Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1749  —  81. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og bárust umsagnir frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Knattspyrnusambandi Íslands, UMFÍ og Hrafnhildi Lúthersdóttur.
    Tillagan felur í sér að mennta- og menningarmálaráðherra móti heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum. Samhliða tillögu þessari fjallaði nefndin um tillögu til þingsályktunar um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks, sbr. 116. mál á yfirstandandi þingi.
    Samhljómur var á meðal umsagnaraðila um mikilvægi þess að styðja afreksfólk í íþróttum. Bent var á að mikilvægt væri að frekari stefnumótun stjórnvalda færi heim og saman við þær áherslur sem íþróttahreyfingin setti fram á Íþróttaþingi ÍSÍ. Jafnframt var bent á íþróttastefnu ríkisins frá maí 2019 sem fæli í sér mikla samvinnu og samráð innan íþróttahreyfingarinnar. Þá var því fagnað hversu mjög stjórnvöld beindu sjónum sínum að íþróttastarfsemi hér á landi um þessar mundir.
    Nefndin tekur heilshugar undir framangreind sjónarmið og beinir því jafnframt til ráðuneytisins að horft verði til áðurnefndrar þingsályktunartillögu um launasjóð afreksíþróttafólks, sbr. 116. mál, í stefnumótunarvinnunni.
    Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað dagsetningarinnar „1. júní 2021“ komi: 1. júní 2022.

    Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Alþingi, 12. júní 2021.

Páll Magnússon,
form.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir,
frsm.
Guðmundur Andri Thorsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Birgir Ármannsson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. Þorsteinn Sæmundsson. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.