Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1140  —  671. mál.




Beiðni um skýrslu


frá fjármála- og efnahagsráðherra um tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps á fasteignum ríkisins.

Frá Halldóru Mogensen, Albertínu Friðbjörg Elíasdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni, Olgu Margréti Cilia og Smára McCarthy.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps á fasteignum í eigu ríkisins eða sem ríkið hefur leigt og um áhrif þeirra á starfsemi og heilsu starfsfólks. Í skýrslunni komi eftirfarandi fram:
     1.      Hver hefur kostnaður ríkisins verið á hverju ári undanfarin 10 ár vegna viðgerða, niðurrifs og endurbyggingar húsnæðis í opinberri eigu af völdum leka, rakavandamála, rakaskemmda eða myglu og hvaða kostnaður er fyrirséður í þeim efnum á næstu árum?
     2.      Hversu margir starfsmenn á vegum hins opinbera hafa undanfarin 10 ár starfað á vinnustöðum þar sem rakaskemmdir og mygla hafa fundist? Hvað er vitað um áhrif á heilsu starfsfólks til lengri og skemmri tíma, um útgjöld heilbrigðiskerfisins og um útgjöld vegna örorku og vinnutaps af þessum sökum?
     3.      Hvaða útgjöld hafa orðið undanfarin 10 ár vegna röskunar á opinberri þjónustu á heilbrigðisstofnunum og öðrum opinberum stofnunum í kjölfar lokunar og rýmingar vegna rakaskemmda og myglusvepps?

Greinargerð.

    Þessi beiðni um skýrslu var áður flutt á 150. löggjafarþingi (942. mál) og fylgdi henni svofelld greinargerð:
    „Lítið er til af heildstæðum upplýsingum um rakaskemmdir og myglu í fasteignum og um áhrif þeirra á þá sem þar dvelja. Með þessari skýrslubeiðni er þess farið á leit að tekinn verði saman kostnaður ríkis vegna tjóns af völdum rakaskemmda og myglusvepps á húsnæði og safnað upplýsingum um áhrif þeirra á heilsu starfsfólks. Flutningsmenn vona að svörin nýtist til þess að áætla umfang vandans og varða leiðina til þess að útrýma þessum vágesti.
    Áþekk skýrslubeiðni var lögð fram á 149. löggjafarþingi og var hún umfangsmeiri og beint til forsætisráðherra. Þeirri skýrslubeiðni hefur nú verið skipt í þrennt og beint til þeirra ráðherra sem fara með málefnasvið sem rakaskemmdir í fasteignum og áhrif þeirra falla undir, þ.e. til félags- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.“