Ferill 706. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1185  —  706. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006 (niðurfelling ákvæða).

Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.


1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Svæðaskipting.

    Með lögum þessum er kveðið á um svæðaskiptingu Keflavíkurflugvallar.
    Um ytri mörk og innri skiptingu svæðisins í flugvallarsvæði (svæði A) og öryggissvæði (svæði B) vísast til uppdráttar í fylgiskjali sem ráðherra sem fer með mál er varða öryggissvæði birtir með auglýsingu. Áður en slík auglýsing er birt skal aflað umsagnar samgönguyfirvalda og skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar.
    Ef breyta þarf auglýstum ytri mörkum svæða skv. 2. mgr. er ráðherra heimilt að semja um slíka breytingu við hlutaðeigandi sveitarfélag.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Tilvísunin „sbr. lög nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar“ í 1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.

3. gr.

    4. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Tilvísunin „og 1. mgr. 4. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    2. málsl. 6. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um svæðaskiptingu Keflavíkurflugvallar.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2021.

8. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000: Í stað tilvísunarinnar „lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006“ í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: lög um svæðaskiptingu Keflavíkurflugvallar.
     2.      Lög um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008: 3. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Ytri mörk flugvallarsvæðisins (svæði A) og öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli (svæði B) eru afmörkuð í uppdrætti sem er fylgiskjal með auglýsingu sem ráðherra er fer með málefni öryggissvæða birtir á grundvelli laga um svæðaskiptingu Keflavíkurflugvallar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í utanríkisráðuneytinu. Það tekur mið af vinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins við að útfæra nýtt hlutverk Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) eftir að hlutverki þess við að koma fasteignum á varnarliðssvæðinu í borgaraleg not lauk með sölu á síðustu eignunum sem voru í umsýslu félagsins. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga nr. 176/2006 sem fela einkum í sér að felld eru brott lagaákvæði sem hafa ekki lengur neitt hlutverk þar sem ráðstöfunum samkvæmt þeim er lokið.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni lagasetningarinnar má rekja til þess að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. (Kadeco) hefur nú lokið þeim verkefnum (fasteignaumsýslu) sem því eru falin samkvæmt lögum nr. 176/2006. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur vinna staðið yfir við að útfæra nýtt hlutverk Þróunarfélagsins. Það mun einkum lúta að því að móta og samhæfa skipulag á svæðinu við og í kringum flugvöllinn í Keflavík í samstarfi við Isavia og sveitarfélögin þar. Með frumvarpinu er því m.a. lögð til sú breyting að felld verði úr gildi 4. gr. laga nr. 176/2006 sem fjallar um hlutverk Þróunarfélagsins samkvæmt lögunum.
    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 176/2006 kemur m.a. fram að markmið laganna sé að kveða á um skipan mála til bráðabirgða á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda og þar til varanlegri skipan væri komið á. Ytri mörk og skiptingu svæðisins í flugvallarsvæði (svæði A), öryggissvæði (svæði B) og starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. (svæði C) voru afmörkuð í fylgiskjali sem ráðherra sem fer með umbreytingu varnarsvæða í borgaraleg not (nú utanríkisráðherra) birti með auglýsingu.
    Með lögunum var þannig gert ráð fyrir framkvæmd ýmissa tímabundinna ráðstafana varðandi umbreytingu varnarsvæða í borgaraleg not sem eru nú að mestu um garð gengnar. Sérstaklega ber hér að nefna að með ákvæðum varnarmálalaga, nr. 34/2008, og lögum um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008, var mótuð lögmælt rekstrarumgjörð um málefni öryggissvæða og rekstur Keflavíkurflugvallar. Með frumvarpinu er því einnig lagt til að felld verði úr lögum nr. 176/2006 ákvæði og fyrirmæli varðandi tímabundnar ráðstafanir sem er löngu lokið. Eftir standa eitthvað breytt ákvæði 1., 2., 3. og 5. gr. laganna. Til að endurspegla réttilega efnisatriði laganna sem eftir standa er lagt til að nýtt heiti laganna verði „Lög um svæðaskiptingu Keflavíkurflugvallar“. Þá eru lagðar til breytingar á tveimur öðrum lagabálkum sem endurspegla lagahreinsunina.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að felld verði úr gildi ákvæði í lögum nr. 176/2006 varðandi umbreytingarráðstafanir sem telja verður lokið. Jafnframt er lagt til að heiti laganna verði breytt til að endurspegla efnisatriði lagaákvæðanna sem eftir standa.
    Líkt og tiltekið er hér að framan hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið unnið að því að umbreyta hlutverki Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Framvegis mun það einkum móta og samhæfa skipulag á svæðinu við og í kringum flugvöllinn í Keflavík í samstarfi við Isavia, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ.
    Fyrir liggur að land í nágrenni flugvallarins er verðmætt og fyrirséð að verðmæti þess muni aukast enn frekar. Gott skipulag er forsenda þess að hægt verði að hámarka samfélagslegan ábata af nýtingu landsins. Skipulag á svæðinu er því mikilvægur þáttur í vexti atvinnustarfsemi, sköpun starfa og almennri efnahagsþróun. Því þarf að tryggja að skipulag verði heildstætt og land verði nýtt sem best óháð mörkum skipulagssvæða sveitarfélaga og Keflavíkurflugvallar.
    Af þeim sökum hefur þróunarfélagið fengið nýtt hlutverk við að leiða formlegt samstarf ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands í eigu íslenska ríkisins við Keflavíkurflugvöll og nærsvæða hans. Samkomulag þessa efnis var undirritað 16. desember 2019 milli framangreindra aðila og ríkissjóðs og tekur efni frumvarpsins, hvað varðar hlutverk þróunarfélagsins, mið af því. Í samkomulaginu felst meðal annars að þróunarfélagið mun leiða stefnumótun og greiningu á tækifærum fyrir svæðið í heild sem auki samkeppnishæfni flugvallarins og þar af leiðandi svæðisins, auk áætlanagerðar. Að setja fram heilsteypt skipulag fyrir svæðið sem felur í sér skýra forgangsröðun uppbyggingar lands sem samkomulag aðila tekur til þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi á öllum stigum skipulags og þróunar. Að kynna og markaðssetja svæðið, að koma fram sem samningsaðili við þá sem hafa hug á fjárfestingu og uppbyggingu á svæðinu og að ráðstafa eftir atvikum lóðum og innheimtu vegna byggingarréttar og lóðarleigu að lokinni skipulagsvinnu á gagnsæjan og opinn hátt. Í ljósi þessa nýja hlutverks sem stjórnvöld ætla þróunarfélaginu er m.a. lögð til sú breyting með frumvarpinu að felld verði úr gildi 4. gr. laga nr. 176/2006 sem fjallar um hlutverk þróunarfélagsins samkvæmt lögunum. Það hlutverk á ekki lengur við þar sem tilgreindum ráðstöfunum ákvæðisins er lokið.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur að mestu leyti í sér lagahreinsun og kallar sem slíkt ekki á skoðun á samræmi við stjórnarskrá eða hvort það samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum. Þó hefur til skýrleika verið bætt við 1. gr. laganna samráðsskyldu varðandi auglýsingagerð svo og ákvæði sem heimilar ráðherra að semja við hlutaðeigandi sveitarfélag um breytingar á þegar auglýstum ytri mörkum Keflavíkurflugvallar. Nýjasta auglýsing ráðherra, sem sýnir svæðaskiptingu Keflavíkurflugvallar í svæði A, B og C er nr. 38/2007 og var birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. janúar 2007. Þá er í auglýsingu ráðherra nr. 720/2015 m.a. að finna uppfærð mörk öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli.

5. Samráð.
    Helstu hagsmunaaðilar eru sveitarfélögin í nágrenni Keflavíkurflugvallar, Isavia ohf., utanríkisráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið. Líkt og getið er um að framan tekur frumvarpið m.a. mið af samkomulagi sem helstu hagsmunaaðilar gerðu með sér 16. desember 2019. Við samningu frumvarpsins átti sér einnig stað ákveðið samráð milli ráðuneytanna auk þess sem aflað var umsagna frá Isavia ohf., Landhelgisgæslu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Frumvarpsdrögin voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á tímabilinu 20. október – 3. nóvember 2020 (mál nr. S-221/2020). Engar umsagnir bárust.

6. Mat á áhrifum.
    Hér er fyrst og fremst um að ræða brottfall lagaákvæða og ákveðnar breytingar á þeim ákvæðum laga nr. 176/2006 sem eftir standa. Ekki verður því séð að frumvarpið hafi í för með sér neinn kostnað umfram fyrirliggjandi fjárlagaheimildir utanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Breytt hlutverk Þróunarfélagsins er til þess fallið að skapa aukin fjárhagsleg og samfélagsleg verðmæti á Keflavíkursvæðinu með því að hámarka ábata af nýtingu landsins. Með samræmdu skipulagi á svæðinu verður hægt að stuðla að aukinni atvinnustarfsemi, sköpun starfa og almennri efnahagsþróun.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að 1. gr. laganna fái nýja fyrirsögn til samræmis við efnisatriði ákvæðisins. Í nýrri 1. mgr. ákvæðisins er gildissviði laganna lýst.
    Ákvæði 2. mgr. inniheldur efnisatriði 2. málsliðar 1. mgr. 1. gr. gildandi laga. Þó hefur verið gerð sú breyting að tilvísun í starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (svæði C) er felld út. Þá er í lagatextanum nú vísað til þess ráðherra sem fer með mál er varða öryggissvæði. Sú tilvísun er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 12. gr. varnarmálalaga, nr. 34/2008, sem tiltekur að ráðherra birti auglýsingu sem sýni landfræðileg mörk öryggis- og varnarsvæða. Hér er tiltekið það nýmæli að áður en slík auglýsing er birt skuli aflað umsagnar samgönguyfirvalda og skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar.
    Í 3. mgr. ákvæðisins eru einnig að finna nýmæli. Þar er tiltekið að ef breyta þurfi auglýstum ytri mörkum svæða skv. 2. mgr. laganna sé ráðherra heimilt að semja um slíka breytingu við hlutaðeigandi sveitarfélag. Athuga ber að með hliðsjón af gildandi auglýsingu ráðherra, nr. 38/2007 og 720/2015, heyrir einnig til þessa svæðis m.a. olíubirgðastöð sem og landið og helgunarsvæðið undir olíulögninni milli Helguvíkur og flugvallarsvæðisins. Ákvæði þetta er, líkt og tiltekið er í 4. kafla, sett til að auka skýrleika svo ekki fari á milli mála að bæði ráðherra og nærliggjandi sveitarfélög hafi þessa samningsheimild. Þetta skiptir m.a. máli að því leyti að breytt ytri mörk geta, að því er varðar öryggissvæði Keflavíkurflugvallar, haft í för með sér tilfærslu á skipulagsvaldi í skilningi skipulagslaga. Samningsheimildin nær til allra þeirra svæða sem afmörkuð eru í framangreindum auglýsingum.

Um 2. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á tilteknum ákvæðum laganna sem varða einkum tímabundnar ráðstafanir sem er lokið. Með a-lið er lagt til að fella niður tilvísun í lög nr. 34/2006, um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, sem fallin eru úr gildi.
    Í b-lið er lagt til brottfall 2. mgr. 2. gr. laganna sem fjalla um störf sérfræðinganefndar sem lauk störfum árið 2007.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til brottfall 4. gr. laganna sem fjallar um störf og starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. Um rök fyrir þessari breytingu er fjallað í 1. til 3. kafla greinargerðarinnar.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að fella niður tilvísunina „og 1. mgr. 4. gr.,“ í 5. gr. laganna. Þessi breyting tekur mið af því að 4. gr. laganna er felld niður með frumvarpi þessu.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að 2. málsl. 6. gr. falli brott en hann fjallar um bráðabirgðagildi reglugerða, reglna og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett voru á grundvelli laga nr. 106/1954 og laga nr. 82/2000. Þessi lög féllu úr gildi fyrir rúmum áratug og þykir ákvæðið nú óþarft.

Um 6. gr.

    Með þessu ákvæði er lagt til að lögin fái nýtt heiti svo efnisatriði laganna, sem eftir munu standa við lögfestingu frumvarpsins, séu endurspegluð réttilega.

Um 7. gr.

    Um er að ræða gildistökuákvæði þar sem lagt er til að lögin taki gildi 1. september 2021. Helgast það af því að veita þarf ákveðið ráðrúm til að hanna og gefa út nýja og endurskoðað auglýsingu um mörk flugvallarsvæðis (svæði A) og öryggissvæðis (svæði B) þar sem jafnframt verður felld niður tilvísun í starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (svæði C). Þessi mörk eru í dag útlistuð í auglýsingum ráðherra nr. 38/2007 og 720/2015. Nauðsynlegt þykir að gefa út nýja auglýsingu sem taki mið af breytingum sem boðaðar eru í frumvarpinu varðandi hagnýtingu á svæði C. Eðlilegt þykir því að gefa ákveðið ráðrúm fram að gildistöku laganna til gerðar og birtingar nýrrar auglýsingar um breytt svæðamörk.

Um 8. gr.

    Hér eru lagðar til orðalagsbreytingar á tveimur lagabálkum. Breytingarnar leiða af ákvæðum 1. gr. frumvarpsins. Annars vegar er lögð til breyting á 1. mgr. 4. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum svo ákvæðið vísi eftirleiðis í breytt heiti laga nr. 176/2006, sbr. e-lið 2. gr. frumvarpsins. Í annan stað er lögð til breyting á 3. málslið 1. mgr. 1. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. nr. 76/2008, með síðari breytingum. Sú breyting tekur mið af 1. gr. frumvarpsins og varðar annars vegar brottfall tilvísunar í starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og hins vegar tilvísun í málefnasvið ráðherra.