Ferill 767. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1742  —  767. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um hækkun persónuafsláttar og fjármagnstekjuskatts.

                                  
    Svar við þessari fyrirspurn byggist á skattaálagningu ársins 2020 á tekjur einstaklinga á árinu 2019. Álagningin skilaði samtals 197 milljörðum kr. í tekjuskatti til ríkissjóðs en um 24 milljörðum kr. í fjármagnstekjuskatti. Forsendur þróunar atvinnutekna og fjármagnstekna árin 2020 og 2021 byggjast á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og tekjuáætlun skrifstofu skattamála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Miðað er við grunnprósentu tekjuskatts árið 2021 (17,00%) og útsvarsprósentu, samkvæmt ákvörðun sveitarfélaga fyrir árið 2021, sem er að meðaltali 14,45%. Búseta einstaklinga eftir sveitarfélögum ákvarðast út frá álagningarskrá 2020. Mánaðartekjur miðast við tekjur að frádregnu 4% lögboðnu iðgjaldi launþega í lífeyrissjóð. Vert er að taka fram að hér er einungis gert ráð fyrir beinum áhrifum skattbreytinga á tekjur ríkissjóðs og því ekki horft til óbeinna áhrifa, svo sem á atvinnuþátttöku og vinnuframlag eða á umfang sparnaðar og fjárfestinga sem bera fjármagnstekjuskatt, en þau gætu ýmist verið til hækkunar eða lækkunar.
                                  
     1.      Hvað áhrif hefði það á ríkissjóð miðað við núgildandi tekjuskattshlutföll að hækka persónuafslátt svo að:
                  a.      mánaðartekjur að 250.000 kr. yrðu skattfrjálsar,
                  b.      mánaðartekjur að 300.000 kr. yrðu skattfrjálsar,
                  c.      mánaðartekjur að 350.000 kr. yrðu skattfrjálsar?
    Skattleysismörk ráðast af samspili grunnprósentu tekjuskattskerfisins (þ.m.t. útsvarsprósentu sveitarfélaga) og persónuafslætti. Áhrif þess að hækka persónuafslátt í því skyni að hækka skattleysismörk hefur tvenns konar áhrif á ríkissjóð. Annars vegar gefur ríkið eftir tekjur af tekjuskatti vegna hærri persónuafsláttar og hins vegar hefur það áhrif til hækkunar á uppgjör ríkissjóðs við sveitarfélög vegna nýtingar persónuafsláttar til greiðslu útsvars. Áhrif þess að hækka skattleysismörkin miðað við núgildandi tekjuskattshlutföll eru sem hér segir:
     a.      Til þess að mánaðartekjur að 250.000 kr. yrðu skattfrjálsar þyrfti persónuafsláttur að vera 78.625 kr. á mánuði eða 943.500 kr. á ári. Áætlað er að við það myndi tekjuskattur dragast saman um 69,4 milljarða kr. og að kostnaður ríkissjóðs vegna nýtingar persónuafsláttar til greiðslu útsvars myndi hækka um 19,0 milljarða kr. Heildaráhrifin yrðu því að tekjur ríkissjóðs myndu lækka um 88,4 milljarða kr. eða sem svarar til um 45% af álagningu tekjuskatts á einstaklinga árið 2020.
     b.      Til þess að mánaðartekjur að 300.000 kr. yrðu skattfrjálsar þyrfti persónuafsláttur að vera 94.350 kr. á mánuði eða 1.132.200 kr. á ári. Áætlað er að við það myndi tekjuskattur dragast saman um 96,0 milljarða kr. og að kostnaður ríkissjóðs vegna nýtingar persónuafsláttar til greiðslu útsvars myndi hækka um 34,9 milljarða kr. Heildaráhrifin á ríkissjóð yrðu því 130,9 milljarða kr. tekjutap eða sem svarar til um 67% af tekjuskattinum til ríkissjóðs.
     c.      Til þess að mánaðartekjur að 350.000 kr. yrðu skattfrjálsar þyrfti persónuafsláttur að vera 110.075 kr. á mánuði eða 1.320.900 kr. á ári. Áætlað er að við það myndi tekjuskattur dragast saman um 116,0 milljarða kr. og að kostnaður ríkissjóðs vegna nýtingar persónuafsláttar til greiðslu útsvars myndi hækka um 52,3 milljarða kr. Heildartekjutap ríkissjóðs yrði því 168,3 milljarðar kr. eða sem nemur 85% af tekjuskattinum.

     2.      Hvaða áhrif hefði það á ríkissjóð að hækka fjármagnstekjuskatt í:
                  a.      23%,
                  b.      24%,
                  c.      25%?

    Áhrif þess á tekjur ríkissjóðs að hækka fjármagnstekjuskatt eru sem hér segir:
     a.      Hækkun fjármagnstekjuskatts upp í 23% myndi auka tekjur ríkissjóðs um 1 milljarð kr. eða sem svarar til um 4% af heildarskattinum í álagningu ársins 2020.
     b.      Hækkun fjármagnstekjuskatts upp í 24% myndi auka tekjur ríkissjóðs um 1,9 milljarða kr. eða sem svarar til um 8% hækkunar á tekjum af skattinum.
     c.      Hækkun fjármagnstekjuskatts upp í 25% myndi auka tekjur ríkissjóðs um 2,9 milljarða kr. en það svarar til um 12% hækkunar á tekjunum.