Ferill 667. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1218  —  667. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um afurðasölufyrirtæki í kjöti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að afurðasölufyrirtæki í kjöti fái sambærilega undanþágu frá samkeppnislögum og gildir í mjólkuriðnaði, sbr. 71. gr. búvörulaga, í þeirri viðleitni að auka hagræðingu neytendum og bændum til hagsbóta? Ef svo er, hvernig?

    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 29. september 2020, sem birt var í tengslum við mat á forsendum fyrir áframhaldandi gildi lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins, er kveðið á um skoðun á leiðum til að auka hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu. Í framhaldi sendu formenn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Bændasamtaka Íslands formönnum ríkisstjórnarflokkanna erindi þar sem óskað var eftir því, með vísan til óviðunandi stöðu bænda og afurðastöðva, að leitað yrði leiða til að auka möguleika til samruna, aukins samstarfs og verkaskiptingar í kjötafurðavinnslu.
    Hinn 17. febrúar 2021 kynnti ráðherra tímasetta aðgerðaáætlun til eflingar íslensks landbúnaðar sem ætlað er að styrkja stoðir íslensks landbúnaðar í ljósi þeirra beinu og óbeinu áhrifa sem COVID-19 hefur haft á greinina. Tilgangur aðgerðanna er að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar. Í 8. lið aðgerðaáætlunarinnar, sem hefur yfirsögnina „Aukin hagkvæmni og hagræðing“, segir: Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við Lífskjarasamninginn verður hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðsla tekin til sérstakrar skoðunar, m.a. til að stuðla að bættri nýtingu verðmæta og aukinni hagræðingu innan landbúnaðarframleiðslunnar, til hagsbóta fyrir bændur og neytendur.
    Málefni afurðastöðva eru til umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og var óformlegum starfshópi fjögurra ráðuneyta falið að aflað gagna og leita sjónarmiða bænda og samtaka í atvinnulífinu um starfsskilyrði greinarinnar. Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki vinnu sinni fyrir lok apríl.