Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1201  —  580. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um skráningu samskipta í ráðuneytinu.


     1.      Hversu oft hafa verið skráð í ráðuneytinu formleg samskipti, fundir og óformleg samskipti frá því að reglur nr. 320/2016 tóku gildi, sbr. 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011? Svar óskast sundurliðað eftir árum og tegundum samskipta.
    Með endurskoðuðum reglum um skráningu samskipta sem tóku gildi árið 2016 var leitast við að samræma skráningu á „óformlegum samskiptum“ milli ráðuneyta. Í reglunum eru óformleg samskipti skilgreind sem „munnleg samskipti, þar á meðal símtöl og fundir, þar sem lýst er afstöðu eða veittar upplýsingar sem teljast hafa þýðingu fyrir mál sem er til meðferðar í ráðuneyti eða teljast mikilvægar vegna málefna sem heyra undir ráðuneytið, enda komi afstaðan eða upplýsingarnar ekki fram í öðrum skráðum gögnum“. Formleg samskipti eru þar skilgreind sem innkomin erindi, útsend erindi og svör, og fundir sem boðað er til.
    Í skjalakerfi ráðuneytisins er ekki gerður greinarmunur á óformlegum og formlegum samskiptum, en út frá forsendum fyrirspurnarinnar er unnt að skipta skráðum samskiptum eftir því sem hér segir. Núverandi félagsmálaráðuneyti tók til starfa hinn 1. janúar 2019. Tölur sem gefnar eru upp fyrir árin 2016–2018 eru því fengnar úr málaskrá velferðarráðuneytis og birtast einnig í svari heilbrigðisráðuneytis.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir formleg samskipti, eins og þau eru skilgreind í reglum nr. 320/2016 um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands, eftir tegundum:

2021 2020 2019 2018 2017 2016
Bréf og orðsendingar 1104 1.376 1.589 3.576 3.014 3.505
Fundargerðir 25 128 191 394 351 294
Tölvupóstar 4.268 20.974 19.949 34.623 30.984 29.767
Samtals 5.397 22.478 21.729 38.593 34.349 33.566

    Í svarinu eru bréf og orðsendingar tekin saman enda er ekki skýr greinarmunur á milli þeirra í framkvæmd. Sú athugasemd skal gerð að í tölvupósti, t.d. milli starfsmanna innan ráðuneytis, eru skráð margvísleg símtöl, samtöl og minnispunktar. Þannig getur tölvupóstur innihaldið allar tegundir formlegra og óformlegra samskipta.
    Eftirfarandi er yfirlit yfir óformleg samskipti, eins og þau eru skilgreind í reglum nr. 320/2016 um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands, eftir tegundum:

2021 2020 2019 2018 2017 2016
Athugasemdir 5 24 15 59 62 66
Samtöl, símtöl 24 129 112 122 123 130
Minnispunktar 47 154 69 83 97 159
Samtals 76 307 196 264 282 355

    Í svarinu eru samtöl og símtöl tekin saman enda er ekki skýr greinarmunur á milli þeirra í framkvæmd.
    Endurskoðaðar reglur um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands tóku gildi í apríl 2016. Ekki er hæglega unnt að aðgreina skráð samskipti eftir því hvort þau fóru fram fyrir eða eftir þann tíma og því eru skráningar fyrir allt árið 2016 sýndar.

     2.      Hversu oft á hverju ári hafa verið skráð í ráðuneytinu óformleg samskipti, þ.e. munnleg samskipti, símtöl og fundir, samkvæmt sömu reglum þar sem aðilar voru:
                  a.      ráðuneytið við annað eða fleiri ráðuneyti,
                  b.      ráðuneytið við stofnanir,
                  c.      ráðuneytið við aðila utan ráðuneytis?

    Skjalakerfi ráðuneytisins býður ekki upp á sundurliðun eða sjálfvirka greiningu niður á þær tegundir sem tilgreindar eru. Handvirk greining mundi kalla á tímafreka yfirferð og flokkun á miklum fjölda skjala og því er ekki unnt að veita efnislegt svar við þessum lið fyrirspurnarinnar. Eins og sjá má af svari við 1. tölul. er um hundruð óformlegra samskipta að ræða á ári hverju.

     3.      Í hversu mörgum tilfellum, á hverju ári, voru samskiptin skv. 1. og 2. tölul. á milli ráðherra og aðila utan ráðuneytis?
    Sjá svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar.

     4.      Telur ráðherra að skráning skv. 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands og reglna nr. 320/2016 gefi greinargóða mynd af óformlegum samskiptum um mikilvægar upplýsingar fyrir ráðherra milli ráðuneyta eða aðila utan ráðuneytis? Er tilefni til þess að gera slíka skráningu aðgengilegri og gagnsærri, t.d. í dagbók ráðherra?
    Ráðuneytið vísar til þess að reglur nr. 320/2016 eru á forræði forsætisráðherra og tekur því ekki afstöðu til þess hvort tilefni sé til að gera óformleg gögn aðgengilegri en önnur gögn.