Ferill 537. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1736  —  537. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um gjaldeyrismál.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpi þessu er lögfest heimild fyrir Seðlabanka Íslands til að grípa til víðtækra gjaldeyrishafta án aðkomu Alþingis. Hér er ekki um að ræða skammtímaráðstafanir heldur fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um varanlegan framtíðargrundvöll peningamálastjórnunar í landinu, á sama tíma og ábyrgðin á framkvæmdinni er færð frá löggjafanum.
    Fyrir liggur að ríkar heimildir til þess að hefta fjármagnsflæði draga úr trausti erlendra fjárfesta á íslenskum fjárfestingarkostum. Gjaldeyrishöft kunna því að vera skaðleg efnahagslífinu til lengri tíma litið og draga almennt úr hagkvæmni hagkerfisins og verðmætasköpun. Þess vegna eru þau til þess fallin að skerða samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðamarkaði.
    Að mati 1. minni hluta hefur ekki verið lagt fullnægjandi mat á neikvæð áhrif frumvarpsins á erlenda fjárfestingu eða efnahagslegan kostnað. Í frumvarpinu er lögð til heimild til að koma á sambærilegum fjármagnshöftum og sett voru á í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Nær áratug tók að vinda ofan af þeim höftum og fylgdi þeim gífurlegur kostnaður fyrir íslenskt atvinnulíf og ríkissjóð Íslands.
    Í frumvarpi þessu felst viðurkenning á því að íslenska krónan hafi ekki burði til þess að sinna hlutverki sínu sem gjaldmiðill í frjálsu og opnu hagkerfi án þess að víðtæk úrræði til inngripa og hafta séu tiltæk. Neyðarúrræðin sem lagt er til að verði lögfest staðfesta þetta að mati 1. minni hluta og hætt er við því að þau verði skaðleg íslensku efnahagslífi til frambúðar.
    Vegna þessara grundvallarsjónarmiða getur 1. minni hluti ekki stutt frumvarpið.

Alþingi, 11. júní 2021.

Jón Steindór Valdimarsson.