stofnsetningu rafeyrisfyrirtækis hér á landi er til að sniðganga löggjöf í því ríki þar sem aðalstarfsemi þess fer fram.
    Um c-lið 1. tölul.
    Lagt er til að lagfæra tilvísun til laga um greiðsluþjónustu.
    Um d-lið 1. tölul.
    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið skuli halda opinbera skrá yfir rafeyrisfyrirtæki, umboðsaðila og útibú þeirra, svo og hvers konar þjónustu sem þau veita. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 14. gr. og 1.–3. mgr. 15. gr. PSD2. Auk þess skal tilgreina þá einstaklinga og lögaðila sem njóta undanþágu í samræmi við 16. gr. (rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi á Íslandi) og, ef við á, umboðsaðila þeirra. Almenningur skal hafa aðgang að skránni, en í því felst að skrána skal birta á vef Seðlabanka Íslands og hana skal uppfæra reglulega. Erlend rafeyrisfyrirtæki sem hyggjast veita þjónustu hér á landi með stofnun útibús skulu tilkynna það fyrir fram til lögbærs eftirlitsaðila í heimaríki sínu. Það stendur eftirlitsaðilanum í heimaríki hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtækis nær að uppfæra upplýsingar um umboðsmenn og útibú erlendis. Yfirlit yfir erlenda aðila sem hafa heimild til að veita þjónustu á Íslandi er að finna á vef Seðlabanka Íslands á eftirfarandi tengli: www.fme.is/eftirlit/erlendir-adilar.
    Fjármálaeftirlitinu ber einnig að tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnunni um efni skrár sinnar um rafeyrisfyrirtæki. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin þróar, starfrækir og viðheldur rafrænni miðlægri skrá um skráningu rafeyrisfyrirtækja í hverju aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu sem er aðgengileg öllum. Æskilegt er að Fjármálaeftirlitið birti á vefsíðu sinni tengil á rafræna skrá Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar yfir rafeyrisfyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu, umboðsmenn þeirra og útibú á erlendri grundu þannig að upplýsingarnar séu aðgengilegar almenningi á Íslandi.
    Um e-lið 1. tölul.
    Lagt er til að umsókn um starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki skuli vera skrifleg og upplýsingar sem koma fram í henni skuli vera ítarlegar. Markmiðið er að umsækjendur geri fyrir fram grein fyrir þeirri starfsemi sem fyrirhugað er að sinna, hvernig henni verði sinnt og sýni fram á að þeir séu hæfir til að sinna henni.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er gerð krafa um staðfestingu á að 9. gr. laganna sé uppfyllt. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. p- og q-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. a-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. b-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 4. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. l-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 5. tölul. 1. mgr. er m að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. a- og l-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 6. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. c-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 7. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á m-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. n-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 8. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. n-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 9. tölul. 1. mgr. er óskað eftir upplýsingum sem greina frá hvernig varðveislu fjármuna í eigu handhafa rafeyris verði háttað til að uppfylla 25. gr. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. d-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 10. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. f-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 11. tölul. 1. mgr. er óskað eftir lýsingu á innra skipulagi umsækjanda, þ.m.t. innri eftirlitsferlum, aðferðum við stjórnun, áhættustýringu og reikningsskilum, sem sýnir að stjórnarhættir, eftirlitskerfi og verkferlar séu viðeigandi miðað við umfang starfseminnar og séu traustir og fullnægjandi líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. laganna. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. e-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 12. tölul. 1. mgr. er umsækjandi, sem mun meðhöndla fjármuni, beðinn um að lýsa innra eftirlitskerfi sem komið verður á fót til að farið sé að kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. k-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 13. tölul. 1. mgr. er óskað eftir að umsækjandi lýsi verklagi til að uppfylla 40. gr. laganna. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. g-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 14. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. h-lið. 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 15. tölul. 1. mgr. er kallað eftir lýsingu á meginreglum og skilgreiningum sem umsækjandi beitir við söfnun á tölfræðilegum gögnum um árangur, færslur og svik. Um getur verið að ræða upplýsingar um færslufjölda, fjárhæð færslna, fjöldi sviksamlegra færslna. Markmið með söfnun upplýsinganna er m.a. að veita Fjármálaeftirlitinu þær að beiðni þess til að þær nýtist við almennt eftirlit. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. i-lið 1. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 16. tölul. 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. j-lið 1. undirgreinar og 3. undirgreinar 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 17. tölul. 1. mgr. er um að ræða á innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. o-lið 1. undirgrein 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Með 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu gert kleift að tryggja að nægjanlegar ráðstafanir verði gerðar til að vernda hagsmuni handhafa rafeyris, sem geta hvort heldur verið lögaðilar eða einstaklingar. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. undirgrein 1. mgr. 5. gr. PSD2.
    Í 3. mgr. er Fjármálaeftirlitinu gefin heimild til að setja nánari reglur um þau atriði sem greina þarf frá í umsókn miðað við ákvæðin hér að framan og hvaða fylgigögn beri að afhenda svo að umsókn teljist fullnægjandi. Hér getur t.d. verið um að ræða vottorð úr fyrirtækjaskrá Skattsins um félagaform, samþykktir umsækjandans o.fl. sem er þegar tilgreint í núgildandi gátlista Fjármálaeftirlitsins vegna umsóknar um starfsleyfi sem rafeyrisfyrirtæki.
    Í 4. mgr. er lögð sú krafa á rafeyrisfyrirtæki að uppfæra tafarlaust allar breytingar sem verða kunna á upplýsingum til Fjármálaftirlitins. Hér er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 16. gr. PSD2.
    Um f-lið 1. tölul.

    Í 1. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að starfsleyfi skuli veitt ef umsækjandi uppfyllir í umsókn sinni og meðfylgjandi gögnum, skv. 18. gr., að mati Fjármálaeftirlitsins skilyrði 18. gr. og sýnir fram á að stjórnun hans sé skýr, traust, varfærin og undirsett fullnægjandi innra eftirliti. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um þessi atriði og er rétt að hafa til hliðsjónar ákvæði 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki eftir því sem við á. Með því er átt við að reglurnar skuli taka tillit til mismunandi tegunda greiðslustofnana en starfsemi þeirra er ólík, t.d. eftir því hvort um er að ræða reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu sem oftast er banki. Reglur Seðlabanka Íslands skulu auk þess taka mið af 18. gr. laganna og lúta að skýrleika stjórnskipulags, traustri og varfærinni stjórnun, skýrum verklagsreglum er lúta að áhættu sem starfsemin er eða kann að vera óvarin fyrir og fullnægjandi innri eftirlitskerfum. Með skýru stjórnskipulagi er varðar rekstur rafeyrisfyrirtækis er átt við að ábyrgð umsækjanda sé vel skilgreind, gagnsæ og samræmd. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. og 4. mgr. 11. gr. PSD2.
    Í 2. mgr. verði tekið fram að þær kröfur sem gerðar séu til umsækjanda um starfsleyfi skuli vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar greiðsluþjónustu sem fyrirhugað sé að veita og að umsækjandi verði að uppfylla þær á hverjum tíma með því að aðlaga skipulag, verklagsreglur og annað skv. 1. mgr. Einsýnt er að rekstur þróast að umfangi og starfsemi og innviðir hans verða að breytast að sama skapi. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. mgr. 11. gr. PSD2.

    Í 3. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leita ráðgjafar annarra viðeigandi opinberra yfirvalda við mat á umsókn um starfsleyfi. Ráðgjöf getur til að mynda varðað fyrirhugaða þátttöku umsækjanda í greiðslukerfi. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. mgr. 11. gr. PSD2.

    Í 4. mgr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris til aðskilnaðar frá annarri starfsemi sem rafeyrisfyrirtækið sinnir eða hyggst sinna ef sá hluti rekstrarins hefur áhrif á fjárhagslegan styrk rafeyrisfyrirtækisins eða torveldar eftirlit með því. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 5. mgr. 11. gr. PSD2.

    Í 5. og 6. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að synja beri um starfsleyfi ef Fjármálaeftirlitið metur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar rafeyrisfyrirtækis ef náin tengsl, í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, hindra eftirlit með starfsemi fyrirtækisins. Auk þess er lagt til að synja beri um starfsleyfi komi lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja lands eða vandkvæði við framkvæmd þeirra í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 6. mgr., 7. mgr. og 8. mgr. 11. gr. PSD2.
     Um g-lið 1. tölul.

    Hér er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 9. mgr. 11. gr., og innleiðingu á 12. gr. PSD2. Það er Fjármálaeftirlitsins að meta hvenær umsókn telst fullnægjandi og hvort skilyrðum laga þessara sé fullnægt.
     Um h-lið 1. tölul.
    Hér er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 13. gr. PSD2.
    Um i- og j-lið 1. tölul.
    Lagt er til að lagfæra tilvísanir til laga um greiðsluþjónustu.
    Um k-lið 1. tölul.
    Kveðið er á um að reikningsár rafeyrisfyrirtækis sé almanaksárið og að rafeyrisfyrirtæki skuli leggja fram aðskilin reikningsskil fyrir annars vegar þjónustu tengda útgáfu og meðferð rafeyris og hins vegar aðra starfsemi sem það annast skv. 1. mgr. 24. mgr. laganna. Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gildi að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda rafeyrisfyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins. Þá er Fjármálaeftirlitinu fengin heimild til að setja reglur um ársreikninga rafeyrisfyrirtækja. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 17. gr. PSD2.
    Um l-lið 1. tölul.
    Samkvæmt 1. mgr. hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðila, útibúa og útvistunaraðila. Fjármálaeftirlitinu eru gefnar heimildir til að afla upplýsinga, mæta á starfsstöð rafeyrisfyrirtækis, umboðsaðila eða útibús þess. Auk þess er Fjármálaeftirlitinu fengin heimild til að standa fyrir skoðun á starfsstöð útvistunaraðila. Eðli máls samkvæmt verður rafeyrisfyrirtæki að tryggja slíkt aðgengi í samningi við útvistunaraðila. Þá getur Fjármálaeftirlitið stöðvað eða afturkallað starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis. Til fyllingar a–d-liði er að lokum e-liður sem veitir Fjármálaeftirlitinu víðtækar heimildir til eftirlitsaðgerða. Í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er t.d. fjallað um leiðbeinandi tilmæli, athugasemdir og úrbætur. Heimilt er að bera ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins undir dómstóla. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 23. gr. PSD2.
    Um m-lið 1. tölul.
    Í 1. tölul. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaða veitingu á þjónustu og hvaða upplýsingar skuli koma fram í tilkynningunni. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 28. gr. PSD2.
    2. tölul. er innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. undirgrein 1. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína og sé hún jákvæð að samhliða skuli Fjármálaeftirlitið uppfæra upplýsingar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Þriggja mánaða fresturinn er frá því að eins mánaðar fresturinn skv. 1. mgr. byrjar að líða. Lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa einn mánuð til að yfirfara upplýsingarnar og gera athugasemdir. Að endingu hefur Fjármálaeftirlitið mánuð til að meta athugasemdir lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki og taka ákvörðun. Við endanlega ákvörðun skal Fjármálaeftirlitið taka mið af afstöðu lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríkinu. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. undirgrein 3. mgr. 28. gr. PSD2.
    Um n-lið 1. tölul.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki sem hyggst veita þjónustu í öðru aðildarríki með stofnun útibús skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það og veita því upplýsingar um í hverju fyrirhuguð þjónusta sé fólgin og hvaða aðildarríki eigi í hlut ásamt upplýsingum um innviði rafeyrisfyrirtækisins. Innan mánaðar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins. Eins mánaðar fresturinn byrjar að líða þegar rafeyrisfyrirtæki hefur veitt allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 28. gr. og 1. undirgreinar 2. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína og sé hún jákvæð að samhliða skuli Fjármálaeftirlitið uppfæra upplýsingar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Þriggja mánaða fresturinn er frá því að eins mánaðar fresturinn skv. 1. mgr. byrjar að líða. Lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa einn mánuð til að yfirfara upplýsingarnar og gera athugasemdir. Að endingu hefur Fjármálaeftirlitið mánuð til að meta athugasemdir lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki og taka ákvörðun. Við endanlega ákvörðun skal Fjármálaeftirlitið taka mið af afstöðu lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríkinu. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir sbr. 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. undirgrein 3. mgr. 28. gr. og 14. gr. PSD2.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst stofna útibú um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skuli Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um útibúið í skrá skv. 17. gr. laganna eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2.–4. undirgrein 2. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 4. mgr. er gerð grein fyrir því úrræði sem Fjármálaeftirlitinu stendur til boða telji það að lögbært yfirvald í öðru aðildarríki hafi ekki staðið við það samstarf sem gert er ráð fyrir í lögum þessum að sé á milli lögbærra yfirvalda vegna eftirlits með greiðslustofnunum sem neyta staðfesturéttar og nýta frelsi til að veita þjónustu. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur þá ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, án ástæðulausrar tafar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi að eigin frumkvæði í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 27. gr. PSD2.
    Í 5.–6. mgr. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem hún hefur starfsemi fyrir milligöngu útibúsins og um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar eru skv. 1. mgr. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII sbr. 3. undirgrein 2. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 7. mgr. er kveðið á um skyldu rafeyrisfyrirtækis til að sjá til þess að útibú þess tilkynni notendum þjónustu um það ef þjónustan er veitt fyrir milligöngu útibús. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1. mgr. 3. gr. EMDII sem breytir 3. undirgrein. 3. og 4. mgr. 28. gr. PSD2.
     Um o-lið 1. tölul.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki sem hyggst dreifa rafeyri í öðru aðildarríki fyrir milligöngu umboðsaðila skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það og veita því upplýsingar um í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin og hvaða aðildarríki eigi í hlut ásamt upplýsingum um innra eftirlitskerfi umboðsaðilans. Innan mánaðar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins. Eins mánaðar fresturinn byrjar að líða þegar rafeyrisfyrirtæki hefur veitt allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. Um er að ræða innleiðingu á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sbr. 4. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 28. gr. og 1. undirgrein 2. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skuli innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína og sé hún jákvæð skuli Fjármálaeftirlitið samhliða uppfæra upplýsingar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Þriggja mánaða fresturinn er frá því að eins mánaðar fresturinn skv. 1. mgr. byrjar að líða. Lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa einn mánuð til að yfirfara upplýsingarnar og gera athugasemdir. Að endingu hefur Fjármálaeftirlitið mánuð til að meta athugasemdir lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki og taka ákvörðun. Við endanlega ákvörðun skal Fjármálaeftirlitið taka mið af afstöðu lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríkinu. Um er að ræða innleiðingu á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sbr. 4. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. undirgrein 3. mgr. 28. gr. og 14. gr. PSD2.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst dreifa rafeyri um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að dreifing rafeyris fyrir milligöngu umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skuli Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um umboðsaðilann í skrá skv. 17. gr. laganna eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram. Um er að ræða innleiðingu á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sbr. 4. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2.–4. undirgrein 2. mgr. 28. gr. og 14. gr. PSD2.
    Í 4. mgr. er gerð grein fyrir því úrræði sem Fjármálaeftirlitinu stendur til boða telji það að lögbært yfirvald í öðru aðildarríki hafi ekki staðið við það samstarf sem gert er ráð fyrir í lögum þessum að sé á milli lögbærra yfirvalda vegna eftirlits með greiðslustofnunum sem neyta staðfesturéttar og nýta frelsi til að veita þjónustu. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur þá ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, án ástæðulausrar tafar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi að eigin frumkvæði í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 27. gr. PSD2.
    Í 5.–6. mgr. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem það hefur starfsemi fyrir milligöngu umboðsaðilans og um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar eru skv. 1. mgr.
Í 7. mgr. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki skuli ávallt tryggja að umboðsaðili upplýsi notendur þjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis. Um er að ræða innleiðingu á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar, sbr. 4. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 3. undirgrein 3. og 4. mgr. 28. gr. PSD2.
Í 8. mgr. er 4. mgr. 29. gr. tilskipunarinnar innleidd. Tilgangur með því að tilnefna miðlægan tengilið er að tryggja að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með erlendu rafeyrisfyrirtæki, sem dreifir rafeyri hérlendis fyrir milligöngu umboðsaðila, sé skilvirkt og nái tilgangi sínum. Miðlægur tengiliður er ábyrgur fyrir því að Fjármálaeftirlitinu berist þau gögn og upplýsingar sem það óskar eftir í tengslum við eftirlit sitt. Þess ber að geta að kröfur um að tilnefna miðlægan tengilið er einnig að finna í j-lið 56. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.
     Um p-lið 1. tölul.
    Í 1. mgr. er um að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. undirgrein 1. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hlutverk Fjármálaeftirlitsins í tilkynningarferli því sem fram fer í heimaaðildarríki rafeyrisfyrirtækis og að frá þeim tíma sé fyrirtæki skráð í sambærilega skrá og í 17. gr. laganna og í framhaldinu sé rafeyrisfyrirtæki heimilt að veita þjónustu á Íslandi án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. undirgrein 2. mgr. 28. gr. PSD2.
     Um q-lið 1. tölul.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki sem hafa staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sé heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum með stofnun útibús. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 28. gr. PSD2. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. mgr. 34 gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er fjallað um hlutverk Fjármálaeftirlitsins í tilkynningarferli því sem fram fer í heimaaðildarríki rafeyrisfyrirtækis og að frá þeim tíma að skrá sambærileg þeirri sem um getur í 17. gr. laganna hefur verið uppfærð af lögbæru yfirvaldi í heimaaðildarríki sé rafeyrisfyrirtæki heimilt að veita þjónustu á Íslandi með stofnun útibús. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. og 2. undirgrein 2. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að upplýsa lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki telji það að aukin hætta sé á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vegna veitingar þjónustu með stofnun útibús hér á landi. Ákveði lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi slíkrar tilkynningar er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita þjónustu hér á landi frá þeim tíma. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. undirgrein 2. mgr. 28. gr. PSD2.
    Í 4. mgr. er fjallað um úrræði Fjármálaeftirlitsins í því tilviki að lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki hafi ekki tekið tillit til athugasemda þess og rafeyrisfyrirtæki er veitt heimild til að stofna útibú hérlendis. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur þá ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, án ástæðulausrar tafar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi að eigin frumkvæði í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunarinnar eins og hún var aðlöguð við upptöku í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 27. gr. PSD2.
    Í 5. mgr. er kveðið á um skyldu útibús rafeyrisfyrirtækis til að tilkynna notendum þjónustu um það ef þjónusta er veitt fyrir milligöngu útibús. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 27. gr. PSD2.
    Í 6. mgr. er lagt til að ákvæði hlutafélagalaga varðandi útibú erlendra hlutafélaga eigi ekki við um útibú skv. 1. mgr.
     Um r-lið 1. tölul.
    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið verði veitt heimild til að veita fyrirtæki í þriðja ríki, sem gefur út rafeyri, að opna útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu innlends umboðsaðila hér á landi. Um veitingu slíks starfsleyfis, eftirlit, afturköllun o.fl. fer samkvæmt þessum lögum. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda starfsemi í heimaríki sínu hliðstæða þeirri sem það hyggst stunda hér á landi, að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu og að gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í því ríki. Til að útibú geti hafið starfsemi hér á landi skal heimaríki fyrirtækisins hafa undirritað samning við íslensk stjórnvöld, sem fer að öllu leyti að stöðlum skv. 26. gr. skattasamningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar um tekjur og fjármagn og tryggir skilvirk upplýsingaskipti um skattamál, þ.m.t. hvers konar marghliða samninga um skattamál, ef við á.
    Fjármálaeftirlitið skal innan sex mánaða frá því að fyrirtæki lagði fram fullnægjandi umsókn tilkynna um ákvörðun sína vegna umsóknar um að starfrækja útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis. Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og finna má í 29. gr. frumvarpsins í tilviki greiðslustofnunar.
     Um s-lið 1. tölul.
    Í 1. mgr. a-liðar (36. gr. a) er lagt til að á milli Fjármálaeftirlitsins og systurstofnana erlendis eigi sér stað samstarf og upplýsingaskipti vegna starfsemi rafeyrisfyrirtækja yfir landamæri sem hafa fengið starfsleyfi á grundvelli 15. gr. laganna. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 29. gr. PSD2.
    Í 2. mgr. a-liðar (36. gr. a) er kveðið á um hvernig Fjármálaeftirlitið skuli bregðast við þegar lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki hafa komist að þeirri niðurstöðu að rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu, sem veitir þjónustu í gistiaðildarrríki, fer ekki að lögum gistiaðildarríkis vegna veitingar þjónustunnar þar í landi. Á Fjármálaeftirlitinu hvílir sú skylda að bregðast við með því að greina ástandið og sinna upplýsingagjöf til lögbærs yfirvalds í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitið skal, eftir að hafa lagt mat á upplýsingarnar sem það fær samkvæmt þessari grein, án ótilhlýðlegrar tafar gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki fari að settum reglum. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. og 2. undirgrein 1. mgr. 30. gr. PSD2.
    Með mikilvægum upplýsingum er í 3. mgr. a-liðar (36. gr. a) einkum átt við upplýsingar um rekstur og starfsemi rafeyrisfyrirtækis, sem kunna að hafa áhrif á skilyrði starfsleyfisveitingar hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtækis eða traustleika og heilbrigði rekstrar þess. Á það skal jafnframt minnt að gert er ráð fyrir að lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gilda um eftirlit með rafeyrisfyrirtækjum en í IV. kafla þeirra laga er meðal annars fjallað um samskipti við önnur eftirlitsstjórnvöld. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 3. mgr. 29. gr. PSD2.
    Í 1.–3. mgr. b-liðar (36. gr. b) er fjallað um skyldur sem hvíla á Fjármálaeftirlitinu vegna umboðsaðila og útibúa erlendra rafeyrisfyrirtækja sem eru með starfsemi hér á landi og framfylgja ekki ákvæðum III. kafla laganna. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 30. gr. PSD2.
    Í 4. mgr. b-liðar (36. gr. b) greinir frá því úrræði sem Fjármálaeftirlitinu stendur til boða telji það að lögbært yfirvald í öðru aðildarríki hafi ekki staðið við það samstarf sem gert er ráð fyrir í lögum þessum að sé á milli lögbærra yfirvalda í aðildarríki rafeyrisfyrirtækis og gistiaðildarríki þess til að lögum þessum sé framfylgt og öðrum landslögum sem innleiða tilskipun þessa og til að bregðast við neyðarástandi með nauðsynlegum varúðarráðstöfunum. Á meðan skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, tekur þá ákvörðun skv. 3. mgr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010, sem innleidd var með 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017, án ástæðulausrar tafar. Evrópska bankaeftirlitsstofnunin eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, getur auk þess aðstoðað Fjármálaeftirlitið við að ná samkomulagi að eigin frumkvæði í samræmi við 2. undirgrein 1. mgr. 19. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið fresta ákvörðunum sínum þangað til slíkt samkomulag næst. Um er að ræða innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 27. gr. PSD2.
     Um t-lið 1. tölul.
    Í 1. mgr. er lagt til að rafeyrisfyrirtæki sem hyggst dreifa og innleysa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila skuli tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skuli fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans sem meðal annars skuli uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfæri án tafar ef verulegar breytingar verða á því frá því upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skuli einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir séu hæfir ef umboðsaðilinn er ekki rafeyrisfyrirtæki. Að auki skuli rafeyrisfyrirtækið veita upplýsingar um þá þjónustu sem umboðsaðilinn hafi umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa. Umboðsaðili telst sá sem hafi heimild til að skuldbinda rafeyrisfyrirtæki. Aðili sem tekur þátt í markaðssókn rafeyrisfyrirtækis telst ekki umboðsaðili hafi hann ekki heimild til að skuldbinda rafeyrisfyrirtæki. Á hinn bóginn getur aðili sem kemur fram í eigin nafni ekki gert það sem umboðsaðili heldur skal hann hafa sitt eigið leyfi sem rafeyrisfyrirtæki. Ákvæðið er innleiðing á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1. mgr. 19. gr. PSD2.
    Í 2. mgr. er lagt er til að Fjármálaeftirlitið skrái umboðsaðila í skrá skv. 17. gr. laganna, að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr. innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna. Tveggja mánaða fresturinn eigi við í því tilviki að Fjármálaeftirlitið hafi fengið fullnægjandi upplýsingar. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitinu ber að senda rafeyrisfyrirtæki upplýsingar um hvort umboðsaðili hafi verið færður inn á skrána. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki ef það er mat þess að ósannað teljist að upplýsingar skv. 1. mgr. séu réttar. Ef Fjármálaeftirlitið metur upplýsingarnar ófullnægjandi eða rangar er því heimilt að hafna skráningu. Hafi Fjármálaeftirlitið annaðhvort synjað um skráningu eða hafnað skráningu skal rafeyrisfyrirtæki tilkynnt það án ótilhlýðilegrar tafar og er rafeyrisfyrirtæki óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila frá þeim tíma. Ákvæðið er innleiðing á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2.–4. mgr. 19. gr. PSD2.
    Í 3. mgr. er lagt til að rafeyrisfyrirtæki verði heimilt að dreifa og innleysa rafeyri í gegnum umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd þess eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 17. gr. Ákvæði 3. mgr. er innleiðing á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. PSD2.
    Í 4. mgr. er lagt til að rafeyrisfyrirtæki skuli sjá til þess að umboðsaðilar sem veita þjónustu fyrir þess hönd upplýsi handhafa rafeyris um þá staðreynd. Handhafi rafeyris eigi að vita eigi hann viðskipti við umboðsaðila rafeyrisfyrirtækis. Ákvæðið er innleiðing á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 7. mgr. 19. gr. PSD2.
    Ákvæði 5. mgr. er innleiðing á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 8. mgr. 19. gr. PSD2.
    Í 6. mgr. er um að ræða innleiðingu á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir sbr. 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 5. mgr. 19. gr. PSD2.
     Um u-lið 1. tölul.
    Starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis getur falið í sér heimild til veitingar greiðsluþjónustu í skilningi laga um greiðsluþjónustu, sbr. a-lið 1. mgr. 24. gr. laganna. Í þeim tilfellum hefur rafeyrisfyrirtæki sömu heimildir og greiðslustofnun til veitingar þjónustu fyrir tilstilli umboðsaðila. Hefur tilvísun úr þessum lögum til ákvæða laga um greiðsluþjónustu verið breytt til samræmis við sambærileg ákvæði frumvarpsins. Ákvæðið felur í sér innleiðingu á b-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 5. mgr. 3. gr. EMDII, sbr. 1.–5. mgr. og 7.–8. mgr. 19. gr. PSD2.
     Um v-lið 1. tölul.
    Lagt er til í 1. mgr. að rafeyrisfyrirtæki beri að tilkynna um fyrirhugaða útvistun til Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Fjármálaeftirlitið getur þá gengið úr skugga um að útvistun sé í samræmi við þær kröfur sem eru gerðar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um sérstakar reglur um svokallaða mikilvæga rekstrarþætti. Útvistun slíkra þátta, þ.m.t. útvistun upplýsingakerfa, má ekki draga verulega úr gæðum innra eftirlits rafeyrisfyrirtækis og getu Fjármálaeftirlitsins til að hafa eftirlit með starfsemi þess; geri hún það er hún óheimil. Þetta birtist meðal annars í því að rafeyrisfyrirtæki og endurskoðandi þess skulu hafa aðgengi að öllum nauðsynlegum upplýsingum hjá útvistunaraðila vegna verkefnisins þannig að rafeyrisfyrirtæki geti fullvissað sig um að útvistunaraðili framfylgi stefnum þess sem hann hefur lofað í samningi. Ávallt er talið að við útvistun á mikilvægum rekstrarþáttum þurfi stjórn rafeyrisfyrirtækis að taka ákvörðun um þá þætti í samræmi við stjórnarhætti rafeyrisfyrirtækisins. Útvistun verkefna sem ekki hafa þýðingu fyrir starfsemi rafeyrisfyrirtækis teljast ekki útivistun á mikilvægum rekstrarþáttum þrátt fyrir að þau séu mikilvæg, svo sem lögmannsþjónusta, símenntun starfsmanna, bókhald, þrif og rekstur mötuneytis.
    Í 3. mgr. er eru talin upp þau skilyrði sem rafeyrisfyrirtæki verður að uppfylla til að mega útvista mikilvægum rekstrarþætti. Fyrsta skilyrðið er að útvistun megi ekki leiða til þess að ábyrgð stjórnenda verði framseld til útvistunaraðila. Stjórnendur rafeyrisfyrirtækis geta til að mynda tryggt þetta með því að hafa nægjanlegt eftirlit með útvistunaraðila sem felur meðal annars í sér að fylgjast með að hann hafi á hverjum tíma tilhlýðilega þekkingu og styrk til að sinna verkefninu og geta gefið um það skýrslu til stjórnenda rafeyrisfyrirtækisins. Annað skilyrðið er að skyldur og samband rafeyrisfyrirtækis gagnvart handhöfum rafeyris þess samkvæmt lögum þessum breytist ekki. Rafeyrisfyrirtæki má ekki útvista verkefni til útvistunaraðila sem ekki býr yfir nægum styrk til að tryggja greitt og snurðulaust aðgengi að þeirri þjónustu sem rafeyrisfyrirtækið býður. Þriðja skilyrðið er að geta haldið skilyrðin sem eru forsendan fyrir starfsleyfi rafeyrisfyrirtækisins. Rafeyrisfyrirtækið verður því að tryggja að við samningsgerð við útvistunaraðila að hann verði skuldbundinn til að fylgja nauðsynlegum stefnum og innra verklagi rafeyrisfyrirtækisins sem við á, svo sem öryggisstefnum, innri reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og persónuverndarstefnu. Fjórða og síðasta skilyrðið er að hvorki skuli breyta né fella brott einhver þeirra skilyrða sem liggja til grundvallar starfsleyfi rafeyrisfyrirtækisins.
    Í 4. mgr. er Seðlabanki Íslands fengin heimild til að setja nánari reglur um hvernig rafeyrisfyrirtæki skuli standa að útvistun mikilvægra rekstrarþátta samkvæmt þessu ákvæði, meðal annars til að tryggja að reglur laganna séu í heiðri hafðar.
    Ákvæðið felur í sér innleiðingu á a-lið 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir sbr. 1. mgr. 3. gr. EMDII, 6. mgr. 19. gr. PSD2.
     Um w-lið 1. tölul.
    Lagt er til að ákvæði a-liðar 1. mgr. 111. gr. tilskipunarinnar sem breytir 1. mgr. 3. gr. EMDII, 6. mgr. 19. gr. PSD2 verði innleitt. Í 1. tölul. s-liðar er lögð til breyting í þá veru að lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit sem lögbært yfirvald í heimaaðildarríki með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta þjónustunnar, hérlendis og erlendis. Í 2. tölul. s-liðar er lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki með umboðsaðilum og útibúum erlendra rafeyrisfyrirtækja hérlendis. Að endingu er í 3. mgr. lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með veitingu þjónustu hérlendis í útibúum og fyrir milligöngu hérlends umboðsaðila fyrirtækis, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, skv. 35. gr. vegna stofnana frá þriðja ríki.
     Um x-lið 1. tölul.
    Lagt er til að handhafar rafeyris geti skotið ágreiningi sínum er varða fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni við útgefanda rafeyris til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Rétt þykir að vekja athygli á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 81/2019, en samkvæmt henni skulu útgefendur rafeyris veita handhöfum rafeyris upplýsingar um úrskurðaraðila sem þeir geta leitað til vegna ágreinings við útgefanda rafeyris.
     Um y-lið 1. tölul.
    Í 17.–19. tölul. 1. mgr. 43. gr. laga útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, er kveðið á um að brot gegn ákveðnum ákvæðum laganna geti leitt til stjórnvaldssektar. Þar sem í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á umræddum ákvæðum eru hér lagðar til breytingar til samræmis.
     Um 2. tölul.
    Ákvæðið er innleiðing á 112. gr. tilskipunarinnar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Reglur sem Seðlabanki Íslands skal setja skv. 2. mgr. 114. gr. skulu hafa verið birtar á vef bankans fyrir 1. júlí 2021 og eigi síðar sendar í lögformlega birtingu. Á sama tíma skal prófunarumhverfi netskilaflata greiðsluþjónustuveitenda sem veita reikningsþjónustu vera tilbúið. Með þessu móti er verið að koma á samfellu milli tilskipunarinnar og framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/389 sem kveður á um tæknistaðla fyrir sterka sannvottun og örugga sameiginlega opna samskiptastaðla þar sem sú reglugerð byggist á tæknistaðli frá Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni og hefur áhrif á framkvæmd laganna, verði frumvarpið samþykkt.