Ferill 708. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1187  —  708. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum
um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald
(EES-reglur, hringrásarhagkerfi).


Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Framleiðandi og innflytjandi er aðili sem:
     a.      í atvinnuskyni framleiðir, fyllir á, selur eða flytur inn og setur á markað í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð einnota plastvöru, áfyllta einnota plastvöru eða veiðarfæri úr plasti, óháð þeirri sölutækni sem er notuð, eða
     b.      í atvinnuskyni selur einnota plastvöru, áfyllta einnota plastvöru eða veiðarfæri úr plasti beint til notenda yfir landamæri.
     Veiðarfæri er hver sá hlutur eða hluti af búnaði sem er notaður við fiskveiðar eða í lagareldi til að einangra, fanga eða ala líffræðilegar auðlindir hafsins eða sem flýtur á yfirborði hafsins og er notað með það fyrir augum að laða að og fanga eða ala slíkar líffræðilegar auðlindir hafsins.

2. gr.

    Á eftir 37. gr. e laganna kemur ný grein, 37. gr. f, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á plastvörum.

    Framleiðendur og innflytjendur eftirfarandi einnota plastvara bera ábyrgð á þeim:
     a.      ílátum, með eða án loks, sem ætluð eru undir matvæli til neyslu á sölustað eða annars staðar, er jafnan neytt beint úr viðkomandi íláti og eru tilbúin til neyslu án frekari tilreiðslu, svo sem eldunar, suðu eða hitunar,
     b.      umbúðum úr sveigjanlegu efni, sem ætlaðar eru til að vefja utan um matvæli sem neytt er beint úr viðkomandi umbúðum án frekari tilreiðslu,
     c.      drykkjarílátum að rúmmáli allt að þremur lítrum, þ.m.t. lok, en undanskilin eru drykkjarílát úr gleri eða málmi sem hafa lok úr plasti,
     d.      drykkjarmálum, þ.m.t. lok,
     e.      burðarpokum úr plasti sem eru þynnri en 50 .m,
     f.      blautþurrkum til heimilis- og einkanota,
     g.      loftbelgjum og blöðrum, að undanskildum loftbelgjum til nota í iðnaði eða annarri atvinnustarfsemi og ekki eru ætlaðir til dreifingar til neytenda,
     h.      tóbaksvörum með síu og stökum síum fyrir tóbaksvörur.
    Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda sbr. 1. mgr. felst að þeir skulu fjármagna eftirfarandi fræðslu og upplýsingagjöf til notenda viðkomandi vara um:
     a.      úrgangsforvarnir, þ.m.t. um möguleika neytenda til að nota fjölnota vörur í stað einnota vara,
     b.      rétta meðhöndlun varanna þegar þær eru orðnar að úrgangi, þ.m.t. um söfnunarkerfi sem til staðar er,
     c.      áhrif þess að fleygja rusli á víðavangi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar varanna þegar þær eru orðnar að úrgangi, einkum áhrif þeirra á sjávarumhverfi, og
     d.      áhrif þess að losa vörurnar í fráveitu.
    Framleiðendum og innflytjendum skv. 1. mgr. ber jafnframt að fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sem er til komið vegna þessara vara, ásamt flutningi þess og annarri meðhöndlun í kjölfarið. Framangreind hreinsun skal vera á hendi opinberra yfirvalda, eða í þeirra umboði.
    Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda vara skv. a–e-lið og h-lið 1. mgr., felst að þeir skulu fjármagna söfnun þessara vara, þegar þær eru orðnar að úrgangi, í söfnunarkerfum sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila, þ.m.t. er kostnaður við nauðsynlega innviði, rekstur þeirra og sérstaka söfnun þegar við á samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs. Í ábyrgðinni felst jafnframt að fjármagna meðhöndlun úrgangsins í kjölfar söfnunar, í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Í tilfelli vara skv. h-lið 1. mgr. skal fjármögnun ná til uppbyggingar sérstakra innviða sem nauðsynlegir eru til fullnægjandi söfnunar þeirra vara, svo sem söfnunaríláta sem komið er fyrir á almannafæri.
    Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda vara skv. f–h-lið 1. mgr. felst að þeir skulu fjármagna öflun nauðsynlegra upplýsinga um þær vörur sem þeir setja á markað hér á landi og nauðsynlegra gagna um söfnun og aðra meðhöndlun þeirra þegar þær eru orðnar að úrgangi, ásamt öðrum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að uppfylla markmið laga þessara varðandi þessar vörur.
    Framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra úr plasti bera ábyrgð á þeim veiðarfærum úr plasti sem framleidd eru hér á landi eða flutt eru inn. Í ábyrgðinni felst að þeir skulu fjármagna sérstaka söfnun veiðarfæra úr plasti sem handhafar þeirra losa sig við í móttökuaðstöðu hafna fyrir úrgang og farmleifar frá skipum, sbr. lög um varnir gegn mengun hafs og stranda, eða í önnur sambærileg söfnunarkerfi. Í ábyrgðinni felst jafnframt að fjármagna meðhöndlun úrgangsins í kjölfar söfnunar í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra úr plasti skulu jafnframt fjármagna eftirfarandi fræðslu og upplýsingagjöf til notenda veiðarfæra úr plasti um:
     a.      úrgangsforvarnir, þ.m.t. um möguleika til endurnotkunar veiðarfæra,
     b.      rétta meðhöndlun veiðarfæra þegar þau eru orðin að úrgangi, þ.m.t. um söfnunarkerfi sem til staðar er, og
     c.      áhrif þess að losa veiðarfæri annars staðar en í viðunandi söfnunarkerfi og áhrif annarrar ófullnægjandi meðhöndlunar þeirra þegar þau eru orðin að úrgangi, einkum áhrif þeirra á sjávarumhverfi.
    Erlendum framleiðanda og innflytjanda einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra úr plasti er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa sinn hér á landi með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Framleiðandi og innflytjandi einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra úr plasti sem selur einnota plastvörur eða veiðarfæri til notenda í öðru EES-ríki skal tilnefna viðurkenndan fulltrúa í því ríki með skriflegu umboði sem skal vera ábyrgur fyrir því að uppfylla skyldur framleiðandans og innflytjandans samkvæmt lögum þessum.
    Óheimilt er að setja á markað, selja hér á landi eða taka til eigin nota í atvinnuskyni einnota plastvörur sem taldar eru upp í 1. mgr. eða veiðarfæri úr plasti nema framleiðandi og innflytjandi þeirra greiði úrvinnslugjald, sbr. lög um úrvinnslugjald. Undanskilin eru drykkjarílát skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur en í tilfelli þeirra skal framleiðandi og innflytjandi greiða skilagjald og umsýsluþóknun samkvæmt þeim lögum.
    Úrvinnslusjóður skal:
     a.      safna upplýsingum um magn einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra úr plasti sem framleidd eru eða flutt inn, um magn einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra úr plasti sem safnað er og ráðstöfun þeirra og skila þeim til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið ár, að undanskildum drykkjarílátum skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur,
     b.      stuðla að fullnægjandi fræðslu og upplýsingagjöf skv. 2. og 5. mgr. í samvinnu við Umhverfisstofnun, fullnægjandi hreinsun á rusli á víðavangi skv. 2. mgr. og fullnægjandi söfnun og meðhöndlun úrgangs skv. 3. og 5. mgr., að undanskildum ákvæðum er varða drykkjarílát skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, og
     c.      ná tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun einnota plastvara skv. 1. mgr. og veiðarfæra úr plasti, að undanskildum drykkjarílátum skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.
    Hlutafélagið sem tekur að sér umsýslu skilagjalds svo og söfnun og endurvinnslu einnota umbúða er falla undir lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur skal:
     a.      safna upplýsingum um magn einnota plastvara skv. c-lið 1. mgr. sem framleiddar eru eða fluttar eru inn, um magn einnota plastvara skv. c-lið 1. mgr. sem safnað er og ráðstöfun þeirra og skila þeim til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið ár, að því er varðar drykkjarílát sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur,
     b.      stuðla að fullnægjandi fræðslu og upplýsingagjöf skv. 2. mgr. í samvinnu við Umhverfisstofnun, fullnægjandi hreinsun á rusli á víðavangi skv. 2. mgr. og fullnægjandi söfnun og meðhöndlun úrgangs skv. 3. mgr., að því er varðar drykkjarílát skv. c-lið 1. mgr. sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, og
     c.      ná tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun einnota plastvara skv. c-lið 1. mgr., að því er varðar drykkjarílát sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur.

3. gr.

    Við 1. mgr. 51. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: hafa samstarf við Úrvinnslusjóð og Skattinn um framkvæmd eftirlits við innflutning og markaðssetningu plastvara samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI

Breyting á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.

4. gr.

    Á eftir orðunum „Markmið laga þessara er að“ í 1. gr. laganna kemur: skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis og.

5. gr.

    Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: fóðurefnis, eins og það er skilgreint í reglugerð um notkun og markaðssetningu fóðurs, sem inniheldur ekki aukaafurðir úr dýrum.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við skilgreiningu á endurnýtingu bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Endurnýting skiptist annars vegar í efnisendurnýtingu, þar á meðal undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu, þar á meðal uppvinnslu sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti.
     b.      Skilgreining á heimilisúrgangi (sorp) verður svohljóðandi: Heimilisúrgangur: úrgangur sem flokkast sem:
                  i.      blandaður úrgangur frá heimilum og úrgangur frá heimilum sem er sérstaklega safnað, þ.m.t. pappír og pappi, gler, málmar, plast, lífúrgangur, timbur, textíll, umbúðir, raf- og rafeindatækjaúrgangur, notaðar rafhlöður og rafgeymar og rúmfrekur úrgangur, þ.m.t. dýnur og húsgögn,
                  ii.      blandaður úrgangur af öðrum uppruna og úrgangur af öðrum uppruna sem er sérstaklega safnað og sem er svipaður að eðli og samsetningu úrgangi frá heimilum,
                  iii.      en þó ekki úrgangur frá framleiðslu, landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, rotþróm, fráveitukerfum, þ.m.t. seyru, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifsúrgangur.
     c.      Skilgreining á lífrænum úrgangi verður svohljóðandi: Lífrænn úrgangur: úrgangur sem er niðurbrjótanlegur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. lífúrgangur, sláturúrgangur, fiskúrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgangur, pappír og pappi, og seyra.
     d.      Skilgreining á meðferð úrgangs fellur brott.
     e.      Orðið „endurnotkun“ í skilgreiningu á meðhöndlun úrgangs fellur brott.
     f.      Við skilgreiningu á rafhlöðu eða rafgeymi bætast þrír stafliðir, svohljóðandi:
                  i.      Færanleg rafhlaða eða rafgeymir er rafhlaða, hnapparafhlaða, rafhlöðupakki eða rafgeymir sem eru innsigluð, unnt er að bera í hendi og er hvorki iðnaðarrafhlaða né iðnaðarrafgeymir né rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki.
                  ii.      Rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki er rafhlaða eða rafgeymir sem notaður er til að ræsa vél, til lýsingar eða sem kveikjubúnaður
                  iii.      Iðnaðarrafhlaða eða iðnaðarrafgeymir er rafhlaða eða rafgeymir sem er eingöngu ætlaður til notkunar í iðnaði eða til faglegrar notkunar eða sem notaður er í allar tegundir rafknúinna ökutækja.
     g.      Skilgreining á sérstakri söfnun verður svohljóðandi: Sérstök söfnun: söfnun þar sem úrgangsflokkum er haldið aðskildum eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu.
     h.      Eftirfarandi skilgreiningar bætast við greinina í viðeigandi stafrófsröð:
                  1.      Almennur úrgangur: úrgangur annar en spilliefni.
                  2.      Byggingar- og niðurrifsúrgangur: allur sá úrgangur sem til kemur vegna byggingar- og niðurrifsstarfsemi, þar á meðal vegna viðhalds og breytinga á líftíma mannvirkja, og niðurrifs þeirra. Skilgreining þessi tekur jafnframt til úrgangs sem stafar frá minni háttar byggingar- og niðurrifsstarfsemi almennings á einkaheimilum.
                  3.      Fylling: sérhver endurnýtingaraðgerð þar sem hentugur úrgangur, sem ekki er spilliefni, er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun. Úrgangur sem er notaður í fyllingar verður að koma í staðinn fyrir efni sem er ekki úrgangsefni, henta í áðurnefndum tilgangi og takmarkast við það magn sem er nauðsynlegt til að ná þessum tilgangi
                  4.      Lífúrgangur: lífbrjótanlegur garðaúrgangur, matar- og eldhúsúrgangur frá heimilum, skrifstofum, heildsölum, smásölum, veitingastöðum, mötuneytum, og veisluþjónustufyrirtækjum, og sambærilegur úrgangur frá vinnslustöðvum matvæla.
                  5.      Matarúrgangur: matvæli sem orðin eru að úrgangi.
                  6.      Matvæli: hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna, þ.m.t. neysluvatns, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við framleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.
                  7.      Rafhlöðupakki: samstæða af rafhlöðum eða rafgeymum sem eru tengd saman og/eða lokuð inni í ytra byrði og mynda fullbúna einingu sem notandanum er ekki ætlað að skipta eða opna.

7. gr.

    Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Umhverfisstofnun skal útbúa leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana.

8. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Eftirlit með svæðisáætlunum sveitarfélaga.

    Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að sveitarstjórnir gefi út svæðisáætlanir skv. 6. gr. og leggur jafnframt faglegt mat á efni þeirra og hvort þær samræmist lögum og reglum þar um.
    Ef sveitarstjórn gefur ekki út svæðisáætlun eða svæðisáætlun er ekki í samræmi við lög og reglur sendir Umhverfisstofnun ráðuneytinu ábendingu þar um.
    Ráðherra getur í kjölfar ábendingar frá Umhverfisstofnun gefið út:
     a.      leiðbeiningar um túlkun laga þessara og stjórnsýslu sveitarfélagsins á þessu sviði,
     b.      álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélagsins,
     c.      fyrirmæli til sveitarfélags um að það komi viðkomandi málum í lögmætt horf.

9. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við gerð stefna og svæðisáætlana og töku ákvarðana um fyrirkomulag við meðhöndlun úrgangs skal nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs skv. 1. mgr.

10. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrirkomulag söfnunarinnar skal stuðla að því að markmiðum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra verði náð í sveitarfélaginu, þ.m.t. töluleg markmið um endurvinnslu og endurnýtingu.

11. gr.

    Í stað orðanna „lífrænan úrgang“ í 4. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: lífúrgang.

12. gr.

    10. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Sérstök söfnun og flokkun úrgangs.

    Koma skal upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi þar sem það er nauðsynlegt til að uppfylla ákvæði 1. mgr. 11. gr. og koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Heimajarðgerð er þó heimil sem og söfnun lífúrgangs með öðrum úrgangi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 4. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 57. gr. Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Þó er heimilt að hafa sameiginlega söfnun úrgangs fyrir aðliggjandi lóðir að því tilskildu að öll söfnun úrgangs færist af viðkomandi lóðum. Enn fremur er heimilt að víkja frá ákvæði um söfnun innan lóðar þegar um er að ræða rúmfrekan úrgang, svo sem garðaúrgang, sem safnað er á söfnunar- eða móttökustöð. Sveitarfélögum er heimilt að uppfylla skyldu til sérstakrar söfnunar á gleri, málmum og textíl með söfnun í grenndargáma, að því tilskildu að það fyrirkomulag söfnunar stuðli að því að markmiðum laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim verði náð, sbr. 1. mgr. 8. gr. Sérstök söfnun á spilliefnum skal fara fram í nærumhverfi íbúa. Sveitarfélög skulu útfæra nánara fyrirkomulag sérstakrar söfnunar í samþykkt um meðhöndlun úrgangs.
    Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að veita undanþágu frá ákvæðum um sérstaka söfnun, sbr. 1. mgr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum, ásamt nánari skilyrðum sem ráðherra er heimilt að setja í reglugerð, sbr. 43. gr.:
     a.      blönduð söfnun tiltekinna tegunda úrgangs hafi ekki áhrif á möguleika til endurnýtingar þeirra úrgangstegunda og slík söfnun tryggi sambærileg gæði úrgangsins og fæst með sérstakri söfnun,
     b.      sérstök söfnun skili ekki bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið,
     c.      sérstök söfnun sé ekki tæknilega möguleg, eða
     d.      sérstök söfnun hafi í för með sér óhóflegan kostnað.
    Einstaklingum og lögaðilum er skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við ákvæði 1. mgr.
    Við meðhöndlun úrgangs skal nota samræmdar merkingar fyrir a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni, sbr. nánari ákvæði í reglugerð sem ráðherra er heimilt að setja, sbr. 43. gr.
    Rekstraraðilum er skylt að flokka rekstrarúrgang í samræmi við 1. mgr. 11. gr. Byggingar- og niðurrifsúrgangur skal flokkaður í a.m.k. eftirfarandi flokka: spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs.
    Hvorki er heimilt að urða né senda til brennslu þær úrgangstegundir sem tilgreindar eru í 1. mgr. og hefur verið safnað sérstaklega, nema þann úrgang sem eftir verður í kjölfar söfnunar sem hentar hvorki til endurnotkunar né endurvinnslu og brennsla eða eftir atvikum urðun er sá kostur sem skilar bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, sbr. 7. gr.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í því skyni skal stuðla að undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu.
     b.      2. mgr. fellur brott.

14. gr.

    Á eftir 1. mgr. 13. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sveitarstjórnir bera ábyrgð á að tölulegum markmiðum sem sett eru um heimilisúrgang og lífrænan úrgang sé náð á þeirra svæði.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Úrgangur sem hefur verið endurunninn eða farið í gegnum aðra endurnýtingaraðgerð hættir að vera úrgangur þegar hann uppfyllir þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setur í reglugerð um lok úrgangsfasa, sbr. 43. gr., í samræmi við eftirfarandi skilyrði.
     b.      Í stað orðanna „yfirleitt notuð“ í a-lið 1. mgr. kemur: ætluð til notkunar.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Einstaklingur eða lögaðili sem tekur í notkun efni eða hlut í fyrsta skipti eftir að hann hættir að vera úrgangur skv. 1. mgr. eða setur slíkt efni eða hlut á markað í fyrsta skipti skal tryggja að efnið eða hluturinn uppfylli kröfur efnalaga og viðeigandi reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Við 2. málsl. 2. mgr. bætist: og vegna uppsetningar og reksturs nauðsynlegra innviða.
     b.      Í stað 3. og 4. málsl. 2. mgr. koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Skylt er að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi er þó heimilt að færa raunkostnað á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að hringrásarhagkerfi að teknu tilliti til 3. mgr. Jafnframt er sveitarfélagi heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr.
     c.      Við 3. mgr. bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarfélag eða byggðasamlag skal árlega birta upplýsingar um innheimt gjöld og sundurliðun á raunkostnaði á vef sínum.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „fræða almenning“ í 1. mgr. kemur: og lögaðila.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Fræðsla til almennings og lögaðila.

18. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Lágmarkskröfur varðandi framlengda framleiðendaábyrgð.

    Úrvinnslusjóður, sbr. lög um úrvinnslugjald, og Endurvinnslan hf., sbr. lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, skulu fyrir hönd framleiðenda og innflytjenda uppfylla lágmarkskröfur varðandi framlengda framleiðendaábyrgð samkvæmt þessari grein.

    Framleiðendur og innflytjendur vara, sbr. lög um úrvinnslugjald og lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun vöru sem er orðin að úrgangi. Fjármögnunin skal þ.m.t. standa straum af kostnaði við sérstaka söfnun, sbr. 10. gr., sem og aðra söfnun úrgangsins eftir atvikum og meðhöndlun hans í kjölfarið, kostnaði við upplýsingasöfnun, upplýsingaskil og upplýsingagjöf.

    Úrvinnslusjóður og Endurvinnslan skulu:
     a.      ná á landsvísu tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu viðkomandi úrgangs,
     b.      safna upplýsingum um magn vara sem settar eru á markað, um magn vara sem safnað er þegar þær eru orðnar að úrgangi og ráðstöfun þeirra og skila upplýsingunum til Umhverfisstofnunar fyrir 1. apríl ár hvert fyrir undangengið almanaksár,
     c.      tryggja almenna fræðslu til almennings og lögaðila, þ.m.t. um úrgangsforvarnir og rétta meðhöndlun viðkomandi vara þegar þær eru orðnar að úrgangi, þ.m.t. um þau söfnunarkerfi sem til staðar eru, og áhrif þess að dreifa úrgangi á víðavangi,
     d.      tryggja birtingu á vef sínum upplýsingar um:
                  1.      stöðu gagnvart tölulegum markmiðum sem í gildi eru um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu viðkomandi úrgangs,
                  2.      fjárframlag sem framleiðendur eða innflytjendur hafa greitt á hverja einingu eða á hvert tonn af vöru sem sett er á markað,
                  3.      samninga við aðila um meðhöndlun úrgangs,
     e.      tryggja þjónustu um allt land og að söfnunarkerfi sé fullnægjandi,
     f.      tryggja að fjárframlög framleiðenda og innflytjenda standi í raun undir þeim kostnaði sem af viðkomandi vöru hlýst.

    Fjárframlög sem framleiðandi eða innflytjandi vöru greiðir til að uppfylla skuldbindingar sínar skulu:
     a.      aðlöguð fyrir einstakar vörur eða hópa svipaðra vara eftir því sem unnt er, einkum með því að taka tillit til endingar þeirra, möguleika á viðgerðum, endurnotkun og endurvinnslu og hvort um spilliefni er að ræða, og
     b.      ekki vera hærri en sem nemur raunkostnaði við viðkomandi þjónustu við söfnun og aðra meðhöndlun vörunnar þegar hún er orðin að úrgangi.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „rafgeymum frá heimilum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: nema drifrafhlöðum úr skráningarskyldum ökutækjum.
     b.      Á undan orðunum „rafhlöður og rafgeyma“ tvívegis í 3. mgr. kemur: færanlegar.
     c.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um þá sem selja og dreifa rafhlöðum og rafgeymum fyrir vélknúin ökutæki og drifrafhlöðum og drifrafgeymum fyrir ökutæki sem ekki eru skráningarskyld.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Framleiðendum og innflytjendum iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma, eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd, ber að taka við notuðum iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum frá notendum óháð efnasamsetningu og uppruna þeirra, þ.m.t. drifrafhlöðum og drifrafgeymum fyrir skráningarskyld ökutæki.
     b.      Í stað orðanna „til söfnunarstöðva og verslana“ í 2. mgr. kemur: skv. 33. gr.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 37. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. bætist: og að þeir séu skráðir í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda.
     b.      2. málsl. orðast svo: Eftirlit Umhverfisstofnunar felst jafnframt í að seljendur rafhlaðna og rafgeyma taki við notuðum rafhlöðum á sölu- eða dreifingarstað, sbr. 33. gr.

22. gr.

    Á eftir aa-lið 43. gr. laganna koma tveir nýir stafliðir, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því:
     bb.      undanþágur frá sérstakri söfnun úrgangs, sbr. 10. gr. og 2. mgr. 57. gr.,
     cc.      samræmdar merkingar úrgangstegunda, sbr. 10. gr.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sérstök söfnun skal vera á spilliefnum í samræmi við 1. mgr. 10. gr.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Hafi blöndun spilliefna orðið án þess að fullnægt hafi verið skilyrðum a- og b-liðar 3. mgr. skal aðskilja spilliefnin, svo fremi sem það sé tæknilega gerlegt. Sé slíkt ekki mögulegt skal tryggt að viðkomandi blanda verði færð til viðeigandi meðhöndlunar, sbr. 9. gr.

24. gr.

    1. mgr. 56. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Handhafar spilliefna, og ef við á seljendur og miðlarar spilliefna, skulu skrá í rafræna skrá Umhverfisstofnunar upplýsingar um magn, eðli og uppruna spilliefna sem falla til hjá þeim, sem þeir safna, flytja eða meðhöndla á annan hátt.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „moltugerð“ í a-lið 1. mgr. kemur: jarðgerð.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Lífúrgangi skal safnað sérstaklega, sbr. einnig 1. mgr. 10. gr., og hann meðhöndlaður í samræmi við 1. mgr. Einnig er heimilt að aðskilja lífúrgang og endurvinna á upprunastað, sbr. 4. málsl. 4. mgr. 9. gr. Heimilt er að víkja frá skyldu til sérstakrar söfnunar og safna með lífúrgangi umbúðaúrgangi sem hefur svipaða eiginleika til lífræns niðurbrots og jarðgerðar og uppfyllir viðeigandi evrópska eða íslenska staðla þar um.

26. gr.

    Við 69. gr. laganna bætist þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
     11.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs.
     12.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang.
     13.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang.

III. KAFLI

Breyting á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.

27. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Markmið laga þessara er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Jafnframt er markmið laganna að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtingu úrgangs, í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs sem fellur til og sem fer til endanlegrar förgunar og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. tölul. orðast svo: Endurnotkun: hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.
     b.      2. tölul. orðast svo: Endurnýting: aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu.
     c.      4. tölul. orðast svo: Förgun: hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.
     d.      Orðin „flokkunarmiðstöðvar og“ í 3. málsl. 5. tölul. falla brott.
     e.      8. tölul. orðast svo: Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.
     f.      Orðið „endurnotkun“ í 9. tölul. fellur brott.
     g.      Við bætast fjórir nýir töluliðir, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
                  1.      Endurvinnsla: hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efniviði en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar.
                  2.      Rafhlaða eða rafgeymir: uppspretta raforku sem myndast við beina umbreytingu efnaorku og samanstendur af einu einhlaði eða fleiri eða einu endurhlaði eða fleiri.
                  3.      Færanleg rafhlaða eða rafgeymir: rafhlaða, hnapparafhlaða, rafhlöðupakki eða rafgeymir sem eru innsigluð, unnt er að bera í hendi og er hvorki iðnaðarrafhlaða né iðnaðarrafgeymir né rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki.
                      a.      Rafhlaða eða rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki: rafhlaða eða rafgeymir sem notað er til að ræsa vél, til lýsingar eða sem kveikjubúnaður.
                      b.      Iðnaðarrafhlaða eða iðnaðarrafgeymir: rafhlaða eða rafgeymir sem er eingöngu ætlaður til notkunar í iðnaði eða til faglegrar notkunar eða sem notaður er í allar tegundir rafknúinna ökutækja.
                  4.      Rafhlöðupakki: samstæða af rafhlöðum eða rafgeymum sem eru tengd saman og/eða lokuð inni í ytra byrði og mynda fullbúna einingu sem notandanum er ekki ætlað að skipta eða opna.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     h.      Á eftir orðunum „stuðla að“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: endurnotkun efnis og hluta og.
     i.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Úrvinnslugjald á vörur skal almennt vera þrepaskipt þannig að tekið sé tillit til endingar þeirra, möguleika á viðgerðum, endurnotkun og endurvinnslu og innihalds hættulegra efna.
     j.      Á eftir orðinu „endurnýtingarstöðvar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og eftir atvikum söfnun úrgangsins.
     k.      Á eftir orðunum „standa undir“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: endurvinnslu úrgangsins, annarri.
     l.      Á eftir orðinu „pappírs-“ í 3. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar-.
     m.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Úrvinnslugjald sem lagt er á rafhlöður og rafgeyma skal standa undir greiðslum til að ná tölulegum markmiðum, sbr. 3. mgr. 15. gr., um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úrgangsins.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „pappírs-“ í 2. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar-.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Fjárhæð úrvinnslugjalds vegna rafhlaðna og rafgeyma skal taka mið af áætlun Úrvinnslusjóðs um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úrgangsins, sbr. 5. mgr. 3. gr., svo og greiðslur vegna flutnings úrgangsins innan lands.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „úrvinnslugjald“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skilagjald.
     b.      Í stað orðsins „úrvinnslugjald“ í 2. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. kemur: skilagjald eiganda; og í stað orðsins „úrvinnslugjalds“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: skilagjalds eiganda.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Greiða skal skilagjald, 20.000 kr., hverjum þeim sem afhendir gjaldskylt ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða endanlegrar förgunar, enda hafi ökutækið verið afskráð og skilagjald eigenda greitt a.m.k. einu sinni af viðkomandi ökutæki.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skilagjald á ökutæki.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Úrvinnslugjald skal leggja á hvert gjaldskylt ökutæki skv. 2. mgr. 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Gjaldið skal lagt á við innflutning ökutækisins. Um inntak úrvinnslu ökutækja skal kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrvinnslugjald á ökutæki.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. a laganna:
     a.      Á eftir orðinu „pappírs-“ í 6. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar-.
     b.      Á eftir orðinu „pappa“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: gleri, málmi, viði.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úrvinnslugjald á pappa-, pappírs-, gler-, málm-, viðar- og plastumbúðir.

34. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      5. tölul. 1. mgr. orðast svo: Rafhlöður og rafgeymar: færanlegar rafhlöður og rafgeymar, sbr. viðauka X, rafhlöður og rafgeymar fyrir vélknúin ökutæki sbr. viðauka XI, iðnaðarrafhlöður og iðnaðarrafgeymar, sbr. viðauka XI A
     b.      Í stað orðsins „gerviefnum“ í 11. tölul. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 3. mgr. kemur: plasti.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Plastvörur: sbr. viðauka XX.
     d.      Við 1. málsl. 3. mgr. bætist: og framlengdri framleiðendaábyrgð á veiðarfærum úr plasti, sbr. 37. gr. h laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
     e.      Við 4. málsl. 3. mgr. bætist: með að lágmarki 24 mánaða fyrirvara og skal uppsögn samningsins miðast við áramót.
     f.      5. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     g.      Á eftir „XI“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: XI A.
     h.      Á eftir orðinu „verslana“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: sbr. 33. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
     i.      Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Framleiðanda og innflytjanda iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem knýja skráningarskyld ökutæki er heimilt, einum sér eða í samvinnu við aðra framleiðendur og innflytjendur, að setja upp kerfi til að safna iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum um allt land og ráðstafa þeim í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Viðkomandi framleiðendur og innflytjendur geta þá fengið álagt úrvinnslugjald endurgreitt skv. 10. gr. c, að frátöldu gjaldi vegna skráningarkerfis og eftirlits Umhverfisstofnunar, í hlutfalli við ráðstafað magn af iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum. Áskilið er að viðkomandi framleiðendur og innflytjendur hafi sýnt fram á að þeir hafi safnað úrgangi um allt land og ráðstafað honum í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs og reglugerðir settar samkvæmt þeim.
     j.      Á eftir 7. mgr., sem verður 8. mgr., koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Framleiðendur og innflytjendur plastvara bera ábyrgð á þeim plastvörum sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar inn og falla undir viðauka XX. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna söfnun plastvara þegar þær eru orðnar að úrgangi, fjármagna upplýsingagjöf og fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sbr. 37. gr. h laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
                  Framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra úr plasti bera ábyrgð á þeim veiðarfærum úr plasti sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir viðauka XVII. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að þeir skulu fjármagna söfnun veiðarfæra úr plasti þegar þau eru orðin að úrgangi, fjármagna upplýsingagjöf og fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sbr. 37. gr. h laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

35. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Skatturinn annast álagningu úrvinnslugjalds af gjaldskyldum vörum í innflutningi og vegna innlendrar gjaldskyldrar framleiðslu sem og álagningu skilagjalds af ökutækjum. Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu úrvinnslugjalds og skilagjalds. Innheimt úrvinnslugjald rennur í ríkissjóð.

36. gr.

    Á eftir 10. gr. b kemur ný grein, 10. gr. c, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Endurgreiðsla úrvinnslugjalds til framleiðenda og innflytjenda iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem knýja skráningarskyld ökutæki.

    Framleiðandi og innflytjandi iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem knýja skráningarskyld ökutæki, er heimilt, einum sér eða í samvinnu með öðrum framleiðendum og innflytjendum, að setja upp kerfi til að safna drifrafhlöðum og drifrafgeymum um allt land og ráðstafa þeim með viðeigandi hætti. Viðkomandi framleiðandi og innflytjandi getur þá fengið álagt úrvinnslugjald endurgreitt, að frátöldu gjaldi fyrir skráningarkerfi og eftirlit Umhverfisstofnunar, í hlutfalli við ráðstafað magn af drifrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum sem úrvinnslugjald hefur verið greitt af.
    Aðili sem óskar endurgreiðslu skv. 1. mgr. skal tilgreina í sérstakri skýrslu til Skattsins um magn vöru og fjárhæð þess úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt af viðkomandi vöru og magn og þyngd drifrafhlaða og drifrafgeyma sem hefur verið safnað og hvar þeim var safnað, sem og magn ráðstafaðra drifrafhlaða og drifrafgeyma og staðfestingu á ráðstöfuninni. Skýrslu skal skilað eigi síðar en 15 dögum fyrir gjalddaga úrvinnslugjalds. Endurgreiðsla skal fara fram á gjalddaga, enda hafi úrvinnslugjald vegna viðkomandi tímabils verið greitt. Fjárhæð sem sótt er um endurgreiðslu á hverju sinni skal vera að lágmarki 10 þús. kr. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslu.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „úrvinnslugjald“ í 1. mgr. kemur: og skilagjalds.
     b.      Á undan 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Úrvinnslusjóður skal stuðla að hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans.
     c.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Í því skyni skal Úrvinnslusjóður með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög þessi og leggja til grundvallar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. lög um meðhöndlun úrgangs.
     d.      Á eftir orðinu „pappírs-“ í 3. mgr. kemur: gler-, málm-, viðar.
     e.      Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Jafnframt ber Úrvinnslusjóði að ná á landsvísu tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma og tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úr sér genginna, skráningarskyldra ökutækja. Enn fremur ber Úrvinnslusjóði að ná á landsvísu tölulegum markmiðum fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast.
     f.      Á eftir orðinu „úrvinnslugjalds“ í 6. mgr. kemur: og skilagjalds.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Tekjur Úrvinnslusjóðs eru fjárveiting á grundvelli fjárheimilda í lögum sem nemur tekjuáætlun fjárlaga af úrvinnslugjaldi og endurmati á tekjuáætlun úrvinnslugjalds fyrra árs. Vaxtatekjur vegna úrvinnslugjalds eru eign Úrvinnslusjóðs.
     b.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tekjur Úrvinnslusjóðs.

39. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs.
     2.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang.
     3.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang.
     4.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.

40. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, og lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Jafnframt eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum sem og varðandi skilagjald á ökutækjum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar er innleiðing á fyrrnefndum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850, (ESB) 2018/851, (ESB) 2018/852 og (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 sem ráðgert er að verði teknar upp í EES-samninginn á árinu 2021.
    Þrátt fyrir að tilskipanirnar hafi ekki enn verið teknar upp í EES-samninginn þá hafa þær verið birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og teljast EES-tækar. Rétt þykir að innleiða þær nú í ljósi þess hversu mikilvægt er að skapa sem fyrst skilyrði fyrir myndun svokallaðs hringrásarhagkerfis í íslenskri löggjöf í því skyni að ýta undir bætta endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs og draga verulega úr myndun hans.
    Tilskipanirnar eru tilkomnar í kjölfar yfirgripsmikillar endurskoðunar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á Evrópulöggjöfinni um úrgang sem hefur þann megintilgang að innleiða hringrásarhagkerfi og slíta tengslin milli hagvaxtar og myndunar úrgangs. Með þessari endurskoðun úrgangslöggjafarinnar er stefnt að því að Evrópa verði í fararbroddi í heiminum þegar kemur að úrgangsmálum og er lagt upp með að gera framleiðslu og neyslu í álfunni sjálfbæra, draga úr myndun úrgangs og varðveita auðlindir með því að halda hráefni í hringrás.

2.1 Tilskipun (ESB) 2018/850 um urðun úrgangs.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs felur í sér nokkrar breytingar á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs. Helstu breytingar sem felast í tilskipuninni eru eftirfarandi:
    Skilgreiningar tólf hugtaka eru samræmdar við þær skilgreiningar sem er að finna í rammatilskipun 2008/98/EB um úrgang.
    Gildissviði tilskipunarinnar er breytt þannig að meðhöndlun úrgangs sem fellur til við námuiðnað á landi, þ.e. við leit, nám, meðhöndlun og geymslu verðmætra jarðefna svo og við starfrækslu grjótnáma stendur nú utan gildissviðsins, að því marki sem hún fellur undir aðra löggjöf Evrópusambandsins.
    Með tilskipuninni er aðildarríkjunum gert að leggja bann við urðun úrgangs sem hefur verið safnað sérstaklega til undirbúnings fyrir endurnotkun eða til endurvinnslu. Ríkin skulu enn fremur leitast við að tryggja að frá árinu 2030 verði úrgangur sem hentar til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar ekki urðaður. Er þessu ákvæði einkum beint að heimilisúrgangi.
    Í tilskipuninni er sett nýtt markmið um að draga úr urðun heimilisúrgangs. Samkvæmt markmiðinu ber hverju aðildarríki að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að fyrir árið 2035 verði urðuð að hámarki 10% af þeim heimilisúrgangi sem fellur til í viðkomandi ríki. Ríkjum þar sem urðun heimilisúrgangs var meiri en 60% árið 2013 er veitt svigrúm til að fresta gildistöku þessa markmiðs um allt að 5 ár.
    Í tilskipuninni er kveðið á um reglur sem aðildarríkjunum ber að fylgja við útreikninga á urðunarhlutfallinu jafnframt því sem kveðið er á um eftirlit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með því að aðildarríkin nái settu markmiði.
    Ný grein um skýrslugjöf kemur í stað eldri greinar. Ekki er lengur skylda fyrir aðildarríkin að senda framkvæmdastjórninni skýrslur um innleiðingu gerðarinnar, eins og skylt hefur verið að gera á þriggja ára fresti. Á móti kemur að skýrslur yfir úrgangstölfræði eru gerðar ítarlegri og ætlar framkvæmdastjórnin að nýta þessar skýrslur ríkjanna til að hafa eftirlit með innleiðingu gerðarinnar. Er því ríkjunum nú gert að senda árlega skýrslu yfir hvernig gengur að ná því tölulega markmiði sem gerðin mælir fyrir um.
    Í nýrri grein er aðildarríkjunum gert skylt að nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að ýta undir rétta meðhöndlun úrgangs, sbr. forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs í samræmi við markmið tilskipunarinnar.

2.2 Tilskipun (ESB) 2018/851 um úrgang.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 felur í sér ýmsar breytingar á tilskipun 2008/98/EB um úrgang og ber helst að nefna eftirfarandi atriði:
    Markmiðsákvæði tilskipunarinnar er breytt þannig að tilskipuninni er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis.
    Sú skylda er lögð á aðildarríkin að nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til þeirrar forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs sem kemur fram í tilskipuninni. Við tilskipunina bætist nýr viðauki, viðauki IVa, sem inniheldur 15 dæmi um slík efnahagsleg stjórntæki og ráðstafanir. Kerfi fyrir „borgaðu þegar þú hendir“ er eitt þeirra dæma.
    Ákvæðum tilskipunarinnar um lok úrgangsfasa er breytt og skylda aðildarríkjanna til að tryggja að úrgangur sem hefur verið endurunninn eða endurnýttur hætti að vera úrgangur ef hann uppfyllir tiltekin skilyrði er gerð skýrari.
    Nýtt ákvæði kemur í stað eldra ákvæðis um endurnýtingu úrgangs þar sem undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs er gert hærra undir höfði og styður ákvæðið þannig betur við þá forgangsröðun sem er í gildi við meðhöndlun úrgangs. Þá er orðalagi ákvæðisins varðandi skyldu til sérstakrar söfnunar einstakra úrgangstegunda breytt og felldur brott fyrirvari um að sérstök söfnun eigi einungis við sé það tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt. Því er skýrara en áður var að almenna reglan felist í sérstakri söfnun. Jafnframt er sérstaklega kveðið á um það í hvaða undantekningartilvikum aðildarríkin hafa heimild til að víkja frá skyldunni um sérstaka söfnun sem þeim ber að tilkynna sérstaklega til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Að auki kveður ákvæðið á um skyldu aðildarríkja til að tryggja að úrgangur sem hefur verið safnað sérstaklega til undirbúnings fyrir endurnotkun eða til endurvinnslu endi ekki í brennslu.
    Ákvæði tilskipunarinnar um endurnotkun og endurvinnslu er breytt þannig að aðildarríkjum er nú gert skylt að gera ráðstafanir til að stuðla að og hvetja til starfsemi sem felur í sér undirbúning fyrir endurnotkun. Einnig er felldur brott fyrirvari um að sérstök söfnun úrgangs til endurvinnslu eigi einungis við sé það tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að aðildarríkin skuli koma á fót sérstakri söfnun textílúrgangs, til viðbótar við sérstaka söfnun á pappír, málmi, plasti og gleri sem var skylda samkvæmt tilskipun 2008/98/EB. Einnig skulu aðildarríkin tryggja flokkun á byggingar- og niðurrifsúrgangi. Þá eru sett fram ný markmið um endurvinnslu heimilisúrgangs þar er undirbúningur fyrir endurnotkun innifalinn sem aðildarríkjum ber að ná: að lágmarki 55% árið 2025, að lágmarki 60% árið 2030 og að lágmarki 65% fyrir árið 2035.
    Ákvæði tilskipunarinnar um kostnað við meðhöndlun úrgangs er lítillega breytt og nú er skýrt að innifalið í þeim kostnaði er uppsetning og rekstur nauðsynlegra innviða.
    Í tilskipuninni er kveðið á um að aðildarríki skuli koma á sérstakri söfnun á spilliefnum frá heimilum fyrir 1. janúar 2025. Í því felst að safna spilliefnum frá heimilum sérstaklega og koma í veg fyrir að þau blandist öðrum úrgangi.
    Í tilskipuninni kemur nýtt ákvæði um lífrænan úrgang í stað eldra ákvæðis. Fram til þessa hefur íslensk þýðing á enska hugtakinu bio-waste útlagst sem lífrænn úrgangur en nú verður sú breyting á íslenska hugtakinu að það verður skilgreint sem lífúrgangur. Í ákvæði tilskipunarinnar er aðildarríkjum gert að tryggja að lífúrgangur sé annaðhvort aðskilinn og endurunninn á upprunastað eða honum sé sérstaklega safnað þannig að hann blandist ekki öðrum úrgangi. Þó er heimilað að safna með lífúrgangi öðrum úrgangi sem hefur sambærilega eiginleika við lífrænt niðurbrot og myltingu og lífúrgangur hefur. Aðildarríkjunum er enda gert skylt að grípa til ráðstafana sem hvetja til endurvinnslu lífúrgangs yfir í hágæða afurðir og styðja við notkun afurða úr lífúrgangi. Aðildarríkjunum er einnig gert að hvetja til heimajarðgerðar.
    Ákvæði tilskipunarinnar um skráningar á spilliefnum er breytt og nú er kveðið á um að handhafar spilliefna skuli skrá upplýsingar í rafrænt skráningarkerfi um magn, eðli og uppruna spilliefna sem falla til hjá þeim sem þeir safna, flytja eða meðhöndla á annan hátt. Skyldan til að setja upp slíkt skráningarkerfi hvílir á aðildarríkjum.
    Í tilskipuninni er sett fram nýtt ákvæði sem kveður á um almennar lágmarkskröfur sem gerðar eru til kerfa sem byggjast á framlengdri framleiðendaábyrgð en það eru kerfi ráðstafana til að tryggja að framleiðendur vöru beri fjárhagslega ábyrgð, eða fjárhags- og skipulagslega ábyrgð, á meðhöndlun vörunnar þegar hún er orðin að úrgangi. Kröfurnar gilda hvort tveggja um ný kerfi og um kerfi sem þegar voru til staðar við gildistöku tilskipunarinnar. Úrvinnslusjóður, sem settur var á fót með lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, telst til kerfis sem byggist á framlengdri framleiðendaábyrgð. Um kerfi sem voru til staðar við gildistöku tilskipunarinnar, líkt og Úrvinnslusjóður, gildir að aðildarríkjum ber að tryggja að þau uppfylli kröfurnar eigi síðar en 5. janúar 2023.

2.3 Tilskipun (ESB) 2018/852 um umbúðir og umbúðaúrgang.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang felur í sér ýmsar breytingar á tilskipun 94/62/EB. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
    Skilgreiningar á 12 hugtökum eru samræmdar við þær skilgreiningar sem er að finna í tilskipun 2008/98/EB um úrgang auk þess er tveimur nýjum skilgreiningum bætt við, þ.e. fyrir endurnotanlegar umbúðir og samsettar umbúðir.
    Grein um úrgangsforvarnir er breytt og og skerpt á áherslu á að draga úr myndun umbúðaúrgangs og draga úr umhverfisáhrifum af völdum umbúða. Jafnframt er aðildarríkjunum gert skylt að nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að ýta undir rétta meðhöndlun umbúðaúrgangs, sbr. forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs.
    Ný grein um endurnotkun kemur í stað eldri greinar. Þar er aðildarríkjunum gert að grípa til ráðstafana til að auka hlut endurnotanlegra umbúða á markaði og efla kerfi sem þjónusta slíkar umbúðir. Dæmi um slíkar ráðstafanir eru uppsetning skilakerfa, setning tölulegra markmiða, notkun efnahagslegra stjórntækja og ákvörðun lágmarkshlutfalls endurnotanlegra umbúða á markaði. Veitt er sérstök heimild til að nýta hlutfall endurnotanlegra umbúða á markaði til að lækka hin nýju endurvinnslumarkmið sem sett eru í tilskipuninni fyrir árin 2025 og 2030. Að hámarki getur sú lækkun numið 5 prósentustigum af hverju markmiði.
    Í gerðinni eru sett ný markmið fyrir endurvinnslu umbúðaúrgangs sem aðildarríkjunum ber að ná. Um er að ræða annars vegar markmið sem á að ná fyrir árslok 2025 og hins vegar markmið sem á að ná fyrir árslok 2030. Fyrir árslok 2025 ber að endurvinna a.m.k. 65% af öllum umbúðaúrgangi. Til viðbótar eru sett sérstök markmið fyrir endurvinnslu umbúðaúrgangs úr tilteknum efnum: 50% fyrir plast, 25% fyrir við, 70% fyrir járnríkan málm, 50% fyrir ál, 70% fyrir gler og 75% fyrir pappír og pappa. Fyrir árslok 2030 ber að endurvinna a.m.k. 70% af öllum umbúðaúrgangi og markmið fyrir endurvinnslu umbúðaúrgangs úr tilteknum efnum eru: 55% fyrir plast, 30% fyrir við, 80% fyrir járnríkan málm, 60% fyrir ál, 75% fyrir gler og 85% fyrir pappír og pappa. Þeim aðildarríkjum sem telja sig þess þurfa er heimilt að fresta gildistöku framangreindra markmiða fyrir umbúðaúrgang úr tilteknum efnum um allt að fimm ár.
    Í tilskipuninni er kveðið er á um reglur sem aðildarríkjunum ber að fylgja við útreikninga á endurvinnsluhlutföllum fyrir umbúðaúrgang og kveðið á um eftirlit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með því að aðildarríkin nái settum markmiðum.
    Ný grein um skilagjalds-, söfnunar- og endurnýtingarkerfi kemur í stað eldri greinar. Þar er helsta breytingin sú að fyrir árslok 2024 ber aðildarríkjunum að taka upp framlengda framleiðendaábyrgð fyrir allar umbúðir.
    Fyrirséð er að ákvæði tilskipunar 94/62/EB er varða hámarksstyrk þungmálma í umbúðum geti ekki gilt að öllu leyti um umbúðir úr endurunnu efni og því er framkvæmdastjórninni gert að setja framseldar gerðir til útfærslu skilyrða er slík tilfelli verðar.
    Greinum um skýrslugjöf er breytt. Ekki er lengur skylda fyrir aðildarríkin að senda framkvæmdastjórninni skýrslur um innleiðingu gerðarinnar, eins og skylt hefur verið að gera á þriggja ára fresti. Á móti kemur að skýrslur yfir umbúðatölfræði eru gerðar ítarlegri og ætlar framkvæmdastjórnin að nýta þessar skýrslur ríkjanna til að hafa eftirlit með innleiðingu gerðarinnar. Er því ríkjunum nú gert að senda árlega skýrslu yfir hvernig gengur að ná þeim endurvinnslumarkmiðum sem gerðin mælir fyrir um og að senda jafnframt tölulegar upplýsingar um magn endurnotanlegra umbúða sem settar eru á markað. Þetta er nýmæli. Skal framkvæmdastjórnin setja sérstaka framkvæmdargerð sem mælir fyrir um það form sem ber að fylgja við skýrslugjöfina.

2.4 Tilskipun (ESB) 2019/904 um plastvörur.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið er ný af nálinni og er ætlað að koma í veg fyrir og draga úr umhverfisáhrifum tiltekinna plastvara og áhrifum þeirra á heilsu fólks. Ákvæðum tilskipunarinnar er fyrst og fremst beint að þeim plastvörum sem finnast helst á ströndum en mælingar hafa sýnt að rusl á ströndum í Evrópu er 80–85% plast og þar af eru einnota plastvörur 50% og hlutir tengdir veiðum 27%. Tilskipuninni er ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og fjölnota vara fremur en einnota vara.
    Hluti tilskipunarinnar hefur verið innleiddur með breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, sbr. lög nr. 90/2020 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þau atriði tilskipunarinnar sem ekki voru hluti af framangreindri innleiðingu eru eftirfarandi:
    Ákvæði er snúa að því að aðildarríki tryggi ábyrgð framleiðenda á tilteknum plastvörum sem taldar eru upp í tilskipuninni. Má þar nefna veiðarfæri úr plasti, tiltekin matarílát og umbúðir utan um matvæli, drykkjarílát, burðarpoka, blautþurrkur, blöðrur og tóbaksvörur með síum. Framleiðendaábyrgð felur í sér að framleiðendur skuli standa straum meðal annars af kostnaði við söfnun og aðra meðhöndlun vara sem þeir framleiða, þegar þeim hefur verið hent, kostnaði við að hreinsa upp rusl sem og kostnaði við gagnasöfnun og skýrslugjöf.

2.5 Framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum og skilagjald á ökutækjum.
    Á undanförnum misserum hefur orðið aukning í innflutningi á vélknúnum ökutækjum til landsins sem nota drifrafhlöður til að knýja ökutækin og stefnir í enn frekari innflutning slíkra ökutækja á næstu árum. Um er að ræða vélknúin ökutæki hvort sem þau eru skráningarskyld eða ekki. Hingað til hefur ekki verið lagt á sérstakt úrvinnslugjald á iðnaðarrafhlöður og iðnaðarrafgeyma (þar á meðal drifrafhlöður). Í janúar 2020 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að móta tillögu að útfærslu á framkvæmd framleiðendaábyrgðar á rafhlöðum og rafgeymum sem notuð eru til að knýja ökutæki áfram, í samræmi við tilskipun 2006/66/EB. Í hópnum sátu auk fulltrúa ráðuneytisins fulltrúar tilnefndir af Úrvinnslusjóði, Umhverfisstofnun, Samtökum verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandinu og félagi atvinnurekenda. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra í júlí 2020 og byggjast ákvæði frumvarpsins um drifrafhlöður á þeirri vinnu, en einnig fór fram frekara samráð við Úrvinnslusjóð og hagsmunaaðila við vinnslu frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er gerð tillaga að útfærslu á framkvæmd framleiðendaábyrgðar á iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarafgeymum sem notaðir eru til að knýja ökutæki í samræmi við tilskipun nr. 2006/66/EB með greiðslu úrvinnslugjalds með möguleika á endurgreiðslu að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá er gerð tillaga að því að gera breytingar á ákvæðum um úrvinnslugjald og skilagjald á ökutæki þannig að gerður er greinarmunur á annars vegar úrvinnslugjaldi sem innheimt skal við innflutning ökutækja sem nær þá til ábyrgðar framleiðenda á úrvinnslu ökutækis og hins vegar á skilagjald á skráningarskyld ökutæki sem innheimt eru reglulega af skráðum eigendum ökutækja, sem eiga rétt á að fá greitt skilagjald fyrir ökutæki þegar þeim er skilað á móttökustöð til endurnýtingar eða förgunar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Efni frumvarps þessa er eins og áður segir að mestu tilkomið vegna innleiðingar á fjórum tilskipunum (ESB). Jafnframt eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð vegna rafhlaðna og rafgeyma og skilagjaldi á ökutækjum.

3.1. Innleiðing tilskipunar (ESB) 2018/850 um urðun úrgangs.
    Vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs er í frumvarpinu lagt til að meginreglan verði sú að óheimilt verði að urða úrgang sem hefur verið safnað sérstaklega til undirbúnings fyrir endurnotkun og til endurvinnslu. Er þetta í samræmi við markmið tilskipunarinnar um að draga úr urðun úrgangs, sér í lagi úrgangs sem hentar til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar sem styður við innleiðingu hringrásarhagkerfis.

3.2. Innleiðing tilskipunar (ESB) 2018/851 um úrgang.
    Í þeim tilgangi að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á markmiðsákvæði laga um meðhöndlun úrgangs og að auki lagðar til nýjar eða breyttar skilgreiningar á nokkrum hugtökum laganna. Þá er lögð til breyting á ákvæði laganna um endurnýtingu þannig að kveðið verði á um að stuðlað skuli að undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs. Lagt er til að komið verði á skyldu til sérstakrar söfnunar fleiri úrgangstegunda en í gildandi lögum sem og skyldu til flokkunar einstaklinga og lögaðila á þeim úrgangstegundum ásamt því að skylt verði að nota samræmdar merkingar vegna úrgangs. Jafnframt er lagt til að skylt verði að flokka rekstrarúrgang, þ.m.t. byggingar- og niðurrifsúrgang. Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að meginreglan verði sú að óheimilt verði að senda úrgang úr sérstakri söfnun til brennslu eða urðunar. Þá eru lagðar til breytingar sem varða heimildir sveitarfélaga til innheimtu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, meðal annars að sveitarfélögum verði skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu.

3.3. Innleiðing tilskipunar (ESB) 2018/852 um umbúðir og umbúðaúrgang.
    Í þeim tilgangi að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang eru lagðar til breytingar á lögum um úrvinnslugjald til þess að taka upp framlengda framleiðendaábyrgð fyrir allar umbúðir. Í frumvarpinu er lagt er til að úrvinnslugjald verði lagt á gler-, málm- og viðarumbúðir.

3.4. Innleiðing tilskipunar (ESB) 2019/904 um plastvörur.
    Í því skyni að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um úrvinnslugjald. Lagt er til að framleiðendur beri ábyrgð á tilteknum plastvörum sem taldar eru upp í tilskipuninni. Má þar nefna veiðarfæri úr plasti, tiltekin matarílát og umbúðir utan um matvæli, drykkjarílát, burðarpoka, blautþurrkur, blöðrur og tóbaksvörur með síum. Framleiðendaábyrgðin felur í sér að framleiðendur skuli standa straum meðal annars af kostnaði við söfnun og aðra meðhöndlun vara sem þeir framleiða þegar þeim hefur verið hent, kostnaði við að hreinsa upp rusl sem og kostnaði við gagnasöfnun og skýrslugjöf.

3.5. Framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum og skilagjald á ökutækjum.
    Í þeim tilgangi að útfæra framkvæmd framleiðendaábyrgðar á iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum sem notuð eru til að knýja ökutæki í samræmi við tilskipun nr. 2006/66/EB eru lagðar til breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs um að sérhver framleiðandi iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma skuli vera skráður í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda hjá Umhverfisstofnun eins og verið hefur með aðrar tegundir rafhlaðna og rafgeyma. Þá er lagt til að sú regla sem í gildi er, að á söfnunarstöðvum sveitarfélaga og á sölu- eða dreifingarstað ber sveitarfélögum og seljendum rafhlaðna og rafgeyma að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum gjaldfrjálst, nái einnig til drifrafhlaðna fyrir ökutæki sem ekki eru skráningarskyld. Um drifrafhlöður fyrir skráningarskyld ökutæki er lagt til að framleiðendum og innflytjendum, eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd, beri að taka við notuðum iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum gjaldfrjálst frá notendum óháð efnasamsetningu og uppruna þeirra. Þá er skilgreining á rafhlöðu og rafgeymi gerð ítarlegri sbr. tilskipunina og greinist nú í þrjá flokka, (1) færanleg rafhlaða eða rafgeymir, (2) rafhlaða og rafgeymir fyrir vélknúin ökutæki og (3) iðnaðarrafhlaða eða iðnaðarrafgeymir (sem á við um drifrafhlöður).
    Þá eru einnig lagðar til breytingar á lögum um úrvinnslugjald. Fyrirkomulagið skal sjá til þess að framleiðendur, eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd, standi undir hreinum kostnaði sem hlýst af söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu allra notaðra iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem safnað er, og gildir um allar notaðar rafhlöður og rafgeyma án tillits til þess hvaða dag þær voru settar á markað. Markmiðið er að tryggja að ábyrgð á úrvinnslu drifrafhlaðna sé framleiðenda, að tryggja viðeigandi meðhöndlun drifrafhlaðna að lokinni notkun og að jafnræði ríki á markaði þegar kemur að ábyrgð og meðhöndlun. Úrvinnslusjóði er falið það hlutverk að innheimta úrvinnslugjald af iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum við innflutning. Hægt verður að sækja um endurgreiðslu gjaldsins að tilteknum skilyrðum uppfylltum ef framleiðendur eða þriðju aðilar fyrir þeirra hönd safna og kosta úrvinnsluna að hluta eða öllu leyti. Með greiðslu úrvinnslugjalds til Úrvinnslusjóðs við innflutning ökutækis með drifrafhlöðu tekur Úrvinnslusjóður yfir skyldur framleiðenda varðandi söfnun, meðhöndlun og endurvinnslu viðkomandi drifrafhlöðu og sér um að greiða þann kostnað sem fellur undir ábyrgðina. Ef framleiðendur hafa hins vegar hug á að sjá sjálfir um framkvæmd framleiðendaábyrgðar á drifrafhlöðum sem þeir framleiða þá er þeim gert kleift að gera það með endurgreiðslu úrvinnslugjalds, að frátöldu gjaldi fyrir skráningarkerfi og eftirlit, ef framleiðandi safnar drifrafhlöðum um allt land og ráðstafar þeim með viðeigandi hætti, með vísan til eðlislíkrar heimildar til endurgreiðslu úrvinnslugjalds af raf- og rafeindatækjum sbr. 10. gr. b. laga um úrvinnslugjald.
    Úrvinnslugjald hefur hins vegar verið lagt á eigendur skráningarskyldra ökutækja. Ekki hafa þó verið gerð skýr skil á milli framleiðendaábyrgðar á úrvinnslu ökutækis í formi úrvinnslugjalds á framleiðendur ökutækja og úrvinnslugjalds sem innheimt hefur verið af eigendum ökutækja, sem hefur að hluta til verið grundvöllur að skilagjaldi á ökutæki. Gerð er tillaga að því að gera breytingar á inntaki ákvæða um úrvinnslugjald á ökutæki samkvæmt lögum um úrvinnslugjald. Þannig er gerður greinarmunur á annars vegar úrvinnslugjaldi sem innheimt skal við innflutning ökutækja sem nær þá til ábyrgðar framleiðenda á úrvinnslu ökutækis og hins vegar á skilagjald á skráningarskyld ökutæki sem innheimt eru reglulega af skráðum eigendum ökutækja, sem eiga rétt á að fá greitt skilagjald fyrir ökutæki þegar þeim er skilað á móttökustöð til endurnýtingar eða förgunar. Úrvinnslugjaldi á framleiðendur er því ætlað að standa undir móttöku, endurnýtingu og förgun ökutækisins en skilagjaldinu er ætlað að mynda hvata fyrir eigendur ökutækja að koma þeim í rétta meðhöndlun þegar líftíma ökutækis er lokið, eins og verið hefur.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og er það sett fram til að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Frumvarpið hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Áform um lagasetningu og mat á áhrifum frumvarps til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs fóru í samráðsgátt Stjórnarráðsins 11. október 2019 (mál S-251/2019) og var umsagnarfrestur til 25. október 2019. Drög að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt Stjórnarráðsins þann 20. desember 2019 (mál 329/2019) og það einnig sent tilteknum aðilum til athugasemda, þ.e. Úrvinnslusjóði, Endurvinnslunni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi atvinnurekenda og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin var til 16. janúar 2020. Níu umsagnir bárust, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sorpu, Umhverfisstofnun, umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Bláskógabyggð, Pure North Recycling, sameiginleg umsögn frá Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum atvinnulífsins og ein umsögn frá einstaklingi. Áformað var að leggja frumvarpið fram á Alþingi vorið 2020 en málinu var frestað sökum heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Við undirbúning á frumvarpi þessu hefur verið höfð hliðsjón af framangreindum umsögnum sem bárust um frumvarpið í janúar 2020. Ráðuneytið hefur jafnframt fundað með Sambandi íslenskra sveitarfélaga um helstu efnisatriði frumvarpsins. Þá var frumvarpið sent í forsamráð þann 5. janúar 2021 til Umhverfisstofnunar, Úrvinnslusjóðs, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Drög að frumvarpinu fór í samráðsgátt 15. janúar 2021 (mál S-11/2021) og var umsagnarfrestur til 4. febrúar 2021. Alls bárust 19 umsagnir um frumvarpið, meðal annars frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Umhverfisstofnun og Landvernd. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu athugasemdum við frumvarpið og hvort þær hafi leitt til breytinga á frumvarpinu.

5.1. Gildistaka.
    Í umsögnum um frumvarpið koma fram ábendingar um að gildistaka frumvarpsins þann 1. júlí 2021 sé nokkuð brött og að gefa þurfi rýmri tíma til þess að innleiða þær breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér. Mikilvægt er að lögfesta fyrirhugaðar breytingar sem fyrst og innleiða þær á komandi árum. Af þeim sökum er lagt til að gildistökuákvæði frumvarpsins verði breytt og lagt til að gildistaka verði 1. janúar 2023. Ráðherra mun skipa stýrihóp með fulltrúum frá ríki, sveitarfélögum, atvinnulífi, frjálsum félagasamtökum og öðrum mögulegum haghafa sem mun meðal annars fá það hlutverk að undirbúa innleiðingu og framkvæmd fyrirhugaðra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu.

5.2. Sérstök söfnun.
    Í umsögnum um frumvarpið er gagnrýnt að sérstök söfnun á pappír og pappa, lífúrgangi og plasti skuli eiga að fara fram innan lóðar í þéttbýli hjá íbúðarhúsnæði og lögaðilum. Fram kemur að slík söfnun sé kostnaðarsöm og að nægjanlegt sé að söfnunin fari fram á söfnunar- og/eða móttökustöðvum. Ekki var talin ástæða til breyta þessu ákvæði. Markmiði um 50% endurvinnslu heimilisúrgangs árið 2020 hefur ekki verið náð enn sem komið er og á komandi árum mun framangreint markmið verða hækkað í 65%. Ljóst er að auka þarf flokkun heimilisúrgangs og því er lagt til að auka flokkun á slíkum úrgangi í þéttbýli með sérstakri söfnun innan lóðar. Með hliðsjón af framkomnum umsögnum voru þó gerðar tvær breytingar á frumvarpinu varðandi sérstaka söfnun. Annars vegar var gerð breyting varðandi rúmfrekan úrgang. Í umfjöllun um 12. gr. í greinargerð kemur fram að sérstök söfnun innan lóðar feli ekki í sér skyldu fyrir sveitarfélög til þess að safna rúmfrekum úrgangi innan lóðar, svo sem garðaúrgang. Frumvarpinu var breytt á þá leið að þessi skilningur komi fram í frumvarpsgrein, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Hins vegar var gerð breyting varðandi undantekningu á sérstakri söfnun innan lóðar þegar um er að ræða aðliggjandi lóðir. Í undantekningartilvikum er hægt að færa sérstaka söfnun út fyrir lóð og koma upp sameiginlegri aðstöðu fyrir aðliggjandi lóðir.

5.3. Gjaldtaka sveitarfélaga.
    Í umsögnum um frumvarpið eru gerðar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á gjaldtöku sveitarfélaga en í frumvarpinu er lagt til að fella niður heimild sveitarfélaga til að miða gjaldtöku við fast gjald á hvert heimili. Til að koma á móts við þær athugasemdir var gerð sú breyting að sveitarfélögum verður áfram heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins við söfnun og meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er lagt til að sveitarfélagi verði heimilt að færa raunkostnað á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að hringrásarhagkerfi. Með því móti geta sveitarfélög hvatt til aukinnar endurvinnslu með því að færa kostnað vegna söfnunar og annarrar meðhöndlunar endurvinnsluefna yfir á gjaldtöku vegna blandaðs úrgangs.

5.4. Samningur um veiðarfæri úr gerviefnum/plasti.
    Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka félaga í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu er lagst gegn breytingum frumvarpsins varðandi heimild Úrvinnslusjóðs að segja upp samningi vegna veiðarfæra úr gerviefnum/plasti án þess að fyrir liggi sérstakt samningsbrot. Samkvæmt lögum um úrvinnslugjald er Úrvinnslusjóði heimilt að gera samning vegna veiðarfæra úr gerviefnum og er slíkur samningur háður staðfestingu ráðherra. Í lögum um úrvinnslugjald er hvorki kveðið nánar um hvert efni slíks samnings skuli vera né tímalengd slíks samningsins. Af þeim sökum er talið eðlilegt að gagnkvæmt uppsagnarákvæði gildi gagnvart báðum samningsaðilum. Hins vegar er rétt að lengja uppsagnarfrestinn í að lágmarki 24 mánuði í ljósi þeirra skuldbindinga sem felast í slíkum samningi.

5.5. Framleiðendaábyrgð.
    Í umsögnum um frumvarpið er bent á að skýra mætti betur hvað framleiðendaábyrgð felur í sér. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur meðal annars fram að tryggja ætti að framleiðendaábyrgð skuli standa undir allri meðhöndlun viðkomandi vara frá því að þær verða að úrgangi. Einnig að skýrt sé hvaða útgjöldum sveitarfélaga, við söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs, framleiðendaábyrgð sé ætlað að standa undir. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka félaga í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu kemur fram að ekki sé að finna í frumvarpinu afmörkun á þeim kostnaðarþáttum sem framleiðendaábyrgð sé ætlað að standa undir og sveitarstjórnir taka ákvarðanir um. Slíkt fyrirkomulag geti í raun að mati samtakanna gert sveitarstjórnum kleift að ráðast í verkefni í úrgangsmálum á kostnað framleiðenda og innflytjenda án aðkomu þeirra. Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs skal sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í viðkomandi sveitarfélagi. Þá bera sveitarstjórnir ábyrgð á flutningi á heimilisúrgangi. Með frumvarpinu eru ekki gerðar breytingar á framangreindum skyldum sveitarfélaga. Hins vegar er lagt til að kveðið verði nánar á um fyrirkomulag söfnunar, meðal annars gerð krafa um sérstaka söfnun í þéttbýli. Jafnframt er gert ráð fyrir að breytingar verði gerðar á úrvinnslugjaldi þannig að það taki jafnframt mið af kostnaði við söfnun úrgangsins. Við ákvörðun á fjárhæð úrvinnslugjalds af plastumbúðum þarf að taka mið af því að það þarf að standa undir kostnaði við af safna plastumbúðum innan lóðar í þéttbýli sem og meðhöndlun þeirra í kjölfarið. Almennt er gert ráð fyrir að sveitarfélög muni halda áfram að bjóða út söfnun úrgangs í viðkomandi sveitarfélagi. Viðkomandi sveitarfélag mun innheimta kostnað við söfnunina að hluta til beint frá íbúum annars vegar og hins vegar mun framleiðendaábyrgð greiða fyrir söfnunina að hluta. Í ljósi þess að sveitarfélög ákveða fyrirkomulag söfnunar en framleiðendur og innflytjendur muni bera hluta af þeim kostnaði er lagt til að auka aðgengi að upplýsingum um kostnað og tekjur sveitarfélaga við söfnun og meðhöndlun úrgangs. Í frumvarpinu er lagt til að sveitarfélög skuli gera upplýsingar um kostnað og tekjur vegna söfnunar og meðhöndlunar úrgangs aðgengilegar.

5.6. Söfnun á víðavangi.
    Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka félaga í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu kemur fram að óljóst sé hvað felist í skyldu framleiðenda og innflytjenda varðandi söfnun á víðavangi, t.d. hvernig framkvæmd ákvæðisins verði. Þá sé einnig óljóst hvernig fjármögnun hreinsunar á rusli á víðavangi eigi að hvetja til þess að handhafi úrgangs skili honum á réttan stað. Í frumvarpinu er lagt til að Úrvinnslusjóður skuli tryggja almenna fræðslu til almennings og lögaðila, þ.m.t. um úrgangsforvarnir og um rétta meðhöndlun viðkomandi vara þegar þær eru orðnar að úrgangi og áhrif þess að dreifa úrgangi á víðavangi. Þá er lagt til að framleiðendur tiltekinna plastvara og veiðarfæra úr plasti fjármagni hreinsun á víðavangi. Verði frumvarpið að lögum verður það hlutverk Úrvinnslusjóðs að útfæra nánar þessi ákvæði og finna hagkvæmar leiðir til þess að ákvæðin komi til framkvæmda. Ekki þykir rétt á þessu stigi að kveða nánar á um hvernig fyrirkomulagið skuli nákvæmlega vera heldur lagt til að Úrvinnslusjóði verði falið það verkefni.

5.7. Álitamál varðandi tekjur Úrvinnslusjóðs.
    Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka félaga í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu var vikið að álitaefni sem hefur verið upp varðandi tekjur Úrvinnslusjóðs. Við gildistöku laga um opinber fjármál tóku tekjur af úrvinnslugjaldi að renna í ríkissjóð og á móti er Úrvinnslusjóði veitt fjárframlag á grundvelli fjárheimilda í fjárlögum hvers árs. Að mati samtakanna byggist tekjustreymi sjóðsins ekki lengur á hreinni tekjuöflun fráinnflytjendum og framleiðendum samkvæmt ákvæðum laga um úrvinnslugjald heldur á stjórnmálalegri ákvarðanatöku um forgangsröðun framlaga til ríkisverkefna. Lagðar eru til breytingar á frumvarpinu til þess að koma til móts við ábendingar varðandi tekjur Úrvinnslusjóðs.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarp þetta mun hafa áhrif á almenning, stofnanir, sveitarstjórnir og fyrirtæki í landinu.
    Markmið með frumvarpinu er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs sem og að leggja bann við urðun úrgangs sem hefur verið safnað sérstaklega til undirbúnings fyrir endurnotkun, endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar.
    Frumvarpið mun hafa óveruleg áhrif á Umhverfisstofnun hvað varðar eftirlit með svæðisáætlunum sveitarfélaga, umsjón með fræðslu til lögaðila og umsýslu vegna rafræns skráningarkerfi fyrir spilliefni og rúmast framangreind verkefni innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar. Gera má ráð fyrir einskiptiskostnaði við uppsetningu rafræns skráningarkerfis fyrir spilliefni en nákvæmt kostnaðarmat liggur ekki fyrir.
    Frumvarpið mun hafa í för með sér að einstaklingum og lögaðilum verður gert skylt að flokka heimilisúrgang, sem er lykilatriði til að auka endurvinnslu heimilisúrgangs, sem og að þeir geti losað sig við tiltekna úrgangsflokka við íbúðarhús sín eða atvinnuhúsnæði. Þá verður lögaðilum jafnframt gert skylt að flokka rekstrarúrgang sem mun t.d. hafa áhrif á fyrirtæki sem flokka byggingar- og niðurrifsúrgang á framkvæmdasvæðum.
    Frumvarpið mun hafa áhrif á atvinnulífið þar sem gert er ráð fyrir skyldu til sérstakrar söfnunar einstakra úrgangstegunda. Sérstök söfnun hefur í för með sér aukna flokkun sem kallar á aukna þjónustu sem mun hafa áhrif á fyrirtæki sem sinna sorphirðu.
    Frumvarpið mun hafa áhrif á sveitarfélög, meðal annars vegna ákvæða um sérstaka söfnun og flokkun úrgangs á tilteknum úrgangsflokkum að lágmarki. Lagt er til að sveitarfélögum verði skylt að viðhafa sérstaka söfnun á tilteknum úrgangstegundum við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Með frumvarpinu verður sveitarfélögunum enn fremur heimilt að innheimta gjald vegna uppsetningar og reksturs nauðsynlegra innviða í tengslum við meðhöndlun úrgangs auk þess sem þeim verður skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu.
    Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs bera sveitarstjórnir ábyrgð á fyrirkomulagi söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi. Frumvarpið mun hafa áhrif á sveitarfélög, meðal annars vegna ákvæða um sérstaka söfnun og flokkun úrgangs á tilteknum úrgangsflokkum að lágmarki. Á það einkum við í þéttbýli þar sem lagt er til í frumvarpinu að sérstök söfnun skuli vera á lífúrgangi, pappa og pappír og plasti við íbúðarhús sem og hjá lögaðilum í þéttbýli. Jafnframt verða gerðar breytingar á lögum um úrvinnslugjald sem fela í sér að úrvinnslugjald skuli vera notað til þess að greiða kostnað við sérstaka söfnun úrgangs.
    Ljóst er að frumvarpið mun hafa kostnaðaráhrif í för með sér. Hver endanleg kostnaðaráhrif verða veltur á því hvaða fyrirkomulag við söfnun úrgangs verður fyrir valinu af hálfu sveitarfélaga og hvernig framkvæmd sérstakrar söfnunar af hálfu Úrvinnslusjóðs verður háttað. Ýmsar leiðir við söfnun úrgangs eru í boði, þó mishagkvæmar. Ljóst er að tækifæri eru til þess að draga verulega úr væntanlegum kostnaði með hagkvæmum lausnum, útboðum og notkun tæknibúnaðar við flokkun úrgangsins.
    Helstu kostnaðaráhrif frumvarpsins verða í þéttbýli vegna sérsöfnunar á lífúrgangi, pappír og pappa og plasti. Með frumvarpinu er lagt til að þessi sérsöfnun fari fram innan lóðar við íbúðarhús og lögaðilum í þéttbýli. Tilgangur með þessari breytingu er fyrst og fremst að auka flokkun á heimilisúrgangi og þannig tryggja að heimilisúrgangur sé í meira mæli endurunnin. Árið 2018 var endurvinnsla heimilisúrgangs 28% hér á landi og því ljóst að markmið um 50% endurvinnslu heimilisúrgangs hafi ekki náðst árið 2020. Það verður því að hafa í huga að sveitarfélög þurfa að ráðast í breytingar á úrgangsstjórnun til þess að þetta markmið náist á komandi árum og mun það hafa í för með sér kostnað fyrir sveitarfélögin óháð hvort frumvarp þetta verði að lögum eður ei.

6.1. Sorphirða og úrvinnslugjald.
    Lagt hefur verið mat á kostnað við sorphirðu frá heimilum, hvað varðar sérstaka söfnun innan lóðar. Niðurstaða matsins var annars vegar að núverandi heildarkostnaður á landsvísu við söfnun fjögurra úrgangstegunda (blandaður úrgangur, pappi og pappír, lífúrgangur og plast) nemi 3,050 milljörðum á ári. Sé litið til mögulegra kostnaðarbreytinga við sorphirðu með tilkomu frumvarpsins var það mat ráðuneytisins, samkvæmt fjórum mismunandi sviðsmyndum, að kostnaður gæti minnkað um allt að 300 millj. kr. yfir í það að aukast um allt að 750 millj. kr. Í frumvarpinu er lagt til að úrvinnslugjald muni dekka kostnað við bæði sorphirðu og meðhöndlun nokkurra úrgangstegunda sem mun lækka framangreinda kostnaðaraukningu sveitarfélaga verulega. Þannig má gera ráð fyrir að einungis kostnaðaraukning vegna lífúrgangs falli á sveitarfélög og þau njóti alls ávinnings af minni hirðutíðni fyrir blandaðan úrgang og því næmi kostnaðaraukningin aðeins um 215 millj. kr.

6.2. Meðhöndlun úrgangs.
    Heildarmagn úrgangs er nokkuð þekkt stærð sem og kostnaður er við meðhöndlun úrgangs. Þannig hefur til að mynda myndast sú þumalfingurregla í þessari starfsemi sveitarfélaganna að heildarkostnaður vegna sorphirðu og meðhöndlun úrgangs skiptist í hlutföllunum 60/40, þ.e. 60% kostnaðar er vegna hirðu og 40% kostnaðar er vegna meðhöndlunar. Þannig má draga þá ályktun að framangreindur núverandi heildarkostnaður vegna sorphirðu sem talinn var nema um 3 milljarðar. kr. á landsvísu, nemi 5 milljörðum. kr. sé kostnaður vegna meðhöndlunar talin með.
    Sé einnig litið til gjaldskráa móttökustöðva fyrir úrgang kemur í ljós að í mörgum tilfellum (svo sem hjá Sorpu) er kostnaður vegna móttöku og meðhöndlunar á lífúrgangi til urðunar sá sami og til meðhöndlunar í nýrri gas- og jarðgerðarstöð fyrirtækisins, eða 34,97 kr. pr kg. með virðisaukaskatti. Í fimm öðrum móttökustöðvum utan höfuðborgarsvæðisins er gjaldið lægra en fyrir urðun. Að jafnaði er meðalverð til móttöku og meðhöndlunar lífúrgangs um 23% lægra en meðalverð til urðunar.
    Sé litið til framangreinds verðmismunar á urðun úrgangs og meðhöndlunar lífúrgangs mætti setja upp sviðsmynd þar sem aukin aðskilnaður lífúrgangs úr blönduðum úrgangi gæti leitt til lægri kostnaðar hjá sveitarfélögum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lífúrgangur í grárri tunnu utan höfuðborgarsvæðisins einkum í formi eldhúsúrgangs og garðaúrgangs og telur um 47,7% af heildarmagni. Sé horft til þess að allur þessi úrgangur fari til endurvinnslu gæti kostnaður vegna meðhöndlunar utan höfuðborgarsvæðisins lækkað um tæpar 60 millj. kr. á ári. Með sama hætti mætti setja fram sviðsmynd um að auka flokkun annarra úrgangstegunda (pappi og pappír, plast, textíll, málmar, gler, steinefni, spilliefni og raftæki) og minnka kostnað enn frekar eða um 60 millj. kr. til viðbótar.

6.3. Samantekt.
    Heildaráhrif á sveitarfélög, verði frumvarpið óbreytt að lögum, er metinn sem lítill og óverulegur. Skýrist það af því að aukinn kostnaður við sorphirðu á landsvísu að teknu tilliti til úrvinnslugjalda er áætlaður um 215 millj. kr. á ári en á móti kemur áætluð 120 millj. kr. lækkun á kostnaði vegna meðhöndlunar.

6.4. Verðlagsáhrif.
    Sorphirðugjöld vega um 0,32% í vægi neysluvísitölunnar. Gangi framangreindar breytingar eftir myndi 215 millj. kr. kostnaðaraukning valda 7% hækkun á sorphirðukostnaði og verðlagsáhrif þess því 0,023%. Að teknu tilliti til mögulegrar 120 millj. kr. lækkunar yrðu verðlagsáhrif frumvarpsins einungis 0,006%.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til nýjar skilgreiningar á hugtökunum framleiðandi og innflytjandi annars vegar og veiðarfærum hins vegar.
    Greinin innleiðir 11. tölul. 3. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 2. gr.

    Lögð eru til ný ákvæði um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á plastvörum og veiðarfærum úr plasti í samræmi við tilskipun (ESB) 2019/904 um plastvörur.
    Lagt er til að framleiðendur og innflytjendur tiltekinna einnota plastvara skuli bera ábyrgð á þeim einnota plastvörum sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar eru inn. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að fjármagna fræðslu og upplýsingagjöf til notenda viðkomandi vara. Þá er lagt til að framleiðendur og innflytjendur skuli fjármagna hreinsun á rusli á víðavangi sem til komið er vegna þessara vara, ásamt flutningi þess og annarri meðhöndlun í kjölfarið. Gert er ráð fyrir að Úrvinnslusjóður útfæri framangreinda hreinsun á víðavangi og finni hagkvæmar leiðir til þess. Enn fremur er lagt til að framleiðendur og innflytjendur skuli fjármagna söfnun þessara vara þegar þær eru orðnar að úrgangi. Í ábyrgðinni felst jafnframt að fjármagna meðhöndlun úrgangsins í kjölfar söfnunar í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs.
    Lagt er til að framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra úr plasti skuli bera ábyrgð á þeim veiðarfærum úr plasti sem framleidd eru hér á landi eða flutt eru inn. Í 1. gr. er lögð til skilgreining á hugtakinu veiðarfæri sem segir til um hvaða búnaður telst vera veiðarfæri í skilningi laganna. Í þessu samhengi er rétt að nefna að tilskipun (ESB) 2019/904 tekur til veiðarfæra úr plasti eða veiðarfæra sem innihalda plast eftir því hvernig texti tilskipunarinnar er þýddur á íslensku. Í frumvarpinu er lagt til að nota frekar orðalagið veiðarfæri úr plasti þar sem það er þjálla auk þess sambærilegt orðalag er nú þegar notað í lögum um úrvinnslugjald, það er veiðarfæri úr gerviefnum. Í ábyrgð framleiðenda og innflytjenda felst að fjármagna sérstaka söfnun veiðarfæra úr plasti sem handhafar þeirra losa sig við í móttökuaðstöðu hafna fyrir úrgang og farmleifar frá skipum eða í önnur sambærileg söfnunarkerfi. Þá skulu framleiðendur og innflytjendur fjármagna meðhöndlun úrgangsins í kjölfar söfnunar, í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs. Enn fremur er lagt til að framleiðendur og innflytjendur veiðarfæra úr plasti skuli fjármagna fræðslu og upplýsingagjöf til notenda veiðarfæra úr plasti.
    Lagt er til að óheimilt verði að setja á markað, selja hér á landi eða taka til eigin nota í atvinnuskyni tilteknar einnota plastvörur eða veiðarfæri úr plasti nema framleiðandi og innflytjandi þeirra greiði úrvinnslugjald, sbr. lög um úrvinnslugjald. Undanskilin eru drykkjarílát sem falla undir ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur en í tilfelli þeirra skal framleiðandi og innflytjandi greiða skilagjald og umsýsluþóknun samkvæmt þeim lögum.
    Lagt er til að Úrvinnslusjóður skuli safna upplýsingum um magn einnota plastvara og veiðarfæra úr plasti sem framleidd eru eða flutt inn og um magn einnota plastvara og veiðarfæra úr plasti sem safnað er og ráðstöfun þeirra og skila þeim til Umhverfisstofnunar. Þá er lagt til að Úrvinnslusjóður skuli stuðla að fræðslu og upplýsingagjöf í samvinnu við Umhverfisstofnun. Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs skal Umhverfisstofnun stuðla að almennri fræðslu um úrgangsmál og mikilvægt er að Úrvinnslusjóður og Umhverfisstofnun vinni saman að því að stuðla að fræðslu um einnota plastvörur og veiðarfæri úr plasti. Jafnframt er lagt til að Úrvinnslusjóður stuðli að fullnægjandi hreinsun á rusli á víðavangi og fullnægjandi söfnun og meðhöndlun úrgangs og noti til þess hagræna hvata. Að lokum skal Úrvinnslusjóður ná tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun einnota plastvara og veiðarfæra úr plasti.
    Lagt er til að hlutafélagið sem tekur að sér umsýslu skilagjalds svo og söfnun og endurvinnslu einnota umbúða er falla undir lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur skuli safna upplýsingum um magn tiltekinna einnota plastvara sem framleiddar eru eða fluttar eru inn og um magn einnota plastvara sem safnað er og ráðstöfun þeirra og skila upplýsingum til Umhverfisstofnunar. Þá skal hlutafélagið stuðla að fullnægjandi fræðslu og upplýsingagjöf í samvinnu við Umhverfisstofnun, stuðla að fullnægjandi hreinsun á rusli á víðavangi og fullnægjandi söfnun og meðhöndlun úrgangs. Jafnframt skal hlutafélagið ná tölulegum markmiðum um söfnun, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun tiltekinna einnota plastvara.
    Greinin innleiðir 8. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að Umhverfisstofnun skuli hafa samstarf við Úrvinnslusjóð og Skattinn um framkvæmd eftirlits við innflutning og markaðssetningu plastvara sem falla undir gildissvið laganna.
    Greinin innleiðir 14. gr. tilskipunar (ESB) 2019/904.

Um 4. gr.

    Í greininni er lögð til sú breyting á markmiðsákvæði laga um meðhöndlun úrgangs að það innifeli það markmið að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Hringrásarhagkerfi er efnahagslegt kerfi þar sem verslað er með vörur og þjónustu í lokaðri hringrás. Það byggist á að hönnun og framleiðsla sé með þeim hætti að mögulegt verði að lengja líftíma vörunnar með endurnotkun og viðgerðum og að hún verði hæf til endurvinnslu að notkun lokinni. Að notkun lokinni tekur við kerfi þar sem úrgangurinn er meðhöndlaður þannig að hann henti sem hráefni í nýja framleiðslu.
    Greinin innleiðir 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 5. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á gildissviði laga um meðhöndlun úrgangs vegna innleiðingar á tilskipun (ESB) 2018/851. Lagt er til að lögin taki ekki til fóðurefnis, eins og það er skilgreint í reglugerð nr. 744/2011 um notkun og markaðssetningu fóðurs, sem ekki inniheldur að einhverju leyti aukaafurðir úr dýrum. Samkvæmt reglugerðinni getur fóðurefni verið bæði afurð úr jurtaríkinu og dýraríkinu og því gerir greinin ráð fyrir að fóðurefni sem er eingöngu úr jurtaríkinu falli ekki undir ákvæði laganna.
    Greinin innleiðir 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 6. gr.

    Í greininni er að finna breytingar á skilgreiningum sem fyrir eru í 3. gr. laganna og sjö nýjar skilgreiningar.
    Breyttar eða nýjar skilgreiningar í a–c-lið og í 2.–5. tölul. h-liðar eru til samræmis við 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.
    Í c-lið er lögð til ný skilgreining á lífrænum úrgangi til samræmis við skilgreiningu á í tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs.
    Í d-lið er lagt til að skilgreining á meðferð úrgangs falli brott í ljósi þess að skilgreiningin hefur í ljósi reynslunnar verið metin óþörf.
    Í e-lið er lagt til að orðið „endurnotkun“ falli úr skilgreiningu á hugtakinu meðhöndlun úrgangs. Hugtakið endurnotkun er einkum notað um vöru sem telst ekki úrgangur og notuð er í sama tilgangi og hún var ætluð í upphafi. Að öðru leyti er skilgreiningin samhljóða gildandi lögum.
    Í f-lið er lögð til breyting á skilgreiningunni rafhlaða eða rafgeymir vegna breytinga á framleiðendaábyrgð rafhlaðna og rafgeyma sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Í g-lið er lögð til breyting á skilgreiningunni sérstök söfnun. Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting þannig að halda skuli úrgangsflokkum aðskildum en ekki straumi úrgangs. Í öðru lagi er lagt til að ekki verði lengur tiltekið að úrgangsflokkum sé haldið aðskildum á „einhverjum tímapunkti í söfnuninni eða flokkun úrgangsins“, og er það í samræmi við skilgreiningu tilskipunar 2008/98/EB á sérstakri söfnun. Í þriðja lagi er lagt til að við skilgreininguna bætist „svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu“ til samræmis við 13. gr. frumvarpsins þar sem lagðar eru til breytingar á 11. gr. laganna sem fjallar um endurnýtingu úrgangs.
    Í 1. tölul. h-liðar er lagt til að skilgreiningu á hugtakinu almennur úrgangur, sem hefur verið skilgreint í reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs, verði bætt við lögin til skýringarauka.
    Í 6. tölul. h-liðar er skilgreining á hugtakinu matvæli, sem er í samræmi við skilgreiningu hugtaksins í 18. tölul. 4. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995.
    Í 7. tölul. h-liðar er lögð til ný skilgreining á rafhlöðupakka vegna breytinga á framleiðendaábyrgð rafhlaðna og rafgeyma sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Greinin er sett að hluta til innleiðingar á 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 7. gr.

    Lagt er til að Umhverfisstofnun útbúi leiðbeiningar um gerð svæðisáætlana. Í leiðbeiningum Umhverfisstofnunar skal fjallað um innihald svæðisáætlana, úrgangstölfræði, mögulegar uppsetningar á svæðisáætlunum og önnur hagnýt atriði sem geta nýst sveitarfélögum við gerð svæðisáætlana.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að Umhverfisstofnun hafi eftirlit með því að sveitarstjórnir gefi út svæðisáætlanir skv. 6. gr. laganna. Þrátt fyrir ákvæði laganna um að sveitarfélög skuli gefa út svæðisáætlanir hafa nokkur sveitarfélög ekki gert það. Í ljósi þess er talið nauðsynlegt að haft sé eftirlit með að sveitarfélög gefi út svæðisáætlanir. Lagt er til að Umhverfisstofnun sinni þessu eftirlit. Í greininni er jafnframt lagt til að Umhverfisstofnun leggi faglegt mat á efni svæðisáætlanir og hvort þær samræmist lögum og reglum þar um. Í greininni er enn fremur lagt til að Umhverfisstofnun sendi umhverfis- og auðlindaráðuneytinu ábendingu um að sveitarstjórn hafi ekki gefið út svæðisáætlun eða að svæðisáætlun sé ekki í samræmi við lög og reglur. Að lokum er gert ráð fyrir að ráðuneytið geti í slíkum tilvikum brugðist við með tilteknum hætti.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að ný málsgrein bætist við 7. gr. laganna þannig að tiltekið verði að við gerð stefna og svæðisáætlana og töku ákvarðana um fyrirkomulag við meðhöndlun úrgangs skuli nota efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til þeirrar forgangsröðunar við meðhöndlun úrgangs sem kemur fram í 1. mgr. 7. gr. laganna. Sem dæmi um efnahagsleg stjórntæki og aðrar ráðstafanir má nefna gjöld og/eða takmarkanir varðandi urðun úrgangs sem leiða til þess að urðun úrgangsins verður óhagkvæmari valkostur en t.d. að endurvinna hann.
    Greinin er sett til innleiðingar á 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 10. gr.

    Tilgangurinn með breytingunni er að tryggja enn frekar að fyrirkomulagi söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu sem er á ábyrgð sveitarfélagsins sé ávallt þannig hagað að það stuðli að því að tölulegum markmiðum laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim verði náð í sveitarfélaginu. Greinin er meðal annars í samræmi við 6. gr. laga um meðhöndlun úrgangs sem fjallar um svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs. Svæðisáætlunum er ætlað að taka mið af viðkomandi lögum og reglugerðum og hafa að markmiði að draga markvisst úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu. Þar koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir.

Um 11. gr.

    Í 4. mgr. 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs kemur fram sú meginregla að óheimilt sé að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma. Undantekning frá þessari meginreglu kemur fram í 4. málsl. 4. mgr. 9. gr. laganna þar sem segir að heimilt sé að losa lífrænan úrgang í heimajarðgerð. Í 19. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851 er komið fram nýtt ákvæði um lífrænan úrgang í stað eldra ákvæðis. Fram til þessa hefur íslensk þýðing útlagst sem lífrænn úrgangur en í 6. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á íslenska hugtakinu að það verði skilgreint sem lífúrgangu r. Í greininni er lögð til sambærileg breyting á hugtakinu. Í 6. gr. frumvarpsins er einnig lögð til ný skilgreining á hugtakinu lífrænn úrgangur sem samræmist skilgreiningu í tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs.

Um 12. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 10. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að titill greinarinnar verði „Sérstök söfnun og flokkun úrgangs“ í staðinn fyrir „Endurnotkun og endurvinnsla“ í ljósi þess að í tilskipun (ESB) 2018/850 eru settar fram auknar kröfur á aðildarríki um endurvinnslu heimilisúrgangs og í tilskipun (ESB) 2018/851 er sérstök áhersla lögð á heimilisúrgang.
    Flokkun og sérstök söfnun úrgangs eru lykilatriði í að stuðla að endurvinnslu og endurnýtingu heimilisúrgangs og draga úr magni úrgangs sem fer í endanlega förgun. Almenna reglan er sú í gildandi lögum að koma skuli upp sérstakri söfnun á úrgangi þar sem það er tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt og viðeigandi til að uppfylla nauðsynlega gæðastaðla í viðkomandi endurvinnslugeira og er sérstök söfnun meginreglan hvað varðar a.m.k. pappír, málma, plast og gler, sbr. 1. og 2. mgr. 10. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Í 1. málsl. 1. mgr. er felldur brott sá fyrirvari að sérstök söfnun skuli eiga sér stað þar sem það er tæknilega, umhverfislega og efnahagslega gerlegt. Þá er tiltekið að koma skuli í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika en skylda til sérstakrar söfnunar úrgangs felur í sér að úrgangur sé geymdur aðskilinn eftir tegund hans og eðli. Er hér um að ræða skyldu til að koma í veg fyrir blöndun á úrgangstegundum og kemur hún í stað 2. mgr. 11. gr. gildandi laga þar sem segir að forðast skuli að blanda úrgangi saman við annan úrgang eða efnivið sem hefur aðra eiginleika ef það leiðir til þess að úrgangurinn verður ekki endurnýttur. Með b-lið 13. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna verði fellt úr gildi.
    Gert er ráð fyrir að heimilt verði að sækja um undanþágur frá skyldu til sérstakrar söfnunar, sbr. 2. mgr., meðal annars til blandaðrar söfnunar á tilteknum tegundum úrgangs, að því gefnu að það hafi ekki áhrif á möguleika til endurnýtingar úrgangsins.
    Í 2. málsl. 1. mgr. er lagt til að sérstök skylda verði til flokkunar á fleiri úrgangstegundum en í gildandi ákvæði laganna. Þannig er lagt til að til viðbótar við sérstaka söfnun á pappír og pappa, málmum, plast og gleri skuli jafnframt safna sérstaklega lífúrgangi, textíl og spilliefnum. Er það til samræmis við ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/851. Ákveðnar undantekningar eru á þessari skyldu er varða söfnun á lífúrgangi, meðal annars þegar um er að ræða heimajarðgerð, eins og kemur fram í 3. málsl. 1. mgr.
    Í 4. málsl. 1. mgr. er kveðið á um að sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skuli fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Þessi skylda á einungis við íbúðarhús í þéttbýli en ekki íbúðarhús í dreifbýli. Á sama hátt nær skyldan ekki til lögaðila í dreifbýli. Rétt er að vekja athygli á að hvað varðar aðra úrgangsflokka en lífúrgang þá er, með fyrrgreindum áskilnaði um söfnun við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli, gengið lengra en nauðsynlegt er til þess að innleiða tilskipun (ESB) 2018/851 í landsrétt. Ástæða þess að lagt er til að gengið verði lengra en tilskipunin mælir fyrir um er fyrst og fremst að auka flokkun á úrgangi og stuðla að endurvinnslu og endurnýtingu hans. Svo auka megi flokkun á úrgangi og aðgengi að flokkun úrgangs þarf það að vera eins auðvelt og aðgengilegt og mögulegt er fyrir almenning að losa sig við flokkaðan úrgang, sbr. jafnframt þá skyldu sem lögð er á einstaklinga og lögaðila til flokkunar í 3. mgr. Þá þykir sérstök söfnun úrgangsflokka við heimili vera sú söfnun úrgangs sem talin er leiða til hærra endurvinnsluhlutfalls og betri gæða endurvinnanlegra efna heldur en aðrar útfærslur á söfnun úrgangs, svo sem blönduð söfnun og söfnun í grenndargáma, sbr. niðurstöður skýrslu sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins árið 2015 þar sem mat var lagt á kerfi sérstakrar söfnunar í 28 höfuðborgum Evrópu. Sé miðað við niðurstöður SORPU bs. á samsetningu heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu árið 2018 má gera ráð fyrir að með því að gera að skyldu sérstaka söfnun á fyrrgreindum þremur úrgangsflokkum, pappír, plasti og lífúrgangi, megi ná tæplega 80% af þeim úrgangi sem í núverandi framkvæmd fellur til sem blandaður úrgangur á höfuðborgarsvæðinu. Sérstök söfnun skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Í 6. málsl. 1. mgr. er lagt til að í undantekningartilvikum verði heimilt að færa sérstaka söfnun út fyrir einstakar lóðir og koma upp sameiginlegri aðstöðu fyrir nokkrar aðliggjandi lóðir. Skilyrði fyrir slíkri undanþágu er að öll söfnun úrgangs innan einstakra lóða verði færð á sameiginlegt svæði fyrir aðliggjandi lóðir. Í því felst að ekki verður heimilt að færa einungis söfnun á endurvinnsluefnum á sameiginlegt svæði fyrir aðliggjandi lóðir en hafa áfram söfnun á blönduðum úrgangi innan lóðar á viðkomandi lóðum. Þrátt fyrir ákvæði 4. og 5. málsl. 1. mgr. er fyrirætlunin ekki sú að breyta núverandi fyrirkomulagi hvað varðar sérstaka söfnun á grófum úrgangi, þ.e. fyrirferðarmiklum umbúðum og slíku úr pappír og pappa, plasti eða garðaúrgangi, sem fellur undir skilgreiningu á lífúrgangi, þar sem betra þykir að slíkum úrgangi sé safnað á söfnunarstöðvar frekar en innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða hjá lögaðilum í þéttbýli. Í 7. málsl. 1. mgr. er þetta áréttað og tilgreint að sérstök söfnun innan lóðar feli ekki í sér skyldu fyrir sveitarfélög til þess að safna rúmfrekum úrgangi innan lóðar, svo sem garðaúrgangi.
    Í 8. málsl. 1. mgr. segir að sveitarfélögum sé heimilt að uppfylla skyldu til sérstakrar söfnunar á gleri, málmum og textíl með söfnun í grenndargáma, að því tilskildu að þau uppfylli skyldur sínar hvað varðar töluleg markmið um endurvinnslu og endurnýtingu. Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þótti sýnt að söfnun á gleri og málmum í grenndargáma eða á söfnunarstöðvum væri árangursríkasta leiðin til að auka endurvinnslu á þeim úrgangsflokkum. Það athugast að hugtakið grenndargámur kemur nú þegar fram í 4. mgr. 9. gr. laga um meðhöndlun úrgangs þar sem segir að óheimilt sé að losa úrgang annars staðar en á móttökustöð eða í sorpílát, þ.m.t. grenndargáma.
    Í 9. málsl. 1. mgr. er fjallað um sérstaka söfnun á spilliefnum og að hún skuli fara fram í nærumhverfi íbúa. Tilgangur með ákvæðinu er að taka skref í þá átt að færa söfnun spilliefna nær íbúum án þess að kveða nákvæmlega á um hvernig það skuli gert. Þess ber að geta í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu verður unnið að útfærslu á sérstakri söfnun spilliefna frá heimilum með það að markmiði að færa söfnun á spilliefnum nær almenningi. Er þá ekki átt við að spilliefnum verði safnað upp við hvert heimili heldur að þjónusta verði sem næst heimilum.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra verði heimilt, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að veita undanþágu frá ákvæði 1. mgr. um sérstaka söfnun, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem verða útfærð nánar í reglugerð. Ákvæðið er í samræmi við tilskipun (ESB) 2018/851 sem kveður jafnframt á um að aðildarríkjum beri að leggja skýrslu fyrir framkvæmdastjórnina um veittar undanþágur eigi síðar en 31. desember 2021. Í tilviki Íslands yrði slík skýrsla lögð fyrir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
    Um leið og almenna reglan um meðhöndlun úrgangs er gerð skýrari og sérstök söfnun að skyldu, sbr. 1. mgr., er nauðsynlegt að flokkun heimilisúrgangs verði einnig gerð að skyldu, sbr. 3. mgr., þar sem virk þátttaka almennings í flokkun er undirstöðuatriði við sérstaka söfnun úrgangs. Í 3. mgr. er einstaklingum og lögaðilum því gert skylt að flokka heimilisúrgang í samræmi við skyldu til sérstakrar söfnunar í 1. mgr. Við það stofnast skylda á sveitarfélög til að þjónusta íbúa og lögaðila þannig að þeim sé kleift að flokka heimilisúrgang.
    Í 4. mgr. er lagt til að komið verði á skyldu til samræmdra merkinga fyrir a.m.k. þær úrgangstegundir sem safna skal sérstaklega. Með tilkomu skyldunnar til sérstakrar söfnunar er nauðsynlegt að merkingar verði samræmdar þannig að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu og mun slík samræming auðvelda einstaklingum og lögaðilum að uppfylla skyldu sína um að flokka heimilisúrgang. Með slíkum samræmdum merkingum verður mögulegt að samræma fræðslu á landsvísu. Nýverið var kynnt nýtt samræmt norrænt merkingakerfi yfir úrgang sem Fenúr þýddi og staðfærði. Í reglugerð verður kveðið nánar á um útfærsluna en gert er ráð fyrir að hver úrgangstegund fái sitt merki og sinn einkennislit og að merkingarnar beri að nota við alla meðhöndlun úrgangs, alls staðar á landinu og framangreint merkingarkerfi verður notað. Ekki er ætlunin að kveðið verði á um fjölda íláta, stærð þeirra eða gerð að öðru leyti.
    Í 5. mgr. er lögð sú skylda á rekstraraðila að flokka rekstrarúrgang í samræmi við 1. mgr. 11. gr. laganna. Rekstrarúrgangur skv. 3. gr. laganna er úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri, annar en heimilisúrgangur. Hann getur verið mismunandi að eðli og samsetningu, allt frá seyru, úr sér gegnum ökutækjum, úrgangi sem fellur til í landbúnaði og byggingar- og niðurrifsúrgangi til úrgangs sem fellur til í sérhæfðum iðnaði. Við flokkun á rekstrarúrgangi ber að taka mið af 1. mgr. 11. gr. laganna þar sem segir eftir breytingar, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að stuðla beri að undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu til að unnt sé að endurnýta úrgang í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun hans og með hliðsjón af markmiðum laganna. Af framangreindu leiðir að þar sem rekstrarúrgangur fellur til í starfsemi stofnast skylda á viðkomandi rekstraraðila að flokka rekstrarúrganginn.
    Í 5. mgr. er einnig lagt til að komið verði á skyldu til flokkunar á byggingar- og niðurrifsúrgangi í a.m.k. tiltekna flokka en slík flokkun ætti meðal annarsmeðal annars að stuðla að betri meðferð og nýtingu þess háttar úrgangs og draga úr losun óæskilegra efna út í vatn og jarðveg. Tekið skal fram í því sambandi að sú skylda hvílir nú þegar á byggingaraðilum samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 að útbúa áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs áður en framkvæmd hefst þar sem koma skulu fram upplýsingar um skipulagningu, skráningu, flokkun, endurnýtingu og förgun úrgangs.
    Í 6. mgr. greinarinnar er lagt til að kveðið verði á um að óheimilt verði að senda úrgang úr sérstakri söfnun til urðunar eða brennslu nema þann úrgang sem eftir verður í kjölfar söfnunar og hentar ekki til endurnotkunar eða endurvinnslu. Ákvæði þetta er til að tryggja að úrgangur fari að meginstefnu til í undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu eða aðra endurnýtingu í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs og að sá kostur verði ætíð fyrir valinu sem skilar bestri heildarniðurstöðu fyrir umhverfið, sbr. 7. gr. laganna.
    Greinin, að undanskildum 4. og 6. mgr., er sett til innleiðingar á 11. og 12. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851. Þá er 6. mgr. að hluta til sett til innleiðingar á b-lið 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/850.

Um 13. gr.

    Greinin er í samræmi við þá skyldu aðildarríkja skv. tilskipun (ESB) 2018/851 að stuðla að undirbúningi fyrir endurnotkun og endurvinnslu.
    Í greininni er lagt til að 2. mgr. 11. gr. laganna verði felld brott. Er það til samræmis við þær auknu kröfur um sérstaka söfnun úrgangs sem lagðar eru til í 12. gr. frumvarpsins.
    Greinin er sett til innleiðingar á 12. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 14. gr.

    Í greininni er lagt til að sveitarstjórnir skuli bera ábyrgð á að tölulegum markmiðum sem sett eru um heimilisúrgang og lífrænan úrgang sé náð á þeirra svæði. Markmið breytingarinnar er að draga fram betur það hlutverk sveitarstjórna að ná tölulegum markmiðum varðandi heimilisúrgang og lífrænan úrgang á þeirra svæði. Í 57. gr. laganna kemur fram að sveitarstjórnir bera ábyrgð á markmiðum varðandi lífrænan úrgang. Sveitarstjórnir bera ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs, sbr. 8. gr. laganna, og af því hlutverki leiðir sú ábyrgð að sveitarstjórn stuðli að flutningi úrgangsins til endurvinnslu, fremur en til annarrar endurnýtingar eða förgunar.

Um 15. gr.

    Í greininni er lagt til að orðalagi 1. mgr. 21. gr. laganna verði breytt þannig að ákvæðið endurspegli betur nýtt orðalag tilskipunar (ESB) 2018/851 og að 2. mgr. verði felld brott. Einnig er lagt til að lögfest verði skylda fyrsta notanda efnis eða hlutar eftir að hann hættir að vera úrgangur, eða þess sem setur slíkt efni eða hlut á markað í fyrsta skipti, að tryggja að efnið eða hluturinn uppfylli kröfur efnalaga og viðeigandi reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og er með þeirri tengingu hnykkt á þeim skyldum sem kveðið er á um í efnalögum og lúta að því að meðferð á hlutum sem innihalda efni valdi hvorki tjóni á heilsu manna og dýra né umhverfi.
    Greinin er sett til innleiðingar á a- og c-lið 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 16. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 23. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að í 2. málsl. 2. mgr. verði kveðið á um að kostnaður við uppsetningu og rekstur nauðsynlegra innviða teljist hluti af þeim kostnaði við meðhöndlun úrgangs sem sveitarfélög skulu innheimta gjald fyrir. Mikilvægt er að innviðir séu til staðar til að tryggja rétta meðhöndlun úrgangs og sem dæmi um slíkt má nefna innviði til söfnunar og flutnings úrgangs og innviði til endurvinnslu eða endurnýtingar úrgangs. Greinin er sett til innleiðingar á 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.
    Einnig er lögð til sú breyting á 3. málsl. 2. mgr. að í stað þess að sveitarfélögum sé heimilt að miða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila verði sveitarfélögum gert skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við framangreinda þætti.
    Í 1. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna er kveðið á um að sveitarfélög skuli innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Tillögð breyting á 3. málslið er í raun í samræmi við fyrrgreint ákvæði 1. málsl. og hnykkir á því sem eðlilegt er að gildi um innheimtu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, þ.e. að gjaldið sé sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu. Slíkt fyrirkomulag telst jafnframt samræmast meginreglu þeirri sem nefnd er greiðsluregla en inntak hennar er að sá borgi sem mengar eða hefur með höndum umsvif sem hafa áhrif á umhverfið. Samkvæmt tilskipun (ESB) 2018/851 skal greiðslureglan vera lögð til grundvallar við úrgangsstjórnun og í samræmi við regluna skal upphaflegur framleiðandi úrgangsins eða núverandi eða fyrri handhafar úrgangsins bera kostnaðinn af meðhöndlun hans. Greiðslureglan felur það jafnframt í sér að þess skuli gætt að á framleiðanda eða handhafa úrgangs sé ekki lagður kostnaður í ósamræmi við magn eða eðli þess úrgangs sem hann er ábyrgur fyrir, sem samræmist einnig fyrirkomulagi eða kerfi við gjaldtöku vegna úrgangs sem kallast borgaðu þegar þú hendir-kerfi. Í tilskipun (ESB) 2018/851 er slíkt kerfi tiltekið sem dæmi um efnahagslegt stjórntæki og aðrar ráðstafanir til að hvetja til forgangsröðunarinnar við meðhöndlun úrgangs sem fram kemur í tilskipuninni, sbr. 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs. Í slíkum kerfum er tekið gjald af eða þeim aðilum þar sem úrgangur fellur til á grundvelli magns úrgangs sem fellur til í reynd og hvatt til þess að endurvinnanlegur úrgangur sé aðskilinn á myndunarstað og að dregið sé úr magni blandaðs úrgangs. Borgaðu þegar þú hendir-kerfi virka sem hagrænn hvati til að draga úr myndun úrgangs og eru talin mikilvæg þegar kemur að því að auka endurvinnslu úrgangs. Útfærsla á gjaldheimtu sem rúmast innan kerfisins gæti falist í því að tengsl væru milli gjalds og magns, rúmmáls eða þyngdar eða tegundar úrgangsins. Hvað þetta varðar þá má vísa til þekktra leiða við útfærslu kerfisins sem viðhafðar hafa verið með góðum árangri í Evrópu, sbr. skýrsla sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins árið 2015 þar sem mat var lagt á kerfi sérstakrar söfnunar í 28 höfuðborgum Evrópu. Er þar ýmist um að ræða stýringu á fjölda og stærð íláta og/eða losunartíðni, fjölda sorppoka eða vigtun úrgangsins á hverju heimilisfangi eða blöndu af þessum leiðum. Með hliðsjón af framangreindu er lagt til að fella úr gildi að hluta heimild sveitarfélaga skv. 2. mgr. 23. gr. laganna til að ákveða gjald sem fast gjald á hverja fasteignaeiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig vegna innleiðingar á greiðslureglu tilskipunar (ESB) 2018/851. Í frumvarpinu er lagt til að sveitarfélagi verði áfram heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins. Þannig er lagt til að meginreglan verði að sveitarfélög innheimti gjald sem næst raunkostnaði í flestum tilvikum, þ.e. 75% eða meira af heildarkostnaði sveitarfélagsins. Í einstaka tilvikum þar sem ógerlegt er að miða gjaldið við raunkostnað verði heimilt að víkja frá þeirri meginreglu, þó aldrei meira en 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins. Sveitarfélagi er heimilt að færa raunkostnað á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að hringrásarhagkerfi að teknu tilliti til 3. mgr. Með því móti geta sveitarfélög hvatt til aukinnar endurvinnslu með því að færa kostnað vegna söfnunar og annarrar meðhöndlunar endurvinnsluefna yfir á gjaldtöku vegna blandaðs úrgangs.

Um 17. gr.

    Í greininni er lagt til að ekki sé eingöngu skylt að beina fræðslu skv. 1. mgr. 24. gr. laganna til almennings heldur einnig til lögaðila. Samhliða því að í frumvarpinu er lagt til að einstaklingum og lögaðilum verði gert skylt að flokka heimilisúrgang og lögaðilum að flokka rekstrarúrgang er brýnt að lögaðilar, líkt og almenningur, verði fræddir um úrgangsforvarnir, meðhöndlun úrgangs og ávinning af endurvinnslu.

Um 18. gr.

    Í greininni eru lagðar til lágmarkskröfur varðandi framlengda framleiðendaábyrgð í samræmi við tilskipun (ESB) 2018/851 um úrgang.
    Greinin er sett til innleiðingar á 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 19. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á orðalagi þar sem drifrafhlöðum er bætt við lög um meðhöndlun úrgangs og gerður greinarmunur á hvort þær séu í ökutækjum sem eru skráningarskyld eða ekki. Þannig nær skylda sveitarfélaga til að hafa aðstöðu til gjaldfrjálsrar móttöku á notuðum drifrafhlöðum einungis til þeirra drifrafhlaða sem hafa verið í ökutækjum sem ekki eru skráningarskyld, en hægt verður a skila öllum öðrum rafhlöðum og rafgeymum á söfnunarstöð eins og hefur verið. Þá er lagt til að sú regla sem í gildi er, að sölu- eða dreifingaraðilum rafhlaðna og rafgeyma beri að taka við notuðum rafhlöðum og rafgeymum gjaldfrjálst og tryggja viðeigandi ráðstöfun, nái einnig til drifrafhlaðna fyrir ökutæki sem ekki eru skráningarskyld.

Um 20. gr.

    Í greininni er lagt til að framleiðendum og innflytjendum, eða þriðju aðilum fyrir þeirra hönd, beri að taka við notuðum iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum gjaldfrjálst frá notendum óháð efnasamsetningu og uppruna þeirra, þ.m.t. drifrafhlöðum og drifrafgeymum fyrir skráningarskyld ökutæki.

Um 21. gr.

    Í greininni er kveðið á um að sérhver framleiðandi iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma skuli vera skráður í skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda hjá Umhverfisstofnun eins og verið hefur með aðrar tegundir rafhlaðna og rafgeyma.

Um 22. gr.

    Í greininni er lagt til að tveimur nýjum stafliðum verði bætt við 43. gr. laganna til samræmis við nýjar reglugerðarheimildir ráðherra samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 23. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lögð til breyting til samræmis við skylduna um sérstaka söfnun á spilliefnum sem lögð er til í 12. gr.
    Í b-lið greinarinnar er lögð til breyting varðandi blöndun spilliefna til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.
    Greinin er sett til innleiðingar á 16. og 17. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 24. gr.

    Samkvæmt 56. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er handhöfum spilliefna og seljendum og miðlurum úrgangs, ef við á, skylt að halda skrár um magn og gerð spilliefna og tilgreina ráðstöfun þeirra. Í greininni er lagt til að skráningarskylda framangreindra aðila verði gerð ítarlegri og þessum aðilum gert skylt að skrá í rafræna skrá Umhverfisstofnunar upplýsingar um magn, eðli og uppruna spilliefna sem falla til hjá þeim, sem þeir safna, flytja eða meðhöndla á annan hátt. Nú þegar er til staðar gagnagátt hjá Umhverfisstofnun þar sem upplýsingum um spilliefni er safnað í samræmi við ákvæði 56. gr. laganna.
    Greinin er sett til innleiðingar á 25. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 25. gr.

    Í greininni er lagt til að skylt verði að safna lífúrgangi sérstaklega og meðhöndla hann í samræmi við 1. mgr. þar sem segir að lífrænn úrgangur skuli meðhöndlaður með hliðsjón af markmiðum laganna og í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Skyldan til sérstakrar söfnunar á lífúrgangi er í samræmi við þá skyldu til sérstakrar flokkunar sem lögð er til í 12. gr.
    Greinin er sett til innleiðingar á 19. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar (ESB) 2018/851.

Um 26. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á markmiðsákvæði laga um úrvinnslugjald vegna innleiðingar á hringrásarhagkerfinu. Lagt er til að markmið laganna verði að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans.

Um 28. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á skilgreiningum laganna til samræmis við skilgreiningar á sömu hugtökum í lögum um meðhöndlun úrgangs. Jafnframt eru lagðar til nýjar skilgreiningar í tengslum við aðrar breytingar sem eru lagðar til í frumvarpinu.

Um 29. gr.

    Í a-, c- og d-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar til þess að endurspegla áherslu á innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
    Í b-lið er lagt til að úrvinnslugjald skuli almennt vera þrepaskipt þannig að tekið sé tillit til endingar vara, möguleika á viðgerðum, endurnotkun og endurvinnslu. Þá er einnig lögð til orðalagsbreyting vegna greinarmunar sem verður gerður á úrvinnslugjaldi annars vegar og skilagjaldi á ökutæki hins vegar verði frumvarpið að lögum.
    Í e-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við aðrar breytingar um að úrvinnslugjald skuli leggja á allar umbúðir.
    Í e-lið er lagt til að úrvinnslugjald sem lagt er á rafhlöður og rafgeyma skuli standa undir greiðslum við að ná tölulegum markmiðum, um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úrgangsins. Þetta er því viðmið sem þarf að líta til við ákvörðun um fjárhæð gjaldanna.
    Greinin er að hluta sett til innleiðingar á 9. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2018/851.

Um 30. gr.

    Í a-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við aðrar breytingar um að úrvinnslugjald skuli leggja á allar umbúðir.
    Í b-lið er lagt til að fjárhæð úrvinnslugjalds vegna rafhlaðna og rafgeyma skuli taka mið af áætlun Úrvinnslusjóðs um þær greiðslur sem bjóða þarf til að ná tölulegum markmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun úrgangsins svo og greiðslur vegna flutnings úrgangsins innan lands, til að tryggja ábyrgð framleiðenda á meðhöndluninni og að markmiðum sé náð.

Um 31. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að gjald sem kallast skilagjald eigenda verði lagt á eigendur gjaldskyldra ökutækja. Andlag gjaldsins er hluti af því sem nú er úrvinnslugjald ökutækja. Þannig hafa ekki verið skýr skil á milli framleiðendaábyrgðar á úrvinnslu ökutækis í formi úrvinnslugjalds á framleiðendur ökutækja og úrvinnslugjalds sem innheimt hefur verið af eigendum ökutækja, sem hefur verið að hluta til grundvöllur að skilagjaldi á ökutæki. Þá er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði „Skilagjald á ökutæki“ til aðgreiningar frá úrvinnslugjaldi. Skilagjaldi er ætlað að mynda hvata fyrir eigendur ökutækja að koma þeim í rétta meðhöndlun þegar líftíma ökutækis er lokið, eins og verið hefur.

Um 32. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að úrvinnslugjald ökutækja verði lagt á eigendur gjaldskyldra ökutækja. Lagt er til að gerðar verði breytingar á inntaki ákvæða um úrvinnslugjald á ökutæki. Þannig er gerður greinarmunur á annars vegar úrvinnslugjaldi sem innheimt skal við innflutning ökutækja sem nær þá til ábyrgðar framleiðenda á úrvinnslu ökutækis og hins vegar á skilagjaldi á skráningarskyld ökutæki sem innheimt er reglulega af skráðum eigendum ökutækja, sem eiga rétt á að fá skilagjald fyrir ökutæki greitt þegar þeim er skilað á móttökustöð til endurnýtingar eða förgunar eins og fjallað var um í skýringu við 31. gr. Þá er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði „Úrvinnslugjald á ökutæki“ til aðgreiningar frá skilagjaldi. Úrvinnslugjaldi á framleiðendur er því ætlað að standa undir móttöku, endurnýtingu og förgun ökutækisins. Um inntak úrvinnslu ökutækja skal kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur. Gert ráð fyrir að sú aðgerð að fjarlægja drifrafhlöðu úr skráningarskyldu ökutæki falli undir framleiðendaábyrgð á ökutækinu sjálfu en ekki iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma.

Um 33. gr.

    Í frumvarpinu er lagt er til að úrvinnslugjald verði lagt á gler-, málm- og viðarumbúðir.
    Greinin er sett til innleiðingar á 8. tölul. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang.

Um 34. gr.

    Í a-lið er gerð breyting á heitum rafhlaða og rafgeyma í samræmi við breytingar á skilgreiningum. Þá er bætt við að úrvinnslugjald skuli leggja á vöruflokkinn iðnaðarrafhlöður og iðnaðarrafgeymar og vísað til nýs viðauka XI A.
    Í b-lið er lögð til orðlagsbreyting. Í stað orðanna veiðarfæra úr gerviefnum er lagt til að nota orðalagið veiðarfæri úr plasti.
    Í c- og d-lið eru lagðar til breytingar á orðlagi vegna framleiðendaábyrgðar á plastvörum og veiðarfærum úr plasti.
    Í e- og f-lið eru lagðar til breytingar á heimildum Úrvinnslusjóðs til þess að segja upp samningum um veiðarfæri. Lagt er til að gagnkvæmur réttur til uppsagnar að samningi muni gilda á milli Úrvinnslusjóðs og framleiðenda.
    Í g- og h-lið eru lagðar til breytingar til samræmis við aðrar breytingar frumvarpsins á framleiðendaábyrgð á raf- og rafeindatækjum.
    Í i-lið er mælt fyrir um heimild framleiðenda og innflytjenda, einum sér eða í samvinnu við aðra framleiðendur og innflytjendur, að setja upp kerfi til að safna iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum um allt land og ráðstafa þeim í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs og geta viðkomandi framleiðendur og innflytjendur þá fengið álagt úrvinnslugjald endurgreitt að frátöldu gjaldi vegna skráningarkerfis og eftirlits Umhverfisstofnunar, í hlutfalli við ráðstafað magn af iðnaðarrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum, enda hafi þeir sýnt fram á að þeir hafi safnað úrgangi um allt land og ráðstafað honum í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Þannig er þetta fyrirkomulag sambærilegt við eðlislíka heimild til endurgreiðslu úrvinnslugjalds af raf- og rafeindatækjum.
    Í j-lið er kveðið á um framleiðendaábyrgð á plastvörum og veiðarfærum úr plasti.

Um 35. gr.

    Í greininni er gerð breyting á heiti þeirrar stofnunar sem innheimtir gjöld og heitir nú Skatturinn. Þá er einnig lögð til orðalagsbreyting vegna greinarmunar sem gera skal á úrvinnslugjaldi á ökutæki annars vegar og skilagjaldi hins vegar.

Um 36. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir eins og fjallað var um í skýringu við i-lið 34. gr. að framleiðandi og innflytjandi iðnaðarrafhlaðna og iðnaðarrafgeyma sem knýja skráningarskyld ökutæki, geti, einn sér eða í samvinnu með öðrum framleiðendum og innflytjendum, ákveðið að setja upp kerfi til að safna drifrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum um allt land og ráðstafa þeim með viðeigandi hætti. Í slíkum tilvikum geti viðkomandi framleiðandi og innflytjandi fengið álagt úrvinnslugjald endurgreitt, að frátöldu gjaldi fyrir skráningarkerfi og eftirlit Umhverfisstofnunar, í hlutfalli við ráðstafað magn af drifrafhlöðum og iðnaðarrafgeymum sem úrvinnslugjald hefur verið greitt af.
    Þá er lagt til að aðili sem óskar endurgreiðslu skv. 1. málsl. skuli tilgreina í sérstakri skýrslu til Skattsins um magn vöru og fjárhæð þess úrvinnslugjalds sem sannanlega hefur verið greitt af viðkomandi vöru og magn og þyngd drifrafhlaðna og drifrafgeyma sem hefur verið safnað og hvar þeim var safnað, sem og magn ráðstafaðra drifrafhlaðna og drifrafgeyma og staðfestingu á ráðstöfuninni.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslu samkvæmt ákvæðinu.

Um 37. gr.

    Í a- og f-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar vegna greinarmunar sem skal gera á úrvinnslugjaldi á ökutæki annars vegar og skilagjaldi hins vegar.
    Í b- og c-lið eru lagðar til breytingar á hlutverki Úrvinnslusjóðs. Lagt er til að Úrvinnslusjóður stuðli að hringrásarhagkerfi með vöru og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Þá er lagt til að Úrvinnslusjóður skuli með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem er tilkominn vegna vara sem falla undir lög þessi og leggja til grundvallar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. lög um meðhöndlun úrgangs.
    Í d-lið eru lagðar til orðalagsbreytingar til samræmis við aðrar breytingar um að úrvinnslugjald skuli leggja á allar umbúðir.
    Í e-lið er lagt til að Úrvinnslusjóður beri ábyrgð á að ná tölulegum markmiðum varðandi rafhlöður og rafgeyma.

Um 39. gr.

    Félag atvinnurekanda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu hafa vakið athygli á annmörkum sem setji starfsskilyrði Úrvinnslusjóðs í töluvert uppnám. Við gildistöku laga um opinber fjármál tóku tekjur af úrvinnslugjaldi að renna í ríkissjóð og á móti er Úrvinnslusjóði veitt fjárframlag á grundvelli fjárheimilda í fjárlögum hvers árs. Að mati samtakanna byggist tekjustreymi sjóðsins ekki lengur á hreinni tekjuöflun af innflytjendum og framleiðendum samkvæmt ákvæðum laga um úrvinnslugjald heldur á stjórnmálalegri ákvarðanatöku um forgangsröðun framlaga til ríkisverkefna. Í greininni eru lagðar til breytingar til þess að koma til móts við framangreindar ábendingar og lagt til að tekjur Úrvinnslusjóðs skuli vera fjárveiting á grundvelli fjárheimilda í lögum sem nemi tekjuáætlun fjárlaga af úrvinnslugjaldi og endurmati á tekjuáætlun úrvinnslugjalds fyrra árs. Jafnframt er lagt til að vaxtatekjur vegna úrvinnslugjalds skuli verða eign Úrvinnslusjóðs.

Um 39. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 40. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023. Líkt og fram kemur í kafla 5.1 hér að framan er lagt til að gefið verði nægjanlegt svigrúm til að undirbúa og innleiða þær breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér. Af þeim sökum er lagt til að gildistaka laganna verði 1. janúar 2023.