Ferill 700. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1751  —  700. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæðum um tilgreinda séreign (lágmarkstryggingavernd o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Baldvinsson frá Almenna lífeyrissjóðnum og Drífu Snædal, Þóri Gunnarsson og Hilmar Harðarson frá Alþýðusambandi Íslands, Þóreyju S. Þórðardóttur og Gylfa Jónasson frá Landssamtökum lífeyrissjóða og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá BSRB, Jóhann Gunnar Þórarinsson og Vilhjálm Hilmarsson frá BHM, Guðjón Bragason og Sigurð Snævarr frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Birgi Björn Sigurjónsson, Ólöfu Marín Úlfarsdóttur og Halldóru Káradóttur frá Reykjavíkurborg, Ragnar Þór Ingólfsson frá VR, Vilhjálm Birgisson frá Verkalýðsfélagi Akraness og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Arnald Loftsson frá Frjálsa lífeyrissjóðnum, Garðar Hilmarsson, Gerði Guðjónsdóttur og Þóru Jónsdóttur frá Brú – lífeyrissjóði og Ólaf Pál Gunnarsson frá Íslenska lífeyrissjóðnum, Gunnar Þór Ásgeirsson, Rúnar Guðmundsson, Jón Ævar Pálmason og Björn Z. Ásgrímsson frá Seðlabanka Íslands og Halldór Benjamín Þorbergsson og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Umsagnir bárust frá Almenna lífeyrissjóðnum, sameiginleg umsögn frá Almenna lífeyrissjóðnum, Frjálsa lífeyrissjóðnum og Íslenska lífeyrissjóðnum, Alþýðusambandi Íslands, Arion banka, Bandalagi háskólamanna, Brú – lífeyrissjóði, BSRB, eftirlaunasjóði FÍA, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, félaginu Femínískum fjármálum, Frjálsa lífeyrissjóðnum, Íslenska lífeyrissjóðnum, Kennarasambandi Íslands, Kili – stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu, Landssambandi eldri borgara, Landssamtökum lífeyrissjóða, Lífeyrissjóði bankamanna, Lífsverki – lífeyrissjóði, Öryrkjabandalagi Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Sjúkraliðafélagi Íslands, Skattinum, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellssýslu, Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar, Tryggingastofnun ríkisins, Verkalýðsfélagi Akraness og VR.
    Með frumvarpinu, sem lagt er fram í tengslum við lífskjarasamningana, eru lagðar til víðtækar breytingar á lagaumhverfi lífeyrissjóða og m.a. kveðið á um hækkun lágmarksiðgjalds úr 12% í 15,5% af iðgjaldsstofni. Frumvarpið byggist í megindráttum á tillögum starfshóps sem skipaður var 1. mars 2017 og hafði til umfjöllunar tengsl samtryggingar og séreignar.
    Frumvarpið sætti umtalsverðri gagnrýni við umfjöllun nefndarinnar sem laut m.a. að því að ónægt samráð hefði verið haft við lífeyrissjóði og aðra hagsmunaaðila við samningu þess, að varhugavert væri að svo viðamiklar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu væru lagðar fram með svo stuttum fyrirvara og að með frumvarpinu ykist flækjustig kerfisins um of, sem flestum þætti nógu flókið fyrir. Jafnframt sættu ýmsar greinar frumvarpsins efnislegri gagnrýni og vísast um það til umsagna sem nefndinni bárust.
    Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Hvetur nefndin til að frumvarpið verði rýnt með tilliti til þeirra ábendinga sem fram hafa komið í umsögnum til nefndarinnar og að samráð verði haft við hagaðila um breytingar. Sú vinna verði forgangsmál hjá ráðuneytinu og stefnt verði að framlagningu að nýju á 152. löggjafarþingi.

Alþingi, 12. júní 2021.

Óli Björn Kárason,
form.
Brynjar Níelsson,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Smári McCarthy. Þórarinn Ingi Pétursson.