Ferill 697. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1176  —  697. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (nýsköpun, arður, yfirskattanefnd o.fl.).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.


I. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.
1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 9. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sama á við um kaup stjórnarmanns á hlutum eða hlutabréfum samkvæmt kauprétti í félagi sem hann er stjórnarmaður í ef félagið fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, á því ári sem viðskiptin eru gerð. Um skattlagningu framangreindra tekna stjórnarmanna fer skv. 1. mgr. 66. gr.

2. gr.

    Við 1. mgr. 18. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Lögaðila er heimilt að fresta yfir tvenn áramót skattlagningu hagnaðar sem myndast hefur við umbreytingu skuldabréfs með breytirétti í hluti í félagi sem fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, á því ári sem viðskiptin eru gerð. Hagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar af hlutabréfum eða hlutum þegar þau eru látin í skiptum fyrir hlutabréf eða hluti í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi skv. 1. tölul. 2. gr. að öllu leyti telst til skattskyldra fjármagnstekna þegar hlutabréfin eru seld.

II. KAFLI
Breyting á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992.
3. gr.

    Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Málsaðili skal láta gögn um útlagðan kostnað sinn fylgja kröfugerð. Séu ekki lögð fram fullnægjandi gögn að mati yfirskattanefndar, þrátt fyrir áskorun þess efnis, skal hún hafna kröfu um málskostnað. Yfirskattanefnd er heimilt að endurskoða þá ákvörðun ef afsakanlegt verður talið að málsaðili hafi ekki bætt úr annmörkum áður en úrskurður var kveðinn upp.

4. gr.

    Í stað orðanna „sex menn“ í 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: fimm eða sex menn.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Komi fram í kæru til yfirskattanefndar sem stjórnvald hefur til umsagnar skv. 6. gr. upplýsingar eða gögn sem ekki lágu fyrir við hina kærðu ákvörðun en stjórnvald telur að eigi að leiða til verulega breyttrar niðurstöðu í málinu er stjórnvaldi heimilt að gefa málsaðila kost á því að mál hans verði tekið til meðferðar að nýju með þeim áhrifum að kæran til yfirskattanefndar teljist afturkölluð.
     b.      Í stað orðsins „ríkisskattstjóri“ í 4. málsl. kemur: stjórnvald.

III. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
6. gr.

    Í stað orðanna „að undanteknum arði sem úthlutað er á milli félaga skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum“ í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: að undanskilinni fjárhæð arðs sem úthlutað er eða greiddur af félögum skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. til hlutafélaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., og félaga og samlaga sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við innlausn á langtímakröfum, svo sem spariskírteinum ríkissjóðs í eigu aðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. á eftirtöldum tímabilum, skal haga afdrætti staðgreiðslu með eftirfarandi hætti:
     1.      af áföllnum vöxtum sem féllu til frá og með 1. janúar 1997 til og með 30. júní 2009 10%,
     2.      af áföllnum vöxtum sem féllu til frá og með 1. júlí 2009 til og með 31. desember 2009 15%,
     3.      af áföllnum vöxtum sem féllu til frá og með 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2010 18%,
     4.      af áföllnum vöxtum sem féllu til frá og með 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2017 20%,
     5.      af áföllnum vöxtum sem féllu til frá og með 1. janúar 2018 22%.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
8. gr.

    Við 13. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     a.      Skráning félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri 83.000 kr.
     b.      Skráning annarra félaga eða aðila sem falla undir 4. og/eða 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003 25.000 kr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „5.500 kr.“ í 5. tölul. kemur: 6.100 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „11.000 kr.“ í 6. tölul. kemur: 12.200 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „4.200 kr.“ í 7. tölul. kemur: 4.600 kr.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „4.200 kr.“ í 8. tölul. kemur: 5.300 kr.
     e.      Í stað fjárhæðarinnar „7.800 kr.“ í 9. tölul. kemur: 12.200 kr.
     f.      Við málsgreinina bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fyrir útgáfu könnunarvottorðs 4.500 kr.

V. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.
10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 262. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „virðisaukaskatt“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sbr. og 1. og 2. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, 1. mgr. 16. gr. laga um erfðafjárskatt, sbr. og 1. mgr. 13. gr. laga um fjársýsluskatt, og 1. mgr. 12. gr. laga um stimpilgjald.
     b.      Á eftir orðinu „virðisaukaskatt“ í 2. mgr. kemur: 3. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, 2. mgr. 13. gr. laga um fjársýsluskatt.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013.
11. gr.

    Í stað orðanna „framlagning álagningarskrár“ í 4. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna kemur: lok álagningar.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999.
12. gr.

    Í stað orðanna „framlagning álagningarskrár“ í 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: lok álagningar.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 6. gr. kemur til framkvæmda við staðgreiðslu á gjalddaga 20. júlí 2021 vegna greiðslutímabilsins apríl–júní 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld, meðal annars með það að leiðarljósi að styrkja og efla skattalegt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja, einstaklinga og annarra lögaðila auk nauðsynlegra leiðréttinga og breytinga á lögum á sviði skattamála.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpið má meðal annars rekja til nýsköpunarstefnu stjórnvalda fyrir Ísland sem markar sýn til ársins 2030. Í henni er sett fram það markmið að árið 2030 verði Ísland samfélag þar sem nýsköpun verður inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og er fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun. Tilefni einstakra tillagna frumvarpsins er mismunandi. Lagt er til að 9. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, varðandi skattlagningu á kauprétti hlutabréfa, verði rýmkuð á þann veg að stjórnarmenn nýsköpunarfyrirtækja sem kaupa hlutabréf samkvæmt kauprétti í viðkomandi félagi fái einnig notið frestunar á skattalegri meðferð kauprétta á grundvelli ákvæðisins án þess að sérstakt launþegasamband sé á milli stjórnarmannsins og félagsins. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að fresta um tvenn áramót hagnaði lögaðila sem eiganda breytanlegra skuldabréfa sem umbreytt er í hluti í félagi í stað þess að skattlagning miðist við það tímamark þegar breytiréttur er nýttur vegna viðskipta hans við lögaðila sem fellur undir ákvæði laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Einnig er lagt til að hagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar vegna viðskipta með hlutabréf sem skipt hefur verið fyrir hlutabréf í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi skv. 1. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að öllu leyti teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en hlutabréfin eru seld. Þá er lagt til að við ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, verði bætt við vísun í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og með því verða þau félagaform sem þar eru talin upp, þ.e. kaupfélög og önnur samvinnufélög, undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts til jafns við hlutafélög sem falla undir 1. tölul. sama ákvæðis vegna fjárhæðar arðs sem þau hafa fengið úthlutaða eða greidda frá félögum sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. Þá eru lagðar til breytingar á 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, í kjölfar dóms Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-304/2019, sem kveðinn var upp þann 13. janúar sl., þar sem nauðsynlegt er talið að vísun til hegningarlaga í ákvæðum skattalaga sé jafnframt tekin upp sem verknaðarlýsing í ákvæðum 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga í þeim tilfellum þegar um stórfelld brot er að ræða. Þá eru nokkrar breytingar lagðar til á lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem snúa að gjaldtöku vegna skráningu almannaheillafélaga með starfsemi yfir landamæri og/eða annarra félaga skv. 4. og 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Jafnframt er lagt til að tekið verði gjald fyrir útgáfu könnunarvottorða er snúa að viðurkenningu á hjónavígslu sem framkvæmd er erlendis og vafi leikur á hvort uppfylli skilyrði fyrir skráningu hjónavígslunnar í samræmi við fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993. Loks eru lagðar til hækkanir á gjöldum vegna vegabréfsáritana. Þrjár breytingar eru lagðar til á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992. Í fyrsta lagi er lagt til að lögfesta starfsreglur yfirskattanefndar um forsendur fyrir ákvörðun málskostnaðar úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef úrskurður nefndarinnar hefur fallið málsaðila í hag að hluta eða öllu leyti. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á þeim fjölda nefndarmanna sem skipaðir eru til að sitja í yfirskattanefnd og taka þátt í að úrskurða í einstökum málum. Í þriðja lagi er lögð til breyting á 13. gr. laganna varðandi endurákvörðun vegna kæru þannig að ákvæðið einskorðist ekki við ákvarðanir ríkisskattstjóra heldur taki einnig til ákvarðana annarra stjórnvalda sem kæranlegar eru til yfirskattanefndar.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Skattlagning á kauprétti hlutabréfa.
    Í 9. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, er að finna reglu um skattalega meðferð tekna vegna kaupa á hlutabréfum samkvæmt kauprétti sem maður hefur öðlast vegna starfa fyrir annan aðila. Meginreglan er sú að þegar kaupréttarverð er lægra en almennt gangverð í viðskiptum milli aðila í launþegasambandi hefur mismunurinn þar á verið talinn sem starfstengd launagreiðsla sem sætir sömu skattalegu meðferð og aðrar launagreiðslur skv. 1. tölul. 1. mgr. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga. Við þær aðstæður sem mælt er fyrir um í umræddri 9. gr. skal skattlagningu tekna í almennu skattþrepi samkvæmt ákvæðinu, frestað þar til bréfin eru seld, óháð verðgildi við sölu á því tímamarki, sbr. 1. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, nr. 79/2016.
    Lagt er til að 9. gr. laganna verði rýmkuð á þann veg að skýrt verði að stjórnarmenn nýsköpunarfyrirtækja, sem kaupa hlutabréf samkvæmt kauprétti í viðkomandi félagi, fái einnig notið frestunar á skattalegri meðferð kauprétta á grundvelli ákvæðisins. Með breytingunni yrði því gert skýrt að frestun á skattalegri meðferð kaupréttar á grundvelli ákvæðisins yrði ekki einskorðuð við starfsmenn viðkomandi félaga, þ.e. þegar um launþegasamband er að ræða milli einstaklingsins og félagsins, heldur nái einnig almennt til stjórnarmanna viðkomandi félags án þess að sérstakt launþegasamband sé til staðar á milli stjórnarmannsins og félagsins. Skilyrði er þó að félagið sem um ræðir sé nýsköpunarfyrirtæki í skilningi laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, og uppfyllir skilgreiningu laganna um að starfa að rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum óháð því hvort öll slík verkefni hafi hlotið staðfestingu Rannís. Þessi rýmkun á ákvæðinu myndi hafa það í för með sér að nýsköpunarfyrirtæki geti í meiri mæli notið sérfræðiþekkingar frá stjórnarmönnum félagsins og haldið þekkingu innan félagsins með því að umbuna þeim með kaupréttum án þess að til skattlagningar komi fyrr en viðkomandi selur bréfin.

3.2. Skattlagning breytanlegra skuldabréfa.
    Eitt af einkennum breytanlegra skuldabréfa er að þeim má breyta í hlutabréf á fyrirframákveðnu gengi, sem gjarnan er talsvert hærra en gengi hlutabréfanna við útgáfu skuldabréfsins, og innan tiltekins tímabils. Vextir breytanlegra skuldabréfa eru hins vegar oft lægri en venjulegra skuldabréfa. Eigandi skuldabréfsins hefur því tvo kosti og getur valið þann sem telst hagstæðari hverju sinni, annars vegar að eiga skuldabréfið til gjalddaga og hins vegar að innleysa bréfið, þ.e. breyta skuldabréfinu í hlutabréf viðkomandi fyrirtækis ef markaðsverð hlutabréfanna hækkar umfram viðmiðunarverðið í skilmálum skuldabréfsins. Þannig öðlast eigandi skuldabréfsins færi á að innleysa skuldabréfið fyrir hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaði og getur selt þau strax ef hann kýs og innleyst hagnað af hærra verðgildi hinna breytanlegu skuldabréfa.
    Hagnaður eiganda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaðnum, er í dag skattlagður við nýtingu breytiréttarins í tilviki lögaðila. Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, nr. 79/2016, var 1. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, breytt á þann veg að hagnaður einstaklinga sem eigenda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutabréf gegn lægra verði en gildir almennt á markaðnum, er nú skattlagður við sölu bréfanna í stað þess að miðað sé við tímamark nýtingar breytiréttarins. Sé eigandinn lögaðili þarf hann að standa skil á tekjuskatti á því tekjuári sem breyting skuldabréfsins í hlutabréf á sér stað þótt hann hafi enn ekki innleyst hagnaðinn af hærra verði skuldabréfanna með sölu hlutabréfanna. Lagt er til að skattlagningunni verði frestað um tvenn áramót í tilviki lögaðila vegna viðskipta hans með breytanleg skuldabréf við lögaðila sem fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, og uppfyllir skilgreiningu laganna um að starfa að rannsóknar- og/eða þróunarverkefnum óháð því hvort öll slík verkefni hafi hlotið staðfestingu Rannís. Verði tillagan að lögum myndi slíkt gera þennan fjármögnunarkost mun meira aðlaðandi fyrir fjárfesta auk þess sem auðveldara verður fyrir nýsköpunarfyrirtæki að afla sér fjármagns, svo sem með útgáfu breytanlegra skuldabréfa. Jafnframt má leiða að því líkum að það séu fremur félög en einstaklingar sem veiti nýsköpunarfyrirtækjum lán. Með breytanlegum skuldabréfum er líkt og segir í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, átt við skuldabréf sem veitir lánardrottni rétt til að breyta kröfu sinni á hendur félagi í hluti í félaginu, sbr. 47.–49. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 31.–32. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.

3.3. Skipti á hlutabréfum.
    Lagt er til að söluhagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar sem myndast þegar hlutabréfum er skipt fyrir hlutabréf í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi skv. 1. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að öllu leyti teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en viðtökuhlutabréfin eru seld. Verði breytingartillagan að lögum er gert ráð fyrir að fjárfestingar og/eða yfirtökur félaga á öðrum félögum gangi greiðar fyrir sig í þeim tilvikum þegar ekki stendur vilji til að sameina félög með samruna. Breytingartillagan telst mikilvæg í því tilviki meðal annars þegar nýsköpunarfyrirtæki þarf að endurskipuleggja eignarhald sitt vegna aðkomu fjárfesta.
    Reglur um frestun söluhagnaðar við hlutabréfaskipti er víða að finna, svo sem í Svíþjóð, Írlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Þær byggjast á því sjónarmiði að þar sem söluhagnaður sé venjulega skattskyldur við sölu á hlutabréfum sé eftir atvikum sanngjarnt að fresta skattlagningu söluhagnaðar þar sem endurgjald er einungis í formi annarra hlutabréfa, að uppfylltum vissum skilyrðum.

3.4. Breytingar á lögum um yfirskattanefnd.
    Lagðar eru til þrenns konar breytingar á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 2. mgr. 8. gr. varðandi málskostnað. Samkvæmt ákvæðinu getur yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, ef úrskurður nefndarinnar hefur fallið málsaðila í hag, að hluta að öllu leyti, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Yfirskattanefnd hefur sett sér starfsreglur um ákvörðun málskostnaðar sem aðgengilegar eru á vefsíðu nefndarinnar. Þar kemur meðal annars fram að krafa um málskostnað skuli vera rökstudd og studd gögnum, meðal annars reikningum fyrir útlögðum kostnaði, svo og að fyrir liggi sönnun fyrir greiðslu kostnaðar. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn áður en úrskurðað er í kærumáli er málskostnaðarkröfu hafnað og verður ekki tekin til meðferðar að nýju nema við sérstakar aðstæður, sbr. nánar liði 1.2 og 1.3 í starfsreglunum. Æskilegt verður að teljast að traustari stoðum verði skotið undir þetta verklag nefndarinnar og er því lagt til að kveðið verði nánar á um ákvörðun málskostnaðar í 2. mgr. 8. gr. laganna.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. en þar er kveðið á um að í yfirskattanefnd skuli sitja sex menn sem skipaðir skulu til sex ára í senn og skulu fjórir nefndarmanna hafa starfið að aðalstarfi. Síðustu ár hefur málum hjá yfirskattanefnd fækkað og frá árinu 2018 hefur einungis einn nefndarmaður sem ekki hefur starfið að aðalstarfi starfað í nefndinni. Því er lögð til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. þannig að ekki verði fortakslaust skylt að skipa tvo nefndarmenn sem ekki hafa starfið að aðalstarfi og með því gefið svigrúm til þess að einungis skuli skipaður einn slíkur nefndarmaður með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni.
    Í þriðja lagi er lögð til breyting á 13. gr. varðandi endurákvörðun vegna kæru þannig að ákvæðið einskorðast ekki við ákvarðanir ríkisskattstjóra heldur taki einnig til ákvarðana annarra stjórnvalda sem kæranlegar eru til yfirskattanefndar. Í núgildandi ákvæði kemur meðal annars fram að ef í kæru til yfirskattanefndar sem ríkisskattstjóri hefur til umsagnar koma fram upplýsingar eða gögn sem leitt gætu til verulegra breyttrar niðurstöðu í málinu er ríkisskattstjóra heimilt að gefa málsaðila kost á því að hinn kærði úrskurður verði endurupptekinn og honum verði gerður skattur að nýju með þeim áhrifum að kæran til yfirskattanefndar teljist afturkölluð. Æskilegt verður að teljast að ákvæðið orðist með tilliti til þess að ákvarðanir fleiri stjórnvalda en ríkisskattstjóra eru kæranlegar til yfirskattanefndar.

3.5. Breytingar á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
    Með 20. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, nr. 33/2020, voru arðgreiðslur milli félaga sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, undanþegnar staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996. Lagabreytingin var gerð við vinnslu þingmálsins á Alþingi og í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar kom fram að arður á milli slíkra félaga kæmi ekki til endanlegrar skattlagningar hjá móttakanda þar sem í 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga væri kveðið á um heimild til að draga umræddar tekjur frá tekjuskattsstofni. Engu að síður væri greiðanda arðs skylt að halda eftir staðgreiðslu og skila í ríkissjóð. Afdráttarskyldan fæli í raun í sér óhagræði fyrir bæði greiðanda og móttakanda arðs auk þess sem ríkissjóður hefði ekki beinar tekjur af þeirri staðgreiðslu sem skilað væri.
    Nú hefur verið vakin athygli á að framangreind breyting feli í sér mismunun á milli félagaforma þar sem sú breyting sem gerð var með 20. gr. laga nr. 33/2020 takmarkist við undanþágu frá staðgreiðslu af arði greiddum milli félaga sem falla undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. Reglan í 3. mgr. 4. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, um undanþágu frá staðgreiðslu af arði tekur þannig ekki til arðs eða fjárhæða sem greiddar eru eða úthlutað er frá félögum skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. til kaupfélaga, samvinnufélaga og annarra félaga sem fjallað er um í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga, þrátt fyrir að sömu rök geti að þessu leyti átt við um þessi félagaform.
    Því er með frumvarpi þessu lagt til að í upptalningu ákvæðis 3. mgr. 4. gr. verði aukið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga og með því verða þau félagaform sem þar eru talin upp, þ.e. kaupfélög og önnur samvinnufélög, undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts til jafns við hlutafélög sem falla undir 1. tölul. sama ákvæðis vegna fjárhæðar arðs sem þau hafa fengið úthlutaða eða greidda frá félögum skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr.
    Með 12. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, nr. 140/2020, var bráðabirgðaákvæði III við lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, fellt brott. Eftir sem áður stendur efnisreglan í bráðabirgðaákvæði XXIX við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, um breytingu á skatthlutfalli fjármagnstekna enn, sem sett var samhliða með ákvæðum til bráðabirgða við lög nr. 70/2009 og var forsenda staðgreiðsluskyldunnar. Brottfellingin var því ótímabær og er því lagt til nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um staðgreiðslu skatts á fármagnstekjur, nr. 94/1996. Ákvæðið er uppfært miðað við gildandi skatthlutföll á þeim tímabilum sem það tekur til en að öðru leyti er það efnislega óbreytt.

3.6. Breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Ákvæði um gjaldtöku félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri hefur skort í lög sem og um skráningu annarra félaga skv. 4. og 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003. Umsýsla við skráningu þessara félaga sem í daglegu tali ganga almennt undir heitinu áhugamannafélög hefur verið vaxandi og aukist umtalsvert við gildistöku laga um skráningu raunverulega eigenda, nr. 82/2019. Ljóst er því að viðhald skrárinnar af hálfu fyrirtækjaskrár er talsvert líkt og með aðrar félagaskrár, svo sem hvað varðar aukatilkynningar og breytingar á stjórn eða samþykktum.
    Í samræmi við fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, er lagt til að tekið verði gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs er snýr að viðurkenningu á hjónavígslu sem framkvæmd er erlendis en vafi leikur á um hvort uppfyllt séu skilyrði fyrir skráningu hjónavígslunnar. Þjóðskrá Íslands getur vísað þessu verkefni til sýslumanns. Gjaldinu er ætlað að fjármagna kostnað því samfara hjá sýslumönnum.
    Þá er lagt til að gjöld fyrir vegabréfsáritanir, sbr. 5.–9. tölul. 14. gr., hækki til samræmis við gengi evru í mars mánuði 2021. Ástæður þessa má rekja til reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2019/1155/ESB, sbr. reglugerð 1160/2010 um vegabréfsáritanir. Samkvæmt skuldbindingum Íslands skal tryggt að gjald fyrir vegabréfsáritanir séu uppfærðar reglulega að teknu tilliti til gengis gjaldmiðilsins. Gjaldið er samræmt á Schengen-svæðinu og miðast við 40 evrur fyrir öll aðildarríki fyrir 6–12 ára og 80 evrur fyrir eldri en 13 ára, 30 evrur fyrir framlengingu vegabréfsáritunar, 35 evrur fyrir vegabréfsáritanir samkvæmt fyrirgreiðslusamningi og 80 evrur fyrir langtímavegabréfsáritun.

3.7. Breytingar á almennum hegningarlögum.
    Með dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-304/2019, sem kveðinn var upp þann 13. janúar sl., voru ákærðu í málinu sýknaðir af meiri háttar broti gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, á þeim forsendum að í ákvæðinu væri ekki vísað sérstaklega til 2. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, þ.e. það ákvæði sem brotið féll undir. Í 2. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur er aftur á móti tekið fram að stórfelld brot gegn því ákvæði varði jafnframt við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Nánar tiltekið var það álit dómsins að samkvæmt grundvallarreglum um skýrleika refsiheimilda yrði að gera þá kröfu til refsiákvæða, í þessu tilviki 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, að í refsiákvæðinu sjálfu væri gerð skýr grein fyrir því hvaða háttsemi eigi undir refsiákvæðið og að ekki dygði að vísað væri í 1. mgr. 262. gr. í öðru refsiákvæði eins og gert væri í 2. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, þrátt fyrir að dómurinn teldi að um meiri háttar brot gegn lögunum væri að ræða.
    Verulegur munur er á refsimörkum umræddra ákvæða. Þannig mælir 2. mgr. 19. gr. laga um skatt á fjármagnstekjur einungis fyrir um fésektarrefsingar en refsingar skv. 1. mgr. 262. almennra hegningarlaga geta verið fangelsi allt að 6 árum auk fésektarrefsinga samkvæmt viðeigandi ákvæðum skattalaga. Að teknu tilliti til framangreinds eru því með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga þar sem nauðsynlegt er að tilvísun til hegningarlaga í öðrum lögum sé einnig tekin upp í viðeigandi ákvæði hegningarlaga í þeim tilfellum þegar um stórfelld brot er að ræða. Hér er um að ræða ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, 1. mgr. 16. gr. laga um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, 1. og 2. mgr. 13. gr. laga um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, og 1. mgr. 12. gr. laga um stimpilgjald, nr. 138/2013. Þær breytingar sem hér eru lagðar til fela að öðru leyti ekki í sér neinar efnislegar breytingar á umræddum lagaákvæðum.

3.8. Dráttur á lok álagningar.
    Í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, er kveðið á um færslu gjalddaga í þeim tilvikum ef framlagning álagningarskrár dregst fram yfir 1. júní eða 1. nóvember. Nú háttar svo til að lok álagningar og framlagning álagningarskrár fara ekki lengur fram samtímis og eru því lagðar til breytingar í þá veru að dragist lok álagningar fram yfir framangreindar dagsetningar færist gjalddaginn til. Viðmiðið verður því lok álagningar en ekki framlagning álagningarskrár enda hefur breyting orðið á framlagningu álagningarskrár sem nú er lögð fram 15 dögum fyrir lok kærufrests, hvort heldur um er að ræða einstaklinga eða lögaðila, samkvæmt ákvæði 1. mgr. 98. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að ætla að það stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar. Í ljósi ákvæða 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar var þess gætt sérstaklega við undirbúning frumvarpsins að orðalag breytinganna væri skýrt og að öðru leyti í samræmi við kröfur sem leiða má af stjórnarskrárákvæðunum.

5. Samráð.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst skattskylda lögaðila og einstaklinga. Við vinnslu þess var haft samráð við dómsmálaráðuneytið, Skattinn og yfirskattanefnd.
    Áform um samningu frumvarpsins voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 3.–10. mars sl. (mál nr. S-69/2010). Engar umsagnir bárust. Frumvarpsdrögin voru einnig kynnt almenningi í samráðsgátt stjórnvalda 16.–23. mars (mál nr. S-80/2021). Tvær umsagnir bárust, frá KPMG ehf. og Viðskiptaráði Íslands. Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands voru ekki gerðar athugasemdir við frumvarpið og var hvatt til framgöngu þess. Í umsögn KPMG ehf. eru gerðar athugasemdir við 1. gr. og 2. gr. frumvarpsins. Um er að ræða ákvæði sem fjalla um skattlagningu tekna stjórnarmanna í hlutafélögum og einkahlutafélögum sem myndast við nýtingu þeirra á kauprétti hluta í viðkomandi félagi, heimild til að fresta um tvenn áramót hagnaði lögaðila við skipti á breytanlegum skuldabréfum og hlutabréfum sem gefin eru út af félagi sem fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, og skattlagningu hagnaðar einstaklings utan atvinnurekstrar af hlutabréfum eða hlutum þegar þau eru látin í skiptum fyrir hlutabréf eða hluti í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi að öllu leyti. Komið hefur verið til móts við athugasemdir KPMG ehf. að einhverju leyti og frumvarpið tekið breytingum í samræmi við það.

6. Mat á áhrifum.
    Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru af margvíslegum toga og sama má segja um mat á áhrifum þeirra.
    Gert er ráð fyrir því að fjárhagsleg áhrif tillagna um breytta skattlagningu kaupréttar, skipta á hlutabréfum og breytanlegra skuldabréfa verði innan tekjuramma fjárlaga til framtíðar séð þótt einhver tilfærsla kunni að eiga sér stað í tekjuskattsgreiðslum milli ára.
    Ekki er talið að tillaga frumvarpsins um að kaupfélög og önnur samvinnufélög verði undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts til jafns við hlutafélög og einkahlutafélög sem falla undir 1. tölul. 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, vegna fjárhæðar arðs sem þau hafa fengið úthlutaða eða greidda, hafi bein áhrif á tekjur ríkissjóðs en hún mun hins vegar væntanlega hafa einhver áhrif á sjóðsstreymi.
    Gert er ráð fyrir að aðrar breytingartillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu muni samanlagt ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, einstaklinga og lögaðila verði frumvarpið óbreytt að lögum. Um er að ræða nauðsynlegar breytingar á lögum á sviði skattamála sem munu styrkja og efla skattalegt umhverfi einstaklinga og lögaðila og leiða til þess að viðkomandi löggjöf á sviði skattamála verði skýrari auk þess sem tilgangur þeirra er að stuðla að aukinni hagsæld til framtíðar.
    Ekki hefur farið fram sérstök greining á jafnréttisáhrifum frumvarpsins. Þó má leiða að því líkum að breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu og snúa að almennum hegningarlögum og skattalegu umhverfi lögaðila hafi ólík áhrif á karla og konur þar sem karlar eru fleiri í stjórn fyrirtækja og eiga almennt fleiri hluti í félögum.
    Ljóst er að tillögur frumvarpsins muni hafa áhrif á eftirlit og umsýslu í skattframkvæmd að einhverju leyti verði frumvarpið að lögum.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að í 9. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði sérstaklega kveðið á um að stjórnarmenn nýsköpunarfyrirtækja sem kaupa hlutabréf samkvæmt kauprétti í viðkomandi félagi fái einnig notið frestunar á skattalegri meðferð kauprétta á grundvelli ákvæðisins. Með breytingunni yrði því skýrt að frestun á skattalegri meðferð kaupréttar á grundvelli ákvæðisins yrði ekki einskorðuð við starfsmenn viðkomandi félaga, þ.e. þegar um launþegasamband er að ræða milli einstaklingsins og félagsins, heldur nái einnig almennt til stjórnarmanna viðkomandi félags án þess að sérstakt launþegasamband sé til staðar á milli þeirra og félagsins.

Um 2. gr.

    Í fyrri málslið ákvæðisins er lagt til að hagnaði lögaðila sem eiganda breytanlegra skuldabréfa, sem breytt er í hlutabréf á lægra verði en gildir almennt á markaðnum, verði frestað um tvenn áramót í stað skattlagningar við nýtingu breytiréttarins vegna viðskipta hans við lögaðila sem fellur undir 3. tölul. 3. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Skattlagningu tekna við innlausn skuldabréfs yrði því heimilt að fresta um tvenn áramót, sbr. 47.–49. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og 31.–32. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, sem fjalla um lántöku með sérstökum skilyrðum.
    Í síðari málslið ákvæðisins er lagt til að hagnaður einstaklings utan atvinnurekstrar vegna skipta að öllu leyti á hlutabréfum fyrir hlutabréf í öðru hlutafélagi, einkahlutafélagi eða samlagshlutafélagi sem er sjálfstæður skattaðili skv. 1. tölul. 2. gr. teljist ekki til skattskyldra fjármagnstekna fyrr en hlutabréfin sem fengin voru í skiptum eru seld.

Um 3. gr.

    Lögð er til breyting á 2. mgr. 8. gr. laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, varðandi ákvörðun málskostnaðar. Lagt er til að kveðið verði á um að krafa málsaðila um ákvörðun málskostnaðar skuli vera studd gögnum, meðal annars reikningum fyrir útlögðum kostnaði, svo sem þóknun talsmanns málsaðila, þar sem fram kemur kvittun eða önnur sönnun fyrir greiðslu og að þessi sönnunargögn fyrir útlögðum kostnaði fylgi kröfunni. Verði nauðsynleg gögn ekki lögð fram, þrátt fyrir áskorun nefndarinnar, áður en úrskurður er kveðinn upp í máli, er henni rétt að hafna málskostnaðarkröfu og verður sú ákvörðun ekki endurskoðuð síðar nema sérstakar aðstæður séu málsaðila til afsökunar. Meðal annars teljast ekki afsakanlegar ástæður í þessu sambandi hafi talsmaður ekki gert málsaðila reikning fyrir þjónustu sinni áður en úrskurður var kveðinn upp eða málsaðili ekki greitt umkrafinn kostnað fyrr en úrskurður lá fyrir.

Um 4. gr.

    Lögð er til breyting á 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, sem felur í sér að ekki verði fortakslaust skylt að skipa sex menn í yfirskattanefnd heldur verði opnað fyrir þann möguleika að annað hvort fimm eða sex menn starfi í nefndinni með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. Breytingin tekur einungis til nefndarmanna sem ekki hafa starfið að aðalstarfi þar sem áfram verður óbreytt að fjórir nefndarmenn skuli hafa starfið að aðalstarfi og að nefndarmenn skuli skipaðir til sex ára í senn.

Um 5. gr.

    Lögð er til sú breyting á 13. gr. laga um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, varðandi endurákvörðun vegna kæru að ákvæðið einskorðist ekki við ákvarðanir ríkisskattstjóra heldur taki einnig til ákvarðana annarra stjórnvalda sem kæranlegar eru til yfirskattanefndar.

Um 6. gr.

    Lagt er til að við ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, verði bætt tilvísun til 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. tekjuskattslaga og með því verða þau félagaform sem þar eru talin upp, þ.e. kaupfélög og önnur samvinnufélög, undanþegin staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts, til jafns við hlutafélög, af arði eða úthlutun frá félögum sem falla undir 1. tölul. sama ákvæðis tekjuskattslaga.

Um 7. gr.

    Lagt er til nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, í stað bráðabirgðaákvæðis sem fellt var brott með 12. gr. laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, nr. 140/2020. Brottfelling þess var ótímabær og hefur hið nýja bráðabirgðaákvæði verið uppfært miðað við gildandi skatthlutföll á þeim tímabilum sem það tekur til en að öðru leyti er það efnislega óbreytt.

Um 8. gr.

    Lagt er til að gjald vegna skráningar félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri verði 83.000 kr. Gjald vegna skráningar annarra félaga eða aðila sem falla undir 4. og/eða 5. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, verði síðan 25.000 kr. Um gjald vegna aukatilkynninga og skráningar breytinga á þessum félögum gildir þá einnig 8. tölul. 13. gr. laganna.

Um 9. gr.

    Lagt er til að sýslumaður taki gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs samkvæmt hjúskaparlögum, nr. 31/1993.
    Lagðar eru til breytingar, í samræmi við gengisþróun, á gjaldskrá fyrir leyfi í tengslum við viðurkenningu á hjónavígslu sem framkvæmd hefur verið erlendis.

Um 10. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þar sem nauðsynlegt er að vísun til hegningarlaga í ákvæðum skattalaga sé jafnframt tekin upp í verknaðarlýsingu í viðeigandi ákvæðum hegningarlaga, svo sem á við í þessu tilviki um 1. og 2. mgr. 262. gr. hegningarlaga í þeim tilfellum þegar um stórfelld brot er að ræða. Hér er um að ræða ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 19. gr. laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, 1. mgr. 16. gr. laga um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, 1. og 2. mgr. 13. gr. laga um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, og 1. mgr. 12. gr. laga um stimpilgjald, nr. 138/2013. Að öðru leyti fela þær breytingar sem hér eru lagðar til ekki í sér neinar efnislegar breytingar á umræddum lagaákvæðum.

Um 11. og 12. gr.

    Lagt er til að dragist lok álagningar fram yfir 1. júní eða 1. nóvember færist gjalddaginn til í samræmi við ákvæði 4. málsl. 3. mgr. 14. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Þannig verði viðmiðið „við lok álagningar“ en ekki „framlagningu álagningarskrár“ enda hefur breyting orðið á framlagningu álagningarskrár sem nú er lögð fram 15 dögum fyrir lok kærufrests, hvort heldur um er að ræða einstaklinga eða lögaðila, samkvæmt ákvæði 1. mgr. 98. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.