Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1737  —  588. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, nr. 160/2008 (leiðsöguhundar).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og barst umsögn frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
    Frumvarp þetta kveður á um að ríkissjóður skuli tryggja árlega fjármagn til að afla, þjálfa og flytja inn leiðsöguhunda til samræmis við eftirspurn hverju sinni. Í umsögn sinni bendir Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin á að hingað til hafi Blindrafélagið safnað fé og gefið miðstöðinni leiðsöguhunda til að úthluta. Miðstöðin fagnar því að í frumvarpinu sé lagt til skýrt ákvæði um úthlutun leiðsöguhunda.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu. Mikilvægt er að skýrar reglur gildi um réttindi fólks til að fá leiðsöguhunda og hvernig skuli standa að öflun, þjálfun og innflutningi á leiðsöguhundum. Þá er afar mikilvægt að ríkissjóður tryggi fjármagn til þessa. Ávinningurinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð leiðsöguhunda að halda er óumdeilanlegur.
    Eigi að síður telur nefndin að lögfesting ákvæðis um aukinn fjárhagslegan stuðning, um 50.000 kr. á mánuði, til þeirra sem hafa beðið eftir úthlutun leiðsöguhunds lengur en 12 mánuði sé óvarleg að svo stöddu. Telur nefndin skynsamlegra að meiri reynsla fáist á ferlið og leggur því til að 3. mgr. 1. gr. ákvæðisins falli brott.
    Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, ber nefnd að meta fjárhagsleg áhrif sem hún telur ný lög hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. Nefndin telur, að teknu tilliti til kostnaðar vegna hvers hunds og umsýslu, að kostnaður ríkissjóðs verði um 15 millj. kr. árlega.
    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    3. mgr. 1. gr. falli brott.

    Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hún gerir grein fyrir í ræðu. Halldóra Mogensen og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins
en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 11. júní 2021.

Helga Vala Helgadóttir,
form.
Guðmundur Ingi Kristinsson,
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir.
Ásmundur Friðriksson. Halla Signý Kristjánsdóttir,
með fyrirvara.
Halldóra Mogensen.
Ólafur Þór Gunnarsson. Steinunn Þóra Árnadóttir. Vilhjálmur Árnason.