Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1585  —  468. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starf þingnefnda, tímafrestir, eftirlit, starfsfólk, stjórnsýsla o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 2. júní.)


I. KAFLI
Breyting á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Þegar kjörbréf hafa verið gefin út að loknum alþingiskosningum og áður en Alþingi kemur saman er starfandi forseta, sbr. 2. mgr. 6. gr., heimilt að kveðja saman nefnd níu kjörinna alþingismanna til að undirbúa þá rannsókn kjörbréfa sem fer fram á þingsetningarfundi skv. 2. mgr. Við val í nefndina skal fylgja hlutfallsreglu 82. gr. Þingflokkar sem þannig fá ekki fulltrúa í nefndina mega tilnefna áheyrnarfulltrúa.
     b.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Markar hann upphaf nýs löggjafarþings.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú forfallast forseti eða þarf að víkja úr forsetastól og varaforsetar eru eigi tiltækir og skal þá aldursforseti eða sá er næstur kemur honum í þingaldri og viðstaddur er, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 6. mgr. 8. gr., stýra fundi.

3. gr.

    Við 3. mgr. 10. gr. laganna bætist: enda hafi fundum Alþingis áður verið frestað, sbr. 23. gr. stjórnarskrárinnar. Utanríkismálanefnd getur þó komið saman í samræmi við ákvæði 24. gr.

4. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Forsætisnefnd ræður skrifstofustjóra til sex ára í senn og ákveður laun hans og önnur starfskjör. Skrifstofustjóri Alþingis stjórnar skrifstofu Alþingis og framkvæmdum á vegum þingsins og hefur umsjón með fjárreiðum þess og eignum í umboði forseta. Forseti setur skrifstofustjóra erindisbréf.
    Skrifstofustjóri situr fundi forsætisnefndar og er forseta og nefndinni til aðstoðar í öllu er varðar stjórn þingsins.
    Skrifstofustjóri skipuleggur starfsemi skrifstofunnar og ræður annað starfsfólk Alþingis. Hann er í fyrirsvari gagnvart starfsfólki þingsins þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur þess samkvæmt lögum og kjarasamningum. Þá er skrifstofustjóri í fyrirsvari gagnvart stéttarfélögum starfsfólks við gerð kjarasamninga. Skrifstofustjóri gerir stofnanasamning við stéttarfélag starfsfólks Alþingis.
    Starfsfólk Alþingis skal í störfum sínum og í samræmi við hlutverk sitt og verkefni gæta fagmennsku. Það skal veita réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á gögnum, staðreyndum og faglegu mati svo að þingmenn geti sinnt hlutverki sínu sem þjóðkjörnir fulltrúar.

5. gr.

    4. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Í stað orðanna „skýrslu ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál“ í 2. málsl. 6. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: skýrslur ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál og um EES-mál.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fundaskrá“ í 7. málsl. 1. mgr. kemur: fundatíma.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Nefnd getur hvenær sem er kosið að nýju formann eða varaformenn ef tillaga þar um hlýtur stuðning meiri hluta nefndarmanna og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram. Um kjör formanns eða varaformanns fer eftir 1. og 2. mgr. 3. gr. eftir því sem við á.

8. gr.

    Á eftir 1. mgr. 16. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nefndasæti má og færa milli þingflokka, sbr. 14. gr., ef fyrir liggur samþykki þeirra þingflokka er hlut eiga að máli. Um slík mannaskipti í nefndum fer að öðru leyti eftir ákvæðum 1. mgr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Forföll og notkun fjarfundarheimildar skulu tilkynnt formanni og starfsfólki nefndarinnar með eins góðum fyrirvara og unnt er.
     b.      Orðin „eða ritara nefndarinnar“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „starfsmenn“ kemur: starfsfólk.
     b.      Orðin „sbr. þó 2. mgr.“ falla brott.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      2. málsl. fellur brott.
     b.      Á eftir orðunum „Fundargerð skal“ í 3. málsl. kemur: að jafnaði.

12. gr.

    Í stað orðanna „96. gr.“ í 1. mgr. 23. gr., 2. mgr. 41. gr., 1. mgr. 56. gr., tvívegis í 2. mgr. 60. gr. og 1., 3. og 4. mgr. 67. gr. laganna kemur: 100. gr.

13. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Utanríkismálanefnd skal, auk verkefna sem hún hefur skv. 13. gr., vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera fyrir fram undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum, nema brýn nauðsyn banni.

14. gr.

    2. málsl. 6. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Með tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu fimm ára þar á eftir.

15. gr.

    Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimild þessi nær þó ekki til efnis þingmála sem vísað hefur verið til annarra þingnefnda.

16. gr.

    Í stað 2. mgr. 27. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Telji formaður nefndar eða framsögumaður, sbr. 1. mgr., að athugun máls í nefndinni sé lokið gerir hann tillögu um að málið sé afgreitt frá nefndinni, sbr. 22. gr.
    Ef gera á tillögu um afgreiðslu máls á nefndarfundi skal að jafnaði tilgreina það í fundarboði. Ef nefndarmaður, annar en formaður eða framsögumaður, sbr. 2. mgr., gerir tillögu um að athugun máls verði hætt og að það sé afgreitt frá nefndinni er formanni þó skylt að láta ganga atkvæði um þá tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Tillaga um afgreiðslu máls skv. 2. málsl. telst því aðeins samþykkt að meiri hluti allra nefndarmanna greiði henni atkvæði.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      3. og 5. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nefndarmaður getur undirritað nefndarálit með fyrirvara en skal þá gera grein fyrir því í stuttu máli í hverju fyrirvari hans er fólginn.
     c.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Nefndarmanni sem hefur tekið þátt í efnislegri umfjöllun nefndar um mál er heimilt að rita undir nefndarálit eða standa að breytingartillögum þótt hann hafi verið fjarstaddur við lokaafgreiðslu máls.
                  Nefndaráliti skal útbýta meðal þingmanna á fundi. Eigi má taka málið til umræðu fyrr en að minnsta kosti einni nóttu síðar en áliti nefndar eða meiri hluta hennar var útbýtt.

18. gr.

    2. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta fylgja með áliti sínu mat á áhrifum, þ.m.t. fjárhagslegum áhrifum, sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér. Enn fremur skal nefnd láta endurskoða mat á áhrifum stjórnarfrumvarps ef hún gerir verulegar breytingartillögur við frumvarpið, sbr. 37. gr.

19. gr.

    34. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

    5. mgr. 35. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Frumvörp, sem innleiða eiga reglur er byggjast á EES-gerðum, skulu að meginstefnu ekki fela í sér önnur ákvæði en þau sem leiðir af gerðinni og skal í greinargerð tilgreina hvaða gerðir frumvarpinu er ætlað að innleiða og taka fram ef gengið er lengra en lágmarkskröfur gerða kveða á um.
     b.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Stjórnarfrumvörpum skal fylgja mat á áhrifum, þ.m.t. fjárhagslegum áhrifum, við lögfestingu þeirra.
     c.      5. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     d.      4. mgr. orðast svo:
                  Forsenda útbýtingar samkvæmt þessari grein, svo og skv. 6. mgr. 45. gr., er að þingmál hafi borist skrifstofu Alþingis fullbúið og tilbúið til birtingar á vef þingsins.

22. gr.

    Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur forseti, ef hagkvæmt þykir, borið upp breytingartillögur, hverja fyrir sig eða margar saman, og síðan greinar frumvarpsins svo breyttar og aðrar greinar frumvarpsins í heild. Óski þingmaður sérstakrar atkvæðagreiðslu um tiltekna grein frumvarpsins, atriði í frumvarpinu eða breytingartillögu við það skal forseti verða við þeirri ósk en henni skal að jafnaði komið á framfæri fyrir upphaf þess þingfundar þegar atkvæðagreiðsla um málið er á dagskrá.

23. gr.

    Í stað orðanna „ber að aflétta með þingsályktun“ í 7. mgr. 45. gr. laganna kemur: ber að jafnaði að aflétta með þingsályktun.

24. gr.

    Við 46. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar má þó leggja fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarp meðan á 2. eða 3. umræðu stendur enda líði a.m.k. ein nótt áður en breytingartillagan kemur til atkvæða.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftirlitshlutverk Alþingis tekur einnig til sjálfstæðra stjórnvalda.
     b.      Orðin „gagnvart ráðherrum“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 51. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef að minnsta kosti fjórðungur nefndarmanna krefst þess að nefnd fái aðgang að gögnum frá stjórnvöldum, þ.m.t. sjálfstæðum stjórnvöldum, eða að teknar verði saman upplýsingar út af máli sem nefndin hefur til umfjöllunar skal stjórnvald verða við beiðni nefndarmanna þess efnis eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt þessari málsgrein skal sett á dagskrá fundar nefndarinnar og afgreiðsla málsins skráð í gerðabók, sbr. 21. gr. Eftir fund nefndarinnar skal formaður hennar koma beiðninni á framfæri við stjórnvald.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Afhending gagna og upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera Alþingi að kostnaðarlausu.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „89. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 95. gr.
     b.      5. málsl. 1. mgr. orðast svo: Beiðni um skýrslu skal forseti ekki setja á dagskrá þingfundar fyrr en tveimur nóttum eftir að hún er lögð fram og eru þá greidd atkvæði umræðulaust um hvort beiðni skuli leyfð.
     c.      Á eftir orðunum „innan 10 vikna“ í 2. mgr. kemur: nema tilgreindur sé rýmri tími í beiðninni.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Níu þingmenn geta farið fram á skýrslu frá ríkisendurskoðanda um einstök mál eða málaflokka sem falla undir starfssvið hans, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Forseti skal tilkynna um slíka beiðni á þingfundi og senda hana ríkisendurskoðanda.

28. gr.

    Við 55. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Ráðherra utanríkismála skal árlega flytja þinginu skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál og skýrslu um EES-mál. Skýrslum ráðherra skal vísa til utanríkismálanefndar til umfjöllunar. Nefndin getur lagt fyrir þingið álit sitt á skýrslunum.

29. gr.

    Í stað orðsins „nefndarálits“ í 2. málsl. 2. mgr. 56. gr. laganna kemur: álits nefndarinnar.

30. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      Orðin „prentuð og“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „það prentað og útbýtt“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: því útbýtt.

31. gr.

    Í stað orðanna „heimasíðu Alþingis“ í 1. málsl. 4. mgr. 65. gr. og 1. málsl. 5. mgr. 90. gr. laganna kemur: vef Alþingis.

32. gr.

    Á eftir 88. gr. laganna kemur ný grein, 89. gr., svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Skrifstofa Alþingis safnar og birtir upplýsingar um æviágrip fyrrverandi og núverandi alþingismanna og varaþingmanna.

33. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Skrifstofa Alþingis og stjórnsýsla, með fimm nýjum greinum, 90.–94. gr., svohljóðandi, og breytist röð annarra kafla og greina samkvæmt því:

    a. (90. gr.)
    Hlutverk skrifstofu Alþingis er að styðja við starfsemi Alþingis svo að þingið, sem handhafi ríkisvalds, geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt stjórnarskrá og lögum.
    Verkefni skrifstofu Alþingis eru m.a.:
     a.      að vera forseta til aðstoðar og framfylgja ákvörðunum forseta og forsætisnefndar auk ákvarðana á fundi forseta með þingflokksformönnum,
     b.      að veita alþingismönnum, nefndum og þingflokkum faglega aðstoð og þjónustu,
     c.      að hafa á hendi almennan rekstur þingsins og stjórnsýslu,
     d.      að varðveita og miðla upplýsingum um hlutverk og starfsemi Alþingis.

    b. (91. gr.)
    Með stjórnsýslu Alþingis er átt við þá starfsemi sem fer fram á vegum þingsins og forseti hefur æðsta vald í, sbr. 9. gr., eða sem forsætisnefnd er ætlað að fjalla um samkvæmt lögum þessum. Til stjórnsýslu Alþingis telst enn fremur starfsemi sem forseta Alþingis eða forsætisnefnd er falin samkvæmt fyrirmælum í öðrum lögum eða samkvæmt ályktun Alþingis.
    Undir stjórnsýslu Alþingis fellur hvorki sú starfsemi sem fram fer af hálfu Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa né starfsemi umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og rannsóknarnefnda samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir.

    c. (92. gr.)
    Ákvæði stjórnsýslulaga, utan VII. og VIII. kafla, taka til stjórnsýslu Alþingis. Enn fremur gildir ákvæði 47. gr. stjórnsýslulaga um verktaka og starfsfólk hans sem gerir samninga við skrifstofustjóra um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni, sbr. 40. gr. laga um opinber fjármál.

    d. (93. gr.)
    Um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis fer samkvæmt upplýsingalögum.
    Í reglum sem forsætisnefnd setur og birta skal í B-deild Stjórnartíðinda skal kveðið nánar á um aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis og um afmörkun hennar gagnvart þeirri starfsemi sem annars fer fram af hálfu Alþingis sem samkomu þjóðkjörinna fulltrúa. Í reglum forsætisnefndar skal jafnframt kveðið á um móttöku og meðferð beiðna um upplýsingar. Má í slíkum reglum ákveða að beiðnum um upplýsingar skuli beint til skrifstofu Alþingis og að synjun um aðgang að gögnum verði skotið til forsætisnefndar eða þriggja manna nefndar utanþingsmanna sem forsætisnefnd skipar.

    e. (94. gr.)
    Í skjalasafni Alþingis skal varðveita erindi er þinginu berast, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 28. gr., svo og gerðabækur þess, fundargerðir nefnda og önnur skjöl er varða starfsemi þingsins og rekstur eða Alþingi er falið að varðveita, sbr. og 10. gr. stjórnarskrárinnar.
    Forsætisnefnd setur reglur um skjalasafn Alþingis og um aðgang að skjölum þess. Þar er heimilt að mæla fyrir um aðgang að skjölum sem undanþegin eru upplýsingarétti eða trúnaður ríkir um enda sé hann nauðsynlegur í þágu vísindarannsóknar, réttindagæslu eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Á vegum skrifstofu Alþingis starfar rannsókna- og upplýsingaþjónusta fyrir þingmenn og nefndir þingsins.

34. gr.

    91. og 93. gr. laganna falla brott og breytist greinatala samkvæmt því.

35. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Við upphaf næsta kjörtímabils skal kjósa framtíðarnefnd sem starfar til loka kjörtímabilsins. Nefndin skal m.a. fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu. Ekki skal vísa þingmálum til nefndarinnar en öðrum nefndum er heimilt að óska eftir áliti hennar á þingmálum sem þær hafa til meðferðar.
    Nefndin skal skipuð ellefu þingmönnum og skulu allir þingflokkar eiga fulltrúa í henni. Að lágmarki skulu fimm þingmenn úr þingflokkum stjórnarandstöðu eiga sæti í nefndinni og skulu þingmenn úr röðum stjórnarliða og stjórnarandstæðinga gegna formennsku og varaformennsku á víxl eitt ár í senn. Seta þingmanns í framtíðarnefnd skal ekki koma í veg fyrir að hann sitji jafnframt í allt að tveimur fastanefndum, sbr. 5. málsl. 1. mgr. 14. gr.
    Um nefndina skal að öðru leyti fara eins og um fastanefndir eftir því sem við getur átt. Forseta er heimilt að setja nánari reglur um störf, skipan og sérstöðu framtíðarnefndar.

II. KAFLI
Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.
36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 39. gr. a laganna:
     a.      1. og 2. málsl. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „Á sama hátt“ í 3. málsl. kemur: Með hliðsjón af þeim forsendum sem settar eru samkvæmt þessari grein.
     c.      Við 3. málsl. bætist: innan ramma hinna almennu forsendna sem ráðherra setur.

37. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.