Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1219  —  446. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um endurgreiðslu virðisaukaskatts og flokkun bifreiða.


     1.      Hvaða bifreiðar teljast fólksbifreiðar í skilningi og framkvæmd reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna, sbr. reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja?
    Við vinnslu svarsins óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Samgöngustofu sem fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast m.a. eftirlit er varðar umferð og skráningu ökutækja í ökutækjaskrá.
    Samkvæmt 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXIII í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, tekur hin tímabundna endurgreiðsla vegna bílaviðgerða, bílamálningar eða bílaréttinga eingöngu til fólksbifreiða. Í samræmi við það er fólksbifreið skilgreind í 2. gr. reglugerðar nr. 690/2020, um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna, sem bifreið sem aðallega er ætluð til fólksflutninga og gerð er fyrir átta farþega eða færri og skráð sem fólksbifreið í flokkinn M1 í ökutækjaskrá. Um er að ræða sömu skilgreiningu hugtaksins fólksbifreið og fram kemur í reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, sbr. lið 01.11 í 1. gr. þeirrar reglugerðar. Vísað er til reglugerðar nr. 822/2004 í 2. gr. reglugerðar nr. 690/2020.
    Undir hugtakið fólksbifreið í 2. gr. reglugerðar nr. 690/2020 falla m.a. fólksbifreiðar sem eru sérútbúnar fyrir hreyfihamlaða og húsbifreið, sbr. liði 01.101 og 01.209 í reglugerð nr. 822/2004. Ef sætafjöldi er aftur á móti skráður fyrir níu farþega eða fleiri flokkast ökutæki þó sem hópbifreið.

     2.      Getur bifreið flokkast bæði sem vörubifreið samkvæmt lið 01.14 í reglugerð nr. 822/2004 og sem fólksbifreið og þannig fallið undir ákvæði reglugerðar 690/2020 um endurgreiðslu virðisaukaskatts uppfylli hún skilyrði reglugerðarinnar að öðru leyti? Ef svo er ekki, hvers vegna ekki?
    Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu getur hvert einstakt ökutæki eingöngu verið skráð í einn ökutækjaflokk. Í svari Samgöngustofu til ráðuneytisins kemur fram að fólksbifreið falli undir flokkana M1 eða M1G. Til fólksbifreiða teljist því ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga en ekki vöruflutninga.
    Flokkun bifreiða hér á landi fer eftir Evrópustöðlum þar sem sett eru samræmd viðmið um flokkun ökutækja til að auðvelda skráningu, sölu og notkun ökutækja á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. reglugerð nr. 822/2044. Til að tryggja að slík samræmd viðmið séu lögð til grundvallar hér á landi er eingöngu heimilt að flokka bifreið í einn flokk. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er þó hægt að framkvæma breytingar á ökutæki þannig að flokki þess verði breytt.