Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1813, 151. löggjafarþing 583. mál: greiðsluþjónusta.
Lög nr. 114 25. júní 2021.

Lög um greiðsluþjónustu.


I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um greiðsluþjónustu sem veitt er hér á landi.
     Ákvæði IV.–VII. kafla gilda um greiðslur í gjaldmiðli aðildarríkis ef bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru staðsettir í aðildarríki, eða ef einungis einn greiðsluþjónustuveitandi kemur að framkvæmd greiðslunnar og hann er staddur í aðildarríki.
     Ákvæði IV. kafla, að undanskildum b-lið 1. mgr. 50. gr., e-lið 2. tölul. 54. gr. og a-lið 58. gr., og V.–VII. kafla, að undanskildum 87.–90. gr., gilda um greiðslur sem framkvæmdar eru á Evrópska efnahagssvæðinu og í gjaldmiðli sem er ekki gjaldmiðill aðildarríkis ef bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru staðsettir í aðildarríki, eða ef einungis einn greiðsluþjónustuveitandi kemur að framkvæmd greiðslu og er staðsettur í aðildarríki.
     Ákvæði IV. kafla, að undanskildum b-lið 1. mgr. 50. gr., e-lið 2. tölul. 54. gr., g-lið 5. tölul. 54. gr. og a-lið 58. gr., og V.–VII. kafla, að undanskildum 3. og 4. mgr. 64. gr., 82. gr., 83. gr., 1. mgr. 88. gr., 93. gr. og 96. gr., gilda um greiðslur í öllum gjaldmiðlum þar sem annar greiðsluþjónustuveitandinn er staðsettur í aðildarríki og um er að ræða greiðslur sem eru framkvæmdar á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Þrátt fyrir 4. mgr. gilda ákvæði 88.–91. gr. aðeins um eftirfarandi greiðslur:
  1. greiðslur í evrum,
  2. greiðslur í íslenskum krónum innan Íslands,
  3. greiðslur sem fela aðeins í sér einn gjaldmiðilsumreikning milli evru og íslenskrar krónu að því tilskildu að gjaldmiðilsumreikningurinn fari fram á Íslandi og, þegar um er að ræða greiðslur yfir landamæri, að þær fari fram í evrum,
  4. aðrar greiðslur innan aðildarríkjanna, nema um annað hafi verið samið; þetta á þó ekki við um 91. gr. sem er ófrávíkjanleg.


2. gr.

Takmörkun á gildissviði.
     Lög þessi gilda ekki um:
  1. Greiðslur sem fara einvörðungu fram í reiðufé beint frá greiðanda til viðtakanda greiðslu milliliðalaust.
  2. Greiðslur frá greiðanda til viðtakanda greiðslu fyrir milligöngu umboðsmanns sem hefur leyfi samkvæmt samningi til að semja um eða ganga frá sölu eða kaupum á vöru eða þjónustu fyrir hönd greiðanda eingöngu eða viðtakanda greiðslu eingöngu.
  3. Flutning í atvinnuskyni á seðlum og mynt, þ.m.t. söfnun þeirra, meðhöndlun og afhendingu.
  4. Greiðslur sem felast í söfnun á reiðufé og afhendingu, sem er ekki í atvinnuskyni, innan ramma starfsemi sem er ekki í hagnaðar- eða góðgerðarskyni.
  5. Þjónustu þar sem viðtakandi greiðslu afhendir greiðanda reiðufé, í kjölfar skýrrar beiðni greiðanda rétt áður en framkvæmd greiðslunnar fer fram, til kaupa á vöru og þjónustu.
  6. Gjaldeyrisviðskipti í reiðufé þar sem fjármunir eru ekki geymdir á greiðslureikningi.
  7. Greiðslur sem byggjast á tékkum, ferðatékkum, víxlum, úttektarseðlum eða póstávísunum á pappír.
  8. Greiðslur sem fara fram í greiðslu- eða verðbréfauppgjörskerfi milli uppgjörsaðila, miðlægra mótaðila, greiðslujöfnunarstöðva og/eða seðlabanka og annarra aðila að kerfinu og greiðsluþjónustuveitenda, sbr. þó 36. gr.
  9. Greiðslur sem tengjast umsýslu verðbréfa, þ.m.t. arðgreiðslur og aðrar tekjur, svo sem vegna innlausnar eða sölu, sem aðilar þeir er um getur í 8. tölul. eða fjármálafyrirtæki með leyfi til að stunda viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti eða verðbréfasjóðir eða sérhæfðir sjóðir annast.
  10. Stoðþjónustu tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustu sem felur ekki í sér að þau hafi nokkurn tíma eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skal, þ.m.t. úrvinnslu og geymslu gagna, þjónustu við verndun trúnaðarupplýsinga og friðhelgi einkalífs, sannvottun gagna og eininga, þjónustuveitu upplýsingatækni- og samskiptanets, útvegun og viðhald skjástöðva og búnaðar fyrir greiðsluþjónustu, að undanskilinni greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu.
  11. Greiðslumiðla sem einungis er hægt að nota til kaupa á vöru eða þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða á athafnasvæði nets þjónustuveitenda samkvæmt viðskiptasamningi hvers þeirra um sig við útgefanda greiðslumiðilsins, sbr. þó 2. mgr. 38. gr.
  12. Greiðslumiðla sem einungis er hægt að nota til kaupa á afmörkuðu úrvali vöru og þjónustu, sbr. þó 2. og 3. mgr. 38. gr.
  13. Greiðslumiðla sem aðeins eru gjaldgengir í einu aðildarríki, lagðir eru fram að ósk fyrirtækis eða opinbers aðila og falla undir reglur landsbundins eða svæðisbundins opinbers yfirvalds í tilteknum félagslegum eða skattalegum tilgangi í því skyni að kaupa tiltekna vöru eða þjónustu af birgjum sem hafa gert viðskiptasamning við útgefanda.
  14. Greiðslur sem framkvæmdar eru af veitanda fjarskiptanets eða veitanda viðbótarþjónustu við fjarskiptaþjónustu til handa áskrifanda að fjarskiptanetsþjónustunni eða viðbótarþjónustunni:
    1. fyrir kaup á stafrænu efni og talþjónustu, án tillits til búnaðarins sem notaður er til að kaupa eða nota stafrænt efni, og skuldfærðar eru á reikning áskrifanda eða
    2. fyrir milligöngu rafræns búnaðar og skuldfærðar á reikning áskrifanda vegna framlaga til góðgerðarstarfsemi eða fyrir kaup á miðum og
    3. að því tilskildu að fjárhæð hverrar stakrar greiðslu sem um getur í 1. og 2. tölul. sé ekki hærri en jafngildi 50 evra í íslenskum krónum og samanlögð fjárhæð greiðslna sérhvers áskrifanda sé ekki hærri en 300 evrur á mánuði í íslenskum krónum eða ef áskrifandi greiðir fyrir fram inn á reikning sinn hjá veitanda fjarskiptanets eða fjarskiptaþjónustu og samanlögð fjárhæð greiðslna er ekki hærri en 300 evrur á mánuði í íslenskum krónum. Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
  15. Greiðslur sem fara milli greiðsluþjónustuveitenda, umboðsaðila þeirra eða útibúa fyrir þeirra eigin reikning.
  16. Greiðslur og tengda þjónustu sem fer fram milli móður- og dótturfélags eða milli dótturfélaga sama móðurfélags fyrir milligöngu greiðsluþjónustuveitanda sem tilheyrir sömu samstæðu.
  17. Þjónustu sem rekstraraðilar hraðbanka veita í tengslum við úttekt reiðufjár úr hraðbanka fyrir hönd eins eða fleiri kortaútgefenda þegar rekstraraðili er ekki aðili að þeim rammasamningi sem gildir um þann viðskiptavin sem tekur peninga út af greiðslureikningi með aðstoð hraðbankans, að því tilskildu að þessir rekstraraðilar reki ekki neina aðra greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 22. tölul. 3. gr. Þó skal veita viðskiptavininum upplýsingar um öll úttektargjöld sem um getur í 45., 49., 51. og 52. gr. áður en úttekt fer fram, sem og á kvittun fyrir reiðufénu við lok færslu eftir úttekt.


3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking hugtaka sem hér segir:
  1. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
  2. Beingreiðsla: Greiðsluþjónusta við skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að skuldfærslunni á grundvelli samþykkis greiðanda, sem hann veitir viðtakanda greiðslu, til greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu eða til eigin greiðsluþjónustuveitanda greiðanda.
  3. Eiginfjárgrunnur: Eiginfjárgrunnur eins og hann er skilgreindur í 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þar sem a.m.k. 75% af eiginfjárþætti 1 er í formi almenns eigin fjár þáttar 1 eins og um getur í 84. gr. a þeirra laga og þáttur 2 er jafn eða minni en þriðjungur af eiginfjárþætti 1.
  4. Fjargreiðsla: Greiðsla sem er framkvæmd á netinu eða með búnaði sem mögulegt er að nota til fjarskipta.
  5. Fjarsamskiptamiðill: Aðferð sem nota má til að gera greiðsluþjónustusamning milli greiðsluþjónustuveitanda og notanda greiðsluþjónustu án þess að aðilar séu viðstaddir samtímis í eigin persónu.
  6. Fjarskiptanet: Fjarskiptanet eins og það er skilgreint í lögum um fjarskipti.
  7. Fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta eins og hún er skilgreind í lögum um fjarskipti.
  8. Fjármunir: Peningaseðlar og mynt, inneign á reikningum eða rafeyrir samkvæmt skilgreiningu í 5. tölul. 4. gr. laga um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013.
  9. Færsluhirðing greiðslna: Greiðsluþjónusta sem veitt er af greiðsluþjónustuveitanda sem gerir samning við viðtakanda greiðslu um móttöku og vinnslu greiðslna og hefur í för með sér yfirfærslu fjármuna til viðtakanda greiðslu.
  10. Gildisdagur: Viðmiðunartími sem greiðsluþjónustuveitendur nota til að reikna vexti af fjármunum sem eru skuldfærðir af eða eignfærðir á greiðslureikning.
  11. Gistiaðildarríki: Annað aðildarríki en heimaaðildarríkið þar sem greiðsluþjónustuveitandi hefur umboðsaðila og/eða útibú og veitir greiðsluþjónustu.
  12. Greiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og heimilar greiðslufyrirmæli tengd greiðslureikningnum eða, þegar engum greiðslureikningi er fyrir að fara, einstaklingur eða lögaðili sem gefur greiðslufyrirmæli.
  13. Greiðsla: Aðgerð sem greiðandi eða einhver fyrir hans hönd eða viðtakandi greiðslu fyrir hönd greiðanda á frumkvæði að með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni án tillits til þess hvort einhverjar skuldbindingar milli greiðanda og viðtakanda greiðslu liggja til grundvallar.
  14. Greiðslufyrirmæli: Fyrirmæli greiðanda eða viðtakanda greiðslu til greiðsluþjónustuveitanda um framkvæmd greiðslu.
  15. Greiðslukerfi: Kerfi til að yfirfæra fjármuni með formlegu og stöðluðu fyrirkomulagi og sameiginlegum reglum um meðferð, greiðslujöfnun og/eða uppgjör greiðslna.
  16. Greiðslumiðill: Persónubundinn búnaður og/eða aðferðir sem notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi koma sér saman um að nota til að gefa greiðslufyrirmæli.
  17. Greiðslureikningur: Reikningur í nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu, sem er notaður við framkvæmd greiðslu.
  18. Greiðslustofnun: Lögaðili sem fengið hefur starfsleyfi til starfrækslu greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
  19. Greiðsluvirkjandi: Greiðsluþjónustuveitandi sem stundar greiðsluvirkjun skv. g-lið 22. tölul.
  20. Greiðsluvirkjun: Þjónusta sem felst í að virkja greiðslufyrirmæli að beiðni notanda greiðsluþjónustu að því er varðar greiðslureikning sem vistaður er hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda.
  21. Greiðsluvörumerki: Hvers konar efnislegt eða rafrænt nafn, heiti, merki, tákn, eða samsetning þeirra, sem getur tilgreint innan hvaða greiðslukortakerfis kortatengdar greiðslur eru framkvæmdar.
  22. Greiðsluþjónusta:
    1. Þjónusta sem gerir kleift að leggja reiðufé inn á greiðslureikning ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
    2. Þjónusta sem gerir kleift að taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
    3. Framkvæmd greiðslna, þ.m.t. millifærslur fjármuna á og af greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda notanda eða hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda:
      1. framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna,
      2. framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
      3. framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna.
    4. Framkvæmd greiðslna ef fjármunir eru tryggðir með lánalínu fyrir notanda greiðsluþjónustu:
      1. framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna,
      2. framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
      3. framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna.
    5. Útgáfa greiðslumiðla og/eða færsluhirðing greiðslna.
    6. Peningasending.
    7. Greiðsluvirkjun.
    8. Reikningsupplýsingaþjónusta.
  23. Greiðsluþjónustuveitandi:
    1. Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning, þ.m.t. útibú þeirra, eins og þau eru skilgreind í 12. tölul. 1. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ef slík útibú eru á Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem aðalskrifstofur þessara útibúa eru innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við 47. gr. tilskipunar 2013/36/ESB og landslög.
    2. Rafeyrisfyrirtæki í samræmi við lög um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013, þ.m.t. útibú þeirra í samræmi við 34. gr. þeirra laga ef slík útibú eru staðsett innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðalskrifstofur þeirra eru utan þess að því marki sem greiðsluþjónustan sem þessi útibú veita er í tengslum við útgáfu rafeyris.
    3. Póstgíróstofnun sem hefur rétt samkvæmt landslögum til að veita greiðsluþjónustu.
    4. Greiðslustofnun.
    5. Seðlabanki Evrópu og seðlabankar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála.
    6. Stjórnvöld ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra.
    7. Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.
    8. Lögaðili eða einstaklingur sem hefur fengið undanþágu skv. 35. gr.
  24. Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu: Greiðsluþjónustuveitandi sem býður og viðheldur greiðslureikningi fyrir greiðanda.
  25. Heimaaðildarríki: Annaðhvort aðildarríkið þar sem skráð skrifstofa greiðsluþjónustuveitanda er eða, ef greiðsluþjónustuveitandi hefur enga skráða skrifstofu, aðildarríkið þar sem hann er með aðalskrifstofu.
  26. Kortasamstarf: Þegar tvö eða fleiri greiðsluvörumerki eða greiðsluleiðir sama vörumerkis eru á sama greiðslumiðlinum.
  27. Millifærsla fjármuna: Greiðsluþjónusta við eignfærslu á reikningi viðtakanda greiðslu, með greiðslu eða röð greiðslna af greiðslureikningi greiðanda, framkvæmd af greiðsluþjónustuveitandanum sem geymir reikning greiðanda, á grundvelli fyrirmæla hans.
  28. Neytandi: Einstaklingur sem í samningum um greiðsluþjónustu kemur fram í öðrum tilgangi en vegna starfs síns eða atvinnurekstrar.
  29. Notandi greiðsluþjónustu: Einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér greiðsluþjónustu sem greiðandi, viðtakandi eða hvort tveggja.
  30. Peningasending: Greiðsluþjónusta þar sem tekið er við fjármunum frá greiðanda, án þess að stofnaðir hafi verið greiðslureikningar í nafni greiðanda eða viðtakanda greiðslu, í þeim eina tilgangi að senda samsvarandi fjárhæð til viðtakanda greiðslu eða til annars greiðsluþjónustuveitanda fyrir hönd viðtakanda greiðslu og/eða þegar tekið er við fjármunum fyrir hönd viðtakanda greiðslu og þeir afhentir honum til ráðstöfunar.
  31. Persónubundin öryggisskilríki: Persónubundnir þættir sem greiðsluþjónustuveitandi afhendir notanda greiðsluþjónustu í tilgangi sannvottunar.
  32. Rammasamningur: Samningur um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna og röð greiðslna í framtíðinni og sem kann að fela í sér skyldu til stofnunar greiðslureiknings og skilmála þar um.
  33. Reikningsupplýsingaþjónusta: Beinlínuþjónusta sem veitir samsteyptar upplýsingar um einn eða fleiri greiðslureikninga sem notandi greiðsluþjónustu á hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda eða hjá fleiri en einum greiðsluþjónustuveitanda.
  34. Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi: Greiðsluþjónustuveitandi sem stundar reikningsupplýsingaþjónustu skv. h-lið 22. tölul.
  35. Samstæða: Samstæða eins og hún er skilgreind í 33. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga, nr. 3/2006, eða fyrirtæki eins og þau eru skilgreind í 4.–7. gr. framseldrar reglugerðar (ESB) nr. 241/2014, sem tengjast hvert öðru með sambandi sem um getur í 1. mgr. 10. gr. eða 6. eða 7. mgr. 113. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 sem innleidd var með reglugerð um varfærniskröfur vegna starfsemi fjármálafyrirtækja, nr. 233/2017.
  36. Sannvottun: Aðferð sem gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að sannreyna deili á notanda greiðsluþjónustu eða heimild til notkunar tiltekins greiðslumiðils, þ.m.t. notkunar á persónubundnum öryggisskilríkjum notandans.
  37. Sérstakt kennimerki: Samsetning bókstafa, tölustafa eða tákna sem greiðsluþjónustuveitandi úthlutar viðkomandi notanda greiðsluþjónustu og sem notandi greiðsluþjónustu skal tilgreina til að unnt sé að staðfesta ótvírætt deili á öðrum notanda greiðsluþjónustu og/eða númer greiðslureiknings þess notanda greiðsluþjónustu vegna greiðslu.
  38. Smágreiðslumiðill: Greiðslumiðill þar sem kveðið er á um í rammasamningi að einstakar greiðslur fari ekki yfir jafnvirði 30 evra í íslenskum krónum eða hefur annaðhvort útgjaldaþak sem nemur jafnvirði 150 evra í íslenskum krónum eða geymir fjármuni sem fara aldrei yfir jafnvirði 150 evra í íslenskum krónum. Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
  39. Stafrænt efni: Vara eða þjónusta sem er veitt í stafrænu formi, notkun hennar eða neysla takmörkuð við tæknibúnað og sem felur ekki á neinn hátt í sér notkun eða neyslu á efnislegri vöru eða þjónustu.
  40. Sterk sannvottun viðskiptavinar: Sannvottun á grundvelli notkunar tveggja eða fleiri þátta sem flokkast sem þekking, þ.e. eitthvað sem notandinn einn veit, umráð, þ.e. eitthvað sem notandinn einn hefur umráð yfir, og eðlislægni, þ.e. eitthvað sem notandinn er. Þættirnir sem um ræðir skulu vera óháðir hver öðrum þannig að brot á einum hafi ekki áhrif á áreiðanleika hinna. Vottunin er hönnuð til að vernda trúnað sannvottunargagnanna.
  41. Umboðsaðili: Einstaklingur eða lögaðili sem kemur fram fyrir hönd greiðslustofnunar við veitingu greiðsluþjónustu.
  42. Útgáfa greiðslumiðla: Greiðsluþjónusta samkvæmt samningi um að veita greiðanda greiðslumiðil til að setja af stað og vinna greiðslur.
  43. Útgefandi kortatengds greiðslumiðils: Greiðsluþjónustuveitandi sem gefur út kortatengdan greiðslumiðil sem notaður er til að setja af stað greiðslu út af greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda notanda greiðsluþjónustu sem veitir reikningsþjónustu.
  44. Útibú: Starfsstöð önnur en aðalskrifstofa sem er hluti af greiðslustofnun án þess að teljast sjálfstæður lögaðili og framkvæmir beint nokkrar eða allar greiðslur sem fylgja rekstri greiðslustofnunar. Allar starfsstöðvar greiðslustofnunar í einu og sama aðildarríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu skulu teljast eitt útibú ef aðalskrifstofa greiðslustofnunarinnar er í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
  45. Varanlegur miðill: Sérhver miðill sem gerir notanda greiðsluþjónustu kleift að geyma upplýsingar sem beint er til hans persónulega á þann hátt að þær séu aðgengilegar til samanburðar síðar og eins lengi og þarf miðað við tilgang upplýsinganna, og gerir kleift að afrita upplýsingarnar sem þar eru geymdar óbreyttar.
  46. Viðkvæm greiðslugögn: Gögn, þ.m.t. persónubundin öryggisskilríki, sem unnt er að nota í sviksamlegum tilgangi. Í starfsemi greiðsluvirkjenda og reikningsupplýsingaþjónustuveitenda teljast nafn reikningseiganda og reikningsnúmer ekki vera viðkvæm greiðslugögn.
  47. Viðmiðunargengi: Gengið sem er notað til grundvallar útreikningi við gjaldeyrisviðskipti og er aðgengilegt hjá greiðsluþjónustuveitanda eða opinberlega.
  48. Viðmiðunarvextir: Vaxtastig sem notað er til grundvallar útreikningi á vöxtum og aðgengilegt er opinberlega og báðir aðilar að greiðsluþjónustusamningi geta sannreynt.
  49. Viðskiptadagur: Dagur þegar opið er hjá greiðsluþjónustuveitanda greiðanda eða viðtakanda greiðslu, sem er aðili að framkvæmd greiðslu, og viðkomandi starfar eftir því sem þörf fyrir framkvæmd greiðslu krefur.
  50. Viðtakandi greiðslu: Einstaklingur eða lögaðili sem er fyrirhugaður viðtakandi fjármuna sem hafa verið viðfang greiðslu.


II. KAFLI
Greiðslustofnanir.

A. Umsókn.

4. gr.

Umsókn um starfsleyfi.
     Umsókn um starfsleyfi skal berast Fjármálaeftirlitinu. Hún skal vera skrifleg og ítarleg til að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að ganga úr skugga um að skilyrði 6.–8., 11., 12. og 16.–19. gr. séu uppfyllt. Eftirfarandi skal koma fram í umsókn:
  1. Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi sé lögaðili og að höfuðstöðvar og a.m.k. hluti af greiðsluþjónustustarfsemi fari fram hér á landi, sbr. 6. gr.
  2. Lýsing á núverandi og fyrirhugaðri starfsemi umsækjanda þar sem tilgreint er hvers konar greiðsluþjónustu umsækjandi ætlar að veita og hvort hann ætlar að stunda aðra starfsemi, sbr. 16. gr.
  3. Viðskipta- og rekstraráætlun fyrir a.m.k. þrjú fyrstu rekstrarárin, sem sýnir fram á að umsækjandi geti staðið fyrir ábyrgum rekstri, ásamt síðasta endurskoðaða ársreikningi, ef honum er til að dreifa.
  4. Upplýsingar um starfsskipulag umsækjanda, þ.m.t. hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu, opna útibú eða nota umboðsmenn í starfsemi félagsins, sbr. 17. gr., hvort um útvistun sé að ræða, sbr. 18. gr., eða hvort um verði að ræða þátttöku í innlendu eða alþjóðlegu greiðslukerfi.
  5. Upplýsingar um hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila, sbr. 23.–26. gr.
  6. Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi hafi yfir að ráða því stofnframlagi sem krafist er skv. 7. gr.
  7. Upplýsingar sem gera unnt að meta hvort stjórnarmenn og stjórnendur uppfylli kröfur um hæfi skv. 11. gr.
  8. Upplýsingar um þá einstaklinga sem eiga hlutdeild í umsækjanda, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild í umsækjanda í skilningi VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, stærð eignarhlutdeildar þeirra og gögn um hæfni þeirra með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórn greiðslustofnunar, sbr. 5. gr.
  9. Upplýsingar um hvernig varðveislu fjármuna verði háttað í samræmi við 10. gr.
  10. Lýsing á verkferli sem fylgja skal til að hafa eftirlit með, meðhöndla og fylgja eftir rekstrar- eða öryggisfrávikum og kvörtunum viðskiptavina að því er varðar öryggisatriði, þ.m.t. fyrirkomulag tilkynninga um atvik sem varða tilkynningarskyldu greiðslustofnunar til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 100. gr.
  11. Lýsing á stjórnunarfyrirkomulagi og innra skipulagi umsækjanda, þ.m.t. innri eftirlitsferlum, aðferðum við stjórnun, áhættustýringu og reikningsskilum, sem sýnir að stjórnarhættir, eftirlitskerfi og verkferlar séu viðeigandi miðað við umfang starfseminnar og traustir og fullnægjandi.
  12. Lýsing á innra eftirlitskerfi sem verður komið á fót til að fara að kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, að því er varðar umsækjanda sem fellur undir lögin.
  13. Lýsing á verklagi við að skrá, vakta, rekja og takmarka aðgang að viðkvæmum greiðslugögnum og hvernig skilyrði 21. gr. verði uppfyllt.
  14. Lýsing á fyrirkomulagi rekstrarsamfellu þar sem mikilvæg starfsemi er skýrt tilgreind, skilvirkri viðbragðsáætlun og ferli til að kanna reglulega og endurskoða hversu fullnægjandi og skilvirkar áætlanirnar eru.
  15. Lýsing á meginreglum og skilgreiningum sem beitt er við söfnun á tölfræðilegum gögnum um árangur, færslur og svik.
  16. Öryggisstefna og lýsing á öryggiskerfi umsækjanda, sem skal innihalda ítarlegt áhættumat í tengslum við greiðsluþjónustu, lýsingu á eftirlitsaðgerðum sem gripið er til í því skyni að vernda notendur greiðsluþjónustu með fullnægjandi hætti fyrir tilgreindri áhættu, svo sem svikum og ólöglegri notkun viðkvæmra gagna og persónuupplýsinga. Sérstaklega skal tilgreina hvernig eftirlitsaðgerðir tryggja öflugt tæknilegt öryggi og persónuvernd, þ.m.t. fyrir hugbúnað og upplýsingatæknikerfi sem umsækjandi eða útvistunaraðili, sem starfseminni er að öllu leyti eða hluta útvistað til, notar. Eftirlitsaðgerðirnar skulu einnig taka til öryggisráðstafana sem mælt er fyrir um í 99. gr.
  17. Upplýsingar um löggiltan endurskoðanda, sbr. 15. gr.
  18. Staðfesting á því að umsækjandi um starfsleyfi sem greiðsluvirkjandi eða reikningsupplýsingaþjónustuveitandi hafi tryggingu skv. 3. mgr. 12. gr.
  19. Önnur atriði sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að komi fram í umsókn samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands.

     Upplýsingar sem getið er um í 5. og 10.–13. tölul. 1. mgr. skulu jafnframt fela í sér lýsingu á því fyrirkomulagi sem umsækjandinn hefur innleitt til að gera allar þær ráðstafanir sem raunhæfar teljast til að vernda hagsmuni notenda greiðsluþjónustu hans og tryggja samfellu og áreiðanleika við framkvæmd þjónustunnar.
     Greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi skv. 12. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.


B. Virkur eignarhlutur, stofnun og fjárhagsgrundvöllur.

5. gr.

Virkur eignarhlutur.
     Aðili sem hyggst eignast, einn eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í greiðslustofnun í skilningi laga um fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 30% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að greiðslustofnun verði talin dótturfyrirtæki hans.
     Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um eiganda virks eignarhlutar sem hyggst draga svo úr hlutafjár- eða stofnfjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut. Í tilkynningu skal koma fram hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 30% eða 50% eða svo mikið að greiðslustofnunin hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjár- eða stofnfjáraukningar.
     Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, gilda um meðferð virkra eignarhluta í greiðslustofnunum og mat á hæfi virks eiganda eftir því sem við á.
     Fjármálaeftirlitið skal birta opinberlega lista yfir þær upplýsingar sem fram þurfa að koma í tilkynningu.

6. gr.

Rekstrarform og höfuðstöðvar.
     Aðilar, aðrir en þeir sem taldir eru upp í a–c-lið og e–g-lið 23. tölul. 3. gr., auk 35. gr., er hyggjast veita greiðsluþjónustu skulu afla sér starfsleyfis sem greiðslustofnun áður en greiðsluþjónusta hefst.
     Greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi skv. 12. gr. skal vera lögaðili, hafa höfuðstöðvar sínar hérlendis og a.m.k. hluti af greiðsluþjónustustarfseminni þarf að fara fram hérlendis.

7. gr.

Stofnframlag.
     Stofnframlag greiðslustofnunar skal á hverjum tíma taka mið af þeirri greiðsluþjónustu skv. 22 tölul. 3. gr. sem greiðslustofnun veitir.
     Stofnframlag greiðslustofnunar skal á hverjum tíma nema að lágmarki:
  1. jafnvirði 20.000 evra í íslenskum krónum ef greiðslustofnun veitir einungis greiðsluþjónustu skv. f-lið 22. tölul. 3. gr.,
  2. jafnvirði 50.000 evra í íslenskum krónum ef greiðslustofnun veitir greiðsluþjónustu skv. g-lið 22. tölul. 3. gr.,
  3. jafnvirði 125.000 evra í íslenskum krónum ef greiðslustofnun veitir greiðsluþjónustu skv. a–e-lið 22. tölul. 3. gr.
Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
     Stofnframlag greiðslustofnunar skal samsett úr þeim liðum sem taldir eru upp í 1. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

8. gr.

Eiginfjárgrunnur.
     Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 7. eða 9. gr., hvor fjárhæðin sem er hærri.
     Greiðslustofnun sem tilheyrir samstæðu þar sem í er önnur greiðslustofnun, fjármálafyrirtæki, rekstraraðili sérhæfðs sjóðs eða vátryggingafélag er einungis heimilt að telja eiginfjárliði einu sinni til eiginfjárgrunns. Það sama á við ef greiðslustofnun stundar aðra starfsemi en greiðsluþjónustu skv. 22. tölul. 3. gr.
     Ef skilyrði 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 eru uppfyllt er heimilt að undanþiggja greiðslustofnun frá útreikningi eigin fjár skv. 9. gr. falli hún undir eftirlit á samstæðugrunni með móðurfélagi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

9. gr.

Útreikningur eiginfjárgrunns.
     Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar skal ávallt reiknaður í samræmi við eina af aðferðunum þremur sem greinir í 2.–4. mgr. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Þetta á þó ekki við um greiðslustofnun sem einungis veitir greiðsluþjónustu skv. g- og/eða h-lið 22. tölul. 3. gr.
     Aðferð A: Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar skal nema a.m.k. 10% af föstum rekstrarkostnaði síðastliðinna 12 mánaða. Fjármálaeftirlitið getur breytt þessari ákvörðun verði verulegar breytingar á rekstri greiðslustofnunar á milli ára. Hafi greiðslustofnun starfað skemur en eitt rekstrarár þegar útreikningur eiginfjárgrunns fer fram skal eiginfjárgrunnur hennar nema a.m.k. 10% af samsvarandi föstum rekstrarkostnaði sem gert er ráð fyrir í rekstraráætlun, nema Fjármálaeftirlitið krefjist þess að þeirri áætlun sé breytt.
     Aðferð B: Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar skal nema a.m.k. samanlagðri fjárhæð eftirfarandi liða margfaldaðri með kvarðastuðlinum k, sem skilgreindur er í 5. mgr., þar sem greiðslumagn samanstendur af 1/ 12 af heildarfjárhæð greiðslna síðustu 12 mánaða:
  1. 4,0% af greiðslumagni sem nemur allt að jafnvirði 5 milljóna evra í íslenskum krónum,
  2. 2,5% af greiðslumagni sem nemur jafnvirði 5 milljóna evra og allt að jafnvirði 10 milljóna evra í íslenskum krónum,
  3. 1% af greiðslumagni sem nemur jafnvirði 10 milljóna evra og allt að jafnvirði 100 milljóna evra í íslenskum krónum,
  4. 0,5% af greiðslumagni sem nemur jafnvirði 100 milljóna evra og allt að jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum, og
  5. 0,25% af greiðslumagni umfram jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum.
Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
     Aðferð C: Fjárhæð eiginfjárgrunns greiðslustofnunar skal vera a.m.k. viðeigandi vísir sem skilgreindur er í 1. og 2. tölul., margfaldaður með margfeldisstuðlinum, sem skilgreindur er í 3. tölul. og með kvarðastuðlinum k sem skilgreindur er í 5. mgr.:
  1. Viðeigandi vísir er samtala eftirfarandi liða:
    1. vaxtatekna,
    2. vaxtakostnaðar,
    3. fenginna umboðslauna og þóknana, og
    4. annarra rekstrartekna.
  2. Hver liður skal tekinn með í samtöluna með plús- eða mínusmerki. Ekki má nota óreglulega tekjuliði í útreikningi á viðeigandi vísum. Útgjöld vegna útvistunar á þjónustu hjá þriðja aðila geta minnkað viðeigandi vísi ef félagið sem stofnar til útgjaldanna er eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum þessum. Viðeigandi vísir er reiknaður á grundvelli síðasta reikningsárs. Viðeigandi vísir skal reiknaður yfir síðasta reikningsár. Eigi að síður skal eiginfjárgrunnur, sem reiknaður er í samræmi við aðferð C, ekki vera undir 80% af meðaltali þriggja undanfarinna reikningsára fyrir viðeigandi vísi. Ef endurskoðaðar tölur liggja ekki fyrir má nota eigið mat greiðslustofnunarinnar.
  3. Margföldunarstuðullinn skal vera:
    1. 10% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur allt að jafnvirði 2,5 milljóna evra í íslenskum krónum,
    2. 8% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 2,5 milljóna evra og allt að jafnvirði 5 milljóna evra í íslenskum krónum,
    3. 6% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 5 milljóna evra og allt að jafnvirði 25 milljóna evra í íslenskum krónum,
    4. 3% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 25 milljóna evra og allt að jafnvirði 50 milljóna evra í íslenskum krónum,
    5. 1,5% af þeim hluta viðeigandi vísis umfram jafnvirði 50 milljóna evra í íslenskum krónum.
    Við umreikning í íslenskar krónur skal miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni.

     Kvarðastuðullinn k, sem nota skal í aðferðum B og C, sbr. 3. og 4. mgr., skal vera:
  1. 0,5 ef greiðslustofnunin stundar aðeins greiðsluþjónustu skv. f-lið 22. tölul. 3. gr.,
  2. 1 ef greiðslustofnun stundar greiðsluþjónustu skv. a–e-lið 22. tölul. 3. gr.

     Fjármálaeftirlitið getur á grundvelli mats á áhættustýringarferlum, gagnagrunni yfir tapsáhættu og innra eftirlitskerfi greiðslustofnunar gert kröfu um að eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar sé allt að 20% hærri en fjárhæðin sem stafar af beitingu aðferðarinnar sem valin er í samræmi við 1. mgr. Á sama grundvelli getur Fjármálaeftirlitið heimilað að fjárhæð eiginfjárgrunns greiðslustofnunar sé allt að 20% lægri en fjárhæðin sem leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1. mgr.


C. Varðveisla fjármuna.

10. gr.

Varðveisla fjármuna.
     Greiðslustofnun sem veitir greiðsluþjónustu skv. a–f-lið 22. tölul. 3. gr. skal varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitendum vegna framkvæmdar greiðslu og halda þeim skýrt aðgreindum frá fjármunum í eigu greiðslustofnunarinnar og fjármunum í eigu annarra en notenda greiðsluþjónustu. Fjármunir teljast tryggilega varðveittir ef þeir eru geymdir á innlánsreikningi hjá fjármálafyrirtæki eða ef fjárfest er með þeim í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum.
     Fjármunir skv. 1. mgr. skulu teljast sértökukröfur í þrotabú greiðsluþjónustuveitanda komi til gjaldþrots. Um rétthæð þeirra fer skv. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, enda sýni eigandi fjármuna fram á eignarrétt sinn að þeim.
     Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um tryggilega varðveislu fjármuna samkvæmt þessari grein.


D. Hæfi.

11. gr.

Hæfisskilyrði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.
     Um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra gilda 52. gr. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á, og reglur settar á grundvelli þeirra.
     Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn fyrirtækis og framkvæmdastjórn, sbr. 3. mgr. 4. gr., og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt.


E. Starfsleyfi.

12. gr.

Skilyrði og tilkynning um veitingu eða synjun starfsleyfis.
     Starfsleyfi skal veitt eða, í tilviki reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, skráning staðfest, sbr. 35. gr., ef umsækjandi uppfyllir að mati Fjármálaeftirlitsins í umsókn sinni og meðfylgjandi gögnum skilyrði 4. gr. og sýnir fram á að skipulag í fyrirhuguðum rekstri greiðsluþjónustu sé skýrt, fullnægjandi verklagsreglur séu fyrir hendi er þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um efni 1. málsl. Um efni reglnanna skulu höfð til hliðsjónar ákvæði 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á.
     Þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar greiðsluþjónustu sem fyrirhugað er að veita og verður umsækjandi að uppfylla þær á hverjum tíma með því að haga skipulagi, verklagsreglum og öðru skv. 1. mgr. í samræmi við umfang þjónustunnar.
     Umsækjandi um starfsleyfi fyrir greiðsluvirkjun skv. g-lið 22. tölul. 3. gr. skal hafa starfsábyrgðartryggingu, sem nær yfir svæðið þar sem hann hyggst bjóða greiðsluþjónustu, eða aðra sambærilega tryggingu til að geta mætt bótaábyrgð sem stofnast getur til í samræmi við 79., 93., 94. og 96. gr.
     Umsækjandi um staðfestingu skráningar sem reikningsupplýsingaþjónusta skv. h-lið 22. tölul. 3. gr. skal hafa starfsábyrgðartryggingu, sem nær yfir svæðið þar sem hann hyggst bjóða þjónustu, eða aðra sambærilega tryggingu til að mæta bótaábyrgð gagnvart greiðsluþjónustuveitanda reikningsþjónustu eða notanda greiðsluþjónustu, sem leiðir af óheimiluðum eða sviksamlegum aðgangi að eða notkun á upplýsingum um greiðslureikninga.
     Við mat á umsókn um starfsleyfi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar annarra viðeigandi opinberra yfirvalda.
     Fjármálaeftirlitið getur gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur greiðsluþjónustu skv. 22. tölul. 3. gr. ef greiðslustofnun sinnir annarri starfsemi samhliða og ef sú starfsemi rýrir eða líkur eru á að hún rýri trausta fjárhagsstöðu greiðslustofnunar eða torveldi eftirlit með henni.
     Fjármálaeftirlitið skal synja um starfsleyfi ef það telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar greiðslustofnunar.
     Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl greiðslustofnunar við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit með starfseminni af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við ef lög eða reglur, sem gilda um slíka tengda aðila, hindra eftirlit. Með nánum tengslum er í lögum þessum átt við náin tengsl í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Enn fremur skal starfsleyfi ekki veitt ef lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja ríkis, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem greiðslustofnunin hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
     Fullnægi umsókn um starfsleyfi skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins veitir það starfsleyfi. Starfsleyfið gildir í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og gerir hlutaðeigandi greiðslustofnun kleift að veita greiðsluþjónustuna sem fellur undir starfsleyfið alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, að fullnægðum skilyrðum 23.–25. gr. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið rökstyðja synjun um starfsleyfi.
     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn barst.

13. gr.

Afturköllun starfsleyfis.
     Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi greiðslustofnunar í heild eða að hluta ef:
  1. greiðslustofnun nýtir ekki starfsleyfið innan 12 mánaða frá því að það var veitt, afsalar sér ótvírætt leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
  2. starfsleyfis hefur verið aflað á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
  3. greiðslustofnun uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu eða upplýsir Fjármálaeftirlitið ekki um umfangsmikla þróun starfseminnar,
  4. áframhaldandi rekstur greiðsluþjónustu af hálfu greiðslustofnunar ógnar stöðugleika eða trausti á greiðslukerfi,
  5. starfsemi greiðslustofnunar fellur undir annað ákvæði í landslögum sem kveður á um afturköllun leyfis, eða
  6. greiðslustofnun brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.

     Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal greiðslustofnun veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef unnt er að koma þeim við að mati Fjármálaeftirlitsins. Þetta á þó ekki við um a-lið 1. mgr.
     Afturköllun á starfsleyfi greiðslustofnunar skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Auk þess skal tilkynning send lögbærum eftirlitsaðilum í ríkjum þar sem hlutaðeigandi greiðslustofnun starfrækir útibú eða veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Fjármálaeftirlitið skal enn fremur uppfæra skrá yfir greiðslustofnanir sem um getur í 14. gr. og birta þar opinberlega afturköllun á starfsleyfi.

14. gr.

Skrá yfir greiðslustofnanir.
     Fjármálaeftirlitið heldur opinbera skrá yfir greiðslustofnanir samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um greiðslustofnanir, svo sem um starfsheimildir, afturköllun starfsheimilda og, ef við á, um umboðsaðila og útibú. Færa skal útibú erlendrar greiðslustofnunar hér á landi í skrá aðildarríkis. Stofnanir sem hafa heimild samkvæmt sérlöggjöf til að veita greiðsluþjónustu skulu einnig færðar í skrá Fjármálaeftirlitsins. Auk þess skal tilgreina og aðgreina aðila skv. 2. málsl. frá þeim einstaklingum og lögaðilum sem njóta undanþágu í samræmi við 34. og 35. gr. og, ef við á, útibúa og umboðsaðila þeirra.
     Almenningur skal hafa aðgang að skrá yfir greiðslustofnanir á vef Seðlabanka Íslands og skal hún uppfærð þegar breytingar verða.
     Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni um þær upplýsingar sem það færir í skrána yfir greiðslustofnanir. Fjármálaeftirlitið er ábyrgt gagnvart Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni fyrir því að upplýsingar í skrá yfir greiðslustofnanir séu réttar.


F. Reikningsskil og endurskoðun.

15. gr.

Reikningsskil og lögboðin endurskoðun.
     Reikningsár greiðslustofnunar er almanaksárið. Greiðslustofnun skal leggja fram aðskilin reikningsskil fyrir annars vegar greiðsluþjónustu og hins vegar fyrir aðra starfsemi sem hún hefur heimild til að stunda skv. 1. mgr. 16. gr.
     Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki eða eftir atvikum laga um ársreikninga gilda að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda greiðslustofnana til Fjármálaeftirlitsins.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um ársreikninga greiðslustofnana.


G. Starfsheimildir.

16. gr.

Önnur starfsemi.
     Greiðslustofnun er heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi auk greiðsluþjónustu:
  1. rekstur nátengdrar stoðþjónustu, svo sem að tryggja framkvæmd greiðslna, gjaldeyrisviðskipti, ráðstafanir til verndunar eigna og geymslu og vinnslu gagna,
  2. starfrækja greiðslukerfi,
  3. aðra starfsemi en greiðsluþjónustu í samræmi við aðra gildandi löggjöf.

     Greiðslustofnun er heimilt að halda greiðslureikninga sem skal einungis nota við framkvæmd greiðslna.
     Fjármunir sem greiðslustofnun móttekur frá notendum greiðsluþjónustu, vegna þjónustunnar, teljast ekki innlán, endurgreiðanlegir fjármunir frá almenningi eða rafeyrir.
     Í tengslum við greiðsluþjónustu skv. d- eða e-lið 22. tölul. 3. gr. má greiðslustofnun veita lán ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
  1. lánveitingin er hliðarstarfsemi og er einungis veitt í tengslum við framkvæmd greiðslu,
  2. endurgreiðslutími lánveitingar yfir landamæri er ekki lengri en 12 mánuðir,
  3. lánveitingin er ekki fjármögnuð með fjármunum sem mótteknir eru eða varðveittir vegna framkvæmdar greiðslu, og
  4. eiginfjárgrunnur stofnunarinnar uppfyllir kröfur laga þessara og er að mati Fjármálaeftirlitsins fullnægjandi með tilliti til heildarlánveitinga.

     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um lánveitingar greiðslustofnunar.
     Greiðslustofnun er óheimilt að stunda innlánsstarfsemi eða taka við endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.
     Fjármálaeftirlitið getur bannað greiðslustofnun að hluta til eða öllu leyti að stunda starfsemi samkvæmt þessari grein. Um slíkt bann gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 13. gr.


H. Veiting greiðsluþjónustu innan lands fyrir milligöngu umboðsaðila eða með stofnun útibús.

17. gr.

Veiting greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila eða með stofnun útibús.
     Greiðslustofnun sem hyggst veita greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir séu hæfir ef þeir eru ekki þegar greiðsluþjónustuveitendur, upplýsingar um greiðsluþjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa.
     Fjármálaeftirlitið skráir umboðsaðila í skrá skv. 14. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr., innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna og sendir samhliða greiðslustofnun upplýsingar um skráninguna. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Meti Fjármálaeftirlitið upplýsingar skv. 1. mgr. rangar eða ófullnægjandi skal það synja um skráningu umboðsaðila í skrá skv. 14. gr. Synji Fjármálaeftirlitið um skráningu skal greiðslustofnun upplýst um það án tafar og er henni óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila frá þeim tíma.
     Greiðslustofnun er heimilt að veita greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd hennar eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 14. gr.
     Greiðslustofnun skal sjá til þess að umboðsaðilar eða útibú upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.
     Greiðslustofnun skal án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á umboðsmönnum, þ.m.t. viðbótarumboðsmönnum, og skal við það fylgja málsmeðferð skv. 2.–4. mgr.
     Ef greiðslustofnun óskar eftir því að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki fyrir milligöngu umboðsaðila fer um slíkt skv. 25. gr.


I. Útvistun.

18. gr.

Útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu.
     Greiðslustofnun sem hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram.
     Útvistun mikilvægra rekstrarþátta, þ.m.t. rekstur upplýsingakerfa, er óheimil ef hún dregur umtalsvert úr gæðum innra eftirlits greiðslustofnunar og torveldar eftirlit með framkvæmd laga þessara. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu greiðslustofnunar til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi hennar eða skyldur samkvæmt lögunum, fjárhagslega afkomu stofnunarinnar eða traustleika eða samfellda greiðsluþjónustu hennar.
     Greiðslustofnun má aðeins útvista mikilvægum rekstrarþætti að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
  1. Útvistunin má ekki leiða til þess að ábyrgð stjórnenda verði framseld til útvistunaraðila.
  2. Skyldur og samband greiðslustofnunar gagnvart notendum greiðsluþjónustu hennar samkvæmt lögum þessum breytist ekki.
  3. Greiðslustofnun uppfyllir eftir sem áður skilyrðin sem eru forsendan fyrir starfsleyfi hennar.
  4. Hvorki skal breyta né fella brott einhver þeirra skilyrða sem liggja til grundvallar starfsleyfi greiðslustofnunar.

     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um útvistun mikilvægra rekstrarþátta greiðslustofnunar.
     Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar sem verða á útvistun starfseminnar og skal við það fylgja málsmeðferð skv. 2.–4. mgr. 17. gr.


J. Góðir viðskiptahættir, þagnarskylda og bótaábyrgð.

19. gr.

Góðir viðskiptahættir og þagnarskylda.
     Greiðslustofnun skal viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Seðlabanki Íslands setur reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur.
     Um þagnarskyldu stjórnarmanna greiðslustofnunar, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

20. gr.

Bótaábyrgð.
     Greiðslustofnun ber skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til athafna starfsmanna hennar, umboðsaðila, útibúa og þeirra aðila sem rekstrarþáttum greiðsluþjónustu hefur verið útvistað til.
     Greiðslustofnun sem reiðir sig á þriðja aðila til að annast tiltekna rekstrarþætti skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.


K. Varðveisla gagna.

21. gr.

Varðveisla gagna.
     Greiðslustofnun ber að varðveita öll viðeigandi gögn er varða þennan kafla að lágmarki í fimm ár.


L. Eftirlit með starfsemi greiðslustofnana.

22. gr.

Eftirlit.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi greiðslustofnana, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu, sem fellur undir ákvæði II. kafla, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Fjármálaeftirlitið hefur m.a. heimild til að:
  1. krefjast þess að greiðslustofnun leggi fram allar upplýsingar sem þörf er á til að unnt sé að hafa eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt og skal Fjármálaeftirlitið þá tilgreina tilganginn að baki beiðninni og gefa tiltekinn skilafrest,
  2. framkvæma skoðun á starfsstöð greiðslustofnunar, umboðsaðila eða útibúi þar sem veitt er greiðsluþjónusta sem greiðslustofnun ber ábyrgð á eða þar sem útvistunaraðili er til húsa,
  3. gefa út fyrirmæli, leiðbeiningar og bindandi stjórnsýslufyrirmæli,
  4. stöðva tímabundið eða afturkalla starfsleyfi skv. 13. gr.,
  5. beita heimildum sem því eru fengnar í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

     Fjármálaeftirlitið skal sérstaklega grípa til ráðstafana skv. 2. mgr. til að tryggja nægilegt eigið fé greiðslustofnunar til greiðsluþjónustustarfsemi, einkum ef sú starfsemi greiðslustofnunar sem ekki er greiðsluþjónusta rýrir eða er líkleg til að rýra trausta fjárhagsstöðu hennar.


M. Veiting þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.

23. gr.

Starfsemi greiðslustofnana erlendis án stofnunar útibús eða umboðsaðila.
     Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki án stofnunar útibús eða umboðsaðila skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer greiðslustofnunar ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta er fólgin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort greiðslustofnun hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu til þriðja aðila í aðildarríkinu sem í hlut á. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins.
     Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi greiðslustofnun ákvörðun sína varðandi ætlaða starfsemi erlendis. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlits er jákvæð skal samhliða færa upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr.

24. gr.

Starfsemi greiðslustofnana erlendis með stofnun útibús.
     Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki með stofnun útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða aðildarríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta er fólgin, heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer greiðslustofnunar ef því er að skipta, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins, í hvaða ríkjum útibúið hyggst veita greiðsluþjónustu og skipulag þess, þ.m.t. lýsing á innra eftirlitskerfi, verkferlum, áhættustýringu, reikningsskilum og viðskiptaáætlun fyrir fyrstu þrjú fjárhagsárin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort greiðslustofnun hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins.
     Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi greiðslustofnun ákvörðun sína. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr. Útibúið getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
     Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem greiðslustofnun hyggst stofna útibú um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingarnar um útibúið í skrá skv. 14. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
     Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu í mati sínu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
     Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem hún hefur starfsemi fyrir milligöngu útibús.
     Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarútibú eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð skv. 3. og 4. mgr.
     Greiðslustofnun skal sjá til þess að útibú upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.

25. gr.

Þjónusta erlendis fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Greiðslustofnun sem óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki, fyrir milligöngu umboðsaðila sem staðsettur er í öðru aðildarríki, skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer greiðslustofnunar ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð greiðsluþjónusta er fólgin. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans, sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og skráningu skal uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir uppfylli hæfiskröfur 3. mgr. 5. gr. ef þeir eru ekki þegar greiðsluþjónustuveitendur, upplýsingar um greiðsluþjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa. Að endingu skal koma fram í tilkynningunni hvort greiðslustofnun hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu til þriðja aðila í gistiaðildarríkinu. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein auk staðfestingar á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins ásamt beiðni um umsögn.
     Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi greiðslustofnun ákvörðun sína. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingarnar um greiðslustofnunina í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr. Umboðsaðilinn getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
     Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem greiðslustofnun hyggst bjóða greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að tilnefning umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um umboðsaðilann í skrá skv. 14. gr. eða afturkalla skráningu, hafi hún þegar farið fram.
     Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu í mati sínu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
     Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem hún hefur starfsemi sína fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarumboðsaðila eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð skv. 3. og 4. mgr.
     Greiðslustofnun skal sjá til þess að umboðsaðili sem veitir greiðsluþjónustu fyrir hennar hönd upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.

26. gr.

Starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin, auk annarra upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.
     Fjármálaeftirlitið getur bannað starfsemi skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun eða fjárhagsstaða hlutaðeigandi greiðslustofnunar sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er.

27. gr.

Þjónusta greiðslustofnunar með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu hér á landi eftir að tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 23. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru stjórnvaldi heimaaðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan þess mánaðarfrests sem því er gefinn og í kjölfarið getur lögbært stjórnvald í heimaaðildarríki greiðslustofnunar samþykkt veitingu umbeðinnar greiðsluþjónustu yfir landamæri og uppfært skrá í heimaaðildarríki sambærilega þeirri sem um getur í 14. gr.

28. gr.

Þjónusta greiðslustofnunar með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis.
     Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru stjórnvaldi heimaaðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan þess mánaðarfrests sem því er gefinn. Í kjölfarið getur lögbært stjórnvald í heimaaðildarríki greiðslustofnunar samþykkt stofnun útibús eða veitingu umbeðinnar greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila á Íslandi og uppfært skrá í heimaaðildarríki sambærilega þeirri sem um getur í 14. gr.
     Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibús eða veiting greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal það tilkynna lögbærum stjórnvöldum heimaaðildarríkis um það. Ákveði lögbær stjórnvöld heimaaðildarríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi af slíkri tilkynningu er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi frá þeim tíma.
     Ef lögbær stjórnvöld í heimaaðildarríki taka ekki tillit til athugasemda Fjármálaeftirlitsins og veita greiðslustofnun heimild til að stofna útibú eða veita greiðsluþjónustu á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila getur Fjármálaeftirlitið borið þá ákvörðun undir Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
     Greiðslustofnun með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal sjá til þess að útibú eða umboðsaðili upplýsi notendur greiðsluþjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hennar hönd.

29. gr.

Stofnun útibús eða þjónusta veitt fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis af hálfu stofnunar utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Fjármálaeftirlitið getur heimilað stofnun sem veitir greiðsluþjónustu, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, að opna útibú eða veita þjónustu hér á landi fyrir milligöngu innlends umboðsaðila. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að stofnunin hafi leyfi til að stunda hliðstæða starfsemi í heimaríki sínu, sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu og að gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í því ríki. Til að útibú geti hafið starfsemi hér á landi skal heimaríki stofnunarinnar undirrita samning við íslensk stjórnvöld, sem fer að öllu leyti að stöðlum skv. 26. gr. skattasamningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar um tekjur og fjármagn og tryggir skilvirk upplýsingaskipti um skattamál, ef við á.
     Fjármálaeftirlitið skal innan sex mánaða frá því að stofnun lagði fram fullnægjandi umsókn tilkynna um ákvörðun sína vegna umsóknar um að starfrækja útibú eða veita þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis.


N. Eftirlit með þjónustu yfir landamæri.

30. gr.

Eftirlit gistiaðildarríkis með greiðslustofnunum sem veita þjónustu yfir landamæri með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Fjármálaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær stjórnvöld í gistiaðildarríki um framkvæmd eftirlits með lögum þessum vegna starfsemi umboðsaðila og útibúa í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríki þegar það hyggst framkvæma skoðun á starfsstöð umboðsaðila eða útibúi í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fela lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríki framkvæmd skoðunar á starfsstöð umboðsaðila eða útibúi sem staðsett er í því ríki.
     Lögbær stjórnvöld í gistiaðildarríki geta krafist þess að greiðslustofnanir, sem hafa umboðsaðila eða útibú á yfirráðasvæði þess, gefi þeim skýrslu með reglulegu millibili um starfsemina á yfirráðasvæði þeirra. Krefjast skal slíkra skýrslna í upplýsingaskyni eða í tölfræðilegum tilgangi, að því marki sem umboðsaðilarnir og útibúin stunda greiðsluþjónustu á grundvelli 24. og 25. gr., til að fylgjast með því að farið sé að ákvæðum laga gistiaðildarríkis sem eru samsvarandi IV.–VII. kafla.
     Fjármálaeftirlitið skal, eftir að hafa lagt mat á upplýsingar sem það fær frá lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríki þess efnis að greiðslustofnun með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu fari ekki að reglum II. og III. kafla eða IV.–VII. kafla, án ótilhlýðilegrar tafar, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi greiðslustofnun fari að settum reglum. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt tilkynna lögbærum stjórnvöldum í gistiaðildarríkinu og í öðrum hlutaðeigandi gistiaðildarríkjum tafarlaust um þessar ráðstafanir.
     Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærra stjórnvalda í gistiaðildarríki eða að eigin frumkvæði veita þeim viðeigandi upplýsingar, einkum þegar um er að ræða brot eða grun um brot umboðsaðila eða útibús og staðfesta hvort greiðslustofnunin uppfyllir skilyrði 2. mgr. 7. gr.

31. gr.

Eftirlit með greiðslustofnunum með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu hérlendis með stofnun útibús eða með milligöngu umboðsaðila.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að greiðslustofnun með útibú eða umboðsaðila hér á landi gefi skýrslu með reglulegu millibili um starfsemina hérlendis. Krefjast skal slíkra skýrslna í upplýsingaskyni eða í tölfræðilegum tilgangi, að því marki sem umboðsaðilarnir og útibúin stunda greiðsluþjónustu á grundvelli 27. og 28. gr., til að fylgjast með því að farið sé að ákvæðum IV.–VII. kafla.
     Ef Fjármálaeftirlitið kemst að raun um að greiðslustofnun sem veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú hérlendis fer ekki að ákvæðum II.–VII. kafla skal það upplýsa lögbært yfirvald í heimaaðildarríki um það án tafar.
     Fjármálaeftirlitið getur gripið til tafarlausra aðgerða reynist það nauðsynlegt í ljósi neyðarástands vegna alvarlegrar ógnar við sameiginlega hagsmuni notenda greiðsluþjónustu hérlendis eða gert varúðarráðstafanir samhliða samstarfi við lögbær stjórnvöld í heimaaðildarríki greiðslustofnunar og fram að ráðstöfunum þeirra stjórnvalda. Hér skiptir ekki máli hvort neyðarástand skapast vegna útibús hérlendis, umboðsaðila hérlendis eða greiðsluþjónustu sem starfrækt er hér á landi á vegum greiðslustofnunar með starfsleyfi frá Evrópska efnahagssvæðinu. Varúðarráðstafanirnar skulu vera viðeigandi og í réttu samhengi við þann tilgang að verjast alvarlegri ógn við sameiginlega hagsmuni notenda greiðsluþjónustu hér á landi. Þær mega ekki leiða til þess að notendur greiðsluþjónustunnar hérlendis fyrir milligöngu umboðsaðila, í gegnum útibú erlendrar greiðslustofnunar eða vegna veitingar greiðsluþjónustu yfir landamæri án hvors tveggja, njóti betri meðferðar en notendur greiðsluþjónustu í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess skulu varúðarráðstafanirnar vera tímabundnar og þeim skal lokið þegar tekið hefur verið á þeirri alvarlegu ógn sem greind var, þ.m.t. í samvinnu við lögbær stjórnvöld í heimaaðildarríki greiðslustofnunar sem í hlut á eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, sbr. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010.
     Fjármálaeftirlitið skal, ef við á, upplýsa lögbær stjórnvöld í aðildarríkjum sem í hlut eiga, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, fyrir fram og án ástæðulausrar tafar, um varúðarráðstafanirnar sem gripið er til skv. 3. mgr. og rökstyðja þær.
     Telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki greiðslustofnunar sýni athafnaleysi með því að grípa ekki til þeirra ráðstafana sem það hafi viðurkennt að nauðsynlegt sé að grípa til, hafni samstarfi og/eða láti undir höfuð leggjast að bregðast við neyðarástandi eða viðurkenni ekki að fyrir hendi sé neyðarástand getur Fjármálaeftirlitið leitað aðstoðar Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar vegna þeirrar afstöðu og leitað lausnar þess ágreinings. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.

32. gr.

Samstarf og upplýsingaskipti við erlendar stofnanir vegna eftirlits.
     Fjármálaeftirlitið skal, eftir því sem við á, viðhafa samstarf við eftirlitsstofnanir í aðildarríkjum, Seðlabanka Evrópu, seðlabanka aðildarríkjanna, Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og Eftirlitsstofnun EFTA og önnur viðeigandi eftirlitsstjórnvöld í tengslum við framkvæmd eftirlits með greiðsluþjónustuveitendum.
     Fjármálaeftirlitið skal að ósk eftirlitsstofnana í aðildarríkjum, Seðlabanka Evrópu, seðlabanka aðildarríkja og, ef við á, annarra opinberra yfirvalda, sem eru ábyrg fyrir eftirliti með greiðslu- og uppgjörskerfum, og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, í samræmi við það hlutverk að stuðla að samræmdri og samfelldri eftirlitsráðstöfun eins og um getur í lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, auk Eftirlitsstofnunar EFTA, veita viðeigandi upplýsingar um greiðsluþjónustuveitendur sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Að sama skapi skal Fjármálaeftirlitið að ósk annarra lögbærra stjórnvalda, sem hafa eftirlit með greiðsluþjónustuveitendum, svo sem lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, veita viðeigandi upplýsingar um greiðslustofnanir sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Upplýsingagjöf Fjármálaeftirlitsins fer eftir ákvæðum 14. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

33. gr.

Tilnefning miðlægs tengiliðar greiðslustofnunar með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.
     Greiðslustofnun sem starfar á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilnefna miðlægan tengilið til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal hafa samband við miðlægan tengilið til að fá upplýsingar og skýrslur til að sinna eftirliti samkvæmt þessum lögum.


O. Undanþágur frá skilyrðum greiðslustofnunar.

34. gr.

Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.
     Greiðslustofnun sem uppfyllir skilyrði skv. 2. mgr. er heimilt að veita greiðsluþjónustu skv. a–f-lið 22. tölul. 3. gr. á grundvelli takmarkaðs starfsleyfis.
     Mánaðarlegt meðaltal heildarfjárhæðar greiðslna næstliðinna 12 mánaða, sem greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi hefur framkvæmt, má að hámarki nema jafnvirði 1 milljónar evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Fari mánaðarlegt meðaltal heildarfjárhæðar greiðslna næstliðinna 12 mánaða yfir jafnvirði 1 milljónar evra í íslenskum krónum fellur undanþágan niður. Sendi greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi þá fullnægjandi umsókn um starfsleyfi sem greiðslustofnun innan 30 daga frá niðurfellingu síns takmarkaða leyfis má hún starfa áfram á meðan Fjármálaeftirlitið afgreiðir umsóknina.
     Ákvæði þessa kafla gilda um greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi, að undanskildum ákvæðum 7.–9. gr., 9. mgr. 12. gr., 4. mgr. 16. gr. og 23.–28. gr.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir takmörkuðu starfsleyfi.

35. gr.

Reikningsupplýsingaþjónustuveitendur.
     Ákvæði 4.–21. gr. og 3. mgr. 22. gr. gilda ekki um reikningsupplýsingaþjónustuveitanda sem aðeins veitir þá þjónustu, sbr. h-lið 22. tölul. 3. gr., með þeirri undantekningu að ákvæði 1.–4., 10., 11., 13., 14. og 16. tölul. 1. mgr. 4. gr.,11. gr., 4. mgr. 12. gr., 14. gr. og 22.–33. gr. gilda.
     Farið skal með reikningsupplýsingaþjónustuveitanda sem um getur í 1. mgr. sem greiðslustofnun en þó eiga ákvæði IV.–VII. kafla ekki við um hann að undanskildum ákvæðum 43., 49. og 54. gr., eftir því sem við á, og 70.–72. og 99.–101. gr.

III. KAFLI
Almenn ákvæði um greiðsluþjónustuveitendur.

36. gr.

Þátttaka í greiðslukerfum.
     Greiðsluþjónustuveitanda sem er lögaðili og með starfsleyfi skal vera heimilt að gerast þátttakandi í greiðslukerfi í samræmi við 2. og 3. mgr., sbr. þó 4. mgr.
     Reglur um þátttöku í greiðslukerfum skulu vera hlutlægar, án mismununar og hóflegar. Þær mega ekki hamla aðgangi meira en nauðsynlegt er til að verjast tiltekinni áhættu, svo sem uppgjörsáhættu, rekstraráhættu eða viðskiptaáhættu, og vernda fjárhags- og rekstrarlegan stöðugleika greiðslukerfisins.
     Í greiðslukerfum skulu ekki gerðar kröfur til greiðsluþjónustuveitenda, notenda greiðsluþjónustu eða annarra greiðslukerfa sem:
  1. takmarka virka þátttöku þeirra í öðrum greiðslukerfum,
  2. mismuna greiðsluþjónustuveitendum hvort heldur þeir eru skráðir eða með starfsleyfi, að því er varðar réttindi, skyldu eða heimildir þátttakenda, eða
  3. takmarka þátttöku á grundvelli félagaréttarlegrar stöðu.

     Ákvæði 1.–3. mgr. gilda ekki um:
  1. greiðslukerfi sem viðurkennd hafa verið og hafa verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við lög um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum,
  2. greiðslukerfi þar sem þátttaka einskorðast við greiðsluþjónustuveitendur sem tilheyra tiltekinni samstæðu.

     Ef þátttakandi í greiðslukerfi skv. a-lið 4. mgr. leyfir greiðsluþjónustuveitanda sem ekki er þátttakandi í greiðslukerfinu að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins skal þátttakandinn veita öðrum skráðum greiðsluþjónustuveitendum eða þeim sem eru með starfsleyfi sama tækifæri á hlutlægan, hóflegan hátt og án mismununar í samræmi við 2. mgr.
     Synji þátttakandi í greiðslukerfi skv. a-lið 4. mgr. beiðni greiðsluþjónustuveitanda um að fá að gefa greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu kerfisins skal hann upplýsa greiðsluþjónustuveitandann um allar ástæður fyrir synjuninni.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis, þ.m.t. að því er varðar eftirlit.

37. gr.

Aðgangur að reikningum hjá lánastofnun.
     Lánastofnanir og viðskiptabankar skulu veita greiðslustofnunum aðgang að greiðslureikningaþjónustu þeirra á hlutlægan hátt, án mismununar og í samræmi við það lögmæta markmið sem greiðslustofnun stefnir að. Aðgangur skal vera nógu víðtækur til að gera greiðslustofnunum kleift að veita greiðsluþjónustu á óhindraðan og skilvirkan hátt.
     Synji lánastofnun eða viðskiptabanki greiðslustofnun um umbeðinn aðgang, sbr. 1. mgr., skal sá sem synjar tilkynna Fjármálaeftirlitinu og upplýsa um helstur ástæður synjunar.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um tilkynningu skv. 2. mgr.

38. gr.

Greiðslumiðlar með takmörkuð afnot.
     Öðrum en greiðsluþjónustuveitendum er óheimilt að veita greiðsluþjónustu samkvæmt lögum þessum.
     Þjónustuveitandi sem býður þjónustu sem tilgreind er í 11. og 12. tölul. 2. gr. og heildarfjárhæð greiðslna sem hafa verið framkvæmdar á næstliðnum 12 mánuðum er hærri en 1 milljón evra skal senda eftirfarandi til Fjármálaeftirlitsins:
  1. Lýsingu á þjónustunni sem viðskiptavinum er boðin.
  2. Tilvísun í þá undanþágu skv. 11. og 12. tölul. 2. gr. sem þjónustan heyrir undir.

     Fjármálaeftirlitið tekur á grundvelli upplýsinga skv. 2. mgr. rökstudda ákvörðun með vísan til 11. og 12. tölul. 2. gr. um hvort starfsemin telst vera afmarkað þjónustukerfi og tilkynnir þjónustuveitandanum. Falli starfsemin ekki undir undanþáguna skal Fjármálaeftirlitið banna frekari starfsemi en sendi þjónustuveitandinn fullnægjandi umsókn um starfsleyfi sem greiðslustofnun innan 30 daga frá dagsetningu bannsins má þjónustuveitandinn halda starfseminni áfram á meðan Fjármálaeftirlitið afgreiðir umsóknina.

39. gr.

Veitandi fjarskiptanets eða veitandi viðbótarþjónustu við fjarskiptaþjónustu.
     Þjónustuveitandi sem býður þjónustu sem lýst er í 14. tölul. 2. gr. skal senda eftirfarandi til Fjármálaeftirlitsins:
  1. Lýsingu á þjónustunni sem boðin er viðskiptavinum.
  2. Nákvæma lýsingu á því hvernig þjónustuveitandinn hefur eftirlit með því að þjónustan uppfylli á hverjum tíma skilyrði 14. tölul. 2. gr.
  3. Árlegt álit úttektaraðila sem staðfestir að starfsemin sé í samræmi við 14. tölul. 2. gr.

     Á grundvelli þessara upplýsinga metur Fjármálaeftirlitið hvort starfsemin fellur undir undanþágu 14. tölul. 2. gr. Falli starfsemin ekki undir undanþáguna skal Fjármálaeftirlitið banna frekari starfsemi, en sendi þjónustuveitandinn fullnægjandi umsókn um starfsleyfi sem greiðslustofnun innan 30 daga frá dagsetningu bannsins má þjónustuveitandinn halda starfseminni áfram á meðan Fjármálaeftirlitið afgreiðir umsóknina.
     Áður en þjónustuveitandi býður þjónustuna í fyrsta sinn skal hann senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar skv. a- og b-lið 1. mgr.

40. gr.

Heimild til að vísa ákvörðun Fjármálaeftirlitsins til dómstóla.
     Vilji greiðsluþjónustuveitandi eða þjónustuveitandi skv. 39. gr. ekki una ákvörðun eða athafnaleysi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt þessum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem byggjast á þeim getur hann vísað málinu til dómstóla, sbr. 18. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

IV. KAFLI
Gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu.

A. Almenn ákvæði.

41. gr.

Gildissvið kaflans.
     Ákvæði þessa kafla gilda um stakar greiðslur, rammasamninga og greiðslur sem falla undir þá.
     Víkja má frá ákvæðum þessa kafla með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
     Ákvæði 47.–52. gr. gilda aðeins um gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu þegar um ræðir stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga.
     Ákvæði 53.–60. gr. gilda aðeins um gagnsæi skilmála og upplýsingagjöf við greiðsluþjónustu þegar um ræðir greiðslur sem falla undir rammasamninga.
     Geri önnur lög ríkari kröfur til upplýsingagjafar vegna lánveitingar til neytenda gilda ákvæði þeirra laga að því leyti.
     Ef lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005, eiga einnig við víkja ákvæði 5. gr., 1. og 3. tölul. 6. gr., 3., 4., 6. og 7. tölul. 7. gr. og 1. tölul. 8. gr. II. kafla þeirra laga fyrir ákvæðum 48., 49., 53. og 54. gr.

42. gr.

Gjaldtaka vegna upplýsingagjafar.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal ekki krefja notanda greiðsluþjónustu um gjald fyrir upplýsingar sem veittar eru samkvæmt þessum kafla.
     Semja má um gjaldtöku fyrir viðbótarupplýsingagjöf, tíðari upplýsingagjöf eða aðra upplýsingagjöf en tilgreind er í rammasamningi, að því tilskildu að það sé að beiðni notanda greiðsluþjónustunnar og að gjaldtakan sé viðeigandi og í samræmi við raunkostnað.

43. gr.

Sönnunarbyrði greiðsluþjónustuveitanda.
     Greiðsluþjónustuveitandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi uppfyllt kröfur um upplýsingagjöf sem fram koma í þessum kafla.

44. gr.

Undanþágur frá kröfum um upplýsingagjöf vegna smágreiðslumiðla.
     Greiðsluþjónustuveitandi getur í samningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu vikið frá 53., 54., 56.–58. og 60. gr. og einungis veitt greiðanda upplýsingar um helstu einkenni greiðsluþjónustunnar, sbr. 2. og 3. mgr.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal þrátt fyrir 53., 54. og 58. gr. aðeins veita greiðanda upplýsingar um helstu einkenni greiðsluþjónustunnar, þ.m.t. um notkun greiðslumiðla, bótaábyrgð, gjöld og aðrar viðeigandi upplýsingar sem þörf er á til að taka upplýsta ákvörðun. Greiðsluþjónustuveitandinn skal veita einfaldar og aðgengilegar leiðbeiningar um hvar aðrar upplýsingar og skilmála skv. 54. gr. er að finna.
     Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að semja við notanda greiðsluþjónustu um að honum sé ekki skylt að leggja til breytingar á skilmálum rammasamnings eins og kveðið er á um í 1. mgr. 53. gr.
     Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að semja við notanda greiðsluþjónustu um að víkja frá 59. og 60. gr. og veita einungis eftirfarandi upplýsingar eftir að greiðsla hefur farið fram:
  1. Tilvísun sem gerir notanda greiðsluþjónustu kleift að bera kennsl á greiðsluna.
  2. Fjárhæð hennar.
  3. Gjöld.
  4. Um heildarfjárhæð og gjöld vegna sams konar greiðslna til sama viðtakanda.

     Ef greiðslumiðill er gefinn út á handhafa eða greiðsluþjónustuveitandi er að öðru leyti ekki tæknilega í stakk búinn til að veita upplýsingarnar er greiðsluþjónustuveitandanum ekki skylt að veita þær.

45. gr.

Gjaldmiðill og umreikningur gjaldmiðils.
     Greiðslur skulu vera í þeim gjaldmiðli sem aðilar hafa komið sér saman um.
     Ef boðinn er gjaldmiðilsumreikningur áður en greiðsla á sér stað og sú þjónusta er boðin í hraðbanka, á sölustað eða af hálfu viðtakanda greiðslu skal sá aðili sem býður greiðanda þjónustuna veita honum allar upplýsingar um gjöld og það gengi sem nota á við umreikning greiðslunnar. Greiðandi skal samþykkja þjónustu við umreikning gjaldmiðils á þeim grundvelli.

46. gr.

Upplýsingar um viðbótargjald eða afslátt.
     Ef viðtakandi greiðslu býður lækkun vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils, umfram aðra greiðslumiðla, skal hann tilkynna greiðanda um það áður en greiðslan er framkvæmd.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi krefst gjalds vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils skal hann tilkynna notanda greiðsluþjónustu um það áður en greiðslan er framkvæmd.
     Greiðandinn þarf einungis að greiða gjöldin sem um getur í 2. mgr. ef upplýst var um heildarfjárhæð þeirra áður en greiðslan var framkvæmd.


B. Stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga.

47. gr.

Sérákvæði um greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu sem send er með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning.
     Þegar greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu eru send með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning er greiðsluþjónustuveitandi ekki skuldbundinn til að veita eða koma á framfæri upplýsingum sem notandi greiðsluþjónustu hefur þegar fengið á grundvelli rammasamnings við annan greiðsluþjónustuveitanda eða sem honum verða veittar í samræmi við slíkan rammasamning.

48. gr.

Almenn upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
     Áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi koma upplýsingum og skilmálum skv. 49. gr. á framfæri við notandann á aðgengilegan hátt.
     Upplýsingar og skilmálar skulu lagðir fram á pappír eða öðrum varanlegum miðli ef notandi greiðsluþjónustu óskar þess.
     Framsetning upplýsinga og skilmála skal vera skýr og auðskiljanleg, á íslensku eða hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
     Ef þjónustusamningur hefur verið gerður um stakar greiðslur að beiðni notanda greiðsluþjónustu fyrir tilstilli fjarsamskiptamiðils sem ekki gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að fara að 1.–3. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandinn uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim ákvæðum þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd.
     Skyldu til upplýsingagjafar skv. 1.–3. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að þjónustusamningi um staka greiðslu eða drögum að greiðslufyrirmælum sem geyma þær upplýsingar og skilmála sem komið skal á framfæri við notandann samkvæmt lögum þessum.

49. gr.

Upplýsingar og skilmálar um þjónustu í tengslum við stakar greiðslur.
     Eftirfarandi upplýsingar og skilmálar skulu afhentir eða hafðir aðgengilegir fyrir notendur greiðsluþjónustu:
  1. Lýsing á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu þarf að gefa upp til að greiðslufyrirmæli verði framkvæmd rétt.
  2. Hámarkstími sem framkvæmd greiðsluþjónustunnar má taka.
  3. Öll gjöld sem notanda greiðsluþjónustu ber að greiða greiðsluþjónustuveitanda og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda.
  4. Ef við á, raunverulegt gengi eða viðmiðunargengi sem gilda skal um greiðslu.
  5. Ef við á, viðeigandi upplýsingar og skilmálar sem tilgreindir eru í 54. gr.

     Greiðsluvirkjandi skal gera eftirfarandi upplýsingar aðgengilegar greiðanda með skýrum og ítarlegum hætti áður en greiðsla er virkjuð:
  1. Heiti greiðsluvirkjanda, heimilisfang aðalskrifstofu hans auk útibús og umboðsaðila hérlendis ef því er til að dreifa, aðrar samskiptaupplýsingar, þ.m.t. netfang, sem viðeigandi er í boðskiptum við greiðsluvirkjandann.
  2. Samskiptaupplýsingar Fjármálaeftirlitsins.

     Öðrum viðeigandi upplýsingum og skilmálum skv. 54. gr. skal eftir atvikum komið á framfæri við notanda greiðsluþjónustunnar á auðveldan og aðgengilegan hátt.

50. gr.

Upplýsingaskylda greiðsluvirkjanda eftir að gefin hafa verið greiðslufyrirmæli.
     Eftirfarandi upplýsingar skal greiðsluvirkjandi afhenda eða gera aðgengilegar greiðanda eða, eftir atvikum, viðtakanda greiðslu þegar í stað eftir að greiðslufyrirmæli hafa verið virkjuð fyrir milligöngu hans:
  1. Staðfestingu á að greiðslufyrirmæli hafi tekist hjá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu.
  2. Tilvísun sem gerir greiðanda og viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðsluna og, ef það á við, viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðandann og þær upplýsingar sem sendar eru með greiðslunni.
  3. Fjárhæð greiðslunnar.
  4. Fjárhæð gjalda sem greiða skal greiðsluvirkjanda fyrir greiðsluna, og sundurliðun þeirra.

     Greiðsluvirkjandi skal gera tilvísun í greiðsluna aðgengilega greiðsluþjónustuveitanda sem veitir greiðanda reikningsþjónustu.

51. gr.

Upplýsingagjöf gagnvart greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla um staka greiðslu.
     Eftirfarandi upplýsingar vegna eigin þjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi afhenda eða gera greiðanda aðgengilegar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. 48. gr. þegar í stað eftir viðtöku greiðslufyrirmæla:
  1. Tilvísun sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl á greiðslu og, ef við á, upplýsingar sem varða viðtakanda greiðslu.
  2. Fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem kveðið er á um í greiðslufyrirmælunum.
  3. Fjárhæð gjalda sem greiðanda ber að greiða vegna framkvæmdar greiðslu og, ef við á, sundurliðun slíkra gjalda.
  4. Ef við á, gengið sem greiðsluþjónustuveitandi notar í greiðslunni eða tilvísun til þess ef um ræðir annað gengi en það sem kveðið er á um í samræmi við d-lið 1. mgr. 49. gr., svo og fjárhæð greiðslu eftir gjaldmiðilsumreikning.
  5. Um dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.


52. gr.

Upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda greiðslu eftir framkvæmd stakrar greiðslu.
     Eftirfarandi upplýsingar skal greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu afhenda eða gera viðtakandanum aðgengilegar, vegna eigin þjónustu, með þeim hætti sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. 48. gr., þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd:
  1. Tilvísun sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðsluna og, ef við á, greiðanda, svo og þær upplýsingar sem kunna að hafa verið sendar með greiðslunni.
  2. Fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem fjármunirnir sem viðtakandi greiðslu fær til ráðstöfunar eru í.
  3. Fjárhæð gjalda sem viðtakanda hennar ber að greiða vegna framkvæmdar greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda.
  4. Ef við á, gengið sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda notar í greiðslunni og fjárhæð greiðslu áður en gjaldmiðilsumreikningur fór fram.
  5. Um gildisdag eignfærslu.



C. Greiðslur sem falla undir rammasamninga.

53. gr.

Almenn upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamning verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
     Áður en rammasamningur eða tilboð um greiðsluþjónustu verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi afhenda notanda upplýsingar og skilmála skv. 54. gr. á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
     Framsetning upplýsinga og skilmála skal vera skýr og auðskiljanleg, á íslensku eða á hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
     Ef rammasamningur hefur verið gerður að beiðni notanda greiðsluþjónustu fyrir tilstilli fjarsamskiptamiðils sem ekki gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að fara að 1. og 2. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandinn uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim ákvæðum þegar í stað að lokinni gerð rammasamnings.
     Skyldu til upplýsingagjafar skv. 1. og 2. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að rammasamningi sem geyma upplýsingar og skilmála skv. 54. gr.

54. gr.

Upplýsingar og skilmálar um þjónustu í tengslum við greiðslur sem falla undir rammasamning.
     Eftirfarandi upplýsingar og skilmálar skulu afhentir notendum greiðsluþjónustu:
  1. Að því er varðar greiðsluþjónustuveitanda:
    1. heiti, heimilisfang höfuðstöðva og viðeigandi póstföng, svo og sambærilegar upplýsingar um umboðsaðila og útibú ef við á, og
    2. hvaða lögbær eftirlitsaðili fer með eftirlit með starfsemi hans og, eftir því sem við kann að eiga, upplýsingar um viðeigandi opinbera skrá um starfsleyfi greiðsluþjónustuveitanda og skráningarnúmer eða jafngilda aðferð til auðkenningar í þeirri skrá.
  2. Að því er varðar notkun greiðsluþjónustunnar:
    1. lýsing á þjónustunni sem um ræðir,
    2. lýsing á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu skal leggja fram til að greiðslufyrirmæli verði sett af stað eða rétt framkvæmd,
    3. hvernig og á hvaða formi samþykki skal veitt til að gefa greiðslufyrirmæli eða fyrir framkvæmd greiðslu og afturköllun slíks samþykkis í samræmi við 64. og 86. gr.
    4. við hvaða tímamark viðtaka greiðslufyrirmæla miðast, sbr. 84. gr., svo og um skilgreindan lokunartíma greiðsluþjónustuveitanda, ef við á,
    5. hámarkstími sem framkvæmd greiðslu má taka,
    6. hvort mögulegt sé að ákvarða útgjaldaþak vegna greiðslna sem framkvæmdar eru með greiðslumiðli í samræmi við 1. mgr. 74. gr., og
    7. upplýsingar um réttindi notanda greiðsluþjónustu skv. 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/751 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur, sem var lögfest með samnefndum lögum nr. 31/2019, ef um er að ræða greiðslur sem eru tengdar kortum sem falla undir kortasamstarf.
  3. Að því er varðar gjaldtöku, vexti og gengi:
    1. öll gjöld sem notanda greiðsluþjónustu ber að greiða greiðsluþjónustuveitanda, þ.m.t. þau sem tengjast því með hvaða hætti og hversu oft upplýsingar eru veittar eða gerðar aðgengilegar samkvæmt lögum þessum og með sundurliðuðum fjárhæðum ef við á,
    2. vextir og gengi, ef við á; ef miða á við viðmiðunarvexti og viðmiðunargengi skulu notanda afhentar upplýsingar um aðferðina sem nota skal við vaxtaútreikning og viðeigandi dagsetningar og vísitölu eða grunn til að ákvarða viðmiðunarvexti eða viðmiðunargengi, og
    3. reglur um breytingar á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi, þ.m.t. gildistími slíkra breytinga, skv. 2. mgr. 56. gr., ef við á.
  4. Að því er varðar boðleiðir og samskipti:
    1. umsamdar samskiptaaðferðir vegna sendingar upplýsinga eða tilkynninga samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. að því er varðar tæknilegar kröfur til búnaðar og hugbúnaðar notanda greiðsluþjónustu,
    2. háttur og tíðni miðlunar upplýsinga samkvæmt lögum þessum,
    3. tungumál rammasamnings og boðskipta meðan á samningssambandi stendur, og
    4. réttur notanda greiðsluþjónustu til að fá afhenta skilmála rammasamnings og upplýsingar og skilmála í samræmi við 55. gr.
  5. Að því er varðar varúðarráðstafanir og ábyrgð:
    1. lýsing á þeim ráðstöfunum sem notanda greiðsluþjónustu ber að grípa til í því skyni að tryggja örugga varðveislu greiðslumiðils, ef við á, svo og hvernig staðið skuli að tilkynningu til greiðsluþjónustuveitanda skv. 3. mgr. 75. gr.,
    2. upplýsingar um hvaða örugga ferli greiðsluþjónustuveitandi notar til að tilkynna notanda greiðsluþjónustu ef um er að ræða grun um eða eiginleg svik eða öryggisógn,
    3. skilyrði áskilnaðar greiðsluþjónustuveitanda til stöðvunar á notkun greiðslumiðils í samræmi við 74. gr., ef um það er samið,
    4. ábyrgð greiðanda skv. 80. gr., þ.m.t. upplýsingar um fjárhæðarmörk,
    5. hvernig og innan hvaða tímamarka notanda greiðsluþjónustu ber að tilkynna greiðsluþjónustuveitanda um óheimilaða greiðslu sem hefur verið sett af stað eða hefur verið framkvæmd á rangan hátt skv. 77. gr. auk upplýsinga um bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda skv. 79. gr.,
    6. hvernig notandi greiðsluþjónustu skal tilkynna greiðsluþjónustuveitandanum um óheimilaða greiðslu sem hefur verið sett af stað eða hefur verið rangt framkvæmd og frest sem hann hefur til þess í samræmi við 79. gr. sem og ábyrgð greiðsluþjónustuveitandans á óheimiluðum greiðslum í samræmi við 93. gr.,
    7. skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 82. og 83. gr.
  6. Að því er varðar breytingar og uppsögn rammasamnings:
    1. ef um það er samið, að notandi greiðsluþjónustu teljist hafa samþykkt breytingar á skilmálum rammasamnings skv. 56. gr. nema notandi greiðsluþjónustu tilkynni greiðsluþjónustuveitandanum að hann samþykki þær ekki áður en breytingarnar öðlast gildi,
    2. gildistími rammasamningsins,
    3. réttur notanda greiðsluþjónustu til uppsagnar rammasamnings og öðrum samningum sem tengjast uppsögn, sbr. 1. mgr. 56. gr. og 57. gr.
  7. Að því er varðar úrlausn ágreiningsmála:
    1. hvaða lög gilda um rammasamninginn,
    2. hvaða kosti notandi greiðsluþjónustu á skv. 103.–104. gr. um úrlausn ágreiningsmála utan dómstóla og meðferð bótamála.


55. gr.

Aðgengilegar upplýsingar og skilmálar rammasamnings.
     Hvenær sem er meðan á samningssambandi stendur getur notandi greiðsluþjónustu óskað eftir og skal þá fá afhenta skilmála rammasamnings ásamt upplýsingum og skilmálum skv. 54. gr. á pappír eða öðrum varanlegum miðli.

56. gr.

Breytingar á skilmálum rammasamnings.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal leggja tillögur að breytingum á rammasamningi, sem og á upplýsingum og skilmálum skv. 54. gr., fyrir notanda greiðsluþjónustu með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir fyrirhugaða gildistöku breytinganna. Notandi greiðsluþjónustunnar getur annaðhvort samþykkt breytingarnar eða synjað þeim fyrir fyrirhugaða gildistöku þeirra. Ef um það hefur verið samið, sbr. a-lið 6. tölul. 54. gr., skal greiðsluþjónustuveitandi tilkynna notanda greiðsluþjónustu að hann teljist hafa samþykkt slíkar breytingar tilkynni hann ekki um annað fyrir fyrirhugaða gildistöku. Notanda greiðsluþjónustu er heimilt að segja rammasamningi upp þegar í stað án sérstakrar gjaldtöku áður en fyrirhugaðar breytingar öðlast gildi og skal greiðsluþjónustuveitandi jafnframt upplýsa notandann um það.
     Breytingar á vöxtum eða gengi taka gildi þegar í stað og án viðvörunar ef samið hefur verið um slíkt í rammasamningi og breytingarnar byggjast á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi sem samið hefur verið um í samræmi við b- og c-lið 3. tölul. 54. gr. Tilkynna skal notanda greiðsluþjónustu um allar breytingar á vöxtum eins fljótt og kostur er með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. nema aðilar hafi komið sér saman um að slíkar upplýsingar skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega eða á tiltekinn hátt. Þó má breyta vöxtum eða gengi án tilkynningar ef slíkar breytingar eru notanda greiðsluþjónustu í hag.
     Breytingar á vöxtum eða gengi sem miðað er við í greiðslum skulu framkvæmdar og reiknaðar á hlutlausan hátt þannig að notendum greiðsluþjónustu verði ekki mismunað.

57. gr.

Uppsögn rammasamnings.
     Notanda greiðsluþjónustu er heimilt að segja rammasamningi upp hvenær sem er, nema samið hafi verið um uppsagnarfrest. Slíkur uppsagnarfrestur skal ekki vera lengri en einn mánuður.
     Uppsögn rammasamnings með föstum eða ótilteknum samningstíma skal vera notanda greiðsluþjónustu að kostnaðarlausu.
     Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að segja rammasamningi með ótilteknum samningstíma upp með a.m.k. tveggja mánaða uppsagnarfresti. Notanda greiðsluþjónustu skal tilkynnt um uppsögnina með þeim hætti sem greinir í 1. og 2. mgr. 53. gr.
     Ef samið hefur verið um reglubundnar greiðslur á samningstímanum fyrir greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi skal hlutfallslega tekið tillit til gildistíma uppsagnar við innheimtu greiðslna eftir uppsögn samnings. Ef gjöld vegna greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi eru greidd fyrir fram skulu þau endurgreidd notanda hlutfallslega, með tilliti til gildistíma uppsagnar.

58. gr.

Upplýsingagjöf áður en kemur til framkvæmdar einstakra greiðslna sem falla undir rammasamning.
     Samhliða beiðni greiðanda um að setja af stað tiltekna greiðslu sem fellur undir rammasamning skal greiðsluþjónustuveitandi veita skýrar upplýsingar um öll eftirfarandi atriði:
  1. hámarkstíma sem framkvæmd greiðslu má taka,
  2. þau gjöld sem greiðanda ber að greiða vegna hennar, og
  3. ef við á, sundurliða fjárhæðir gjalda.


59. gr.

Upplýsingagjöf fyrir greiðanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust veita greiðanda eftirfarandi upplýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. eftir að fjárhæð einstakrar greiðslu sem fellur undir rammasamning er skuldfærð af reikningi greiðanda eða, ef greiðandi notar ekki greiðslureikning, eftir viðtöku greiðslufyrirmæla:
  1. tilvísun sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl á hverja greiðslu og, ef við á, upplýsingar sem varða viðtakanda greiðslu,
  2. fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem skuldfærð er á greiðslureikning greiðanda eða í þeim gjaldmiðli sem er notaður í greiðslufyrirmælunum,
  3. fjárhæð gjalda vegna greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda, svo og upplýsingar um vexti sem greiðanda ber að greiða,
  4. það gengi sem greiðsluþjónustuveitandi greiðanda notar við framkvæmd greiðslu og fjárhæð greiðslu eftir gjaldmiðilsumreikning, ef við á, og
  5. um gildisdag skuldfærslu eða dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.

     Í rammasamningi skal kveða á um að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, a.m.k. einu sinni í mánuði, án endurgjalds, með þeim hætti sem gerir greiðanda kleift að geyma eða kalla upplýsingarnar fram óbreyttar.

60. gr.

Upplýsingagjöf fyrir viðtakanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust veita viðtakanda greiðslu eftirfarandi upplýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 53. gr. eftir framkvæmd einstakrar greiðslu sem fellur undir rammasamning:
  1. tilvísun sem gerir viðtakandanum kleift að bera kennsl á greiðslu og greiðanda, svo og aðrar upplýsingar sem kunna að hafa verið sendar með greiðslunni,
  2. fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem eignfærður er á greiðslureikning viðtakanda,
  3. fjárhæð gjalda vegna greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda, svo og upplýsingar um vexti sem viðtakanda ber að greiða,
  4. það gengi sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda notar við framkvæmd greiðslu og fjárhæð greiðslu áður en gjaldmiðilsumreikningur fer fram, ef við á, og
  5. um gildisdag eignfærslu.

     Heimilt er að kveða á um það í rammasamningi að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, a.m.k. einu sinni í mánuði, án endurgjalds, með þeim hætti sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að geyma eða kalla upplýsingarnar fram óbreyttar.

V. KAFLI
Réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu.

A. Almenn ákvæði.

61. gr.

Gildissvið kaflans.
     Ef notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi geta notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi komið sér saman um að 1. og 2. mgr. 62. gr., 3. mgr. 64. gr., 78., 80., 82., 83., 86. og 93. gr. skuli ekki gilda í heild eða að hluta til. Notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi geta einnig komið sér saman um önnur tímamörk en þau sem mælt er fyrir um í 77. gr.
     Geri lög um neytendalán eða önnur löggjöf ríkari kröfur fyrir lánveitingu til neytenda gilda ákvæði þeirra laga að því leyti.

62. gr.

Gjaldtaka.
     Greiðsluþjónustuveitanda er óheimilt að innheimta gjald af notanda greiðsluþjónustu vegna upplýsinga sem skylt er að veita skv. V.–VII. kafla eða vegna leiðréttingarráðstafana eða fyrirbyggjandi ráðstafana skv. V.–VII. kafla nema kveðið sé á um annað skv. 2. mgr. 85. gr., 5. mgr. 86. gr. og 3. mgr. 92. gr.
     Notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi skulu semja sín í milli um þessi gjöld og skulu þau vera viðeigandi og í samræmi við raunverulegan kostnað greiðsluþjónustuveitandans.
     Viðtakandi greiðslu skal greiða gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi hans leggur á þegar greiðslan á sér stað innan Evrópska efnahagssvæðisins og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu er eini greiðsluþjónustuveitandi greiðslunnar eða þegar greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu og greiðanda eru báðir innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Greiðandi skal greiða gjöldin sem greiðsluþjónustuveitandi hans leggur á þegar greiðslan á sér stað innan Evrópska efnahagssvæðisins og greiðsluþjónustuveitandi greiðanda er eini greiðsluþjónustuveitandi greiðslunnar eða þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og viðtakanda eru báðir innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra. Honum er þó heimilt að bjóða greiðanda afslátt eða stýra greiðanda með öðrum hætti að notkun tiltekins greiðslumiðils.

63. gr.

Undanþágur og frávik vegna smágreiðslumiðla.
     Greiðsluþjónustuveitandi getur í rammasamningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu vikið frá:
  1. 3. mgr. 75. gr., 4. mgr. 76. gr. og 6. mgr. 80. gr. ef ekki er unnt að stöðva notkun greiðslumiðilsins eða koma í veg fyrir frekari notkun hans,
  2. 78. gr., 79. gr. og 1.–4. mgr. og 6. mgr. 80. gr. ef greiðslumiðill er notaður undir nafnleynd eða greiðsluþjónustuveitandinn er ekki í stakk búinn, af öðrum ástæðum sem eru órjúfanlegur hluti greiðslumiðilsins, til að sýna fram á að greiðslan hafi verið heimiluð,
  3. 1. og 2. mgr. 85. gr. um tilkynningarskyldu til notanda greiðsluþjónustu um synjun á greiðslufyrirmælum ef greinilegt er af málavöxtum að þau hafa ekki verið framkvæmd.

     Greiðsluþjónustuveitandi getur einnig í rammasamningi um smágreiðslumiðil við notanda greiðsluþjónustu samið um að greiðandi geti ekki, þrátt fyrir 86. gr., afturkallað greiðslufyrirmæli eftir að hafa sent þau eða veitt viðtakanda greiðslu samþykki fyrir framkvæmd greiðslunnar og þrátt fyrir 88. og 89. gr. gildi önnur framkvæmdatímabil en tilgreind eru í rammasamningnum.
     Ákvæði 79. og 80. gr. ná einnig til greiðslna með rafeyri. Frá þessu er þó sú undantekning að þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hefur ekki getu til að frysta greiðslureikninginn sem geymir rafeyrinn eða loka greiðslumiðlinum eiga 79. og 80. gr. ekki við.


B. Heimild fyrir greiðslu.

64. gr.

Samþykki fyrir greiðslu og afturköllun samþykkis.
     Greiðsla telst því aðeins heimiluð að greiðandi hafi veitt samþykki fyrir framkvæmd hennar. Greiðandi getur heimilað greiðslu fyrir framkvæmd greiðslunnar eða eftir hana, ef greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans hafa samið um það.
     Samþykki fyrir framkvæmd greiðslu eða röð greiðslna skal veitt á því formi sem greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans koma sér saman um. Einnig má veita samþykki fyrir greiðslu fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu eða greiðsluvirkjanda. Ef samþykki er ekki fyrir hendi telst greiðsla ekki hafa verið heimiluð.
     Greiðandi getur afturkallað samþykki hvenær sem er, en þó ekki eftir að greiðslufyrirmæli teljast óafturkallanleg í skilningi 86. gr. Samþykki fyrir framkvæmd á röð greiðslna má einnig afturkalla og hefur það þau áhrif að greiðslur sem framkvæmdar eru eftir það tímamark teljast óheimilar.
     Sú aðferð sem greiðandi notar við að veita samþykki skal vera samkomulagsatriði milli greiðanda og viðkomandi greiðsluþjónustuveitanda.


C. Útgefandi kortatengds greiðslumiðils.

65. gr.

Staðfesting á aðgengileika fjármagns.
     Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal þegar í stað eftir að honum hefur borist beiðni frá útgefanda kortatengds greiðslumiðils staðfesta hvort fjárhæðin sem nauðsynleg er til að framkvæma kortatengda greiðslu sé aðgengileg á greiðslureikningi greiðandans, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
  1. greiðslureikningur greiðandans er aðgengilegur á netinu þegar beiðnin er lögð fram,
  2. greiðandinn hefur veitt greiðsluþjónustuveitandanum sem veitir reikningsþjónustu skýlaust samþykki til að svara beiðnum frá tilteknum greiðsluþjónustuveitanda um að staðfesta að fjárhæðin sem samsvarar tiltekinni kortatengdri greiðslu sé aðgengileg á greiðslureikningi greiðandans,
  3. samþykkið, sem um getur í b-lið, hefur verið veitt áður en fyrsta beiðnin um staðfestingu er sett fram.

     Útgefandi kortatengds greiðslumiðils getur óskað eftir staðfestingunni sem um getur í 1. mgr. ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
  1. greiðandinn hefur veitt greiðsluþjónustuveitandanum skýlaust samþykki sitt til að biðja um staðfestinguna,
  2. greiðandinn hefur sett af stað kortatengdu greiðsluna fyrir umræddri fjárhæð með kortatengdum greiðslumiðli sem greiðsluþjónustuveitandinn gefur út,
  3. útgefandi kortatengds greiðslumiðils auðkennir sig gagnvart greiðsluþjónustuveitandanum sem veitir reikningsþjónustu fyrir hverja beiðni um staðfestingu og með öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitandann sem veitir reikningsþjónustu í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.

     Staðfestingin sem um getur í 1. mgr. skal, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, einfaldlega vera „já“ eða „nei“ og ekki koma fram á reikningsyfirliti. Hún heimilar ekki greiðsluþjónustuveitandanum sem veitir reikningsþjónustu að frysta fjármuni á greiðslureikningi greiðandans. Hvorki skal geyma svarið né nota það í öðrum tilgangi en vegna framkvæmdar á kortatengdu greiðslunni.
     Greiðandi getur óskað eftir því að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu sendi greiðandanum upplýsingar um greiðsluþjónustuveitandann og svarið sem gefið er.
     Ákvæði 1.–4. mgr. gilda ekki um greiðslur sem settar eru af stað með kortatengdum greiðslumiðlum sem varðveita rafeyri eins og hann er skilgreindur í lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.


D. Greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónusta.

66. gr.

Réttur greiðanda til að nýta sér greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu.
     Greiðandi sem á greiðslureikning sem er aðgengilegur á netinu á rétt á að nýta sér greiðsluvirkjun, sbr. g-lið 22. tölul. 3. gr., og reikningsupplýsingaþjónustu, sbr. h-lið 22. tölul. 3. gr.
     Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda sem veitir reikningsþjónustu getur ekki sett það sem skilyrði að samningssamband sé á milli hans annars vegar og greiðsluvirkjandans eða reikningsupplýsingaþjónustuveitandans hins vegar.

67. gr.

Skyldur greiðsluvirkjanda vegna veitingar greiðsluþjónustu.
     Greiðsluvirkjandi verður að afla skýlauss samþykkis frá greiðanda í samræmi við b-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 65. gr. áður en hann getur virkjað greiðslu.
     Greiðsluvirkjandi skal í tengslum við veitingu þjónustu sinnar:
  1. sjá til þess að persónubundin öryggisskilríki notanda greiðsluþjónustunnar séu ekki aðgengileg öðrum aðilum, að undanskildum notanda greiðsluþjónustunnar og útgefanda persónubundnu öryggisskilríkjanna, og að greiðsluvirkjandinn sendi þau öruggar og skilvirkar leiðir,
  2. gera grein fyrir sér gagnvart greiðsluþjónustuveitanda sem veitir greiðanda reikningsþjónustu í hvert sinn sem greiðsla er virkjuð, og
  3. eiga í öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, greiðanda og viðtakanda greiðslunnar í samræmi reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.

     Greiðsluvirkjandi má aldrei geyma fjármuni greiðanda í tengslum við greiðsluvirkjun og hvorki breyta fjárhæð, viðtakanda greiðslu né öðrum þáttum greiðslunnar.

68. gr.

Meðhöndlun upplýsinga og gagna sem greiðsluvirkjandi aflar.
     Greiðsluvirkjandi má hvorki nota, nálgast né geyma gögn í öðrum tilgangi en til að veita greiðsluvirkjun sem greiðandinn óskar eftir.
     Þrátt fyrir 1. mgr. má greiðsluvirkjandi aldrei geyma viðkvæm greiðslugögn notanda greiðsluþjónustu.
     Aðrar upplýsingar um notanda greiðsluþjónustu sem fást við veitingu greiðsluvirkjunar má greiðsluvirkjandi einungis veita viðtakanda greiðslu og aðeins með skýlausu samþykki notanda greiðsluþjónustunnar.

69. gr.

Skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu.
     Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal þegar í stað eftir viðtöku greiðslufyrirmæla frá greiðsluvirkjanda veita greiðsluvirkjanda allar nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmd greiðslu sem eru honum aðgengilegar.
     Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skal eiga örugg samskipti við greiðsluvirkjendur í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.
     Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu má ekki mismuna þeim sem gefa greiðslufyrirmæli, hvort sem um er að ræða greiðsluvirkjanda eða greiðanda sem sendir greiðslufyrirmæli beint, nema af hlutlægum ástæðum, einkum með tilliti til tímasetningar, forgangs eða gjalda.

70. gr.

Skyldur reikningsupplýsingaþjónustuveitanda.
     Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi verður að afla skýlauss samþykkis frá notanda greiðsluþjónustunnar áður en hann veitir reikningsupplýsingaþjónustu.
     Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi má aðeins nálgast upplýsingar frá tilnefndum greiðslureikningum og tengdum greiðslum.
     Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi skal við veitingu reikningsupplýsingaþjónustu:
  1. tryggja að persónubundin öryggisskilríki notanda greiðsluþjónustunnar séu ekki aðgengileg öðrum aðilum, að undanskildum notanda og útgefanda persónubundnu öryggisskilríkjanna,
  2. staðfesta fyrir hverja boðskiptalotu hver hann er gagnvart greiðsluþjónustuveitendum sem veita notanda greiðsluþjónustunnar reikningsþjónustu, og
  3. eiga í öruggum samskiptum við greiðsluþjónustuveitendurna, sem veita notanda greiðsluþjónustu reikningsþjónustu, og notanda greiðsluþjónustunnar.

     Í reglum sem Seðlabanki Íslands setur skv. 2. mgr. 114. gr. skal nánar kveðið á um framkvæmd a–c-liðar 3. mgr.

71. gr.

Meðhöndlun gagna sem reikningsupplýsingaþjónustuveitandi aflar.
     Reikningsupplýsingaþjónustuveitandi má hvorki nota, nálgast né geyma gögn í öðrum tilgangi en að annast reikningsupplýsingaþjónustu sem notandi greiðsluþjónustunnar óskar sérstaklega eftir, í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
     Þrátt fyrir 1. mgr. má reikningsupplýsingaþjónustuveitandi ekki óska eftir viðkvæmum greiðslugögnum sem tengjast greiðslureikningum.

72. gr.

Skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu vegna öruggra samskipta og gagnabeiðna.
     Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal í tengslum við greiðslureikninga eiga í öruggum samskiptum við reikningsupplýsingaþjónustuveitendur í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.
     Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal afgreiða beiðnir um gögn, sem sendar eru fyrir milligöngu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda, án mismununar af öðrum ástæðum en hlutlægum.

73. gr.

Synjað um upplýsingar um og aðgang að greiðslureikningi.
     Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu getur synjað reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluvirkjanda um aðgang að greiðslureikningi sökum þess að aðgangur viðkomandi er óheimill eða fenginn með sviksamlegum hætti.
     Synji greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda eða greiðsluvirkjanda um aðgang að greiðslureikningi skal hann tilkynna greiðanda það áður en greiðanda er synjað um aðgang og eigi síðar en strax í kjölfar synjunar auk ástæðna fyrir synjuninni á fyrirframsamþykktu formi. Tilkynningarskyldan fellur þó niður ef hún teflir öryggi tengdu greiðslureikningi í tvísýnu eða lög kveða á um annað.
     Greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu skal veita aðgang að greiðslureikningi þegar ástæður fyrir synjun eiga ekki lengur við.
     Í þeim tilvikum þegar greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu synjar um aðgang, sbr. 1. mgr., skal hann þegar í stað skýra Fjármálaeftirlitinu frá synjuninni og ástæðum hennar. Upplýsingarnar skulu innihalda málsatvik og ástæður þess að synjað var um aðgang. Fjármálaeftirlitið skal meta hvert tilvik og grípa til viðeigandi aðgerða gerist þess þörf.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um tilkynningu sem um getur í 4. mgr.


E. Framkvæmd greiðslu.

74. gr.

Takmarkanir á notkun greiðslumiðils.
     Ef nota skal tiltekinn greiðslumiðil til að veita samþykki fyrir framkvæmd greiðslna geta greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans samið um útgjaldaþak vegna þeirra greiðslna sem framkvæmdar eru með honum.
     Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðsluþjónustuveitandi áskilið sér rétt til að stöðva notkun greiðslumiðils af ástæðum sem rökstuddar eru á hlutlægan hátt með hliðsjón af öryggi greiðslumiðilsins, grun um óheimila eða sviksamlega notkun greiðslumiðilsins eða, þegar um er að ræða greiðslumiðil sem lánsheimildir fylgja, verulega aukinni hættu á því að greiðandi kunni að vera ófær um að uppfylla greiðsluskyldu sína.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tilkynna greiðanda um stöðvun notkunar greiðslumiðils og ástæður fyrir henni á umsaminn hátt svo fljótt sem auðið er, nema þess háttar tilkynning tefli öryggi greiðslumiðilsins í hættu eða lög kveði á um annað. Ef mögulegt er skal uppfylla þessa tilkynningarskyldu áður en notkun greiðslumiðils er stöðvuð, en hún skal í síðasta lagi uppfyllt tafarlaust í kjölfar stöðvunar.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal opna fyrir notkun greiðslumiðils eða afhenda nýjan greiðslumiðil í hans stað þegar ástæður fyrir stöðvun notkunar eru ekki lengur fyrir hendi.

75. gr.

Skyldur notanda greiðsluþjónustu í tengslum við greiðslumiðil og persónubundin öryggisskilríki.
     Notandi greiðsluþjónustu, sem á rétt á að nota greiðslumiðil, skal nota greiðslumiðilinn í samræmi við skilmála um útgáfu og notkun hans og skulu skilmálarnir vera hlutlægir, án mismununar og gæta meðalhófs.
     Við viðtöku greiðslumiðils ber notanda að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja öryggi persónubundinna öryggisskilríkja greiðslumiðilsins.
     Notandi greiðsluþjónustu, sem á rétt á að nota greiðslumiðil, skal án óþarfa tafar tilkynna greiðsluþjónustuveitanda, eða öðrum sem hann tilnefnir, um það verði hann var við tap, þjófnað eða misnotkun á greiðslumiðli eða óheimila notkun hans.

76. gr.

Skyldur greiðsluþjónustuveitanda í tengslum við greiðslumiðil.
     Greiðsluþjónustuveitandi sem gefur út greiðslumiðil skal tryggja að persónubundin öryggisskilríki greiðslumiðilsins séu ekki aðgengileg öðrum en þeim notanda greiðsluþjónustu sem á rétt á að nota greiðslumiðilinn án þess að það hafi áhrif á skyldur notanda greiðsluþjónustu skv. 75. gr.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal ekki senda notanda greiðsluþjónustu greiðslumiðil óumbeðinn, nema nýr greiðslumiðill eigi að koma í stað þess sem notandinn hefur þegar fengið.
     Greiðsluþjónustuveitandi ber alla áhættu af sendingu greiðslumiðils og hvers kyns persónubundnum öryggisskilríkjum tengdum honum til greiðanda.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tryggja að notanda greiðsluþjónustu sé kleift að koma tilkynningu skv. 3. mgr. 75. gr. á framfæri hvenær sem er sólarhringsins endurgjaldslaust og óska eftir að opnað verði fyrir notkun greiðslumiðils í samræmi við 4. mgr. 74. gr. Greiðsluþjónustuveitanda ber jafnframt að sjá til þess að í 18 mánuði frá því að notandi kemur tilkynningu skv. 3. mgr. 75. gr. á framfæri hafi notandinn úrræði til að sanna að hann hafi gefið út slíka tilkynningu. Greiðsluþjónustuveitandi má einungis taka gjald fyrir endurnýjunarkostnað sem tengist greiðslumiðlinum beint.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal koma í veg fyrir alla notkun greiðslumiðils þegar tilkynningu skv. 3. mgr. 75. gr. hefur verið komið á framfæri.

77. gr.

Tilkynning um óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu og leiðréttingu á henni.
     Notandi greiðsluþjónustu skal tilkynna greiðsluþjónustuveitanda án óþarfa tafar verði hann var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu sem gefur tilefni til kröfu um leiðréttingu samkvæmt ákvæðum laga þessara, þ.m.t. 93. gr., og eigi síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi veitti notanda greiðsluþjónustunnar ekki upplýsingar um greiðsluna eða hafði þær ekki aðgengilegar fyrir hann í samræmi við ákvæði IV. kafla.
     Ef greiðsluvirkjandi á hlut að máli skal notandi greiðsluþjónustu fá leiðréttingu frá greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu skv. 1. mgr., að teknu tilliti til 2. og 3. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 93. gr.

78. gr.

Sannvottun vegna framkvæmdar greiðslu.
     Ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmd greiðslu eða heldur því fram að greiðsla hafi ekki verið réttilega framkvæmd skal greiðsluþjónustuveitandi hans sanna að sannvottun hafi átt sér stað, að framkvæmd greiðslu hafi verið nákvæmlega skráð og færð í reikningshald og að tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver annar ágalli.
     Ef greiðslan er virkjuð fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda skal hann bera sönnunarbyrðina um að sannvottun hafi átt sér stað, að framkvæmd greiðslu hafi verið rétt skráð og að tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver ágalli.
     Ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmd greiðslu fer það eftir atvikum hvort notkun greiðslumiðils sem greiðsluþjónustuveitandi skráir, eða greiðsluvirkjandi, eftir því sem við á, dugi ein og sér til sönnunar á því að greiðandi hafi annaðhvort heimilað greiðsluna eða hann hafi með sviksamlegum hætti, að yfirlögðu ráði eða af stórfelldu gáleysi, látið hjá líða að uppfylla eina eða fleiri af skyldum skv. 75. gr. Greiðsluþjónustuveitandinn eða greiðsluvirkjandinn, eftir því sem við á, skal leggja fram sönnunargögn til að sýna fram á svik eða stórfellt gáleysi notanda greiðsluþjónustunnar.

79. gr.

Bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda vegna óheimilaðrar greiðslu.
     Ef notandi greiðsluþjónustu heldur því fram að greiðsla sé óheimil skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda, að uppfylltum skilyrðum 77. gr., endurgreiða greiðanda þegar í stað fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar og eigi síðar en við lok næsta virka dags frá því að hann uppgötvaði hana eða var tilkynnt um hana. Greiðsluþjónustuveitandi greiðandans skal koma greiðslureikningnum sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en óheimilaða greiðslan átti sér stað. Tryggja skal að eignfærslan á greiðslureikning greiðandans hafi sama gildisdag og þegar fjárhæðin var skuldfærð. Hafi greiðsluþjónustuveitandi greiðanda grun um svik getur hann neitað endurgreiðslu og skal hann þá tilkynna um grun sinn til Fjármálaeftirlitsins.
     Ef óheimiluð greiðslufyrirmæli eru virkjuð fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda skal greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu endurgreiða þegar í stað fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar og eigi síðar en við lok næsta virka dags og, eftir atvikum, koma greiðslureikningnum sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en óheimilaða greiðslan átti sér stað.
     Ef greiðsluvirkjandi ber ábyrgð á óheimilaðri greiðslu skal hann þegar í stað bæta greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, að beiðni hans, tapið sem hann varð fyrir eða fjárhæðirnar sem hann endurgreiddi greiðanda, þ.m.t. fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar. Í samræmi við 2. mgr. 78. gr. skal greiðsluvirkjandinn bera sönnunarbyrðina um að sannvottun hafi átt sér stað, að framkvæmd greiðslu hafi verið rétt skráð og að tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver ágalli.
     Ákvarða má greiðanda frekari bætur ef lög sem gilda um samninginn milli greiðandans og greiðsluþjónustuveitanda eða samninginn milli greiðandans og greiðsluvirkjanda, ef við á, kveða á um slíkt.
     Ákvæði þetta gildir einnig um rafeyri í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um form tilkynningar vegna gruns greiðsluþjónustuveitanda um svik.

80. gr.

Ábyrgð greiðanda vegna óheimilaðrar greiðslu.
     Þrátt fyrir 79. gr. skal greiðandi bera tap vegna óheimilaðra greiðslna sem nema allt að jafnvirði 50 evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (miðgengi) eins og það er skráð hverju sinni þegar tapið má rekja til notkunar á týndum eða stolnum greiðslumiðli eða það stafar af óréttmætri notkun greiðslumiðils.
     Ákvæði 1. mgr. gildir ekki ef:
  1. greiðanda gat ekki orðið ljóst að greiðslumiðill var tapaður, honum stolið eða hann notaður með óréttmætum hætti og hann hefur ekki sýnt af sér sviksamlega háttsemi, eða
  2. tap greiðanda á greiðslumiðlinum stafaði af aðgerðum eða aðgerðaleysi starfsmanns greiðsluþjónustuveitanda, umboðsaðila eða útvistunaraðila hans.

     Þrátt fyrir 1. mgr. skal greiðandi bera allt tjón sem rekja má til óheimilaðra greiðslna ef hann hefur stofnað til þeirra með sviksamlegum hætti eða látið ógert að uppfylla eina eða fleiri af skyldum sínum skv. 75. gr. af ásetningi eða af stórfelldu gáleysi. Þegar þetta á við gildir hámarksfjárhæðin sem um getur í 1. mgr. ekki.
     Þegar háttsemi greiðanda hefur hvorki verið sviksamleg né hann af ásetningi látið ógert að uppfylla skyldur sínar skv. 75. gr. skal tekið tillit til eðlis persónubundinna öryggisskilríkja greiðslumiðils og aðstæðna þegar greiðslumiðill týndist, honum var stolið eða hann notaður með óréttmætum hætti við ákvörðun um þá fjárhæð sem greiðanda verður gert að bera sjálfur ábyrgð á skv. 1. og 3. mgr.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda krefst ekki sterkrar sannvottunar viðskiptavinar skal greiðandi ekki bera neitt fjárhagstjón nema greiðandinn hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Ef viðtakandi greiðslu eða greiðsluþjónustuveitandi hans samþykkir ekki sterka sannvottun skal hann endurgreiða fjárhagslegt tjón sem það veldur greiðsluþjónustuveitanda greiðanda.
     Greiðandi skal ekki bera tjón sem hlýst af notkun á greiðslumiðli sem týnist, er stolið eða notaður með óréttmætum hætti eftir tímamark tilkynningar skv. 3. mgr. 75. gr. Þetta á þó ekki við ef greiðandi hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
     Greiðandi skal ekki bera tjón sem hlýst af notkun greiðslumiðils ef greiðsluþjónustuveitandi hefur ekki gert viðeigandi ráðstafanir samkvæmt lögum þessum vegna tilkynningarskyldu um greiðslumiðil sem hefur týnst, verið stolið eða notaður með óréttmætum hætti, eins og krafist er skv. 4. mgr. 76. gr. Þetta á þó ekki við ef greiðandi hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
     Ákvæði þetta gildir einnig um rafeyri í skilningi laga um útgáfu og meðferð rafeyris nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli.

81. gr.

Heimild til að frysta fjármuni á greiðslureikningi þegar fjárhæð greiðslu er ekki þekkt fyrir fram.
     Þegar greiðsla er sett af stað af eða fyrir milligöngu viðtakanda hennar í tengslum við kortatengda greiðslu og nákvæm fjárhæð er ekki þekkt á þeirri stundu sem greiðandi veitir samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslunnar getur greiðsluþjónustuveitandi greiðandans aðeins fryst fjármuni á greiðslureikningi greiðandans ef greiðandinn hefur veitt samþykki fyrir nákvæmlega þeirri fjárhæð sem fyrirhugað er að frysta.
     Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal afhenda fjármunina sem frystir hafa verið á greiðslureikningi greiðandans skv. 1. mgr. án ótilhlýðilegrar tafar eftir viðtöku upplýsinga um nákvæma fjárhæð greiðslunnar og eigi síðar en strax eftir viðtöku greiðslufyrirmælanna.

82. gr.

Endurgreiðslur á greiðslum sem viðtakandi greiðslu setur af stað eða hefur milligöngu um.
     Greiðandi á rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda sínum vegna heimilaðrar greiðslu sem viðtakandi hefur sett af stað eða haft milligöngu um ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
  1. fjárhæð greiðslunnar var ekki nákvæmlega tilgreind í heimildinni þegar hún var veitt,
  2. fjárhæð greiðslunnar var hærri en svo að hægt væri að gera ráð fyrir að greiðandi réði við þá fjárhæð miðað við útgjaldamynstur hans fram að því, skilmála í rammasamningi og málsatvik að öðru leyti.

     Að beiðni greiðsluþjónustuveitanda skal greiðandi leggja fram gögn og færa fram sönnur fyrir að skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. teljist uppfyllt.
     Að því er varðar b-lið 1. mgr. getur greiðandi þó ekki byggt kröfu um endurgreiðslu á gengisástæðum ef beitt var viðmiðunargengi sem hann samdi um við greiðsluþjónustuveitanda í samræmi við d-lið 1. mgr. 49. gr. og b-lið 3. tölul. 54. gr.
     Endurgreiðsla tekur til allrar greiðslunnar sem framkvæmd var. Eignfærslan á greiðslureikning greiðanda skal hafa sama gildisdag og þegar fjárhæðin var skuldfærð.
     Greiðandi hefur auk réttinda sem um getur í 1.–3. mgr. skilyrðislausan rétt á endurgreiðslu innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um í 83. gr. vegna beingreiðslna sem um getur í 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 260/2012 um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum, sem innleidd er með lögum um greiðslur yfir landamæri í evrum, nr. 78/2014.
     Heimilt er að semja um það í rammasamningi um greiðsluþjónustu að greiðandi eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef hann hefur veitt samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslu beint til greiðsluþjónustuveitanda og, ef við á, greiðsluþjónustuveitandi eða viðtakandi greiðslu veitti fyrir fram upplýsingar um greiðslur eða kom þeim á framfæri við greiðanda á umsaminn hátt a.m.k. fjórum vikum fyrir gjalddaga.
     Að því er varðar beingreiðslur í íslenskum krónum er heimilt að semja um það í rammasamningi um greiðsluþjónustu að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda í samræmi við beingreiðslukerfi hans, jafnvel þótt skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 1. mgr. séu ekki uppfyllt.

83. gr.

Meðferð beiðna um endurgreiðslu vegna greiðslna sem viðtakandi setur af stað eða hefur milligöngu um.
     Greiðandi skal óska eftir endurgreiðslu skv. 82. gr. á heimilaðri greiðslu sem er sett af stað fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu innan átta vikna frá þeim degi sem fjármunir voru skuldfærðir.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal innan tíu viðskiptadaga frá móttöku beiðni skv. 1. mgr. annaðhvort endurgreiða að fullu fjárhæð greiðslunnar eða rökstyðja synjun um endurgreiðslu og tilgreina þá aðila sem greiðandi getur vísað málinu til í samræmi við 102.–104. gr. ef hann sættir sig ekki við rökstuðninginn fyrir synjuninni.
     Réttur greiðsluþjónustuveitanda skv. 2. mgr. til að synja um endurgreiðslu á ekki við um tilvik skv. 7. mgr. 82. gr.

84. gr.

Viðtaka greiðslufyrirmæla.
     Viðtökutími greiðslufyrirmæla er sá tími þegar greiðslufyrirmæli berast greiðsluþjónustuveitanda. Ekki skal skuldfæra af reikningi greiðandans fyrr en tekið hefur verið við greiðslufyrirmælum. Ef viðtökutíminn er ekki á viðskiptadegi að því er varðar greiðsluþjónustuveitanda greiðanda skal litið svo á að tekið hafi verið við greiðslufyrirmælunum næsta virka dag á eftir. Greiðsluþjónustuveitandi getur fastsett lokunartíma nálægt lokum virks dags og skulu greiðslufyrirmæli sem hann tekur við eftir það teljast vera móttekin næsta viðskiptadag á eftir.
     Ef notandi greiðsluþjónustu sem gefur greiðslufyrirmæli og greiðsluþjónustuveitandi hans semja um að greiðsla samkvæmt greiðslufyrirmælunum skuli hefjast á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag sem greiðandi hefur lagt inn fjármuni til ráðstöfunar fyrir greiðsluþjónustuveitanda hans telst viðtökutíminn í skilningi 81. gr. vera dagurinn sem samið var um. Ef dagurinn sem samið var um er ekki viðskiptadagur skal litið svo á að tekið hafi verið við greiðslufyrirmælunum næsta viðskiptadag á eftir.

85. gr.

Greiðslufyrirmælum synjað.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi synjar greiðslufyrirmælum eða neitar að setja af stað greiðslu skal tilkynna notanda greiðsluþjónustunnar um synjunina og, ef unnt er, ástæður fyrir henni og málsmeðferð við mögulega leiðréttingu á því sem veldur. Þetta á þó ekki við ef lög kveða á um annað.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal koma á framfæri tilkynningu skv. 1. mgr. á umsaminn hátt við fyrsta tækifæri og eigi síðar en innan þess frests sem greinir í 88. gr. Í rammasamningi um greiðsluþjónustu má kveða á um að greiðsluþjónustuveitanda sé heimilt að taka sanngjarnt gjald fyrir þess háttar synjun enda sé hún í samræmi við lög og rökstudd á hlutlægan hátt.
     Ef öll skilyrðin sem fram koma í rammasamningi greiðanda eru uppfyllt er greiðsluþjónustuveitanda sem veitir greiðanda reikningsþjónustu óheimilt að synja heimiluðum greiðslufyrirmælum án tillits til þess hvort greiðandi setur af stað greiðslufyrirmælin, þ.m.t. fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda, eða viðtakandi greiðslu setur þau af stað eða hefur um það milligöngu. Þetta á þó ekki við ef lög kveða á um annað.
     Að því er varðar 88. og 93. gr. skal líta á synjun greiðslufyrirmæla eins og ekki hafi verið tekið við þeim.

86. gr.

Afturköllun greiðslufyrirmæla.
     Notandi greiðsluþjónustu getur ekki afturkallað greiðslufyrirmæli þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hefur tekið við þeim, nema 2.–5. mgr. eigi við.
     Ef greiðsluvirkjandi virkjar greiðslu eða viðtakandi setur af stað eða hefur milligöngu um greiðslu getur greiðandi ekki afturkallað greiðslufyrirmæli eftir að hann hefur veitt samþykki sitt fyrir greiðslunni.
     Þrátt fyrir 2. mgr. getur greiðandi afturkallað greiðslufyrirmæli um beingreiðslu í síðasta lagi í lok síðasta viðskiptadags fyrir umsaminn skuldfærsludag fjárins.
     Ef notandi greiðsluþjónustu sem gefur greiðslufyrirmæli og greiðsluþjónustuveitandi hans semja um að greiðsla samkvæmt greiðslufyrirmælum skuli fara fram á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag þegar greiðandi hefur lagt inn fjármuni til ráðstöfunar greiðsluþjónustuveitanda hans, sbr. 2. mgr. 84. gr., getur notandi greiðsluþjónustu í síðasta lagi afturkallað greiðslufyrirmæli við lok síðasta viðskiptadags fyrir umsaminn dag.
     Eftir tímamörkin sem tilgreind eru í 1.–4. mgr. er aðeins unnt að afturkalla greiðslufyrirmæli ef notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi hafa samið um það. Í því tilviki sem um getur í 2. og 3. mgr. skal samþykki viðtakanda greiðslu jafnframt liggja fyrir. Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðsluþjónustuveitandi krafist gjalds vegna afturköllunar greiðslufyrirmæla samkvæmt þessari málsgrein.

87. gr.

Fjárhæð greiðslu.
     Greiðsluþjónustuveitandi og milliliður hans skulu millifæra fjárhæð greiðslu óskerta. Gjöld skulu ekki dregin frá millifærðri fjárhæð.
     Viðtakandi greiðslu og greiðsluþjónustuveitandi hans geta þó samið um að gjöld greiðsluþjónustuveitandans vegna greiðsluþjónustu verði dregin frá millifærslu áður en hún er eignfærð á viðtakanda. Þegar þetta á við er greiðslan aðskilin frá gjöldunum í þeim upplýsingum sem viðtakanda greiðslu eru veittar.
     Ef einhver önnur gjöld en þau sem um getur í 2. mgr. eru dregin frá millifærslu skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda sjá til þess að viðtakandi fái alla fjárhæðina sem greiðandi millifærir. Í tilvikum þegar viðtakandi greiðslu setur af stað eða hefur milligöngu um greiðslu skal greiðsluþjónustuveitandi hans tryggja að viðtakandinn fái óskerta fjárhæð greiðslunnar.


F. Framkvæmdartími greiðslu og gildisdagur.

88. gr.

Greiðsla inn á greiðslureikning.
     Frá viðtökutíma skv. 84. gr. skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda tryggja að greiðsla sé eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda í síðasta lagi í lok næsta viðskiptadags. Þennan frest má þó framlengja um einn viðskiptadag í tilviki greiðslu sem er á pappírsformi.
     Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda skal eftir viðtöku greiðslu setja gildisdag á greiðsluna og tryggja að fjárhæð hennar sé viðtakanda til ráðstöfunar á greiðslureikningi hans í samræmi við 91. gr., nema samningsaðilar tiltaki annan frest.
     Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda skal senda greiðsluþjónustuveitanda greiðanda greiðslufyrirmæli um greiðslur sem viðtakandi setur af stað eða hefur milligöngu um innan þess uppgjörsfrests sem viðtakandinn og greiðsluþjónustuveitandi hans hafa komið sér saman um. Þegar um ræðir beingreiðslur skulu greiðslufyrirmælin send á umsömdum gjalddaga.

89. gr.

Viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda.
     Ef viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda skal greiðsluþjónustuveitandinn sem tekur við fjármununum fyrir hönd viðtakanda hafa þá aðgengilega til ráðstöfunar fyrir hann innan þess frests sem tilgreindur er í 88. gr.

90. gr.

Reiðufé lagt inn á greiðslureikning.
     Ef notandi greiðsluþjónustu leggur reiðufé inn á greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda í gjaldmiðli greiðslureikningsins skal greiðsluþjónustuveitandinn tryggja að fjárhæðin sé til ráðstöfunar og gildisdagsett tafarlaust eftir viðtöku fjármunanna.

91. gr.

Gildisdagur og fjármunir til ráðstöfunar.
     Gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu telst vera eigi síðar en þann viðskiptadag þegar fjárhæð greiðslunnar er eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu.
     Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skal tryggja að fjárhæð greiðslunnar sé til ráðstöfunar fyrir viðtakanda þegar í stað eftir að fjárhæðin hefur verið eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu að því tilskildu að ekki eigi sér stað:
  1. umreikningur gjaldmiðils eða
  2. umreikningur gjaldmiðils milli evru og gjaldmiðils aðildarríkis eða milli gjaldmiðla tveggja aðildarríkja.
Sama skylda á við þrátt fyrir að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu og greiðanda sé sá sami.
     Gildisdagur skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda telst vera eigi fyrr en fjárhæð greiðslunnar er skuldfærð af greiðslureikningnum.


G. Bótaábyrgð og vinnsla persónuupplýsinga.

92. gr.

Sérstakt kennimerki er rangt.
     Ef greiðslufyrirmæli eru í samræmi við sérstakt kennimerki skulu þau teljast hafa verið rétt framkvæmd ef þau varða þann viðtakanda greiðslu sem er tilgreindur með því sérstaka kennimerki.
     Ef notandi greiðsluþjónustu gefur upp rangt sérstakt kennimerki er greiðsluþjónustuveitandi ekki ábyrgur skv. 93. gr. hafi framkvæmd greiðslu ekki átt sér stað eða verið gölluð.
     Hafi greiðsla átt sér stað skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda leitast við að endurheimta fjármunina sem greiðsla fól í sér. Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal í því skyni hafa samband við greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og óska eftir öllum viðeigandi upplýsingum vegna innheimtu fjármunanna sem hann býr yfir og ber greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu að vera samvinnuþýður. Takist greiðsluþjónustuveitanda greiðanda ekki að endurheimta fjármunina ber honum að afhenda greiðanda allar upplýsingar sem hann hefur tiltækar og skipta greiðandann máli til að hann geti haft uppi réttarkröfu til að endurheimta fjármunina berist skrifleg beiðni þessa efnis frá greiðanda. Semja má um gjaldtöku vegna slíkra ráðstafana greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í rammasamningi.
     Ef notandi greiðsluþjónustu hefur veitt upplýsingar til viðbótar þeim sem hann þarf að gefa upp, sbr. a-lið 1. mgr. 49. gr. eða b-lið 2. tölul. 54. gr., verður greiðsluþjónustuveitandi aðeins bótaskyldur vegna framkvæmdar greiðslunnar í samræmi við sérstaka kennimerkið sem notandi greiðsluþjónustunnar gaf upp.

93. gr.

Bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda þegar greiðsla á sér ekki stað eða er gölluð og greiðslufyrirmæli eru gefin milliliðalaust.
     Ef greiðandi gefur greiðslufyrirmæli milliliðalaust skal greiðsluþjónustuveitandi hans, með fyrirvara um 77. gr., 2. og 3. mgr. 92. gr. og 97. gr., bera ábyrgð á því gagnvart greiðanda að greiðsla verði framkvæmd rétt. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda getur sannað fyrir greiðanda og, ef við á, greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu hafi tekið við greiðslu í samræmi við 1. mgr. 88. gr. en í því tilviki verður greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ábyrgur fyrir réttri framkvæmd greiðslunnar.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann án óþarfa tafar endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, ef við á, koma greiðslureikningnum sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en gallaða greiðslan átti sér stað. Eignfærslan á greiðslureikning greiðanda skal hafa sama gildisdag og þegar fjárhæðin var skuldfærð.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann sjá til þess að fjárhæð greiðslunnar sé tafarlaust til ráðstöfunar fyrir viðtakandann og, ef við á, eignfæra samsvarandi fjárhæð inn á greiðslureikning viðtakanda. Eignfærslan á greiðslureikning viðtakanda greiðslu skal hafa sama gildisdag og hefði greiðslan verið rétt framkvæmd skv. 91. gr.
     Ef greiðsla er framkvæmd of seint skal greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu tryggja, að fenginni skriflegri beiðni greiðsluþjónustuveitanda greiðanda, að gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu verði þann dag sem greiðslan átti sér stað hefði hún verið framkvæmd réttilega.
     Hafi greiðsla ekki farið fram eftir að greiðandi gaf greiðslufyrirmæli skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda, að beiðni greiðanda og án tillits til þess hver ber ábyrgð, gera tafarlaust ráðstafanir til að rekja greiðsluna og tilkynna greiðanda um niðurstöðuna honum að kostnaðarlausu.
     Ef viðtakandi greiðslu gefur greiðslufyrirmæli eða hefur milligöngu um það skal greiðsluþjónustuveitandi hans, með fyrirvara um 77. gr., 2. og 3. mgr. 92. gr. og 97. gr., vera ábyrgur gagnvart viðtakanda greiðslu fyrir því að greiðslufyrirmæli skili sér til greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í samræmi við 3. mgr. 88. gr. Skulu greiðslufyrirmælin send greiðsluþjónustuveitanda greiðanda tafarlaust eða, eftir atvikum, endursend tafarlaust. Hafi greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda sent greiðslufyrirmælin of seint skal hann þó sjá til þess að gildisdagur fjárhæðarinnar á greiðslureikningi viðtakanda sé sá sami og hefði greiðslan verið framkvæmd rétt. Á sama hátt er greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ábyrgur gagnvart viðtakanda greiðslu fyrir að greiðslan sé meðhöndluð skv. 91. gr. Skal fjárhæð greiðslunnar vera viðtakanda greiðslu til ráðstöfunar þegar í stað eftir að hún hefur verið eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakandans. Eignfærslan á greiðslureikning viðtakanda greiðslu skal hafa sama gildisdag og hefði greiðslan verið rétt framkvæmd.
     Ef greiðsla fer ekki fram eða er gölluð og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ber ekki ábyrgð á skv. 5. og 6. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda vera ábyrgur gagnvart greiðanda. Skal hann án óþarfa tafar endurgreiða greiðanda fjárhæðina sem um ræðir og, ef við á, koma greiðslureikningnum í þá stöðu sem hann var í áður en skuldfært var af honum. Eignfærslan á greiðslureikning greiðandans skal hafa sama gildisdag og skuldfærslan átti sér stað. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda færir sönnur á að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda hafi eigi að síður fengið fjárhæð greiðslunnar. Þá fellur það greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda í skaut að setja gildisdag fjárhæðarinnar á greiðslureikning viðtakanda greiðslu eigi síðar en þann dag hefði hún verið framkvæmd rétt.
     Hafi viðtakandi greiðslu gefið greiðslufyrirmæli eða haft milligöngu um það en framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð skal greiðsluþjónustuveitandi hans, að beiðni viðtakanda greiðslu og án tillits til þess hver ber ábyrgð, rekja greiðsluna og tilkynna viðtakanda um niðurstöðuna honum að kostnaðarlausu.
     Greiðsluþjónustuveitandi er ábyrgur gagnvart notanda greiðsluþjónustu fyrir gjöldum og vöxtum sem kunna að falla á notandann í kjölfar greiðslu sem fór ekki fram eða var gölluð, þ.m.t. of seinni greiðslu, sbr. 1.–8. mgr.

94. gr.

Bótaábyrgð þegar greiðandi gefur greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda og greiðsla á sér ekki stað eða er gölluð.
     Ef greiðandi gefur greiðslufyrirmæli fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda skal greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu, með fyrirvara um 77. gr. og 2. og 3. mgr. 92. gr., endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, eftir atvikum, koma greiðslureikningi sem skuldfært var af í þá stöðu sem hann var í áður en skuldfært var af honum.
     Greiðsluvirkjandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að greiðsluþjónustuveitandi sem veitir reikningsþjónustu hafi tekið við greiðslufyrirmælum í samræmi við 84. gr. og, að því marki sem hlutverk greiðsluvirkjanda nær til, að greiðslan hafi verið heimiluð, rétt skráð og að tæknileg bilun eða annar ágalli hafi ekki haft þau áhrif að greiðslan hafi verið gölluð, ekki framkvæmd eða framkvæmd of seint.
     Takist greiðsluvirkjanda ekki að færa sönnur á þau atriði sem nefnd eru í 2. mgr. ber hann ábyrgð á að greiðsla hafi verið gölluð, ekki framkvæmd eða framkvæmd of seint. Greiðsluvirkjandinn skal þegar í stað, að beiðni greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu, bæta þjónustuveitandanum tapið sem hann varð fyrir eða a.m.k. fjárhæðina sem hann endurgreiddi greiðanda.

95. gr.

Frekari fébætur.
     Ákvarða má frekari fébætur, auk þeirra sem kveðið er á um í 92.–94. gr., í samræmi við lög og samning notanda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda hans.

96. gr.

Endurkröfuréttur.
     Ef ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda skv. 79. og 93. gr. má rekja til annars greiðsluþjónustuveitanda eða milliliðar skal sá greiðsluþjónustuveitandi eða milliliður bæta allt tjón sem sá fyrrnefndi varð fyrir, eða fjárhæðir sem hann þurfti að greiða á grundvelli 79. og 93. gr. Þetta á einnig við þegar einhver greiðsluþjónustuveitandi hefur ekki framfylgt kröfu um sterka sannvottun af hálfu viðskiptavina.
     Ákvarða má frekari fébætur í samræmi við lög og samninga milli greiðsluþjónustuveitenda og/eða milliliða.

97. gr.

Óeðlilegar og ófyrirsjáanlegar aðstæður.
     Bótaábyrgð skv. 64.–96. gr. gildir ekki ef rekja má tjón til óeðlilegra eða ófyrirsjáanlegra aðstæðna sem aðilar máls höfðu engin áhrif á eða gátu afstýrt þrátt fyrir tilraunir til þess. Sama gildir um tjón sem leiðir af öðrum lögum sem gilda um greiðsluþjónustuveitanda.

VI. KAFLI
Persónuvernd, öryggismál og sterk sannvottun.

98. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga.
     Vinnsla persónuupplýsinga er heimil greiðsluþjónustuveitendum og rekstraraðilum greiðslukerfa þegar það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir, rannsaka og greina greiðslusvik. Um vinnslu persónuupplýsinga fer samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
     Greiðsluþjónustuveitendur skulu aðeins afla, vinna og viðhalda nauðsynlegum persónuupplýsingum til að geta veitt greiðsluþjónustu að fengnu skýlausu samþykki notanda þjónustunnar.

99. gr.

Eftirlitskerfi rekstrar- og öryggisáhættu.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal koma á og viðhalda:
  1. áhættumiðuðum ferlum og eftirlitskerfi til að stýra rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem hann veitir,
  2. skilvirkri atvikastjórnun, sem m.a. felst í greiningu og flokkun alvarlegra rekstrar- eða öryggisfrávika,
  3. fullnægjandi öryggisráðstöfunum til að vernda trúnað og heilleika persónubundinna öryggisskilríkja notenda greiðsluþjónustunnar í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands, sbr. 2. mgr. 114. gr.

     Greiðsluþjónustuveitandi skal a.m.k. árlega veita Fjármálaeftirlitinu uppfært og ítarlegt mat á rekstrar- og öryggisáhættu í tengslum við þá greiðsluþjónustu sem hann veitir og lýsingu á þeim varúðarráðstöfunum og eftirlitsaðgerðum sem hann hefur innleitt til að bregðast við áhættunni.
     Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.

100. gr.

Viðbrögð við alvarlegu rekstrar- eða öryggisfráviki.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um alvarlegt rekstrar- eða öryggisfrávik.
     Hafi rekstrar- eða öryggisfrávik áhrif eða geti haft áhrif á fjárhagslega hagsmuni notenda greiðsluþjónustunnar verður greiðsluþjónustuveitandi tafarlaust að upplýsa Fjármálaeftirlitið um atvikið og allar ráðstafanir sem hafa verið gerðar og þeir hyggjast grípa til til að draga úr skaðlegum áhrifum þess.
     Við viðtöku tilkynningar sem um getur í 1. mgr. skal Fjármálaeftirlitið, eftir því sem við á, gera allar ráðstafanir til að vernda öryggi fjármálakerfisins. Auk þess skal Fjármálaeftirlitið, án ástæðulausrar tafar, veita Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni og Seðlabanka Evrópu viðeigandi upplýsingar um atvikið. Fjármálaeftirlitið skal meta mikilvægi atviksins fyrir önnur viðkomandi stjórnvöld og tilkynna þeim um það ef þess gerist þörf.
     Fjármálaeftirlitið skal, í samstarfi við Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina og Seðlabanka Evrópu, meta mikilvægi atviksins fyrir önnur viðkomandi yfirvöld innan Evrópska efnahagssvæðisins og tilkynna þeim um það ef þörf krefur.
     Þegar Fjármálaeftirlitið er ekki viðtakandi tilkynningar skv. 1. mgr. en fær sambærilega tilkynningu og getið er um í 4. mgr. ber Fjármálaeftirlitinu, eftir því sem við á, að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda öryggi fjármálakerfisins.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal a.m.k. árlega veita Fjármálaeftirlitinu tölfræðiupplýsingar um svik í tengslum við þá greiðslumiðla sem greiðsluþjónustuveitandinn meðhöndlar. Fjármálaeftirlitið skal veita Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni og Seðlabanka Evrópu samantekt úr gögnunum.

101. gr.

Sterk sannvottun.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal krefjast sterkrar sannvottunar hjá greiðanda þegar greiðandi:
  1. vill fá aðgang að greiðslureikningi sínum á netinu,
  2. virkjar rafræna greiðslu,
  3. framkvæmir aðgerð fyrir milligöngu boðleiðar úr fjarlægð, sem gæti haft í för með sér hættu á greiðslusvikum eða annars konar misnotkun.

     Þegar greiðandi virkjar rafræna greiðslu skv. b-lið 1. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandi krefjast sterkrar sannvottunar viðskiptavinar sem felur í sér þætti sem tengja greiðsluna með virkum hætti við tiltekna fjárhæð og tiltekinn viðtakanda greiðslu í tilviki rafrænna fjargreiðslna.
     Ákvæði 2. mgr. þessarar greinar og c-liðar 1. mgr. 99. gr. á einnig við þegar greiðsla er virkjuð fyrir milligöngu greiðsluvirkjanda. Þá eiga ákvæði 1. mgr. þessarar greinar og c-liðar 1. mgr. 99. gr. við þegar óskað er eftir upplýsingum fyrir milligöngu reikningsupplýsingaþjónustuveitanda. Greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu skal gera greiðsluvirkjanda og reikningsupplýsingaþjónustuveitanda kleift að treysta á sannvottunarferlið sem hann veitir notanda greiðsluþjónustu í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar og c-lið 1. mgr. 99. gr. auk 2. mgr. 99. gr. ef greiðsluvirkjandi á í hlut.

VII. KAFLI
Eftirlit, réttarúrræði og viðurlög.

102. gr.

Eftirlit.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi greiðslustofnana skv. II. kafla, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta greiðsluþjónustu, skv. 22.–26. gr.
     Fjármálaeftirlitið sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hefur eftirlit með umboðsaðilum og útibúum erlendra greiðslustofnana hérlendis, sbr. 28. og 31. gr. Auk þess hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með veitingu greiðsluþjónustu hérlendis í útibúum og fyrir milligöngu umboðsaðila stofnunar, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 29. gr., vegna stofnana frá þriðja ríki.
     Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

103. gr.

Úrlausn kvartana hjá greiðsluþjónustuveitanda.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal hafa sérstaka málsmeðferð til að greiða úr kvörtunum notenda greiðsluþjónustu um réttindi og skyldur sem leiðir af IV.–VII. kafla. Skal málsmeðferðin vera skilvirk. Greiðsluþjónustuveitandi skal beita sömu málsmeðferð vegna kvartana notenda greiðsluþjónustunnar í öllum aðildarríkjum þar sem hann býður fram greiðsluþjónustu. Upplýsingar um málsmeðferð kvartana skulu vera aðgengilegar notendum greiðsluþjónustunnar á tungumáli viðkomandi aðildarríkis eða á öðru tungumáli ef greiðsluþjónustuveitandi og notandi semja um slíkt.
     Seðlabanki Íslands skal setja frekari reglur um málsmeðferð kvartana sem berast greiðsluþjónustuveitanda, svo sem um svarfrest sem má að jafnaði ekki vera lengri en 15 virkir dagar, tafir við afgreiðslu kvörtunar og upplýsingagjöf.

104. gr.

Úrskurðaraðili.
     Notendur greiðsluþjónustu geta skotið ágreiningi sínum gagnvart greiðsluþjónustuveitendum og tilnefndum fulltrúum þeirra, svo sem umboðsmönnum, um réttindi og skyldur, sem leiðir af IV.–VII. kafla, til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
     Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um að úrskurðaraðili sem leysir úr ágreiningi notanda greiðsluþjónustu við greiðsluþjónustuveitanda skuli hafa samvinnu við lögbundna og viðurkennda úrskurðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa með þeim samstarf um úrlausn deilumála yfir landamæri að því er varðar réttindi og skyldur sem leiðir af IV.–VII. kafla.

105. gr.

Upplýsingaskylda greiðsluþjónustuveitenda og Fjármálaeftirlitsins gagnvart neytendum.
     Fjármálaeftirlitið skal útbúa rafrænan bækling framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem upplýsingar um réttindi neytenda samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum og tengdri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu eru skýrar, auðskiljanlegar og aðgengilegar á vef Seðlabanka Íslands.
     Greiðsluþjónustuveitendur skulu sjá til þess að rafrænn bæklingur skv. 1. mgr. sé aðgengilegur á vef þeirra og í prentaðri útgáfu í útibúum þeirra, hjá umboðsaðilum og öðrum einingum sem þeir útvista starfsemi sinni til. Greiðsluþjónustuveitendur mega ekki innheimta gjald af viðskiptavinum sínum fyrir að veita upplýsingarnar.
     Upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. skulu vera aðgengilegar fötluðum einstaklingum.

106. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra:
  1. 3. mgr. 4. gr. um að breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. 4. gr. skuli tilkynna án tafar til Fjármálaeftirlitsins.
  2. 1. og 2. mgr. 5. gr. um virkan eignarhlut.
  3. 1. mgr. 6. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis.
  4. 7. gr. um stofnframlag.
  5. 8. og 9. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eiginfjárgrunns greiðslustofnunar.
  6. 10. gr. um varðveislu fjármuna.
  7. 11. gr. um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.
  8. 15. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
  9. 6. mgr. 16. gr. um aðra starfsemi.
  10. 1. og 3.–5. mgr. 17. gr. um veitingu greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila eða með stofnun útibús.
  11. 1.–3. mgr. og 5. mgr. 18. gr. um útvistun rekstrarþátta og greiðsluþjónustu.
  12. 19. gr. um góða viðskiptahætti og þagnarskyldu.
  13. 2. mgr. 20. gr. um skyldu til að tryggja að þriðji aðili, sem falið hefur verið að annast tiltekna rekstrarþætti, geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.
  14. 21. gr. um varðveislu gagna.
  15. 1. mgr. 23. gr. um starfsemi greiðslustofnana erlendis án stofnunar útibús eða umboðsaðila.
  16. 1. mgr. og 5.–7. mgr. 24. gr. um starfsemi greiðslustofnana erlendis með stofnun útibús.
  17. 1. mgr. og 5.–7. mgr. 25. gr. um veitingu þjónustu erlendis fyrir milligöngu umboðsaðila.
  18. 1. mgr. 26. gr. um starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins.
  19. 1. mgr. 29. gr. um stofnun útibús eða þjónustu veitta fyrir milligöngu umboðsaðila hérlendis af hálfu stofnunar utan Evrópska efnahagssvæðisins.
  20. 34. gr. um greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi.
  21. 36. gr. um þátttöku í greiðslukerfum.
  22. 37. gr. um aðgang að reikningum hjá lánastofnun.
  23. 1. mgr. 38. gr. um einkarétt til að veita greiðsluþjónustu hér á landi.
  24. 2. mgr. 38. gr. um skyldu til að senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar.
  25. 42. gr. um gjaldtöku.
  26. 45. gr. um gjaldmiðil og umreikning gjaldmiðils.
  27. 1. og 2. mgr. 46. gr. um upplýsingar um viðbótargjald eða afslátt.
  28. 1.–4. mgr. 48. gr. um upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
  29. 49. gr. um upplýsingar og skilmála um þjónustu í tengslum við stakar greiðslur.
  30. 50. gr. um upplýsingaskyldu greiðsluvirkjanda eftir að gefin hafa verið greiðslufyrirmæli.
  31. 51. gr. um upplýsingagjöf gagnvart greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla um staka greiðslu.
  32. 52. gr. um upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda greiðslu eftir framkvæmd stakrar greiðslu.
  33. 1.–3. mgr. 53. gr. um almenna upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamning verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
  34. 54. gr. um upplýsingar og skilmála um þjónustu í tengslum við greiðslur sem falla undir rammasamninga.
  35. 55. gr. um aðgengilegar upplýsingar og skilmála rammasamnings.
  36. 56. gr. um breytingar á skilmálum rammasamnings.
  37. 57. gr. um uppsögn rammasamnings.
  38. 58. gr. um upplýsingagjöf áður en kemur til framkvæmdar einstakra greiðslna sem falla undir rammasamning.
  39. 59. gr. um upplýsingagjöf fyrir greiðanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
  40. 60. gr. um upplýsingagjöf fyrir viðtakanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
  41. 62. gr. um gjaldtöku.
  42. 1., 3. og 4. mgr. 65. gr. um staðfestingu á aðgengileika fjármagns.
  43. 2. mgr. 66. gr. um rétt greiðanda til að nýta sér greiðsluvirkjun og reikningsupplýsingaþjónustu.
  44. 67. gr. um skyldur greiðsluvirkjanda vegna veitingar greiðsluþjónustu.
  45. 68. gr. um meðhöndlun upplýsinga og gagna sem greiðsluvirkjandi aflar.
  46. 69. gr. um skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu.
  47. 70. gr. um skyldur reikningsupplýsingaþjónustuveitanda.
  48. 71. gr. um meðhöndlun gagna sem reikningsupplýsingaþjónustuveitandi aflar.
  49. 72. gr. um skyldur greiðsluþjónustuveitanda sem veitir reikningsþjónustu vegna öruggra samskipta og afgreiðslu beiðna um gögn.
  50. 2.–4. mgr. 73. gr. um hvenær greiðsluþjónustuveitandi reikningsþjónustu getur synjað um upplýsingar um og aðgang að greiðslureikningi.
  51. 3.–4. mgr. 74. gr. um takmarkanir á notkun greiðslumiðils.
  52. 2. mgr. 81. gr. um skyldu til að afhenda fjármuni sem frystir hafa verið án ótilhlýðilegrar tafar.
  53. 1.–3. mgr. 85. gr. um synjun um framkvæmd greiðslufyrirmæla.
  54. 3.–4. mgr. 86. gr. um afturköllun greiðslufyrirmæla.
  55. 87. gr. um fjárhæð greiðslu.
  56. 88.–91. gr. um framkvæmdartíma greiðslu og gildisdag.
  57. 93. gr. um bótaábyrgð greiðsluþjónustuveitanda þegar framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð og greiðslufyrirmæli eru gefin milliliðalaust.
  58. 1. og 2. mgr. 99. gr. um eftirlitskerfi rekstrar- og öryggisáhættu.
  59. 1. og 2. mgr. 100. gr. um viðbrögð við alvarlegum rekstrar- eða öryggisfrávikum.
  60. 101. gr. um sterka sannvottun.

     Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 65 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
     Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal m.a. tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t.:
  1. alvarleika brots,
  2. hvað brotið hefur staðið yfir lengi,
  3. ábyrgðar hins brotlega,
  4. fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af heildarársveltu lögaðila eða árstekjum einstaklings,
  5. ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti,
  6. hvort brot hafi leitt til taps fyrir þriðja aðila,
  7. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
  8. samstarfsvilja hins brotlega,
  9. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða,
  10. ráðstafana sem hinn brotlegi grípur til til að koma í veg fyrir endurtekið brot.

     Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að ákvarða lögaðila eða einstaklingi stjórnvaldssekt sem nemur allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur af brotinu nemur eða tapi sem er forðað með broti.
     Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnsýsluviðurlögum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

107. gr.

Sátt.
     Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglna eða reglugerða, sem settar eru á grundvelli þeirra, eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra, er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggi við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
     Seðlabanki Íslands setur reglur um framkvæmd greinarinnar.

108. gr.

Réttur grunaðs manns og saknæmi.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

109. gr.

Frestur til að leggja á stjórnsýsluviðurlög.
     Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnsýsluviðurlög samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um rannsókn á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að brotinu.

110. gr.

Sektir eða fangelsi.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra:
  1. 1. mgr. 6. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis.
  2. 8. og 9. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eiginfjárgrunns greiðslustofnunar.
  3. 15. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
  4. 2. mgr. 19. gr. um þagnarskyldu.
  5. 1. mgr. 38. gr. um einkarétt til að veita greiðsluþjónustu.

     Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi greiðsluþjónustuveitanda eða annað er hann varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða notenda greiðsluþjónustu.
     Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
     Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
     Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

111. gr.

Kæra til lögreglu.
     Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
     Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum og ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
     Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
     Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.
     Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

112. gr.

Opinber birting stjórnsýsluviðurlaga.
     Fjármálaeftirlitið skal án tafar birta á vef sínum sérhverja niðurstöðu um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara í kjölfar tilkynningar til hins brotlega um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaða sem er birt skal að lágmarki innihalda upplýsingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega.
     Telji Fjármálaeftirlitið að opinber birting á nafni hins brotlega, annarra lögaðila eða einstaklinga sem koma fram í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins samræmist ekki meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða meginreglum laga um persónuvernd eða að birting geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn getur Fjármálaeftirlitið:
  1. frestað birtingu niðurstöðunnar þar til ástæður fyrir að birta hana ekki eru ekki lengur fyrir hendi, eða
  2. birt niðurstöðu án þess að nafngreina hinn brotlega eða aðra lögaðila eða einstaklinga sem getið er í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

     Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að birta ekki niðurstöðu ef eftirlitið telur að birting skv. 2. mgr. geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn.
     Í tilviki nafnlausrar birtingar niðurstöðu skv. b-lið 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta nafn viðkomandi þegar ástæður fyrir nafnleynd eiga ekki lengur við.
     Fjármálaeftirlitið skal birta upplýsingar á vef sínum ef höfðað er mál fyrir dómstólum til ógildingar ákvörðun þess um beitingu viðurlaga vegna brota. Fjármálaeftirlitið skal enn fremur birta upplýsingar um lyktir málsins á hverju dómstigi. Afturkalli Fjármálaeftirlitið ákvörðun sína um beitingu viðurlaga skal stofnunin upplýsa um það á vef sínum.
     Niðurstöður um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara skulu birtar á vef Fjármálaeftirlitsins í að lágmarki fimm ár.
     Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar samkvæmt þessari grein.

VIII. KAFLI
Gildistaka, stjórnvaldsfyrirmæli, breyting á öðrum lögum o.fl.

113. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 frá 25. nóvember 2015 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 2002/65/EB, 2009/110/EB og 2013/36/ESB og á reglugerð (ESB) nr. 1093/2010 og niðurfellingu á tilskipun 2007/64/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.

114. gr.

Reglugerðar- og regluheimildir.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366, þar á meðal um:
  1. Tæknilegar kröfur um þróun, rekstur og viðhald á rafrænu miðlægu skránni, sbr. 14. gr., og um aðgengi að upplýsingum sem er að finna í henni. Tæknilegu kröfurnar skulu tryggja að aðeins Fjármálaeftirlitið og Evrópska bankaeftirlitsstofnunin geti breytt upplýsingunum.
  2. Upplýsingaskipti og samvinnu milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í heima- og gistiaðildarríki vegna greiðslustofnana sem starfa yfir landamæri.

     Seðlabanki Íslands skal setja nánari reglur um sterka sannvottun, sbr. 97. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366.
     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur er snúa að tilnefningu miðlægs tengiliðar og hlutverki hans skv. 5. mgr. 29. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366.

115. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2021. Jafnframt falla úr gildi lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

116. gr.

Lagaskil.
     Greiðslustofnun sem hefur hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, skal fyrir 1. janúar 2022 leggja viðeigandi upplýsingar fyrir Fjármálaeftirlitið svo að það geti metið hvort greiðslustofnunin uppfylli þær kröfur sem mælt er fyrir um í II. og III. kafla. Ef þau skilyrði eru ekki uppfyllt ber Fjármálaeftirlitinu að greina greiðslustofnuninni frá því hvort það ætli að afturkalla starfsleyfið eða til hvaða ráðstafana greiðslustofnunin verði að grípa til að tryggja að hún fari að ákvæðum þessara laga.
     Fjármálaeftirlitið skal veita greiðslustofnun sem uppfyllir kröfur II. og III. kafla sjálfkrafa starfsleyfi og færa hana í skrá yfir greiðslustofnanir skv. 14. gr.
     Ef greiðslustofnun uppfyllir ekki kröfur II. og III. kafla fyrir 1. apríl 2022, eftir að hafa verið veittur tími til að grípa til viðeigandi ráðstafana skv. 1. mgr., skal Fjármálaeftirlitið banna henni að veita greiðsluþjónustu í samræmi við 1. mgr. 38. gr.
     Greiðslustofnun með takmarkað starfsleyfi skv. 27. gr. laga um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, skal eigi síðar en 1. maí 2022 hafa sótt um áframhaldandi takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi sem greiðslustofnun hjá Fjármálaeftirlitinu. Ef greiðslustofnunin uppfyllir ekki kröfur II. og III. kafla eða undanþágu skv. 34. gr. fyrir 1. maí 2022 skal Fjármálaeftirlitið banna henni að veita greiðsluþjónustu.
     Þjónustuveitandi sem hefur fyrir gildistöku laga þessara boðið þjónustu sem lýst er í 14. tölul. 2. gr. og mun gera það áfram skal eigi síðar en 1. febrúar 2022 senda Fjármálaeftirlitinu þær upplýsingar sem áskilið er í a- og b-lið 1. mgr. 39. gr.
     Rafeyrisfyrirtæki sem hefur hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um útgáfu og meðferð rafeyris skal fyrir 1. janúar 2022 senda viðeigandi upplýsingar til Fjármálaeftirlitsins svo að það geti metið hvort rafeyrisfyrirtækið uppfylli þær kröfur sem mælt er fyrir um í III. kafla þeirra laga. Ef þau skilyrði eru ekki uppfyllt ber Fjármálaeftirlitinu að greina rafeyrisfyrirtækinu frá því hvort það ætli að afturkalla starfsleyfið eða til hvaða ráðstafana rafeyrisfyrirtækið verði að grípa til að tryggja að það fari að ákvæðum þeirra laga.
     Fjármálaeftirlitið skal veita rafeyrisfyrirtæki sem uppfyllir kröfur III. kafla laga um útgáfu og meðferð rafeyris sjálfkrafa starfsleyfi og færa það í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki.
     Ef rafeyrisfyrirtæki uppfyllir ekki kröfur III. kafla laga um útgáfu og meðferð rafeyris fyrir 1. apríl 2022, eftir að hafa verið veittur tími til að grípa til viðeigandi ráðstafana, skal Fjármálaeftirlitið banna því að veita þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris.

117. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Lög um útgáfu og meðferð rafeyris, nr. 17/2013:
    1. Laganúmerið „nr. 120/2011“ í 2. og 7. tölul. 4. gr. laganna fellur brott.
    2. 9. gr. laganna orðast svo:
    3.      Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. eða 16. gr. skal vera lögaðili, hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi og framkvæma a.m.k. hluta af rafeyrisþjónustu sinni hérlendis.
    4. Í stað „12. gr.“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: 9. gr.
    5. 17. gr. laganna orðast svo:
    6.      Fjármálaeftirlitið heldur opinbera skrá yfir rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um rafeyrisfyrirtæki, svo sem um starfsheimildir, afturköllun starfsheimilda og, ef við á, um umboðsaðila og útibú. Færa skal útibú erlends rafeyrisfyrirtækis hér á landi í skrá aðildarríkis. Auk þess skal tilgreina þá einstaklinga og lögaðila sem njóta undanþágu skv. 16. gr. og, ef við á, umboðsaðila þeirra.
           Almenningur skal hafa aðgang að skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 1. mgr. á vef Seðlabanka Íslands og skal hún uppfærð þegar í stað ef breytingar verða.
           Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni um þær upplýsingar sem það færir í skrána yfir rafeyrisfyrirtæki. Fjármálaeftirlitið er ábyrgt gagnvart Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni fyrir því að upplýsingar í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki séu réttar.
    7. 18. gr. laganna orðast svo:
    8.      Umsókn um starfsleyfi skal berast Fjármálaeftirlitinu. Hún skal vera skrifleg og ítarleg til að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að ganga úr skugga um að skilyrði 9., 11., 12., 20., 23., 24., 26. og 38.–40. gr. séu uppfyllt. Eftirfarandi skal koma fram í umsókn:
      1. Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi sé lögaðili og að höfuðstöðvar og a.m.k. hluti af starfsemi rafeyrisfyrirtækis fari fram hér á landi, sbr. 9. gr.
      2. Lýsing á núverandi og fyrirhugaðri þjónustu umsækjanda vegna rafeyris og hvort umsækjandi ætli að vera í annarri starfsemi, sbr. 24. gr.
      3. Viðskipta- og rekstraráætlun fyrir a.m.k. þrjú fyrstu rekstrarárin, sem sýnir fram á að umsækjandinn geti staðið fyrir ábyrgum rekstri, ásamt síðasta endurskoðaða ársreikningi, ef honum er til að dreifa.
      4. Upplýsingar um starfsskipulag umsækjanda, þ.m.t. hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu, opna útibú eða nota umboðsmenn í starfsemi félagsins, sbr. 36. og 37. gr., hvort um útvistun sé að ræða, sbr. 38. gr., eða hvort um verði að ræða þátttöku í innlendu eða alþjóðlegu greiðslukerfi.
      5. Upplýsingar um hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila, sbr. 29.–35. gr.
      6. Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi hafi yfir að ráða því stofnfé sem krafist er skv. 11. gr.
      7. Upplýsingar sem gera unnt að meta hvort stjórnarmenn og stjórnendur uppfylli kröfur um hæfi skv. 26. gr.
      8. Upplýsingar um þá einstaklinga sem eiga hlutdeild í umsækjanda, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild í umsækjanda í skilningi VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, stærð eignarhlutdeildar þeirra og gögn um hæfni þeirra með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórn rafeyrisfyrirtækis.
      9. Upplýsingar um hvernig varðveislu fjármuna verði háttað í samræmi við 25. gr.
      10. Lýsing á verkferli sem fylgja skal til að hafa eftirlit með, meðhöndla og fylgja eftir rekstrar- eða öryggisfrávikum og kvörtunum viðskiptavina að því er varðar öryggisatriði.
      11. Lýsing á stjórnunarfyrirkomulagi og innra skipulagi umsækjanda, þ.m.t. innri eftirlitsferlum, aðferðum við stjórnun, áhættustýringu og reikningsskilum, sem sýnir að stjórnarhættir, eftirlitskerfi og verkferlar séu viðeigandi miðað við umfang starfseminnar og traustir og fullnægjandi.
      12. Lýsing á eftirlitskerfi sem verður komið á fót til að fara að kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að því er varðar umsækjanda sem fellur undir lögin.
      13. Lýsing á hvernig skilyrði 40. gr. um varðveislu gagna verði uppfyllt.
      14. Lýsing á fyrirkomulagi rekstrarsamfellu þar sem mikilvæg starfsemi er skýrt tilgreind, skilvirkri viðbragðsáætlun og ferli til að kanna reglulega og endurskoða hversu fullnægjandi og skilvirkar áætlanirnar eru.
      15. Lýsing á meginreglum og skilgreiningum sem beitt er við söfnun á tölfræðilegum gögnum um árangur, færslur og svik.
      16. Öryggisstefna og lýsing á öryggiskerfi umsækjanda sem skal fela í sér ítarlegt áhættumat í tengslum við þjónustu vegna útgáfu eða meðferðar rafeyris, lýsingu á eftirlitsaðgerðum sem gripið er til í því skyni að vernda handhafa rafeyris með fullnægjandi hætti fyrir tilgreindri áhættu, svo sem svikum og ólöglegri notkun viðkvæmra gagna og persónuupplýsinga. Sérstaklega skal tilgreina hvernig eftirlitsaðgerðir tryggja öflugt tæknilegt öryggi og persónuvernd, þ.m.t. fyrir hugbúnaðar- og upplýsingatæknikerfi sem umsækjandinn eða útvistunaraðili, sem starfseminni er að öllu leyti eða hluta útvistað til, notar.
      17. Upplýsingar um löggilta endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki, sbr. 27. gr.
      18. Önnur atriði sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að komi fram í umsókn samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands.

           Upplýsingar sem getið er um í 5. og 11.–13. tölul. 1. mgr. skulu jafnframt fela í sér lýsingu á því fyrirkomulagi sem umsækjandinn hefur innleitt til að gera allar þær ráðstafanir sem raunhæfar teljast til að vernda hagsmuni handhafa rafeyris og tryggja samfellu og áreiðanleika við framkvæmd þjónustunnar.
           Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 20. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.
    9. 20. gr. laganna orðast svo:
    10.      Starfsleyfi skal veitt ef umsækjandi uppfyllir að mati Fjármálaeftirlitsins, í umsókn sinni og meðfylgjandi gögnum, skilyrði 18. gr. og sýnir fram á að skipulag í fyrirhuguðum rekstri vegna útgáfu og meðferðar rafeyris sé skýrt, fullnægjandi verklagsreglur séu fyrir hendi er þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um efni 1. málsl. Um efni reglnanna skal hafa til hliðsjónar ákvæði 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á.
           Þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar þjónustu sem fyrirhugað er að veita og verður umsækjandi að uppfylla þær á hverjum tíma með því að aðlaga skipulag, verklagsreglur og annað skv. 1. mgr. í samræmi við umfang rekstrar.
           Við mat á umsókn um starfsleyfi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar annarra viðeigandi opinberra stjórnvalda.
           Fjármálaeftirlitið getur gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris ef rafeyrisfyrirtæki sinnir annarri starfsemi samhliða og sá hluti rekstrarins hefur áhrif á fjárhagslegan styrk rafeyrisfyrirtækisins eða torveldar eftirlit með því.
           Fjármálaeftirlitið skal synja um veitingu starfsleyfis ef það telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar rafeyrisfyrirtækis.
           Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl rafeyrisfyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit Fjármálaeftirlitsins með starfseminni. Hið sama á við ef lög eða reglur sem gilda um slíka tengda aðila hindra eftirlit. Með nánum tengslum er í lögum þessum átt við náin tengsl í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Enn fremur skal starfsleyfi ekki veitt ef lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja ríkis, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, sem rafeyrisfyrirtækið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.
    11. 21. gr. laganna orðast svo:
    12.      Fullnægi umsókn um starfsleyfi skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins veitir það starfsleyfi. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið synja um starfsleyfi með rökstuðningi. Starfsleyfið gildir í öllum aðildarríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerir hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki kleift að veita þjónustu sem fellur undir starfsleyfið alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu að fullnægðum skilyrðum 29.–31. gr.
           Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn barst.
    13. Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
      1. Við c-lið 1. mgr. bætist: eða upplýsir Fjármálaeftirlitið ekki um umfangsmikla þróun starfseminnar.
      2. Við d-lið 1. mgr. bætist: eða trausti á því.
      3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      4.      Fjármálaeftirlitið skal uppfæra skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. og birta þar opinberlega afturköllun á starfsleyfi.
    14. Eftirfarandi breytingar verða á b-lið 1. mgr. 24. gr. laganna:
      1. Í stað „4., 5. og 7. tölul. 4. gr.“ kemur: d- og e-lið 22. tölul. 3. gr. og 14. tölul. 2. gr.
      2. Í stað „5. mgr. 19. gr.“ kemur: 4. mgr. 16. gr.
    15. Í stað „29. tölul. 8. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr. 25. gr. laganna kemur: 49. tölul. 3. gr.
    16. 27. gr. laganna orðast svo:
    17.      Reikningsár rafeyrisfyrirtækis er almanaksárið. Rafeyrisfyrirtæki skal leggja fram aðskilin reikningsskil fyrir annars vegar þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris og hins vegar fyrir aðra starfsemi sem hún hefur heimild til að stunda skv. 1. mgr. 24. gr.
           Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, eða eftir atvikum laga um ársreikninga, gilda að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda rafeyrisfyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins.
           Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um ársreikninga rafeyrisfyrirtækja.
    18. 28. gr. laganna orðast svo:
    19.      Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta vegna útgáfu og meðferðar rafeyris, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
           Fjármálaeftirlitið hefur m.a. heimild til að:
      1. krefjast þess að rafeyrisfyrirtæki leggi fram allar upplýsingar sem þörf er á til að unnt sé að hafa eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt; skal Fjármálaeftirlitið tilgreina tilganginn að baki beiðninni og gefa tiltekinn skilafrest,
      2. framkvæma skoðun á starfsstöð rafeyrisfyrirtækis, umboðsaðila eða útibúi þar sem veitt er þjónusta sem rafeyrisfyrirtæki ber ábyrgð á eða þar sem útvistunaraðili er til húsa,
      3. gefa út fyrirmæli, leiðbeiningar og bindandi stjórnsýslufyrirmæli,
      4. stöðva tímabundið eða afturkalla starfsleyfi skv. 20. gr.,
      5. beita heimildum sem því eru fengnar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

           Fjármálaeftirlitið skal fyrst og fremst grípa til ráðstafana sem lýst er í 2. mgr. til að tryggja nægilegt eigið fé rafeyrisfyrirtækis til þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris, einkum ef sú starfsemi rafeyrisfyrirtækis sem ekki er útgáfa eða meðferð rafeyris rýrir eða er líkleg til að rýra trausta fjárhagsstöðu þess.
    20. Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
      1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin.
      2. Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggist útvista rekstrarþætti þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris til þriðja aðila í því aðildarríki sem í hlut á.
      3. 2. mgr. orðast svo:
      4.      Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlits er jákvæð skal samhliða færa upplýsingarnar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr.
      5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Starfsemi rafeyrisfyrirtækja erlendis án stofnunar útibús.
    21. 30. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    22. Starfsemi rafeyrisfyrirtækja erlendis með stofnun útibús.
           Hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki með stofnun útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða aðildarríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin, heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins, í hvaða ríkjum útibúið hyggst veita þjónustu og skipulag þess, þ.m.t. lýsing á innra eftirlitskerfi, verkferlum, áhættustýringu, reikningsskilum og viðskiptaáætlun fyrir fyrstu þrjú fjárhagsárin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggist útvista rekstrarþætti þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins.
           Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingarnar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Útibúið getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
           Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst stofna útibú um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um útibúið í skrá skv. 17. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
           Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
           Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem það hefur starfsemi sína fyrir milligöngu útibúsins.
           Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarútibú eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð sem fram kemur í 3. og 4. mgr.
           Rafeyrisfyrirtæki skal sjá til þess að útibú sem veitir þjónustu fyrir þess hönd upplýsi notendur um það.
    23. 31. gr. laganna orðast svo:
    24.      Rafeyrisfyrirtæki sem óskar eftir því að dreifa rafeyri í öðru aðildarríki, fyrir milligöngu umboðsaðila, skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi er fólgin. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans, sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir uppfylli hæfiskröfur 3. mgr. 14. gr. ef umboðsaðilinn er ekki rafeyrisfyrirtæki, upplýsingar um þjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa. Að endingu skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggst útvista rekstrarþætti þjónustunnar til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis ásamt beiðni um umsögn.
           Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingar um rafeyrisfyrirtækið í skrá skv. 17. gr. Umboðsaðilinn getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
           Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst dreifa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að tilnefning umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um umboðsaðilann í skrá skv. 17. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
           Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu í mati sínu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
           Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem það hefur starfsemi sína fyrir milligöngu umboðsaðila.
           Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarumboðsaðila eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð sem fram kemur í 3. og 4. mgr.
           Rafeyrisfyrirtæki ber ábyrgð á því að umboðsaðili upplýsi notendur þjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis.
           Rafeyrisfyrirtæki sem dreifir rafeyri á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilnefna miðlægan tengilið til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur m.a. samband við miðlægan tengilið til að fá upplýsingar og skýrslu til að sinna eftirliti samkvæmt þessum lögum.
    25. 33. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    26. Þjónusta rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis án stofnunar útibús.
           Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús.
           Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu hér á landi eftir að tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 29. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan mánaðar.
    27. 34. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    28. Þjónusta rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis með stofnun útibús.
           Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi með stofnun útibús.
           Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skv. 1. mgr. er heimilt að veita þjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 30. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan mánaðar.
           Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibús geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis um það. Ákveði lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi af slíkri tilkynningu er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita þjónustu hér á landi frá þeim tíma.
           Ef lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki taka ekki tillit til athugasemda Fjármálaeftirlitsins og veita rafeyrisfyrirtæki heimild til að stofna útibú eða veita þjónustu á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila getur Fjármálaeftirlitið borið þá ákvörðun undir Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
           Útibú sem veitir þjónustu fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis skal upplýsa notendur þjónustu um það.
           Ákvæði laga um hlutafélög varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.
    29. 35. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    30. Opnun útibús eða dreifing rafeyris fyrir milligöngu umboðsaðila af hálfu rafeyrisfyrirtækis utan Evrópska efnahagssvæðisins.
           Fjármálaeftirlitið getur heimilað fyrirtæki, sem gefur út rafeyri, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu innlends umboðsaðila hér á landi. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda hliðstæða starfsemi í heimaríki sínu, að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu og að gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í því ríki. Til að útibú geti hafið starfsemi hér á landi skal heimaríki fyrirtækisins undirrita samning við íslensk stjórnvöld, sem fer að öllu leyti að stöðlum skv. 26. gr. skattasamningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar um tekjur og fjármagn og tryggir skilvirk upplýsingaskipti um skattamál, þ.m.t. hvers konar marghliða samninga um skattamál, ef við á.
           Fjármálaeftirlitið skal innan sex mánaða frá því að fyrirtæki lagði fram fullnægjandi umsókn tilkynna ákvörðun sína um veitingu eða synjun umsóknar um að starfrækja útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila hér á landi.
    31. Á eftir 35. gr. koma tvær nýjar greinar, 35. gr. a og 35. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
    32.      a. (35. gr. a.)
      Eftirlit gistiaðildarríkis með rafeyrisfyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu yfir landamæri með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
           Fjármálaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki um framkvæmd eftirlits með lögum þessum vegna starfsemi umboðsaðila og útibúa rafeyrisfyrirtækis sem eru staðsett í gistiaðildarríki. Skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þegar það hyggst framkvæma skoðun á starfsstöð umboðsaðila eða útibúi í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fela lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki framkvæmd skoðunar á starfsstöð umboðsaðila eða í útibúi sem staðsett er í því ríki.
           Komist lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki að raun um að rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu, sem hefur umboðsaðila eða útibú á yfirráðasvæði þeirra, fari ekki að reglum tekur Fjármálaeftirlitið á móti upplýsingum um það. Fjármálaeftirlitið skal, eftir að hafa lagt mat á upplýsingarnar sem það fær samkvæmt þessari grein, án ótilhlýðilegrar tafar, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki fari að settum reglum. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt tilkynna lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu og lögbærum yfirvöldum í öðrum hlutaðeigandi gistiaðildarríkjum tafarlaust um þessar ráðstafanir.
           Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki eða að eigin frumkvæði veita þeim viðeigandi upplýsingar, einkum þegar um er að ræða brot eða grun um brot umboðsaðila eða útibús og hvort rafeyrisfyrirtæki uppfylli skilyrði 9. gr.
           b. (35. gr. b.)
      Eftirlit með rafeyrisfyrirtækjum með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu hérlendis með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
           Ef Fjármálaeftirlitið kemst að raun um að rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú hérlendis fer ekki að ákvæðum III. kafla skal það upplýsa lögbært yfirvald í heimaaðildarríki um það án tafar.
           Fjármálaeftirlitið getur gripið til tafarlausra aðgerða reynist það nauðsynlegt í ljósi neyðarástands vegna alvarlegrar ógnar við sameiginlega hagsmuni handhafa rafeyris hérlendis eða gert varúðarráðstafanir samhliða samstarfi við lögbær yfirvöld í aðildarríki rafeyrisfyrirtækis og fram að ráðstöfunum þeirra yfirvalda. Hér skiptir ekki máli hvort neyðarástandið skapast vegna útibús hérlendis, umboðsaðila hérlendis eða vegna þjónustu rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi frá Evrópska efnahagssvæðinu. Varúðarráðstafanirnar skulu vera viðeigandi og í réttu hlutfalli við þann tilgang þeirra að verjast alvarlegri ógn við sameiginlega hagsmuni handhafa rafeyris hérlendis. Þær mega ekki leiða til þess að handhafar rafeyris hér á landi fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú erlends rafeyrisfyrirtækis njóti betri meðferðar en handhafar rafeyris í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess skulu varúðarráðstafanirnar vera tímabundnar og þeim hætt þegar tekið hefur verið á þeirri alvarlegu ógn sem greind er, þ.m.t. með hjálp eða í samvinnu við lögbær yfirvöld í aðildarríki rafeyrisfyrirtækis sem í hlut á eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010.
           Fjármálaeftirlitið skal, ef við á, upplýsa lögbær yfirvöld í aðildarríkjum sem í hlut eiga, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina fyrir fram og án ástæðulausrar tafar um varúðarráðstafanirnar sem gripið er til skv. 2. mgr. og rökstyðja þær.
           Telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rafeyrisfyrirtækis sýni athafnaleysi með því að grípa ekki til þeirra ráðstafana sem það hafi viðurkennt að nauðsynlegt sé að grípa til, hafni samstarfi og/eða láti undir höfuð leggjast að bregðast við neyðarástandi eða viðurkenni ekki að fyrir hendi sé neyðarástand getur Fjármálaeftirlitið leitað aðstoðar Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar vegna þeirrar afstöðu og leitað lausnar þess ágreinings. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
    33. 36. gr. laganna orðast svo:
    34.      Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst dreifa eða innleysa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir séu hæfir að mati Fjármálaeftirlitsins ef umboðsaðilinn er ekki rafeyrisfyrirtæki, upplýsingar um þá þjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni hans, sé því til að dreifa.
           Fjármálaeftirlitið skráir rafeyrisfyrirtæki í skrá skv. 17. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr., innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna og sendir samhliða rafeyrisfyrirtæki upplýsingar um það. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki ef það er mat þess að ósannað teljist að upplýsingar skv. 1. mgr. séu réttar. Hið sama á við meti Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar rangar eða ófullnægjandi. Synji Fjármálaeftirlitið um skráningu skal rafeyrisfyrirtækið upplýst um það án tafar og er því óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila til að dreifa og innleysa rafeyri frá þeim tíma.
           Rafeyrisfyrirtæki er heimilt að dreifa rafeyri og innleysa hann fyrir milligöngu umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd þess eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 17. gr. Útgáfa rafeyris fyrir milligöngu umboðsaðila er óheimil.
           Rafeyrisfyrirtæki skal sjá til þess að umboðsaðilar sem dreifa eða innleysa rafeyri fyrir þess hönd upplýsi handhafa rafeyris um það.
           Rafeyrisfyrirtæki skal án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á umboðsmönnum, þ.m.t. viðbótarumboðsmönnum, og skal við það fylgt málsmeðferð skv. 2.–4. mgr.
           Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því dreifa rafeyri í öðru aðildarríki fyrir milligöngu umboðsaðila fer um slíkt skv. 31. gr.
    35. Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:
      1. Í stað „23. gr. g“ í 1. mgr. kemur: 17. gr.
      2. Í stað „23. gr. b“ í 2. mgr. kemur: 25. gr.
    36. 38. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    37. Útvistun rekstrarþátta.
           Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst útvista rekstrarþætti í starfsemi sinni skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um það.
           Útvistun mikilvægra rekstrarþátta, þ.m.t. útvistun upplýsingakerfa, er óheimil ef hún dregur umtalsvert úr gæðum innra eftirlits rafeyrisfyrirtækis og torveldar eftirlit með framkvæmd laga þessara. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu rafeyrisfyrirtækis til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi þess eða skyldur samkvæmt lögunum, fjárhagslega afkomu rafeyrisfyrirtækis eða traustleika eða samfelldni þjónustunnar sem um ræðir.
           Þegar rafeyrisfyrirtæki útvistar mikilvægum rekstrarþætti verður það að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
      1. Útvistunin má ekki leiða til þess að ábyrgð stjórnenda verði framseld til útvistunaraðila.
      2. Skyldur og samband rafeyrisfyrirtækis gagnvart handhöfum rafeyris samkvæmt lögum þessum breytist ekki.
      3. Rafeyrisfyrirtæki uppfyllir eftir sem áður skilyrðin sem eru forsendan fyrir starfsleyfi þess.
      4. Hvorki skal breyta né fella brott einhver þeirra skilyrða sem liggja til grundvallar starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis.

           Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um útvistun mikilvægra rekstrarþátta rafeyrisfyrirtækis.
    38. Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
      1. 2. mgr. orðast svo:
      2.      Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta þjónustunnar, sbr. 28.–32. gr. og 38. gr., nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
      3. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
      4.      Fjármálaeftirlitið sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hefur eftirlit með umboðsaðilum og útibúum erlendra rafeyrisfyrirtækja hér á landi, sbr. 28. og 34. gr. Auk þess hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með veitingu þjónustu í útibúum hérlendis og fyrir milligöngu innlends umboðsaðila fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 35. gr., vegna stofnana frá þriðju ríki.
    39. 42. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
    40. Úrskurðaraðili.
           Handhafar rafeyris geta skotið ágreiningi sínum gagnvart útgefanda rafeyris er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.
    41. Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 43. gr. laganna:
      1. 17. tölul. 1. mgr. orðast svo: 1. mgr. 29. gr., 1. og 5.–7. mgr. 30. gr., 1. og 5.–8. mgr. 31. gr. og 5. mgr. 34. gr. um veitingu þjónustu yfir landamæri.
      2. 18. tölul. 1. mgr. orðast svo: 1. og 3.–4. mgr. 36. gr. og 37. gr. um veitingu þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.
      3. 19. tölul. 1. mgr. orðast svo: 1.–3. mgr. 38. gr. um útvistun rekstrarþátta.
  2. Lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017: Við 1. tölul. 3. gr. laganna bætist: með þeim breytingum sem leiðir af 112. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 frá 25. nóvember 2015 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 2002/65/EB, 2009/110/EB og 2013/36/ESB og á reglugerð (ESB) nr. 1093/2010 og niðurfellingu á tilskipun 2007/64/EB, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 87 frá 17. desember 2020, bls. 180–272, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2019 frá 14. júní 2019.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Reglur sem Seðlabanki Íslands skal setja skv. 2. mgr. 114. gr. skal birta á vef bankans fyrir 1. nóvember 2021 og eigi síðar senda í lögformlega birtingu. Á sama tíma skal prófunarumhverfi netskilaflata greiðsluþjónustuveitenda sem veita reikningsþjónustu vera tilbúið.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2021.