Ferill 686. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 1156  —  686. mál.
Leiðréttur texti.




Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðir í kjölfar snjóflóða.

Frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.


     1.      Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar varðandi snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði aðfaranótt 15. janúar 2020 og afleiðingar þeirra og varðandi flóðbylgjuna sem varð í kjölfarið á Suðureyri?
     2.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið á Flateyri til þess að bregðast við afleiðingum snjóflóðsins og til að verja íbúðarhúsnæði og hafnarmannvirki?
     3.      Hver er verkefnastaðan í þeirri aðgerðaáætlun sem stjórnvöld settu fram í kjölfar snjóflóðanna?
     4.      Hefur eftirlit Veðurstofu Íslands verið eflt staðbundið í kjölfar snjóflóðanna ásamt viðvörunum um hættustig og hugsanlegum rýmingaráætlunum?
     5.      Liggur fyrir framkvæmdaáætlun ofanflóðasjóðs um auknar ofanflóðavarnir fyrir Flateyri og Flateyrarveg um Hvilftarströnd, nr. 64, þar sem hætta er á snjóflóðum sem lokað geta leiðinni til Flateyrar?
     6.      Hefur opinberu fé verið varið til að bæta hugsanlegt eignatjón einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélags í kjölfar snjóflóðanna?
     7.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið í Súgandafirði og á Suðureyri í kjölfar snjóflóðsins sem olli flóðbylgju á Suðureyri og Súgandafjarðarveg?
     8.      Hefur Veðurstofan gripið til einhverra aðgerða og rannsókna í Súgandafirði og aukið eftirlit með snjóflóðahættu og hættu á flóðbylgju á byggð og vegi í kjölfarið? Er til viðbragðsáætlun til þess að vara íbúa við hættu á snjóflóðum og er til rýmingaráætlun fyrir Suðureyri?
     9.      Hefur ofanflóðasjóður áform um að verja byggð og vegi í Súgandafirði, þ.m.t. veginn fyrir Spilli út í Staðardal þar sem tveir sveitabæir eru í byggð, Bær og Staður, í ljósi þess að Spillisvegur er þekktur fyrir snjóflóð og aurskriður sem ógna þeim íbúum sem þar eiga leið um dag hvern vegna vinnu og skólagöngu?


Skriflegt svar óskast.