Ferill 399. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1171  —  399. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (hvatar til fjárfestinga).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Vilmar Frey Sævarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson og Jón Ásgeir Tryggvason frá Skattinum, Sigurjón Högnason frá KPMG ehf., Harald Inga Birgisson frá Deloitte ehf., Benedikt S. Benediktsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Stefaníu Kolbrúnu Ásbjörnsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Svein Friðrik Sveinsson frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Helga Jóhannesson og Þorgerði Marinósdóttur frá Landsvirkjun, Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vigdísi Ólafsdóttur og Magneu Gná Jóhannsdóttur frá Ungum umhverfissinnum og Sigurð Ingason frá Umhverfisstofnun.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Deloitte ehf., Fenúr, KPMG ehf., Landsvirkjun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum ferðaþjónustunnar, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum atvinnulífsins, Skattinum, Ungum umhverfissinnum og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, þar sem annars vegar verði kveðið á um heimild til þess að fyrna atvinnurekstrareignir í formi lausafjár sem aflað er á árinu 2021 hraðar en gildandi lög segja til um. Hins vegar verði kveðið á um heimild til að reikna sérstakt fyrningarálag af kaupverði ákveðinna umhverfisvænna atvinnurekstrareigna sem aflað er á árunum 2021 og 2022.
    Atvinnuvegafjárfesting hefur dregist verulega saman og atvinnuleysi aukist til muna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Frumvarpið miðar að því að skapa almenna hvata til fjárfestinga. Með skattalegum ívilnunum er ýtt undir fjárfestingar í umhverfisvænum eignum og er það jafnframt liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins og hluti af stefnumótun um árangur í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Framlenging heimildar til flýtifyrningar eigna (1. mgr. 1. gr.).
    Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að fyrna atvinnurekstrareignir í formi lausafjár sem aflað er á árinu 2021 hraðar en gildandi lög segja til um. Nefndin leggur til að ákvæðið taki einnig til eigna sem aflað er á árinu 2022. Töluverður tími getur liðið frá því að ákvörðun um fjárfestingu er tekin og þangað til af henni verður. Telur nefndin því skynsamlegt að ákvæðið nái einnig til eigna sem aflað er á árinu 2022. Breytingin á að öðru óbreyttu að styðja betur við markmið frumvarpsins um auknar fjárfestingar.

Fyrningarálag (2. mgr. 1. gr.).
    Í umsögn KPMG ehf. var bent á að sú ívilnun sem leiðir af heimild til flýtifyrningar skv. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði mismunandi eftir félagaformi. Ef fyrningarhlutfallið verður 15%, líkt og lagt er til nemur ívilnunin 3% kaupverðs hjá félögum sem sæta 20% tekjuskatti og 5,64% kaupverðs hjá félögum sem sæta 37,6% tekjuskatti, en gæti numið allt að 7% kaupverðs hjá sjálfstætt starfandi fólki. Í minnisblaði ráðuneytisins um málið kom fram sú afstaða að miðað hefði verið við að ívilnunin væri 3%, óháð rekstrarformi.
    Nefndin leggur til breytingu þess efnis að ívilnunin verði 5% af kaupverði, óháð rekstrarformi. Þannig verði fyrningarálagið 25% vegna lögaðila sem sæta 20% tekjuskatti, 13,3% vegna lögaðila sem sæta 37,6% tekjuskatti og 13,18% vegna einstaklinga í atvinnurekstri.
    Þá leggur nefndin til að heimild til fyrningarálags gildi til loka árs 2025. Með þessu verður betur stutt við græna fjárfestingu, sjálfbæra þróun og breytta hegðun í loftslagsmálum. Nefndin telur að tímabil fyrningarálagsins sé of stutt til þess að markmiðum frumvarpsins verði náð að fullu. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að leggja mat á reynsluna af sérstöku fyrningarálagi fyrir lok árs 2025.

BAT-viðmiðunarskýrslur (3. tölul. 3. mgr. 1. gr.).
    Fyrningarálag skv. 2. mgr. 1. gr. á einnig við um eignir sem eru umhverfisvottaðar af viðurkenndum aðilum eða uppfylla a.m.k. tvö af þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 3. mgr. ákvæðisins. Í 3. tölul. 3. mgr. 1. gr. er kveðið á um það skilyrði að eignirnar séu hluti af kerfi sem tilgreint er í viðeigandi BAT-viðmiðunarskýrslum Evrópusambandsins og uppfyllir losunarviðmið í viðeigandi skýrslum. Í umsögn Umhverfisstofnunar er lagt til að frekar verði notast við hugtakið BAT-niðurstöður en BAT-viðmiðunarskýrslur. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggur nefndin til breytingu á 3. tölul. 3. mgr. 1. gr. þannig að kveðið verði á um eignir sem tilgreindar eru í viðeigandi BAT-niðurstöðum Evrópusambandsins og uppfylli losunarviðmið í viðeigandi BAT-niðurstöðum Evrópusambandsins.

Eignir knúnar raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, lífeldsneyti eða rafeldsneyti (4. tölul. 3. mgr. 1. gr.).
    Í 4. tölul. 3. mgr. 1. gr. er lagt til að heimilt verði að reikna 15% fyrningarálag vegna eigna sem eru 100% knúnar af raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, lífeldsneyti eða rafeldsneyti, að því gefnu að a.m.k. eitt annað skilyrði 3. mgr. sé uppfyllt. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að afar sjaldgæft sé að bifreiðar séu 100% knúnar metanóli, metani og etanóli. Alla jafna sé örlítið jarðefnaeldsneyti nýtt til þess að ná því hitastigi í vélinni að hún geti brennt lífeldsneytinu. Nefndin telur skynsamlegt, og í samræmi við það markmið með frumvarpinu að minnka losun, að framangreint skilyrði verði rýmkað þannig að ákvæðið taki til bifreiða sem eru 85% knúnar raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þótt slíkar bifreiðar séu eðli málsins samkvæmt ekki eins vistvænar og þær sem eru 100% knúnar endurnýjanlegum orkugjöfum telur nefndin að með því móti geti fleiri nýtt sér ívilnunina til endurnýjunar á ökutækjum sem gangi að mestu leyti eða alfarið fyrir jarðefnaeldsneyti.

Birting lista yfir skattaðila sem nýta sér fyrningarálag (5. mgr. 1. gr.).
    Samkvæmt lokamálslið 5. mgr. 1. gr. skal Skatturinn birta á vef sínum lista yfir þá skattaðila sem hafa nýtt sér fyrningarálag og fjárhæð fyrningarálags. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að fyrningarálagið feli í sér sérstaka skattaívilnun og að birting upplýsinga um þá sem fá notið slíkrar ívilnunar stuðli að gegnsæi og aðhaldi. Nefndin bendir á að sú ívilnun sem kveðið er á um í 2. mgr. 1. gr. miðar að því að stuðla að fjárfestingum í umhverfisvænum eignum og greiða fyrir sjálfbærri þróun. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka ferðaþjónustunnar segir að slík birting geti haft letjandi áhrif á nýtingu úrræðisins enda geti upplýsingar um fyrningarálag opinberað trúnaðarupplýsingar.
    Nefndin leggur til að skylda Skattsins til að birta lista yfir þá sem nýta þau úrræði sem kveðið er á um í frumvarpinu verði felld brott, enda kunni það að vinna gegn því markmiði frumvarpsins að hvetja til grænna fjárfestinga ef rekstraraðilar veigra sér við því að nýta sér ívilnanirnar.

Álit óháðra sérfræðinga (6. mgr. 1. gr.).
    Í 2. málsl. 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins er tekið fram að með skattframtali skuli skila rökstuðningi fyrir því hvernig skilyrði fyrningarálags teljist uppfyllt varðandi hverja eign. Í 6. mgr. 1. gr. kemur fram að ríkisskattstjóri geti krafist þess á grundvelli 94. og 96. gr. tekjuskattslaga að lagt sé fram rökstutt álit óháðra sérfræðinga á því að eign uppfylli skilyrði 1. gr. frumvarpsins sé samanlagt fyrningarálag skattaðila hærra en 75 millj. kr. Ríkisskattstjóri megi jafnframt afla álits annarra óháðra sérfræðinga sé slíkt álit lagt fram.
    Nefndin bendir á að sönnunarbyrði fyrir réttmæti skattskila hvílir samkvæmt meginreglu á skattaðilum. Skv. 94. og 96. gr. tekjuskattslaga getur ríkisskattstjóri eftir atvikum kallað eftir öllum þeim upplýsingum og gögnum frá skattaðila sem varða skattskil hans og nauðsynleg teljast til skýringar á þeim. Sjái skattaðili sér hag í því að afla álits sérfræðings í tengslum við veitingu upplýsinga samkvæmt beiðni ríkisskattstjóra er honum að öðru jöfnu heimilt að láta slíkt álit fylgja með upplýsingagjöfinni.
    Nefndin telur ekki þörf á að mælt sé fyrir um að við tiltekin fjárhæðarmörk geti ríkisskattstjóri beitt ákveðinni aðferð við skatteftirlit með fyrirmælum um hvernig sönnunarfærslu skattaðila skuli háttað. Telur nefndin nægja að ríkisskattstjóri leggi mat á það hverju sinni hvernig skatteftirliti er háttað, hvort og hvaða fjárhæðarmörk séu notuð til viðmiðunar við það mat og hvaða gögnum og skýringum hann óskar eftir frá skattaðila í því skyni hverju sinni. Leggur nefndin því til að 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins falli brott.

Fyrirtæki í eigu eða á ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga eða skattaðila sem teljast vera í fjárhagsvanda (7. mgr. 1. gr.).
    Þær ívilnanir sem kveðið er á um í frumvarpinu taka ekki til fyrirtækja í eigu eða á ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga eða skattaðila sem teljast vera í fjárhagsvanda, sbr. 1. málsl. 7. mgr. 1. gr. Nefndin bendir á að ýmis fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga, svo sem orkufyrirtæki, eru starfrækt á samkeppnismarkaði. Í umsögnum um málið kom fram það sjónarmið að ákvæðið væri til þess fallið að raska jafnræði skattgreiðenda og samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja.
    Þá tekur nefndin undir þau ummæli í minnisblaði ráðuneytisins að ekki sé ástæða til að hafa skilyrði í frumvarpinu þess efnis að fyrirtæki í fjárhagsvanda geti ekki nýtt sér þau úrræði sem lögð eru til. Í minnisblaðinu segir: „Atvinnurekstur í fjárhagsvanda væri með uppsafnað skattalegt tap og því myndi fyrningarálagið ekki vera ívilnun. Það væri ekki nema ef hægt væri að snúa við rekstrinum og mynda hagnað umfram eldra uppsafnað tap þannig að þá fyrst yrði gengið á fyrningarálagið. Ef ljóst væri að það myndi takast þá væri félag vart í fjárhagsvanda, þá ekki nema tímabundnum. Ráðuneytið telur því líklega rétt að fella út skilyrðið.“ Leggur nefndin því til að 1. málsl. 7. mgr. 1. gr. falli brott.
    Aðrar breytingartillögur nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Ólafur Ágústsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í þingræðu.
    Jón Steindór Valdimarsson og Smári McCarthy rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara. Þeir eru ósammála rökstuðningi meiri hlutans fyrir brottfalli lokamálsliðar 5. mgr. 1. gr. um birtingu lista yfir þá sem nýta sér ívilnanir samkvæmt ákvæðinu á vef Skattsins.


Alþingi, 25. mars 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara.
Brynjar Níelsson. Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, með fyrirvara. Smári McCarthy, með fyrirvara. Þórarinn Ingi Pétursson.