Ferill 687. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1157  —  687. mál.




Fyrirspurn


til heilbrigðisráðherra um meðferð barna og unglinga sem upplifa kynmisræmi hjá transteymi barna- og unglingageðdeildar Landspítala.

Frá Silju Dögg Gunnarsdóttur.


     1.      Hversu mjög hefur færst í vöxt að börn og unglingar leiti til transteymis barna- og unglingageðdeildar Landspítala og hljóti meðferð vegna kynmisræmis? Óskað er eftir yfirliti yfir fjölda tilfella á ári undanfarin tíu ár og hlutfallslega heildaraukningu þann tíma.
     2.      Hversu margir hafa skjólstæðingar sem eru líffræðilega kvenkyns verið á móti þeim sem eru líffræðilega karlkyns hvert ár undanfarin tíu ár?
     3.      Hversu margir þeirra sem leitað hafa til teymisins hafa einnig verið greindir með aðra geð- og taugaröskun?
     4.      Hver er meðalaldur barna og unglinga sem hefja inntöku á stopphormónum og hversu gömul eru yngstu börnin sem hljóta þessa meðferð?
     5.      Hversu margir þeirra sem leita til teymisins hefja meðferð með stopphormónum? Hversu mörg börn og unglingar hafa hafið meðferð með stopphormónum árlega undanfarin tíu ár?
     6.      Hversu margir þeirra sem hefja inntöku stopphormóna hefja síðar meðferð með krosshormónum?
     7.      Hversu margir þeirra sem leita til teymisins hefja meðferð með krosshormónum án þess að hafa áður verið á stopphormónum?
     8.      Hvaða upplýsingar koma fram í skjali um upplýst samþykki fyrir hormónameðferð?
     9.      Hvaða önnur meðferð en hormónameðferð er veitt hjá teyminu?
     10.      Hver sér um formlega skráningu aukaverkana er koma í ljós við hormónameðferð, í ljósi þess að slík meðferð er veitt án samþykktrar ábendingar?


Skriflegt svar óskast.