Ferill 628. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1665  —  628. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum um stofnun Landsnets hf.,
nr. 75/2004 (forsendur tekjumarka, raforkuöryggi o.fl.).


(Eftir 2. umræðu, 9. júní.)


I. KAFLI

Breyting á raforkulögum, nr. 65/2003.

1. gr.

    Í stað orðanna „öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda“ í 3. tölul. 1. gr. laganna kemur: fullnægjandi raforkuöryggi, hagsmuni neytenda og neytendavitund á raforkumarkaði.

2. gr.

    Eftirfarandi orðskýringar bætast við 3. gr. laganna í réttri stafrófsröð:
     1.      Kerfisþjónusta: Þjónusta sem er nauðsynleg til að stjórna flutnings- eða dreifikerfi raforku og felst í tíðnitengdri kerfisþjónustu til að viðhalda stöðugri kerfistíðni, og einnig ótíðnitengdri kerfisþjónustu sem er nauðsynleg fyrir kerfisstýringu flutnings- og dreifikerfis í stöðugu ástandi.
     2.      Raforkuöryggi: Raforkuöryggi felst í að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf og þar sem hennar er þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum. Viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi skulu nánar útfærð og skýrð í reglugerð sem ráðherra setur.
     3.      Stýrt varaafl: Afl sem kerfisstjórn hefur aðgang að til að viðhalda og/eða endurreisa kerfistíðni.
     4.      Varaafl í varaaflsstöðvum: Afl sem ekki er stýrt af kerfisstjóra en er notað tímabundið vegna bilana eða truflana í flutnings- og/eða dreifikerfum eða vegna viðhalds á einstökum hlutum þeirra og fæðing eftir öðrum leiðum er útilokuð.

3. gr.

    Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Vegna varaaflsstöðva sem gegna eingöngu því hlutverki að útvega afl til eigin nota vegna bilana, skorts á flutningsgetu, orkuskorts eða annarra þátta þarf þó ekki virkjunarleyfi.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      5. málsl. 1. mgr. orðast svo: Flutningsfyrirtækið skal vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga.
     c.      6. mgr. orðast svo:
                      Fyrir 1. febrúar ár hvert skulu ráðherra og flutningsfyrirtækið, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta skrár um þau störf sem heimild til verkfalls nær ekki til samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Ný skrá tekur gildi 15. febrúar næst eftir birtingu. Sé ný skrá ekki birt samkvæmt framangreindu framlengist síðast gildandi skrá um eitt ár. Andmæli gegn breytingum á skrám skulu borin fram fyrir 1. mars sama ár og skal ágreiningur um breytingar lagður fyrir Félagsdóm sem sker úr honum til fullnustu.

5. gr.

    2. tölul. 3. mgr. 9. gr. laganna orðast svo: Kaupa kerfisþjónustu, flutningstöp og jöfnunarorku á markaði. Við kaupin skal gæta gagnsæis og jafnræðis í samræmi við verklagsreglur sem flutningsfyrirtækið setur sér. Orkustofnun er heimilt að veita undanþágu frá kaupum á ótíðnitengdri kerfisþjónustu á markaði ef markaðsbundið framboð er ekki efnahagslega skilvirkt eða önnur mikilvæg sjónarmið réttlæta undanþágu. Kaup á kerfisþjónustu skulu samræmd með dreifiveitum þegar það á við og því verður við komið.

6. gr.

    Í stað orðsins „árlega“ í 1. mgr. 9. gr. a laganna kemur: a.m.k. annað hvert ár.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 3. mgr. orðast svo: Rekstrarkostnaði sem tengist flutningsstarfsemi fyrirtækisins. Rekstrarkostnaður skiptist í eftirfarandi flokka:
              a.      Viðráðanlegan rekstrarkostnað: Allur almennur rekstrarkostnaður flutningsfyrirtækisins, svo sem kostnaður vegna viðhalds og starfsmannakostnaður. Við ákvörðun viðráðanlegs rekstrarkostnaðar við setningu tekjumarka skal taka tillit til meðalrekstrarkostnaðar síðustu fimm ára með eins árs töf að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Við setningu tekjumarka er heimilt að miða tiltekna rekstrarliði við meðaltal til styttri eða lengri tíma, að undangengnu samþykki Orkustofnunar. Þá er um að ræða óviðráðanleg atvik eða breytingar á fyrra tímabili sem skekkja fimm ára meðaltalið. Sá hluti viðráðanlegs rekstrarkostnaðar sem fellur til vegna launa skal uppfærast með tilliti til vísitölu launa og afgangur viðráðanlegs rekstrarkostnaðar uppfærist með tilliti til vísitölu neysluverðs. Endurskoðuð skipting rekstrarkostnaðar á milli stórnotenda og flutningsfyrirtækisins skal liggja fyrir ár hvert við uppgjör tekjumarka.
              b.      Óviðráðanlegan rekstrarkostnað: Raunkostnaður við uppgjör tekjumarka. Þá er átt við rekstrarkostnað sem skilgreindur er af hinu opinbera í lögum og/eða reglugerðum og reiknaður er með tilliti til vel skilgreindra eininga.
              c.      Viðbótarrekstrarkostnað: Kostnaður vegna áhrifa stórra fjárfestinga á rekstrarkostnað flutningsfyrirtækisins við setningu og uppgjör tekjumarka, leigukostnaður vegna dreifi- eða flutningsvirkja og samþykktur kostnaður vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. Kostnaður vegna rannsóknar- og þróunarverkefna skal að hámarki nema 0,3% af eignastofni fyrirtækisins. Kveða skal nánar á um viðbótarrekstrarkostnað í leiðbeiningum og reglum Orkustofnunar, sbr. 3. mgr. 24. gr.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                      Náist ekki markmið þessara laga um skilvirkni í rekstri flutningsfyrirtækisins með afmörkun tekjumarkatímabila er Orkustofnun heimilt að setja flutningsfyrirtækinu markmið um hagræðingu, þ.e. hagræðingarkröfu. Markmið um hagræðingu getur verið hlutfall af tekjumörkum í heild eða einstökum liðum þeirra, eða ákveðin upphæð sem breytist með tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. a-lið 1. tölul. 3. mgr. Ákvörðun um markmið um hagræðingu skal byggjast á sjónarmiðum sem grundvallast á skilvirkni í sambærilegum rekstri, auk þess sem tekið er mið af undangengnu hagrænu mati. Orkustofnun er heimilt að kalla eftir og taka mið af mati sérfróðra aðila við ákvörðun um markmið um hagræðingu. Ákvörðunina skal taka eigi síðar en sex mánuðum eftir að nýtt tekjumarkatímabil hefst og hefur hún áhrif á tekjumörk frá og með öðru ári þess tímabils og fram til annars árs næsta tekjumarkatímabils. Orkustofnun skal tilkynna flutningsfyrirtækinu með hæfilegum fyrirvara um setningu markmiðs um hagræðingu og gæta andmælaréttar í samræmi við stjórnsýslulög.
     c.      Í stað dagsetningarinnar „1. maí“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: 1. apríl.
     d.      Í stað dagsetningarinnar „1. ágúst“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: 1. júlí.
     e.      Í stað hlutfallstölunnar „10%“ í 1. málsl. 7. mgr. kemur: 15%.
     f.      Í stað lokamálsliðar 7. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá skal draga frá uppgjöri tekjumarka næsta árs þær uppsöfnuðu ofteknu tekjur sem eru umfram 5%, margfaldaðar með vegnum fjármagnskostnaði það ár sem farið var yfir tilskilin mörk. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára nema við sérstakar aðstæður eins og við skyndilegt tekjufall flutningsfyrirtækisins, að undangenginni ákvörðun Orkustofnunar, en þó aldrei lengur en sem nemur einu tekjumarkatímabili.
     g.      Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Komi í ljós að flutningsfyrirtækið uppfyllir ekki markmið um gæði raforku, í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, er Orkustofnun heimilt að taka tillit til þess við uppgjör tekjumarka flutningsfyrirtækisins, með rökstuðningi. Nánari viðmið um vikmörk frá markmiðum um gæði raforku skulu koma fram í reglugerð sem ráðherra setur og leiðbeiningum Orkustofnunar.
     h.      Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um hvað leggja skuli til grundvallar við mat á setningu markmiðs um hagræðingu, sbr. 4. mgr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. a laganna:
     a.      6. mgr. orðast svo:
                  Notandi sem í framleiðslu sinni er alfarið háður því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en raforku getur óskað heimildar til beinnar tengingar við virkjun skv. 5. mgr. enda þótt hann nái ekki stórnotendaviðmiði. Skilyrði þessa er að notandi njóti engrar þjónustu frá flutningsfyrirtækinu, hafi enga tengingu við flutningskerfið og vinni að skilgreindum verkefnum á sviði orku- og loftslagsmála. Slíkir notendur skulu undanþegnir greiðslu gjalda til flutningsfyrirtækisins. Hámarksaflþörf slíkra notenda sem beintengdir eru virkjun má ekki vera umfram 20 MW.
     b.      Í stað orðsins „sex“ í 1. málsl. 9. mgr. kemur: átta.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 16. gr. laganna:
     a.      3. tölul. orðast svo: Kaupa kerfisþjónustu, flutningstöp og jöfnunarorku á markaði. Við kaupin skal gæta gagnsæis og jafnræðis í samræmi við verklagsreglur sem viðkomandi dreifiveita setur sér. Orkustofnun er heimilt að veita undanþágu frá kaupum á ótíðnitengdri kerfisþjónustu á markaði ef markaðsbundið framboð er ekki efnahagslega skilvirkt eða önnur mikilvæg sjónarmið réttlæta undanþágu. Kaup á kerfisþjónustu skulu samræmd með flutningsfyrirtækinu þegar það á við og því verður við komið.
     b.      4. tölul. fellur brott.

10. gr.

    Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Áætlanir dreifiveitna við fjárfestingar í dreifikerfi raforku.

    Orkustofnun kallar eftir upplýsingum um aðferðafræði dreifiveitna við ákvörðun um fjárfestingar þeirra í dreifikerfi raforku. Orkustofnun getur krafist breytinga á aðferðafræði dreifiveitu ef ástæða þykir til.
    Fjárfestingar í dreifikerfi raforku skulu byggjast á gagnsærri fjárfestingaráætlun sem viðkomandi dreifiveita birtir á a.m.k. tveggja ára fresti. Orkustofnun er heimilt að óska eftir drögum að áætluninni áður en hún birtist. Í áætluninni skal tilgreina áætlaðar fjárfestingar næstu fimm til tíu ára, með áherslu á helstu dreifingarinnviði sem eru nauðsynlegir í samræmi við markmið og skyldur dreifiveitna.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      1. tölul. 3. mgr. orðast svo: Rekstrarkostnaði sem tengist dreifingu fyrirtækisins á rafmagni. Rekstrarkostnaður skiptist í eftirfarandi flokka:
              a.      Viðráðanlegan rekstrarkostnað: Allur almennur rekstrarkostnaður dreifiveitna, svo sem kostnaður vegna viðhalds og starfsmannakostnaður. Við ákvörðun viðráðanlegs rekstrarkostnaðar við setningu tekjumarka skal taka tillit til meðalrekstrarkostnaðar síðustu fimm ára með eins árs töf að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Við setningu tekjumarka er heimilt að miða tiltekna rekstrarliði við meðaltal til styttri eða lengri tíma, að undangengnu samþykki Orkustofnunar. Þá er um að ræða óviðráðanleg atvik eða breytingar á fyrra tímabili sem skekkja fimm ára meðaltalið. Sá hluti viðráðanlegs rekstrarkostnaðar sem fellur til vegna launa skal uppfærast með tilliti til vísitölu launa og afgangur viðráðanlegs rekstrarkostnaðar uppfærist með tilliti til vísitölu neysluverðs.
              b.      Óviðráðanlegan rekstrarkostnað: Raunkostnaður við uppgjör tekjumarka. Þá er átt við rekstrarkostnað sem skilgreindur er af hinu opinbera í lögum og/eða reglugerðum og reiknaður er með tilliti til vel skilgreindra eininga. Þegar dreifiveita hefur sannarlega boðið út töp sín metur Orkustofnun hvort þau skuli reiknast sem óviðráðanlegur rekstrarkostnaður í uppgjöri tekjumarka.
              c.      Viðbótarrekstrarkostnað: Kostnaður vegna áhrifa stórra fjárfestinga á rekstrarkostnað dreifiveitna við setningu og uppgjör tekjumarka, leigukostnaður vegna dreifi- eða flutningsvirkja og samþykktur kostnaður vegna rannsóknar- og þróunarverkefna. Kostnaður vegna rannsóknar- og þróunarverkefna skal að hámarki nema 0,3% af eignastofni dreifiveitna. Kveða skal nánar á um viðbótarrekstrarkostnað í leiðbeiningum og reglum Orkustofnunar, sbr. 3. mgr. 24. gr.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „20%“ í 2. málsl. 2. tölul. 3. mgr. kemur: 8%.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                      Náist ekki markmið þessara laga um skilvirkni í rekstri dreifiveitu með afmörkun tekjumarkatímabila er Orkustofnun heimilt að setja viðkomandi dreifiveitu markmið um hagræðingu, þ.e. hagræðingarkröfu. Markmið um hagræðingu getur verið hlutfall af tekjumörkum í heild eða einstökum liðum þeirra, eða ákveðin upphæð sem breytist með tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. a-lið 1. tölul. 3. mgr. Ákvörðun um markmið um hagræðingu skal byggjast á sjónarmiðum sem grundvallast á í sambærilegum rekstri, auk þess sem tekið er mið af undangengnu hagrænu mati. Orkustofnun er heimilt að kalla eftir og taka mið af mati sérfróðra aðila við ákvörðun um markmið um hagræðingu. Ákvörðunina skal taka eigi síðar en sex mánuðum eftir að nýtt tekjumarkatímabil hefst og hefur hún áhrif á tekjumörk frá og með öðru ári þess tímabils og fram til annars árs næsta tekjumarkatímabils. Orkustofnun skal tilkynna viðkomandi dreifiveitu með hæfilegum fyrirvara um setningu markmiðs um hagræðingu og gæta andmælaréttar gagnvart dreifiveitum í samræmi við stjórnsýslulög.
     d.      Í stað dagsetningarinnar „15. september“ í 5. mgr. kemur: 1. október.
     e.      Í stað hlutfallstölunnar „10%“ í 1. málsl. 7. mgr. kemur: 15%.
     f.      Í stað lokamálsliðar 7. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þá skal draga frá uppgjöri tekjumarka næsta árs þær uppsöfnuðu ofteknu tekjur sem eru umfram 5%, margfaldaðar með vegnum fjármagnskostnaði það ár sem farið var yfir tilskilin mörk. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára nema við sérstakar aðstæður eins og við skyndilegt tekjufall dreifiveitu, að undangenginni ákvörðun Orkustofnunar, en þó aldrei lengur en sem nemur einu tekjumarkatímabili.
     g.      Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Komi í ljós að dreifiveita uppfyllir ekki markmið um gæði raforku, í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, er Orkustofnun heimilt að taka tillit til þess við uppgjör tekjumarka viðkomandi dreifiveitu, með rökstuðningi. Nánari viðmið um vikmörk frá markmiðum um gæði raforku skulu koma fram í reglugerð sem ráðherra setur og leiðbeiningum Orkustofnunar.
     h.      Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um hvað leggja skuli til grundvallar við mat á setningu markmiðs um hagræðingu.

12. gr.

    Á eftir 18. gr. a laganna kemur ný grein, 18. gr. b, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Leyfi til orkuendurnýtingar.

    Stórnotanda raforku skv. 19. tölul. 3. gr. er heimilt að sækja um leyfi til Orkustofnunar til að nýta og selja orku sem leysist úr læðingi í formi varma frá eigin framleiðsluferlum og vélbúnaði sem nota orku (glatvarmi). Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skilyrði til nýtingar glatvarma.

13. gr.

    Við 20. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um viðskipti á hleðslustöðvum fyrir rafknúin ökutæki sem eru aðgengilegar fyrir almenning. Í slíkri reglugerð skal mæla fyrir um rekstur slíkra hleðslustöðva og skilgreina tæknilegar kröfur sem gerðar eru til þeirra.

14. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur ný grein, 21. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Aðgerðir vegna trjágróðurs.

    Til að tryggja öryggi raforkukerfisins, sbr. 3. tölul. 1. gr., 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 16. gr., er flutningsfyrirtækinu eða dreifiveitu heimilt að láta fjarlægja eða grisja tré eða trjágróður á helgunarsvæði flutnings- eða dreifikerfis raforku, að því gefnu að brýn nauðsyn krefji til að koma í veg fyrir truflun á flutningi eða dreifingu raforku eða til að koma í veg fyrir hættu sem getur haft áhrif á öryggi flutnings- og dreifikerfis raforku. Gæta skal ýtrasta meðalhófs við slíkar aðgerðir og tryggja andmælarétt landeigenda.
    Til að framfylgja aðgerðum skv. 1. mgr. hafa starfsmenn flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna, eða þeir sem starfa á þeirra vegum, rétt til umferðar um einkalönd. Upplýsa skal landeiganda eða umráðamann lands tímanlega um fyrirhugaðar aðgerðir og leita samráðs við hann, nema um sé að ræða neyðartilvik skv. 3. mgr.
    Flutningsfyrirtækið eða dreifiveita skal gefa landeiganda eða umráðamanni lands tækifæri til að gera ráðstafanir skv. 1. mgr. nema um sé að ræða neyðartilvik er kalla á tafarlausar aðgerðir í þágu öryggis raforkukerfisins eða almannaöryggis. Slíkar neyðaraðgerðir mega fara fram án samráðs við landeiganda eða umráðamann lands. Hafi slíkar neyðaraðgerðir farið fram skal flutningsfyrirtækið eða dreifiveita upplýsa landeiganda um þær ráðstafanir sem gerðar voru án undanfarandi tilkynningar.
    Komi upp ágreiningur milli flutningsfyrirtækisins eða dreifiveitu og landeiganda eða umráðamanns lands um aðgerðir skv. 1. mgr. skal senda skriflega leyfisbeiðni til Orkustofnunar um heimild til aðgerða. Orkustofnun kynnir landeiganda beiðnina og leitar umsagnar hans. Orkustofnun ber að afgreiða beiðnir innan fjögurra vikna frá því að þær berast. Ef stofnuninni tekst ekki að ljúka afgreiðslu málsins innan tilskilins frests ber að upplýsa um töfina, ástæður hennar og hvenær ætla megi að afgreiðslu máls ljúki. Sé leyfi veitt eru aðgerðirnar heimilar án leyfis landeiganda. Ákvörðun Orkustofnunar sætir kæru til úrskurðarnefndar raforkumála, sbr. 30. gr.
    Aðgerðir skv. 1. og 3. mgr. eru undanþegnar ákvæðum laga um skóga og skógrækt en miðað skal við endurnýjun trjáa, í stað þeirra sem fella þarf, á nýjum stað. Leita skal umsagnar Skógræktarinnar áður en flutningsfyrirtækið eða dreifiveita ræðst í aðgerðir eða leyfi Orkustofnunar er veitt skv. 4. mgr.
    Landeigandi eða umráðamaður lands getur krafist bóta vegna tjóns sem hann verður sannanlega fyrir vegna aðgerða samkvæmt ákvæðum þessarar greinar í samræmi við ákvæði 22. gr.
    Við aðgerðir samkvæmt grein þessari skal þess gætt að lágmarka tjón á umhverfi, lífríki og ásýnd, og tryggja almennt góðan frágang.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd aðgerða vegna trjágróðurs sem skapar hættu fyrir flutnings- eða dreifikerfi raforku.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „leiðbeiningar“ í 3. mgr. kemur: og reglur.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Orkustofnun skal hafa yfirsýn og eftirlit með tiltæku varaafli raforku í landinu. Í reglugerð skal nánar kveðið á um eftirlitsheimildir og úrræði Orkustofnunar til að tryggja viðmið til grundvallar ákvörðunum um varaafl, skiptingu kostnaðar milli flutningsfyrirtækis og dreifiveitna og að fullnægjandi varaafl sé til staðar til að bregðast við áföllum í raforkukerfinu.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 31. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „0,58 aurum“ í 1. tölul. kemur: 0,75 aurum.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „1,45 aurum“ í 2. tölul. kemur: 1,88 aurum.

17. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XII í lögunum fellur brott.

18. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef tekin er ákvörðun um markmið um hagræðingu skv. 4. mgr. 12. gr. eða 4. mgr. 17. gr. fyrir tekjumarkatímabilið 2021–2025 skal sú ákvörðun liggja fyrir eigi síðar en 1. desember 2021.

II. KAFLI

Breyting á lögum um stofnun Landsnets hf., nr. 75/2004.

19. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

20. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. júlí 2021. Ákvæði 16. gr. kemur til framkvæmda 1. janúar 2022. Ákvæði b-liðar 4. gr., 17. gr. og 19. gr. koma til framkvæmda 1. júlí 2022.