Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1809, 151. löggjafarþing 712. mál: umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Lög nr. 111 25. júní 2021.

Lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.


I. KAFLI
Markmið, gildissvið, skilgreiningar o.fl.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er:
  1. sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skal að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif,
  2. skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana,
  3. að almenningur hafi aðkomu að umhverfismati framkvæmda og áætlana og samvinna aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana.


2. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um:
  1. skipulagsáætlanir og breytingar á þeim samkvæmt skipulagslögum og lögum um skipulag haf- og strandsvæða,
  2. aðrar áætlanir og breytingar á þeim sem marka stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lög þessi og eru undirbúnar og/eða afgreiddar af stjórnvöldum og unnar samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra,
  3. framkvæmdir sem kunna eða eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. viðauka við lög þessi.

     Lög þessi gilda um framkvæmdir og áætlanir á landi, í lofthelgi og í mengunarlögsögu Íslands. Lögin gilda einnig um umhverfismat framkvæmda eða áætlana í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem kunna að hafa áhrif hér á landi, sbr. 5. gr.
     Lög þessi gilda ekki um áætlanir sem hafa þann eina tilgang að þjóna öryggi eða vörnum ríkisins eða almannavarnaviðbrögðum. Þá gilda lög þessi ekki um fjárhags- og fjárlagaáætlanir.
     Óverulegar breytingar á áætlunum eru ekki háðar ákvæðum laga þessara. Við mat ábyrgðaraðila viðkomandi áætlunar á því hvort breytingar teljist verulegar skal taka mið af áhrifum á framkvæmdir og aðra áætlanagerð og áhrifum á umhverfið.

3. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
  1. Almenningur: Einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar, samtök þeirra, félög eða hópar.
  2. Áætlun: Áætlun sem markar stefnu fyrir leyfisveitingar til framkvæmda sem falla undir lög þessi og er undirbúin og/eða samþykkt af stjórnvöldum og unnin samkvæmt lögum eða ákvörðun ráðherra.
  3. Framkvæmd: Hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd sem fellur undir lög þessi og starfsemi sem henni fylgir.
  4. Framkvæmdaraðili: Aðili sem hyggst hefja framkvæmd sem fellur undir lög þessi.
  5. Leyfi til framkvæmda: Leyfi sem veitt eru vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar sem fellur undir lög þessi og þeirrar starfsemi sem henni fylgir, svo sem framkvæmdaleyfi samkvæmt skipulagslögum, byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki, starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og önnur sambærileg leyfi sem varða meginþætti framkvæmdar og/eða starfsemi og umhverfisáhrif þeirra.
  6. Matsáætlun: Áætlun framkvæmdaraðila um hvernig fyrirhugað er að standa að umhverfismati fyrirhugaðrar framkvæmdar og á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis verði lögð áhersla í umhverfismatsskýrslu.
  7. Matsskyld framkvæmd: Framkvæmd sem háð er umhverfismati samkvæmt ákvæðum laga þessara ásamt þeirri starfsemi sem henni fylgir, sbr. 1. viðauka.
  8. Mótvægisaðgerðir: Aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar.
  9. Tilkynningarskyld framkvæmd: Framkvæmd sem tilkynna ber til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati, sbr. 1. viðauka.
  10. Umhverfismatsskýrsla: Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar eða áætlunar og starfsemi sem henni fylgir ásamt tillögum um mótvægisaðgerðir eftir því sem við á.
  11. Umsagnaraðilar: Opinberar stofnanir, stjórnvöld eða aðrir lögaðilar sem sinna lögbundnum verkefnum sem varða framkvæmdir og/eða áætlanir sem falla undir lög þessi eða umhverfisáhrif þeirra.
  12. Vöktun: Kerfisbundin mæling og skráning einstakra þátta í umhverfinu til að sannreyna umhverfisáhrif.


4. gr.

Efni umhverfismats.
     Í umhverfismati skal greina, lýsa og meta, með tilliti til viðkomandi framkvæmdar eða áætlunar, bein og óbein umtalsverð áhrif á eftirfarandi umhverfisþætti:
  1. íbúa og heilbrigði manna,
  2. líffræðilega fjölbreytni með sérstakri áherslu á tegundir og búsvæði sem njóta verndar,
  3. land, landslag, víðerni, jarðmyndanir, jarðveg, vatn, loft og loftslag,
  4. efnisleg verðmæti og menningarminjar,
  5. næmi framkvæmdar eða áætlunar fyrir hættu á stórslysum og náttúruhamförum,
  6. samspil þeirra þátta sem taldir eru upp í a–e-lið.


5. gr.

Umhverfismat yfir landamæri.
     Ef líklegt þykir að framkvæmd eða áætlun muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða ef ríki á Evrópska efnahagssvæðinu telur líklegt að það verði fyrir verulegum áhrifum af framkvæmd eða áætlun skal hafa samráð við hlutaðeigandi ríki um umhverfismatið. Sama gildir ef líklegt þykir að framkvæmd í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif hér á landi.

II. KAFLI
Stjórnsýsla, forsamráð og samþætt málsmeðferð.

6. gr.

Yfirstjórn og framkvæmd.
     Ráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Ráðherra til aðstoðar er Skipulagsstofnun, sbr. 2. mgr. Á varnar- og öryggissvæðum fer ráðherra varnarmála með lögsögu í samræmi við skilgreiningu í varnarmálalögum, sbr. og lög um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, og lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
     Hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum þessum er:
  1. að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim,
  2. að veita upplýsingar og leiðbeiningar um umhverfismat framkvæmda og áætlana,
  3. að taka ákvörðun um hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir skuli háðar umhverfismati,
  4. að annast kynningu matsáætlana og umhverfismatsskýrslna framkvæmdaraðila,
  5. að gefa álit um matsáætlanir og umhverfismat framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir,
  6. að veita ráðgjöf um umfang og áherslur umhverfismats áætlana og veita umsagnir um umhverfismatsskýrslur áætlana,
  7. að starfrækja vefsjá og gagna- og samráðsgátt um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

     Skipulagsstofnun skal búa yfir eða hafa aðgang að sérfræðiþekkingu um umhverfismat áætlana og framkvæmda.

7. gr.

Gagna- og samráðsgátt.
     Skipulagsstofnun starfrækir landfræðilega gagna- og samráðsgátt um skipulag, umhverfismat og leyfisveitingar. Þar skal birta gögn, ákvarðanir og umsagnir vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana og leyfa til framkvæmdar. Allar umsagnir samkvæmt lögum þessum skulu berast í gáttina. Aðgangur að gáttinni er öllum opinn og án endurgjalds.

8. gr.

Forsamráð.
     Nú er fyrirhuguð framkvæmd háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum og getur Skipulagsstofnun þá að eigin frumkvæði eða að frumkvæði framkvæmdaraðila eða leyfisveitanda staðið að forsamráði við fyrrnefnda aðila um fyrirliggjandi lögbundið ferli til að unnt sé að hefja framkvæmdina. Markmið forsamráðs er að stuðla að samræmdu og skilvirku ferli umhverfismats, skipulags og leyfisveitinga vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar, einnig að greiða fyrir miðlun upplýsinga á milli framkvæmdaraðila, stjórnvalda og almennings auk þess að stuðla að gæðum rannsókna og gagna.
     Við forsamráð skal taka afstöðu til þess hvort sameina skuli skýrslugerð og/eða kynningu skv. 9.–11. gr.
     Forsamráð skal fara fram eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og unnt er.

9. gr.

Sameining skýrslugerðar og kynningar samkvæmt skipulagslöggjöf.
     Þegar framkvæmd sem fellur undir málsmeðferð skv. 19. gr. eða IV. kafla kallar jafnframt á skipulagsgerð á grundvelli skipulagslaga er heimilt að sameina skýrslugerð um umhverfismat framkvæmdarinnar samkvæmt lögum þessum og skýrslugerð um umhverfismat skipulagstillögunnar samkvæmt lögum þessum og skipulagslögum. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum samkvæmt lögum þessum og skipulagslöggjöfinni.

10. gr.

Sameining skýrslugerðar og kynningar samkvæmt öðrum lögum.
     Ef skylt er að meta umhverfisáhrif samkvæmt öðrum lögum vegna leyfisveitinga til einstakra framkvæmda, sem jafnframt eru háðar umhverfismati skv. IV. kafla eða ákvörðun um matsskyldu skv. 19. gr., er heimilt að sameina það mat umhverfismati samkvæmt lögum þessum. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum. Hafa skal samráð við viðkomandi leyfisveitendur um slíka ákvörðun.

11. gr.

Samþætting skýrslugerðar og umsóknar um starfs- og rekstrarleyfi.
     Þegar um er að ræða framkvæmd vegna starfs- eða rekstrarleyfisskylds atvinnureksturs sem jafnframt er háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum er framkvæmdaraðila heimilt að fengnu samþykki leyfisveitanda að leggja fram starfs- eða rekstrarleyfisumsókn samhliða umhverfismati framkvæmdarinnar þannig að á sama tíma verði unnið að umhverfismatsskýrslu og starfsleyfi.

III. KAFLI
Umhverfismat áætlana.

12. gr.

Ferli við umhverfismat áætlana.
     Umhverfismat áætlana er ferli sem samanstendur af eftirfarandi þáttum:
  1. gerð umhverfismatsskýrslu,
  2. kynningu og samráði um umhverfismatsskýrslu við umsagnaraðila og almenning og eftir því sem við á yfir landamæri,
  3. afgreiðslu áætlunarinnar að teknu tilliti til niðurstöðu umhverfismats og samráðs.


13. gr.

Ábyrgð á umhverfismati áætlunar og tímasetning.
     Sá sem ber ábyrgð á áætlanagerð sem fellur undir lög þessi ber ábyrgð á umhverfismati hennar og kostnaði af gerð þess. Hann skal vinna umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati áætlunarinnar og annast kynningu og samráð í því skyni.
     Umhverfismat áætlunarinnar skal vinna samhliða áætlanagerðinni og liggja fyrir áður en áætlunin er samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi.

14. gr.

Umhverfismatsskýrsla áætlunar.
     Umhverfismat áætlunar skal sett fram í umhverfismatsskýrslu sem getur verið hluti af greinargerð með áætluninni. Þar skal a.m.k. koma fram:
  1. yfirlit yfir efni viðkomandi áætlunar og tengsl hennar við aðra áætlanagerð,
  2. lýsing og mat á líklegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar þar sem lagt er mat á vægi umhverfisáhrifa út frá skilgreindum viðmiðum,
  3. lýsing og mat raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar, þ.m.t. núllkosts,
  4. lýsingu á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á,
  5. samantekt á skýru og auðskiljanlegu máli á upplýsingum í a–d-lið,
  6. nánari upplýsingar sem tilgreindar eru í reglugerð um efni umhverfismatsskýrslu.
Samráð skal haft við Skipulagsstofnun um umfang og nákvæmni umhverfismatsins.
     Umhverfismatsskýrsla skal hafa að geyma upplýsingar sem sanngjarnt er að krefjast að teknu tilliti til fyrirliggjandi þekkingar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu áætlunarinnar í stigskiptri áætlanagerð. Þá skal í umhverfismatsskýrslu koma fram að hve miklu leyti betur á við að fjalla um tiltekin umhverfisáhrif á síðari stigum áætlanagerðar til að forðast endurtekningar sama mats.

15. gr.

Kynning áætlunar og umhverfismatsskýrslu.
     Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal kynna almenningi tillögu að áætluninni ásamt umhverfismatsskýrslu á áberandi hátt og leita umsagna viðeigandi umsagnaraðila um tillöguna. Tillagan ásamt umhverfismatsskýrslu skal vera aðgengileg á netinu. Almenningi og umsagnaraðilum skal gefinn sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi tillöguna og umhverfisáhrif hennar áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi.
     Heimilt er að víkja frá kynningartíma skv. 1. mgr. ef kveðið er á um annan kynningartíma í öðrum lögum.

16. gr.

Afgreiðsla áætlunar.
     Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal við afgreiðslu áætlunar hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu, sem og ef borist hafa athugasemdir frá öðrum ríkjum vegna umhverfisáhrifa þar í landi.
     Við afgreiðslu áætlunar skal gerð samantekt um hvernig umhverfissjónarmið hafa verið felld inn í áætlunina með hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og samráði um tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu. Þar skal einnig koma fram rökstuðningur fyrir endanlegri áætlun, í ljósi raunhæfra valkosta sem skoðaðir voru, og upplýsingar um hvernig hagað verði vöktun vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa af framfylgd áætlunarinnar.
     Endanleg áætlun og samantekt skv. 2. mgr. skal kynnt umsagnaraðilum og vera aðgengileg á netinu.

IV. KAFLI
Umhverfismat framkvæmda.

17. gr.

Ferli við umhverfismat framkvæmda.
     Umhverfismat framkvæmda er ferli sem samanstendur af eftirfarandi þáttum:
  1. gerð, kynningu og afgreiðslu matsáætlunar,
  2. gerð umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila,
  3. kynningu og samráði um umhverfismatsskýrslu við umsagnaraðila og almenning og eftir því sem við á yfir landamæri,
  4. athugun Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila, eftir atvikum viðbótarupplýsingum skv. 2. mgr. 21. gr., ásamt umsögnum umsagnaraðila og almennings, og álit stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar,
  5. að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsókna um leyfi til framkvæmda.


18. gr.

Ábyrgð á umhverfismati framkvæmdar.
     Framkvæmdaraðili sem hyggst hefja framkvæmd sem er matsskyld samkvæmt lögum þessum ber ábyrgð á umhverfismati framkvæmdarinnar og kostnaði af gerð þess, þ.m.t. kostnaði af málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Hann skal vinna matsáætlun og umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati framkvæmdarinnar.
     Framkvæmdaraðili sem hyggst hefja framkvæmd sem er tilkynningarskyld samkvæmt lögum þessum ber ábyrgð á tilkynningu framkvæmdarinnar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um hvort hún skuli háð umhverfismati.

19. gr.

Framkvæmdir sem kunna að vera háðar umhverfismati.
     Tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B í 1. viðauka við lög þessi skulu háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka. Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B í 1. viðauka ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
     Framkvæmdaraðili skal tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd skv. 1. mgr. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Hann skal, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir.
     Telji framkvæmdaraðili með hliðsjón af viðmiðum þeim sem fram koma í 2. viðauka laga þessara að framkvæmd í flokki B í 1. viðauka skuli undirgangast umhverfismat skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og rökstyðja afstöðu sína. Fer þá um málsmeðferð framkvæmdarinnar skv. 21.–24. gr.

20. gr.

Matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar.
     Skipulagsstofnun skal innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum. Skipulagsstofnun skal áður leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda, og skulu þeir veita umsögn innan fjögurra vikna frá því að beiðni Skipulagsstofnunar berst. Ef umsögn berst ekki innan fjögurra vikna getur Skipulagsstofnun tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Skipulagsstofnun skal gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og hafa hana aðgengilega á netinu.
     Nú er niðurstaða Skipulagsstofnunar að tilkynningarskyld framkvæmd skuli ekki háð umhverfismati og getur Skipulagsstofnun þá sett fram ábendingar um tilhögun framkvæmdarinnar í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverð umhverfisáhrif, byggðar á þeim upplýsingum sem fram hafa komið við umfjöllun um tilkynningu framkvæmdaraðila.

21. gr.

Matsáætlun.
     Nú er fyrirhuguð framkvæmd háð umhverfismati samkvæmt lögum þessum og skal framkvæmdaraðili þá gera matsáætlun og senda til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er.
     Skipulagsstofnun kynnir matsáætlun framkvæmdaraðila fyrir almenningi á áberandi hátt og hefur aðgengilega á netinu. Almenningi skal að lágmarki veittur fjögurra vikna frestur til að skila umsögn um matsáætlunina. Stofnunin skal samhliða leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda, og skulu þeir hafa fjögurra vikna frest frá því að beiðni Skipulagsstofnunar barst til að veita umsögn um málið. Ef umsögn berst ekki innan fjögurra vikna getur Skipulagsstofnun lokið áliti sínu, sbr. 3. mgr., á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
     Skipulagsstofnun kynnir framkvæmdaraðila álit sitt um matsáætlun innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast. Framkvæmdaraðili skal leggja álitið til grundvallar við umhverfismat framkvæmdarinnar. Álit Skipulagsstofnunar um matsáætlun skal fela í sér leiðbeiningar til framkvæmdaraðila um vinnslu, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu, m.a. með hliðsjón af framkomnum umsögnum annarra aðila. Skipulagsstofnun skal gera þeim sem veitt hafa umsögn um matsáætlunina grein fyrir álitinu og hafa það aðgengilegt á netinu ásamt matsáætlun framkvæmdaraðila.

22. gr.

Umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila.
     Ef framkvæmdaraðili hyggur á framkvæmd sem háð er umhverfismati skal hann að lokinni málsmeðferð skv. 21. gr. vinna skýrslu um umhverfismat hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Framkvæmdaraðili skal tryggja að umhverfismatið sé unnið af til þess hæfum sérfræðingum. Gerð og efni umhverfismatsskýrslu skal vera í samræmi við matsáætlun og álit Skipulagsstofnunar um hana, sbr. 21. gr., og innihalda a.m.k.:
  1. lýsingu á framkvæmdinni, svo sem um staðsetningu, hönnun og stærð, og aðra þætti framkvæmdarinnar sem máli skipta,
  2. lýsingu og mat á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar þar sem lagt er mat á vægi umhverfisáhrifa út frá skilgreindum viðmiðum,
  3. lýsingu og mat á raunhæfum valkostum sem framkvæmdaraðili hefur kannað og upplýsingar um helstu ástæður fyrir þeim valkosti sem var valinn, með tilliti til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar,
  4. lýsingu á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og vöktun, eftir því sem við á,
  5. samantekt á skýru og auðskiljanlegu máli um upplýsingar í a–d-lið,
  6. nánari upplýsingar sem tilgreindar eru í reglugerð um efni umhverfismatsskýrslu.

     Í umhverfismatsskýrslu skulu vera upplýsingar sem sanngjarnt má teljast að krafist sé svo að unnt sé að taka afstöðu til umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar að teknu tilliti til fyrirliggjandi þekkingar og aðferða. Framkvæmdaraðili skal taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, þar sem við á.

23. gr.

Kynning umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila.
     Þegar umhverfismatsskýrsla skv. 22. gr. liggur fyrir leggur framkvæmdaraðili hana fyrir Skipulagsstofnun til kynningar og athugunar. Skipulagsstofnun kynnir hina fyrirhuguðu framkvæmd og umhverfismatsskýrslu fyrir almenningi á áberandi hátt og hefur umhverfismatsskýrsluna aðgengilega á netinu. Almenningi skal að lágmarki veittur sex vikna frestur til að skila umsögn um skýrsluna. Stofnunin skal samhliða leita umsagna umsagnaraðila eftir því sem við á eftir eðli máls hverju sinni, svo sem leyfisveitenda. Ef umsögn umsagnaraðila berst ekki innan sex vikna getur Skipulagsstofnun lokið áliti sínu um umhverfismat framkvæmdar, sbr. 1. mgr. 24. gr., á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
     Skipulagsstofnun getur farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn enda sé framlagning þeirra gagna nauðsynleg til að komast megi að niðurstöðu um umhverfismat framkvæmdarinnar.
     Heimilt er Skipulagsstofnun að hafna því að taka umhverfismatsskýrslu til kynningar og athugunar í þeim tilvikum þegar hún uppfyllir ekki skilyrði 22. gr. Skipulagsstofnun skal þá leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu hennar.

24. gr.

Álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar.
     Innan sjö vikna frá því að kynningu á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila skv. 23. gr. lýkur skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt um umhverfismat framkvæmdarinnar, byggt á umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila, framkomnum umsögnum umsagnaraðila og almennings og, eftir því sem við getur átt, öðrum fyrirliggjandi gögnum sem varða umhverfismat framkvæmdarinnar. Í álitinu skal fjalla um forsendur, aðferðir og ályktanir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar í umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila. Þá skal þar koma fram rökstudd niðurstaða stofnunarinnar um umhverfismat framkvæmdarinnar og, eftir því sem við á, skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun sem beint er til leyfisveitenda.
     Þegar álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar liggur fyrir skal það kynnt framkvæmdaraðila og þeim sem veittu umsögn um umhverfismatsskýrsluna og vera aðgengilegt almenningi á netinu og kynnt á áberandi hátt.

V. KAFLI
Kröfur vegna leyfisveitinga.

25. gr.

Leyfi til framkvæmda.
     Óheimilt er að gefa út leyfi til framkvæmdar sem fellur undir lög þessi fyrr en álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar skv. 24. gr. liggur fyrir eða ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 19. gr. um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati.

26. gr.

Afgreiðsla leyfis til tilkynningarskyldra framkvæmda.
     Með umsókn um leyfi til framkvæmdar sem fellur í flokk B í 1. viðauka við lög þessi, þar sem liggur fyrir ákvörðun um að framkvæmdin skuli ekki háð umhverfismati, skal fylgja greining framkvæmdaraðila á því hvort forsendur matsskylduákvörðunar hafi breyst verulega frá því að ákvörðun um matsskyldu skv. 18. gr. var tekin, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.
     Við ákvörðun um leyfi til framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leyfisveitandi kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun skv. 19. gr. og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.
     Leyfisveitandi skal tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina um kæruheimild og kærufrest. Þá skal leyfisveitandi gera leyfið aðgengilegt almenningi á netinu.

27. gr.

Afgreiðsla leyfis til matsskyldra framkvæmda.
     Með umsókn um leyfi til framkvæmdar sem háð er umhverfismati samkvæmt lögum þessum skal fylgja greining framkvæmdaraðila á því hvort forsendur umhverfismats hafi breyst verulega frá umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfismat framkvæmdarinnar, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.
     Við ákvörðun um leyfi til framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leyfisveitandi kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og leggja álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat hennar til grundvallar.
     Leyfisveitandi skal taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þar sem gerð er rökstudd grein fyrir samræmi við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr., skal það koma fram í leyfinu.
     Leyfisveitandi skal tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi, og greinargerð skv. 3. mgr., aðgengilegt almenningi á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina kæruheimild og kærufrest.

VI. KAFLI
Endurskoðun umhverfismats, undanþágur og málskot.

28. gr.

Endurskoðun umhverfismats.
     Telji framkvæmdaraðili eða leyfisveitandi, sem hefur móttekið umsókn um leyfi til framkvæmda, að forsendur umhverfismatsskýrslu hafi breyst verulega frá því að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdar skv. 24. gr. lá fyrir getur hann óskað álits Skipulagsstofnunar á því hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdarinnar að hluta eða í heild. Ef framkvæmd hefst ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um umhverfismat framkvæmdarinnar liggur fyrir skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi leyfisveitandi óska eftir slíku áliti Skipulagsstofnunar.
     Við gerð álits Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi umhverfismat framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leggja til grundvallar hvort forsendur hafi breyst verulega frá því að álit um umhverfismat framkvæmdarinnar lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina.
     Verði niðurstaðan sú að endurskoða þurfi umhverfismat að hluta eða í heild skal fara með málið skv. 21.–24. gr. eftir því sem við á.
     Álit Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismats skal auglýst með áberandi hætti. Það skal kynnt framkvæmdaraðila og leyfisveitendum og haft aðgengilegt á netinu.

29. gr.

Undanþágur frá umhverfismati.
     Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að ákveða að tiltekin framkvæmd eða hluti hennar sé ekki háð lögum þessum. Það á þó aðeins við þegar eini tilgangur framkvæmdarinnar er varnir landsins eða almannavarnaviðbrögð og málsmeðferð samkvæmt lögum þessum mundi hafa skaðleg áhrif á tilgang framkvæmdarinnar.
     Ráðherra er heimilt í sérstökum undantekningartilvikum og þegar markmiðum laga þessara er náð að undanskilja tiltekna framkvæmd, eða hluta hennar, ákvæðum laga þessara, þó með fyrirvara um umhverfismat yfir landamæri skv. 5. gr. þegar beiting þeirra mundi hafa skaðleg áhrif á tilgang framkvæmdarinnar. Í slíkum tilvikum skal ráðherra kveða á um hvaða gögnum skuli safnað um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og aðgang almennings að þeim og kynna framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og almenningi ástæður fyrir undanþágunni. Ráðherra ber áður en undanþága er veitt að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um fyrirhugaða undanþágu.

30. gr.

Málskot.
     Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nema sérlög kveði á um annað. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

VII. KAFLI
Eftirlit og stjórnvaldssektir.

31. gr.

Eftirlit framkvæmda.
     Leyfisveitandi eða aðrir sem falið er með lögum eftirlit með framkvæmdum hafa eftirlit með því að matsskyldri framkvæmd sé hagað í samræmi við leyfi og að framfylgt sé ákvæðum leyfisins um mótvægisaðgerðir og vöktun framkvæmda. Skal eftirlitið og hversu lengi það varir vera í hlutfalli við eðli, staðsetningu og stærð framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar. Að öðru leyti fer um eftirlitið samkvæmt hlutaðeigandi lögum.

32. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Skipulagsstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila sem hefur hafið framkvæmd sem fellur í flokk A í 1. viðauka án þess að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, sbr. IV. kafla. Skipulagsstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila sem hefur hafið framkvæmd sem fellur í flokk B í 1. viðauka án þess að tilkynna hana til ákvörðunar um matsskyldu, sbr. 19. gr. Skipulagsstofnun getur einnig lagt stjórnvaldssektir á framkvæmdaraðila ef hann veitir stofnuninni rangar upplýsingar um framkvæmd eða umhverfisáhrif hennar, sbr. ákvæði 19. gr., 1. mgr. 21. gr., 22. gr. og 2. mgr. 23. gr. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af alvarleika brotsins og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna framkvæmdaraðila. Loks ber að líta til fjárhagslegs styrks framkvæmdaraðila.
     Stjórnvaldssektir geta numið frá 100.000 kr. til 25.000.000 kr.
     Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina er tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og skulu stjórnvaldssektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
     Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að ákvörðun er tekin. Málskot frestar aðför.
     Heimild Skipulagsstofnunar til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að brot átti sér stað. Frestur rofnar þegar Skipulagsstofnun tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

33. gr.

Reglugerð og leiðbeiningar um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
     Ráðherra setur í reglugerð, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, nánari ákvæði um:
  1. umhverfismat yfir landamæri skv. 5. gr.,
  2. gagna- og samráðsgátt skv. 7. gr.,
  3. forsamráð skv. 8. gr.,
  4. sameiningu skýrslugerðar og kynningar skv. 9.–11. gr.,
  5. kynningu og samráð gagnvart almenningi og umsagnaraðilum skv. III. og IV. kafla,
  6. umfang, efni og framsetningu umhverfismatsskýrslu áætlunar skv. 14. gr.,
  7. tilkynningar um framkvæmdir skv. 19. gr.,
  8. matsáætlun og umhverfismatsskýrslu framkvæmdar skv. 21. og 22. gr.,
  9. athugun Skipulagsstofnunar skv. 23. og 24. gr.,
  10. leyfi til framkvæmda skv. 25.–27. gr.,
  11. málsmeðferð við endurskoðun umhverfismats skv. 28. gr.

     Skipulagsstofnun gefur út leiðbeiningar um umhverfismat framkvæmda og áætlana framkvæmda, m.a. um:
  1. forsamráð skv. 8. gr.,
  2. samráð um umfang og áherslur umhverfismats áætlana skv. 13. gr.,
  3. efni og framsetningu vöktunaráætlana skv. d-lið 1. mgr. 14. gr.,
  4. kynningu og samráð gagnvart almenningi og umsagnaraðilum skv. III. og IV. kafla,
  5. efni og framsetningu matsáætlana og umhverfismatsskýrslna skv. 21. og 22. gr.,
  6. flokkun, viðmið og vægi umhverfisáhrifa,
  7. leyfi til framkvæmda sem falla undir lög þessi.

     Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að mæla svo um í reglugerð að framkvæmd sem ekki er talin upp í 1. viðauka við lög þessi skuli háð umhverfismati ef sýnt þykir að hún geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Sama gildir um framkvæmd sem varðar alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Við ákvörðunina skal ráðherra fylgja viðmiðum í 2. viðauka við lög þessi og leita umsagnar Skipulagsstofnunar, leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.
     Ráðherra setur, að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar, gjaldskrá vegna kostnaðar stofnunarinnar við framkvæmd laganna varðandi umhverfismat einstakra framkvæmda.

34. gr.

Undanþága frá frestum.
     Þrátt fyrir tímafresti sem kveðið er á um í 19.–24. gr. getur Skipulagsstofnun, í undantekningartilvikum og í samráði við framkvæmdaraðila, framlengt þá fresti sem þar er kveðið á um. Á það við í viðamiklum málum, svo sem vegna eðlis, staðsetningar eða stærðar framkvæmdar. Skal þá framkvæmdaraðila tilkynnt skriflega um ástæðu framlengingar og fyrirhugaða tímasetningu ákvörðunar.
     Skipulagsstofnun er heimilt, í samráði við framkvæmdaraðila, að lengja kynningartíma matsáætlunar og umhverfismatsskýrslu skv. 1. mgr. 23. gr. í viðamiklum málum.

35. gr.

Takmarkanir á upplýsingagjöf.
     Með fyrirvara um ákvæði upplýsingalaga skulu ákvæði laga þessara ekki hafa áhrif á skyldur til að virða takmarkanir sem lög og stjórnsýslufyrirmæli svo og viðteknar lagavenjur setja um iðnaðar- og viðskiptaleynd, þ.m.t. hugverkarétt, eða til að tryggja almannaheill.

36. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á eftirfarandi gerðum:
  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001 um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið, sem vísað er til í lið 2i í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002.
  2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/92/ESB frá 13. desember 2011 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið sem vísað er til í lið 1a í XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2012.
  3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, sem vísað er til í lið 1a í I. kafla XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 117/2015 frá 30. apríl 2015.


37. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. september 2021. Jafnframt falla úr gildi lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006.
     Ákvæði 7. gr. og e-liðar 1. tölul. 38. gr. koma til framkvæmda 1. desember 2022.

38. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Skipulagslög, nr. 123/2010:
    1. 5. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    2.      Við gerð skipulagsáætlana skal gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina koma, og umhverfismati áætlunarinnar. Þegar framkvæmd sem fellur undir málsmeðferð IV. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana kallar jafnframt á skipulagsgerð á grundvelli þessara laga er sveitarstjórn heimilt, í samráði við framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnun, að sameina skýrslugerð um skipulagstillöguna og umhverfismat hennar og skýrslugerð um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Sama gildir um kynningu fyrir almenningi og umsagnaraðilum samkvæmt lögum þessum og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skal þá skipulagstillaga kynnt með þeim valkostum sem gerð er grein fyrir í umhverfismati framkvæmdar. Þegar skýrslugerð er sameinuð samkvæmt þessari málsgrein getur sveitarstjórn veitt framkvæmdaraðila heimild til að vinna að umhverfismati skipulagstillögunnar.
    3. Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
      1. Við 1. málsl. bætist: og skal tillagan vera aðgengileg á netinu.
      2. 2. málsl. fellur brott.
    4. Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 31. gr. laganna:
      1. Við 2. málsl. bætist: og vera aðgengileg á netinu.
      2. 3. málsl. fellur brott.
    5. 2. málsl. 1. mgr. 41. gr. laganna fellur brott.
    6. Við 46. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    7.      Skipulagsstofnun skal starfrækja landfræðilega gagna- og samráðsgátt um gerð landsskipulagsstefnu og skipulagsáætlana, þ.m.t. skipulag haf- og strandsvæða, umhverfismat og framkvæmdaleyfi. Nota skal gáttina við skipulagsgerð og útgáfu framkvæmdaleyfa og skulu allar umsagnir berast í gáttina. Aðgangur að gáttinni skal vera öllum opinn og án endurgjalds.
  2. Lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011: Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
    1. Orðin „eða ætlað brot á þátttökurétti almennings“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
    2. A-liður 3. mgr. orðast svo: ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, svo sem ef kærandi telur athafnir eða athafnaleysi hafa brotið gegn þátttökuréttindum almennings eða annan ágalla hafa verið á málsmeðferð.
    3. Í stað orðanna „lög um mat á umhverfisáhrifum“ í b-lið 3. mgr. kemur: lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátttökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferð.
    4. D-liður 3. mgr. fellur brott.
    5. Við 4. mgr. bætist: eða samþykkta ársreikninga.
  3. Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013: Í stað orðsins „frummatsskýrslu“ í 2. mgr. 68. gr. laganna kemur: umhverfismatsskýrslu.
  4. Lög um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018: Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 12. gr. laganna:
    1. Við 2. málsl. bætist: og vera aðgengileg á vef.
    2. 3. málsl. fellur brott.


Ákvæði til bráðabirgða.
  1. Í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir lög þessi er lokið við gildistöku laga þessara skulu ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda.
  2. Þegar frummatsskýrsla vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar hefur verið send Skipulagsstofnun við gildistöku laga þessara er heimilt að ljúka umhverfismati samkvæmt þeirri málsmeðferð sem gildir í eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
  3. Þegar framkvæmdir í flokki B og C samkvæmt eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, hafa verið tilkynntar til Skipulagsstofnunar eða sveitarfélags til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. sömu laga við gildistöku laga þessara er heimilt að ljúka þeirri málsmeðferð samkvæmt því sem gildir í eldri lögunum.
  4. Þrátt fyrir ákvæði 15. gr. og 3. mgr. 16. gr. fer um kynningu, samráð og birtingu matsskyldra áætlana og umhverfisskýrslna þeirra samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006, fram til 1. desember 2022.
  5. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 20. gr., 2. og 3. mgr. 21. gr., 1. mgr. 23. gr., 3. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 27. gr. fer um kynningu, samráð, birtingu umhverfismatsskýrslna framkvæmda og birtingu leyfa til framkvæmda samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, til 1. desember 2022.

1. viðauki.
     Í flokki A eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Í flokki B eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli umhverfismati samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 2. viðauka. Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði, sbr. iii. lið 2. tölul. 2. viðauka.
Flokkur framkvæmda A B
1. Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi.
1.01 Framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taka til 20 ha svæðis eða stærra. X
1.02 Framkvæmdir til að leggja óræktað land eða lítt snortið svæði undir þaulnýtinn landbúnað sem taka til 5 ha svæðis eða stærra. X
1.03 Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þ.m.t. áveitu- og framræsluframkvæmdir, sem hafa áhrif á 2 ha eða stærra svæði. X
1.04 Nýræktun skóga sem tekur til 200 ha eða stærra svæðis. Varanleg skógareyðing sem tekur til 0,5 ha svæðis eða stærra. X
1.05 Uppgræðsla lands á verndarsvæðum. X
1.06 Stöðvar eða bú með þauleldi alifugla eða svína með a.m.k.:
  1. 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur,
  2. 3.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða
  3. 900 stæði fyrir gyltur.
X
1.07 Stöðvar eða bú með þauleldi búfjár utan þess sem tilgreint er í tölul. 1.06. X
1.08 Sjókvíaeldi þar sem hámarkslífmassi er 3.000 tonn eða meiri. X
1.09 Þauleldi á fiski, annað en það sem tilgreint er í tölul. 1.09, þar sem hámarkslífmassi er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar eða þar sem hámarkslífmassi er 20 tonn eða meiri og fráveita er í ferskvatn. X
1.10 Endurheimt lands frá hafi. X
2. Vinnsla auðlinda í jörðu.
2.01 Efnistaka þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3 eða meira. X
2.02 Efnistaka, utan þess sem tilgreint er í tölul. 2.01, þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira, einnig efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður vegna sömu framkvæmdar og á sama svæði ná samanlagt yfir 2,5 ha svæði eða stærra. X
2.03 Neðanjarðarnámur. X
2.04 Djúpborun (að frátalinni borun til að kanna stöðugleika jarðvegs), einkum:
  1. borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum,
  2. borun eftir jarðhita á lághitasvæðum þar sem ölkeldur, laugar eða hverir eru á yfirborði eða í næsta nágrenni,
  3. borun fyrir geymslu kjarnorkuúrgangs,
  4. vinnsla og rannsóknarboranir vegna kolvetnis utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka,
  5. borun eftir vatni þar sem gert er ráð fyrir að vinna a.m.k. 70 l/sek.
X
2.05 Iðjuver ofan jarðar til að nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir. X
3. Orkuiðnaður.
3.01 Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag. X
3.02 Öll orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira. Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira. X
3.03 Kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar, einnig þegar slík orkuver eða kjarnakljúfar (kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar teljast ekki lengur til slíkra stöðva þegar öll kjarnakleyf efni og önnur geislamenguð efni hafa verið endanlega fjarlægð af staðnum) eru rifnir niður eða teknir úr notkun (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kW heildarhitaafköst þar sem fer fram umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum). X
3.04 Stöðvar þar sem geisluð kjarnakleyf efni eru endurunnin. Stöðvar til framleiðslu eða auðgunar kjarnakleyfra efna, til vinnslu geislaðra kjarnakleyfra efna eða mjög geislavirks úrgangs, til endanlegrar geymslu á geisluðum kjarnakleyfum efnum, eingöngu til endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi eða eingöngu til geymslu (til meira en tíu ára) á geisluðum kjarnakleyfum efnum eða geislavirkum úrgangi annars staðar en á framleiðslustað. X
3.05 Stöðvar til vinnslu og geymslu á geislavirkum úrgangi, utan þeirra sem tilgreindar eru í tölul. 3.04. X
3.06 Vinnsla á meira en 500 tonnum af jarðolíu og meira en 500.000 m3 af jarðgasi á dag. X
3.07 Flutningskerfi gass, gufu eða heits vatns. X
3.08 Leiðslur sem eru 10 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á gasi, olíu eða annars konar efnum/efnasamböndum. X
3.09 Leiðslur sem eru 10 km eða lengri og 50 cm í þvermál eða meira til flutnings á koltvísýringi (CO2) til varanlegrar geymslu í jörðu, ásamt þrýstiaukadælu. X
3.10 Leiðslur til flutnings á olíu og gasi og til flutnings á koltvísýringi (CO2) til varanlegrar geymslu í jörðu utan þess sem tilgreint er í tölul. 3.08 og 3.09. X
3.11 Geymsla á jarðgasi ofan jarðar. X
3.12 Neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi. X
3.13 Geymsla jarðefnaeldsneytis ofan jarðar. X
3.14 Gerð taflna úr kolum og brúnkolum. X
3.15 Vatnsorkuver, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02, með uppsett rafafl 200 kW eða meira. X
3.16 Vindorkuver, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02, með uppsett rafafl 1 MW eða meira eða mannvirki sem eru 25 m eða hærri. X
3.17 Jarðvarmaver eða iðjuver til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni sem nemur 2.500 kW uppsettu afli eða meira, utan þess sem fellur undir tölul. 3.02. Uppsett afl varmavera skal reikna út frá því framrásarhitastigi sem sent er frá varmaverinu og því bakrásarhitastigi sem notendur varmans skila frá sér. X
3.18 Niðurdælingarsvæði fyrir koltvísýring (CO2) í jörðu. X
3.19 Mannvirki sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO2) til geymslu í jörðu frá verksmiðjum eða iðjuverum sem heyra undir flokk A eða frá verksmiðjum eða iðjuverum þar sem árleg heildarföngun koltvísýrings nemur 1,5 megatonnum eða meira. X
3.20 Mannvirki sem hafa þann tilgang að fanga koltvísýring (CO2) til varanlegrar geymslu í jörðu úr andrúmslofti eða frá verksmiðjum eða iðjuverum utan þess sem fellur undir tölul. 3.19. X
4. Framleiðsla og vinnsla málma.
4.01 Verksmiðjur þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli. Framleiðsla hrámálms, sem inniheldur ekki járn úr grýti, kirni eða afleiddu hráefni, sem fer fram með málmvinnsluaðferðum, efnafræðilegum aðferðum eða rafgreiningaraðferðum. X
4.02 Stöðvar til framleiðslu á steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.03 Stöðvar til vinnslu á járnkenndum málmum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2:
  1. heitvölsunarstöðvar,
  2. smiðjur með hömrun,
  3. varnarhúðun með bræddum málmum.
X
4.04 Málmsteypusmiðjur fyrir járnkennda málma þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.05 Stöðvar til bræðslu, einnig málmblendis, á járnlausum málmum öðrum en góðmálmum, einnig endurheimtum vörum (hreinsun, steypa í steypusmiðjum o.s.frv.) þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.06 Stöðvar þar sem unnið er að yfirborðsmeðferð málma og plastefna með rafgreiningar- og efnaaðferðum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.07 Framleiðsla og samsetning vélknúinna ökutækja og framleiðsla á hreyflum í slík ökutæki þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.08 Skipasmíðastöðvar þar sem gólfflötur mannvirkja er a.m.k. 1.000 m2. X
4.09 Stöðvar til smíða og viðgerða á loftförum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.10 Framleiðsla á járnbrautarbúnaði þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.11 Málmmótun með sprengiefnum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
4.12 Stöðvar til að brenna og glæða málmgrýti þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5. Steinefnaiðnaður.
5.01 Koxofnar (þurreiming kola) þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.02 Sementsverksmiðjur þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.03 Stöðvar til framleiðslu á gleri og trefjaefni þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.04 Stöðvar til að bræða steinefni og framleiða steinefnatrefjar þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
5.05 Framleiðsla á keramikvörum með brennslu, svo sem þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni, þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
6. Efnaiðnaður.
6.01 Efnaverksmiðjur með samþætta framleiðslu þar sem fram fer umfangsmikil iðnaðarframleiðsla með efnaumbreytingu og framleiða:
  1. lífrænt hráefni,
  2. ólífrænt hráefni,
  3. áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur),
  4. grunnvörur fyrir plöntuverndarvörur og sæfivörur,
  5. grunnlyfjavörur með efnafræðilegum og líffræðilegum aðferðum,
  6. sprengiefni.
X
6.02 Meðferð á hálfunnum vörum og framleiðsla kemískra efna, utan þess sem tilgreint er í tölul. 6.01, þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
6.03 Framleiðsla á sæfivörum, plöntuverndarvörum og lyfjum, málningu og lakki, gúmmílíki og peroxíðum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
6.04 Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 50.000 m3 geymslugetu eða meira. X
6.05 Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni þar sem geymslugeta er a.m.k. 200 m3 utan þess sem tilgreint er í tölul. 6.04. X
7. Matvælaiðnaður.
7.01 Framleiðsla á olíu og fitu úr jurtum og dýrum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.02 Pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.03 Framleiðsla á mjólkurvörum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.04 Öl- og maltgerð þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.05 Framleiðsla á sætindum og sírópi þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.06 Sláturhús þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.07 Stöðvar til sterkjuframleiðslu þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
7.08 Fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri. X
7.09 Fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur, utan þess sem tilgreint er í tölul. 7.08, þar sem framkvæmd er staðsett í þéttbýli og framleiðslugeta er a.m.k. 500 tonn á sólarhring. X
7.10 Sykurverksmiðjur þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8. Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður.
8.01 Verksmiðjur sem framleiða:
  1. pappírsdeig úr timbri eða svipuðum trefjaefnum,
  2. pappír og pappa og geta framleitt meira en 200 tonn á dag.
X
8.02 Verksmiðjur til framleiðslu á pappír og pappa utan þeirra sem tilgreindar eru í tölul. 8.01 og þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8.03 Stöðvar þar sem fram fer formeðferð (t.d. þvottur, bleiking, mersivinna) eða litun trefja eða textílefna þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8.04 Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
8.05 Stöðvar þar sem fram fer vinnsla og framleiðsla á sellulósa þar sem gólfflötur bygginga er a.m.k. 1.000 m2. X
9.Gúmmíiðnaður.
9.01 Framleiðsla og meðferð á vörum úr gúmmílíki þar sem stærð gólfflatar er a.m.k. 1.000 m2 . X
10. Grunnvirki.
10.01 Iðnaðarframkvæmd þar sem framkvæmdasvæði eða gólfflötur bygginga er a.m.k. 20.000 m2. X
10.02 Framkvæmd við uppbyggingu mannvirkja, svo sem við byggingu verslunarmiðstöðva, bílastæða, íþróttaleikvanga, háskóla og sjúkrahúsa, og sambærilega mannvirkjagerð þar sem framkvæmdasvæði eða gólfflötur bygginga er a.m.k. 20.000 m2. X
10.03 Bygging samgöngumiðstöðva þar sem framkvæmdasvæði er a.m.k. 5.000 m2. X
10.04 Flugvellir með 2.100 m meginflugbraut eða lengri. X
10.05 Flugvellir með styttri en 2.100 m meginflugbraut. X
10.06 Lagning hraðbrauta og sambærilegra vega, svo sem lagning nýrra vega með aðskildum akstursstefnum og mislægum vegamótum. X
10.07 Lagning nýrra vega sem eru 10 km eða lengri eða breikkun vega úr tveimur akreinum í a.m.k. fjórar sem eru 10 km eða lengri. X
10.08 Lagning nýrra vega eða enduruppbygging eða breikkun vega utan þéttbýlis sem ekki eru tilgreindir í tölul. 10.06 eða 10.07 sem eru a.m.k. 5 km. X
10.09 Viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir og viðlegubryggjur til lestunar og löndunar utan hafna (aðrar en ferjulægi) fyrir skip stærri en 1.350 tonn. X
10.10 Hafnir, vatnaleiðir og viðlegubryggjur, utan þess sem tilgreint er í tölul. 10.09 þar sem framkvæmdasvæði er a.m.k. 1 ha. X
10.11 Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km2 lands eða meira fara undir vatn eða rúmtak vatns er meira en 10 milljónir m3. X
10.12 Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem framkvæmdasvæði er a.m.k. 1 ha utan þess sem tilgreint er í tölul. 10.11. X
10.13 Lagning járnbrauta um langar vegalengdir. X
10.14 Járnbrautir, sporvagnar, lestir í lofti og neðan jarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga. X
10.15 Lagning loftlína til flutnings á raforku með a.m.k. 132 kV spennu. X
10.16 Lagning loftlína til flutnings raforku, utan þess sem fellur undir tölul. 10.15, með a.m.k. 66 kV spennu. Lagning strengja í jörð, vatn eða sjó sem eru a.m.k. 10 km og utan þéttbýlis, einnig styttri en 10 km ef staðsettir á verndarsvæðum utan þéttbýlis. X
10.17 Lagning vatnsveitu um langan veg. X
10.18 Mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum á verndarsvæðum, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar. Landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er 5 ha eða stærri. Undanskilið er viðhald og endurbygging framangreindra mannvirkja. X
10.19 Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn með 300 l/sek. meðalrennsli eða meira á ári. X
10.20 Vinnsla grunnvatns eða íveita vatns í grunnvatn, utan þess sem fellur undir tölul. 10.19, með sem nemur a.m.k. 70 l/sek. X
10.21 Mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita meira en 1.000 l/sek. af vatni á milli vatnasviða. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. X
10.22 Mannvirkjagerð þegar fyrirhugað er að veita vatni á milli vatnasviða, utan þess sem fellur undir tölul. 10.21. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn. X
11. Aðrar framkvæmdir.
11.01 Varanlegar kappaksturs- og reynsluakstursbrautir fyrir vélknúin ökutæki. X
11.02 Förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð. Aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári. X
11.03 Förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður, utan þess sem tilgreint er í tölul. 11.02. X
11.04 Skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða atvinnustarfsemi, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu a.m.k. 150.000 persónueiningar. X
11.05 Skolphreinsivirki frá íbúðarbyggð eða atvinnustarfsemi, þ.m.t. stöðvum með þaulnýtnum landbúnaði með afkastagetu a.m.k. 2.000 persónueiningar utan þess sem tilgreint er í tölul. 11.04. Sams konar framkvæmdir á verndarsvæðum og þar sem losað er í viðkvæman viðtaka ef afkastageta nemur a.m.k. 100 persónueiningum. X
11.06 Förgunarstöðvar fyrir seyru. X
11.07 Geymsla brotajárns, þ.m.t. farartækja, sem er a.m.k. 1.500 tonn á ári. X
11.08 Prófunaraðstaða fyrir vélar, hverfla eða hvarfrými. X
11.09 Stöðvar sem framleiða steinefnatrefjar. X
11.10 Stöðvar til að endurvinna sprengiefni eða eyða því. X
11.11 Förgun sláturúrgangs. X
11.12 Endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári. X
11.13 Varnargarðar til varnar ofanflóðum í þéttbýli. X
12. Ferðaþjónusta og afþreying.
12.01 Skíðabrekkur, skíðalyftur, kláfar og tengdar framkvæmdir sem ná yfir 15 ha svæði, eða þar sem mannvirki eru 15 m eða hærri eða framkvæmdir eru á jökli. X
12.02 Smábátahafnir með a.m.k. 100 bátalægi. X
12.03 Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á miðhálendinu og á verndarsvæðum á láglendi utan þéttbýlis. X
12.04 Framkvæmdir við uppbyggingu orlofsþorpa eða hótela og tengdra framkvæmda utan þéttbýlis þar sem heildarbyggingarmagn er a.m.k. 5.000 m2 eða gestafjöldi (gistirúm) a.m.k. 200. X
12.05 Varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði sem eru a.m.k. 10 ha og hjólhýsasvæði óháð stærð á verndarsvæðum. X
12.06 Skemmtigarðar sem ná yfir a.m.k. 2 ha svæði. X
12.07 Golfvellir sem eru a.m.k. 18 holur. X
13. Breytingar og viðbætur við aðrar framkvæmdir.
13.01 Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A þegar breytingin eða viðbótin sjálf fer yfir þau viðmið sem flokkur A setur. X
13.02 Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A, utan þess sem fellur undir tölul. 13.01, og flokki B sem hafa verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. X
13.03 Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A sem ráðist er í eingöngu eða aðallega til að þróa og prófa nýjar aðferðir eða vörur og eru ekki notaðar lengur en í tvö ár. X

2. viðauki.
     Viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í flokki B í 1. viðauka.
  1. Eðli framkvæmdar.
  2.      Athuga þarf eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til:
    1. stærðar, hönnunar og umfangs framkvæmdarinnar í heild,
    2. samlegðar með öðrum framkvæmdum,
    3. nýtingar náttúruauðlinda, einkum lands, jarðvegs og vatns, og líffræðilegrar fjölbreytni,
    4. úrgangsmyndunar,
    5. mengunar og ónæðis,
    6. hættu á stórslysum og/eða náttúruhamförum sem varða framkvæmdina, þ.m.t. af völdum loftslagsbreytinga, samkvæmt vísindalegri þekkingu,
    7. hættu fyrir heilbrigði manna, t.d. vegna vatns- eða loftmengunar.

  3. Staðsetning framkvæmdar.
  4.      Athuga þarf hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til:
    1. landnotkunar sem fyrir er eða er fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun,
    2. magns, aðgengileika og gæða náttúruauðlinda, þ.m.t. jarðvegs, lands, vatns og líffræðilegrar fjölbreytni, á svæðinu ofan og neðan jarðar, og getu þeirra til endurnýjunar,
    3. verndarsvæða:

      1.     (a)    náttúruminja í A-, B- og C-hluta náttúruminjaskrár, svæða sem falla undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd og landsvæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011,

            (b)    svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvalla, Mývatns- og Laxársvæða og Breiðafjarðar,

            (c)    svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar,

            (d)    svæða, sem njóta verndar vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og reglugerð um neysluvatn,

            (e)    svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, svo sem Ramsarsamningsins (votlendi) og Bernarsamningsins (verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu), friðaðra og friðlýstra tegunda sem og ábyrgðartegunda; tegundir á válista falla hér undir enda eru válistar m.a. gefnir út til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum,

            (f)    hverfisverndarsvæða samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlunum, sbr. ákvæði um hverfisverndarsvæði í skipulagsreglugerð,
    4. álagsþols náttúrunnar, einkum með tilliti til:

      1.     (a)    votlendissvæða, ár- og vatnsbakka og ármynna,

            (b)    haf- og strandsvæða,

            (c)    sérstæðra jarðmyndana, svo sem hverasvæða, vatnsfalla, jökulminja, eldstöðva og bergmyndana,

            (d)    náttúruverndarsvæða, þ.m.t. svæða á náttúruminjaskrá,

            (e)    landslagsheilda, ósnortinna víðerna, hálendissvæða og jökla,

            (f)    upprunalegs gróðurlendis, svo sem skóglendis,

            (g)    fuglabjarga og annars kjörlendis dýra,

            (h)    svæða sem hafa sögulegt, menningarlegt eða fornleifafræðilegt gildi,

            (i)    svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum,

            (j)    þéttbýlla svæða.

  5. Gerð og eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar.
  6.      Áhrif framkvæmdar ber að skoða í ljósi viðmiðana hér á undan, einkum með tilliti til:
    1. umfangs umhverfisáhrifa, t.d. með tilliti til stærðar svæðis eða fjölda fólks sem verður líklega fyrir áhrifum,
    2. eðlis, styrks og fjölbreytileika áhrifa,
    3. þess hverjar líkur eru á áhrifum,
    4. væntanlegs upphafs, tímalengdar, tíðni og afturkræfni áhrifa,
    5. samlegðaráhrifa með áhrifum annarra framkvæmda,
    6. áhrifa yfir landamæri,
    7. möguleika á að draga úr áhrifum.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2021.