Ferill 342. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1166  —  342. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Elínu Guðjónsdóttur og Hlyn Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson og Elínu Ölmu Arthursdóttur frá Skattinum, Jón Svan Hjartarson og Garðar Víði Gunnarsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Guðmund Löve og Stefán Örn Stefánsson frá SÍBS, Kristínu S. Hjálmtýsdóttur og Örnu Harðardóttur frá Rauða krossinum á Íslandi, Jónas Guðmundsson og Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur frá Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, Andra Stefánsson og Líneyju R. Halldórsdóttur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Tómas Torfason og Ársæl Aðalbergsson frá KFUM og KFUK á Íslandi, Sigþrúði Guðmundsdóttur frá Samtökum um kvennaathvarf, Birnu Þórarinsdóttur frá UNICEF, Bjarna Gíslason frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Jón Atla Benediktsson rektor, Gylfa Magnússon og Björn Atla Davíðsson frá Háskóla Íslands.
    Umsagnir bárust frá Almannaheillum, samtökum þriðja geirans, Barnaheillum, Fuglavernd, Geðhjálp, Hagsmunasamtökum heimilanna, Háskóla Íslands, Hjálparstarfi kirkjunnar, Íslandsdeild Amnesty International, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi, Krabbameinsfélagi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Öryrkjabandalagi Íslands, Rauða krossinum á Íslandi, SÍBS, Samtökum um kvennaathvarf, Siglingaklúbbnum Nökkva, Sigurjóni Högnasyni, Skattinum, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, UMFÍ og UNICEF á Íslandi og Hjálparstarfi kirkjunnar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld til að efla skattumhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla.

Umfjöllun nefndarinnar.
Aðdragandi og efni frumvarpsins.
    Á 143. löggjafarþingi var lögð fram tillaga til þingsályktunar um endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar (487. mál) sem ekki náði fram að ganga. Tillagan laut að því að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti og fengju endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu mannvirkja. Í greinargerð tillögunnar var vikið að efnahagslegu mikilvægi íþrótta og áhrifa skipulagðs starfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Á 144. og 145. löggjafarþingi (411. og 8. mál) voru lögð fram frumvörp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem miðuðu að sama marki. Með nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um málið þegar það var lagt fram síðara sinni var lagt til að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar og var sú tillaga samþykkt.
    Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd fram frumvarp til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda (896. mál). Með frumvarpinu var lagt til að sett yrði á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Frumvarpið var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi (599. og 136. mál) en náði ekki fram að ganga. Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann.
    Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda. Með frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld með þessu markmiði. Meðal annars er lagt til að lögaðilar sem starfa til almannaheilla verði undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest verði í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 60% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, að hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og að einstaklingum verði heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Nánari umfjöllun um efni frumvarpsins er að finna í 3. kafla greinargerðar með því.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Undanþága frá greiðslu tekjuskatts (1. gr. og afleiddar breytingar).
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, sem kveður á um undanþágu frá greiðslu tekjuskatts vegna lögaðila sem verja hagnaði sínum einungis í þágu samfélagslegra markmiða. Í öðrum ákvæðum frumvarpsins eru lagðar til skattalegar ívilnanir vegna lögaðila skv. 4. tölul. 4. gr. og vegna þeirra sem veita slíkum félögum framlög og gjafir. Þeir skattalegu hvatar sem lagðir eru til í frumvarpinu ná því til lögaðila sem falla undir 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt.
    Undanþága frá greiðslu tekjuskatts skv. 4. tölul. 4. gr. laganna, með þeim breytingum sem lagðar eru til, gildir að tveimur skilyrðum uppfylltum, þ.e. að hagnaði sé einungis varið til almannaheilla og að lögaðili hafi það að eina markmiði samkvæmt samþykktum sínum. Í umsögn Skattsins er bent á að ekki liggi fyrir hvort hagnaði hafi einungis verið varið til almannaheilla fyrr en við álagningu, eða um það bil 10 mánuðum eftir lok reikningsárs.
    Að auki var bent á að sú undanþága sem kveðið væri á um í 4. tölul. 4. gr. tæki til atvinnurekstrarfélaga. Almennt hefðu hefðbundin líknar-, menningar- og hjálparsamtök ekki atvinnurekstur með höndum, heldur nytu þau undanþágu frá greiðslu tekjuskatts á grundvelli 5. tölul. 4. gr. laganna.
    Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu þar sem fram kæmi afstaða ráðuneytisins til framangreindra ábendinga Skattsins. Að höfðu samráði við Skattinn lagði ráðuneytið til að gerðar yrðu breytingar á 1. gr. frumvarpsins, sem og afleiddar breytingar á öðrum ákvæðum þess til samræmis.
    Með vísan til minnisblaðs ráðuneytisins leggur meiri hlutinn til þá breytingu að við 4. gr. laga um tekjuskatt bætist ný málsgrein þar sem fram komi að þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, og hafi með höndum þá starfsemi til almannaheilla sem fram kemur í a–g-lið 4. tölul. 4. gr. verði undanþegnir tekjuskatti, séu þeir skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Þá er lagt til að tilgreint verði sérstaklega í töluliðnum að ákvæði VII. kafla laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019, skuli gilda um skráningu lögaðila í almannaheillaskrána, eftir því sem við á.
    Þar sem þau fyrirtæki sem gert er ráð fyrir að falli undir nýjan 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt stundi að einhverju leyti atvinnustarfsemi til fjáröflunar er lagt til að þeim verði slík starfsemi heimil innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum lögaðilans og leiða megi beint af tilgangi hans eða ef starfsemi hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu með tilliti til heildartekna lögaðilans. Sú heimild er í samræmi við 2. gr. laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri, nr. 119/2019.
    Til samræmis við framangreint leggur meiri hlutinn til breytingar á öðrum ákvæðum frumvarpsins, þannig að þau félög sem falli undir nýjan 9. tölul. 4. gr. tekjuskattslaga njóti þeirra ívilnana sem frumvarpið kveður á um.

Starfsemi til almannaheilla (b-liður 1. gr.).
    Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að nýr málsliður bætist við 4. tölul. 4. gr. þar sem kveðið verði á um hvaða starfsemi teljist til almannaheilla. Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram áhyggjur af því að upptalning á þeirri starfsemi sem telst til almannaheilla kynni að útiloka ýmis samtök sem starfa í þágu tiltekinna réttinda frá því að njóta þeirra ívilnana sem kveðið er á um. Kvenréttindafélag Íslands benti m.a. í umsögn sinni á að óvíst væri hvort samtök sem berðust fyrir réttindum jaðarsettra hópa í samfélaginu féllu undir hugtökin „mannúðar- og líknarstarfsemi“. Þá benda Náttúruverndarsamtök Íslands á að ekki sé ljóst hvort starfsemi náttúru- og umhverfisverndarsamtaka falli undir upptalningu b-liðar 1. gr.
    Í greinargerð með frumvarpinu er tilgreint í dæmaskyni hvaða starfsemi falli undir ákvæðið. Þótt hafa beri slíka dæmatalningu til hliðsjónar við fyllingu hugtaka eins og „menningarmálastarfsemi“ eða „mannúðarstarfsemi“ ræðst það að lokum af eðli starfseminnar hvort hún teljist falla þar undir. Meiri hlutinn telur að umhverfis- og náttúruverndarsamtök stundi menningarmálastarfsemi í skilningi ákvæðisins og njóti því þeirra ívilnana sem kveðið er á um, enda uppfylli þau að öðru leyti skilyrði 9. tölul. Að sama skapi teljist starfsemi um bættan hag jaðarsettra hópa til mannúðarstarfsemi.
    Meiri hlutinn bendir á að þær skilgreiningar sem lagt er til að verði a- og b-liður 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt eru nokkuð almennar, enda er þeim ætlað að ná til víðs mengis lögaðila sem starfa í þágu samfélagslegra málefna. Í því ljósi telur meiri hlutinn óheppilegt að íþróttastarfsemi sé sérstaklega tilgreind í b-lið ákvæðisins. Annars vegar telur meiri hlutinn augljóst að íþróttastarfsemi falli almennt undir æskulýðs- og menningarmálastarfsemi og hins vegar kann slík tilgreining að skapa vafa að því er varðar eðlisólíka starfsemi. Leggur meiri hlutinn því til að fallið verði frá því að tilgreina það sérstaklega að íþróttastarfsemi falli undir b-lið 4. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu manna á byggingarstað (8. gr. og ný 9. gr.)
    Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að fjórar nýjar málsgreinar bætist við 42. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, þar sem kveðið verði á um rétt lögaðila sem starfa til almannaheilla til endurgreiðslu 60% virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum í þeirra eigu, eða sérgreindum matshlutum þeirra.
    Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt gildandi ákvæði til bráðabirgða XXXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, eiga þeir lögaðilar sem fjallað er um í frumvarpinu rétt á 100% endurgreiðslu vegna þeirra verkþátta sem að framan er getið til ársloka 2021. Meiri hlutinn telur skynsamlegt að endurgreiðsluhlutfallið verði áfram 100% til 31. desember 2025 þannig að ráðrúm gefist til þess að meta áhrif þeirrar ívilnunar á starfsemina. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að endurskoðun ákvæðisins skuli fara fram fyrir lok gildistíma þess.

Gildistaka (12. gr.).
    Meiri hlutinn leggur til að gildistaka laganna miðist við 1. nóvember 2021. Þannig gefist Skattinum svigrúm til þess að koma upp opinni almannaheillaskrá vegna þeirra lögaðila sem komi til með að falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt. Þó miðist gildistaka 8. gr. frumvarpsins áfram við 1. janúar 2022, enda gildir ákvæði til bráðabirgða XXXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, til og með 31. desember 2021.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Ágúst Ólafur Ágústsson og Smári McCarthy rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í þingræðu.

Alþingi, 25. mars 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Þórarinn Ingi Pétursson, frsm. Jón Steindór Valdimarsson.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir. Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson. Smári McCarthy, með fyrirvara.