Ferill 699. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1714  —  699. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um verðbréfasjóði.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Júlíusdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Aðalstein Eymundsson, Ingu Dröfn Benediktsdóttur, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur, Gunnar Þór Ásgeirsson, Hjálmar Brynjólfsson og Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Seðlabanka Íslands og Jónu Björk Guðnadóttur, Lilju Jensen, Magnús Má Leifsson, Írisi Björk Hreinsdóttur og Birgi Ottó Hillers frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að ný heildarlög um verðbréfasjóði öðlist gildi, sem leysi gildandi lög um verðbréfasjóði, nr. 128/2011 af hólmi. Með lögunum verði innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB um breytingu á tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög og tilskipun 2010/78/ESB um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/ EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópsku bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin) að því er varðar verðbréfasjóði.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis, dags. 20. maí 2021, er að finna viðbrögð ráðuneytisins við umsögnum sem bárust nefndinni og breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur yfirfarið og gert að sínum. Breytingarnar eru einkum tæknilegs eðlis og vísast til umfjöllunar í minnisblaði ráðuneytisins um efni þeirra.
    Að auki leggur meiri hlutinn til breytingar sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif, m.a. lagfæringar á millivísunum og samræming frumvarpsins við önnur frumvörp og breytingar á lögum á sviði fjármálamarkaðar sem nefndin hefur haft til umfjöllunar samhliða málinu.
    Meiri hlutinn leggur til að gildistaka laganna verði 1. september 2021.

    Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 7. júní 2021.


Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Brynjar Níelsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Smári McCarthy. Þórarinn Ingi Pétursson.